05.12.1959
Neðri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. heldur, að þeir hagfræðingar, sem ríkisstj. undanfarið hafa haft í sinni þjónustu, hafi orðið þjóðinni sérstaklega til góðs og þeirra kenningar hafi reynzt að einhverju leyti nýtar. Það er alveg rétt hjá honum, að tveir af þeim hagfræðingum, sem nú er mest deilt um í þessu efni, voru fylgjandi okkur. Þeir hafa báðir farið til Ameríku. Þeir hafa báðir komizt þar hátt í virðingastiganum, sem kallað er. Þeir hafa báðir komizt í tæri við Alþjóðabankann og það volduga auðvald þar. Og þeir hafa báðir snúizt. Hvað hafa þeir svo ráðlagt þjóðinni, þegar heim kom? Þeir hafa ráðlagt þjóðinni, að hún mætti ekki búa við þau lífskjör, sem við stjórnmálamennirnir og alþýðuhreyfingin á Íslandi höfum skapað henni. Þeir hafa ráðlagt mönnum, að ríkið ætti ekki að gera ráðstafanir til þess að skapa atvinnutæki í landinu, heldur vera ekki að hugsa um slíkt. Þeir hafa ráðlagt verkamönnunum, að þeir ættu að

lækka launin sín og þeir ættu ekki að gera eins miklar kröfur til lífsins og þeir hafa gert. Hvaðan heldur hæstv. fjmrh., að þeir hafi svona kenningar? Skyldu það ekki vera kenningar, sem væru í nánasta samræmi við hagsmuni þeirrar auðmannastéttar, sem þeir álíta sig nú eiga að þjóna. Það er ekki snefill af vísindum í sambandi víð þetta. Og hvernig hefur svo farið fyrir þessum hagfræðingum? Jú, einn þeirra, dr. Benjamín Eiríksson, sem reynsla hefur verið af s.l. tíu ár, sem gaf ráðleggingarnar um gengislækkunina 1950, hann hefur verið múraður inni í Framkvæmdabankanum sem bankastjóri þar, sýnt þar sina frámunalegu vizku, þar sem hann hefur þroskazt í Ameríku, eins og hæstv. fjmrh. var svo montinn af, með því að búa til glerfjallið hér heima. Heldur hæstv. fjmrh., að það verði betri minnisvarði fyrir Benjamín Eiríksson og þessa lærðu hagfræðinga, glerfjallið í glerverksmiðjunni, heldur en nýsköpunartogararnir verða um mig og mína ólærðu hagfræði? Ég held, að það sé bezt fyrir hæstv. fjmrh. og aðra menn, sem glæpast á því öðru hvoru að trúa þessum hagfræðingum, að þegja um það.

Svo kom hæstv. fjmrh. inn á marxisma. Ég veit, að hæstv. fjmrh. er prófessor í lögfræði. En ég er hræddur um, að hann sé furðuilla að sér í hagfræði og þjóðfélagsvísindum yfirleitt. Hann heldur, að marxisminn sé einhver úrelt kenning. Er hæstv. fjmrh. svona gersamlega utan við sig? Þessi kenning hefur verið og er að umskapa þriðja hluta jarðarinnar og koma þjóðum, sem voru á frumstæðu nýlendustigi fyrir nokkrum árum og áratugum, í tölu mestu framfaraþjóða veraldarinnar, vegna þess að þær hafa starfað á grundveili marxismans, á þeim grundvelli, sem Karl Marx, sá síðskeggjaði Gyðingur, sem hann var að tala um áðan, lagði fyrir 100 árum og hefur verið styrktur af mörgum ágætum mönnum síðar. Kenning þessi er að fara sigurför um heiminn, sterkasta kenning, sem nokkurn tíma hefur verið til í veröldinni, kenning, sem allur auðvaldsheimurinn óttast, þannig að menn halda meira að segja, að það þýði eitthvað fyrir þá að reyna með vopnavaldi að bæla það niður, og eru þó að gefast upp við það núna. Ég held, að það sé betra fyrir hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn að loka ekki augunum fyrir mætti slíkra kenninga. Það væri furðulegt óraunsæi. Og eitt ætla ég að segja honum að lokum. Það, sem breytt hefur Íslandi frá því 1942 og gert íslenzku þjóðina að einni af þeim þjáðum, sem einna bezt lífskjör hafa í heimi, sérstaklega með þeim langa vinnutíma, sem hún leggur á sig, og með þeirri tækni, sem hún hefur skapað sér, og með því skipulagi, þótt ófullkomið sé, sem hún hefur hjá sér — það, sem gert hefur þetta að verkum, er kraftur marxismans á Íslandi, eru áhrif marxismans í íslenzkri verkalýðshreyfingu, þau áhrif, sem verkalýðshreyfingin hefur getað haft á þjóðfélagið, þó að auðvaldsþjóðfélag sé, og áhrif, sem hafa verið hvað blessunarríkust, þegar meira að segja meiri hluti Sjálfstfl. hefur orðið að fara inn á það að búa til meira eða minna áætlanir í anda sósíalismans til þess að láta Ísland að einhverju leyti verða slíks aðnjótandi. Og nú sem stendur býr Ísland eitt allra auðvaldsríkja við það ástand, að ekkert atvinnuleysi er þar til vegna þess m.a., að fyrir okkar tilstilli er nú Ísland þannig tengt þeim sósíalíska heimi viðskiptalega, að við þurfum ekki að hafa af neinum kreppum að segja né neinum markaðsvandræðum. M.ö.o.: það, að við búum við betri lífskjör en aðrar auðvaldsþjóðir, er vegna þess, að áhrif marxismans hafa verið svo mikil hér innanlands og tengslin við hin sósíalísku ríki, við þann erlenda hluta, að Ísland hefur getað notið þess til þess að skapa sér betri lífskjör. Ég ætla ekki hér í athugasemdartíma að fara annars að ræða um marxismann við hæstv. fjmrh., en ég er reiðubúinn til þess, hvenær sem er hér á Alþingi, og satt að segja, ef hæstv. fjmrh. hefði verið hér í fyrrakvöld og hlustað á minn hagfræðifyrirlestur út af því, sem hans lærði hagfræðingur var að segja, þá held ég, að jafnvel hæstv. fjmrh. hefði getað lært eitthvað.