25.04.1960
Sameinað þing: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

Landhelgismál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þá hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir, að svo framarlega sem þessi brtt. verði samþykkt, muni fulltrúar Íslands í Genf, ráðherrarnir, sem þar eru, greiða atkvæði með till. (Gripið fram í.) Var það ekki rétt? (Gripið fram í.) Hefur hæstv. forsrh. alls ekki minnzt á þetta við þá, þegar hann talaði við þá í London? (Forsrh.: Jú, jú, en það getur allt breytzt frá degi til dags, það getur komið nýtt viðhorf.) Hans hugmynd var sem sé þetta, að þegar hann talaði við ráðherrana, fékk hann þá tilfinningu, að þeir mundu greiða atkvæði með tillögunni. (Forsrh.: Ég fékk þá skoðun, að þeir mundu gera það, af því að þeim bæri að gera það, og það er mín skoðun, að þeim bæri að gera það.) En voru þeir ekki mjög ákveðnir í þessu? (Forseti: Ekki samtal.) Það var hæstv. forsrh., sem gerði sig sekan um samtal. Sem sé, það liggur sem sagt fyrir, að það er skoðun forsrh., að ráðherrarnir í Genf muni, svo framarlega sem íslenzka brtt. verður samþykkt, greiða atkv. með þeirri till. Bandaríkjanna og Kanada á eftir, svo framarlega sem þeim snýst ekki einu sinni hugur enn þá, án þess að íslenzka ríkisstj. hér heima eða utanrmn. Alþingis fái nokkurn skapaðan hlut að vita um það.

Þetta var það, sem ég spurði um, og þetta var það svar, sem ég vildi satt að segja sízt fá. Mér sýnist þetta svar þýða, að um allan heim verði þetta lagt þannig út, að svo framarlega sem brtt. Íslands verður samþykkt í Genf og íslenzku ráðherrarnir síðan greiða atkvæði með till. Kanada og Bandaríkjanna, þá hafi farið fram samningar milli Bandaríkjanna annars vegar og Íslands hins vegar um þetta. Ég er hræddur um, að hvað svo sem hæstv. forsrh. sver af sér í þeim efnum, þá verði þetta sú almenna skoðun í veröldinni viðvíkjandi afstöðu ráðherranna, sem eru suður í Genf.

Það mundi m.ö.o. þýða, að við sláum 12 mílna landhelginni, sem við erum búnir að vinna, út úr höndunum á okkur og göngum inn á sex plús sex, með ákveðnum sögulegum rétti til tíu ára, sem þó vissar þjóðir, sem við vonumst til að við mundum teljast til, eigi að geta sloppið við að öllum líkindum, svo framarlega sem ákveðinn gerðardómur fellst á það.

Ég vil vekja athygli á því, að við erum búnir að vinna 12 mílna fiskveiðilandhelgi handa Íslandi, og það getur enginn máttur í veröldinni tekið þá 12 mílna fiskveiðilandhelgi héðan í frá frá okkur. Meira að segja brezki flotinn, þó að hann kæmi hingað aftur og þó að hann héldi hér áfram að fiska, þá heldur hann það ekki út. Það er dýr sá fiskur, sem hann hefur veitt hérna þetta rúma ár innan okkar landhelgi.

Við erum búnir að vinna 12 mílurnar, við erum búnir að vinna 12 mílna fiskveiðilandhelgina, og við erum með því að greiða atkvæði með tillögu Bandaríkjanna og Kanada að slá því út úr höndunum á okkur að þessu leyti.

Hæstv. forsrh. vill lítið gera úr því, hvað við sláum út úr höndunum á öðrum fiskimannastéttum eða öðrum fiskimannaþjóðum. Ég talaði hér um fiskveiðilandhelgi áðan, en ekki pólitíska landhelgi. Það er vitanlegt, að t.d. Sovétríkin, sem hafa 12 mílna pólitíska landhelgi og fiskveiðilandhelgi, eru fær um að sjá um sína landhelgi, og þau munu vafalaust ekki breyta því neitt, hvað sem samþykkt verður í Genf. Og við gátum fyllilega staðið við á því stigi að lýsa því yfir, að við mundum ekki beygja okkur fyrir neinu minna en 12 mílna fiskveiðilandhelgi, meðan allar aðrar þjóðir veraldarinnar hefðu ekki beygt sig fyrir slíku, þannig að það er engin ástæða til þess að fara að koma með slík pólitísk stórvandamál hér inn í.

Sú samþykkt, sem gerð verður í Genf, breytir engu í þeim efnum. Hún breytir eingöngu gagnvart Íslandi og spilar út úr höndunum á Íslandi hlut, sem við vorum búnir að vinna. Það að fá viðurkenningu Bandaríkjanna og Bretlands á sex plús sex með sögulegum rétti og gerðardómi, það er ekki það, sem við höfum verið að berjast fyrir. Við erum búnir að vinna sigur í því máli að tryggja 12 mílna fiskveiðilandhelgi fyrir Ísland, sem verður ekki skert í reyndinni, og við erum að spila því út úr höndunum á okkur með því að samþykkja þessa till. Bandaríkjanna og Bretlands.

Hæstv. forsrh. talaði um Davíð og Golíat. Það var rétt, Davíð lagði Golíat, en hann hljóp ekki til hans og gekk í lið með honum á eftir og gaf honum einhvern sögulegan rétt, og það er einmitt það, sem við erum að gera og eiga svo undir alþjóðlegum gerðardómi, að hve miklu leyti verði viðurkennt, t.d. á þeim grundvelli, að við lifum eingöngu af fiskveiðum eða svo að segja eingöngu.

Ég vil bara segja hæstv. forsrh.: Ef við værum búnir að vinna okkur 12 mílna fiskveiðilandhelgi núna, hreina og beina, og við værum orðnir stóriðjuþjóð, sem framleiddi stóriðjuafurðir meiri partinn af öllum okkar útflutningi eftir 10–20 ár, þá yrði samkvæmt ykkar samningi litið á það, að við værum ekki lengur fyrst og fremst háðir fiskveiðum. Það er verið að gera hér vitleysu, verið að spila út úr höndunum á Íslandi sigri, sem við erum búnir að vinna og hefur þýðingu fyrir okkur um alla framtíð, bara vegna þess að Bandaríkin og Bretland liggja í okkar fulltrúum og vegna þess að þessir fulltrúar okkar, ráðherrarnir þarna, eru svo næmir fyrir áróðrinum frá hendi þessara stórvelda. Við höfum fengið að kynnast því í fleiri málum en þessu, hvers konar gunguskapur á sér þar stað. En við héldum þó a.m.k., að þegar Ísland átti í hlut, þá mundi þetta ekki verða gert. Þess vegna er ekki til neins að fara að koma hér inn í með einhver mál viðvíkjandi þeim ríkjum, sem hafa 12 mílna pólitíska landhelgi, þau munu sjá um hana. Bandaríkin diktera þeim ekki neitt.

Það er um að ræða Ísland og þær fiskimannastéttir, sem eru hérna í nágrenni við okkur, sem hafa litið til okkar sem forustumanns í þessu, og ég held, að hæstv. forsrh. hafi áreiðanlega fengið hugmynd um, að Ísland hefur vaxið í áliti fyrir sína baráttu gagnvart Bretunum. Okkar stefna hefur verið sú allan tímann og margyfirlýst að vinna okkur 12 mílna landhelgina alveg umsvifalaust og umdeilulaust, og því erum við raunverulega búnir að. Allar þjóðir virða þetta nema Bretar, og þeir eru að þreytast á því. Þrái okkar Íslendinga verður meiri en þrái Bretans. En það, sem við höfum verið að hugsa um þar fyrir utan, það var að vinna okkur rétt til viðurkenningar vegna þess, hve mikið við værum háðir fiskveiðum, á landgrunni utan 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Það er það, sem við höfum verið að miða við, og því er algerlega spilað út úr höndunum á okkur með þessu. Nú erum við að semja um sérréttindi innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi, reyna að tryggja okkur það, í staðinn fyrir að það, sem við höfum áður sett okkur og flutt meira að segja till. um tvívegis í Genf, það var að reyna að tryggja okkur rétt utan 12 mílnanna, þannig að bæði hvað snertir afstöðu með höfuðreglu og hvað snertir bardagaaðferð í einstökum atriðum, þá er það rangt, sem hér hefur verið gert, og ofan á það bætist svo, að þetta setur að mínu áliti blett á okkar heiður.

Ég ætla ekki að fara að taka upp umræður við hæstv. forsrh. viðvíkjandi því, sem hann minntist á hér, viðvíkjandi stórveldunum í þessum efnum, en það situr ekki á ríkisstj. Íslands að fara að sveigja að þeim ríkjum, eins og t.d. Sovétríkjunum, sem hafa verið að berjast fyrir 12 mílna landhelgi, bæði fiskveiðilandhelgi og annarri. Það eru þau ríki, sem fyrst hafa orðið til að viðurkenna okkar 12 mílna fiskveiðilandhelgi, og þeirri viðurkenningu erum við raunverulega að reyna að slá út úr höndunum á okkur með þessari framkomu.

Ég mundi einlæglega óska þess, en ég heyri það á öllu, að á því munu ekki vera miklir möguleikar, að hæstv. ríkisstj. sæi að sér í þessu máli, gæfi okkar fulltrúum í Genf fyrirskipun um að taka þessa brtt. til baka, en ella, þótt hún yrði samþykkt, að greiða atkv. á móti till. Bandaríkjanna og Kanada, því þó að sú till. félli á okkar atkvæði á eftir, till. Bandaríkjanna og Kanada, þá þýddi það, að við hefðum 12 mílna fiskveiðilandhelgina okkar örugga, — og 12 mílna fiskveiðilandhelgin er að sigra í heiminum.