05.02.1960
Neðri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

48. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það hefur þegar verið að því fundið hér í þessum umræðum, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa gert sér nokkra grein fyrir því, hvaða megináhrif sú mikla gengislækkun, sem hér er lagt til að samþykkja í þessu frv., muni hafa á þjóðarbúskap okkar sem heild. Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) gerði hér nokkra grein fyrir því í ræðu sinni, hvað hann teldi, að telja mætti alveg öruggt, að hinar nýju álögur, sem lagðar yrðu á landsmenn, næmu mikilli fjárhæð á ári, og hann komst að þeirri niðurstöðu, að hinar nýju álögur gætu ekki verið undir 1200–1300 millj. kr. Í sambandi við þessi ummæli hv. þm. kom hér næstur á eftir honum í ræðustólinn hæstv. viðskmrh. og taldi, að hér væri um blekkingar að ræða, því að hér væri fyrst og fremst um það að gera, að ákveðnar fjárhæðir væru færðar á milli aðila í þjóðfélaginu. Og hann gat þess einnig í leiðinni, að honum hefði verið sagt, — ég tók svo eftir, að eftir mér hefði verið haft í Þjóðviljanum í dag, — að þessar álögur væru 2000 millj. kr. Það er auðvitað með öllu rangt, að Þjóðviljinn hafi haft þetta eftir mér, enda hef ég aldrei sagt neitt í þessa átt. En það var annað, sem ég reyndi að gera grein fyrir og ég skal einmitt endurtaka hér. Ég reyndi að gera mér nokkra grein fyrir því, hvers konar áhrif þessi gengisbreyting hefði á okkar fjármálakerfi sem heild, og miðaði þá við það, sem áður hefði verið gert í þessum efnum, og við það, sem nokkuð augljóslega er hægt að festa hendur á.

Mínar forsendur voru þær, að heildargjaldeyrissala þjóðarinnar eða gjaldeyrisnotkunin hefur verið á undanförnum árum í kringum 1600 millj. kr. Þessi gjaldeyrir hefur verið seldur út, nokkur hluti af honum með 30% álagi, mikill meiri hlutinn hefur verið seldur með 55% álagi, en svo hafa verið sérstakir aukatollar og skattar á nokkrum hluta innheimtir í formi innflutningsgjalda, en það hefur verið á hátollavörunum. Nú á hins vegar að breyta þessu svo, að það á að selja allan þennan gjaldeyri, — og þar miða ég aðeins við sömu fjárhæð og verið hefur, — nú á að selja þennan gjaldeyri með álagi, sem nemur 135%. Þegar þessar staðreyndir um sölu gjaldeyrisins áður og um sölu gjaldeyrisins nú eftir þessu frv. eru bornar saman, þá sjá allir, að út úr því dæmi kemur, að gjaldeyríssalan hækkar í verði fyllilega um 1200 millj. kr. Þetta er auðreiknað dæmi. Hækkunin nemur þarna á gjaldeyríssöluverðinu í kringum 1200 millj. kr., vegna þess að í hvorugu dæminu þarf raunverulega að taka tillit til hins sérstaka hátollavöruálags, því að hátollavöruálagið á að vera í báðum tilfellunum hið sama í krónutali. Við þessa hækkun, 1200 millj. kr., sem gjaldeyririnn á að hækka í verði um, er svo óhætt að bæta þeim ca. 400 millj., sem alveg óumdeilt á að leggja á í nýjum tollum og sköttum og fjárlagafrv. ber með sér. Þá er heildarverðhækkunin sýnilega þegar komin upp í 1600 millj., þ.e. hækkunin á verðlaginu. Við þetta á svo auðvitað einnig að bæta þeirri hækkun, sem verður á smásöluálagningu í krónutali, þeirri hækkun, sem verður í krónutali á heildsöluálagningu, og þeirri hækkun, sem óhjákvæmilega verður í sambandi við innlenda þjónustu og af þessu mun einnig leiða. Ég hef sagt, að það eru engar líkur til þess, að þessi hækkun verði í krónutali minni en 400 millj., og geri ég þá ráð fyrir miklum mun minni álagningu í prósentu en hingað til hefur gilt bæði í heildsölu og smásölu. Ég tel því alveg ótvírætt, að sú mynd sé rétt sem lágmark, að breytingin á gjaldeyrisskráningunni þýði það, að gjaldeyrissalan og það verðlag í landinu, sem tengt er beint við hinn erlenda gjaldeyri, hlýtur að hækka í krónutali um lágmark 2000 millj. kr. Ég hef hins vegar tekið fram, að þetta þýðir ekki sama og álögur á landsmenn, og að því leyti til hafði hæstv. viðskmrh. rangt eftir mér, enda bar hann við sögusögnum.

Mér var það alveg ljóst, að vissir aðilar í þjóðfélaginu, sem eiga að borga nokkurn hluta af þessari miklu hækkun, eiga að fá hækkaðar útflutningsuppbætur. Það eru t.d. þeir allir, sem verða að borga hækkaðar rekstrarvörur, en eiga að fá hækkað fiskverð til að standa á móti þeim. Þá fjárhæð vitanlega verður að draga frá þessari upphæð, þegar á að finna, hvað eru hinar raunverulegu álögur eða það, sem landsmenn verða að rísa undir, t.d. með óbreyttu kaupgjaldi í krónutali. Þannig er vitanlega hægt að finna þá upphæð. Og ég er alveg sannfærður um það, að sú upphæð, sem hv. 1. þm. Austf. gerði hér grein fyrir í ræðu sinni, er sízt of há, að telja sem beinar álögur 1200–1300 millj. kr.

Annars væri í þessu efni fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. vildi útskýra það, hvað hún telur þá fjárhæð vera mikla, sem nú eigi að flytja yfir til útgerðarinnar í landinu í sambandi við rekstrarvörur. Þar getur ekki heldur mikið faríð á milli mála. Nú á að greiða á allan útflutning í kringum 135% til hækkunar, en talið er, að áður hafi verið greitt í kringum 95%. Það er því greinilegt, að hér mun ekki fara fjarri því að vera um 40% hækkun að ræða til útgerðarinnar í heild, miðað við gjaldeyrisverð, en gjaldeyrisverð útfluttra sjávarafurða hefur verið í kringum 1000–1100 millj. kr. Hér getur því ekki skakkað mjög miklu. 400–500 millj. geta færzt yfir til útgerðarinnar í þessu tilfelli. En auðvitað hefði verið eðlilegt, að hæstv. ríkisstjórn hefði einmitt gert ráð fyrir þessu og birt þjóðinni þetta dæmi, af því að ég efast ekkert um það, að hagfræðingarnir hafa reiknað þetta dæmi út. Og ég segi það af nokkurri reynslu af viðskiptum mínum við þessa hagfræðinga, að svona dæmi eins og þetta, þetta er eitt af þeim fáu dæmum, sem þeir kunna að reikna rétt. Þeir geta reiknað svona dæmi, sem byggist á hreinni talnameðferð. En um leið og útreikningur þeirra, eins og ég mun víkja að nánar siðar, snertir að einhverju leyti kunnugleika og þekkingu á atvinnulífi landsins og aðstæðum í framleiðslulífinu, þá fer allt um koll hjá þeim, því að þar þekkja þeir varla mun á framstafni og afturstafni á skipi. Og þá er vitanlega ekki von á góðu í þeim efnum. Þannig er líka alveg greinilegt, að þeirra till. falla algerlega um koll, þegar þær eru bornar saman við staðreyndirnar.

Í sambandi við þessi atriði verður að fara fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún birti útreikning sinn um hin almennu áhrif, sem af gengislækkuninni muni verða í sambandi við verðlagsmálin í landinu. Það hefði líka verið ástæða til þess, að ríkisstj. hefði gert grein fyrir því, hvaða áhrif verða í sambandi við þá miklu eignatilfærslu, sem hlýtur að eiga sér stað og hæstv. forsrh. minntist á að mundi eiga sér stað á milli sparifjáreigenda annars vegar og svo þeirra, sem skulda, hins vegar. Samkv. opinberum skýrslum kemur í ljós, að sparifé landsmanna í bönkum og sparisjóðum og innlánsdeildum er rúmlega 2400 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir því, að hið almenna verðlag í landinu hækki sem afleiðing af þessum ráðstöfunum um 25%, en það ætla ég að flestir játi að sé algert lágmark, þá er greinilegt, að sparifé rýrnar í verði um 1/4, eða m.ö.o.: verðgildi sparifjárins í landinu í heild minnkar þá um 600 millj. kr., en á sama tíma flyzt sams konar fjárhæð á óbeinan hátt sem eignaauki yfir til þeirra, sem skulda. Ég efast ekkert um það, að hagfræðingarnir hefðu getað reiknað út þetta dæmi, og þeir hefðu átt að birta það, og það hefði verið ástæða til þess að láta það fylgja með í grg. þessa frv. til þess að gera landsmönnum grein fyrir því, hvaða meginbreytingar það eru í fjárhagskerfi landsins, sem gera á með þessu frv.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum sérstaklega að hæstv. viðskmrh. í sambandi við ræðu þá, sem hann flutti hér, áður en ég sný mér að málínu að öðru leyti, nema að því leyti til, sem hægt er að ræða um þetta mál í beinu samhengi víð það, sem hann sagði.

Hæstv. viðskmrh, ræddi nokkuð um galla þess uppbótakerfis, sem við höfum búið við, — það gerði hæstv. forsrh. reyndar líka, — og svo komu rökin. Jú, hann minntist, eins og maður hefur þekkt frá upplýsingum hans stundum í Alþýðublaðinu, á hið margfalda gengi. En það er einmitt háttur málgagns hæstv. viðskmrh, að leika sér að því að telja upp hið margfalda gengi krónunnar, og þá er leikurinn í því fólginn að telja upp, hvað margs konar álögur séu í gangi á hinum ýmsu vörutegundum, sem eru fluttar til landsins, og þetta margs konar gengi er síðan talið upp í Alþýðublaðinu, og fyrir stuttu var talað um, að áður hefðu verið hér 13 gengi á krónunni. En þessi sami hæstv. viðskmrh. er auðvitað ekki að geta þess núna, að það á að halda öllum þeim stigum, sem áður voru í gildi í sambandi við mismunandi álag á innflutning. Hann getur því haldið áfram að reikna út, hvað sé margs konar gengi á innfluttum vörum til landsins, ef hann heldur sér við það áfram að kalla það gengi á krónunni, verðið, sem kemur út, þegar varan er flutt til landsins og komin hér í smásölu með mismunandi tollum og mismunandi sköttum frá hálfu ríkisins. Ríkisstj. hefur tilkynnt, að hún ætli að borga niður verð frá hinu skráða gengi á sykri, kaffi og einhverjum fleiri vörum. Hvaða gengi verður þar á krónunni? Hún getur þess einnig, að áfram eigi að vera allir sömu gjaldaflokkarnir óg áður voru í gildi á hátollavörunum. Sumir eiga að bera 40% gjald, aðrir 30%, enn aðrir 22% og ég held sá fjórði 15%. Allir sömu gjaldaflokkarnir eiga að vera áfram. Mismunastigin eiga að vera áfram. En hæstv. ráðherra gæti haldið þessum leik enn þá lengur áfram með sitt mismunagengi, með því að taka alla tollskrána og taka alla þá mismunandi tolla, sem eru á hinum ýmsa innflutningi til landsins, og fengið þannig út enn þá fleiri gengi á krónunni í innflutningi. Auðvitað er slíkt sem þetta hreinn skollaleikur og á ekkert skylt við gengisskráningu og hefur aldrei átt. Hér hefur aðeins verið um það að ræða, að ríkisvaldið hefur á hinum ýmsu tímum ákveðið, að ýmsar vörur, sem eru fluttar inn til landsins, skuli af hálfu hins opinbera skattleggjast á mismunandi hátt, og sá siður hefur verið hafður hér sem í mörgum öðrum löndum, að skattlagningin hefur verið allmiklu vægari á brýnustu nauðsynjavörum, en allmiklu hærri á ýmsum þeim vörum, sem kallaðar hafa verið lúxusvörur, og í þessu frv. er í þeim efnum engin meginbreyting gerð. En af málflutningi þeirra Alþfl.-manna mætti halda, að næsta skrefið hjá Alþfl. verði það til þjónkunar við Sjálfstfl. að afnema öll svona mismunagjöld líka og segja: Það verður vitanlega að leggja eitt og sama innflutningsgjald á allar vörur, hvaða nafni sem nefnast.

Það eru ekki mörg ár síðan hæstv. viðskmrh. stóð hér í þessum ræðustóll og lýsti því þá yfir, að hann teldi söluskattinn sérstaklega ósanngjarnan og óeðlilegan, af því einmitt að hann væri þess eðlis, að hann legðist með jöfnum þunga á allar vörur, nauðsynlegar vörur og ónauðsynlegar. Af því var Alþfl. þá á móti söluskatti. En nú er byrjað að toga hann inn á þá braut að vera með því að auka slíkan skatt, og kannske verður hann togaður í næsta skrefi inn á þá braut að gera alla skattinnheimtuna í landinu að einum allsherjarsöluskatti, sem á að hvíla með jöfnum þunga á brýnustu nauðsynjum og mesta lúxus.

Nei, hið margfalda gengi í sambandi við innflutninginn hefur ekki verið neitt sérstakt í sambandi við uppbótakerfið, sem menn tala um. Það, sem var sérstakt í sambandi við það fyrirkomulag, sem í gildi hefur verið í þessum efnum, var það, að útflutningurinn naut ekki sömu uppbóta frá þessu uppbótakerfi í öllum greinum. Það er rétt. Sá háttur var hafður á að auka við útflutningsuppbæturnar til þeirra starfsgreina, sem sannanlega gátu ekki borið sig með hinum almennu uppbótum. En þá koma hagfræðingarnir og þar í hópi hæstv. viðskmrh. með sína speki og segja: Ja, þetta er einn aðalgallinn einmitt á uppbótakerfinu. Þetta veldur öllu misræminu í framleiðslu þjóðarinnar. Menn sækjast til þess að framleiða meira og meira af þeirri vöru, sem þeir fá meiri uppbætur út á, en framleiða minna af hinni vörunni, sem þeir fá minni uppbætur út á. — Og auðvitað má vel hugsa sér það, að menn, sem ekkert þekkja til staðhátta, en aðeins horfa á þessi atriði: meiri styrk úr kerfinu til þessarar greinar heldur en hinnar, haldi, að þetta muni leiða til þess, að allir sæki í hinn aukna styrk. En þeir, sem eitthvað þekkja til, vita, að þetta er á allt annan veg. Ég skal taka dæmi af þessu, sem sýnir mjög glögglega, hvernig þetta er í framkvæmd.

Í okkar framleiðslulífi háttar þannig til, að við söltum allmikið af síld, sem við veiðum að sumarlagi fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi. Þannig háttar líka til, að við söltum síld, sem er veidd hér að haustlagi suðvestanlands. Það kemur í ljós, að síldin, sem við veiðum fyrir Norðurlandi, er miklu feitari og jafnstærri síld og miklu betri vara á erlendum markaði en síldin, sem veiðist hér að vetrarlagi. Sú síld er miklu magrari og lakari á hinum almenna markaði. Fullsöltuð tunna af Norðurlandssíld er seld út úr landinu fyrir 400 kr. tunnan og jafnvel þar yfir, en fullsöltuð sams konar tunna af Suðurlandssíld, af vetrarsíldinni hérna, hefur verið seld fyrir 298 kr. tunnan, eða við skulum segja 300 kr. á móti 400 kr. Nú er það svo í framleiðslulífinu, að það kostar jafnmikið að fá fólk til þess að salta Suðurlandssíldina og Norðurlandssíldina, og meira að segja hefur það verið þannig, að það hefur kostað meira að salta Suðurlandssíldina heldur en Norðurlandssíldina, vegna þess að hún var jafnsmærri og hún var söltuð á köldum tíma og úti, og það þurfti jafnvel að borga meira fyrir að láta síldina í tunnuna þar en fyrir norðan. Og það kom líka í ljós, að það var ekki hægt að fá sjómennina eða útgerðarmennina til þess að afla síldarinnar hér fyrir sunnan í reknet í aðalskammdeginu fyrir sama verð á kg og þeir fengust til þess að veiða sumarsíldina á björtum sumardegi í herpinót fyrir Norðurlandi. Það þurfti einnig að borga þeim hærra verð. Framleiðslukostnaðurinn á hverja tunnu hér var því á allan hátt mun meiri en framleiðslukostnaðurinn á hverja tunnu fyrir norðan. Þegar þessi hlutföll stóðu svona, var spurningin um það: Átti ríkið í báðum tilfellum að koma og segja: Við látum jafnháar uppbætur á Norðurlandssíldina hlutfallslega á 400 kr. og við ætlum að láta hlutfallslega á 300 kr. fyrir sunnan eða raunverulega meiri uppbætur í krónutali? –Þær uppbætur, sem hafa verið veittar, hafa allan tímann verið þannig, að þær hafa verið færri í krónum á hverja tunnu af Suðurlandssíld en af Norðurlandssíld, og allan tímann hefur afkoman raunverulega verið miklu lakari við að framleiða þá síld heldur en hina.

En svo koma menn, sem þekkja ekki nokkurn skapaðan hlut til framleiðslunnar, og segja: Þetta skapar hættulegt misræmi. Það er mjög mikil hætta á því, að allt vinnuafl þjóðarinnar streymi í aukna styrkinn og framleiði ekki Norðurlandssíld, heldur hlaupi suður og framleiði bara Suðurlandssíld á haustin. — Hvílíkir skynskiptingar, segi ég, í sambandi við þær aðstæður, sem búið er við, að láta sér koma þetta til hugar! Þetta segja vitanlega engir og hugsa engir út frá þessu nema þeir, sem hér þekkja ekkert til. Þjóðfélaginu hefur aldrei stafað nein hætta af þessu, að hér skekktist neitt í framleiðslulífi landsins. En hættan var sú, sem við stóðum frammi fyrir á vissu tímabili, að með þeim almennu útflutningsuppbótum, sem greiddar voru, fékkst enginn maður til þess að framleiða Suðurlandssíld, það fór enginn bátur hér á sjó, það fékkst enginn til þess að salta síldina hérna, og við töpuðum mörgum tugum og hundruðum millj. kr. á því, að veiðin var ekki dregin á land, þó að við ættum bátana og fólkið til þess. Og á meðan hæstv. núv. forsrh. var enn ekki kominn undir algert áhrifavald þeirra manna, sem hagfræðingar nefnast og þekkja ekkert til hins lifandi gangs í framleiðslulífi landsins, þá sá hann það af eigin hyggjuviti, að það þurfti að bæta Suðurlandssíldinni upp þennan mismun, og þá var það hann, sem stofnaði til þess að veita sérstakar aukabætur, til þess að hægt væri að framleiða Suðurlandssíld, og svo jók hann þær, þegar þess þurfti með, af því að hann sagði: Framleiðslan verður að vera í gangi. — En nú er hann auðvitað slitinn úr sambandi líka, ef hann hefur trúað þessum dátum, sem þekkja ekkert til í framleiðslulífi landsins, og hefur haldið, að þeir færu hér með rétt mál. En það mætti kannske nota eitthvað af þeirra tillögum, þessara manna, ef þeir væru dæmdir til þess fyrst að fara í framleiðslulífið eins og eitt ár, áður en þeir færu að kenna stjórnarvöldum landsins, hvernig eigi að gera ráðstafanir í sambandi við atvinnulíf þjóðarinnar.

Önnur kenningin er sú, að þessar mismunauppbætur séu stórhættulegar í sambandi t.d. við veiði á smáfiski og stórum fiski.

Það er búið að haga þannig til hjá okkur í nokkuð mörg ár, að við borgum nokkru hærri bætur úr uppbótakerfinu út á smáfiskskíló en út á stórfiskskíló, og kenning hagfræðinganna er þessi: Framleiðsla þjóðarinnar beinist í auknum mæli í þá átt að veiða smáfisk. — Það er eins og þeir haldi, að menn renni færinu niður og panti smáfisk, en sá stóri megi ekki koma á, af því að menn vilji fá fisk, sem gefur styrk, en ekki hinn, sem gefur minni styrk. Það eru alveg furðulegar kenningar, sem geta komið upp hjá þessum mönnum.

Nei, það hefur ekkert sótt í það horfið hjá okkur á undanförnum árum, að menn hafi lagt sig sérstaklega fram um það að afla smáfisks, þó að þessar uppbætur hafi verið nokkru hærri. Staðreyndin er nefnilega sú, að það er svo margfalt dýrara að vinna þennan fisk, að sá mismunur, sem hefur þarna verið lagður fram úr uppbótakerfinu, gerir hvergi nærri að bæta upp þann aukna vinnslukostnað, sem er á þessum smáa fiski, borið saman við að vinna þann stóra. Og af því hefur líka reynslan verið sú, og það þekkja allir þeir, sem hafa eitthvað komið nærri framleiðslunni, að þrátt fyrir alla styrkina á smáfiskinum koma þeir, sem eiga að kaupa fiskinn, og bjóða yfirverð á stóra fiskinn og borga hann alltaf hærra verði en hinn. Þeir vita, hvað þeir eru að gera.

Það hefur því sannarlega ekki sótt neitt í það horfið, að þessar mismunabætur leiddu til einhvers skakka í framleiðslulífi landsins, sem væri heildarhagkerfi þjóðarinnar hættulegur. Allt slíkt er eintómur þvættingur. Hins vegar er sú hætta, þegar þannig er komið um útflutningsuppbæturnar, — því að það er vitanlega alveg eins hægt að kalla það útflutningsuppbætur, þegar útgerðin í landinu á að fá 135% uppbætur á hið skráða gengi, eins og á meðan hún hefur 94.5%, — þegar þessar uppbætur eru orðnar jafnar yfir alla línuna, greiða á jafnar uppbætur á hina dýrari Norðurlandssíld eins og hina ódýrari Suðurlandssíld og eins á aðrar greinar, og þegar uppbæturnar eru nú líka miðaðar við það, eins og sagt er í þessu frv., að bátur á vetrarvertíð geti borið sig, þá er vitanlega hætta á því um þá báta, sem gerðir eru út á þeim tíma, sem er lakari til rekstrar en sjálf vetrarvertíðin, þegar mest aflast, að þá treysti menn sér ekki til að gera út á hinum tímum ársins. Og þá er líka hætta á því, ef uppbæturnar hafa verið ákveðnar nú eðlilega t.d. fyrir Norðurlandssíld, að þá leggi enginn í að framleiða Suðurlandssíld, og þá geti orðið skarð fyrir skildi í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Það er þessi hætta, sem alltaf er á ferðum, ef menn gæta ekki að því, að vitanlega er hið hagstæða fyrir þjóðina að nota skipin til hins ýtrasta og veiða það, sem við getum mögulega að landi dregið með beztu móti hverju sinni. En sjónarmið peninganna hefur stundum verið þannig, og það er mjög hætt við því, að það verði þannig áfram, að sjónarmið peninganna verði þau að segja: Nú eru komin góð skilyrði til rekstrar þá 2–3 mánuði, sem mest aflast, þá græðum við og leggjum það til hliðar. Hinn tímann er vafasamt um gróða og sennilega tap, þá leggjum við skipunum. Við geymum bara gróðann, förum ekki að róa út á vafasaman sjó á hinum tímunum. — En við það mundi auðvitað heildarframleiðsla þjóðarinnar minnka, gjaldeyristekjurnar mundu minnka, þjóðartekjurnar mundu minnka. Svo segja þessir háu herrar, að óarðbærar framleiðslugreinar séu sérstaklega styrktar. Hvaða óarðbærar framleiðslugreinar eru það, sem hafa verið sérstaklega styrktar? Er það kannske veiðin á Suðurlandssíldinni, sem ég nefndi. Er það óarðbært fyrir þjóðina að draga þann afla á land og vinna hann til útflutnings? Hvaða greinar eru það, sem eru svona óarðbærar, sem hér hafa verið styrktar í gegnum þetta styrkjakerfi? Það væri gaman að fá það upplýst.

Í þessu sambandi sagði hæstv. viðskmrh., að þetta uppbótakerfi, sem nú þarf vitanlega að mála út með þeim ósköpum, að það hafi hér allt ætlað vitlaust að gera, hafi t.d. leikið togaraútgerðina þannig, sagði hæstv. viðskmrh., að þar væri að leita orsakanna til þess, að ekki hefði verið hægt að endurnýja togaraflota landsmanna á undanförnum árum. Ég tel, að hæstv. viðskmrh. ætti að vera heldur betur að sér í þessum efnum en ýmsir aðrir hagfræðingar, sem um þessi mál fjalla. En veit hann kannske ekki, að það hefur verið búið þannig að togaraútgerðinni á undanförnum árum, að það hefur enginn stofnlánasjóður verið til, svo að menn gætu fengið úr honum lánaða eina einustu krónu til þess að kaupa nýja togara? Það hefur verið meginástæðan til þess, að enginn togari hefur verið keyptur. Menn hafa getað nokkuð auðveldlega keypt sér fiskibát með þeim kjörum, að menn hafa átt alveg víst á borðinu að fá úr stofnlánasjóði fiskveiðasjóðs 67% af kostnaðarverði bátsins. En hvað hafa menn getað fengið, sem hafa ætlað að kaupa togara? Ekki eina einustu krónu. Þar hefur enginn stofnlánasjóður verið til.

Ég fullyrði það: Hefðu togaraútgerðarmenn getað fengið sams konar kjör og bátaútgerðarmenn hafa getað fengið á undanförnum árum til stofnlána, þá hefðu þeir verið búnir að kaupa togara, hefði þeim þá ekki verið bannað að kaupa þá. En svo langt hefur það einmitt gengið nú síðustu árin og gekk m.a. í tíð Alþýðuflokksstjórnarinnar, að þá voru útgerðarmenn, sem vildu fá að taka erlend lán til þess að kaupa togara og fengu ekki til þess leyfi.

Nei, það er mikill misskilningur og sýnir líka aðeins þekkingarleysi í þessum efnum að halda því fram, að uppbótakerfið hafi orsakað það, að togaraflotinn hafi ekki endurnýjazt nú síðustu árin.

Það er t.d. enginn vafi á því, að árið 1958 var að meðaltali til hagstæðara í rekstri hjá togaraflotanum heldur en hjá bátaflotanum. Hagnaður að meðaltali í rekstri hjá togurum landsins var þá meiri en hjá bátunum. Á því ári var stofnað til allmikilla kaupa á bátum, en lítilla í sambandi við togarana. Það var því vitanlega ekki þessu uppbótakerfi um að kenna, heldur því, að það hafði ekki verið byggður upp neinn stofnlánasjóður fyrir togarana og ríkið hefur ekki fengizt til þess að taka erlend lán þess í stað til þess að gera það kleift, að togararnir væru keyptir með þeim hætti.

Þá vék hæstv. viðskmrh. í ræðu sinni að tillögum þeim, sem fram hefðu komið í vinstri stjórninni á sínum tíma, þegar þar var deilt um leiðir í efnahagsmálunum. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hann sæi nú enga ástæðu til þess að þegja lengur en hann væri búinn að gera um afstöðu Alþfl. í sambandi við gengislækkun. Þegar hann er búinn að þegja um það, sem rétt var í þeim málum, á fjórða ár, þá ætlar hann að leysa frá skjóðunni og segja mönnum: Það var alveg rétt, sem þið hafið verið að bera á okkur allan tímann. Við höfum alltaf viljað gengislækkun. — Þegar hann hefur sloppið í gegnum tvennar kosningar, haldandi allt öðru fram og allir hans frambjóðendur og margsinnis er þrætt fyrir það, hvað var hið sanna í þessu, — þegar hann er sloppinn í gegnum þær, þá má koma fram á Alþingi og segja: Ég sé enga ástæðu til þess að þegja lengur. Nú er bezt að segja hið sanna. — En yfir hverju ætlar hann að þegja núna? Hvað er það núna, sem á að þegja um. af því, sem nú er að gerast? Hvað er það nú, sem á að dylja fyrir mönnum? Það er alveg greinilegt, að það kemur ekki allt út úr pokanum. Nú á að taka einhverja nýja þögn fram yfir næstu kosningar í sambandi við það, sem nú er verið að gera. En um leið og hæstv. ráðh. viðurkenndi það, að strax haustíð 1956 hefði Alþfl. viljað framkvæma almenna gengislækkun, en við Alþýðubandalagsmenn hefðum ekki viljað samþykkja það, þá tók hann sér síðan fyrir hendur að reyna að sanna það, að margsinnis eftir þennan tíma hafi verið samþykkt gengislækkun og við Alþb.-menn m.a. verið þátttakendur í því.

Auðvitað var frásögnin álíka sönn og frásögnin hefur verið af hinu atriðinu þessi þrjú árin, sem eru liðin. Fyrst sagði hann, að í desembermánuði 1956 hafi verið lagt á sérstakt yfirfærslugjald, sem raunverulega hafi þýtt nýja gengislækkun. En hann skaut því undan, að þetta 16% yfirfærslugjald var látíð koma í staðinn fyrir annað gjald, sem var fyrir, framleiðslusjóðsgjaldið, sem var innheimt á nákvæmlega sama hátt, en bara í gegnum tollinn, en þetta átti að innheimta í gegnum banka, af því að haldið var fram, að þetta væri einfaldari aðferð. Hér var því engin efnisbreyting og orsakaði enga vöruverðshækkun í landinu, en hæstv. viðskmrh. sá ekki ástæðu til þess að skýra á þennan hátt frá þessu.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að í marzmánuði 1958, þegar allmiklar deilur voru með þeim stjórnarflokkum, sem þá voru í landinu, um þær leiðir, sem fara ætti í efnahagsmálunum, þá hefðu verið lagðar fram ýmsar tillögur, og hann gat um þær till. eða þær ábendingar, sem við gerðum á því frumstigi málsins, sem umræður stóðu þá á. Þær hafa í einu og öllu staðfest það, að við höfum verið samkvæmir sjálfum okkur í þeim efnum. Við höfum verið á móti gengislækkun, og þær tillögur, sem við gerðum þá, voru á allan hátt þannig, að þær eru í fullu samræmi við okkar málstúlkun í þessum efnum allan tímann síðan. En hann reyndi sérstaklega í þeim efnum að leggja áherzlu á það, að í till, okkar hefðum við bent á, að á árinu 1958 mætti auka hátollavöruinnflutninginn um 10% frá því, sem hafði verið á árinu 1957, og svo það, að við hefðum bent á, að draga mætti úr fjárfestingu með því að áætla í fjárfestingaráætlun ársins, að útgefin fjárfestingarleyfi væru í kringum 20% minni en þau voru árið áður. En hvernig lá þetta fyrir á þessum tíma? Jú, allir vissu, að tekjur útflutningssjóðs höfðu verið byggðar upp á því, að hann átti sérstaklega að njóta tekna í sambandi við háan toll á hinum svonefndu hátollavörum. En sú breyting varð á árinu 1957, að þá var stórkostlega dregið úr innflutningi á þessum hátollavörum. Árið 1956 var varið til innkaupa á hátollavörum 265 millj. kr. En hvað var varið miklu árið 1957, fyrsta starfsár okkar? Þá var ekki varið 265 millj., heldur 170 millj. Svo mjög féll niður innflutningurinn á hátollavörum þetta ár. Þetta vitanlega varð til þess, að tekjur útflutningssjóðs af þessum lið urðu allmiklu lægri en áætlað hafði verið. Og þá var það, sem við lögðum til, að það væri eðlilegt að auka þennan innflutning mjög hóflega eða um 10%, þannig að hann gæti orðið kringum 187 millj. kr.

Hvernig hefur svo verið háttað innflutningi á þessum vörum, eftir að núv. hæstv. viðskmrh. hafði með innflutning á þeim að gera? Taldi hann það óguðlegt að flytja inn fyrir 187 millj. kr. þessar hátollavörur? Nei, hann gerði áætlun upp á 219 millj. kr., og árið 1958 var innflutningurinn 190 millj. og árið 1959 er hann sagður í þessu frv. hafa verið í kringum 190 milljónir.

Það var því alveg greinilegt, að okkar till. í þessum efnum voru byggðar á því, að það var vitanlega með öllu óhugsandi að gera fyrst ráð fyrir því, að útflutningssjóður ætti að fá tekjur af innfluttum hátollavörum, en svíkjast svo með öllu um að flytja þær inn, enda var sannleikurinn sá, að sérstaklega var kvartað undan því, að þessar vörur vantaði á markaðnum, og margar þessar hátollavörur eru vörur, sem eru óhjákvæmilegar í almennum rekstri landsmanna og eru engar lúxusvörur. Eða hvaða manni kemur til hugar að halda því fram, að allir varahlutar til allra bifreiða í landinu séu eintóm lúxusvara? Þarna er um stærsta innflutningsliðinn að ræða í sambandi við hátollavörurnar. Og mjög mikið af byggingarvörum er þarna líka.

Þegar við gerðum það að okkar tillögu í marzmánuði 1958, að draga mætti nokkuð úr fjárfestingunni, veita eilítið minna af fjárfestingarleyfum en áður hafði verið veitt, undir hvaða kringumstæðum voru þessar tillögur settar fram? Jú, samstarfsflokkar okkar í ríkisstjórn voru að leggja til, að byggingarvöruinnflutningurinn til landsins, timbur, járn og sement, yrði hækkaður úr 16% yfirfærslugjaldi upp í 90%. Það átti að draga úr fjárfestingu í landinu með því að gera allar byggingarvörur og fjárfestingarvörur margfalt dýrari en þær höfðu áður verið. Þá var það, sem við bentum á: Ef menn vilja draga úr fjárfestingunni, þá er miklu eðlilegra, að við áætlum heildarfjárfestinguna nokkru minni en hún hafði verið áætluð, og draga þá vitanlega úr þeim liðum fjárfestingarinnar, sem helzt mega bíða og saka minnst þjóðarframleiðsluna sem heild. Við þetta voru okkar tillögur miðaðar. Fjárfestingin 1957 hafði náð hámarki sínu og hefur aldrei orðið hærri síðan, og hún fór heldur minnkandi 1958 og 1959, og það var aðeins eðlilegt, að við hefðum stjórn á því, hvernig þessi fjárfesting drægist saman með hóflegum hætti, eins og við lögðum til.

Eitt atriði enn minntist hæstv. viðskmrh. á í sambandi við þessar tillögur, en það var sú tillaga okkar, að það lán, sem ríkisstj. þá var búin að ákveða að taka í Rússlandi í sambandi við skipakaup, yrði ekki 50 millj. kr., eins og það var, heldur skyldi lánið verða 100 millj. kr., og greinilega tekið fram, að öllu láninu skyldi varið til skipakaupa, og sérstaklega tekið fram, að nokkrum hluta þess ætti að verja til þess að kaupa togara. Það var hið óguðlega í þessum efnum.

Þá sagði hæstv. viðskmrh. í ræðu sinni, að með efnahagsráðstöfununum frá tíð vinstri stjórnarinnar í maímánuði 1958 hafi verið gert ráð fyrir því, með þeim breytingum, að vísitalan mundi hækka um 19 stig, en launþegar hafi ekki fengið bætt í lögunum nema sem samsvaraði 9 stigum, eða 5% kauphækkun, og á þennan hátt höfum við Alþb.-menn m.a. samþykkt 5–6% kjaraskerðingu. Þetta heitir nú að halla sannleikanum svolítið á hliðina. Hið rétta var það, að Alþfl. og samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. báðir lögðu til, að þessi kjaraskerðing færi fram. Við neituðum því algerlega og kröfðumst þess, að það, sem væri ekki bætt launþegum með 5% launahækkuninni, sem jafngilti 9 vísitölustigum, yrði þeim bætt í gegnum vísitölukerfið, og samningar stóðu þannig í fullu gildi, að launþegar áttu að fá þessa vísitöluhækkun 1. des. En það var ekki fyrr en í stjórn Alþfl., að þessum stigum var rænt af launþegunum í landinu og kaupið lækkað. Það var því stjórn Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl., sem samþykkti þessa kauplækkun, en við Alþb.-menn aldrei.

Við sögðum það, Alþb.-menn, að við teldum það hið mesta óráð, sem gert var með efnahagsráðstöfununum í maí 1958, að fara þá inn á hækkunarleiðina. Við vorum áður margsinnis búnir að benda á, að það var vel hægt að halda áfram þeirri stöðvunarstefnu, sem reynt hafði verið að halda þá um skeið. Það var hættulegt að fara inn á hækkunarleiðina. Við bentum á það, að afleiðingar hækkunarleiðarinnar mundu verða almennar kauphækkanir í landinu, sem hlytu að fylgja á eftir hækkun hins almenna verðlags. En samstarfsmenn okkar vildu ekki trúa þessu. Og það var líka greinilegt, hvað þeir höfðu í huga. Þeir ætluðu fyrst að skella á verðhækkununum, en strika svo út úr vísitölunni ákveðin stig á móti, þannig að komið yrði fram kauplækkuninni.

En hvað er það, sem raunverulega er nýtt í því kerfi, sem lagt er til að lögleiða með þessu frv.? Það er ekki, eins og ég hef verið að benda á, að afnám uppbótakerfisins sé í sjálfu sér aðalatriðið. Það á áfram, bara með eilítið öðrum hætti, að láta útflutninginn hafa tilteknar útflutningsuppbætur. Það eiga allir að fá jafnt, bæði þeir, sem ekki þurfa á uppbótum að halda, og hinir, sem þurfa á þeim að halda. Eftir þessu frv. á áfram að halda þeim hluta uppbótakerfisins, sem byggist á öllum niðurgreiðslunum, áfram á að greiða niður verðlagið í landinu, ekki aðeins um 265 millj. á ári, eins og áður var, heldur er nú gert ráð fyrir að greiða niður verðlagið í landinu um rösklega 300 millj. kr. á ári. Og nú á að stíga það skrefið, að það á ekki lengur að binda sig við að borga niður verðlag á innlendum framleiðsluvörum, á landbúnaðarvörum. Nú á einnig að fara að borga niður verð á innfluttum vörum. Og ég minnist þó þess að hafa lesið það eftir hina vísu hagfræðinga, að ekkert væri eins hættulegt fyrir rétta verðmyndunarpólitík í landinu eins og það að fara að borga niður hið erlenda innflutningsverð á vörum. En nú á að taka upp þann sið. Og áfram á að halda öllum þeim tekjustofnum, sem eldra uppbótakerfið gerði ráð fyrir. Og áfram á að halda því ákvæði, að það eiga að vera mismunandi gjöld á innfluttum vörum til landsins. En það, sem er nýtt í því kerfi, sem nú á að taka upp, er þetta, að jafnhliða hinni miklu gengislækkun á nú að setja í lögin það ákvæði að afnema vísitöluuppbót á laun. Nú á að velta öllum verðhækkununum yfir á launþega, án þess að þeir geti fengið nokkrar bætur í staðinn. Nú á að koma í veg fyrir það, að laun hækki í landinu sem afleiðing af hækkuðu verðlagi. Þetta er nýtt, og þetta er líka eitt aðalatriðið í hinni nýju stefnu. Raunverulega á að binda nú bæði kaup sjómanna og verkamanna og annarra launþega og láta þá taka á sig dýrtíðaraukninguna. Og svo er hitt einnig nýtt í þessu kerfi, að nú er sérstaklega boðuð ný stefna í sambandi við peningamál þjóðarinnar. Það er boðað, að það megi t.d. alls ekki auka lán út á aukna framleiðslu hjá þjóðinni. Það á að takmarka endurkaupalán bankanna við það, sem endurkaupalánin eru nú, svo vitlegt sem það er. Hvernig mundi það t.d. fara í framkvæmdinni, ef menn ætluðu að halda sér við það, ef svo vel vildi til hjá okkur, að við settum í verulega aflahrotu? Við skulum t.d. hugsa okkur, að það hlypi síld í Hvalfjörð, eins og gerzt hefur áður, eða þá að mikið veiddist af sumarsíld, eins og jafnvel bezt hefur gerzt áður. Auðvitað mundi það þá gerast eftir okkar efnahagskerfi, að við tökum þá til og notum öll okkar fiskiskip, við notum öll þau veiðarfæri, sem við eigum, við notum þann mannafla, sem við höfum, og við drögum á land mikinn afla. Við fyllum alla lýsisgeyma, við fyllum mjölskemmurnar af mjöli, við eignumst mikið af útflutningsvörum. En samkvæmt því, sem nú er lýst yfir í sambandi við hina nýju stefnu í peningamálum, má alls ekki lána eina krónu til viðbótar við þau lán, sem komin eru nú þegar, út á þessar nýju afurðir. Hvernig fer t.d. fyrir síldarverksmiðjunum í landinu? Hvernig ætla þær að borga allt hráefnið til bátanna? Og hvernig eiga bátarnir þá, ef eitthvað stendur á að borga bátunum hráefni, að borga sjómönnum sinn aflahlut? Og hvernig á að borga allan rekstrarkostnað, bæði verksmiðjanna og bátanna, ef ekki má lána eina einustu krónu út á hin auknu verðmæti, sem safnazt hafa upp? Þetta er boðað í frv., að það megi alls ekki auka í krónutali lánin, ekki einu sinni endurkaupalánin út á aukna framleiðslu. Það er jafnvel boðað í frv., að gallinn við aukna framleiðslu sé sá, að þá fari út meira kaup til þeirra, sem afla, þeir fái meiri peningatekjur í umferð og þeir geti farið að eyða þessum peningatekjum í aukna neyzlu eða í auknar framkvæmdir og skapað þannig verðþenslu í þjóðfélaginu.

Auðvitað vitum við, að þetta er með öllu óframkvæmanlegt. Þetta er hrein fjarstæða, sem engri peningastofnun í landinu, hversu dauð og tilfinningalaus sem hún er, mundi líðast í framkvæmd. Og ég er alveg sannfærður um það, að þó að t.d. núverandi hæstv. forsrh. leggi fram frv., þar sem þetta stendur í, að það megi alls ekki auka endurkaupalánin meira en orðið er, þó að hann leggi fram frv., þar sem þetta stendur í grg., samið af einhverjum hagfræðingum, sem þekkja ekkert til framleiðslunnar, þá mundi hann aldrei sitja í ríkisstj. upp á það að ætla að framkvæma þessa stefnu og horfa á það, að veiðin færi fram hjá. Hann mundi bara stíga yfir regluna og segja: Nú á hún ekki að gilda. — Hann veit nefnilega miklu betur, að þetta er óframkvæmanleg vitleysa. En það er miklu meira en þetta, sem er vitlaust í þessum tillögum. Og hann og aðrir, sem nokkur afskipti hafa hér haft af framleiðslu, ættu að vita betur en þeir misvitru hagfræðingar, sem gert hafa þessar tillögur. Og þeir þyrftu að átta sig betur á þeim afleiðingum, sem koma til með að verða af framkvæmd þessara tillagna.

Sú útlánaaukning, sem orðið hefur í bönkum landsins að undanförnu, hefur að vísu verið mikil, og ég efast ekkert um það, að í sumum tilfellum getur hún verið of mikil. Það hefur ekki verið ástæða til þess, að bankarnir lánuðu út eins mikið fé til einstakra hluta og þeir kunna að hafa gert. En ég er alveg sannfærður um það, að miðað við þá aðstöðu, sem er t.d. í okkar sjávarútvegi, þá þýðir ekkert að reyna fyrir neinn að neita þeirri staðreynd, að það sé þörf á því að lána sem nemur 2/3 af heildarverðmæti framleiddrar vöru úr bankakerfinu, á meðan framleiðsluvaran liggur framleidd og bíður eftir afskipun. Það er engin leið til þess, að þeir menn, sem stjórna framleiðslutækjunum á Íslandi, geti raunverulega frá sinni hálfu, eins og nú háttar, greitt stærri hluta en þennan 1/3, sem þeir eiga að greiða í sambandi við framleiðslu á þessum vörum. Það er engin von til þess. Og verði reynt að draga úr þessum lánum, þá getur það ekki leitt til annars en þess að draga úr framleiðslu á útflutningsvörum landsmanna.

En það eru hér ýmis atriði fleiri í sambandi við afkomu útgerðarinnar í landinu, sem fróðlegt væri að ræða um og fá upplýsingar um frá hæstv. ríkisstj. varðandi þetta mál. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þessi gengisbreyting kemur til með að breyta í mjög veigamiklum atriðum rekstraraðstöðu útgerðarinnar í landinu og hér verður breytt um form á ýmsan hátt. Við fundum þessa breytingu mjög greinilega árið 1950, þegar þá var stigið alveg hliðstætt skref við það, sem nú á að stíga, þegar gengislækkunin var gerð þá. Þá háttaði t.d. þannig til, að þá var talið, í marzmánuði 1950, að fiskverð til bátaflotans væri 75 aurar á kg. Nú var augljóst með gengisbreytingunni þá, að allur rekstrarkostnaður útgerðarinnar í landinu hlaut vitanlega að hækka, hækka stórlega. Og hinir vísu menn, sem þá stóðu fyrir gengislækkuninni, þeir sem þá lögðu fram í nafni hagfræðinnar langt skjal til rökstuðnings í málinu, lögðu fram útreikninga, sem sögðu: Fiskverðið getur líka hækkað úr 75 aurum á kg upp í 93 aura á kg, og ætti þá bátaflotinn að geta haldið sömu afkomu og hann bjó við áður.

En hvernig fór þetta? Hvernig breyttist fiskverðið? Það hækkaði ekki um einn einasta eyri. En útgjöldin skullu á útgerðinni. Olían hækkaði, veiðarfærin hækkuðu, vélarnar hækkuðu, skipin hækkuðu sem afleiðing af gengisbreytingunni, en fiskverðið hækkaði ekki um einn einasta eyri. Þannig fór með þá útreikninga í það skiptið.

Nú hafa menn eflaust ætlað að verða vísari, — þeir segja á einum stað í grg., að þeir hafi lært nokkuð af reynslunni í þessum efnum, og nú notfæri þeir sér þessa reynslu og þennan lærdóm. Nú er ekkert minnzt á það, hvað bátarnir eiga að fá fyrir fiskinn. Það getur þá enginn komið upp í þessa pontu eftir nokkur ár og sagt, að þeir hafi ekki fengið einn einasta eyri meira en þeir höfðu áður, eða ekki þá hækkun, sem þeim var lofað. Nú vildi ég spyrja: Hvert á fiskverðið til bátanna að vera eftir þessa breytingu? Hvert á það að vera? Hefur kannske enginn hugsað neitt fyrir því? Nú er gerð sú mikilvæga breyting að þessu leyti, að allar hinar miklu útflutningsuppbætur, hinir miklu styrkir til útgerðarinnar, sem oft hefur verið talað um, nú á að láta alla summuna ekki til bátanna, heldur til frystihúsanna og annarra þeirra, sem kaupa fiskinn af bátunum, verka hann og flytja hann út. Þeir fá alla upphæðina. Einar Sigurðsson, einn stærsti útgerðarmaður landsins og frystihúseigandi, fær nú alla þá upphæð, sem áður hefur gengið til allra þeirra báta, sem skiptu við hann, og vel það. En útgerðarmenn bátanna, sem leggja upp í fiskiðjuverin hans og önnur slík fiskiðjuver, segja: Við eigum að borga olíuhækkunina, við eigum að borga veiðarfærahækkunina, við eigum að borga hækkuð tryggingagjöld og allt það, sem leiðir af gengisbreytingunni, við verðum líka að fá að hækka okkar fiskverð. — Í þessu frv. er ekki eitt einasta orð um það að tryggja bátunum, að þeir fái eitthvað af þessari hækkun, sem hér kemur fram, — ekki eitt einasta orð. Og hvernig hefur verið gengið frá því, að hinir stóru útflytjendur, sem eru búnir að eignast fiskinn í formi útflutningsvöru, skili bátunum þeim hluta, sem bátarnir eiga að fá, að maður tali nú ekki um það, að bátarnir þá skili sjómönnunum sínum hluta af hinu hækkaða verði? Það virðist nú vera stefna stjórnarinnar samkvæmt þessu frv. að búa þannig um hnútana, að sjómennirnir skuli ekki fá neitt af hækkuninni. En maður skyldi nú halda, að bátarnir ættu að fá eitthvað.

Það er alveg augljóst, að áhrif þessa frv. verða þau gagnvart útgerðinni í landinu, að í ýmsum tilfellum mun fiskverðið beinlínis lækka til mikilla muna. Það er t.d. enginn vafi á því, að verð á einum aðalaflanum hjá vélbátaútgerðinni á Vestfjörðum, á steinbít, hlýtur að stórlækka. Þar verða menn að taka við allri hækkuninni af hækkuðum rekstrarútgjöldum, en tekjurnar eiga að lækka beinlínis í krónum. Það hafa nefnilega verið greiddar nokkrar séruppbætur út á steinbít, og nokkrar séruppbætur út á ýsu og annan þann fisk, sem veiðist á þeim tíma árs, þegar erfiðast er að gera út í sambandi við aflamagn. Þetta fiskverð hlýtur beinlínis í krónutali að lækka á kg núna, það er ómögulegt annað. Þessi lækkun kemur til með að bitna alveg sérstaklega á öllum þeim stöðum á landinu, þar sem smábátaútgerð er, þar sem sumarúthald er, en þar veiðist tiltölulega mest af smáfiski og ýsu og steinbít og öðrum slíkum fiski. Þar hlýtur að verða um stórkostlega kjaraskerðingu að ræða, einkum hjá hinum smærri framleiðendum. Á því getur enginn vafi leikið.

Í sambandi við þetta mál er ekki óeðlilegt, að nokkuð sé vikið að þeirri reynslu, sem við fengum af gengislækkunarlögunum frá 1950. Ég hef nú aðeins minnzt á afleiðinguna, sem varð í sambandi við fiskverðið til bátanna, hvernig þar fór um alla útreikninga og spádóma og hvernig þar fór um alla afkomu bátanna. En hvernig var þetta í öðrum greinum? Eins og ég sagði, sendu hagfræðingarnir frá sér þykka bók, og það vildi svo til, að einmitt núv. hæstv. forsrh. var sami maðurinn sem lagði fram það frv., og þá gat hann þess líka mjög hátíðlega eins og nú, að frv. væri afskaplega vei undirbúið og vel athugað af hinum færustu mönnum. Þess er getíð sérstaklega í grg. frv., hvað það sé vel undirbúíð. En í grg. segir, að hinir vísu menn hafi komizt að því, að afleiðingarnar af gengislækkuninni þá muni verða þær á verðlagíð í landinu, að verðlagið muni hækka um 10–11%. Og þeir geta þess þó, að þeir álíti, að þetta sé riflega reiknað og meira að segja standi nokkrar vonir til þess, eins og það er orðað, að verðhækkunin verði minni. En hvernig fór þetta með þessa útreikninga? Ég er hræddur um, að hæstv. forsrh. hafi ekki lært í þessum efnum af reynslunni frá 1950, þegar hann lét þessa hagspekinga hafa sig út í það að segja, að verðhækkunin mundi verða 10–11%. Og enn lætur hann þá hafa sig út í að segja, að nú muni verðhækkunin verða í kringum 13%. En hvernig fóru þeir með hann þá? Hvernig reyndust þeirra útreikningar þá? Gengislækkunin var samþykkt 20. marz, en í árslokin á sama ári sagði vísitalan, að verðlagið hefði hækkað um 27%. Þetta var útkoman hjá hinum vísu mönnum þá. Ef hæstv. forsrh. hefði lært af reynslunni í þessum efnum, þá hefði hann núna átt að tvöfalda rösklega spádóma þessara manna og segja ekki, að verðlagið mundi hækka um 14%, heldur segja, að það mundi hækka eitthvað yfir 30%.

En það er ekki aðeins í þessum efnum, sem við höfðum mjög áþreifanlega reynslu af því, sem var að gerast með gengislækkunarlögunum í marz 1950. Það var ekki aðeins það, að verðlagið hækkaði miklu meira en sagt var. Það var ekki aðeins það, að fiskverðshækkun varð engin, þó að henni væri lofað. En svo átti að færast fjörkippur í framleiðslu. Það fór allt á annan veg. Framleiðslan dróst beinlínis saman, og tekjur þjóðarinnar af útfluttum vörum urðu þá minnstar, 1951 og 1952. Og almennur samdráttur varð þá yfir leitt á öllum sviðum. Opinberar skýrslur sýna, að byggingar, t.d. íbúðarhúsa, drógust svo saman í landinu, að þær hafa aldrei orðið minni um margra ára skeið heldur en árin 1951 og 1952. Og síðan þá höfum við einmitt þurft að ráðast í miklu meiri framkvæmdir vegna þess samdráttar, sem þarna varð upp úr gengislækkuninni 1950. Eða hvernig fór t.d. með skipastól landsmanna, með fiskiskipaflotann á tímabilinu 1950, að gengislækkunin var gerð, og fram til 1955? Þá eignuðumst við nýja fiskibáta, sem voru samtals að stærð 3200 tonn. En þó að víð tökum lægsta viðhald á flotanum, lægsta hugsanlegt viðhald, þá hefðum við þurft að kaupa á þessu tímabili 7700 tonn. M.ö.o.: við keyptum ekki á þessum árum einu sinni nýja fiskibáta, sem nam viðhaldi flotans. Á þessu tímabili bjuggum við svo grannt í þessum efnum, að við þurftum raunverulega að éta upp bátaflota landsins. Það var sannleikurinn. Og það var þessi samdráttur, sem varð t.d. í húsbyggingum og í uppbyggingu fiskiskipaflotans, sem varð eftir gengislækkunina 1950, sem hefur einmitt kallað á það núna síðustu árin, t.d. 1957, 1958 og 1959, að þá höfum við þurft að taka af árlegum tekjum okkar miklu hærri fjárhæð en raunverulega tilheyrði þeim árum til þess að byggja í skarðið, sem myndaðist á árunum eftir 1950, eftir gengislækkunina þá. Nú höfum við þurft að fjárfesta í íbúðarhúsabyggingum margfalda upphæð á við það, sem eðlilegt hefði verið, miðað við eins árs útgjöld. Nú höfum við þurft að endurnýja fiskiskipaflotann langt fram yfir það, sem tilheyrir viðhaldi þessara ára. Nú höfum við þurft að efla fiskiskipaflotann vegna vanrækslunnar, sem varð á þessu tímabili. En einmitt þegar svona stendur á, að nú á síðustu árum er snúizt til þess að bæta fyrir syndirnar, sem urðu sem afleiðing af gengislækkuninni, þegar við þurfum nú að fjárfesta í meira lagi í íbúðarhúsabyggingum, í fiskiskipakaupum og öðrum framkvæmdum, þá segja menn: Nú eyðir þjóðin allt of miklu. — Ef hún leyfir sér að taka einhver lán nú til þessara miklu framkvæmda, þannig að nokkur halli verður á þessum árum í gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd, þá er sagt, að þetta stefni þjóðarafkomunni í voða. En sannleikurinn er sá, að einmitt sú stefna að taka nokkur erlend lán til þess að endurnýja fiskiskipaflotann og til þess að byggja upp aðrar framkvæmdir í landinu hefur hjálpað okkur til þess stórlega, frá því sem áður var, að ná einmitt greiðslujöfnuði við útlönd, ef rétt er talið fram, en ekki á jafnstórblekkjandi hátt og gert er í grg. þessa frv. og ég skal nú víkja nokkru nánar að.

Það er aðeins stutt síðan Hagstofa Íslands birti í Hagtíðindum yfirlit um greiðsluviðskiptin við útlönd á árinu 1958. Í þessu yfirliti hagstofunnar segir, að öll gjaldeyrisútgjöld þjóðarinnar á þessu ári hafi verið 1626 millj. kr., en að allar gjaldeyristekjur á þessu ári hafi verið 1536 millj. kr., eða eins og segir í Hagtíðindum: Greiðsluhalli varð sem nam 90 millj, kr.

Nú er ríkisstj. búin að fá hér upp í tölum sínum, að greiðsluhallinn á þessu ári hafi numið 208 millj. kr., sem er auðvitað alger blekking. En því er svo einnig skotíð undan, að þetta ár, þegar greiðsluhallinn samkv. skýrslu hagstofunnar var 90 millj. kr., á því sama ári jukust útflutningsbirgðir í landinu, birgðir af útflutningsvörum, um 90 millj. kr. líka. Og vitanlega er það gjaldeyrisöflun, því að það er jafngóður gjaldeyrir, þó að við eigum hann í auknum birgðum, sem aðeins skiptir nokkrum mánuðum að koma úr landi. Ef tillit er tekið til birgðaaukningarinnar af útflutningsvörum, þá kemur greinilega í ljós, að árið 1958 stóð fullkomlega undir sér. Við öfluðum á þessu ári jafnmikils gjaldeyris og öllum útgjöldum nam á því ári. Um árið 1959 er sagt í grg. þessa frv., að það liggi ekki nákvæmlega fyrir útreikningar á því, og það er rétt. Ekki hef ég getað fengið þá útreikninga enn. En eitt liggur alveg ótvírætt fyrir. Það liggur fyrir, að aflaaukning á árinu 1959 frá árinu 1958 nemur um 11%. En af sérstökum ástæðum hafa líka á árinu 1959 safnazt fyrir útflutningsafurðir, sem hafa ekki verið fluttar úr landi, og gjaldeyrir fyrir framleiddar vörur á árinu var því ekki að öllu leyti kominn inn í gjaldeyrissjóðinn. En auðvitað er í þessum töflum algerlega stokkið yfir þessi sannindi. Nú sjá menn, hvert þetta mundi leiða. Ef svo vildi til, að við á einhverju ári hefðum aukið okkar útflutningsvörur í landinu um 200–300 millj. kr., við hefðum framleitt mikið, það hefði aðeins beðið fram yfir áramótin að flytja þetta út, eigum við þá að telja, að gjaldeyrishallinn sé raunverulega svona mikill, eins og bara sjóðurinn einn segir til um? Slíkt er vitanlega hin mesta skekkja.

Nei, hið rétta er það, að vegna þess að afli okkar fór vaxandi á árinu 1958 um 20.9% og hann fór enn vaxandi á árinu 1959 um 11%, þá var það svo, að við náðum raunverulega að afla eins mikils gjaldeyris á þessum árum báðum eins og við eyddum.

En ef við lítum svolítið nánar á eyðsluna á gjaldeyri á þessum árum, í hvað hún fór, þá kemur líka í ljós, að einmitt á þessum árum erum við að eyða meira en oftast áður og langt fram yfir það, sem tilheyrir eyðslu þessara ára út af fyrir sig, til þess að flytja inn í landið varanleg verðmæti í formi fiskiskipa, verksmiðja og annarra stórframkvæmda, sem unnið var að í landinu. Í gjaldeyrisútgjöldum landsins eru þarna margir tugir milljóna króna í vélum til Sogsins. Í þessum gjaldeyrisútgjöldum þjóðarinnar þá voru líka tugir millj. kr. til sementsverksmiðjubyggingarinnar. Í þessum gjaldeyrisútgjöldum eru líka margir tugir millj. kr. til fiskiskipakaupa fram yfir það, sem er venjulegt viðhald flotans. Auðvitað er um hina herfilegustu blekkingu að ræða að reyna að halda því að mönnum, að það hafi raunverulega orðið gjaldeyrishalli í viðskiptunum við útlönd, þegar svona stendur á.

Í grg. frv. segir á einum stað, og það á að sanna mönnum, hvernig ástatt sé í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, að í árslok 1954 höfum við átt gjaldeyrí, sem nam 220 millj. kr., en í árslok 1959 áttum við orðið minna en ekkert eða skulduðum 65 millj. kr. Þetta er auðvitað lagt saman og sagt, að þarna sé orðinn mismunur upp á 285 millj., og einnig hafi skakkað til viðbótar 15 millj. í vöruskiptagjaldeyri, og þannig sé staðan í árslok 1959 um 300 millj. lakari en hún var í árslok 1954.

Nú segi ég bara: Getur það verið, að þeir, sem hafa stillt upp þessum tölum fyrir hæstv. ríkisstj., hafi ekki vakið athygli hennar á því, hvaða aukaskýring hér á að fylgja með í sambandi við afurðabirgðirnar í landinu? Eða hafa þeir skotíð því undan, þegar þeir skýrðu málið fyrir ríkisstj., og hún ekki gætt að sér? Hún veit þó, að á árinu 1959 varð um stórkostlega birgðaaukningu á útflutningsafurðum að ræða og einnig 1958. Og útflutningsvörur okkar, sem taldar eru í birgðum okkar nú um áramótin, voru metnar á 370 millj. kr. og höfðu að langmestu leyti safnazt fyrir á árunum 1958 og 1959. Ef við berum saman birgðirnar í árslok 1954 og birgðirnar í árslok 1959, þá kemur í ljós, að hinn raunverulegi gjaldeyrishalli á þessu tímabili er nálega enginn. Hann er sáralítill. En svona er líka hægt að skrökva í tölum að mönnum, þegar menn varast slíkt ekki. En ég segi það, ég geri engan mun á því, það er bókhaldsatriði, hvort við eigum hundrað milljónum meira í öruggri útflutningsvöru, liggjandi hér í landinu, eða við eigum hundrað millj. meira í gjaldeyri í Seðlabankanum. Það er aðeins tímaspursmál. Það getur oltið á því um einn eða tvo mánuði, hvenær varan er flutt út, ef þetta er örugglega seljanleg vara eða jafnvel fyrir fram seld.

En það er ekki nóg með það, að svona sé reynt að skrökva að mönnum, þegar verið er að tala um hinn gífurlega halla í gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd og reynt að villa um fyrir mönnum bæði í sambandi við birgðaaukninguna í landinu og eins í sambandi við þann sérstaka innflutning til landsins og gjaldeyriseyðslu, sem stafar af stórfelldum framkvæmdum í landinu, heldur er á nákvæmlega sama hátt reynt að skrökva að mönnum í tölum í sambandi við þá óhemjulegu byrði, sem á þjóðina á að vera komin í sambandi við árlega vexti og afborganir af hinum erlendu skuldum. Í töflu þeirri, sem hér fylgir með í frv. og á að skýra út þessa byrði, er mönnum sagt, að byrðin hafi litið þannig út, vaxtabyrði og afborgunarbyrði í prósentum, miðað við heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar um nokkurt skeið: Árið 1951 var þessi byrði 3.2%, árið 1952 3.5%, árið 1953 3.4%, árið 1954 2%, árið 1955 3%, árið 1956 3.2%, árið 1957 5.1%, árið 1958 5.7%, en þá lýkur töflunni, og þá segja menn: Nú liggur ekki fyrir endanlegt uppgjör lengra. — Þá tekur við áætlunin. Og þá er líka sagt greinilega hér fyrir ofan: áætlanir. Þá fara menn að gizka á úr því. Og það er dálítið gaman að sjá, hvernig menn gera það. Það er þá fyrst að taka, að þá allt í einu leyfa menn sér að bæta við hinar erlendu skuldir, sem við eigum að borga afborganir og vexti af, rúmlega 130 millj., sem aldrei hafði verið talið til skuldanna áður, öll hin árin, og að langmestu leyti hafði verið yfirdráttarskuld eða sérstök skuld við EPU, gjaldeyrisskuld. En til að reyna að fá byrðina sem svakalegasta taka menn sig til og færa þarna yfir á skuldirnar hinar erlendu skuldir, nærri 130 millj. kr., sem aldrei höfðu verið taldar með skuldunum áður.

En það er ekki aðeins þetta. Þá er eftir hinn endinn, því að það er oft hentugt, þegar menn þurfa að villa um fyrir mönnum, að villa um á báðum endum. Og þá er það: Hvað voru gjaldeyristekjurnar miklar í spánni, gjaldeyrístekjurnar 1959? Gjaldeyristekjurnar 1958 voru voru taldar 1521 millj., en árið 1959 1466 millj. Þá lækka gjaldeyristekjurnar um 70 millj., þó að framleiðsla þjóðarinnar á árinu hafi aukizt um 11%. Og þau 11% ættu raunverulega að gera í reiknaðar gjaldeyristekjur á því ári í kringum 130–150 millj. kr. En menn afsaka þetta með því, að auðvitað eru gjaldeyristekjurnar ekki 1466 millj. á árinu 1959, heldur segja menn: Við áætluðum þetta, þegar taflan var samin í nóvembermánuði. Þá áætluðum við þetta. En þær eru orðnar miklu meiri. Og þar að auki stela menn undan allri birgðaaukningunni, sem varð í gegnum aukna framleiðslu. M.ö.o.: menn segja: Gjaldeyristekjurnar voru lægri 1959 en þær voru 1958. Og svo er búíð að hækka skuldirnar líka, bara með bókhaldsfærslu, og þannig geta menn fengið út að segja: Byrðin eykst úr 5.7% — og upp í hvað? Upp í 9.4%. Og þar með er byrðin orðin svo gífurlega mikil, að nú verðum við að taka heljarstökkið.

Þetta heitir hreinlega að ljúga í tölum. Hér getur ekki farið á milli mála. Það er útilokað, að menn segi þetta í fullri alvöru. Þeir vita það, að hér er raunverulega verið að hagræða tölum og láta þær segja rangt til. Og þó verður þetta enn þá verra, þegar menn komast svo aftur á árið 1960, því að þeir halda áfram að spá. Hvað verða gjaldeyristekjurnar 1960? Og 1961? 1960 á það auðvitað að verða þannig, að þær ná rétt í að vera það, sem þær voru 1958, þó að þær hafi raunverulega vaxið um 11% 1959. Og svo á auðvitað engin aukning að koma 1960, þó að til landsins streymi tugir nýrra báta og skipa og framleiðsluaðstaða okkar öll saman stórbætist. En það er vitanlega hægt að spá því, að gjaldeyristekjurnar verði litlar, og hækka í sífellu lánin og afborganirnar og segja: Svona verður byrðin gífurlega mikil. Nú verður eitthvað óvænt að taka til bragðs.

Nei, það er hrein blekking, að í þessum efnum hafi gerzt nokkuð það, sem boðar okkur nokkur ósköp eða nokkra hættu í okkar fjármálakerfi. Þvert á móti stöndum við frammi fyrir því, að sú stefna, sem tekin var upp á tímum vinstri stjórnarinnar, að endurnýja skipaflotann og stórauka hann og stórbæta aðstöðu útflutningsins í heild, hún hefur miðað í þá átt, að við aukum framleiðsluna jafnt og þétt. Þær tölur sýna, að heildarframleiðsla okkar í tonnum talið, — þar getur þó ekkert leikið á milli, þegar við tökum tonnin, þar er þó ekki hægt að tala um mismunandi verðlag áranna eða annað þess háttar, — 1957 framleiddum við 436 þús. tonn, 1958 framleiddum við 505 þús. tonn og 1959 framleiddum við 555 þús. tonn. Þannig hefur framleiðslan farið vaxandi, og það eru allar ástæður til þess, að hún muni halda áfram að vaxa, ef ekki verða gerðar slíkar óhapparáðstafanir í fjármálum landsins, sem raunverulega hefta eðlilega framleiðslu landsmanna.

Það er alveg rétt, okkur hefur skort gjaldeyri. Við hefðum þurft að eiga meiri handbæran gjaldeyri, um það er ekkert að villast. Gjaldeyriserfiðleikar þeir, sem t.d. urðu í lok síðasta árs, eru að mínum dómi að mjög verulegu leyti sjálfskaparvíti. Og það skyldi nú ekki vera, þó að það sé nokkuð stórt sagt, að þeir gjaldeyriserfiðleikar hafi verið framkallaðir að yfirlögðu ráði af víssum aðilum. Það var auðvitað alveg gefið mál, eins og okkar aðstæður voru í gjaldeyrismálunum, að þegar við erum að safna útflutningsvörum í stórum stíl árið 1958 og við söfnum enn til viðbótar á árinu 1959 útflutningsvörum og áttum þar allmikil gjaldeyrisverðmæti fram yfir það, sem við áttum áður, þá þurftum við vitanlega að útvega okkur í tæka tíð gjaldeyrisyfirdrátt erlendís, svo að við gætum haldið áfram eðlilegri gjaldeyrissölu með þjóðinni og eðlilegri starfsemi. Þetta var hægt að gera. Það þarf ekki að segja mér um það, að þegar við getum sýnt og sannað, að við eigum seljanlega eða jafnvel þegar selda vöru liggjandi í landinu, þá getum við fengið lán út á hana erlendis í gjaldeyrí, enda kemur það í ljós í þessu frv. Það er beinlínis upplýst, að þetta hefðum við getað og aldrei þurft að láta koma til þess, að þessi gjaldeyriskreppa hefði hér skapazt. En það var bara svikizt um það, þó að menn sæju, að við flyttum seinna út okkar útflutningsvöru en við hefðum þó þurft að gera, — þá er bara svikizt um það að taka gjaldeyrislán út á þessa framleiðslu erlendis, svo að hægt væri að mæta hér eðlilegri gjaldeyrissölu. Af því var það ástand skapað hér síðasta mánuðinn eða svo, sem hér var skapað. En í krafti þess á svo vitanlega að telja fólki í landinu trú um það: Svona er ástandið í gjaldeyrismálum. Við getum ekki flutt inn brýnustu nauðsynjar. Allt er að fara á hausinn. Hér verðum við að taka þetta mikla heljarstökk til að reyna að komast út úr þessu. — En það var engin ástæða til þess, á meðan við vorum að auka okkar gjaldeyrisvörubirgðir í landinu, — þá var engin ástæða til að láta þetta koma fyrir.

Og svo er auðvitað hitt atriðið, sem við höfum margsinnis bent á, að á þeim tímum, sem við teljum rétt að ráðast í óvenjumiklar framkvæmdir í fjárfestingu, á þeim tímum, sem íslenzka þjóðin eyðir í fjárfestingu um 34% af þjóðarframleiðslunni, — hærra hlutfalli en nokkur nágrannaþjóð okkar gerir, — á meðan við stöndum í svona mikilli uppbyggingu í landinu sjálfu, þá er vitanlega eðlilegt, að við tökum eitthvað af erlendum lánum. Og ef við viljum ekki taka erlendu lánin, þá eigum víð vitanlega að horfast í augu við veruleikann og segja: Þá bara minnkum við fjárfestinguna eitthvað dálítið frá því, sem hún hefur verið. — Og það á ekki að minnka fjárfestinguna með því að láta peningana eina ráða. Það á ekki að minnka fjárfestinguna með því að gera allar fjárfestingarframkvæmdir svo óhóflega dýrar, að hinir fátækari geti ekki ráðizt í sína fjárfestingu, en hinir ríku standi einir eftir og geti fjárfest það, sem þjóðin fjárfestir. Það hefur reynslan sýnt okkur, að það er ekkert öryggi í því, að þeir, sem ráða yfir peningum, geri það í fjárfestingarmálum, sem er þjóðarheildinni að mestu gagni. Það er miklu eðlilegra, að ríkisstjórn landsins og Alþingi ákveði það, ef við eigum að draga úr fjárfestingunni, t.d. minnka fjárfestinguna frá 1600 millj. á ári niður í — við skulum segja 1400 millj., að þá sé það ríkisstjórn landsins og Alþingi, sem ákveði það að láta bíða eitthvað af fjárfestingunni og tiltaki, hvað það er.

Við eigum að þora að láta hyggjuvitið ráða í þessum efnum, en ekki duttlunga peninganna, sem vitanlega geta verið þeir, sem þjóðinni eru hvað óhagstæðastir. Til þess þurfum við, eins og margar aðrar þjóðir, að setja á fót hér yfirstjórn á okkar fjárfestingarmálum og þjóðarbúskapnum í heild. Um þetta höfum við lagt fram frv. hér á Alþingi og margsinnis bent á, að við þurfum að gera þetta alveg á sama hátt t.d. og Norðmenn gera, en láta okkur ekki detta í hug að fara eftir svo gamalli og úreltri leið að segja, að peningarnir skuli ráða, hvað verði fjárfest hverju sinni í landinu.

Við skulum t.d. taka eitt dæmi í þeim efnum, sem ég ætla að hæstv. forsrh. þekki allvel, sem dæmi um það, hvort muni vera affarasælla og betra að láta t.d. ríkisstjórn landsins og Alþ. taka ákvarðanirnar í þessum efnum eða þá, sem peningana eiga. Ég minni á ástandið á nýsköpunarárunum, 1944–45. Þá vildu þeir, sem áttu peningana, þeir, sem áttu raunverulega þær 500 millj. kr. í gjaldeyrí, sem þjóðin átti þá úti, þeir vildu ekki kaupa skip á þeim tímum, þeir ætluðu sér að bíða. En þá var það, sem ríkisstjórn landsins undir forsæti núverandi forsrh. tók ákvörðunina og sagði: Þjóðin þarf að fá sinn togaraflota endurnýjaðan. Við getum ekki beðið lengur. Þeir skulu keyptir. — Og það var gert. Þá trúði hann enn á það, að það væri affarasælla, að vit hans og annarra þeirra, sem stjórnuðu landinu, réði heldur en að láta vit peninganna ráða fyrir okkur.

Eins og ég hef nú vikið hér nokkuð að, þá er það alger blekking, að það hafi verið þörf á því að ráðast í þá gífurlegu gengislækkun, sem þetta frv. stefnir að, vegna greiðsluhallans víð útlönd. Síðustu árin hafa einmitt bent til þess, að við værum að komast út úr þeim vanda með aukinni framleiðslu, og við áttum að halda þá leið áfram. Og þegar við vorum um leið komnir yfir þann vanda að þurfa að eyða svona miklu af okkar árlegu tekjum eins og við höfum eytt í fjárfestingu, í að kaupa skip og annað þess háttar, þegar þetta fór minnkandi, sem það hefði að sjálfsögðu gert aftur á næstu árum hér á eftir, þá var vandinn leystur. Það er líka rangt, að það þurfi að grípa til þessa ráðs vegna greiðslubyrðarinnar, vegna þeirra byrða, sem búið er að leggja á þjóðina, vegna nauðsynlegra afborgana og vaxta af þeim lánum, sem þegar hafa verið tekin. Það er argasta blekking, og enginn afsannar raunverulega þessa kenningu eins vel og hæstv. ríkisstjórn sjálf, þegar hún leggur nú til að taka nýtt 800 millj. kr. lán erlendis. Einmitt þessi tilkynning stjórnarinnar, að ætla að taka svona hátt lán, sem á að vera eyðslulán, sannar það bezt, að henni blöskra ekki vextirnir og afborganirnar af erlendum lánum. Hún þolir vel að bæta við vexti og afborganir. Hún er ekki hrædd við það. Það er ekki það, sem hefur rekið hana út í þessa ráðstöfun.

Nei, það var hægt að ná samkomulagi, mjög víðtæku samkomulagi í landinu um það að reyna að komast út úr þeim vanda, sem of litlir handbærir gjaldeyrissjóðir hafa verið í rekstri ríkisins, og það voru miklar líkur til þess, að við gætum komizt tiltölulega auðveldlega út úr því með eðlilegum hætti og fljótlega.

En hvað er það þá, sem raunverulega hefur rekið hæstv. ríkisstj. út í þessa gífurlegu gengislækkun? Hún getur ekki fært það fram, að útgerðarmenn í landinu almennt eða útflytjendur hafi gert kröfu um þetta. Það liggja engar samþykktir fyrir um það frá hálfu útgerðarmanna nú, að þeir hafi heimtað skipt um þetta kerfi og heimtað þessa miklu gengislækkun. Ég veit, að þvert á móti munu útvegsmenn almennt vera mjög uggandi um áhrifin af þessari nýju stefnu, sem boðuð er með þessu frv., enda mega þeir líka vera það. Ekki þykir mér ólíklegt, að útkoman verði sú, að þeir muni einnig finna til þess margír hverjir, að það verði allþröngt fyrir dyrum hjá þeim í sambandi við reksturinn á eftir. Nú var sem sagt ekki hægt að bera því við, að það þyrfti að grípa til þessara ráðstafana vegna þess, að útflutningurinn þyrfti meiri bætur en áður eða einhver ný framlög. Aðstaðan við rekstur útgerðarinnar var yfirleitt mjög sæmileg, t.d. hjá bátaflotanum. Það er rétt, að það hallaði nokkuð á hjá togurunum, og þurfti eflaust að gera eitthvað í sambandi við þann lið útgerðarinnar. En til þess þurfti ekkert slíkt, sem felst í þessu frv.

Það er líka vitanlega hin mesta blekking að reyna nú að halda því fram, að það hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana vegna hags útflutningssjóðs. Allar kenningar um það, að svo sé gengið frá tekjum útflutningssjóðs, að hann geti raunverulega ekki staðið undir sér, vegna þess að hann borgi að meðaltali 87% bætur til útflutningsins, en fái ekki í tekjur nema rúmlega 68% af öllum innflutningi, — þessi rök eru vitanlega með öllu fánýt og furðulegt, að þau skuli vera sett fram. Það er vitanlegt mál, að útflutningssjóður hefur tekjur af mörgu öðru en innflutningi. Þannig hefur einmitt hans tekjuhlið verið uppbyggð. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að hann hefði tekjur af ýmsum öðrum liðum en innflutningi, og þær áætlanir, sem hingað til hafa verið gerðar og af sömu sérfræðingum og ríkisstj. byggir sínar áætlanir á nú, hafa verið gerðar þannig og er auðvelt að sanna það, að þeir hafa stillt upp jöfnum, sem sýndu það, að útflutningssjóður átti að hafa tekjur samkvæmt þessum tekjustofnum, sem áttu að jafngilda þeim útgjöldum, sem hann hafði samninga um við útveginn. Þessar jöfnur liggja fyrir, settar upp af þessum sömu sérfræðingum, og það sýndi sig þar, að þarna gat verið jöfnuður á og útflutningssjóður átti að hafa tekjur á móti útgjöldum. Svo er það alveg furðulegt, að menn skuli setja fram þessar tölur, 87%, sem á að greiða út úr útflutningssjóði, á móti 68%, sem hann fær inn af tekjum, vegna þess að sagan er vitanlega ekki nema hálfsögð í sambandi við þessar prósentur. Ef framleiðslan í landinu vex, þarf útflutningssjóður að vísu að borga auknar útflutningsuppbætur, og það getur vel farið svo, að þeim gjaldeyristekjum, sem þá koma í staðinn, sé varið svo einhliða, að tekjur sjóðsins kunni að raskast eitthvað. En auknar tekjur af auknum innflutningi koma ekki aðeins útflutningssjóði við. Auknar tekjur af auknum innflutningi koma líka ríkissjóði við. Tekjur ríkissjóðs stórvaxa við aukinn innflutning. Og ef menn hugsuðu sér aukninguna þannig, að aukningin færi að skapa einhvern halla hjá útflutningssjóði, þá gerist það af sjálfu sér, að þá kemur tekjuafgangur hjá ríkissjóði, því að hans tekjur stórvaxa með aukinni framleiðslu og aukinni gjaldeyrissölu. Það er því vitanlega hrein blekking að ætla að taka þarna aðeins aðra hliðina, því að dæmið hefur alltaf verið sett þannig upp, að útflutningssjóður og ríkissjóður hafa sameiginlegan hluta af þessum tekjum, og það hefur vítanlega engin verðbólgumyndandi áhrif í landinu, jafnvel þó að það gæti komið nokkur halli hjá útflutningssjóði, ef það kemur á sama hátt tekjuafgangur hjá ríkissjóði. Þetta hefur líka verið margsýnt fram á af þeim mönnum, sem sett hafa upp þetta kerfi.

Það er líka alrangt, að erlendu lánin hafi sérstaklega verið til þess að standa undir tekjum útflutningssjóðs. Það er alveg rangt, vegna þess að erlendu lánunum hefur að yfirgnæfandi meiri hluta verið varið til þess að flytja inn skip og annan varning, sem hefur verið í lægsta flokki, með 55% bótum, þá hafa þessi lán síður en svo á nokkurn hátt gert það að verkum, að þau hafi bætt hag útflutningssjóðs. Þetta er líka rangt.

Af þessu öllu saman er það vitanlega algerlega röng rökfærsla að halda því fram, að aukin útflutningsframleiðsla og auknar gjaldeyristekjur mundu auka á hallann hjá útflutningssjóði. Það er einmitt þvert á mótí. Aukin gjaldeyrisframleiðsla mundi verða til þess, að það yrði einmitt flutt tiltölulega meira inn af þeim vöruflokkum, sem álagið er tiltölulega mest á, en þar er alltaf mest haldið í, og það er einmitt sá liðurinn, sem hefur verið mest skorinn niður miðað við eftirspurn. Það er ekki 30% vöruflokkurinn, sem hefur verið skorinn niður. Það hefur verið flutt inn alveg ótakmarkað, eins og óskað hefur verið eftir, af þessum brýnustu nauðsynjum. Það mundi ekki aukast gjaldeyrissala í þeim flokki. Það mundi aukast bæði í 55% flokknum, sem áður var, og þá einkum og sérstaklega í hátollavöruflokknum. Þar mundi aukast, því að þar var niðurskurðurinn mestur. Þessi rök eru því algerlega röng.

Nei, hagur útflutningssjóðs var ekki í sjálfu sér slæmur, enda stóð hann mjög örugglega í skilum með sínar greiðslur. Og það er algerlega rangt, þegar því er haldið fram, að útflutningssjóður sé raunverulega búinn að fá tekjur vegna þeirra gjaldeyrisbirgða, sem enn þá liggja í landinu, vegna gjaldeyrislána, sem bankarnir hafa tekið erlendis. Þeir hafa sáralítil lán tekið erlendis í þessu efni fram yfir það, sem áður var, og ekki svarað á neinn hátt til þeirra birgða, sem aukizt hafa í landinu. Auðvitað á útflutningssjóðskerfið; miðað við þær áætlanir, sem settar voru upp, eftir að fá mjög miklar tekjur af þeim útflutningsvörum, sem hafa safnazt upp í landinu, og þegar menn nú leika sér að því að gera upp útflutningssjóð og halda því fram, að á því kerfl hafi verið stórkostlegur halli, þá byggist það einfaldlega á því, að aðrir aðilar ætla að taka þær tekjur, sem koma inn fyrir þær útflutningsbirgðir, sem nú liggja í landinu, eða 370 millj. kr. Bankarnir vilja fá verulegan hluta af þeim gengishagnaði, sem þarna kemur, en útflutningssjóðurinn á ekki að fá þetta. Af því vitanlega myndast halli, þegar útflutningssjóðskerfið er nú strikað út.

Það var hægt að halda áfram óbreyttu kerfi vegna þess, að það þurfti ekki að auka við tekjur útflutningssjóðs. Það var ekki ástæðan.

Eitt var það, sem hæstv. forsrh. vék hér nokkuð að í sambandi við hinar fyrirhuguðu ráðstafanir í peningamálum landsins, en það var, að fyrirhugað væri að stórhækka alla vexti í landinu, og einnig hitt, að fyrirhugað væri að binda í Seðlabankanum einhvern hluta af því sparifé, sem safnast í sparisjóðum landsins og innlánsdeildum kaupfélaganna.

Ég er hræddur um, að afleiðingar af þessu muni segja illilega til sín einmitt í sambandi við framleiðslu landsins. Ég á erfitt með að skilja það, að stórhækkaðir vextir verði ekki til þess að stórdraga úr því, að menn ráðist í það að koma upp framleiðslutækjum, og að á þann hátt verði stöðvuð sú þróun, sem verið hefur að bæta aðstöðu okkar við framleiðsluna. Ég álít, að veruleg vaxtahækkun hljóti, sérstaklega ef hún á að framkvæmast þannig, eins og sagt er, að hún eigi að fullu og jöfnu að hvíla á stofnlánum til framleiðslunnar og nauðsynlegustu rekstrarlánum til framleiðslunnar eins og öllum öðrum lánum, að slík breyting mundi draga stórkostlega úr því, að menn réðust í þær framkvæmdir í sambandi við kaup á framleiðslutækjum, sem þeir hafa haft í huga.

Sú stefna að ætla að áskilja Seðlabankanum vald til þess að binda allverulegan hluta af sparifé sparisjóðanna í landinu og innlánsdeilda kaupfélaganna, — það er auðvitað gefið mál, hvað þetta þýðir. Það þýðir, að það á að reyna að binda algerlega hendur þeirra manna, sem þessum stofnunum stjórna, og koma í veg fyrir það, að þessar stofnanir láni einum eða neinum til framkvæmda. Þetta mundi jafngilda því að skrúfa algerlega fyrir hin nauðsynlegustu lán úr sparisjóðum landsins til íbúðabygginga. Þetta hlyti að stöðva allar íbúðabyggingar. Ég álít, eins og ég sagði hér í upphafi, að það mætti vel taka til athugunar nokkra þætti í útlánum bankanna, og mér hefur fundizt, að það mætti vel minnka þar nokkuð útlánin í einstaka tilfellum og til vissra starfsgreina í þjóðfélaginu. Ég dreg það t.d. alveg í efa, að það hafi verið þörf á því að auka jafnmikið lánin til verzlunarinnar síðustu árin og gert hefur verið, því að lánin til hennar, föst lán til verzlunarinnar, hafa aukizt sum árin meira en föst lán til sjávarútvegsins, og öll þessi ár hefur lánaaukningin í verzlunina numið allverulegum upphæðum. Og þannig er um fleiri þætti að ræða, sem ég álit að hefði vel mátt taka til athugunar að draga nokkuð úr, en ekki ætla að fela Seðlabankanum, með þeirri reynslu, sem maður hefur af þeirri stofnun, alger yfirráð í því, hvaða reglur verða settar í sambandi við takmörkun á útlánum, þegar þess er þá getið strax í upphafi, að eitt af því þýðingarmesta í sambandi við minnkuð útlán sé að minnka lán á framleidda vöru til útflutnings. Það er eitt það þýðingarmesta. Það er talinn einn aðalbölvaldurinn að undanförnu, að lánin hafa hækkað út á hækkaðar birgðir á útflutningsvörum. Það kemur greinilega fram í grg. frv.

Ég segi það, að slíkar tilkynningar í upphafi boða ekkert gott að mínum dómi, og ég óttast það, að þær leiði beinlínis til framleiðslustöðvunar í víssum greinum eða minnkandi framleiðslu.

Í sambandi við þetta atriði, sem ég var að ljúka við að nefna, segir m.a. í grg. fyrir frv., einmitt í sambandi við hina breyttu stefnu í peningamálum, sem eigi að taka upp:

„Alls jukust endurkaup Seðlabankans um 187 millj. kr. árið 1958 og 213 millj. kr. 1959.“ Þannig var það þessi 2 ár, þegar útflutningsbirgðirnar hrúguðust upp í landinu. Þessi eini þáttur lánanna hefur því aukizt á þessu tímabili um nærri 90% og tvímælalaust verið ein meginorsök hinnar miklu peningaþenslu, sem þá átti sér stað. En áður var búið að þusa mikið um það, hvað þessi peningaþensla væri stórhættuleg efnahagskerfi landsins, og ein meginorsökin fyrir peningaþenslunni í landinu var, að menn leyfðu sér að halda þeirri reglu áfram að lána út á framleidda vöru, lána mönnum til þess að framleiða fisk til útflutnings og aðrar útflutningsvörur, svo að hægt væri að reka þau skip og borga það kaup, sem þarf til aukinnar framleiðslu. Ein meginorsök ógæfunnar var, að það var haldið áfram að lána til þessarar framleiðslu!

Ég hef gaman af því í þessum efnum að fá að vita það hjá hæstv, ríkisstjórn: Hefur hún haft samráð við framleiðendurna, útflutningsframleiðendurna í landinu, í sambandi við þessa stefnu? Er þetta gert í samráði við þá? Telja þeir, að þetta sé nauðsynlegt? Ætli þeir treysti sér til þess að una við þetta? Þeir hafa haldið öðru fram hingað til.

Þessi nýja lánastefna felur í sér miklar hættur fyrir afkomu þjóðfélagsins í heild, og því verður varla trúað, að hæstv. ríkisstj. meini það, þó að hagfræðingar, sem ekkert þekkja til framleiðslunnar í landinu, lesi þetta út úr útlánatölunum hjá bönkunum, að þessi útlán séu hættuleg. En það er svona, ég þekki þetta, því að ég hef rætt víð þessa hagfræðinga nokkrum sinnum áður. Reglan er þessi: Aukin útlán hjá bönkunum eru hættuleg, ef þau eru of mikil að þeirra dómi. En siðan er engin grein gerð fyrir því, til hvers þessi útlánaaukning hefur farið. Það er auðvitað gefið mál, ef bankarnir setja út aukið fjármagn við skulum segja til verzlunarinnar hér í landinu eða til húsbygginga eða einhvers annars þess háttar, langt fram yfir það, sem sparifé landsmanna segir til um, þá vitanlega hefur það í för með sér verðbólgu í landinu. En þó að bankarnir auki útlán sín til stutts tíma út á útflutningsvörur, sem bíða tilbúnar til útflutnings, þá er fjarri öllu lagi að halda því fram, að það sé efnahagskerfi landsins hættulegt.

Með þessu frv. er tvímælalaust verið að stíga það skref að gera þá ríku í þjóðfélaginu ríkari og þá fátæku fátækari. Um það er ekkert að villast. Það er sama, hvar á það er litið.

Nú á að borga þeim topp-útflutningsuppbætur, sem jafnvel sýndu það á reikningum, að þeir þurftu ekki að fá auknar útflutningsuppbætur. Nú á að láta þá fá jafnmikið og þá, sem höfðu lakasta aðstöðu til framleiðslu. Og þetta á að framkvæma þannig, að hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu eiga að standa undir meginbyrðunum. Láglaunamenn í landinu, verkamenn og sjómenn, eiga að taka á sig aðalbyrðina. Það á raunverulega að binda kaupið, það á að slíta það úr sambandi við verðlagsvísitöluna, og þannig á að koma fram gífurlegri kauplækkun, og það á að reyna að halda sjómönnum áfram á kaupi miðað við óbreytt fiskverð, en eftir þessa gengislækkun er raunverulega búið að færa kaup sjómanna okkar niður fyrir það, sem sjómenn hafa í nálægum löndum, og er Færeyjadæmið, síðasta dæmið, augljóst um þetta efni.

Færeyingarnir, sem hér voru í borginni fyrir stuttu, gerðust svo ósvífnir, að þeir fóru fram á það, að togarasjómenn þeirra, sem hér áttu að vinna á flotanum, fengju 1500 kr. danskar á mánuði. Af hverju? Af því að norskir útgerðarmenn borga þeim 1500 kr. danskar á mánuði fyrir að vera á norskum togurum og norskum fiskiskipum. Vegna þess, að þýzkir útgerðarmenn borga þeim 1500 kr. danskar á mánuði og frítt uppihald fyrir að vera á þýzkum togurum. Og enskir útgerðarmenn borga þeim líka 1500 kr. danskar á mánuði fyrir að vera á enskum togurum. En 1500 kr. danskar á mánuði mundu verða eftir þessu gengi, sem nú á að lögleiða hér, 8300 kr. á mánuði. Og þá er komið að því, að okkar menn segja: Svona mikið borgum við ekki íslenzkum sjómönnum. Þetta er miklu meira en þeir eiga að fá eftir hinu rétta gengi. — Við verðum að standa frammi fyrir því, að þeir sjómenn hér á Norður-Atlantshafi, sem verða að sækja við óblíðust kjör á hafið, eru orðnir lægst launaðir allra þeirra, sem stunda sjó á togurum hér við land, eftir hinu nýja rétta gengi. Svona er það. En það er ekki aðeins í þessum samanburði. Við þurfum ekki annað en taka t.d. almennt kaup hjá íslenzkum járniðnaðarmanni og dönskum járniðnaðarmanni. Kaup íslenzka járniðnaðarmannsins nú er 25 kr. á tímann eða rétt þar um bil, en kaup danska járniðnaðarmannsins mundi verða eftir þessu gengi 35 kr. um tímann.

Það er sem sé ætlazt til þess með því skipulagi, sem hér á að lögleiða, að borga íslenzka vinnuaflið, jafnt sjómanna, verkamanna og annarra, mun lægra en slíkt vinnuafl er borgað í löndunum í kringum okkur. Það á að reyna að halda því fram, það á að reyna að sanna mönnum það, að framleiðslukerfl okkar sé þannig og efnahagur íslenzku þjóðarinnar sé þannig og skuldasöfnunin við útlönd sé orðin þannig, að við þurfum nú að lifa við knappari kjör en allir þeir, sem eru í löndunum í kringum okkur. Auðvitað verður það okkur til minnkunar, þegar menn átta sig á því, að kaupkjör t.d. íslenzkra togarasjómanna eru orðin lakarí, miðað við sambærilegt gengi, heldur en kaupkjör annarra sjómanna á togaraflotanum. Og ég hygg, að reynslan og veruleikinn, þó að ekkert annað geri það, eigi eftir að kenna núv. hæstv. ríkisstj. það og öllum ráðh., að þeir geti ekki komizt upp með það, það getur ekki staðizt, að þeir komi fram slíkri fásinnu, að þeir komi launakjörum íslenzkra verkamanna og sjómanna niður á þetta svið. Til þess er engin þörf miðað við þjóðarframleiðsluna, engin þörf miðað við efnahagsástæður landsins. Það hefur verið villt um fyrir ríkisstj. af þeim mönnum, sem ekki þekktu til, hvernig aðstæður voru í okkar þjóðlífi, og þeir ættu að sjá að sér, þeir sem nú eru í ríkisstjórn Íslands, og snúa til baka, áður en almenningsálitið á Íslandi rekur þá til baka með þessar ráðstafanir.