22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Það er aðeins örstutt, og ég skal ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta. Þó að ráðh. noti tækifærið til að halda hér langa hagfræðilega fyrirlestra, skal ég vera mjög stuttorður.

Það kom fram hjá hæstv. viðskmrh. hér síðast, hvað allur þessi undirbúningur er gersamlega fyrir neðan allar hellur. Það kemur sem sé fram, að stjórn Seðlabankans hefur ekki treyst sér til að gefa neitt álit um vextina hjá stofnlánadeildunum, vegna þess að henni voru settir úrslitakostir um tímann, sem hún átti að hafa til þess að vinna að málinu, aðeins yfir helgina. Og hæstv. ráðh. segir, að þetta hafi orðið að vera svona, vegna þess að þetta hafi allt orðið að ganga í gildi nú í morgun. Auðvitað eru þetta hreinar tylliástæður og mikil ófyrirleitni hjá hæstv. ríkisstj. að bera svona lagað fram. Hvaða ástæður eru til þess, að það þyrfti endilega að liggja fyrir nú í morgun, hvaða vextir ættu að verða á stofnlánum í þessum stofnunum, sem hér eiga hlut að máli? Það eru auðvitað engar frambærilegar ástæður fyrir slíku. Þetta er bara ófyrirleitni að vinna svona að málinu og gert til þess að koma í veg fyrir, að nokkur eðlileg rök geti komizt að.

Þá var hæstv. sjútvmrh. að minnast á það hér, að hann hefði lagt fyrir ráðuneytisstjórann að boða stjórnir allra þessara stofnana, sem hann tiltók. Ég vil ekkert um þetta segja. En halda menn kannske, að það sé einhver tilviljun, að þarna kom enginn og mun enginn hafa fengið boð nema formaður stjórnar byggingarsjóðs verkamanna, af því að hann er einnig sitjandi í stjórn fiskveiðasjóðs? Ég var heima allt föstudagskvöldið og laugardaginn fram að hádegi og fékk engin slík boð. Og hverjum dettur í hug annað en það hefði verið farið þannig að, að formaður byggingarsjóðsstjórnarinnar hefði verið aðvaraður um, að hann ætti að koma með stjórnarnefndarmennina með sér? Stjórn byggingarsjóðsins var alls ekki boðuð, og þegar hæstv. ráðh. sá það, þá var auðvitað ekki nema um eitt að ræða, og það var að gera ráðstafanir til þess að ná í stjórnina, þannig að það væri hægt að bera undir hana þetta mál, eins og lög gera ráð fyrir. En undir hana hefur þetta mál alls ekki verið borið, og þess vegna er vaxtahækkunin a.m.k. í verkamannabústaðasjóðnum algerlega ólögleg, og ég mun leggja það til, að það verði að sjálfsögðu ekki hækkaðir þar vextir, þar sem það væri ólöglegt að gera það.

Hæstv. landbrh. ræddi hér nokkuð almennt um fjárfestingarsjóðina og þörfina á því að breyta tekjum þeirra. Mér dettur ekki í hug, að þeirri ríkisstj., sem eykur útgjöld fjárl. um 400 millj. kr. á einu ári, hefði vaxið það í augum að taka inn á fjárlögin einhverja fúlgu til þess að jafna vaxtamismuninn og hallann hjá þessum uppbyggingarsjóðum landbúnaðarins, ef hún hefði viljað. En það er bara það, sem hæstv. ríkisstj. vill alls ekki gera. Hún vill hækka vextina til þess að draga úr framkvæmdum, eins og hér hefur verið greinilega tekið fram.

Loks vil ég svo aðeins benda á eitt atriði. Það er talað um, að þetta muni máske standa stutt. Það er líka talað um, að ein aðalástæðan fyrir því, að vextir hækki á stofnlánum, sé almenna vaxtahækkunin. Þá vil ég beina því til hæstv. ríkisstj., að hún athugi og komi því í framkvæmd, að það verði settar þær klásúlur á lánin í stofnlánadeildunum núna, að ef almennir vextir lækki, þá lækki vextirnir á þeim lánum líka í hlutfalli við það. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj.