23.03.1960
Sameinað þing: 28. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

Varamenn taka þingsæti, rannsókn kjörbréfa

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Út af því, sem frsm. kjörbréfanefndar sagði, vil ég taka það fram, að ég man ekki eftir því, að um þetta mál væri rætt sérstaklega á síðasta þingi, þegar þessi mál voru til meðferðar. Það getur vel verið eigi að síður, að það hafi verið gert, og hugsanlegt, að það hafi þá verið í þeirri þingdeild, þar sem ég átti ekki sæti. — En út af því, sem hv. frsm. sagði um, að kjörbréfanefnd hefði athugað kjörbréfið og virzt það vera í fullu lagi, sem ég efa ekki, þá vil ég benda á það, að að því er varðar gildi kosninga, þá er Alþ. þar æðra öllum kjörstjórnum, og eins og kunnugt er, þá er það fyrsta verk Alþ. hverju sinni að úrskurða um kjörbréf og allt, sem kosningu varðar, þegar nýkjörið þing kemur saman, svo að ég tel, að hv. kjörbréfanefnd eigi hverju sinni að athuga fleira en aðeins kjörbréfið, sem fyrir liggur, hún eigi einnig að athuga um allt, sem kosninguna varðar yfirleitt.