10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3593 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér á fundi í þessari hv. d. í gær og þess vegna ekki svarað þeim fsp., sem til mín var þá beint út af fyrirhugaðri lækkun útflutningsskattsins úr 5% í 2½%, og skal þess vegna leyfa mér nú með örfáum orðum að gera grein fyrir, hvernig í því máli liggur.

Þegar útflutningsskatturinn var ákveðinn, var honum ætlað að greiða nokkurn hluta þess halla, sem vitað var að yrði á útflutningssjóði. En þennan halla útflutningssjóðs átti þó fyrst og fremst að greiða með þeim gengishagnaði, sem yrði af sölu birgða, sem aflað hafði verið fyrir gengisbreytinguna, en seldar yrðu eftir gengisbreytinguna, þess fjár, sem þá skorti á, yrði aflað með útflutningsskattinum.

Nú hefur komið í ljós, að nokkuð mikill meiri hluti af þessum halla greiðist af gengishagnaðinum, en eftir verður þó vitaskuld allmikil fjárfúlga, sem útflutningsskattinum er ætlað að ganga upp í.

Það var í upphafi rætt nokkuð um það, hversu há þessi prósentutala ætti að vera, og var staðnæmzt við 5%, án þess þó að fyrir því lægju nokkur sérstök rök, að þessi tala yrði valin frekar en önnur. Þessum 5% skatti var svo ætlað að vera í gildi, þangað til hallinn yrði að fullu greiddur, og útvegsmönnum var gefið fyrirheit um það þegar á fyrsta stigi, að skatturinn yrði afnuminn eða það yrði borin fram till. um það hér í Alþ. að afnema skattinn, þegar þessari upphæð væri náð.

Nú hefur það skeð, að óskir hafa borizt frá bæði Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og frá vinnslustöðvunum um það, að skatturinn yrði lækkaður, og þá mundu þeir una því, að hann yrði framlengdur sem þessari lækkun næmi, þannig að heildarupphæðin yrði nákvæmlega sú sama, sem út úr þessum skatti kæmi, hvort sem upphæðin væri miðuð við 5% eða hvort hún yrði miðuð við 2½%. Á þetta hefur ríkisstj. fallizt og heitið þessum aðilum að beita sér fyrir því, að samþ. yrði breyt. á efnahagslöggjöfinni, þannig að skattprósentan yrði lækkuð úr 5 í 2½%, en með þeirri hugsun að baki, að hann yrði framlengdur, sem því svari, og frv. um þetta verður væntanlega borið fram hér á Alþ. alveg næstu daga. Í þessu felst enginn aukinn styrkur til útgerðarinnar eða neinar nýjar uppbætur, því að það lá fyrir í upphafi, að skatturinn yrði afnuminn, þegar þeirri heildarupphæð yrði náð, sem nægði til þess að jafna halla útflutningssjóðsins, og það sama liggur til grundvallar nú, eftir að þessi breyting á hundraðstölunni hefur verið ákveðin, sem ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir.

Ég hef ekki meira um þetta að segja, en ég vildi aðeins undirstrika það, að hér er á engan máta um neitt fráhvarf frá fyrri stefnu að ræða eða að ríkisstj. hafi horfið frá fyrri ákvörðunum í þessu máli, heldur einungis til hagræðis fyrir útvegsmenn og vinnslustöðvar og eftir þeirra ósk samþ. að lengja skattheimtutímabilið, en lækka töluna.