09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að bera hér fram fsp. til hæstv. ríkisstj., hún snertir líklega fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh., en hann er líklega ekki kominn á fundinn. Ef til vill getur einnig hæstv. viðskmrh. svarað þessu, sem ég ætlaði að spyrja um. (Forseti: Sjútvmrh. mun vera forfallaður, svo að hann er ekki væntanlegur.) Nú, já. Ég vil þá beina minni fsp. til þeirra ráðherra, sem við eru.

Fsp., sem ég vildi bera fram, er í tilefni af fréttum, sem birzt hafa í blöðum nú um helgina. Í fyrradag kom frétt í einu af blöðum stjórnarflokkanna um það, að náðst hefði samkomulag um fiskverð milli Landssambands ísl. útvegsmanna og þeirra fyrirtækja, sem kaupa af þeim fiskinn. Sagt var frá því í þessari frétt, að samningaviðræður um fiskverðið hefðu staðið yfir síðan í febrúar og það muni hafa greitt mjög fyrir samkomulagi, að ríkisstj. hafi lækkað 5% útflutningsskatt af fiskinum um helming, niður í 2½%.

Í gær er einnig í þessu sama blaði nokkuð sagt frá þessu máli, og kemur það einnig fram í þeirri frásögn, að nú hafi verið tekin ákvörðun um að lækka skattinn úr 5% í 2½%.

Þessi frétt þótti mér nokkuð einkennileg, þar sem það er ekki á valdi hæstv. ríkisstj. að breyta þessum skatti, en ákvæðin um hann eru í lögunum um efnahagsmál, sem hér voru samþykkt í febrúar í vetur og munu hafa verið gefin út 20. febr. Hugsanlegt er, að hér sé um að ræða missögn eða ónákvæmni í blaðafréttum. Ef til vill hefur hæstv. ríkisstj. aðeins lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir lagabreytingu á Alþingi, þess efnis, að útflutningsskatturinn verði lækkaður úr 5% í 2½%. Þá getur þetta verið skiljanlegt. En þá er hins vegar ekki rétt frá skýrt í þessum fréttum.

Nú vildi ég því spyrjast fyrir um það og vænti þess, að t.d. hæstv. viðskmrh, geti svarað því, hvort það sé þannig, að ríkisstj. vilji fá breytingu á þessum skatti og muni leggja fyrir þingið frv. til laga um þá breytingu.