20.11.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

Stjórnarskipti

Forsrh. ( Ólafur Thors ):

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekkert af því, sem háttvirtir formenn andstöðuflokka ríkisstj. hér hafa mælt, sem kemur mér á óvart. Og það er ekki meining mín að ætla að svara einstökum atriðum úr þeirra ræðum. Ég hygg að sönnu og viðurkenni, að álit þessara virðulegu alþm. og flokka þeirra skipti mjög miklu máli sem og allar undirtektir þeirra undir þær aðgerðir, sem ríkisstj. telur þörf á að gera. En enn meira máli skiptir þó, hverjum augum þjóðin lítur á málin og hvern liðstyrk þjóðin, almenningur í landinu, vill ljá þeim úrræðum, sem fram verða borin.

Ríkisstj. mun, svo fljótt sem auðið er, gefa þingi og þjóð skýrslu um alla höfuðþætti efnahagsmálanna, og hún heitir á menn, eins og hv. síðasti ræðumaður, formaður Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins, að halda vöku sinni, einmitt að halda vöku sinni og kynna sér þessar upplýsingar. Þekkingin á öllu efnahagsástandinu er frumskilyrði þess, að menn geti gert sér fulla grein fyrir þeim mismunandi úrræðum, sem til greina geta komið, og valið eða hafnað á þeirri örlagastundu, sem nú er fram undan.

Ég endurtek, að það er einlæg ósk ríkisstj., að almenningur í landinu haldi vöku sinni og kynni sér málin og dæmi á grundvelli þekkingarinnar.

Sjálfsagt eigum við allir þá ósk heitasta í þessum efnum að þurfa ekki að leggja neinar kvaðir á almenning. Það verða ýtarlegar rannsóknir að leiða í ljós, hvort hjá því verður komizt, og svo er það þjóðarinnar undir forustu Alþingis að gera sér grein fyrir, ef um engan góðan kost er að ræða, hvern kostinn þá skuli velja.

Varamaður tekur þingsæti. Aldursforseti (GíslJ): Mér hefur borizt bréf, dags. í Reykjavík 2. nóv. 1959, svo hljóðandi:

„Vegna fjarveru minnar erlendis leyfi ég mér að óska þess, að varamaður verði kvaddur til þingsetu fyrir mig fyrst um sinn, er Alþingi kemur saman.

Virðingarfyllst,

Jóhann Hafstein.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Varamaður Jóhanns Hafsteins, fyrsti varamaður þm. Sjálfstfl. í Reykjavík, Davið Ólafsson, er því mættur hér, og verður kjörbréf hans að rannsakast í kjördeild.

Rannsókn kjörbréfa.

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Magnús Jónsson, 6. þm. Norðurl. e., og Skúla Guðmundsson, 1, þm. Norðurl. v.

Þessu næst var þm. skipað í kjördeildir, og urðu í

1. kjördeild:

AGb, BFB, BjörnJ, BP, EggÞ, GíslJ, GÞG, HermJ, DÓ, JÁ, JSk, JP, KGuðj, KJJ, ÓB, ÓTh, PÞ, SI, SE, ÞÞ.

2. kjördeild:

AuA, ÁB, BGr, BF, BBen, EðS, EystJ, FRV, GeirG, GíslG, GuðlG, GÍG, GJóh, IngJ, KK, MJ, ÓlJ, PS, SÁ, SkG.

3. kjördeild:

AGl, AÞ, BK, BGuðm, EI, EOI, EmJ, FS, GH, GunnG, GTh, HÁ, HS, HV, JÞ, JR, LJós, MAM, RH, SÓÓ.

Fyrir lá að rannsaka kjörbréf allra alþingismanna. Skiptu kjördeildir með sér kjörbréfum, svo sem lög mæla fyrir, þannig að 1. kjördeild hlaut til rannsóknar kjörbréf þeirra þm., sem voru í 3. kjördeild, 2. kjördeild kjörbréf þm. í 1. deild og 3. kjördeild kjörbréf þm. í 2. deild.

Var gert hlé á fundi í 40 mínútur, meðan kjördeildir störfuðu.