03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3621 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er af frásögnum dagblaða, hafa brezkir landhelgisbrjótar tekið sér það fyrir hendur nú síðustu dagana að hefja veiðar út af Snæfellsnesi. Eftir frásögnum blaðanna í morgun hefur sá atburður gerzt þar um hádegi í gær, að einn togarinn gerði sér leik að því, að bezt verður séð, að eyðileggja veiðarfæri þriggja báta frá Ólafsvík og fór svo nærri þeim bátum, að ekki var hans dyggð að þakka, að ekki varð tjón bæði á bátum og mönnum.

Afleiðingarnar af þessum atburði eru m. a. þær, að mótorbáturinn Jökull frá Ólafsvík missti þarna öll net sín, er í sjó voru, og mótorbáturinn Glaður missti tvær af sínum netatrossum og Jón Jónsson eina.

Eftir því sem upplýst er í dagblaðinu Morgunblaðinu í dag, mun þetta eignatjón nema a.m.k. um 180 þús. kr., auk þess sem aflinn er þar ekki metinn, en í netum þeim, sem mótorbáturinn Jón Jónsson náði, var mikill afli, eða 22 smálestir, og náði hann þó ekki nema 4/5 hlutum af netunum. Framhald hefur svo orðið það, að þeir Ólafsvíkurbátar og vafalaust Akranesbátar, sem þarna stunda veiðar líka, hafa orðið að flytja sig af veiðisvæðunum, þó að afli væri þarna með ágætum, vegna þessa ofbeldis brezkra togara. Hér er um mjög alvarlegan atburð að ræða, því að ég held, að ég muni fara þar rétt með, að til þessa hafi brezkir togarar yfirleitt ekki verið inni á þeim svæðum, sem bátarnir hafa verið að veiðum á, og er því frekja þeirra og ofbeldi orðið meira nú en áður. Þar við bætist, að t.d. vélbáturinn Jökull verður nú að liggja bundinn í höfn, vegna þess að honum hefur ekki tekizt að útvega sér veiðarfæri, og mun það taka einhvern tíma, fyrir utan það beina tjón.

Í tilefni af þessum atburði vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert í þessu máli? Í öðru lagi: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera í sambandi við þetta ofbeldi og þessa nýju stefnu Breta í landhelgisbrotum sínum? Mun hún láta sér nægja að senda kurteis mótmæli? Í þriðja lagi: Eru líkur til þess, að það fjárhagstjón, sem þessir bátar hafa orðið fyrir, verði þeim bætt, og ætlar ríkisstj. að gangast í það mál?

Í tilefni af þessum atburði rifjaðist upp fyrir mér, að þann 13. nóv. 1958 var hér til umræðu á hv. Alþingi álíka atburður, árekstrar brezks togara og íslenzks varðskips. Hæstv. núv. forsrh., Ólafur Thors, hóf þá máls hér á þingi út af þeim atburði, og komst þá hæstv. forsrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við Íslendingar erum í bandalagi, við erum í fóstbræðralagi við margar aðrar þjóðir. Ein hin voldugasta þeirra í Evrópu, Bretinn, segir við okkur: Ef við fáum ekki að brjóta lög ykkar þau lög, sem þið eigið líf ykkar undir að í heiðri séu haldin, þá hikum við ekki að við að drepa ykkur.“

Ég þarf ekki mörgum orðum við þetta að bæta, sem hæstv. núv. forsrh. sagði þá, vegna þess að af þeim orðum er ekkert skorið. En ég vil þó bæta þessu við og spyrja: Til hvers höfum við verndara, ef við eigum ekki að vera verndaðir, þegar á okkur er ráðizt? Er ekki tími til kominn, að við gerum vestrænum vinum okkar það ljóst, að við skiljum samvinnu á þann veg, að hún eigi að vera okkur til styrktar, en að vinirnir, samstarfsmennirnir, eigi ekki að meina okkur að vinna fyrir okkar daglega brauði, svo sem þjóðin hefur gert og vill gera, — eigi ekki að sýna okkur eins greinilega og auðið er alla þá lítilsvirðingu, sem hægt er að sýna einni þjóð, og beita við hana valdi hins sterka og stofna lífi atorkumanna í hættu, þegar þeir eru að daglegum störfum til þess að draga björg í bú sín og sinna og þjóðarinnar í heild?