05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

Varamenn taka þingsæti, rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur komið saman á fund til þess að athuga um kosningu Ingvars Gíslasonar lögfræðings, 1. varamanns Framsfl. í Norðurlandskjördæmi eystra, en það er óskað eftir því, að hann taki sæti á Alþingi nú um skeið í stað Garðars Halldórssonar, 4. þm. Norðurl. e.

Það er sá galli á, að það hefur ekki legið fyrir kjörbréfanefndinni formlegt kjörbréf. Hins vegar hefur legið fyrir kjörbréfanefnd svo hljóðandi símskeyti frá formanni yfirkjörstjórnar í Norðurlandskjördæmi eystra:

„Samkvæmt gerðabók yfirkjörstjórnar vottast, að Ingvar Gíslason lögfræðingur, Akureyri, er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra.

F.h. yfirkjörstjórnar, Kristján Jónsson.“

Þar sem allmörg fordæmi munu vera fyrir því, að kosning hafi verið tekin gild, þó að kjörbréf hafi ekki verið lagt fram með öðrum hætti en hér er gert með símskeyti, þá leggur kjörbréfanefndin til, að kosningin sé tekin gild og þetta kjörbréf samþykkt.