19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3632 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Frá því var sagt í fréttum útvarpsins s.l. laugardagskvöld, að á föstudaginn langa hefðu togarar íslenzkir lagt leið sína inn á það svæði, þar sem bátar úr Grindavík leggja net sín, og frá því var skýrt, að þessir togarar hefðu þar valdið usla, sem næmi mörgum milljónum króna. Síðar hefur þetta verið skýrt nánar, að það tjón, sem þarna hafi orðið, muni nema hálfri þriðju milljón kr., þó svo, að ekki muni öll kurl komin þar til grafar. Um þetta athæfi, sem þarna hefur átt sér stað, þarf ekki að hafa mörg orð. Um það hljóta allir hv. alþm. að vera samdóma. Það athæfi, sem þarna hefur átt sér stað, er í einu orði sagt þjóðarskömm. Um það þarf hér ekki að fjölyrða. En frá því var jafnframt skýrt í þessum fréttum útvarpsins og haft eftir formönnum úr Grindavík, að ég ætla, að þeir höfðu fyrir föstudaginn langa haft samband við forstjóra landhelgisgæzlunnar og að því er mér skildist talið, að hann hefði gefið vilyrði um eða jafnvel fyrirheit um, að netanna mundi verða gætt. Og jafnframt var, að ég held, frá því skýrt, að þessir hinir sömu menn hefðu haft samband við skipherra á einu tilteknu varðskipi og hann hefði jafnframt gefið fyrirheit um það, að netasvæðisins skyldi gætt þennan dag. Nú hefur það hins vegar ekki verið gert, að því er bezt verður séð. Netasvæðisins var ekki gætt þennan dag.

Nú geng ég út frá því sem gefnu, að hæstv. dómsmrh. eða dómsmrn. hafi þegar í stað rannsakað þennan þátt málsins, sem snýr að undirmönnum þeirra í landhelgisgæzlunni, og af því tilefni vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort það sé rétt hermt í fréttum útvarpsins, sem sagt var um viðtöl formanna í Grindavík við landhelgisgæzluna, forstjóra hennar og skipherra eins tiltekins varðskips. Í öðru lagi: Ef það er rétt, hverju sætir það þá, að netasvæðisins var ekki gætt, og hver ber þar ábyrgð á, forstjóri landhelgisgæzlunnar eða skipherrann á þessu tiltekna varðskipi? Og í þriðja lagi: Hefur dómsmrh. gert eða hyggst hann gera einhverjar ráðstafanir gagnvart þeim opinberu starfsmönnum, sem hér eiga hlut að máli? Ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh. geti gefið þingheimi upplýsingar um þessi atriði. Það eru atriði, sem þjóðin á heimtingu á að fá að vita sem gleggst skil á. Hún á heimtingu á að fá að vita, ef hér er um að ræða einhverja vanrækslu hjá þessum opinberu starfsmönnum, sem þarna er um að ræða. En ef það er ekki og ef eitthvað er mishermt í þessu viðtali, sem ég hef greint hér frá, og þeir eru þar hafðir fyrir rangri sök, þá eiga þeir menn, skipherrann og forstjóri landhelgisgæzlunnar, heimtingu á því, að þeir séu þegar í stað hreinsaðir af því.