11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vil aðeins taka undir þá hörðu gagnrýni og þau mótmæli, sem hér hafa verið borin fram gegn útgáfu þess rits, sem við þm. höfum fundið á borðum okkar nú í gær og í dag.

Það er algert rangnefni að kalla þetta hvíta bók. Þegar talað er um hvíta bók eða bók með einhverjum lit, sem algengt er í diplomatísku máli, þá er það varnarrit fyrir afstöðu heillar þjóðar, sem hún er algerlega sammála um. Þegar ríkisstjórn getur talað í nafni heillar þjóðar gagnvart öðrum þjóðum, þá er það hvít bók, blá bók, eins og tíðkast að nefna það hjá ýmsum þjóðum. Þetta rit á ekkert skylt við slík rit. Hér er ekki talað í nafni þjóðarinnar. Hér eru ekki bornar fram skoðanir eða stefna, sem túlkar afstöðu allrar þjóðarinnar.

Það er þegar játað af hæstv. ríkisstj., að hún er höfundur þessa rits, bókaútgefandinn. Það má því líta svo á, að hver einasti ráðherra í hæstv. ríkisstj. sé sammála um allar þær furðulegu staðhæfingar, sem þar eru bornar fram. Ég slæ því föstu. Allir eru samábyrgir fyrir þeim staðhæfingum, sem hér eru bornar fram.

Það liggur í augum uppi, og er þegar sannað í þessum umr., að útgáfa þessa rits er í fyrsta lagi lagabrot. Það er brot á gildandi lögum um prentað mál í þessu landi, og ætti ríkisstj. ekki að vera fyrst til þess að brjóta þau lög, þó að þau séu nokkuð gömul og úrelt. En hæstv. ríkisstj. hefur nú játað, að hún sé höfundur og útgefandi þessa rits, og þannig má segja, að þó að þess sé ekki getið, sem á að vera getið lögum samkvæmt, þá sé það nú upplýst. En það, sem er miklu alvarlegra í mínum augum, er það, að hér er brotið í bága við allar venjur, sem hafa verið taldar góðar lýðræðisvenjur í þessu landi, um útgáfu og áróðursstarfsemi ríkisstjórna. Hér er notað fé þjóðarinnar allrar í fullkomnu heimildarleysi, því að því verður ekki mótmælt, að það liggur engin heimild fyrir frá Alþingi um að verja einum eyri af fé þjóðarinnar í útgáfu þessa rits, — það er gert í algeru heimildarleysi, og er hæstv. fjmrh., sem stendur að þessu, auðvitað fyrst og fremst ábyrgur fyrir því.

Það væri hægt að nota stór orð um þetta, en ég nota ekki stærri orð en þetta. Fé þjóðarinnar allrar — mitt og okkar allra — er hér tekið í fullkomnu heimildarleysi til þess að gefa út áróðursrit um pólitíska stefnu hæstv. ríkisstj. í ákveðnum málum. Það er það, sem er nýtt.

Í því sambandi álít ég það aðalatriðið, hvort allir hv. þm., sem annars eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. standa með henni, eru reiðubúnir til þess að standa með henni að þessu lýðræðisbroti, og það skal reyna á það hér á hv. Alþingi, þó að síðar verði.

Ef svo reynist, þá er sköpuð ný venja á Íslandi. Þá verður hverri ríkisstj. héðan af heimilt samkvæmt venju, sem meiri hluti Alþingis hefur skapað, að gefa út áróðursrit á kostnað þjóðarinnar fyrir sína pólitísku stefnu, í hvaða máli sem er, jafnvel að fara að gefa út pólitískt blað fyrir sig og sína stefnu, því að á því er enginn munur, hvort það er eitt rit, sem er dreift inn á hvert heimili landsins, eða blað, sem kemur út að staðaldri. Það skal verða reynt á það, hvort allir hv. þm., sem styðja hæstv. ríkisstj., standa með henni að þessu lýðræðisbroti.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. starfar ekki svo lýðræðislega, að hún spyrji alla stuðningsmenn sína fyrir fram um stuðning þeirra við aðgerðir sínar og stefnu. Það hefur komið fram fyrr.

Það leikur ekkert á tveimur tungum og þarf ekkert um það að deila, að hér er ekki um neinar almennar skýrslur um hagfræðileg efni að ræða. Hér er áróðursrit, áróðursgreinar með furðulegustu staðhæfingum, sem alveg er óhætt að staðhæfa að hagfræðingar landsins í heild sinni eru ekki sammála um. Það er langt frá því.

Það er ekkert almennt álit hagfræðinga, sem kemur fram í þessari skýrslu að þessu leyti. Hér eru pólitískar greinar og ekkert annað. En þessu riti fylgja að vísu skýrslur, þar sem tölur eru látnar tala í töflum. Og ég vil taka til dæmis eitt atriði í þeim skýrslum, það er í töflu 2 á bls. 43 í þessu riti. Þar eru gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar brúttó árið 1959 taldar hafa verið 1466 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. og þá alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. og viðskmrh.: Hvaða hagfræðingur eða hvaða hagfræðistofnun í þessu landi treystir sér til þess nú í nær hálfnuðum febrúar 1960 að gefa þær upplýsingar, að gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar 1959 hafi verið 1466 millj. kr.? Er það Seðlabankinn? Er það hagfræðideild Seðlabankans? Er það Hagstofa Íslands? Eða er það efnahagsmálaráðunautur ríkisstj., sem ég vil segja að leyfi sér að fara með þessar tölur?

Þegar þetta rit kemur út, 10. febr. 1960, liggja fyrir upplýsingar um gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar á hinu liðna ári, 1959, nægilega glöggar til þess, að það megi gera sér grein fyrir þeim, svo að ekki skakki tugum milljóna, varla milljónum.

Ég segi hiklaust fyrir fram, áður en ég fæ svar hæstv. fjmrh. eða hæstv. viðskmrh. um það, hvaða hagfræðingar eða hvaða hagfræðistofnun hafi gefið þessar tölur, — þá segi ég fyrir fram: Þessi tala, sem stendur í þessu riti, er fölsuð, vísvitandi fölsuð, ef hún hefur verið gerð sem áætlun, löngu áður en þetta rit var gefið út, en þetta rit kom út í gær, og á því á þjóðin að byggja og draga sínar ályktanir, og þessi tala er notuð sem undirstöðutala til þess að hugsa út frá um efnahagsmál Íslendinga, eins og þau standa nú í byrjun árs 1960. Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa hér upp heimildarmenn sína að þessari tölu, að þessari hagfræðilegu fræðslu, sem þeir veita þjóðinni 10. febr. 1960 um gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar 1959.

Ég álít ekki tilefni til langra umræðna um þetta mál á þessu stigi. Ég álít, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að það verði að taka fyrir síðar hér á Alþingi, hvort það eigi að vera helguð venja samkvæmt ákvörðun meiri hluta Alþingis, að ríkisstj. geti gefið út slíkt pólitískt áróðursrit eða blað, eins og um er að ræða.