22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta, sem hv. fyrirspyrjandi spyr hér um, er mál, sem hefur verið talað um hér á hv. Alþ. áður, eins og hann minntist hér á, og síðan hefur ekkert breytzt. Það hafa aðeins liðið nokkrar vikur, án þess að Búnaðarbankinn hafi fengið það fé, sem vonazt hefur verið til að hann gæti fengið.

Á s.l. ári lánaði ræktunarsjóður nokkurn veginn á sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár. Hann lánaði rúmar 40 millj. kr., 41, að mig minnir, á árinu 1957, og 1958 og voru þetta svipaðar upphæðir, ég held, að ræktunarsjóður hafi lánað yfirleitt fyrir áramótin út á þau skjöl, sem voru komin í bankann og tilbúin fyrir 10. des., en eftir það barst talsvert af lánabeiðnum úr ræktunarsjóði, og munu vera allt að 10 millj. kr. óafgreiddar nú af ræktunarsjóðslánum út á framkvæmdir fyrra árs. Þetta er a.m.k. samkv. áætlun, sem ég hef fengið í bréfi frá bankastjóra Búnaðarbankans.

Ég býst við, að hv. fyrirspyrjanda sé kunnugt um það, að þegar ekki hefur verið lokið við lánveitingar fyrir áramót, hefur ekki verið aftur byrjað að lána úr ræktunarsjóði fyrr en í marz. Ég hef fengizt við lántökur úr ræktunarsjóði mörg undanfarin ár, og þetta hefur verið venjan. Það má segja, að nú sé komið langt fram í marz og það séu ekki enn þá byrjaðar lánveitingar. En það mun hafa verið á árinu 1958 þrátt fyrir þessa venju að opna ræktunarsjóðinn aftur í marz, að ekki var byrjað 1958 fyrr en í apríl.

Ég hygg, að það sé ekki langt að bíða, þangað til Búnaðarbankinn fær þá peninga, sem þarf til þess að ljúka þeim lánabeiðnum, sem fyrir liggja út á framkvæmdir fyrra árs. Ég hygg, að það sé ekki langt að biða þangað til. Ég hafði vænzt þess, að þetta gæti orðið í marzmánuði, og er alls ekki vonlaus um, að það verði næstu daga.

Það hafa verið sérstakir menn að athuga fjármál sjóða Búnaðarbankans, sem eru því miður ekki í sem beztu lagi, og þá ekki sízt byggingarsjóður Búnaðarbankans. Byggingarsjóður Búnaðarbankans mun hafa lánað á s.l. ári aðeins út á þær framkvæmdir, sem voru hafnar á árinu 1958, eða til þess að ljúka framkvæmdum, sem var byrjað á fyrir s.l. ár. Aftur á móti hefur byggingarsjóðurinn ekki enn lánað út á framkvæmdir, sem byrjað var á á árinu 1959. Og til þess að ljúka því þarf byggingarsjóðurinn að áliti bankastjóra Búnaðarbankans 10 millj. kr. Þrátt fyrir þetta hefur byggingarsjóðurinn á s.l. ári ekki lánað nema, að mig minnir, 5 millj. kr. lægri upphæð 1959 heldur en 1957, en fjárþörf bankans jókst talsvert á s.l. ári vegna aukinna framkvæmda. Það eru þess vegna 20 millj. kr., sem Búnaðarbankinn þarf að fá fljótt til þess að ljúka lánveitingum út á framkvæmdir, sem hafa verið hafnar á þessu ári. Og það hefur verið gefið fyrirheit um að útvega peninga í þetta. En það er meira, sem Búnaðarbankinn þarf að fá, til þess að hægt sé að fullnægja þeim kröfum, sem á honum hvíla. Í Seðlabankanum eru 12.5 millj. kr. óreiðu- og vanskilaskuldir: 3.5 millj. áhvílandi byggingarsjóði frá 1957 og 3.5 millj. frá árinu 1958, samtals 7 millj. kr. frá byggingarsjóði, og 5 millj. frá ræktunarsjóði. Þetta eru gjaldfallnar skuldir, og þessar 12.5 millj. verða að greiðast til Seðlabankans, áður en Seðlabankinn tekur að sér að greiða fyrir með ný lán til Búnaðarbankans.

Það var þannig á árinu 1957, að þá var engin fjárútvegun til byggingarsjóðs fram yfir þær föstu tekjur sjóðsins, önnur en 3.5 millj., sem voru teknar til bráðabirgða að láni í Seðlabankanum. Það var lofað að greiða þetta fljótt aftur, af því að þetta átti að vera bráðabirgðalán. Þessi skuld er enn ógreidd. Og þetta endurtók sig 1958. Þá var aftur tekið bráðabirgðalán í Seðlabankanum handa byggingarsjóði Búnaðarbankans, og þetta er eina féð, sem útvegað var handa byggingarsjóðnum þessi tvö ár fram yfir þær föstu tekjur, sem sjóðurinn hefur. Þegar ég á s.l. hausti talaði við bankastjóra Seðlabankans og bað hann um fyrirgreiðslu fyrir byggingarsjóðinn í svipuðu formi og hann hafði gert tvö undanfarin ár, bæði 1957 og 1958, þá sagði bankastjóri Seðlabankans: Ég gerði nú þetta í góðri trú tvö undanfarin ár, að hlaupa undir baggann, til þess að byggingarsjóðurinn gæti haldið lánveitingum áfram. Og þetta var hægt að gera einu sinni. Það var helzt ekki hægt að gera það tvisvar, þótt ég gerði það. En í þriðja sinn er það ómögulegt. — Og ég áfellist ekki bankastjóra Seðlabankans, þótt hann segði sem svo: Þetta getur ekki gengið. Hér eru óreiðuvíxlar, og þeir verða að greiðast. Þegar það hefur verið gert, geturðu komið til mín aftur. — Mér finnst þetta alveg eðlileg afstaða hjá bankastjóranum.

Það, sem hefur því verið við að stríða nú, er ekki aðeins að útvega bankanum fé til þess að lána með venjulegum hætti, heldur einnig til þess að greiða óskilaskuldir frá fyrri árum, og það er þess vegna eðlilegt, ef menn vilja vera sanngjarnir, að þetta sé dálítið þungt fyrir fæti. En eigi að síður vil ég upplýsa það, að Búnaðarbankinn mun fá mjög fljótlega þá peninga, sem hann þarf til þess að veita út á þau skjöl, sem liggja þar óafgreidd vegna framkvæmda fyrra árs, og það yrði þá í leiðinni, um leið og það gerist, að greiða óreiðuskuldirnar, sem liggja í Seðlabankanum, sem eru ekki óreiðuskuldir vegna bankastjóra Búnaðarbankans, heldur vegna þeirra, sem tóku þessi lán handa sjóðum Búnaðarbankans og höfðu lofað að greiða Seðlabankanum það á réttum tíma, en gerðu það ekki.