08.02.1960
Efri deild: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

39. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í lögum um almannatryggingar, nr. 24 29. marz 1956, 24. og 25. gr., er svo ákveðið, að iðgjöld til almannatrygginganna skuli ákveða fyrir áramót. Nú lá það í loftinu fyrir síðustu áramót, að verulegar breytingar mundu verða gerðar á almannatryggingalögunum og það mundi e.t.v. hafa nokkur áhrif á ákvörðun iðgjaldsins. Það var þess vegna þá gripið til þess ráðs að gefa út brbl. 23. des. s.l., sem heimiluðu að fresta ákvörðun iðgjaldanna, þangað til fjárlög fyrir 1960 hefðu verið sett. Þetta er svipuð aðferð og áður hefur verið höfð, þegar líkt hefur staðið á. T.d. 1958, þegar sama óvissa var ríkjandi um áramótin um þetta efni, þá voru einnig sett brbl., sem gáfu heimild til að fresta ákvörðuninni, þangað til fjárlög yrðu ákveðin.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram til staðfestingar á þessum brbl. Málið er svo einfalt, að ég tel, að það þurfi ekki frekari skýringar við, en ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.