10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að verða mjög stuttorður.

Hæstv. sjútvmrh. stendur fast á því, að hann hafi ekki borðað kjöt á föstunni, þetta sé bara klauflax, og við skulum rétt athuga þetta ofur lítið betur, sérstaklega útreikninginn, sem hann var að fara út í. Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. hefur fundið ástæðu til þess að fara að tala sérstaklega við útvegsmenn og hraðfrystihús í sambandi við þetta? Það er vegna þess, segir hann, að það hafa komið fram þarna sérstakar óskir, það hafa komið fram kröfur, sérstaklega frá útvegsmönnunum, um hærra verð. Það er alveg nákvæmlega sama fyrirbrigðið og eftir gengislækkunina 1950, þegar þeim var lofað 93 aurum upp úr 75 og fengu það ekki. Þá sögðum við það, þegar við meðhöndluðum þetta mál hér við 2. umr. gengislækkunarlaganna þá, að þetta yrði ekki efnt og hraðfrystihúsafulltrúarnir hefðu lýst því yfir í viðtali við fjhn., að þeir gætu ekki borgað þetta. Þetta sama sagði ég aftur í sambandi við meðferð þessa máls, við 2. umr. þess í þessari deild. Þá hafði ég fengið upp úr sérfræðingi ríkisstj., Davíð Ólafssyni, að 2.71 ættu þeir raunverulega að geta greitt og það væri það, sem ætlazt væri til, og ég spurði að þessu, ég auglýsti eftir þessu. En ríkisstj. hafði vaðið fyrir neðan sig, og þorði ekkert að segja, hvað raunverulega ætti að reikna þarna út.

Það er gefið, hvað um er að ræða. Gengislækkanirnar hafa alltaf orðið útvegsmönnunum, fiskimönnum sjálfum, til tjóns, og svo koma kröfurnar frá þeim á eftir um hækkanirnar. Nú segir hæstv. sjútvmrh., að þetta sé svo afskaplega einfalt, maður þurfi ekki að vera mikill stærðfræðingur, — og ég skal viðurkenna, að ég er ekki mikill stærðfræðingur, — til þess að geta skilið, hvað þetta er auðvelt. En mér finnst nú, að ef útvegsmennirnir fá að greiða á tveimur árum það, sem þeir annars hefðu átt að greiða á einu, þá séu það eitthvað svipaðar uppbætur, skulum við segja, eða byrðaléttir, eins og hæstv. sjútvmrh. orðar það, eins og t.d. ef verkamaður, sem hefur lagt í að kaupa sér íbúð, í staðinn fyrir að eiga að borga hana á t.d. 20 árum, þá fái hann að borga hana á 40 árum. Heildarupphæðin er nákvæmlega sú sama, hvort sem menn borga t, d. aðeins 2½% af andvirðinu eða menn borga 5% af andvirðinu, en í öðru tilfellinu er það borgað upp helmingi fljótar en í hinu. Svo framarlega sem ríkisstj. munar ekki nokkurn skapaðan hlut um að létta byrðar manna á þennan máta, eins og gert hefur verið og hæstv. sjútvmrh. telur sjálfsagt gagnvart útvegsmönnunum, því þá ekki að lofa öðrum þeim, sem eiga að borga heildarupphæðir í landinu, t.d. þeim, sem eiga að borga heildarupphæðir eins og andvirði íbúða, báta, nýrra togara núna, — þeir fara kannske upp í 35 millj. eftir síðustu ráðstafanir ríkisstj., — að borga þetta bara á helmingi lengri tíma? Það eru víst ekki neinar uppbætur og ekki neitt, sem er í því falið fyrir menn. Ég vildi þess vegna aðeins skjóta þessu að hæstv. ráðh., hvort við mættum kannske eiga von á því næst gagnvart útgerðinni, án þess að það kosti nokkurn nokkuð, að stofnlánin yrðu t.d. tvöfölduð, að heildarupphæðir eins og t.d. 35 millj. fengi maður að borga á 40 árum í staðinn fyrir 20 eða jafnvel á 20 í staðinn fyrir 10 eða eitthvað þess háttar, og allt saman þetta væri bara ósköp einfalt stærðfræðidæmi, sem hver maður ætti að geta reiknað, og í því væru engar uppbætur. Nei, hæstv. sjútvmrh. kemst ekki fram hjá því, að það að losa menn við byrði eða að létta eina byrði er nákvæmlega sams konar aðferð og bæta upp, bara framkvæmd ofur lítið öðruvísi. Ef t.d. yrði létt svona og svona miklu af söluskattinum hér í landinu núna og vöruverðið fengi að lækka eitthvað þess vegna, fyndist verkamönnum það svipað og kauphækkun, ef það væri létt af þeim slíkri byrði, þannig að ef hæstv. ríkisstj. hugsar sér að fara út á þessa leið að fara að létta byrði manna á þennan máta, þá gæti ég trúað, að við gætum afskaplega auðveldlega leyst allar þær vinnudeilur, sem í uppsiglingu mundu vera á Íslandi.

Svo vildi ég aðeins minna hæstv. ráðh. á, að þetta gerir ríkisstj. núna á þriðja mánuði, eftir að hún hefur sett efnahagslöggjöfina. Hún hefur sjálf tekið fram, að þetta mundi standa, svo framarlega sem afli væri sæmilegur. Nú höfum við haft einhvern bezta afla, sem komið hefur um langt skeið. Samt álítur ríkisstj. nauðsynlegt að fara út í uppbætur. Sumir bátar hafa nú aflað — ég held tvöfalt á við það, sem þeir hafa aflað áður, a.m.k. í ýmsum verstöðvum, þó að það eigi ekki við alls staðar. Þegar ríkisstj. álítur nú nauðsyn að gera breytingu á sínu efnahagskerfi, þegar aflinn er upp á hið bezta, hvað mun þá verða, ef hann verður lakari? Hvers konar byrðalétti eigum við þá von á gagnvart útvegsmönnum og hraðfrystihúsum?

Svo sagði hæstv. sjútvmrh. að lokum, að það hafi ekki verið leitað til verkamanna um bætur. Ojæja. Hverjir eru það þá, sem borga þetta? Er það ekki einn aðili fyrst og fremst, sem leitað hefur verið til um bætur fyrir þetta allt saman, þeir sem verða að borga alla dýrtíðarhækkun ríkisstj. án þess að fá nokkra uppbót fyrir það? Þar er ekki verið að létta byrðarnar. Þar er verið að hækka verðið dag frá degi og án þess að mönnum sé gefinn nokkur möguleiki á því að fá nokkra dýrtíðaruppbót, án þess að mönnum sé gefinn nokkur möguleiki á því að fá að borga á lengri tíma lánin sín en áður var eða það, sem þeim bar að borga, heldur íþyngt á allan hátt. Ég er hræddur um, að verkamönnum hafi þótt og launþegum öllum nokkuð skarplega til þeirra leitað af hálfu hæstv. ríkisstj. Þess vegna held ég, að það væri nú betra fyrir hana að viðurkenna strax, að kerfi hennar væri að brotna, heldur en reyna að berja höfðinu við steininn og þora ekki að kalla þær uppbætur, sem nú er byrjað að veita, því eðlilega og rétta nafni, sem þær koma til með að bera í framtíðinni.