05.12.1959
Neðri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er aðeins til að fyrirbyggja misskilning, sem ég vil láta nokkrar aths. koma fram.

Ég hef ekki sagt eitt orð um það, hvort stjórnin muni gefa út brbl. eða ekki. Ég hef sagt, að efnahagsráðstafanirnar komi til aðgerða Alþingis eftir þinghléið, og það er Alþingis sem löggjafarsamkomu þjóðarinnar að ákveða, hvað verður gert. Hvort í þessu þinghléi nú þarf eins og stundum áður, þegar svo hefur staðið á, að gefa út brbl., ef brýna nauðsyn ber til, eins og í stjórnarskránni segir, það er ómögulegt að segja um á þessari stundu.

Hv. 3. þm. Reykv. segist ekki telja það tóma vitleysu, sem allir hagfræðingar segja, heldur bara sumir. Nú er það svo einkennilegt með þessa hagfræðinga, að þegar svo hefur viljað til, að ungir hagfræðingar hafa stundum fylgt hv. 3. þm. Reykv. og flokki hans að málum, fylgt þeim í skoðunum, þá hefur jafnan farið svo eftir nokkur ár, þegar þeir hafa þroskazt og öðlazt nokkra reynslu til viðbótar, að þá hafa þeir alveg snúizt gegn hv. þm. og öllum hans kenningum, þannig að ég held, að það sé leitun að hagfræðingi á Íslandi, sem aðhyllist skoðanir hv. 3. þm. Reykv. í efnahagseða hagfræðimálum. Ég held, að það sé leitun á þeim. Þeir fáu, sem hann hafði sér við hlið áður, eru orðnir honum mótsnúnir og sumir hverjir orðnir nánustu ráðunautar núv. ríkisstjórnar. Hvernig stendur á þessu, að allir hagfræðingarnir yfirgefa hv. þm. og hans kenningar? Það er bara af þeirri einföldu ástæðu, að hans þjóðfélagskenningar eru úreltar og hann er einn af þeim tiltölulega fáu hér, sem enn halda dauðahaldi í úrelt skipulag. Þetta skipulag, sem hv. 3. þm. Reykv. heldur í, er auðvitað orðið langt á eftir tímanum, ekki í nokkru samræmi við þarfir og þróun tímans. Reynslan hefur í fjölda landa afsannað flest af því, sem hann byggir sínar skoðanir á, enda er þetta ósköp eðlilegt, því að hann notar sem trúarjátningu það, sem gamall síðskeggjaður sérvitringur skrifaði fyrir 100 árum úti í British Museum í London.