07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans greinagóðu svör, sem hins vegar ollu mér vonbrigðum hvað innihaldið snertir. Það var rétt eins og, þegar maður heyrði þessa fregn, að Bandaríkjastjórn ætlaði nú að verða fyrri til að átta sig á umhverfinu en hæstv. íslenzk ríkisstj., og það var mjög slæmt, að hæstv. ríkisstj. Íslands skyldi ekki verða á undan með að kveða upp úr með það, að hér þyrfti að fækka og það stæði ekki í sambandi við neinar skipulagslegar breytingar. Ég held þess vegna, að það sé mjög slæmt, að ríkisstj. skuli ekki hafa unnizt neinn tími né tóm til þess að athuga þessi mál. Ég hélt, að þessi mál væru búin að vera svo lengi á döfinni og samþykkt Alþingis í þeim væri svo ákveðin, að það hefði verið hægt fyrir hvaða ríkisstj. sem væri, ekki sízt með þeirri þróun, sem nú á sér stað í heiminum, að taka sínar ákvarðanir um að reyna að vinna að því að fá herliðinu hér á Íslandi fækkað. En einmitt út af því, sem hæstv. utanrrh. upplýsti, að hér væri um skipulagsbreytingu að ræða, þá held ég, að það væri ákaflega æskilegt, að það yrðu gefnar betri upplýsingar um það mál, þótt síðar yrði, vegna þess að það, sem mönnum dettur fyrst og fremst í hug í sambandi við, þegar minnzt er á skipulagsbreytingar út af hermálum, það er, að farið sé að útbúa ákveðið herlið með hættulegri vopnum. Það vita allir, sem fylgjast með þróun hermála nú á tímum, að það er meira og meira að verða sá vopnaútbúnaður, sem herirnir hafa, sem ræður þar úrslitum, en ekki hitt, hver er fjöldi þeirra.

Ég vil þess vegna láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að það skuli ekki hafa fólgizt í þessu, að þessi fækkun, sem þarna var auglýst, væri skref í þá átt að leggja þessar svokölluðu varnir hér á Íslandi niður, sem engar varnir eru og aldrei geta orðið til annars en að draga Ísland inn í styrjöld, ef til slíkrar ógæfu skyldi koma.

Að öðru leyti ætla ég nú ekki að gera þessi mál að umtalsefni hér, því að þau eru veigameiri en svo, að maður fari að ræða þau hér utan dagskrár.