11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr. neitt að ráði, sem hér hafa farið fram. En í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt, langar mig til þess að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh.

Ég held, að það hafi gerzt fyrir nokkru, að uppvíst varð um, að horfið hefðu talsvert fémæt frímerki úr vörzlu ríkisins. Í tilefni af þeim þjófnaði, sem þar þótti orðinn uppvís, fyrirskipaði hæstv. dómsmrh. rannsókn. Ég held, að það séu allir sammála um það, að hæstv. dómsmrh. hefur þar farið rétt að.

Nú liggur það fyrir, að með útgáfu þess pésa, sem hér er rætt um, hefur verið brotizt í ríkisféhirzluna og tekin ófrjálsri hendi upphæð, sem sennilega nemur hærri upphæð en sá frímerkjaþjófnaður, sem er orðið uppvíst um. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að haga þinglega orðum sínum.) Nú vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort hann teldi það ekki skyldu sína að fyrirskipa rannsókn á því, með hvaða hætti þetta fé er tekið, og ef það sannast, að það er tekið ófrjálsri hendi, þá skuli hinir seku leiddir fyrir dóm. Þetta er fsp. mín til hæstv. dómsmrh., því að að sjálfsögðu er ætlazt til þess í þessu landi, að landslögin gangi jafnt yfir alla og það sé ekki frekar réttmætt að taka fé ófrjálsri hendi úr ríkishirzlunni en að stela frímerkjum.