05.12.1959
Neðri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. minntist á efnahagsráðstafanir, sem gerðar hafi verið vorið 1958. Hann fylgdist áreiðanlega svo vel með í þinginu þá, held ég, að hann hafi mætt það sæmilega á fundum, að hann hafi nokkurn veginn vitað, að ég var á móti þeim efnahagsráðstöfunum. En það, sem var einkennilegra, það var, að Sjálfstfl. var á móti þeim líka og sagði, að það væri eiginlega allt of mikið að ætla að fara að leggja slíkt álag á fólkið, þetta væri jafnvel hálfgerð gengislækkun, sem verið væri að gera. Má ég spyrja: Hvað meinti Sjálfstfl. með því að vera á móti þessum efnahagsráðstöfunum? Meinti hann ekki neitt? Hann er nú að undirbúa sjálfur að gera einmitt þær ráðstafanir, sem víð þóttumst, þó að okkur þætti ýmislegt í efnahagsráðstöfununum þá slæmt, hafa afstýrt þá, þeirri gífurlegu gengislækkun, sem Sjálfstfl. er nú að undirbúa. Hvers konar frammistaða er það hjá Sjálfstfl. að vera vorið 1958 á móti þeim aðgerðum, sem þá var verið að gera, en fara nú að undirbúa að gera margfalt, margfalt verri og vitlausari aðgerðir? Er lýðskrumið svona takmarkalaust, ábyrgðartilfinningin svona hverfandi hjá Sjálfstfl., að hann leikur sér að því að vera á móti ráðstöfunum opinberlega, sem hann í hjarta sínu er með, en vildi hafa helmingi verri, þegar hann er kominn í ríkisstj., og sendir Alþingi heim? Hvers konar loddaraleikur er þetta? Ég er hræddur um, að Sjálfstfl. eigi eftir að sjá, að svona loddaraleikur er nokkuð dýr. Ég gæti jafnvel trúað, að hann hefði kennt mörgum verkamönnum, sem fylgt hafa honum, að það beri á móti öllum þess háttar efnahagsráðstöfunum að beita valdi verkalýðssamtakanna, og má vera, að sumir af þeim, sem Sjálfstfl. var að hvetja til baráttu þá, yrðu í baráttu núna á móti þeim ráðstöfunum, sem Sjálfstfl. kann að gera. Þess vegna held ég, að enginn ráðh. Sjálfstfl. og enginn þm. hans ætti nokkurn tíma að minnast á efnahagsráðstafanir, sem þá voru gerðar.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það mundi ekki verða gengið fram hjá Alþingi við þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu. Það er hægt að skilja þetta á tvennan hátt. Má ég í fyrsta lagi skilja þetta þannig, að Alþingi hafi hér með fengið yfirlýsingu um, að það yrðu ekki gefin út nein brbl. á þessu tímabili, sem snerta efnahagsmálin í landinu? Við höfum enn ekki fengið neina yfirlýsingu um slíkt. En í því, sem hæstv. fjmrh. sagði núna, lá óbeint, að það yrði ekkert gert, án þess að Alþingi hefði aðstöðu til þess fyrst að dæma um það, m.ö.o. engin brbl. gefin út, þannig að búið væri að skapa staðreyndirnar, áður en Alþingi kemur saman. Í öðru lagi: má ég skilja þetta þannig, og það felist raunverulega í yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að það verði rætt við Alþingi, ekki aðeins þinglið stjórnarinnar, heldur líka stjórnarandstöðuna, áður en þetta verður endanlega ákveðið, að ríkisstj. mundi vera reiðubúin til þess að taka til greina ábendingar frá stjórnarandstöðunni, að hún mundi ekki móta svo fast sínar till., að hún væri ekki reiðubúin til að endurskoða þær. Reynslan, sem maður hefur venjulega haft, þegar svona till. hafa verið undirbúnar, hefur nefnilega verið sú, að ríkisstjórnin bindi sig svo fast við sínar eigin ákvarðanir í þessu efni, að engin rök, hvað sterk sem þau eru, geti haggað henni neitt. En einmitt niðurlag ræðu hæstv. fjmrh. benti til þess, að hæstv. ríkisstj. mundi vilja fara að athuga sinn gang og jafnvel ekki ákveða sig endanlega, fyrr en hún væri búin að ráðgast við Alþingi, eftir að það væri komið saman.

Þá sagði hæstv, fjmrh., að ég virtist álíta, að allir hagfræðingar hefðu alltaf vitlausar skoðanir. Nei, það er alls ekki mín meining, — það eru bara sumir hagfræðingar, — en slysið er, að venjulega kýs ríkisstj. einmitt slíka hagfræðinga til þess að ráðleggja sér. Það eru vandræðin í þessu öllu saman.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri engin hætta á, að ríkisstj. gleypti það ómelt, sem hagfræðingarnir kæmu með. Ég sé, að hann hefur kannske fengið eitthvað að vita af því, sem ég sagði hér um kvöldið, þegar hann var ekki við. Það var einmitt það, sem ég var að vara við, að gleypa slíkt ómelt, vegna þess að 1950, þegar sami hæstv. forsrh. var og núna, þegar verið var að undirbúa gengislækkun eins og núna, þegar sérfræðingur var settur af stað eins og núna, það var Ameríkulærður sérfræðingur frá Alþjóðabankanum eins og núna, þá kom gengislækkunarfrv. með langri og ýtarlegri og lærðri grg. fyrir Alþingi og hæstv. forsrh. sagði: Hvað, var það svona mikið? — Og stjórnin gleypti allt saman hrátt. Það gæti verið, að hæstv. ríkisstj, væri að byrja að læra, að hún ætti ekki að gleypa þetta ómelt. En þá væri betra að byrja með því núna undireins að gefa skýrsluna um þessa hluti, segja alþm. frá þessu, láta þá vita, hvað þarna sé verið að hugsa, til þess að það væri ekki hætta á, að ríkisstj. gleypti þetta ómelt.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ráðh. mundu nú reyna að fara að átta sig á þessu og þeir mundu jafnvel beita dómgreind sinni. Það var ákaflega gott að heyra það, að þeir mundu beita henni og ekki gleypa þetta allt saman ómelt. En ég er hræddur um, að til þess að þeir gætu beitt henni að öllu leyti, þyrfti að vera aðstaða til þess að kenna þeim ofur lítið út frá reynslunni um þessa hluti, þannig að það færi nú ekki svo, að á því herrans ári 1960 yrðu endurteknar allar sömu vitleysurnar og gerðar voru 1950. Það er ósköp leiðinlegt að byrja þannig hvern nýjan áratug í sögu þjóðarinnar. Og þó að það sé komið margt af ungum mönnum á Alþingi, síðan þetta var gert, þá ætti nú sérstaklega að forða þeim frá því að endurtaka slíkar vitleysur og gefa þeim tækifæri til þess að læra af því, sem áður hefur gerzt. Ég held þess vegna, ef ég ber saman það, sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir fyrst, að ríkisstj. væri búin að ákveða að taka upp nýtt efnahagskerfi og þetta væri sem sé allt í þessu fína lagi og það þyrfti bara að fá vinnufrið með því að losna við þingið, — ég held, að hæstv. fjmrh. sé farinn að læra, að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að gleypa ekki allt ómelt, sem sumir hagfræðingar koma með, að hún þurfi að reyna að fara að átta sig á hlutunum og þurfi að beita dómgreind sinni, áður en hún fer að gleypa það, sem sérfræðingar hennar, útlendir og inniendir, komandi frá París, London, New York og Washington, hafa verið að reyna að troða í hana undanfarið. Og þó að okkur hafi ekki gefizt nema þessi litli tími hér á Alþingi til þess að ræða við ríkisstj., þá held ég jafnvei, að það sé farið að bera árangur nú þegar og mundi bera meiri árangur, ef hún ekki með sínu offorsi knýr það í gegn, eins og hún nú er að gera, að senda þingið svona fljótt heim.