11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. telur, að það sé ekkert við það að athuga, sem nú er upplýst, að áróðursrit er gefið út af hálfu ríkisstj. og á ríkisins kostnað og þessum ritum dreift út á kostnað ríkisins. Fyrir þessu séu fordæmi og við þetta sé ekkert að athuga.

Ég held, að fordæmi fyrir því að gefa út slíkt áróðursrit og senda það út á ríkisins kostnað, séu ekki til staðar, og ég vildi þá gjarnan fá að heyra það. Það er kannske eitt gamalt mál, sem helzt nálgaðist þetta, þar sem þó voru aðeins birtar staðreyndir. En svokallaðar hvítar bækur, bækur, sem ríkisstj. gefur út á kostnað ríkisins og dreifir út á kostnað ríkisins, eiga að vera skýrslur, sem ekki eru umdeildar, heldur sameiginlegt mál þjóðarinnar.

Ef þessi skýrsla, sem hér er birt, ætti að vera eitthvað svipuð þeirri bók, sem gefin var út um landhelgismálið, þurftu hér að vera á ferðinni í þessari bók sameiginlegar skoðanir þjóðarinnar á málunum. Það er enginn ágreiningur um landhelgismálið og enginn ágreiningur um þann málstað, sem þar var túlkaður. Þar er enginn ágreiningur milli flokka og þess vegna undir öllum kringumstæðum heimilt að gefa út slíka bók og hefur ekki verið að því fundið af neinum.

Ef þessi bók ætti að vera hliðstæð bókinni um landhelgismálið, hefði hæstv. ríkisstj. átt að spyrjast fyrir um það hjá stjórnarandstöðuflokkunum, hvað þeir vildu birta af skýrslum um sínar skoðanir, til að birta þær jafnframt fyrir þjóðinni, því að það er enginn kominn til að segja það nema einræðisstjórn, að skoðanir ríkisstj. séu það, sem endilega þurfi að halda að þjóðinni, og það sé henni fyrir beztu. Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið mikil nauðsyn að túlka þessi mál fyrir þjóðinni. Hver segir, að það sé nauðsynlegt að túlka eingöngu málstaðinn frá annarri hlið?

Það fer ekki milli mála, að þetta að gefa út bækur og dreifa þeim á ríkisins kostnað er ákaflega varhugavert fordæmi og miklu umhugsunarverðara en menn í skjótri svipan kannske átta sig á.

Það var talað um það og að því var fundið, að ekki hefðu verið gefnar út skýrslur um úttektina, sem hefði átt að gera á þjóðarbúinu og var raunverulega gerð. Það var farið nákvæmlega í gegnum það af þeim, sem nú er efnahagssérfræðingur ríkisstj., hvort hægt væri að gefa út þessar skýrslur, og þótti undir engum kringumstæðum fært nema gefa þær út orðréttar undir nafni þess hagfræðings, sem skýrslurnar hafði ritað. M.a. er hér hagfræðingur til staðar í hv. deild, sem var leitað til um það, hvort það mætti birta eftir honum hagfræðilegar skýrslur og upplýsingar, vegna þess að það þótti ekki fært að gera það nema með hans leyfi, að draga hans nafn inn í þær umr. og birta eftir honum skýrslur.

En hér er engu slíku til að dreifa. Hér er birt rit frá ríkisstj. án þess að tilgreina höfund, kostnaðarmann, ábyrgðarmann, prentstað. Og skiptir það kannske ekki allt saman meginmáli, þó að þær reglur séu allar saman brotnar. En það orkar ekki tvímælis að mínu áliti, að ef það er heimilt að gefa út rit eins og þetta og dreifa því út, þá er alveg eins heimilt, að ríkisstj. fari að gefa út blöð annað slagið á ríkisins kostnað, eins og einræðisstjórnir gera í öðrum löndum. Það er enginn stigmunur á því. Það er enginn stigmunur á því að gefa út nafnlaust áróðursrit og dreifa því út á ríkisins kostnað á hvert heimili og að gefa út blöð annað slagið og dreifa út um landið á kostnað ríkisins og á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Og ef þetta á að vera leyfilegt, þá er það jafnframt leyfilegt. Slíkt fordæmi liggur fyrir í þessu verki, sem hér hefur verið framið.