22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Í gærkvöld voru fluttar þær fregnir, að hæstv. ríkisstj. hefði komið því fram að hækka stórkostlega alla vexti í landinu, og enn fremur var tilkynnt, að sú ákvörðun væri gerð, að það ætti að heimta inn úr sparisjóðum og innlánsdeildum helming af allri aukningu sparifjárins og setja inn í bankakerfið. Mig langar til í sambandi við þetta að spyrjast hér fyrir um utan dagskrár eitt atriði og láta í ljós álit mitt um eitt eða tvennt annað.

Það er þá fyrst: Ég tók ekki eftir því, að það væri neitt í þessari tilkynningu um lengd lánanna úr stofnlánadeildum atvinnuveganna. Og ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Var nokkur breyting gerð á lengd lánanna? Ég tók ekki eftir því, að það væri neitt talað um lánstíma í þessum tilkynningum. Þetta er spurning, sem ég vona að hæstv. ráðherrar svari, hvort nokkur breyting var gerð á lengd lánanna.

Þannig er til tekið í þeirri lagagrein, sem fjallar um heimild handa ríkisstj. til þess að ákveða vexti hjá ýmsum stofnlánadeildum, að það skuli leita álits frá stjórn Seðlabankans og stjórnum þessara stofnana. Ég hef ekki haft fullkomlega nákvæmar fregnir af því, sem gerzt hefur, en manni kemur það furðulega fyrir sjónir, að það skuli vera búið eða eigi að láta líta svo út, eins og það sé búið að fullnægja þessu lagaákvæði, þar sem lögin voru staðfest, að því er ég bezt veit, á laugardag. Mér er að vísu sagt, að það hafi verið kallaðar stjórnir sumra þessara sjóða, sem hér eiga hlut að máli, upp í stjórnarráð, til þess að tilkynna þeim þar, að það væri búið að ákveða vaxtahækkunina, og enn fremur, hvað hún ætti að vera. En ég er þannig settur, að ég á sæti í einni af þeim stjórnum, sem átti að biðja um álit hjá, áður en ríkisstj. væri heimilt að hækka vexti í þeim sjóði, og það er byggingarsjóður verkamanna. Ég heyrði það í útvarpinu í gærkvöld, ég heyrði ekki betur a.m.k. en byggingarsjóður verkamanna væri þar talinn með, að það væri búið að hækka þar vextina stórkostlega. En það hefur ekki verið leitað álits stjórnar byggingarsjóðs verkamanna um þetta mál. Og ef hæstv. ríkisstj. er búin að ákveða þessa vexti, hefur hún með því þverbrotið lögin, sem hún var að berjast fyrir að fá hér í gegnum Alþingi, og þá er sú ákvörðun ólögleg. Mér er kunnugt um þetta, því að ég á sæti í þeirri stjórn. Ég vil mótmæla þessu algerlega og benda á, að þessi ákvörðun er því ólögleg, — fyrir utan það, hvaða vott þetta ber um vinnubrögð hæstv. ríkisstj.

Þá vil ég einnig nota þetta tækifæri til þess að mótmæla þessum vaxtahækkunum sem hreinni óhæfu og vísa þar til þess, sem hafði komið fram í sambandi við málið sjálft.