07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í tilefni af útvarps- og blaðafregnum spyrst hv. þm. fyrir um það, hvort í ráði sé að fækka varnarliði Bandaríkjanna á Íslandi á næstunni. Út af þessari fsp. vil ég skýra frá því, að fyrir örfáum dögum fóru fram viðræður á milli ríkisstj. Íslands og sendiherra Bandaríkjanna um skipun varnarliðsins á Íslandi. Var ekki um það rætt að draga úr vörnum landsins á nokkurn hátt né fækka í varnarliðinu á Íslandi eða breyta tölu þess, var hins vegar eingöngu um það talað, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera nokkrar skipulagsbreytingar á varnarliðinu sjálfu og samsetningu þess. Þetta mál er að sjálfsögðu á algeru frum- og byrjunarstigi, og hefur ríkisstj. Íslands hvorki unnizt tími né tóm til að athuga þetta mál og ræða sem skyldi. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu athuga málið gaumgæfilega, og þegar sú athugun hefur farið fram, mun hún taka sínar ákvarðanir. En um fækkun eða brottför varnarliðsins er ekki að ræða, heldur eingöngu um skipulagsbreytingu á samsetningu þess.