05.12.1959
Neðri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. gerði söluskattinn mjög að umtalsefni og minnti þar á söluskattinn af Sogsvirkjuninni, sem við þekkjum báðir mjög vel til.

Ég vil taka það fyrst fram, að ég minntist einmitt á það fyrr í þessum umræðum, við 2. umr. um þetta mál, að ég teldi, að söluskatturinn væri gallaður á marga lund og að hann yrði nú frá grunni endurskoðaður og yrði að sjálfsögðu unnið að því í þinghléinu. Ég nefndi þar dæmi, eins og raunar fleiri gerðu í þeim umr., að söluskatturinn þyrfti vissulega endurskoðunar við. En ef söluskatturinn er svona óskaplega ranglátur — og ekki aðeins ranglátur, heldur vitlaus, ein hringavitleysa, eins og hv. þm. orðaði það, þá kemur mér eitt dálítið undarlega fyrir sjónir. Mig minnir nefnilega, að hér hafi verið ríkisstj. að völdum í tæp þrjú ár, svokölluð vinstri stjórn, og þar hafi stærsti stjórnarflokkurinn verið flokkur, sem þessi hv. þm. er formaður fyrir, og að mesta bjargráð í tíð þeirrar stjórnar hafi verið gert vorið 1958 og þá hafi eitt atriði í þessum bjargráðum ekki verið það að lækka, hvað þá afnema söluskattinn, heldur stórhækka hann. Þess vegna get ég ekki varizt þeirri hugsun, að eitthvað sé einkennilegt við hugsanagang þessa hv. þm., þegar hann annars vegar lýsir söluskattinum sem tómri hringavitleysu, en hins vegar á sinn þátt í því sem formaður stærsta stjórnarflokksins á sínum tíma að stórhækka söluskattinn.

Að öðru leyti skal ég segja hv. þm. það, að vitanlega verður ekkert bundið eða ákveðið um aðgerðir í efnahagsmálum, þegar þingið kemur aftur saman.

Það, sem hér er um að ræða, er eingöngu það, að ríkisstj. mun í samráði við ráðunauta sína undirbúa málin. Vitanlega er það svo undir ákvörðun Alþingis komið, hvað gert verður. Ég skal líka taka það fram, að ég er á gagnstæðri skoðun við hann um það, að hagfræðingar hafi alltaf rangt fyrir sér. Það er meginskoðun hv. 3. þm. Reykv. Ég er á hinn bóginn á þeirri skoðun, að það sé sjálfsagt fyrir okkur að nota sérþekkinguna, hvort sem það eru hagfræðingar, verkfræðingar eða aðrir, sem í hlut eiga, að nota sér sérfræðina og sérþekkinguna út í yztu æsar. Þar með er auðvitað ekki sagt, að við alþm. eigum að samþykkja allt saman óathugað og ómelt, sem frá sérfræðingunum kemur. Vitanlega verðum við, og það á að vera að sjálfsögðu okkar regla, að þegar leitað hefur verið álits sérfræðinga og ráðunauta, þá taka alþm. þessi mál til athugunar og verða auðvitað að beita sinni almennu dómgreind, eftir því sem hún er hverjum einum af guði gefin, til þess að endurskoða þessar tillögur.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að því fer fjarri, að slegið hafi verið föstum nokkrum ákveðnum, endanlegum leiðum í efnahagsmálunum. Þessi mál eru, eins og hefur verið margtekið fram, öll í rannsókn og undirbúningi, og það er Alþingis sjálfs og þess eins að lokum að taka endanlegar ákvarðanir í þeim.