22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú eiginlega engu að svara. Hv. fyrirspyrjandi var að tala um það, að þegar Framsfl. væri farinn úr stjórn, væru sjóðir Búnaðarbankans tómir. Og þetta segir hann þrátt fyrir það, þótt það sé vitað, að sjóðirnir eru tómir vegna viðskilnaðar þessara manna. Það er ekki aðeins það, að þeir skilji þá eftir tóma, heldur skilja þeir eftir óreiðuskuldir, sem verður að taka við og greiða upp. Mér finnst þetta nokkuð mikil kokhreysti hjá þessum hv. þm.

Þá talar hann um það, að fjárþörf þessara sjóða aukist vegna verðhækkana. Hún gerir það vitanlega. Ef sjóðir Búnaðarbankans og aðrir stofnlánasjóðir atvinnuveganna eiga að lána tiltölulega eins mikið út á framkvæmdirnar eftir verðhækkanirnar og áður, þá náttúrlega eykst fjármagnsþörfin. En hvað gerðu hv. framsóknarmenn eftir verðhækkanirnar 1958? Lánuðu þeir meira út á byggingar eftir það heldur en áður? Var meira lánað út á íbúðarhús í sveitum, eftir að byggingarefnið hafði hækkað svo geysilega sem það gerði með skattlagningunni 1958, heldur en áður var? Ég held ekki. Ég held, að það hafi verið bundið við 75 þús. kr. eftir sem áður. Sjálfsagt hefur það ekki verið af viljaleysi til þess að greiða úr fyrir þeim, sem voru að byggja, heldur hefur það miklu frekar verið af úrræðaleysi og getuleysi þessara manna, eins og bezt kemur fram í því, að þeir sjá engin ráð til útvegunar á fjármagni fyrir byggingarsjóð Búnaðarbankans á árunum 1957 og 1958 önnur en þau að taka bráðabirgðavíxla í Seðlabankanum, sem þeir lofa að greiða, en svíkjast um að greiða. Og mér finnst, að þegar litið er til baka yfir þessa sjóði og þennan feril, þá sé það of mikil kokhreysti hjá hv. 1. þm. Vesturl. að koma hér upp og tala með jafnfurðulegum hætti og hann gerir um þessi mál, — maður, sem er þó í bankaráði Búnaðarbankans og ætti að vera öllum hnútum kunnugur þar.

Ég svara því svo ekki, þegar hann er að tala um, að það sé undarlegt að vera að minnast á Seðlabankann í þessu sambandi. Er það nokkuð undarlegt, þótt talað sé um Seðlabankann, um bráðabirgðafyrirgreiðsluna? Það er vitað mál, að á s.l. ári var samþ. að láta 25 millj. kr. ganga til Búnaðarbankans af svokölluðu Ameríkuláni. Á meðan þetta lán er ekki komið inn og ekki búið að breyta því í íslenzka peninga, er vitanlega eðlilegt, að talað sé við Seðlabankann um fyrirgreiðslu, að hann láni til bráðabirgða út á þessa peninga, sem eru vísir í bakhendinni, þegar þeir koma inn, og eru þá til reiðu að borga þá skuld, sem stofnað er til, og það er það, sem meiningin var að gera. Búnaðarbankinn hefur ekki enn fengið nema helminginn af þeim 25 millj., og ef óreiðuskuldin hefði ekki legið í Seðlabankanum, hefði Seðlabankinn verið fús til að lána út á seinni helming þessarar fjárhæðar. Þá væri byggingarsjóðurinn búinn að fá þá peninga, sem hann vantaði. Hv. 1. þm. Vesturl. getur þess vegna aðeins ásakað framsóknarmenn fyrir það, að Búnaðarbankinn er ekki búinn að fá þetta. Hann getur ásakað þá fyrir það að hafa skilið eftir óreiðuskuld í Seðlabankanum, sem olli því, að Seðlabankinn treysti sér ekki til þess að lána 12½ millj., enda þótt það væri hægt að leggja fram fullnaðartryggingu, þessa peninga, sem koma inn á þessu ári af seinni hluta Ameríkulánsins. Ég vænti þess, að hv. 1. þm. Vesturl. viti, hvernig þessi mál liggja, að hann sé ekki að spyrja hér eins og maður, sem þekkir ekkert inn í það, sem hann er að ræða um. En það er furðulegt, að hann skuli koma með fsp. eins og þessa og tala eins og hann hefur gert hér í dag, hafi hann vitað, hvernig í málunum liggur.