10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3595 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. það svar, sem hann hefur nú gefið við þeim fsp., sem hér voru bornar fram í gær.

Í fyrsta lagi kemur fram í hans svari, að þessi 5%, sem voru lögð á nokkru eftir áramótin, virðast ekki hafa verið neitt sérstaklega nákvæmlega útreiknuð. Hæstv. ráðh, talaði um, að það hefðu verið ýmsar tölur, sem talað hefði verið um, — líklega hafa það verið sérfræðingarnir. (Gripið fram í.) Já, það er ágætt, þá hefur vafalaust tilvonandi flokksáróðir hæstv. forsrh. lagt smiðshöggið á þetta allt saman seinna meir, yfirsérfræðingur ríkisstj. Það er gott fyrir okkur að fá þær upplýsingar, að þegar hæstv. ríkisstj. leggur skatta á, þá er það gert nokkurn veginn af handahófi. Það var sem sé engan veginn ákveðið um áramótin, hvort það ætti heldur að vera 2, 3, 4 eða 5%, en þeir slengdu sér niður á 5% að lokum. Má ég nú spyrja: Eru flestir skattarnir, sem á voru lagðir um áramótin, og ráðstafanirnar, sem þá voru gerðar, af einhverju svipuðu handahófi, þannig að við mættum búast við því, ef það kæmu úr réttri átt nógu þungar kvartanir, þá yrðu 5% og önnur prósent öll tekin til vendilegrar athugunar og kannske lækkað um helming. Sem sé, þarna þurfti ekki annað en óskir frá útvegsmönnum og hraðfrystihúsum. Og ég spyr nú: Ef óskirnar koma t.d. frá verkamönnum og bændum, tekur þá ríkisstj. alveg jafnvel á slíkum óskum, ef þær koma fram um, að endurskoðað sé það, sem áður hafði verið lagt á?

Hæstv. sjútvmrh. vildi lítið úr því gera, hvers konar eftirgjöf þetta væri, heildarupphæðin yrði sem sé nákvæmlega sú sama, sem yrði til þess að borga hallann á útflutningssjóðnum. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefur í sambandi við efnahagsmálin gert þær ráðstafanir, að lánsfrestur á hinum og þessum lánum, sem veitt hafa verið, hefur verið styttur og vextir um leið hækkaðir, og það gildir jafnt um lán til bygginga og ýmissa annarra framkvæmda. Má ég nú spyrja: Efast hæstv. ríkisstj, um, að það sé þægilegra fyrir t.d. mann, sem fær lán, við skulum segja til íbúðarbyggingar, og borgaði upp á 20 árum, að hafa það heldur á 40 árum? Mundi vera tiltölulega auðsótt hjá hæstv. ríkisstj., ef það væru nú aðrir en hraðfrystihús og útvegsmenn, sem sæktu um, að skatturinn yrði lækkaður um helming og það yrði þess vegna helmingi lengri tími, sem menn fengju að borga þetta á? Mér sýnist á því, hve lítið hæstv. sjútvmrh. gerir úr þessum hlutum, þetta sé nákvæmlega sama heildarupphæðin, og greinilega er tekið fram í yfirlýsingu sjútvmrh., að það sé bara um það að ræða að lækka þetta, lækka þetta um helming. Og ég efast ekki um, að þegar þessi efnahagsmál koma nú aftur til umr. öll í þinginu í sambandi við það nýja frv., sem nú kemur fram, þá muni það verða tiltölulega auðsótt að fá breytt öllum þessum lánstímum, sem nýlega voru lengdir, og vöxtum, sem voru hækkaðir, fyrst hæstv. ríkisstj. er svona ákaflega elskuleg, þegar það eru hraðfrystihúsin og útvegsmennirnir, sem eiga í hlut.

Við skulum sem sé ekki efast um það, að auðvitað er þarna um útflutningsbætur í nýrri mynd að ræða. Það er engin spurning um það. Eins og þeim mönnum, sem eiga að borga svona og svona mikið á svona og svona löngum tíma, sé ekki helmingi þægilegra að mega borga þetta á tvöfalt lengri tíma, að skatturinn sé minnkaður um helming og það sé tvöfalt lengri tími, sem menn hafa til þess að borga þetta á. Það er engin spurning um það.

Ég vil minna á, að útflutningsuppbætur, þegar þessi gengislækkunarkerfi hafa verið að hrynja, hafa verið undir hinum undarlegustu formum. T.d. þegar gengislækkunarkerfið frá 1950 byrjaði að hrynja og það varaði upp undir ár, áður en fyrstu stóru brestirnir komu, þá var innleitt það, sem kallað var, ef ég man rétt, sérstakur frílisti, og samtök útflytjendanna voru látin hafa með hann að gera. Það þóttu ekki útflutningsuppbætur, ekki til að byrja með. Það var alveg sérstakur frílisti. Það kom víst seinna á hann nafnið bátagjaldeyrir. Og þeir fengu að leggja eitthvað sérstaklega á þetta, og meira að segja fyrst þegar þetta var sett í gegn, fyrstu þrjú árin, þá var þetta ólöglegt allan tímann, studdist aldrei við lög, þannig að í þrjú ár var þetta innheimt án þess, að nokkur lög væru fyrir því, raunverulega bæði í mótsetningu við lög og stjórnarskrá, vegna þess að það var meira að segja verið að brjóta þá grein stjórnarskrárinnar, sem bannar að innleiða nokkur sérréttindi, þegar þetta var á lagt, sem sé 78. gr. Það var raunverulega verið að gera vissan hluta af útflytjendunum að nokkurs konar aðli á Íslandi. Á þeim tíma héldu stjórnarvöldin því fram, að þessi sérréttindi, sem bundin væru við hinn svokallaða bátagjaldeyri, snertu raunverulega ekki neitt gengisbreytinguna eða efnahagskerfið sjálft. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar þetta var orðin söguleg staðreynd, að menn fóru að viðurkenna það, að raunverulega hefði gengislækkunarkerfið bilað strax á árinu á eftir. En nú leið ekki á svona löngu. Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir, á þriðja mánuð, og þetta gengislækkunarkerfi er byrjað að bila og allir útreikningarnir, sem í sambandi við það voru.

Það er þess vegna bezt að vera ekki með nein klauflaxnöfn í sambandi við þessa hluti. Það er verið að framkvæma þarna sérstaka eftirgjöf til útflytjendanna til þess að sjá um, að samningar gangi saman. Það er verið að borga þetta á lengri tíma en upphaflega var ákveðið og verið að veita þarna sérstök réttindi einmitt þessum atvinnurekendum, sem áttu að standa á eigin fótum.

Nú er þetta orðað af hæstv. ráðh. ákaflega elskulega, það hefðu bara óskir borizt frá útvegsmönnum og hraðfrystihúsum, og þá hefði þetta verið gert. Ætli það hafi nú ekki heldur verið hitt, að það er búin að standa harðvítug deila í 2–3 mánuði á milli þessara samtaka, Landssambands íslenzkra útvegsmanna og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, um, hvað verðið skuli vera? Og þegar vertíðarlokin nálgast, þegar 11. maí nálgast og þegar það liggur við, að það verði meiri eða minni stöðvanir og átök í sambandi við uppgjör, þá er komið að þrotum, þannig að þessir aðilar verða að fara að gera svo vel að segja, hvar þeir standa og hvort þeir ætli að viðurkenna, hvaða hringavitleysa allir þeir útreikningar hafa verið, sem lagðir voru til grundvallar í sambandi við fiskverðið. Ætli það hafi ekki verið það og þess vegna hafi verið nauðsynlegt fyrir ríkisstj. fyrir 11. maí að verða við þessum óskum, eins og svo hæversklega er orðað, og þá hafi verið inn á þetta gengið?

Ég skal ekki fjölyrða neitt um þetta núna, það er engin sérstök ástæða til þess, vegna þess að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, eins og ég raunar líka bjóst við, að hann mundi gera, að þetta mál komi fyrir Alþ. hið bráðasta, og þá gefst tækifæri til þess bæði að ræða þetta mál sjálft út af fyrir sig og eins að taka fyrir allt efnahagskerfið, sem nú er byrjað að hrynja, bæði sjá til þess, hvort óskir annarra en útvegsmanna og hraðfrystihúsa verði teknar til greina í sambandi við aðrar ráðstafanir, í sambandi við vexti, lánstíma og annað slíkt, og hvort hæstv. ríkisstj. fæst til þess að sjá það strax, að það sé bezt að breyta þessu kerfi nú þegar á þessu þingi.