11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. það, sem liggur fyrir, er flutt af hæstv. ríkisstj. og er um efnahagsmál. Fjhn. hefur athugað frv. og haldið sameiginlegan fund með fjhn. Ed. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar við undirbúning málsins hafa mætt á fundum nefndarinnar og veitt margvíslegar upplýsingar og skýringar við frv., og sömuleiðis hefur aðalbankastjóri seðlabankans mætt á fundi fjhn. Nd. og gefið upplýsingar og svarað fyrirspurnum.

Fjhn. hefur klofnað í málinu, og munu tveir minni hl. skila sérálitum, en meiri hl. fjhn. flytur nokkrar brtt. til glöggvunar á einstökum ákvæðum frv. og til leiðréttingar, og eru þær á þskj. 95.

Hæstv. forsrh. hefur fylgt frv. þessu úr hlaði með þeim ummælum, að það fæli í sér gagngera stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar, enda mun sú staðreynd óhikað viðurkennd af stjórnarandstöðunni, eins og m.a. má marka af orðum hv. 1. þm. Austf. (EystJ) við umræður um frv., er hann sagði: Það er hvorki meira né minna en nú er algerlega snúið við blaðinu. — Já, tilætlunin með lagasetningu þessari mun vissulega vera sú að snúa við blaðinu, hverfa frá stefnuleysi til ákveðinnar, skýrt markaðrar efnahagsmálastefnu, og það er von manna, að ef sá nýgræðingur, sem til er sáð með löggjöf þessari, fær frið og nær að festa rætur, þá muni auðnast ekki einungis að snúa við blaðinu, heldur jafnvel að brjóta blað í efnahagssögu þjóðarinnar og að frv. þetta muni þá marka þau kapítulaskipti, sem kennd verði við traustari grundvöll íslenzks þjóðarbúskapar og stöðugri framfarir í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar en áður hefur verið.

Það kann að þykja borið í bakkafullan læk, að mörgum orðum sé hér farið um frv. þetta og þá stefnu, sem í því felst, eðli hennar og aðdraganda, svo ýtarleg skil sem hæstv. forsrh. gerði því máli í sinni miklu ræðu; er frv. kom fyrst til umr. í d., auk margháttaðra upplýsinga og gagnlegra skýringa, sem aðrir hæstv. ráðherrar gáfu við þær umræður. Hér er hins vegar um svo viðurhlutamikið mál að ræða og trúlega það málið, sem mest mun móta störf þessa þings, er miklu mun einnig ráða um örlög og afkomu allrar þjóðarinnar á næstu missirum og árum; að ég tel mér skylt að reifa það nokkuð, um leið og ég skila því úr n., fyrir hönd meiri hl.

Efnahagsmálin eru í dag í brennipunkti íslenzkra þjóðmála. Ótal spurningar knýja dyra. Almenningur spyr: Hvar erum við staddir? Hvað hefur leitt til þessarar þróunar? Hvað er til úrræða og hverra kosta er völ? Forsvarsmönnum frv. þessa ber því skylda til að gera grein fyrir þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem það boðar, þeim markmiðum, sem sú stefna keppir að, og þeim leiðum, sem ætlunin er að fara eftir, til þess að ná hinum tilætlaða árangri eða því, sem að er stefnt.

Ekki verður frv. þetta þó skýrt eða skilið til fullnustu, nema það sé skoðað í ljósi þeirrar þróunar efnahagsmála, sem átt hefur sér stað hér á landi á síðustu áratugum. Framvindan í efnahagsþróun þjóða, sem eru að byggja upp framleiðslukerfi sitt, eru stórhuga og ætla sér stundum ekki af, er oft nokkuð sveiflukennd og óstöðug. Það hlaupa tíðum snurður á þráðinn, sem greiða verður úr. Atvinnuþróun í þjóðfélagi, sem að mestu er háð kenjum náttúruaflanna, veðurfari, gæftum og grassprettu, er sömuleiðis venjulega ótrygg. Þar, sem hvort tveggja þetta helzt í hendur, eins og á sér stað hér á landi, er því vonlegt, að á ýmsu geti gengið um framþróun efnahagsmálanna og að stundum skjóti upp óvæntum örðugleikum. Á þetta hefur líka sjaldan skort í þjóðfélagi okkar. Höfuðvandkvæði íslenzkra efnahagsmála í dag er þó ekki að rekja til slíkra ófyrirséðra augnablikserfiðleika, heldur hafa meinsemdirnar tekið á sig varanlegt form. Aðalgallinn er einmitt sá, að glímt hefur verið við varanlegar meinsemdir eins og þær væru aðeins stundarfyrirbæri og því verið notazt við bráðabirgðaráðstafanir og skyndiaðgerðir, en ekki skorið til rótar meinsemdanna eða gerðar heildarráðstafanir til meinabóta.

Um 20 ára skeið hefur með litlu hléi á árabilinu eftir 1950 verið jafnvægisleysi í íslenzkum þjóðarbúskap, sem m.a. hefur komið fram í verðbólgu á mismunandi háu stigl. Á þessu tímabili hefur, svo sem kunnugt er, verðbólguþróunin verið eitt helzta viðfangsefni íslenzks atvinnulífs. Í stað stöðugs verðlags höfum við búið við stöðuga verðbólgu. Peningatekjur manna hafa farið ört vaxandi, en framleiðslan ekki aukizt að sama skapi. Afleiðingar þess hafa verið sífelldir örðugleikar í rekstri útflutningsatvinnuveganna og þeim verið gert ókleift að afla eigin fjár til endurnýjunar og aukningar. En jafnframt því, sem verðbólgan gerir erfitt um gjaldeyrisöflun, dregur hún úr afköstum framleiðslunnar og beinir henni inn á óhagkvæmari brautir, ýtir undir eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri til vörukaupa og annarrar notkunar. Skortur á erlendum gjaldeyri fylgir því jafnan í kjölfar verðbólgunnar, gjaldeyrishöft eru því bein afleiðing verðbólgu, og gjaldeyrisskortur og gjaldeyrisskömmtun leiðir fyrr eða síðar til vöruskorts, sem getur orðið svo víðtækur, að til beinnar vöruskömmtunar verði að grípa. Verðbólgan dregur og úr sparnaði og myndun sparifjár í peningastofnunum, en hvetur til flótta fjármagnsins úr framleiðslunni yfir í fasteignir.

Þróun þessi er annars svo almennt kunn, að óþarft mun að rekja hana hér í einstökum atriðum. En það, sem aldrei verður þó nógsamlega undirstrikað, er það, að verðbólgan, kaupræninginn mikli, er fyrst og fremst kross hins fátæka manns. Verðbólgan er félagssjúkdómur, sem getur orðið að drepsótt, og eins og títt er um plágur og drepsóttir, ræðst verðbólgan frekast þar á, sem garðurinn er lægstur, þar sem fyrirstaðan er minnst og varnirnar veikastar. Þeir gjalda því verðbólgunnar venjulega harðast í þjóðfélaginu, sem sízt skyldi, þeir sem við kröppust kjörin búa eða lengst og mest hafa erfiðað fyrir þeim verðmætum, sem varpað er í svelg verðbólgunnar.

Það er því engin tilviljun, að byltingarforingjar, sem vilja ríkjandi þjóðskipulög feig, hafa talið verðbólguna til sinna traustustu bandamanna, því að eins og Lenín sællar minningar benti á, þá er auðveldasta leiðin til þess að kollvarpa þjóðskipulaginu að eyðileggja peningakerfi þess.

Ef athuguninni er sérstaklega beint að tímabilinu frá stofnun hins íslenzka lýðveldis eða ófriðarlokum, síðustu fimmtán árin, enda þótt þau séu kannske í sjálfu sér ekkert sérstakt skýrt afmarkað hagtímabil í sögu Íslands, þá virðast höfuðeinkenni allrar efnahagsþróunar á því skeiði, allt fram til síðustu tíma, vera, að Íslendingar hafi haft verulega tilhneigingu til þess að eyða meira en aflað var í þjóðarbúið, — staðreynd, sem Jónas Haralz ráðuneytisstjóri hefur sérstaklega gert sér far um að benda á og hann í ræðu sinni á síðasta fullveldisdegi, 1. des., fór um þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu tímabili hefur íslenzka þjóðin sífellt verið að reyna að eyða meira en hún hefur aflað. Í þessu efni hafa einstaklingar, stéttasamtök, hvers konar félagssamtök önnur, bæjarfélög og ríki öll lagzt á eitt.“

En vitaskuld verður sökinni í þessum efnum, ef þá um nokkra beina sakfellingu er að ræða, ekki skellt á hin almennu heimili, því að í þessu felst ekki ásökun á hendur einstaklingum fyrir einkaeyðslusemi, heldur er orsakanna fyrst og fremst að leita hjá hinu opinbera, ríkinu, bæjarfélögum, sjálfu hinu háa Alþingi og þá ekki siður hjá hinum voldugu heildarsamtökum stéttanna, sem krafizt hafa hvert um sig að fá sem mest til handa sínum skjólstæðingum og hafa þá stundum tekið til sín stærri sneiðar af þeim brauðhleif, sem þjóðina alla á að seðja, en til skipta gat komið hverju sinni.

Af þessari umframeyðslu þjóðarinnar hefur svo óhjákvæmilega leitt varanlegan greiðsluhalla út á við. Þessi greiðsluhallí, þessi eyðsla þjóðarinnar fram yfir það, sem hún hefur aflað sér með framleiðslu sinni, var eftir stríð greidd með Marshallaðstoðinni svonefndu. Á jafnvægistímabilinu, þegar tókst að hamla við verðbólgunni, árið 1954, hvarf hallinn að mestu, og sá þjóðin sér þá farborða af eigin rammleik. En eftir að verkföllin miklu árið 1955 höfðu gert verðstöðvunarstefnuna að engu, komst hallabúskapur aftur í algleyming og hefur síðan dafnað með þeim hætti, að árlegur greiðsluhalli hefur numið um 200 millj. kr., sem greiddar hafa verið fyrst og fremst með nýjum og nýjum lánum. Er talið, að af þeim rúmlega 1100 millj. kr., sem hallinn nemur á liðnum 5 árum, hafi um 51% verið greitt með opinberum lánum, um 22% með lánum einstaklinga og um 27% með því að rýra gjaldeyrisaðstöðu þjóðarinnar. Þessi eyðsla þjóðarinnar um efni fram er staðreynd, sem verður ekki í móti mælt, enda viðurkennt t.d. af öðru höfuðmálgagni stjórnarandstöðunnar, þótt sömu aðilar séu ekki jafnfúsir til játninga hér í þingsölunum. T.d. segir í leiðara Þjóðviljans 2. febr. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Aldrei síðan 1940, að Englendingar hernámu landið og hófu sínar hernaðarframkvæmdir hér, hefur íslenzka þjóðin komizt nærri því að vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt með innlendum framleiðslustörfum eins og árin, sem vinstri stjórnin sat að völdum.“

Þetta er að vísu ekki alveg rétt. En með þessu er þó játað, að framleiðslustörf landsmanna hafi um tvo liðna áratugi ekki nægt sem tekjustofn til þess að greiða þarfir þeirra, og það er það, sem máli skiptír í þessu sambandi. Með gengisbreytingunni í marz 1950 var gerð tilraun til jafnvægismyndunar í íslenzkum efnahagsmálum. Tókst sú tilraun að víssu marki um stund, en hv. 4. þm. Austf. (LJós) hefur gert þessa tilraun hér að umtalsefni og sérstaklega vitnað til hennar sem sönnunargagns um ómerkilegheit hagfræðilegra útreikninga og áætlana, þar sem hann fullyrti, að þeir próf. Ólafur Björnsson og dr. Benjamín Eiríksson, sem þá voru ráðunautar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, hefðu áætlað, að verðlag mundi hækka um 10–11%, en raunin hefði hins vegar orðið sú, að verðlag samkvæmt vísitölu hefði á skömmum tíma hækkað um 27%.

Það er satt bezt að segja um allar efnahagsáætlanir í þjóðfélagi, sem rekur náttúrubúskap, eins og við Íslendingar gerum, að um þær hlýtur jafnan að ríkja töluvert meiri óvissa en sams konar áætlanir t.d. í iðnaðarþjóðfélögum, þó að ekki sé af öðrum ástæðum en þeim, að engu verður með vissu spáð um aflabrögð eða jafnvel töðufeng, svo mjög sem hvort tveggja er háð veðrum einum saman. Slíkar áætlanir geta aðeins stuðzt við reynslu undanfarinna ára, en frá henni getur auðvitað snögglega brugðið. Skýt ég þessu hér inn í, enda þótt það eigi ekki að þjóna sem svar við fullyrðingu 4. þm. Austf., en að henni skal nú vikið, og í fáum orðum sagt var gangur málsins þessi:

Þeir próf. Ólafur Björnsson og dr. Benjamín höfðu áætlað, að beinar hækkanir af völdum gengisbreytingar yrðu 11–13%. 27% hækkunin, sem varð á vísitölunni, felur hins vegar í sér ýmsar óbeinar hækkanir, sem jafnan bætast við beinar hækkanir, svo að hér er alls ekki um réttan samanburðargrundvöll að ræða. Í öðru lagi varð á árinu 1950 aflabrestur, sem nam 17% miðað við meðalafla, og enginn hagfræðingur hefði getað séð fyrir slík óhöpp. Í þriðja lagi tvöfölduðust skipagjöld snarlega vegna ófriðarblikunnar í Kóreu, og hvort tveggja leiddi þetta svo til, að verzlunarkjör landsmanna versnuðu á einu ári um 11%. Allt þetta hefur Haraldur Jóhannsson hagfræðingur m.a. skrifað um í greinum í Þjóðviljanum og skýrt þannig, að þeir próf. Ólafur og dr. Benjamín þurfa vissulega ekki að bera neinn kinnroða fyrir spádóma sína.

Hagfræðingarnir eru nú einu sinni ekki forvitrir, og þeir geta hvorki séð fyrir né reiknað út aflabrest eða stórstyrjaldir. Þeir eru hins vegar svo lánsamir, Ólafur og dr. Benjamín, að búa ekki í þjóðfélagi, sem rekur áætlunarbúskap upp á járntjaldsvísu, því að enda þótt þau iðnaðarþjóðfélög hafi fullkomnustu tölvísi í sinni þjónustu, sýnast áætlanir þar þó einnig eiga misjöfnu láni að fagna, eins og viðar, og lífslán viðkomandi hagfræðinga þó vera enn fallvaltara, því að áætlun, sem stenzt ekki, getur þar hæglega gert lífsferil viðkomandi hagfræðinga dálítið endasleppan. Hinu er vissulega alls ekki að neita, að taka ber allar efnahagsáætlanir með fullkomnum fyrirvara, því að áætluð efnahagsþróun er ekki staðreynd, heldur aðeins niðurstaða reiknuð út eftir sem nákvæmustum líkum, sem þó er venjulega hægt að hafa verulega hliðsjón af, en getur auðvitað brugðizt eins og hvað annað, sem framtíðin felur í skauti sinu.

Þá getur sami hv. þm. þess, að áðurnefndir hagfræðingar hafi boðað framleiðsluaukningu vegna gengisfellingarinnar 1950, en segir, að andstætt því hafi tekjur af útflutningnum orðið hvað minnstar árin 1951 og 1952. Þetta á auðvitað ekkert skylt við neina mislukkaða hagfræðispádóma, heldur byggist einfaldlega á þeim geysilega aflabresti, sem varð á þessum árum, því að árið 1951 var aflamagnið um 25% fyrir neðan meðallag og árið 1952 var það 30% fyrir neðan meðallag. Þessi mikli aflabrestur og óhagstæðu verzlunarkjör færðu atvinnulífið aftur úr jafnvægi og torvelduðu svo afkomu útgerðarinnar, að í marz 1951 varð á ný að hlaupa þar undir bagga með stofnun hins svonefnda skilorðsbundna frílista eða bátagjaldeyriskerfis.

Árið 1954 hafði áframhaldandi óhagstæð þróun efnahagsmálanna komið togaraútgerðinni í slík vandræði, að þá varð með löggjöf einnig að veita henni sérstaklega fjárhagslegan stuðning. Í ársbyrjun 1956 varð svo enn þá einu sinni að grípa til bráðabirgðaúrlausnar á vandræðum útgerðarinnar með lögum um framleiðslusjóð, en þrátt fyrir hinn varanlega greiðsluhalla og nokkra ofþenslu í efnahagskerfinu voru kringumstæðurnar að sumu öðru leyti vinstri stjórninni allhagstæðar, þegar hún tók við. Hún fékk í hendur þjóðarbúskap, sem hafði verið með ört vaxandi þjóðartekjum alveg frá því árið 1952 búinn atvinnutækjum, sem voru langtum betri en oftast áður. Árferði var og yfirleitt hagstætt og markaðir fyrir útflutningsafurðir, bæði frjálsir markaðir og clearing-markaðir, voru ýmist hagstæðir eða fóru batnandi. Stjórnin hafði mjög sterk ítök innan heildarsamtaka launþega, enda reyndust þau tillátssamari við þessa stjórn en áður hafði tíðkazt undir svipuðum kringumstæðum. Og að lokum tryggði ríkisstj. sér yfirráð á öllum bönkum landsins með nýrri bankalöggjöf og var þannig í lófa lagið að ráða peninga- og lánapólitíkinni í landinu, sem auðvitað gat verið eitt áhrifamesta tækið í baráttunni gegn dýrtíðinni.

Vinstri stjórnin átti því í raun og veru að hafa alla möguleika til þess að koma á jafnvægi í búskaparstarfsemi, stöðva verðbólguna og rétta af hinn rótgróna greiðsluhalla. Sú varð þó ekki raunin á. Þær tvennar aðgerðir, sem voru megináfangarnir í efnahagsmálapólitík vinstri stjórnarinnar, lögin um útflutningssjóð í desember 1956 og endurskoðun þeirra í formi bjargráðanna í maí 1958, voru hvorar tveggja skyndiúrræði, sem skutu allri raunverulegri lausn vandamálanna á frest. Viðureign vinstri stjórnarinnar minnir einna helzt á karlinn, sem ók hjólbörum og hitti fyrir þúfu og var heilan dag að streitast við að aka yfir þúfuna, en datt ekki í hug að fara utan við hana eða ryðja henni úr vegi, heldur hjakkaði alltaf stöðugt í sama farinu.

Dr. Jóhannes Nordal hefur annars í síðasta hefti Fjármálatíðinda dregið upp skýra og skorinorða mynd af viðureign Íslendinga við efnahagsmál sín á síðustu árum. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzk stjórnarvöld hafa glímt við svipuð vandamál ofþenslu og jafnvægisleysis hvað eftir annað á undanförnum árum. En í stað þess að horfast í augu við erfiðleikana hefur þráfaldlega verið gripið til þess ráðs að velta byrðunum yfir á framtíðina með geysilegri skuldasöfnun við útlönd, sem hefur bundið þjóðinni hættulega þungar klyfjar vaxta og afborgana, án þess þó að færa hana nokkru nær því marki að leysa hin efnahagslegu vandamál sín. Inn á við hefur vandinn á hinn bóginn verið leystur með hafta- og uppbótakerfinu, sem fært hefur allt hagkerfið úr eðlilegum skorðum.“

Þetta voru orð Jóhannesar Nordals. Allir þessir áfangar, togarastyrkirnir frá 1954, framleiðslusjóðslögin frá 1956, útflutningssjóðurinn frá 1956 og bjargráðin frá 1958, voru ekkert annað en bráðabirgðaúrræði, sem skutu höfuðvandanum á frest. Að vísu má segja, að nokkur stig-, en ekki eðlismunur hafi verið á aðgerðum hverju sinni, að einmitt hafi nauðsyn til róttækrar, varanlegrar lausnar verið nokkuð breytileg, en þó stöðugt vaxandi, og að lokum að pólitískar forsendur fyrir lausn málsins hafi sömuleiðis verið mismunandi á hinum ýmsu tímum.

Með tilliti til þessa má það teljast merkilegt, að vinstri stjórnin skyldi ekki hafa áræði til þess að ráðast gegn erfiðleikunum, sökum þess að í hennar tíð jukust þeir mjög og vandamálið krafðist stöðugt stærri fórna til bráðabirgðaúrlausnar einnar saman og þó ekki síður með hliðsjón af pólitískt sterkri aðstöðu stjórnarinnar, sem studdist við þingfylgi þriggja stjórnmálaflokka og taldi sig hafa stærstu hagsmunasamtökin í landinu að öruggum bakhjarli. En áræðið eða getuna brast, hvort heldur sem það nú var.

Þó varpar birting hæstv. viðskmrh. á efnahagsmálatill. samstarfsflokks hans innan vinstri stjórnarinnar nýju ljósi yfir málið og sýnir, að fjöldi þingmanna, sem að stjórninni stóðu, og fjöldi þingflokkanna, sem að stjórninni stóðu, var ekki síður veikleiki hennar en styrkur. Þá sýna þessar leynitill., svo að ekki verður um villzt, að augu ýmissa stuðningsmanna vinstri stjórnarinnar fyrir eðli erfiðleikanna og nauðsyn gagngerðrar stefnubreytingar hafa verið farin að opnast, en heykzt var á því að horfast til þrautar í augu við staðreyndir og hallazt að þægilegri málsmeðferð, að láta allt reka á reiðanum, svo lengi sem unnt var. Því fór sem fór. Hægfara verðbólga, sem hafði haft ganghraðann 10% á ári, breyttist í óðaverðbólgu, sem gerði sig líklega til að bruna áfram með 20–30% hækkunarhraða. Greiðsluhallinn hlóð utan á sig eins og snjóbolti í fjallshlíð. Kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags komst í þann sprengmóð, að dr. Jóhannes Nordal upplýsti í einu þáv. stjórnarblaða, að kaupgjald og verðlag hefði á síðari sex mánuðum ársins 1958 hækkað örar en nokkru sinni áður á jafnskömmum tíma frá því árið 1950.

Forseta Alþýðusambandsins var nóg boðið. Hann tók sér penna í hönd og reit eftirfarandi yfirlýsingu í nóvemberhefti Vinnunnar, tímarits Alþýðusambands Íslands:

„Nú er flestum orðíð ljóst, að þetta er leiðin til glötunar. Þessa braut má ekki renna til enda. Hún liggur fram af hengifluginu.“

Það var vissulega sannnefni, sem hv. 4. landsk. (HV), forseti Alþýðusambands Íslands, gaf uppbóta- og haftakerfinu og verðbólgukjölsogi þess: Leiðin til glötunar. Leiðin til glötunar var vörðuð styrkjum, uppbótum, höftum, hömlum, og milli þessara þéttu varða fossaði svo verðbólguflóðið og bjóst til þess að steypast fram af hengifluginu, sem forseta Alþýðusambandsins sundlaði við að horfa fram af. En það var líka annar pólitískt veðurglöggur stjórnmálamaður, sem ætlaði ekki að lenda í þessu steypiflóði fram af hengiflugi Heiðnabergsins. Það var Hermann Jónasson, forsrh. vinstri stjórnarinnar. Hann gaf bara út stutta og laggóða dagskipan: „Ný verðbólgualda er skollin yfir“ — og yfirgaf svo þjóð sína á gjárbarminum, skattlagða um nýjar 1200 millj. kr. á ári, teljandi þau 34 vísitölustig, sem dýrtíðarvísitalan hafði hækkað um á einu ári, ráðlitla um að komast hjá því að sjá óðaverðbólguna þeyta sömu vísitölu upp í 270 stig á komandi haustmánuðum, sem þýða mundi, að verðmæti hinnar íslenzku myntar væri orðið samsvarandi genginu 60 ísl. kr. á móti hverjum bandarískum dal.

Þannig var í pottinn búið í efnahagsmálum þjóðarinnar, þegar vinstri stjórnin svonefnda skilaði af sér. Í þann mund, er mestur var móðurinn í bjartsýnismönnum þessa vinstrasamstarfs, sem tekið hafði sér bessaleyfi til að kenna sig öðrum fremur við vinnustéttir landsins, þá gat að líta eftirfarandi skrif í tímaritinu Rétti, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað er það, sem skeð hefði, ef Morgunblaðsliðið, hinir ofstækisfullu kommúnistafjendur, sem nú setja soramark sitt á áróður og pólitík íhaldsins, hefði myndað afturhaldsstjórn eftir kosningarnar 1956? Slík afturhaldsstjórn hefði í fyrsta lagi lækkað gengið, sett dollarann úr kr. 16.32 í 25.00 kr. Slík gengisfelling hefði brotið niður alla trú almennings á sparifjármyndun, skagað tryllt kapphlaup um hvers konar fjárfestingu, eyðilagt allan heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins í landinu og svo stórrýrt lífskjör verkalýðsins, því að slík afturhaldsstjórn hefði fylgt gengislækkun eftir með kaupbindingu.“

Já, sjáum til. Hvað skeði á árunum 1956–58? Gengið var fellt, ekki í 25 kr. dollarinn, heldur var sölugengi krónunnar samsvarandi meðalútflutningsbótum á afurðum bátaflotans fellt í hvorki meira né minna en tæplega 31 kr. fyrir Bandaríkjadollar. Og það er líka alveg hárrétt, á þessu tímabili var mikið kapphlaup um hvers konar fjárfestingu, sem rýrði lífskjör verkalýðsins. Og það er sömuleiðis rétt, að kaup var bundið um tíma. En það var bara engin íhaldsstjórn, sem setti þetta á, það var ekkert Morgunblaðslið. Það voru engir kommúnistafjendur. Nei, öðru nær, það voru ekki þeir, sem bókstaflega „eyðilögðu allan heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins“, svo að notuð séu orð Einars Olgeirssonar í Réttargreininni góðu. Það hafði nefnilega ekki verið mynduð nein íhaldsstjórn á Íslandi árið 1956, — eða kannske það hafi verið mynduð íhaldsstjórn, bara með öðru nafni? Það hafði verið mynduð vinstri stjórn, stjórn hinna vinnandi stétta, og þetta voru handaverkin hennar. Gengisfelling, fjárfestingarkapphlaup, kaupgjaldsbinding og kjaraskerðing launþega voru nefnilega meginþættirnir í afrekaskrá vinstri stjórnarinnar sálugu.

Þannig var málum komið, þegar mynduð var minnihlutastjórn Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl. 23. des. 1958. Hlutverk þeirrar stjórnar var að bjarga frá bráðum voða, koma í veg fyrir, að þjóðin gengi fyrir björg. Verkefni þessarar stjórnar var aldrei og gat aldrei verið að leysa hin stóru, varanlegu vandamál. Til þessa skorti allar forsendur, aðstæður og hæfilegan undirbúning. Hennar var að halda óðaverðbólgunni í skefjum, og það gerði hún. Jafnljóst hlaut að vera, að við myndun nýrrar ríkisstjórnar að haustkosningum loknum var óhugsandi, að komizt yrði hjá að taka til úrlausnar höfuðviðfangsefni efnahagsmálanna. Þeim varð nú ekki lengur skotið á frest. Þessa voru núverandi stjórnarflokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., sér fyllilega meðvitandi, er þeir gengu til samstarfs um stjórnarmyndun, enda þær stefnuskrár, sem þeir höfðu háð kosningabaráttu sina fyrir, beint mótaðar af þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem þeir hugðu líklegasta til þess að ráða bót á þeim meinsemdum, sem fært höfðu efnahagslíf þjóðarinnar úr skorðum um alllangt árabil.

Í byrjun vetrar, á þeim dögum, sem myndun núverandi stjórnar stóð yfir, var mjög rætt manna á meðal um ýmsar leiðir til lausnar efnahagsmálunum. Um eitt virtist meðal almennings ekki geta gætt neins ágreinings, og það var, að til nokkurra allróttækra aðgerða mundi þurfa að grípa. Ég held, að ég hafi eiginlega hvergi nema hér á hinu háa Alþ. heyrt raddir um, að hreint alls engra aðgerða væri þörf. Þó hljóta þær raddir vissulega að mæla gegn betri vitund, þegar það liggur nú skjallega, sannanlega fyrir samkv. leynitillögunum margumræddu, að báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þegar vorið 1958 talið ástand efnahagsmálanna orðið svo uggvænlegt, að báðir vildu þá þegar grípa til allharðhentra aðgerða til þess að koma í veg fyrir hrun, enda þótt samkomulag tækist þá ekki um þessar aðgerðir. Þeir flokkar, sem vorið 1958 töldu ofþensluna í efnahagskerfinu vera orðna svo ískyggilega, að grípa yrði til nýrra og róttækra ráðstafana þá, geta vissulega ekki fært nein rök fyrir því, að ónauðsynlegt sé nú, að horfið sé að nýrri stefnu til þess að leysa þennan sama vanda, sem þó sannanlega hefur mjög færzt í aukana frá þeim tíma, einkum vegna bráðaverðbólgunnar síðari hluta ársins 1958. Deilan getur ekki og gat aldrei staðið um það, að vandinn hefði ekki vaxið, úrlausn yrði ekki skotið á frest og að aðgerðir þyrftu að miðast við varanlegri lausn en áður hefði verið látin nægja. Hitt gat aftur verið eðlilegt deiluefni, hvaða leið skyldi farin að settu marki.

Þær munu vera þrjár leiðirnar, sem manna á meðal voru taldar koma til greina, og þó með ýmsum afbrigðum. Í fyrsta lagi verðhjöðnun, „deflation“ eða niðurfærsluleiðin, í öðru lagi framhald uppbóta- og styrkjakerfisins og í þriðja lagi gengisfelling.

Um verðhjöðnunarstefnuna er ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum. Þar sem ofþensla er á tiltölulega lágu stigi, kunna slíkar aðgerðir að leiða til árangurs, en þar sem efnahagskerfi er svo mjög úr skorðum gengið sem raun ber vitni hér á landi, er illmögulegt að framkvæma þess konar aðgerðir, svo sársaukafullar mundu þær verða. Við athugun hefur og komið í ljós, að ef færa ætti verðlag niður til þess grundvallar, að núverandi skráð gengi krónunnar væri raunhæft, mundi það hafa í för með sér svo mikla og snögga kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu, að slíkt yrði ekki álitið bærilegt. Það er því af flestum, sem skil kunna á málinu, talið tómt mál um að tala að fara leið verðhjöðnunar, enda hefur þessi leið í efnahagsmálum á siðari árum óvíða verið reynd og yfirleitt ekki í lýðræðisríkjum.

Slíkt bráðabirgðaefnahagskerfi eins og uppbóta- og styrkjakerfið, sem íslenzk útgerð hefur nú um árabil búið við í mismunandi formi, getur aldrei staðizt til lengdar, enda yfirleitt ekki tilætlunin með slíkum stundaraðgerðum. Eðli málsins samkvæmt er þeim aðeins ætlað að forða frá aðkallandi augnabliksvanda eða skjóta lausn veigameiri mála á frest og vinna með því tíma til undirbúnings á varanlegri lausn þeirra. Því er því jafnan mikil hætta samfara, þegar bráðabirgðabjargráð eru látin staðna og reynt er að viðhalda þeim sem einhverjum varanlegum hjálparmeðulum: Venjulega hefur það í för með sér, að meinsemdir efnahagslífsins grafa þá um sig, skjóta dýpri rótum og verða þeim mun erfiðari viðfangs, þegar á að grafast fyrir þær og koma atvinnulífinu í jafnvægi. Þannig er þessum málum varið með íslenzka haftakerfið. Allt of lengi höfum við dregið að leysa það af hólmi með haldbetri úrræðum. Uppbótakerfið var aldrei hugsað nema sem millibilsástand, áfangi á leið til lausnar stóru viðfangsefni. Þetta kerfi bar sjálft dauðann í sér. Vandinn varð því ekki leystur með því, eins og margír halda, að finna nýja tekjustofna, að útvega 250–300 millj. kr. í nýjum tekjum handa útflutningssjóði. Þetta var að vísu eitt af verkefnunum, en e.t.v. ekki það vandasamasta. Með þessu var nefnilega hvorki greiðsluhalli réttur af né gjaldeyrisspennan leyst. Hin óleystu og óleysanlegu. verkefni lágu í því, að kerfið sjálft var orðið hrein og bein hringavitleysa. Í fyrsta lagi byggðist það á því, að þjóð með takmarkað lánstraust taki stöðugt erlend lán til þess að flytja inn munaðarvörur, en geti ekki í sama mund flutt inn nægilegt magn nauðsynja og eigi í erfiðleikum með að standa skil á greiðslum fyrir vexti og afborganir af hinum erlendu lánum. Í öðru lagi voru engir möguleikar á að mynda hæfilega gjaldeyrisvarasjóði vegna bráðrar nauðsynjar á að eyða samstundis hverjum öfluðum erlendum gjaldeyri til kaupa á hátollavörum, sem fluttar voru svo inn til þess að afla tekna til bótagreiðslna til útvegsins, en vaxandi hluti af gjaldeyristekjum útvegsins fór svo aftur beint í hít vaxta og afborgana af erlendum lánum. Það var engin heil brú í þessum vinnubrögðum lengur. Það gat sem sagt gengið dálítinn tíma að greiða úr sameiginlegum þjóðarsjóði meira meðlag með hverri útfluttri krónu en hægt var að innheimta af innfluttum krónum, eða til jafnaðar þremur krónum meira fyrir hvern útfluttan dal en fyrir innfluttan dal, ef hægt var að fá eitthvert fólk úti í heimi til þess að borga mismuninn, þessar 3 kr., með því að lána afraksturinn af vinnu sinni til þess að greiða þennan mismun og halda þannig uppi okkar góðu lífskjörum. En því voru auðvitað takmörk sett, hversu lengi var hægt að halda hlutunum gangandi með þeirri aðferð, því að það hlaut fyrr eða síðar að koma að því, að fólkinu úti í löndum litist ekki á þetta háttalag og færi að óttast um að fá ekki aurana sína aftur og vildi þá heldur nota sjálft eigið fé en láta ókunnuga lifa á því í pragt og herlegheitum. Það hlaut m.ö.o. að reka að því, að ekki væri hægt að lifa lengur á eyðslulánum. Hvort búið hefur verið nákvæmlega að kreista út siðasta hugsanlega bónbjargadalinn, nú þegar uppbótakerfið var að falla saman, það skal ég ósagt látíð, enda skiptir það ekki öllu máli, því að það hlaut að koma að því, og víst er um það, að tómir pokar standa ekki lengi óstuddir, og þannig var nú ástatt með uppbótakerfið.

En jafnvel þótt tekizt hefði að halda uppbótakerfinu gangandi með 300 millj. í nýjum álögum og einhverjum hörmungarlánum, var það samt óðs manns æði að reyna að halda því lengur áfram, því að aðrir fylgikvillar þessa kerfis voru svo stórhættulegir, eins og m.a. er mjög vel gerð grein fyrir einmitt í leynitillögum Framsfl. frá vorinu 1958. Naumt skammtaðar uppbætur draga nefnilega úr öllum vilja og getu framleiðenda og útflytjenda til þess að geta lagt í kostnað og áhættu við að leita nýrra markaða og gera tilraunir með nýjar framleiðsluaðferðir. Þeir varpa því öllum áhyggjum af sér yfir á sölukerfi gamalla samninga og freistast oft til að hjakka í óbreyttum framleiðsluaðferðum, svo lengi sem auðið er. Ef atvinnugreinarnar fá misjafnar bætur, ýtir það ekki heldur undir eða örvar framleiðslu þeirra vara, sem þjóðhagslega eru hagkvæmastar, heldur getur jafnvel haft gagnstæð áhrif. Kerfið kemur í veg fyrir nýmyndun í framleiðslunni, því að svo lengi sem gömlu framleiðslugreinarnar í krafti uppbótanna nægja til að framfleyta eigendunum áhyggjulítið, er ástæðulaust fyrir þá að taka á sig fyrirhöfn og áhættu, sem samfara er því að leggja út í nýjar framleiðslugreinar. Með þessu móti dregur úr þeim atvinnugreinum, sem njóta ekki uppbóta, eins og t.d. iðnaðinum. Uppbótakerfi er því í eðli sínu hreinræktuð samdráttarstefna í atvinnumálum og ekkert annað og það því fremur sem stöðnun atvinnurekstrarins hlýtur fyrr eða síðar að leiða til þess, að fyrirtækin verði ekki samkeppnisfær á erlendum markaði. Og er þar komið að kjarna málsins, að sú hætta vofir jafnan yfir, að því lengur sem slíkt uppbóta og haftakerfi stendur, þeim mun meira skerðir það lífskjör fólksins og þeim mun meiri hætta er á, að af því muni hljótast verulegt atvinnuleysi.

Framhald á uppbótakerfinu var því frá sjónarmiði núverandi stjórnarflokka í fyrsta lagi útilokað vegna þess, að sú leið var með öllu ófær, og í öðru lagi vegna þess, að enda þótt með einhverjum hörmungum hefði verið hægt að fleyta kerfinu áfram um stund, sem var þó vonlaust verk, hlaut það að kalla yfir þjóðina vaxandi kjaraskerðingu og að lokum atvinnuleysi, sem ríkisstj. taldi að koma yrði í veg fyrir, hvað sem það kostaði.

Hafta- og styrkjastefnan var leiðin til glötunar, eins og forseti Alþýðusambandsins hafði réttilega nefnt hana. Það var alveg sama, með hversu góðum ásetningi hún var brúlögð. Hún hlaut að liggja norður og niður. Þetta ættu allir að gera sér ljóst og þá um leið þau einföldu sannindi, að efnahagsmálastefna er aðeins góð og forsvaranleg, meðan hún er þegnunum nytsamleg og flytur þeim velmegun eða ver þá áföllum. En þegar hún er tekin sjálfkrafa að þrengja kjör þeirra og hefur misst alla hæfni til þess að fást við úrlausnarefnin, er hún orðin úrelt og hefur lokið hlutverki sínu og á skilyrðislaust að víkja fyrir nýrri og betri stefnu, sem er vandanum vaxin.

Engin efnahagsmálastefna hefur tilgang í sjálfri sér, og það á aldrei að viðhalda neinu efnahagskerfi vegna þess sjálfs. Efnahagskerfín eru til vegna fólksins og fyrir fólkið, og með tilliti til þess verður að meta efnahagsmálastefnurnar á hverjum tíma.

Uppbóta- og haftastefnan hefur lokið hlutverki sínu. Hún hefur runnið sitt skeið til enda. Það kerfi verður að víkja, og við verður að taka nýtt kerfi, ný efnahagsmálastefna, sem hefur þrótt og hæfni til þess að leysa hin miklu og marggreindu vandamál, sem fram undan eru.

Af leiðunum þremur, sem ég fyrr gat um, kom því raunverulega aldrei nema ein til greina. Þetta er nú í dag viðurkennt, ekki einungis af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, heldur og af meiri hluta stjórnarandstöðunnar, eins og bæði má greinilega marka í tillögum framsóknarmanna í efnahagsmálum frá vorinu 1958, sem nú hafa verið birtar og vakið hafa verðuga athygli, og sömuleiðis af málflutningi framsóknarmanna hér í hv. deild.

Varðandi minni stjórnarandstöðuflokkinn er það að segja, að hann hefur að vísu haft sitt hvað út á till. ríkisstjórnarinnar að setja, eins og gengur og gerist með flokka, sem eru í stjórnarandstöðu, en hins vegar ekki komið fram með neinar aðrar tillögur til úrbóta sjálfur og enn sem komið er ekki gefið út neina skýlausa yfirlýsingu um, að hann teldi uppbótakerfið færa og hagkvæma lausn á þeim efnahagsvandamálum, sem nú er glímt við. Ef svo skyldi hins vegar vera, að Alþb. teldi allt gott, sem áður var, og uppbótakerfið með fölsku gengi, stöðugum bónbjargalánum, nýjum skattabyrðum, staðnandi framleiðslukerfi og yfirvofandi atvinnuleysi vera lausnarorðið í efnahagsmálum Íslendinga í dag, þá væri fróðlegt að fá hiklausa yfirlýsingu um það, svo að almenningur fari ekki í neinar grafgötur um það, hver sé stefna Alþb. í dag í efnahagsmálum, svo ofarlega sem þau mál eru nú á baugi.

Það var fárra kosta völ. Það var í raun og veru ekkert val. Leiðin var ein, og hana varð að halda, enda í fullu samræmi við þá stefnu, sem báðir stjórnarflokkarnir höfðu haldið fram í kosningabaráttunni og hæstv. ríkisstj. markaði útlínur að í yfirlýsingu sinni, er hún tók við stjórn landsins.

Nú hefur þessi leið til lausnar í efnahagsmálum þjóðarinnar verið lögð fyrir hið háa Alþingi í formi þess frv. til laga, sem hér liggur fyrir til umræðu. Síðar munu fleiri frv. fylgja á eftir þessu, sem munu sameiginlega skapa þá heildarstefnu, sem miðar að efnahagslegri viðreisn í þessu landi.

Því hefur mér dvalizt nokkuð við að ræða um þá efnahagsþróun, sem er aðdragandi núverandi ástands, að hún er forsenda þeirrar löggjafar, sem nú er til umræðu. Til þess að menn skilji nauðsyn þeirra aðgerða og þeirrar löggjafar, sem nú er til umræðu, verða menn að hafa fullan kunnugleika á efnahagsástandinu, eins og það raunverulega er í dag, og auk þess að hafa nokkra nasasjón af því, með hvaða hætti það hefur æxlazt svo til sem raun er á. M.ö.o.: það verður að segja þjóðinni sannleikann um erfiðan efnahag og þær byrðar, sem hún þarf að axla til þess að koma fjárhag sínum á réttan kjöl. Þjóðin á kröfu til þess að heyra sannleikann og allan sannleikann, því aðeins er hægt að gera kröfu til þess, að þjóðin vilji nokkuð á sig leggja. Fyrri efnahagsaðgerðir hafa einmitt oft mistekizt vegna þess, að þjóðinni var ekki sagt satt eða aðeins hálfur sannleikur. Slíkt má ekki henda að þessu sinni. Þess vegna var það, að hæstv. forsrh. dró ekkert undan í ræðu sinni, heldur þvert á móti benti á flest það, sem tvímælis kann að orka, svo að menn gætu að fengnum upplýsingum sjálfir fellt óvilhallan dóm. Af sömu ástæðum hef ég varið hér nokkrum tíma til þess að rekja sögu málsins og benda á þær hugsanlegu leiðir, sem til mála höfðu komið við úrlausn vandans. En í raun og veru er allt tal um fleiri leiðir í sambandi við lausn þessara mála aðeins deila um keisarans skegg, því að leiðin er ein og bara ein, hversu vel sem er leitað.

Ég mun nú snúa mér að því að gera grein fyrir frv. sjálfu og þeirri leið í efnahagsmálum, sem í því felst, og þá samtímis víkja að þeirri gagnrýni, sem að því hefur verið stefnt. Þá mun ég að gefnu tilefni eftir því sem við verður komið, skýra samhengi þessa frv. við stefnuskrá stjórnarflokkanna og þau fyrirheit, er þeir gáfu kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar, sökum þess að hér í hv. d. hafa í umr. orð fallíð, sem borið hafa brigður á, að stjórnarflokkarnir hygðust standa við kosningastefnuskrá sína, og mun ég víkja að því síðar. Að lokum mun ég svo ræða nokkuð um þá almennu efnahagsstefnu, sem mótað hefur þær leiðir í atvinnu- og fjármálum, sem frv. gerir ráð fyrir að farnar verði, og þau hagrænu markmið, sem stefnt er að.

Í 1. gr. frv. er sá þáttur efnahagsaðgerðanna, sem mestu umróti veldur, mest er um deilt og vissulega er grundvöllur að flestum hinna annarra meiri háttar ráðstafana, sem í kjölfarið sigla. Það er hin nýja gengisskráning, sem mælir svo fyrir, að gengi ísl. krónu miðað við erlendan gjaldeyri skuli vera kr. 38.00 hver bandarískur dollar. Gengi myntar er ekkert annað en verð hennar í skiptum fyrir aðra erlenda mynt, og ætti því ekki að vera meira feimnismál að ræða um gengi og gengismál en verð og verðlagsmál, en svo virðist því miður oft vera, því að eins og hinn sósíalistíski hagfræðingur, hr. Haraldur Jóhannsson, hefur einu sinni sagt í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta, þá hefur Haraldur orðað það svo: „Þá hefur gengislækkun löngum verið allt að því bannorð meðal vínstri manna. Orðið gengislækkun hefur verið notað sem skammaryrði, en gengislækkun sem ráðstöfun í efnahagsmálum hefur verið forðazt að ræða.“ Og hann heldur áfram: „En á sama hátt og strúturinn getur ekki forðazt hætturnar með því að stinga höfðinu í sandinn, geta vinstri menn ekki unnið bug á efnahagslegum erfiðleikum með því að virða þá að vettugi.“ Þetta segir Haraldur Jóhannsson, formaður útflutningssjóðs og einkaráðgjafi 4. þm. Austf. Hann sagði, að sósíalistunum hætti til eins og strútnum að stinga höfðinu í sandinn, þegar efnahagsmál væru rædd, og því verður vissulega ekki neitað, að þessi líking við strútinn sýnist vera í fullu gildi, því að allt tal Alþb: manna hérna í d. um efnahagsmál hefur verið eins og talað upp úr sandi.

Stjórnarandstæðingar reyna að koma því inn hjá almenningi, að sú hin nýja gengisfelling sé í senn meiri en nokkurn tíma áður og auk þess algerlega tilefnislaus. Einkum eru það Alþb.-menn, sem þannig túlka málið. Halda þeir því fram, að ætlunin sé að fella gengið um 135%. Því er nú til að svara, að sú gengisskráning, sem nú er ráðgerð, er aðeins 20–34% felling frá löglegu sölu- og kaupgengi, sem að undanförnu hefur verið á erlendum gjaldeyri, eða samkv. upplýsingum hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, sem sama embætti gegndi í vinstri stjórninni, minni gengisfelling en framkvæmd var af þeirri stjórn, en það var að vísu ekki undir nafninu gengisfelling, heldur gekk sú gengisfelling undir dulnefninu yfirfærslugjald. Þessi gengisfelling vinstri stjórnarinnar, sem sósíalistarnir engu síður en aðrir stuðningsmenn hennar báru fulla ábyrgð á, nam hvorki meira né minna en 30%. Þegar gengið var fellt árið 1950, nam sú gengisfelling röskum 42%. Sú gengisfelling, sem er núna fyrirhuguð, er því minni en oft áður og áreiðanlega ekki meiri en sú gengisfelling, sem vinstri stjórnin framkvæmdi. Um nauðsyn þessarar gengisfellingar þarf heldur enginn að efast.

Í sjálfu sér er það furðulegt, að nokkrum manni skuli nokkurn tíma koma til hugar, að nokkurri ríkisstj. á Íslandi skuli detta í hug að leggja út í gengisfellingu, nema henni sé nauðugur einn kostur, því að gengisfelling er vissulega neyðarúrræði, sem aðeins er gripið til, ef annarra kosta er ekki völ, og gengisfelling sé áður í raun réttri gerð staðreynd, þ.e.a.s. að gengi myntarinnar, verðmæti krónunnar, sé þegar fallið og eftir sé aðeins að viðurkenna staðreyndina á pappírnum með því að skrá hið raunverulega gengi. Þannig er og málunum háttað hér á landi í dag. Gengi krónunnar er löngu fallið. Þessa staðreynd ber hinu háa Alþ. nú aðeins að viðurkenna með því að lögbjóða skrásetninguna, það er ekkert annað, sem er að ske.

En hvers vegna heyrast þá raddir, sem andmæla þessari í sjálfu sér eðlilegu aðgerð? Hverjir hafa með öðrum orðum hag af falskri gengisskráningu? Þeir eru furðumargir, og það eru ekki bara spekúlantar, sem hagnast á falskri gengisskráningu. Fölsk gengisskráning getur, ef henni er haldið uppi með greiðsluhalla og erlendum eyðslulánum, um stundarsakir fært þeirri þjóð, sem hlut á að máli, óeðlilega góð lífskjör, en aðeins um stundarsakir. Gengisfelling þýðir undir þessum kringumstæðum lakari lífskjör fyrst í stað, einhverja kjaraskerðingu.

En dæmið um lífskjörin og kjaraskerðinguna er ekki svona einfalt. Það, sem á að bera saman, eru ekki þau óeðlilegu lífskjör, sem fengin voru að láni, og þau nýju lífskjör, sem fylgja nýrri gengisskráningu, heldur nýju lífskjörin og þau, sem skapazt hefðu, ef ekkert hefði verið að gert, því að lánslífskjörunum varð ekki til lengdar haldið uppi.

Spurningin, sem fyrst og fremst verður því að svara, áður en lífskjaradæmið er reiknað út, er: Hver hefðu lífskjörin orðið, ef ekkert hefði verið að gert? Þeirri spurningu verður að vísu ekki svarað í krónum og aurum, en henni er hins vegar auðsvarað með almennum orðum. Ef genginu hefði ekki verið breytt og samtímis gripið til annarra ráðstafana til þess að stöðva verðþenslu, hefði óðaverðbólga, greiðsluhalli og alger gjaldeyrisskortur fljótlega leitt til greiðsluþrota, vöruskorts og atvinnuleysis. Það er þetta efnahagslega hrun, sem menn eiga að bera saman við þá kjaraskerðingu, sem hin nýja gengisskráning kann að hafa í för með sér. Það er á milli þessara tveggja lífskjara, sem þjóðin á að velja, og það ætti vissulega ekki að vera vandasamt.

Sósíalistar, sem samþykktu gengisfellingu í vinstri stjórn, vilja auðvitað ekki samþykkja gengisfellingu, þegar þeir eru utan stjórnar. Það er afstaða fyrir sig og óþarft að rökræða hana.

Framsóknarmenn eru tvístígandi eins og oft áður. Þeir segja, að gengisfellingin sé of mikil, en færa engin rök fyrir því. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) segir líka, að kjaraskerðingin sé of mikil. Kannske hann vildi segja okkur, hvað hann telur hæfilega kjaraskerðingu, það væri vissulega fróðlegt að heyra. Framsóknarmenn eru tvístígandi eins og áður. Þeir minnast úttektar þjóðarbúsins, sem Hermann Jónasson fékk erlendu sérfræðingana til þess að gera í september 1956, og þeir ráðlögðu ýmsar skynsamlegar aðgerðir, sem að vísu mundu hafa í för með sér 2–3% kjaraskerðingu. Þá tvístigu framsóknarmenn. Þeir stungu skýrslum sérfræðinganna undir stól, framkvæmdu ekki aðgerðir eftir ráðleggingum sérfræðinganna, en leiddu samt yfir þjóðina talsvert meira en 2–3% kjaraskerðingu með jólagjöfinni frægu árið 1956. Þeir minnast leynitillagna sinna, sem fólu í sér gengisfellingu og nokkra kjaraskerðingu. Þeim tillögum var líka stungið undir stól og bjargráðin í maí 1958 samþ. í staðinn, og þjóðin fékk sína kjaraskerðingu engu að siður án beinnar gengisfellingar. Og nú tvístíga þeir enn. Þeir standa öðrum fæti í haftakerfinu, en hinum vilja þeir tylla við jaðar efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar. Þeir hegða sér eiginlega nákvæmlega eins og Magnús gamli sálarháski hérna um árið, þegar manntalið var fyrir norðan. Hann labbaði síg upp í Vatnsskarð og lá þar allan daginn yfir læk, sem skilur Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur, hálfur í hvorri sýslunni, þannig að hvergi væri hægt að telja, að hann væri tilheyrandi. í gengismálinu eru sósialistar nefnilega fulltrúar stefnu strútsins, en Framsókn stefnu Sálarháskans, og er hvorugur hluturinn góður.

En hver er svo ávinningurinn við gengisfellinguna? Hún er einn veigamesti þátturinn í að forða frá efnahagshruninu. Með henni á að vera hægt að rétta af greiðsluhallann, gera eyðslulánin ónauðsynleg, uppræta gjaldeyrisskortinn, örva framleiðsluna, koma upp gjaldeyrisvarasjóði, gera viðskiptin frjáls og koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Einn sneggsti bletturinn á hinu íslenzka efnahagskerfi s.l. 15 ár hefur veríð skorturinn á gjaldeyrisvarasjóði. Það var einmitt hann, sem átti sinn þátt i, að tilraunin árið 1950 tókst ekki til fulls. Og það er einnig þessi skortur, sem því veldur, að allar tilraunir til þess að gera verzlunina frjálsa hafa farið út um þúfur. Burtséð frá þessum sérstöku viðhorfum þörfnumst við gjaldeyrisvarasjóðs vegna ýmiss konar sveiflna í framleiðslu okkar og utanríkisverzlun.

Í lagafrv. þessu er gert ráð fyrir, að tekin séu gjaldeyrislán að upphæð 20 millj. dollara. Stjórnarandstaðan hefur mjög haldið því á lofti, að hér sé haldið áfram á fyrri lántökubraut, þarna sé um ný, stór eyðslulán að ræða og af þeim muni hljótast þungar vaxtabyrðar til viðbótar þeim, sem fyrir voru. Sé þetta lítt í samræmi við gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á lánastefnu vinstri stjórnarinnar og aðvaranir okkar, að Íslendingar mættu ekki binda sér of þunga vaxtabagga erlendis.

Þessi lántökuheimild er allt annars eðlis en venjuleg eyðslulán. Hér er nánast aðeins um að ræða yfirdráttarheimild, sem ekki er gert ráð fyrir að nota, nema þegar þörf krefur, og aldrei að breyta í föst lán. Þetta er, eins og ég gat um, fyrst og fremst varasjóður, og vextir verða ekki greiddir af honum, nema eftir því sem hann er notaður. Af eftirtöldum skýringaratriðum má sjá, hversu óhjákvæmileg okkur er einmitt þessi lánsheimild:

1) Í dag eiga Íslendingar engan gjaldeyrisforða og enga ónotaða yfirdráttarmöguleika.

2) Á undanförnum árum hafa árstíðasveiflur í gjaldeyrisstöðu okkar komizt upp í 10 millj. dollara á ári.

3) Aðrar sveiflur í gjaldeyrisstöðunni milli ára vegna birgðabreytinga hafa oft numið 5–6 millj. dollara.

4) Þá getur þurft að jafna sveiflur vegna aflabragða, og geta þær verið miklar.

5) Frjálsleg viðskipti eru með öllu útiokuð, nema gjaldeyrisvarasjóður sé fyrir hendi til þess að jafna sveiflur af þessu tagi, og er höfuðtilgangur 20 millj. dollara heimildarinnar einmitt að mynda slíkan varasjóð til þess að leysa þau vandamál, sem ég greindi frá. Ætti slíkur sjóður að gerbreyta viðskiptaaðstöðu landsins og auðvelda, að upp verði tekin frjálsari viðskipti, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Einn áfangi í hinni nýju viðreisnarstefnu er sem sagt að gera utanríkisviðskipti þjóðarinnar frjálsari, einkum innflutningsverzlunina. Mun tilætlunin að leggja niður innflutningsskrifstofuna og raunar einnig útflutningsnefndina og gefa smám saman allt að 85–90% af innflutningnum algerlega frjálsan, þ.e. a. s. 60% yrðu frjáls með öllu, 40% væru á leyfum, en þar af 25–30% leyfisvara á clearing-lönd og raunverulega frjáls innan þeirra marka, en 10–15% yrðu aftur á ströngum leyfalista.

Á síðustu árum hafa 17 lönd í Norður-, Vestur-, Suður- og Austur-Evrópu gefið 90% af innflutningsverzlun sinni frjálsa. Fyrir 10 árum voru öll þessi lönd með greiðsluhalla gagnvart Bandaríkjunum og bjuggu við alls konar viðskiptahöft. Nú hafa þau létt höftunum af og hafa mjög mörg orðið hagstæðan greiðslujöfnuð gagnvart Bandaríkjunum, enda eru þau nú öll með rétt skráð gengi. Grikkland, Tyrkland og Frakkland voru síðust þessara landa að leiðrétta gengi sitt og gera verzlunina frjálsa. Þetta skeði, sem kunnugt er, í Frakklandi um áramótin 1958–59. Til fróðleiks má geta þess, að þar gerðu hagfræðingar áætlanir um þær verðhækkanir, sem gengisfellingin mundi hafa í för með sér. En verðhækkunin varð minni en gert var ráð fyrir, sökum þess að verzlunarfrelsið, samkeppnin, sem því fylgdi, vó að verulegu leyti upp á móti verðhækkun gengisfellingarinnar. Frjáls verzlun er nefnilega ekkert sérhagsmunamál þeirra, sem við verzlun fást. Hún er hagsmunamál allra þegnanna, því að ef verzlunin verður raunverulega frjáls, færir hún í þjóðarbúið betri vörur og ódýrari vörur og meira vöruval.

Sú tölulega kjaraskerðing, sem áætla má að ein gengisfelling geti orsakað, kann því stundum að vera að mestu bætt með beinum kjarabótum, sem frjálsari verzlun færir landsmönnum. Þær kjarabætur verða að vísu ekki tíundaðar í neinni vísitölu. En engu að síður geta þær reynzt alþýðu manna sá búhnykkur, sem baggamun getur riðið um afkomu manna, því að með frjálsum viðskiptum getur kaupmáttur launanna aukizt meira og varanlegar en oft verður áorkað með belnum kauphækkunum. En það er eins og sumum standi einhver alveg óskiljanlegur stuggur af frjálsri verzlun og halda þar á lofti fáránlegustu rökum. T.d. hefur mér stundum fundizt jafnmargfróður maður og 3. þm. Reykv. (EOl) vera með æði gamaldags kenningar á því sviði, þegar hann hefur í sambandi við aukið verzlunarfrelsi verið að bollaleggja um, hvort við eigum að hugsa um íslenzkan þjóðarbúskap sem sjálfstæða heild eða part úr stærri heild, og að verið væri að innlima okkur í stór viðskiptasvæði og innleiða með því atvinnuleysi og ég veit ekki hvað og hvað. Enn þá öfgafyllri fannst mér fullyrðing, sem ég las nýlega í tímariti Máls og menningar og var skrifuð af ungum frönskum manni um íslenzkt hagkerfi. Hann virtist óttast „liberaliseringu“ eða fríverzlun hér á landi vegna þess, eins og hann orðaði það, að Ísland væri atvinnulega á stigi hálfnýlendu. Þetta er sennilega einhver erfða „komplex“ vegna 600 ára setu Íslendinga í verzlunarfangelsi útlendra einvaldskonunga og einokunarkaupmanna plús 30 ára stofufangelsi íslenzkrar verzlunar undir varðgæzlu stofnana með breytilegum nöfnum, sem aðsetur hafa haft ekki tugthúsmegin við Skólavörðustíg.

Í fyrsta lagi á hálfnýlenduröksemdin sennilega engan formælanda hér í d., svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um hana. Í öðru lagi er svo spurningin, hvort við hugsum okkur íslenzkan þjóðarbúskap sem sjálfstæða heild eða hluta af stærri heild, hrein rökvilla, því að vitaskuld á íslenzkur þjóðarbúskapur í senn að vera sjálfstæð heild og hluti af stærri heild, hluti af viðskiptum allra, sem frjáls viðskiptí vilja reka, og hluti af gervöllum heimsviðskiptunum. Tímabili einangrunar er lokið á Íslandi bæði í menningarmálum og viðskiptamálum. Þeir, sem hugsa eins og Máls- og menningarpilturinn, halda, að við séum enn á hálfnýlendustigi, og telja, að vernda þurfi okkur fyrir frjálsum viðskiptum við umheiminn, eins og Danir vernda Grænlendinga með einokun sinni, — þeir eru heilli öld á eftir tímanum. Þeim væri sannarlega hollt að lesa það, sem Jón Sigurðsson sagði einmitt fyrir einni öld um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Verzluninni er eins háttað á Íslandi og annars staðar, að því frjálsari sem hún verður, því hagsælli verður hún landinu. Slíkt dæmi er mikilsvert og því heldur sem mörgum hættir við að taka Ísland eitt sér í allri veröldinni og vilja neita, að reynsla annarra landa eigi þar við.“

Ísland er ekki lokað land, og við viljum ekki lifa í lokuðum viðskiptaheimi. Þess vegna er kannske eina hættan, sem að okkur gæti steðjað í þessum efnum, að við bindum okkur um of ófrjálsum clearing-samningum við lönd, sem enn geta ekki vegna gjaldeyrisörðugleika eða pólitískrar sérvizku rekið frjáls viðskipti. Hættan fyrir framleiðslu okkar og útflutningsverzlun liggur í því að vera of háðir úrslitavaldi fjögurra rauðra clearing-stórvelda og eins Færeyings. Þjóð, sem fær hlutfallslega meira af þjóðartekjum sínum úr utanríkisverzlun sinni en flestar aðrar þjóðir heims, hlýtur að keppa að því að geta rekið sem frjálsust viðskipti við allar þjóðir. Það eru hennar hagsmunir, hennar mikla kjarabót, og að þessu miðar einmitt efnahagsmálafrv. það, sem hér er til umræðu.

Með afnámi uppbóta- og styrkjakerfisins og sannvirðisgengisskráningu krónunnar skapast algerlega nýr starfsgrundvöllur fyrir útflutningsframleiðsluna og allan atvinnurekstur í landinu, — starfsskilyrði, sem gera meiri kröfur til atvinnurekenda en áður tíðkaðist, en gefa þeim jafnframt miklu meiri möguleika. Nú á að myndast rekstrargrundvöllur, sem gerir mögulegt að láta framleiðsluna bera sig styrkjalaust, en jafnframt er til þess ætlazt, að atvinnureksturinn standi á eigin fótum og fyrirtækin séu rekin á ábyrgð eigendanna sjálfra. Hin nýja gengisskráning er ekki miðuð, eins og uppbæturnar, við rekstur lökustu fyrirtækjanna, heldur við rekstur meðalfyrirtækja, þess fyrirtækis, sem er skaplega rekið. Áratugs styrkja- og uppbótakerfi hefur alið hálfgerða ómyndugleikatilfinningu upp hjá sumum atvinnurekendum, sem kastað hafa öllum sínum áhyggjum upp á einhverja opinbera forsjá, og hjá sumum hefur þá jafnframt sljóvgazt tilfinningin fyrir því, að atvinnurekandi sé ábyrgur fyrir gengi fyrirtækis og að fyrirtækið þurfi að bera sig. Hinn nýi grundvöllur vekur til samkeppni, knýr til aukinnar hagkvæmni, „rationaliseringar“, við rekstur fyrirtækjanna. Atvinnurekstrinum er nú ætlað að standa á eigin fótum.

Það er auðvitað algerlega út í hött að halda því fram, að fyrirtæki, sem stendur á eigin fótum og rekið er með fullri ábyrgð eigendanna, þurfi ekki á aðstoð lánastofnana að halda bæði við stofnsetningu og rekstur. Slíkt er auðvitað lífsnauðsynlegt í hvaða þjóðfélagi sem er og við hvaða efnahagskerfi sem búið er. Að halda því fram, að fyrirtæki standi ekki á eigin fótum, þó að það noti lánsfé, en eigi t.d. miklar og verðmætar eignir og framleiðslutæki, er álíka og að fullyrða, að hús eða bygging standi ekki af eigin styrkleika, þótt grunn þurfi undir það. Með því að standa á eigin fótum er auðvitað átt við, að fyrirtæki fái eðlilega og heilbrigða starfsmöguleika, geti skilað afrakstri, myndað eðlilega sjóði til aukningar, viðbótar og viðhalds framleiðslutækjunum. Andstæða þessa er hins vegar ríkjandi ástand, þar sem styrkir eru stýfðir úr hnefa og réttir sem ölmusur að þeim, sem atvinnutækin reka, og afkomu fyrirtækjanna haldið stöðugt svo bágborinni, að tekjur hrökkva oft ekki fyrir rekstrarútgjöldum, hvað þá að myndaðir séu nauðsynlegir sjóðir til endurnýjunar á atvinnutækjum, og stjórnvöldin hafi slíkt ógnarvald yfir atvinnurekstrinum, að valdhafar geti með því að kippa að sér styrkjalúkunni með einu handbragði slitið þann bláþráð, sem tilvera stórfyrirtækja, atvinnuvega og afkoma heilla bæja og byggðarlaga byggist á.

Raunhæf gengisskráning og aukið athafnafrelsi munu ásamt leiðréttingu á skattakerfi landsmanna færa nýtt fjör í atvinnulíf þjóðarinnar. Þegar hætt verður að arðræna framleiðslugreinarnar, eins og átt hefur sér stað að undanförnu, og útgerð og útflutningsfyrirtækjum, sem og öðrum atvinnurekstri í landinu, verður heimilað að nota afrakstur fyrirtækjanna til þess að endurnýja tæki sín og færa út kvíarnar, en eru ekki þvinguð til þess að hjara á gersamlega óraunhæfum starfsgrundvelli og siðan mergsogin og skattpínd af opinberum aðilum, þá mun flótti fjármagnsins í fasteignir hverfa úr sögunni, brask og „spekulations“-gróði vegna rangrar gengisskráningar missa aðdráttarafl sitt, en fjármagnið og heilbrigð athafnaþrá leita í framleiðsluna, sem við þennan nýja liðsauka mun færast í aukana, hasla sér nýjan völl á nýjum vettvangi. Þessi blóðgjöf til útflutningsatvinnuveganna ætti því tvímælalaust að stuðla að auknum afköstum, fjölbreyttari framleiðslu og þá samtímis að því að tryggja almenna og stöðuga atvinnu í landinu.

Önnur meginforsenda þess, að viðreisnarstefnan, gengisbreytingin og hinar ýmsu hliðarráðstafanir hennar beri fullkominn árangur og jafnvægi í búskaparstarfseminni náist, er, að eftirspurn aukist ekki vegna peningaþenslu um meira en sem samsvarar framleiðsluaukningu þjóðarbúsins. Gengisbreytingin mun vafalaust hafa í för með sér verulega aukna eftirspurn eftir lánsfé, sökum þess að atvinnurekstur mun almennt verða fjárfrekari, eftir að áhrifa gengisbreytingarinnar fer að gæta. Ef bankarnir mundu nú takmarkalaust verða við þessum óskum, mundu áhrif gengisbreytingarinnar verða að engu og verðbólgan fljótlega blása upp með fullum krafti að nýju. Bæði atvinnurekendur og launþegar verða því að gera sér ljóst, að útlánatakmörkun bankanna er sá meginvarnargarður, sem á að koma í veg fyrir, að stórstreymi verðbólgunnar flæði að nýju yfir landið. Ef brotin verða skörð í þann flóðgarð, er allt erfiðið unnið fyrir gýg. Þá munu jafnt réttlátir sem ranglátir skolast með flóði nýrrar verðbólgu.

Samkv. frv. um efnahagsmál er bæði gert ráð fyrir beinni útlánatakmörkun bankanna og sömuleiðis óbeinni takmörkun með tilstilli ákveðinnar vaxtapólitíkur. Gert er ráð fyrir, að aðgerðum þessum sé stjórnað af seðlabanka landsins, svo sem tíðkast í öðrum löndum. Það er algengur háttur meðal annarra þjóða að stjórna peningamálum í gegnum vaxtapólitíkina að miklu leyti. Þessi háttur hefur ekki nema að litlu leyti verið viðhafður hér á landi, m.a. sökum þess, að á langvarandi verðbólgutímum hefur slík vaxtapólitík ekki nema tiltölulega takmarkaða þýðingu. Tilætlunin er nú að treysta á að beita þessari aðferð ásamt beinni útlánatakmörkun. Ekki mun þó tilætlunin. að vaxtahækkunin eða útlánatakmörkunin verði varanlegt fyrirkomulag, heldur fyrst og fremst stundaraðgerðir til þess að tryggja, að gengisbreytingin verði ekki eyðilögð af nýrri verðbólgu, og til þess að treysta grundvöllinn undir hinum nýja jafnvægisbúskap, á meðan áhrif gengisbreytingar og hliðarráðstafana eru smám saman að koma fram og mynda eina heild.

Hér á landi hefur verið allmikill sparnaður á síðari árum. En þessi sparifjármyndun hefur runnið að mestu beint í fjárfestingu, en ekki til framleiðslunnar, heldur mikið af henni til ýmiss konar óhagkvæmrar fjárfestingar eða lítið arðbærrar fjárfestingar, byggingar íbúðarhúsa og fleira. Vonir standa nú til, að hækkaðir vextir og bætt starfsskilyrði atvinnurekstrarins muni draga hluta þessarar fjármagnsmyndunar eftirleiðis frá hinni óarðbæru fjárfestingu og yfir til framleiðslunnar. Ætti þetta að einhverju leyti að geta bætt úr fjármagnsþörf framleiðslufyrirtækjanna.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur einmitt oftsinnis bent á þessa miklu fjárfestingu, sem beint hafi haft í för með sér kjaraskerðingu fyrir launþega. Hefur hann m.a. í grg. fyrir frv. um áætlunarráð ríkisins reynt að færa að því tölulegar sönnur, að hin of mikla fjárfesting, sem, eins og ég hef bent á; hefur að verulegu leyti farið í óarðbæra fjárfestingu, hafi minnkað neyzlu manna og því þrengt kjörin. Um fjárfestingarstefnuna má svo segja það, að hún hefur hvorki verið í samræmi við raunverulega getu þjóðarinnar né alls kostar hagkvæm. Hin of mikla fjárfesting hefur bæði þrýst á greiðslujöfnuðinn og skapað togstreitu um vinnuaflið, auk þess sem hún hefur beint skert kjör launþeganna, þannig að neyzla einstaklinga og þess opinbera hefur á líðnum tíu árum lækkað um 10% miðað við hlutdeild í þjóðarframleiðslunni. Árið 1948 var hlutur neyzlunnar 63.3% þjóðarframleiðslunnar, en 1.957 ekki nema 53.3%. Afleiðing þessarar röngu fjárfestingarstefnu hefur því m.a. verið stöðugur greiðsluhalli við útlönd, skortur á vinnuafli til framleiðslunnar og rýrnun lífskjara launþeganna, miðað við það, sem ella hefði verið. Það ætti því vissulega að vera launþegum fagnaðarefni, ef ný bankapólitík er tekin upp, sem beinir sparnaðinum að arðbærri framleiðslu, sem veitir ekki aðeins atvinnu og tekjur, heldur og með vaxandi framleiðslu gerir aukna neyzlu mögulega á komandi árum.

Því er hins vegar alls ekki að neita, að hin nýja bankapólitík verður ekki sársaukalaus. Þess ber þó að gæta, að ef hún verður ekki framkvæmd, þá verður í fyrsta lagi gengisfellingin til einskis og verðbólgan skellur á að nýju með fullum þunga. Í öðru lagi er hún ekki hugsuð sem varanlegt fyrirkomulag, heldur aðeins jafnvægisaðgerð. Og í þriðja lagi má alls ekki ganga lengra en svo í útlánatakmörkuninni, að hún undir engum kringumstæðum hindri vöxt framleiðslunnar eða af henni leiði atvinnuleysi.

Peningamálin eru einn viðkvæmasti þáttur efnahagsmálanna. Þau eru blóðrás þjóðarbúsins. Eftir þeim farvegi rennur fjármagnsstraumurinn, sem greinist út í hið fínasta háræðanet atvinnulífsins. Þarna má hvorki of né van gera. Það verða ríkisstj. og seðlabankastjórn, sem halda um púlsinn og fylgjast með æðaslögum framleiðslunnar og eiga að tryggja það með nægilegri blóðgjöf, að búskaparstarfsemin haldi fullum þrótti.

En það eru fleiri hliðar á málinu. Vaxtahækkunin ætti að vera mikil sárabót til handa þeim sparifjáreigendum, sem verðbólgan hefur á liðnum árum leikið gráastan leik við, auk þess sem hin nýja peningapólitík, ef hún tekst, mun endurreisa virðingu íslenzku krónunnar og tiltrú manna til hennar sem verðmælis og verðmætis, þannig að sá dagur gæti verið fram undan, að það mundi þykja jafngott að eiga íslenzka peninga sem erlenda mynt og verðmætari eign vera í slegnum krónum en í munum úr járni og steinsteypu. Öll miðar þessi viðleitni á sviði peningamálanna fyrst og fremst að því að vængstýfa þann ferlega vágest, sem nefnist verðbólga.

Önnur meginforsenda þess, að viðreisnarstefnan megi ná tilætluðum árangri er sú, að komið sé í veg fyrir, að framhald verði á hinu sjálfvirka kapphlaupi milli kaupgjalds og verðlags, sem vísitölukerfið hefur um langan aldur orsakað. Þess vegna leggur ríkisstj. til, að óheimilt sé að miða kaupgjald við breytingar á vísitölu. Hins vegar eru ekki í frv. nein ákvæði um grunnkaup og þaðan af síður nokkur ákvæði um kaupbindingu, eins og hv. 4. þm. Austf. staðhæfði þó hér nýverið í umræðunum. Vísitölukerfið var að sumu leyti ekki alveg óáþekkt uppbótakerfinu, þ.e.a.s. nokkurs konar verðlagssvikamylla.

Kaupgjaldshækkunum fylgdu sjálfkrafa hækkanir á margs konar vörum, þjónustu og verðlagi landbúnaðarvara, sem síðan hafði aftur í för með sér vísitöluhækkanir og þær aftur nýjar kauphækkanir og þannig koll af kolli. Ókostir vísitölukerfisins voru, að ekkert minnsta tillit var tekið til þess, hvort nokkur afkastaaukning hefði átt sér stað í þjóðfélaginu, sem réttlætti hærra kaupgjald, eða ekki. En sé þess ekki gætt, má venjulega telja alveg víst, að kjarabætur fari fljótlega forgörðum vegna aukinnar verðþenslu. Á hinn bóginn rauf svo þetta vísitölukerfi allt samhengi milli verðlags innanlands og utan, sem var stórhættulegt fyrir þjóðarbúskap, sem byggir afkomu sína í jafnríkum mæli á útflutningsverzlun og hér á sér stað. Vísitölukerfið var því fortakslaust önnur aflvél verðbólguskrúfunnar í landinu, hinn orkugjafinn var greiðsluhallakerfi útflutningssjóðs.

Vísitalan og vísitölukerfið hafa löngum verið gagnrýnd og það úr ólíkustu áttum. Nú, þegar á að losa þjóðfélagið úr tengslum við þetta varhugaverða apparat, bregður svo kynlega við, að það er eins og það ætli að verða þeim mestur harmdauði, sem sízt skyldi, og sannast hér sem oftar, að enginn gerir svo að öllum líki og ekki guð í himnaríki. Nú segir t.d. hv. 3. þm. Reykv. hér í d. með hreinum útfararsvip: Þessi vísitala, sem verið hefur eina vörn hins fátæka manns. — Einhvers staðar hafði ég nú áður lesið eftir hann, að s.l. 17 ár hefði auðvaldið gripið til þeirrar svikamyllu verðbólgunnar, sem það hefur haldið gangandi, til þess að reyna þannig jafnóðum að ræna verkalýðinn ávöxtunum af sigrum hans. Já, svikamylla var vissulega réttnefni á vísitölukerfinu. Þetta kerfi hafði verið réttlætt með því, að það ætti að tryggja tvennt: afkomu launþeganna og vinnufrið í landinu. En hvorugt fyrirheitið var efnt. Vinnudeilur voru siður en svo fátíðari en áður, og um afkomu launþeganna vitnast til þeirra ummæla hv. 3. þm. Reykv. hér nýlega við umræður um þetta frv., er hann fullyrti, að kaupmáttur verkalýðsins væri í dag minni en fyrir 12 árum og það þrátt fyrir vísitölukerfið. Ætti það að vera fullgild sönnun þess, að verðbólgan étur allar kauphækkanir, ef þær eru ekki byggðar á aukinni þjóðarframleiðslu, og að vísitölukerfið var einmitt aflgjafi þeirrar verðbólguófreskju, er þannig lék verkalýð og launþega á undanförnum árum.

Það skal fúslega játað, að alltaf er óhægra að leysa en binda og í sjálfu sér ekkert óskiljanlegt, að það verði launþegasamtökunum nokkur viðbrigði að semja nú framvegis um kjör sín án vísitölukerfis. En við athugun málsins og að fenginni reynslu efast ég ekki um, að forvígismenn þeirra munu fljótlega átta sig á, að þeir geta grátið útför vísitölukerfisins þurrum tárum.

Hæstv. ríkisstj. hefur af stjórnarandstöðunni verið ásökuð fyrir að hafa ekki haft samráð við samtök launþega um þessa lagasetningu, sem nú er fjallað um. Álls kostar rétt mun það ekki vera, því að forseti Alþýðusambandsins hefur sjálfur skýrt frá því, að hæstv. forsrh. hafi kynnt forstöðumönnum verkalýðshreyfingarinnar efni þessa frv., áður en það var lagt fram í hv. d., enda skil ég ekki, að verkalýðshreyfingin hafi verið ofsæl af svokallaðri samvinnu vinstri stjórnarinnar við hana. A.m.k. er ekki svo að skilja á formanni Sósíalistafélags Reykjavíkur, herra Brynjólfi Bjarnasyni, er hann í Rétti ræðir efnahagsaðgerðir vinstri stjórnarinnar í maí 1958 og kemst þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta, — Brynjólfur segir:

„Síðustu aðgerðir í efnahagsmálum voru gerðar í fullri andstöðu við mikinn meiri hluta verkalýðsstéttarinnar, enda þótt efnahagsmálanefnd og miðstjórn Alþýðusambandsins samþykktu að sætta sig við þær, með mótmælum þó og ærið hæpnum meiri hluta.“

Ég held, að hér sé ekki um neitt að sakast. Verkalýðshreyfingin er betur sæmd af þeim vinnubrögðum, sem nú hafa verið viðhöfð, að fá vitneskju beint frá hæstv. forsrh. um þær aðgerðir, sem stjórnarvöld landsins fyrirhuga, en að vera að hætti vinstri stjórnarinnar kúguð til þess að samþykkja aðgerðir, sem henni voru þvert um geð, og það með mótmælum og hæpnum meiri hluta, eins og formaður Sósíalistafélags Reykjavíkur hefur sagt.

Áður en ég hverf frá þætti launþeganna í efnahagsmálunum, vil ég ekki láta hjá líða að taka til nokkurrar athugunar fáeinar fullyrðingar stjórnarandstöðunnar, sem sérstaklega snerta þessa aðila. Er þá aðallega tvennt, sem hæst er á loft haldið, og það er í fyrsta lagi, að það sé lægst launaða fólkið, sem byrðarnar eigi að bera, og í öðru lagi boði þessar aðgerðir stórfellt atvinnuleysi.

Um fyrra atriðið er það að segja, að við samningu þessa frv. hefur þrennt markað meginsjónarmið, sem jafnan hefur verið haft efst í huga, og það er, að allir yrðu að bera nokkrar byrðar, að engum yrði ívilnað og að byrðarnar yrðu gerðar einmitt sem léttastar á þeim, sem lægstar hefðu tekjur, stærsta fjölskyldu og þyngst heimilí, og að framar öllu yrði létt undir með þeim, sem minnst hafa burðarþolið. Einmitt til þess voru allar hliðarráðstafanirnar gerðar, afnám tekjuskatts af lágtekjum, fjölskyldubætur og endurskoðun á elli- og örorkustyrkjum, svo að vissulega er þessi ásökun ómakleg, enda fullvíst, að þegar áhrifa efnahagsaðgerðanna fer að gæta, mun það upplýsast, að það verða ekki þeir lægst launuðu, sem mest munu kveinka sér, það verður annars staðar að, sem þeir kveinstafir koma.

Varðandi atvinnuleysið er það að segja: Hvaða heilvita manni dettur í hug, að til atvinnuleysis þurfi að koma í landi, sem nú vantar þúsund menn til þess að manna fiskiskipaflotann og auk þess á í vændum að fá viðbót skipakosts, sem mun krefjast annarra þúsund manna til framleiðslustarfa? Og hvers vegna ætti núv. ríkisstj. líka að vera að grípa til margháttaðra og óvinsælla aðgerða til þess að hindra hrun og stöðvun framleiðslunnar og koma í veg fyrir atvinnuleysi, ef hún stefndi að því? Og blátt áfram sagt: Hverjum dettur í hug vitandi vits að leiða yfir þetta þjóðfélag hörmungar atvinnuleysisins? Hverjum væri slíkt til gagns? Fjasið um fáeina auðmenn, sem ætli að græða á atvinnuleysinu, útlendinga í París, sem verði ekki svefnsamt, fyrr en búið sé að gera einhverja eyrarkarla í Reykjavík vinnulausa, það er slíkt svartnættisbull og hysterí, að slíkt er alls ekki svaravert og ekki sæmandi greindum mönnum í alvöru að láta slíkt út úr sér. Það vita víst allir nægilega vel, sem til stjórnmála þekkja, að við margan vanda hafa íslenzkar ríkisstjórnir fengizt fyrr og síðar, en einn er sá, sem enginn þeirra vill kalla yfir hvorki þjóðina né sjálfa sig til að fást við, en það er atvinnuleysi. Það er því áreiðanlega höfuðmarkmið hæstv. ríkisstjórnar að skapa einmitt atvinnuvegunum þau starfsskilyrði, að nægri atvinnu verði við haldið í landinu, enda á hún ekki hvað sízt undir velvilja þeirra, og undir velvilja þeirra, launþegasamtakanna, geta einmitt úrslit þessara mála verið komin. Launþegasamtökin eru slíkt afl í þessu þjóðfélagi, að það, að efnahagsráðstafanir takist, byggist að verulegu leyti á skilningi þeirra og velvilja, alveg eins og launþegarnir eiga ekki síður afkomu sína undir því, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar takist. Þarna er um hagsmuna og örlagatengsl að ræða, svo náin, að ekki verður á milli greint, hvor meira á undir öðrum, og verður þá víssulega farsælast, að samvinna takist og sé góð og báðir keppi að því sameiginlega, að aðgerðir, sem miða að því að tryggja atvinnu og bætt lífskjör, megi heppnast.

Í sjálfu sér er ekki heldur fram á mikið farið. Það er aðeins óskað eftir, að verkalýðs- og launþegasamtökin kynni sér sem bezt alla málavexti, fylgist með aðgerðum stjórnarinnar og felli ekki sinn dóm yfir þeim eða torveldi þær að ófenginni reynslu og geri sér fyllilega ljóst, hvað við tekur, ef þessar aðgerðir verða eyðilagðar.

Með tilliti til þessa var vissulega góðs viti að heyra ummæli forseta Alþýðusambandsins, hv. 4. landsk., er hann upplýsti, að ekki mundi verða reynt að hafa nein pólitísk áhrif á ákvarðanir einstakra verkalýðsfélaga í þessum efnum, heldur mundi þar hverju félagi á lýðræðislegan hátt heimilt að marka afstöðu sína og að verkalýðsfélögin mundu dæma eftir reynslunni, eins og hann orðaði það. Og ég ber vissulega fullt traust til dómgreindar íslenzks verkalýðs og launþega, ef ekkert verður gert til þess að villa um fyrir þeim, og vona ég því, að verkalýðssamtökin hafi biðlund til þess, eins og forseti Alþýðusambandsins sagði, að láta reynsluna skera úr um notagildi þeirra efnahagsráðstafana, sem nú er verið að ýta úr vör.

Mjög hefur verið vandað til allrar undirbúningsvinnu að frv. þessu. Hafa þar margir lagt hönd á plóginn, sérfræðingar og embættismenn ríkisins, og þá fyrst og fremst ýmsir hinna færustu hagfræðinga. Svo einkennilega hefur brugðið við, að þessum lofsverðu vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar hefur verið fálega tekið af sumum hv. þm. og jafnvel svo langt verið gengið, að stjórnin hefur sætt ámæli fyrir þetta og aðrir þm. skeytt skapi sínu á hagfræðingunum og vilja ekki einungis kenna þeim allt, sem miður hefur líkað í frv., heldur og verið felldir stóryrtir dómar um óhæfni hagfræðinga almennt til að vera ráðgjafar um efnahagsmál og stefnu ríkisstj. um atvinnu- og fjárhagsmál. Hafa í þessum umræðum nöfn mætra hagfræðinga, sem eiga ekki sæti á Alþ., verið dregin inn í umr. á hinn óviðkunnanlegasta hátt. Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) sagðist ekkert leggja upp úr útreikningum hagfræðinga, því að sérfræðingar ríkisstj. semji útreikninga eftir pöntun, og gaf hann í skyn, að hæstv ríkisstj. hefði verið blekkt af slæmum hagfræðingum. Mér er satt að segja nær að halda, að ekki fylgi meining þessum málflutningi hv. 7. þm. Reykv., því að varla geri ég ráð fyrir, að hann væni Klemenz Tryggvason hagstofustjóra um að vera óvandaðan í meðferð talna eða að semja útreikninga eftir pöntun.

Hv. 4. þm. Austf. hafði og hagfræðingana mjög á hornum sér og tortryggði á margan hátt útreikninga þeirra og niðurstöður og bætti því við, að kannske mætti nota till. hagfræðinga, ef þeir væru fyrst dæmdir til að vinna eitt ár erfiðisvinnu. Hafði sami þm. ekki nógu sterk orð yfir ókunnugleika allra hagfræðinga á atvinnulífinu og lifi og starfi almennings við sjávarsiðuna, því að þeir þekktu ekki framstafn frá afturstefni á skipi. Heldur virðist þetta nú vera lítið vinsamlegt viðskot til þess eina hagfræðings, sem vitað er að enn aðhyllist kommúnismann hér á landi og Lúðvík Jósefsson hefur haft nánasta umgengni við, sem er herra Haraldur Jóhannsson, en hann þrátt fyrir þessa einkunn gerði að formanni útflutningssjóðs í sinni ráðherratíð. Slíkir sleggjudómar sem þetta eru annars gersamlega út í hött, því að Haraldur Jóhannsson og aðrir geta vitanlega verið jafnhæfir hagfræðingar, hvort sem þeir kunna einhver skil á bátasmíð eða ekki, alveg eins og það breytir litlu um viðurkennda hraðmælsku 4. þm. Austf., að manni finnst hann snöggsjóða stundum nokkuð tölulegar staðreyndir, sem hann flytur þingheimi.

Varðandi kunnugleika hagfræðinga þeirra, sem um þetta frv. hafa fjallað, á sjávarútveginum, þá var nú einmitt einn þeirra, sem Lúðvík Jósefsson sagði að ekki kynnu skilsmun á stöfnum skipa, að setja fiskiþingið þá stundina, sem hv. þm. hélt sína tölu: Það vildi svo vel til, að Davíð Ólafsson, hagfræðingur og fiskimálastjóri, var einn í hópi þeirra, sem undirbjuggu þetta frv., og ætti 4. þm. Austf. að vera manna bezt kunnugt um óumdeilanlega þekkingu Davíðs Ólafssonar á sjávarútvegsmálum, bæði frá uppvaxtarárum þeirra á Norðfirði og einnig frá sinni ráðherratíð.

Það, sem mér hefur þó komið einna mest á óvart í sambandi við allt þetta nart í hagfræðingana, eru ýmis ummæli hv. 3. þm. Reykv. um hagfræðinga við þær umræður, sem fram hafa farið hér í d. við ýmis tækifæri, og hélt ég þó, að hann hefði dálæti á a.m.k. vissum þáttum hagvísindanna. Hefur hann hér hvað eftir annað lýst yfir vantrausti sínu á hagfræðingum og þó einkum og sér í lagi ungum hagfræðingum, sem hefðu tileinkað sér „vitlausar hagfræðikenningar“, eins og hann komst að orði. Einu sinni skrifaði Einar Olgeirsson þó í Rétti, að það væri eins og ætti að tefla manntafi án þess að kunna mannganginn, að ætla að stjórna íslenzkum þjóðarbúskap án kunnugleika á Marxismanum, og hélt ég þó, að Marxisminn væri nú kannske hagfræðikenning, — en það er þá kannske ekki? Og einu sinni fór líka orð af því meðal skólapilta, — ég man eftir því sjálfur, — sem höfðu dálæti á Einari Olgeirssyni fyrir glatt viðmót og hressilega framkomu, að hann hefði góðan skilning á ungu fólki. En sennilega er nú viðhorf hans til unga fólksins farið að reskjast, alveg eins og hagfræðikenningar hans og Marx gerast nú ellimóðar og úreltar.

Ég vil leyfa mér að minna hv. d. á, að það eru nú einmitt rösk hundrað ár síðan sá maðurinn, sem mest hefur þótt sópa af í sölum Alþingis fyrr og síðar, hóf útgáfu hagfræðilegra upplýsinga til leiðbeiningar m.a. fyrir stjórnendur landsins. Maðurinn var enginn annar en Jón Sigurðsson, og ritið var Skýrslur um landshagi á Íslandi, sem gefið var út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi. Í formála þessa rits komst Jón Sigurðsson þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fám orðum að segja, sá, sem ekki þekkir ásigkomulag landsins eða sem vér köllum hagfræði þess í öllum greinum sem glöggvast og nákvæmlegast, hann getur ekki með neinni grein talað um landsins gagn og nauðsynjar.“ Og hann heldur áfram: „Í öllum löndum, þar sem nokkur menntun er, taka menn sér fyrir hendur að safna skýrslum um hagfræði landsins og er varið mikilli ástundun og miklu fé til þess, að þær verði sem fullkomnastar, sem aðgengilegastar alþýðu og sem kunnastar meðal þjóðarinnar.“

Síðar ætlaði Jón Sigurðsson sjálfur að semja kennslubók handa þjóðinni í hagfræði, en entist ekki aldur til. Sá, sem það þarfa verk vann fyrstur manna, átti einnig sæti á Alþingi. Það var sá fjölspaki séra Arnljótur Ólafsson. Segist hann hafa boðið Alþingi árið 1877 að semja auðfræðisrit, og var það fúslega þegið.

Ég held, að hið háa Alþingi, minnugt þessara hagfræðilegu erfða, ætti enn að þiggja fúslega alla aðstoð hagfræðinga og hagvísindanna við sín störf, þar sem þau henta, og vissulega eiga þeir Jónas Haralz, Jóhannes Nordal, Klemenz Tryggvason, Davíð Ólafsson og aðrir hagfræðingar, sem hér hafa lagt hönd á plóginn, miklar þakkir skilið fyrir vel unnið vandasamt verk, er lagafrv. þetta var samið. Hins vegar bera þeir enga ábyrgð á þeirri efnahagsmálastefnu, sem mótar frv. þetta. Hún er hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar. Og segja má jafnframt, að þetta sé í fyrsta sinn um langt skeið, sem mótuð er heilsteypt efnahagsmálapólitík í þessu landi. Þessi efnahagsmálapólitík byggist á þeirri stefnuskrá stjórnarfiokkanna, er þeir börðust fyrir við haustkosningarnar á s.l. ári, og er í anda þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. ríkisstj. gaf út, er hún tók við völdum.

Þar sem 7. þm. Reykv. var sérstaklega að flíka fáfræði sinni með fullyrðingum um, að efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar væri svík við kosningastefnuskrá Sjálfstfl., leiðina til bættra lífskjara, vil ég mótmæla þeim áburði sem staðlausum stöfum, því að í efnahagsmálafrv. og þeim öðrum fjárhags- og efnahagsmálafrv., sem hæstv. ríkisstj. mun innan skamms leggja fyrir Alþ., felst afdráttarlaus staðfesting á öllum stefnuskráratriðunum sex: stöðvun verðbólgunnar, jafnvægi í þjóðarbúskapnum, stéttafriður, uppbygging atvinnuveganna, hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi, aukin framleiðsla og bætt lífskjör.

Hitt skal hreinskilnislega játað, að leiðin til bættra lífskjara getur verið harðsótt og er áreiðanlega ekki rósum stráð, jafnrétt og það kann að vera, að leiðin, sem forseti Alþýðusambands Íslands hefur nefnt „leiðina til glötunar“, geti verið nógu mjúk undir fótinn. En það er ekki það, sem úrslitum ræður, heldur hitt, að leiðin til glötunar, verðbólguleiðin, liggur fram af bjargi, en leiðin til bættra lífskjara, viðreisnarstefnan, liggur í örugga höfn í gróskufullu, heilbrigðu þjóðfélagi.

Það var ekki að tilefnislausu, að hæstv. forsrh. sagði. að þjóðarvoði væri fram undan, ef ekkert væri að gert. Í grg. þessa frv. greinir frá því, að um áramótin hafi gjaldeyrisstaða Íslands verið verri en nokkurs annars lands, sem upplýsingar liggja fyrir um, að einu eða tveimur ef til vill undanskildum, og þó hefur nú aðalbankastjóri seðlabankans upplýst, að gjaldeyrisstaðan í s.l. janúarmánuði einum saman hafi versnað um 35 millj. kr. til viðbótar. Engin ríkisstj. hefur gleði af að flytja þjóð sinni boðskap um slíka erfiðleika eða stofna til lagasetningar, sem skerða kann lífskjör allra um stund, enda ekki líklegt til vinsælda í voru landi. En til þess þarf hins vegar heiðarleik og einurð, til þess er þing kjörið að lögstjórna landi, og til þess er stjórn mynduð að leiða þjóðina af ábyrgðartilfinningu, en flýja ekki staðreyndir vegna einhverra meintra vinsælda. Þess vegna hefur núv. hæstv. ríkisstj. unnið fyrir opnum tjöldum og sagt þjóðinni allan sannleikann, því að meginmáli skiptir, að þjóðin geri sér ljóst og viðurkenni í verki nauðsyn þess að leggja inn á nýja braut, sem sneiðir hjá verðbólgu og samdrætti. Sá vegur liggur að traustara og þróttmeira efnahagskerfi en við búum við í dag. Hornsteinar þess eru atvinnufrelsi og félagslegt öryggi. Það efnahagskerfi felur í sér vaxtar- og framvindumöguleika markaðsbúskaparins, en girðir jafnframt fyrir félagslegt misrétti og tryggir þegnunum aukið efnahagslegt lýðræði og öryggi í ríkara mæli. Eftir að efnahagslegt jafnvægi hefur náðst og grunnur núverandi atvinnuvega hefur verið treystur, þarf að byggja upp nýja atvinnuvegi, stóriðju til útflutnings, svo að afkoma landsmanna verði tryggari, árvissari og velmegunin almenn og varanleg.

Sú efnahagsmálastefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur mótað, byggist á ábyrgðartilfinningu gagnvart þeim efnahagsverðmætum, sem við höfum hlotið í arf, á raunhæfu mati á viðfangsefnum líðandi stundar og vilja til þess að skila þróttmiklum þjóðarbúskap í hendur komandi kynslóð.

Bjarni frá Vogi ræddi einhvern tíma um þjóðarþrá um viðreisn. Sú þjóðarþrá er vissulega vakandi í dag. Þjóðin þráir viðreisn í efnahagsmálum. Í sambandi við efnahagsmálin er það mikilsvert, að almenningur geri sér ljóst, að pólitík er ekki nauðsynlega deila um eða barátta milli góðs og ills, heldur ágreiningur um val milli mismunandi markmiða og leiða. Okkar markmið er frelsi, þeirra markmið er ríkisafskipti. Okkar leið. er viðreisnarstefna, þeirra leið er uppbóta- og styrkjastefna. Milli þessara markmiða og leiða á þjóðin að velja og þingið að skera úr um.

Meiri hl. fjhn. trúir á viðreisnarstefnuna og leggur til, að frv. um efnahagsmál verði samþykkt.