19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þegar ég hreyfði mínum fsp., lét ég þess getið, að ég ætlaði ekki að fara að ræða þetta mál hér almennt, og ég ætla ekki að fara að gera það heldur nú. En þó hafa komið hér fram atriði hjá hæstv. ráðherra, sem gætu gefið tilefni til þess einmitt að ræða þetta mál meira almennt, því að það er auðvitað rétt, sem hann benti á, að það fer ekki hjá því, þegar svona atburðir ske, að þá fari maður að hugsa um, hvort raunverulega hafi verið ástæða til þess og hversu heppilegt það sé og hvort það hafi ekki alltaf verið skaðlegt, eins og við margir höfðum haldið, að leyfa íslenzku togurunum að veiða innan við þau mörk, sem sett voru. Og það fer ekki hjá því, að atburður sem þessi geti leitt til þess, að þau ákvæði verði tekin til endurskoðunar. En um það mál er ekki ástæða til að ræða hér frekar á þessu stigi, að mér finnst, það þarf nánari athugunar við. Og ég skil það ákaflega vel hjá hæstv. ráðh., að hann sé ekki við því búinn hér að gefa yfirlýsingar um það, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð á því fjártjóni, sem þarna hefur átt sér stað.

Ég verð að segja það, að eftir því sem sagt hefur verið frá þessu, þá getur í mínum huga ekki verið neinn vafi á því, að þarna er um skaðabótaskyldan verknað að ræða, vegna þess að skipstjórarnir á togurunum eru auðvitað skaðabótaskyldir, þó að það sé ekki ásetningur hjá þeim að eyðileggja netin, heldur eru þeir skaðabótaskyldir, ef það er gáleysi hjá þeim, og það getur engum, held ég, blandazt hugur um, að þarna hefur átt sér stað, svo að vægt sé að orði kveðið, stórkostlegt gáleysi. Það er þess vegna að mínum dómi enginn vafi á því, að skipstjórarnir á togurunum bera ábyrgð á því tjóni, sem þarna hefur átt sér stað, og vitaskuld er það ekki nema réttmætt, að þeir séu sóttir til saka og látnir greiða bætur. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að þeir geta verið misjafnir borgunarmenn, og þess vegna hefur það sína þýðingu, hvort ríkissjóður ber þarna bakábyrgð á eða ekki. En það endurtek ég, að ég skil það mætavel hjá hæstv. ráðherra, að hann sé ekki við því búinn á þessu stigi málsins að gefa yfirlýsingar um það efni. Á hinn bóginn beindi ég til hans alveg ákveðnum spurningum um alveg ákveðin atriði, sem ég taldi víst að hann væri búinn að kynna sér, og það kom líka á daginn, að það hafði hann þegar gert. Hann hafði þegar kallað fyrir sig forstjóra landhelgisgæzlunnar og athugað málið. Ég dreg ekki í efa, að það geti verið erfitt að gæta netasvæðis hér fyrir ströndum landsins, það efast ég ekki um að sé rétt hjá forstjóra landhelgisgæzlunnar. Það má vel vera, að það sé svo erfitt, að það sé enginn vegur fyrir landhelgisgæzluna að taka það að sér. Ég spurði ekki að því, hvort það væri erfitt, — ég spurði að því, hvort það væri rétt haft eftir Grindvíkingum, að forstjóri landhelgisgæzlunnar hefði gefið þeim vilyrði eða fyrirheit um að gæta netasvæðisins. Hafi hann gert það, átti hann að gera það eða láta gera það, hvort sem það er erfitt eða ekki erfitt. Og það er þetta, sem ég spurði um, og það er þetta, sem hæstv. ráðherra hlýtur fyrst og fremst að hafa spurt forstjóra landhelgisgæzlunnar um, og þess vegna hlýtur hæstv. ráðherra að geta svarað þessu alveg skýrt og skorinort: Er það rétt, að forstjóri landhelgisgæzlunnar hafi gefið fyrirheit um það, að netasvæðisins skyldi gætt þennan dag? Og sömuleiðis hlýtur hann að hafa kannað, hvort það sé rétt, að skipherra á tilteknu varðskipi hafi gefið þetta fyrirheit.

Um þetta er spurt, og mér skildist óbeint af því, sem hæstv. ráðherra sagði, að það mundi vera á þá leið, að forstjóri landhelgisgæzlunnar kannaðist ekki við að hafa gefið þetta fyrirheit. Ef það er svo, þá á það að koma alveg hreint fram, að það sé þannig, að forstjóri landhelgisgæzlunnar kannist ekki við það að hafa gefið þetta fyrirheit, og ef það er svo, þá á vissulega rannsókn í málinu að fara fram. Hæstv. ráðherra sagði, að rannsókn færi fram í málinu. Ég spyr þá af því tilefni og breyti þá ofur lítið fyrri spurningu minni: Er þá rannsókn á þessum þætti málsins byrjuð, og hver er sú rannsókn og hvar fer hún fram?