11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það lýsir nokkuð málstaðnum, að hv. framsóknarmenn skuli finna að því, að skýrsla, sem er byggð á ýtarlegum gögnum sérfræðinga, skuli send almenningi til kynningar í þessu meginmáli þjóðarinnar. Þeir bregðast svo við nú, mennirnir, sem lofuðu því á sínum tíma að gefa þjóðinni skýrslu um úttekt þjóðarbúsins, eins og þeir sögðu. Af hálfu þáv. stjórnarandstæðinga og meginhluta þjóðarinnar var þáv. stjórn aldrei ásökuð fyrir að hafa gefið þetta loforð, og engum kom til hugar, að sú skýrsla yrði kostuð af ráðherrunum sjálfum, heldur töldu allir sjálfsagt, að staðið yrði við loforðið og skýrslan send almenningi á ríkissjóðs kostnað.

Það var ekki þetta, sem menn sökuðu þáv. hæstv. ríkisstj. um, heldur það, að hún rauf það heit sitt að kynna almenningi þá úttekt, sem hún lét gera á þjóðarbúinu.

Nú hefur komið til valda ríkisstj., sem sagði strax í upphafi valdatöku sinnar, að hún mundi kynna sér til hlítar og láta semja skýrslur um þessi mál og síðan gefa þjóðinni færi á því að kynna sér þær skýrslur. Þær skýrslur liggja, eins og önnur mannanna verk, undir skoðun annarra en þeirra, sem þær hafa samið. En það verður ekki um það deilt, að alveg eins og það var réttmætt á sínum tíma af vinstri stjórninni að lofa því að gefa þjóðinni kost á því að kynnast úttekt þjóðarbúsins, þá er það því frekar réttmætt nú, ekki aðeins að lofa því, heldur gera það. Þetta er um efni málsins.

Að því er varðar fsp., sem hér hafa komið fram, þá var óþarft að svara hv. 1. þm. Austf., þegar af því, að hann vissi svarið sjálfur við sinni fsp., eins og hann upplýsti í einni af sinni seinni ræðum. Varðandi aftur á móti þekkinguna, sem þessar ferlegu ásakanir eru byggðar á og orðaskak þessara hv. þm., þá kemur hún fram í því, þegar hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) tekur það upp eftir hv. 2. þm. Austf. (HÁ), að hér sé nánast um sams konar verknað að ræða og stuld frímerkja úr frímerkjageymslu. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Margs konar útgáfustarfsemi ríkissjóðs á undanförnum árum væri þá fyrir löngu búin að koma Eysteini Jónssyni og hans meðráðh. í tukthúsið, ef þann mælikvarða ætti að leggja á. Við skulum halda okkur alveg frá þvílíku orðbragði hér á Alþingi.

En hv. 7. þm. Reykv., sem leyfði sér að viðhafa þessar ásakanir, skal ég aðeins benda á það, að ef hér er eitthvað ranglega gert, þá er ákæruvaldið á því ekki hjá dómsmálastjórninni, heldur hjá sjálfu Alþ. Það stendur í stjórnarskránni, sem þessi hv. þm. hefur ekki alls fyrir löngu unnið eið að, — en hann kemur svo hér upp og ber á menn glæpsamlegar sakir og veit ekki annað eins höfuðatriði stjórnskipunar sinnar eigin þjóðar og þeirrar stjórnarskrár, sem hann hefur heitið að vernda, eins og þetta.