11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það gildir sama um mig og hv. meðnm. minn, 1, þm. Norðurl. v. (SkG), að ég hef ekki enn lokið nál. mínu og því ekki getað látið leggja það fram enn sem komið er og verð því að tala hér, áður en það birtist.

Við höfum í fjhn. kallað þá sérfræðinga, sem verið hafa til aðstoðar ríkisstj. við undirbúning þessa frv., á okkar fund. Við höfum nokkuð yfirheyrt þá um ýmislegt af þeim málum, sem fyrir lágu, fengið í einstaka tilfellum ofur litlar upplýsingar. Það var tregt um þær upplýsingar, er verulega væri á að græða. Og satt að segja verður að segja það um mál eins og þetta, að það er lítt vinnandi verk fyrir fjhn. að eiga á eins skömmum tíma og nú var ætlaður henni að ljúka, svo að nokkur mynd sé á, því verki, sem hún ætti að vinna, því að fyrri reynsla okkar af svona gengislækkunarfrv. er sú, að það má engum sérfræðingum í því treysta. Ég var líka í þessari n. þessarar hv. d. 1950, og þá kölluðum við ekki aðeins fyrir sérfræðingana, heldur líka fulltrúa útvegsmanna og fulltrúa hraðfrystihúsanna og fleiri aðila, sem við áttum viðræður við. Við komumst ofur lítið lengra í því þá að geta þess vegna í okkar nál. nefnt þær hugmyndir, sem uppi voru hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annars vegar og hjá útvegsmönnum hins vegar viðvíkjandi fiskverðinu, hvað það ætti að verða eftir gengisbreytinguna, og annað slíkt. En reynslan af öllu þessu varð, að þar sem okkur tókst að knýja fram, að látið væri uppi allt sérfræðinga og tölurnar þess vegna voru festar á pappírinn, þá reyndist þetta allt vitleysa seinna meir.

Nú virðast sérfræðingar ríkisstj. sérstaklega hafa viljað gæta sín að láta sem minnst frá sér fara, sem fært væri að henda reiður á, af því, sem einhverja þýðingu hefði, enda mun ég koma að því síðar. Það er alveg greinilegt, að þeir sérfræðingar, sem að þessu hafa unnið, eru menn, sem hafa verið að undirbúa áróður, en enga sérfræði. Við töluðum líka við aðalbankastjóra Seðlabankans. Við spurðum hann, hvaða till. hann mundi gera í sambandi við þær vaxtahækkanir sem í þessu eru fyrirhugaðar. Hann var ákaflega varkár. Maður, sem maður hefur annars þá hugmynd um að vilji ráða nokkuð miklu í Seðlabankanum, virtist bókstaflega ekki vilja láta festa sig á einni einustu tölu um þá vaxtahækkun, sem hann mundi verða hlynntur, þegar að því kæmi, og mátti þó búast við, að hann mundi ríða þar baggamuninn. Það var ekki hægt að hafa neitt upp. N. sem heild hefur ekki talað við Landssamband ísl. útvegsmanna, ekki við neina fulltrúa togaraeigenda né hraðfrystihúsanna eða neina slíka. Og sjálfum hefur mér unnizt allt of lítill tími til þess að geta unnið að því að ræða við þessa menn.

En eitt hefur mér alveg orðið ljóst af þeim viðræðum, sem fram hafa farið í n., af þeirri ræðu, sem formaður hennar hélt hér áðan, hv. 6. landsk. þm. (BK). Af því, sem kemur skýrar og skýrar fram, því meir sem maður hlustar á fulltrúa ríkisstj., hefur mér orðið það ljóst, sem mig grunaði aðeins í fyrstu, að það er mjög mikill skoðanamunur innan stjórnarherbúðanna um þetta frv. og alveg greinilegt, að hér heima hjá okkur skiptast menn í stjórnarherbúðunum í tvo hópa um afstöðuna til þessa frv. Og því meir, sem ég reyni fyrir mitt leyti að yfirheyra þá sérfræðinga, sem margt samband hafa haft út um heim, þó að ég fái ekki upplýsingar um það, sem fram hafi farið í París, þegar hæstv. viðskmrh. og sérfræðingur hans, Jónas Haralz, voru þar, þá er mér alveg ljóst, að það, sem stendur á bak við um framkvæmd þessa frv. og að hrinda því í gegn í þinginu, það eru fyrst og fremst menn úti í þeim stóra heimi, sem vilja, að Ísland fari inn á þessa stefnu, sem hér er boðuð, og að þessi stefna þessara voldugu manna í stofnunum eins og Evrópusjóðnum, Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og slíkum, hún á sér hér mjög áhugasama formælendur og erindreka, einkum meðal ungra, reynslulítilla hagfræðinga í ráðherrastóli, þingbekkjum og ráðuneytisstjóraembættum. Hins vegar er greinilegt, að aðrir í ríkisstjórninni virðast vera annarrar skoðunar. Á sama tíma sem formaður fjhn., hv. 6. landsk., talar hér af miklum áhuga og krafti sem boðandi nýjan fagnaðarboðskap og nýja stefnu, þá heyrði maður þá reyndu menn ríkisstj., hæstv. forsrh, og hæstv. sjútvmrh., þá menn, sem þekkja af eigin reynslu hið svokallaða frjálsa efnahagskerfi, sem nú á að fara að koma á, — þá heyrði maður þá segja: Það er ekki með glöðu geði, að maður leggur þetta til, eins og hæstv. sjútvmrh. sagði hér í ræðu sinni við 1. umr. þessa máls, eða eins og hæstv. forsrh. komst að orði: Við eigum ekki annarra kosta völ. — M.ö.o.: í stjórnarherbúðunum eru tveir hópar manna í afstöðunni til þessa frv., annars vegar menn, sem þekkja lítið til Íslands og þess, sem Ísland þarf, en hlusta því meira á það, sem voldugir menn úti í þeim stóra heimi vilja að Ísland geri, hins vegar þeir menn, sem eru búnir að standa í stjórnmálum á Íslandi í 20, 30 og upp undir 40 ár og vita, hvað Ísland þarf, en standa í þeirri meiningu, að Ísland sé í dag nauðbeygt til að beygja sig undir þá stefnu, sem á að þvinga upp á landið með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera. Og fyrir mér er það aðalatriðið í sambandi við þetta frv., að það er árás á efnahagslegt sjálfstæði Íslands og þar með á velferð þjóðar okkar. Hvernig stendur á því, að ég skuli í þessu sambandi, eins og hv. 6. landsk., formaður fjhn., komst að orði, vera að halda, að þeir í París hafi áhyggjur út af, að eyrarkarlar á Íslandi hafi of mikla vinnu? Það veit ég að vísu, að þeir hafa ekki, þó að karlar úti á Íslandi hafi áður orðið áhyggjuefni fyrir útlenda auðkonunga. En ég veit, að þeir hafa áhyggjur af hinu, að eyrarkarlar á Íslandi hafa skapað sér dálítið aðra aðstöðu en eyrarkarlar í öðrum nágrannalöndum, — skapað sér þá aðstöðu á tíma atvinnuleysis með því að tengjast allmiklum viðskiptasamböndum við lönd sósíalismans og fyrst og fremst Sovétríkin. Og þau viðskiptasambönd, sem eru grundvöllurinn að því, að hér er ekki atvinnuleysi, eru þessum háu herrum í París þyrnir í augum. Það þarf ekki annað en að fletta upp í lærðri bók, sem dr. Benjamín Eiríksson, framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans, sendi oss þm. nýlega, um hve viðkvæmur væri íslenzkur þjóðarbúskapur, eftir einn amerískan prófessor, — og ætti það að vera nokkur trygging, — sem heitir Robert Allen og mun hafa verið, þegar þetta gerðist, prófessor í hagfræði við háskólann í Virginíu. Þetta mun auðsjáanlega vera hluti af mjög lærðu tímariti og stóru og er upp á tæpar 20 síður, eingöngu um Ísland. Og hvað er það, sem þessi lærði prófessor, sem auðsjáanlega hefur haft aðgang að öllum þeim plöggum, sem Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa um Ísland, — hvað er það, sem hann fyrst og fremst ber fyrir brjósti og fyrst og fremst leggur til í sinni lærðu ritgerð? Það er, að Ísland verði að slíta viðskiptasamböndum, þessum clearing-samböndum og vöruskiptasamböndum, sem Ísland hafi við sósíalísku löndin. Og fjölyrðir þar öll ósköp um, hvílík voðaleg kommúnistahætta sé á ferðinni, hvílíkt næstum því samsæri þarna sé að gerast, sökum þess að Ísland skuli hafa skapað sér upphaflega í tíð núv. hæstv. forsrh. fyrir 15 árum þessi viðskiptasambönd. Og það þyrfti ekki einu sinni að fara í lærða prófessora, það þarf ekki nema fara í stjórnmálamennina þar í Atlantshafsbandalaginu til þess að sjá, af því að þeir tala dálítið hreinna út um þetta en meira að segja hagfræðingarnir okkar ungu gera hérna heima, — það þarf ekki að fara lengra til að sjá, hvað er aðalatriði fyrir þessum mönnum. Það er, að þessi sambönd verði Ísland að slíta, það verði að slíta Ísland út úr þessum tengslum við þann sósíalíska heim, þeim viðskiptatengslum, sem hafa verið Íslandi sérstaklega þýðingarmikil, þegar okkar ágætu bandamenn, eins og Bretar, krepptu að okkur, sem íslenzkir stjórnmálamenn og það í tiltölulega íhaldssamri stjórn voru ósmeykir við að taka upp 1952-53 til þess að svara Bretum, þegar þeir settu bannið á okkur, til þess að sýna þessum bandamönnum okkar, að við stæðum ekki einir í heiminum, ef ætti að fara að kúga okkur. Það eru þessi viðskiptasambönd, sem eru ástæðan til þess, að voldugir auðmenn og stofnanir þeirra úti í heimi úthugsa sérstakt kerfi, og þurfti nú satt að segja ekki að leita langt, til þess að grafa undan þessum viðskiptasamböndum og eyðileggja það efnahagslega sjálfstæði Íslands, enda skauzt það upp úr hv. 6. landsk., formanni fjhn., þegar hann talaði hér áðan, að í eina skiptið, sem hann minntist á hættu í allri sinni ræðu, það var hættan af að vera háður viðskiptunum austur á bóginn. Það var eina hættan, sem hann sá. Atvinnuleysi, kauplækkun, íbúðarmissir og allt annað, sem gat dunið yfir íslenzkan verkalýð, það voru ekki neinar hættur. Nei, þetta var hættan. Það, sem honum klókari stjórnmálamenn, eins og hæstv. núv. dómsmrh., sögðu að væri mjög haganlegt fyrir Ísland 1952–53, að þora að hagnýta svona viðskiptasambönd á móti Bretum, það skoðar hv. 6. landsk., formaður fjhn., sem hættu. En hann er auðsjáanlega smitaður af sama hugsunarhættinum sem gengur í gegn eins og rauður þráður í hugsunarhætti allra þeirra lærðu manna erlendis, sem um þessi mál skrifa, þetta, sem valdið hefur miklum mönnum suður í París og vestur í Washington miklum heilabrotum, að svona lítið ríki elns og Ísland skuli dirfast að skapa sér svona sambönd og standa svo upp í hárinu á öðrum eins ríkjum og Bretlandi. Þess vegna er það, og það er alveg hárrétt einmitt, sem hv. 6. landsk., form. fjhn., gerði að aðalatriði í sambandi við það, — þess vegna er það aðalatriðið í þessu frv. að reyna að skapa það, sem þeir kalla frjálsa verzlun, innlima Ísland í það svokallaða frjálsa efnahagskerfi, eða eins og við mundum kalla það með því marxistíska orðalagi: að gera Ísland að hluta úr alþjóðlegum markaði auðvaldsins, láta okkur vera háða öllum þeim lögmálum, sem gilda í auðvaldsþjóðfélögunum, láta okkur vera undirorpna varnarlaust öllum þeim sveiflum, verðsveiflum, sölutregðum og öðru slíku, sem þar gildir, láta okkur aftur verða að búa við það öryggisleysi, sem við höfum fengið svo ægilega að þreifa á áður fyrr.

Hv. 6. landsk. og þeim ungu hagfræðingum hér er nokkur vorkunn í þessu. Ísland hefur í 25 ár eigi þekkt frjálst hagkerfi, fékk satt að segja nóg af því á árunum þar á undan. Þeir geta þess vegna af lítilli reynslu talað, en oft og tíðum miklum lærdómi, og þess vegna er þeim máske fyrirgefanlegt að hafa þessar skoðanir. En það er ekki fyrirgefanlegt að ætla að troða þeim upp á íslenzka þjóð og því síður að gera hana að tilraunadýri fyrir aðrar eins kenningar, sem hafa verið áður framkvæmdar hérna með þeim afleiðingum, að allt fór hér á hausinn.

Það var líka eftirtektarvert, þegar hv. 6. landsk. var að tala um, hvað ætti að vera frjálst, hann talaði alveg sérstaklega um, að innflutningurinn ætti að vera frjáls. Ég veit ekki, hvort það kemur til, að hann hefur meiri áhuga fyrir því innflutningsfrelsi, sem heildsalastéttin á Íslandi mundi njóta, — kannske er það öllu heldur hitt, að það langt nær hans hyggjuvit, að honum er það mjög ljóst, að það sé ekkert sérstaklega heppilegt fyrir Ísland að eiga að treysta með frjálsan útflutning á okkar góðu bandamenn í Atlantshafsbandalaginu. Það hefur svo greinilega komið fram í öllum þeim umræðum, sem fram hafa farið um þessi mál, að það lítur sannarlega ekki út fyrir, að neitt batni vonirnar um söluna á afurðum okkar, þannig að það sé tiltölulega lítið öryggi eða réttara sagt vaxandi öryggisleysi, sem við eigum þar við að búa.

Innlimun Íslands í þennan alþjóðlega auðvaldsmarkað nú þegar að 60% þýðir að gera okkur aftur háða öllum þeim sveiflum, sem þar eiga sér stað, kasta vörum okkar út í þá sölutregðu, sem þar er, upplifa, eins og við gerum nú þegar, lækkandi verð á afurðum okkar, og ef við ánetjumst síðan þessum auðhringum með lánum, komum við til með að standa á eftir frammi fyrir því að neyðast til þess að selja á mörkuðum þeirra vörur fyrir miklu lægra verð en við ella gætum selt þær. Þess vegna er einmitt það, sem stefnt er að með frv., að skapa hér aftur svokallaða frjálsa verzlun, svo að ég noti þeirra fallega orðalag, eitt það hættulegasta, sem í þessu frv. felst, þegar það er athugað frá hrein-efnahagslegu eða hrein-hagfræðilegu sjónarmiði.

Það er rétt að taka það fram, að einmitt þessi aðferð, að reyna að gefa frjálst um 60% af innflutningnum til Íslands, það þýðir um leið að byrja að grafa undan viðskiptunum austur á bóginn, og það er nú þegar byrjað og undirbúningurinn að því er nú þegar hafinn með þeim frílistum, sem verið er að undirbúa. Vörurnar, sem þegar er verið að setja á þá frílista, eru þeirrar tegundar, svo að ég tali ekki um, að náttúrlega fær viss hluti íslenzks iðnaðar að kenna á afleiðingunum af þeim frílista. Jónas Haralz upplýsti okkur hins vegar um það í fjhn., að þeir skriffinnar, sem mundu hafa það verk með höndum að ráða þeim frílista, mundu vera svo náðarsamlegir að láta viðkomandi íslenzka iðnrekendur vita 6 mánuðum áður en vörur þeirra yrðu settar á frílista, þannig að ef fyrirtæki þeirra væru dæmd til dauða með slíkum frílista, hefðu þeir a.m.k. tíma til að búa sig undir útförina, en annars ef þeir hefðu einhvern möguleika til þess að láta þau lifa, þá að reyna að víta, hvort það væru ekki einhverjir stærri og fésterkari. sem gætu hjálpað þeim til að standast þá samkeppni, sem þar með væri verið að leiða yfir þá.

Hvað er það næsta, sem á svo að gerast, eftir að Ísland væri þannig innlimað í þennan svokallaða frjálsa markað, í þann alþjóðlega markað auðvaldsins, og smám saman brotin niður þau viðskiptasambönd, sem Ísland hefur nú við sósíalistísku löndin? Það er auðséð, hvað á að gerast næst og hvernig það á að gerast. Við eigum að fá að láni allt að 800 millj. íslenzkra króna, allt að 20 millj. dollara, sem við getum tekið sem lán til skamms tíma til þess að kaupa vörur, eins mikið af þeim vörum og menn hér innanlands treysta sér til að flytja inn með von um að selja. Við eigum að taka slíkt lán, og því fylgir það skilyrði, að við megum ekki nota það til fjárfestingar. Við megum ekki nota það til þess að verða efnahagslega sjálfstæðarí þjóð, við megum ekki nota það til þess að kaupa framleiðslutæki, sem gætu framleitt gjaldeyri, og við megum ekki nota það til þess að koma upp fyrirtækjum, sem gætu sparað okkur gjaldeyri. Við megum aðeins nota það til að kaupa iðnaðarvörur, sem auðhringar Vestur-Evrópu og Ameríku gjarnan vilja losna við, og fylla markaðinn hér heima af slíkum iðnaðarvörum og eyðileggja þar með að geta selt á þeim markaði vörur frá þeim löndum, sem mundu kaupa af okkur fisk, án þess hins vegar að hafa nokkra hugmynd um, hvort við getum selt nokkurn fisk til viðbótar til þess að borga það af þessum 800 millj. kr. , sem við fengjum að láni til að kaupa vörur fyrir. M.ö.o.: okkur er boðið að taka lán, hættulegustu tegund lána, yfirdráttarlán, sem gerir okkur engu færari til þess að geta borgað það á eftir, þannig að við stöndum máske frammi fyrir því rétt á eftir að hafa enga möguleika til þess að borga þetta lán. Þetta hefur verið afstaðan hér á Íslandi í viðskiptunum við Bandaríkin, Bretland og Vestur-Þýzkaland. Þessi ríki hafa yfirleitt skipt þannig við okkur, að það hefur vantað árlega, að við hefðum 200 millj. kr. út úr þeim viðskiptum til þess að geta borgað þeim það, sem við höfum keypt af þeim, ef aðeins væri um verzlunarviðskiptin að ræða. Við höfum alltaf haft neikvæðan verzlunarjöfnuð einmitt við þessi ríki. Og það er vitanlegt, að þessi ríki hafa fyrst og fremst áhuga fyrir því að selja okkur vörur, en ekki eins mikinn fyrir að kaupa af okkur.

Það var hér forðum daga hjá einokunarkaupmönnunum máske ekki svo sérstaklega mikil fyrirstaða að lána einum kotbónda. En þegar hann var kominn á reikninginn, var oft og tíðum lítil miskunn sýnd. Og þegar lögð var inn varan á móti, vildi einokunarkaupmaðurinn máske ráða því meira um verð vörunnar sem kotbóndinn var skuldugri. Og með því að koma okkur Íslendingum í þessa aðstöðu gagnvart voldugum erlendum lánardrottnum, að taka vörur í úttekt á þennan máta, er verið að reyna að gera okkur skulduga eins og íslenzka bændur fyrrum hjá einokunarkaupmönnunum. Það er eftirtektarvert, að þeir ungu hagfræðingar, sem hafa verið sérfræðingar ríkisstj. í þetta skiptí, virðast ekki gera nokkurn greinarmun á lánum eftir því, hvort þau séu tekin til þess að efla okkar efnahagslega sjálfstæði eða hvort þau séu tekin til þess að gera okkur mögulegt að kaupa vörur af þjóðfélögum, sem þurfa að losna við þær vegna offramleiðslu hjá sér. Og það er eftirtektarvert, að einmitt einn af þeim lærðustu hagfræðingum, sem áður hafa haft með þessa hluti að gera, finnur ástæðu hjá sér nú til þess að fara að leiðrétta dálítið þessa ungu hagfræðinga, sem tala eins og hvítvoðungar um þessa hluti. Það er maður, sem sjálfur hefur orðið fyrir ýmiss konar reynslu hér heima, sjálfur máske ofur lítið hrasað, en hann hefur verið að feta sig áfram og kynna sér ástandið hér og lært af því. Og það ætti máske, ef þeir hugsuðu ofur lítið meira, okkar ungu hagfræðingar, sem nú standa sem sérfræðingar að þessu áliti ríkisstj., að vera von til þess, að þeir gætu sparað okkur ein 10 ár gengislækkana, atvinnuleysis og vandræða, sem við mundum lifa, ef þeir tækju ofur lítið meira tillit til reyndari manna en þeim hættir við að gera.

Einmitt í sambandi við það, sem hagfræðingarnir eru að reyna að útbásúna, hve illa þjóðin standi vegna þess, að hún hafi lagt fé í það, sem sparar innflutning, þá er rétt, með leyfi hæstv. forseta, að ég lesi hér upp úr Morgunblaðinu 10. febr. eina setningu eftir dr. Benjamín Eiríksson, þar sem hann skrifar um erlendar skuldir og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held það geti ekki verið vafamál, að þjóðin er í alla staði miklu betur fær um að standa undir greiðslu 51/2 millj. dollara árið 1958 en 2 millj. dollara árið 1951, einmitt vegna þess, hve miklar framkvæmdir hafa verið unnar fyrir hið erlenda lánsfé.“

Svo mörg voru þau orð, og ég held, að þeir, sem tala allmikið núna og litla reynslu hafa í íslenzkum þjóðhagsmálum, ættu að kynna sér ofur lítið betur reynslu þeirra manna, sem eru þó búnir að vera hérna heima um áratugsbil og ekki alveg nýskroppnir frá París. (Gripið fram í: Eigum við þá að fara að trúa á dr. Benjamín?) Nei, nei, nei, þið skuluð ekki fara að trúa á hann, þið fenguð nóg af að trúa á hann 1950. Þið skuluð miklu heldur fara að hugsa og hugsa sjálfstætt um það, sem fyrir liggur. Hættan, sem yfir okkur vofir, þegar okkur standa til boða 800 millj, kr. og við getum farið að kaupa alls konar vörur, sem okkur hefur kannske oft langað í, og tekið allt út í reikning, þá er hættan sú, að við kaupum of mikið af þessu og gáum ekki að okkur, fyrr en við erum allt í einu komnir í skuld og rekur að því að við eigum að fara að borga hana, en við stöndum miklu verr að vígi að borga hana en áður.

Það er þess vegna hættan, sem yfir okkur vofir um þetta, að við verðum háðir þessum erlendu lánardrottnum, að þessir erlendu lánardrottnar geti skipað okkur: Nú verðið þið að borga. — Það þýðir m.a.: Þið liggið með fiskimjöl, þið liggið með síldarmjöl, þið liggið með síldarlýsi og þið hafið verið að reyna að halda þessu uppi í einhverju háu verði, sem okkar ágæti Unilever-hringur eða einhver annar vill ekki borga ykkur. Þið eruð jafnvel með einhverja óþekkt, og ykkur dettur jafnvel í hug að fara að selja síldarmjöl og síldarlýsi og annað slíkt austur fyrir járntjald. Nei, þakka, mínir herrar, þið getíð bara lækkað verðið á þessu, þið getið bara beygt ykkur. — Þá erum við komnir í það, sem við höfum viljað sleppa við, að vera aftur jafnháðir þessum brezku auðhringum og við vorum á árabilinu 1930–40, eða verða að lúta banni þeirra, eins og við urðum að gera allt stríðið. Það er undan þessu, sem við höfum viljað losna. Og það hafa meira að segja þeir menn séð, sem einhverja reynslu hafa af íslenzkum stjórnmálum, að út í þetta á ekki að leiða Ísland aftur.

Það þýðir þess vegna, að Ísland á ekki að ánetja sig erlendu auðvaldi. Það á ekki að taka lán, hvergi, nema með það fyrir augum að verða að ríkara fyrir, verða að sjálfstæðara fyrir, að fá að nota það lán til þess að geta framleitt meira og þá fyrst og fremst af vöru, sem ýmist sparar gjaldeyrí eða skapar okkur gjaldeyrí.

En hvert er nú markmið þeirra manna, sem eru svona gjöfulir við okkur í dag að vilja offra okkur þessum lánum, sömu mannanna, sem oft og tíðum hafa ekki viljað lána okkur nokkurn skapaðan hlut? Jú, þessir menn eru að reyna að knýja það fram, um leið og þeir veifa framan í okkur 20 millj. dollara láni, það er verið að veifa því framan í okkur, að það sé ósköp fallegt að koma á frjálsu efnahagskerfi. Og mikið má vera, þótt ég hafi því miður ekki getað fengið það upp, ef það er ekki raunverulega skilyrði fyrir því, að þetta 800 millj. kr. yfirdráttarlán fáist, að Ísland gefi 60% af innflutningnum frjálsan. Ég spurði að þessu, og því var neitað, að það væri skilyrði. Ég bað um að fá að athuga plögg, sem hefðu farið á milli í París, og þau hef ég ekki getað fengið. Og ég vildi, að það kæmi fram líka hér frá hæstv. ríkisstj. alveg skýrt og skorinort, að þetta væri ekki skilyrði, m.ö.o., að þetta mundi standa hvaða íslenzkri ríkisstjórn sem væri til boða, að taka svona lán og nota á þann hátt, sem henni byðist, þótt hún gæfi ekkert af íslenzkum innflutningi frjálsan.

Ég er hræddur um, að það sé ekki aðeins um það að ræða, eins og ég gat um áðan, að það eigi að innlima Ísland í þann frjálsa, alþjóðlega auðvaldsmarkað, að það eigi að gera Ísland háð voldugum lánardrottnum. Ég er hræddur um, að afleiðingin af þessu öllu sé, að það eigi að gera Ísland eftirsóknarvert fyrir erlent auðvald, og það er eitt af því, sem staðfest hefur þann grun minn, að það sé höfuðtilgangurinn með því, sem hér er verið að gera í dag og þessa dagana, að koma inn erlendu auðvaldi á Íslandi, einmitt vegna þess, hvernig allir þeir, sem um þetta tala, varast að minnast á það. Það er rétt eins og það hafi verið sagt við þá suður í París: Við ætlum að sjá um, að voldugir auðhringar komi á eftir og setji upp fyrirtæki sín á Íslandi. Það þurfið þið hins vegar ekkert að vera að segja heima á Íslandi. Það eru e.t.v. einhverjir Íslendingar, sem mundu fá einhverja móralska timburmenn út af slíku. Það eru e.t.v. einhverjir. sem færu að berjast á móti því, að slíkt væri gert. — Og þess vegna er það svo eftirtektarvert, að það er ekki minnzt á það í öllum þeim umræðum, sem um það hafa farið fram.

Að vísu var ameríski prófessorinn, sem ég gat um áðan, ekkert að dylja það neitt í þeirri lærðu grein, sem hann skrifaði og gefin var út í Þýzkalandi. Þar segir hann, að það sé einmitt fjárfesting útlendra einkaaðila, sem mundi geta hjálpað upp á sakirnar seinna meir, ef einhverjir erfiðleikar væru nú fyrir þá ríkisstj., sem framkvæmdi allt frelsið hérna á Íslandi, að halda þessu gangandi. Það er dálítið skemmtilegt, að eitt af því, sem hann stingur nú upp á til þess að bjarga okkur, er að koma upp miklum minkabúum á Íslandi, af því að fiskurinn mundi vera vel nothæfur handa minkunum. Það er eins og manninn hafi rámað í það, að fiskmarkaðirnir mundu líklega dumpa niður, svo að það væri bezt að nota íslenzka fiskinn sem mest í minkana og koma upp sem mestum minkabúum, það hefði gefizt ágætlega á Nýfundnalandi.

Nýfundnaland fór, eins og menn vita, nokkurn veginn á hausinn í kreppunni miklu og hefur aldrei beðið þess bætur siðan, en við höfum verið að reyna að bjarga okkur, Íslendingar, með því að finna upp okkar eigin búskaparhætti og fara okkar eigin leiðir. En þessir amerísku prófessorar, útlærðir hjá evrópsku samvinnustofnuninni og ameríska alþjóðabankanum, þeir virðast, rétt eins og hann Sergent, eða hvað sem hann hét, sem kom hér og var að ráðleggja okkur að vera ekki að fást við kartöflurnar, — þeir virðast finna upp undarlegustu hluti, sem þessir Íslendingar eigi að geta lifað af. Að koma upp minkabúum og hætta að rækta kartöflur og annað slíkt, það virðist vera það helzta, sem Íslendingar eigi að geta gert sem sjálfstætt fólk, að öðru leyti skuli útlenda auðvaldið sjá um þá. Og ég var satt að segja hissa á, að form. fjhn., hv. 6. landsk., skyldi ekki koma neitt inn á þetta spursmál um útlenda auðvaldið, því að hann var dálítið hreinskilnari um það, þegar hann var að túlka þessa viðreisnarstefnu, sem nú er kölluð, á landsfundi Sjálfstfl. í fyrra. Þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta, eftirfarandi:

„En til þess að fá erlent fjármagn inn í landið, svo að auðið yrði að byggja upp nýjan, heilbrigðan atvinnurekstur, þyrfti auðvitað í fyrsta lagi að hafa verið komið á í landinu jafnvægisbúskap með eðlilegri gengisskráningu, þá þyrfti að gera nauðsynlegar breytingar á félagalöggjöf landsins, og að síðustu, en ekki þó sízt, að endurskoða skattalöggjöf landsins og gera hana þannig úr garði, að fyrirtækjum væri gert kleift að eignast hæfilega sjóði og skila hagnaði. Að öðrum kosti mundu innlendir sem erlendir menn ekki vilja hætta fjármunum sínum til þess að stofnsetja eða reka ný stórfyrirtæki á Íslandi.“

Þetta stóð í Morgunblaðinu 20. marz 1959. Það var greinilegt, og það hefur komið fram hjá fleirum en hv. form. fjhn., að ýmsa menn hér langar til þess að fá erlent auðmagn inn í landið. Og það er ekki nýtt. Erlent auðvald hefur áður langað til að klófesta Ísland. Það er vel kunnugt, að 1918–20 var svo komið, að allir fossar á Íslandi, sem einhver líkindi voru til að yrðu starfræktir eða virkjaðir, höfðu verið seldir útlendum auðfélögum, nema Sogið. Og Alþingi varð að grípa í taumana til þess að eyðileggja þennan eignarrétt útlendra auðmanna á fossum Íslands. Einn af þeim mönnum, sem höfðu forgöngu um að gera þetta og stóðu á verði þá gegn því, að útlent auðmagn fengi að virkja fossa okkar og ná tökum á þeim, var formaður Íhaldsflokksins, Jón Þorláksson, og það tókst að afstýra þá, að erlent auðvald næði tökum á atvinnulífi okkar. Og þeir, sem þá stóðu með þeim Guðmundi landlækni og Jóni Þorlákssyni, báðu þess þá lengst allra orða, að það yrði heldur látið bíða að virkja íslenzka fossa en að það gerðu aðrir en Íslendingar í íslenzka þágu.

Það tókst á fyrstu árum fullveldisins að bjarga Íslandi undan því að verða erlendu auðvaldi að bráð, og þeir menn unnu gott verk, sem það gerðu. 1947 varð ríkisstj. að kaupa Þjórsá á 3 millj. af Títan. Það var ekki nema nafnið tómt fyrir Títan að eiga það, því að notkunarrétturinn var ekki hugsanlegur fyrir það, en eignarrétturinn hafði nú samt sem áður haldizt þarna allan þennan tíma.

En það er eins og sá þjóðernisandi, sem bjó í þeirri fátæku borgarastétt, svo að ég tali ekki um þá fátæku þjóð, sem þá var til á Íslandi, sé að deyja út hjá þeirri of ríku borgarastétt, sem nú er vaxin upp á Íslandi, því að nú virðast of margir menn þar hafa áhuga fyrir að gera Ísland og íslenzka þjóð fyrst og fremst arðránshæfa fyrir útlent auðvald.

Það hafa verið settar skorður gegn því, að útlent auðvald kærði sig um að setjast að á Íslandi, jafnvel að reyna að leppa auðmagn sitt hér. Þær skorður hafa ekki aðeins verið ýmis atriði í okkar löggjöf, heldur alveg sérstaklega í okkar skattalöggjöf, okkar félagalöggjöf og verðið á íslenzku vinnuafli. Og það er engin tilviljun, að hv. 6. landsk, þm., form. fjhn., talar um, að það þurfi að breyta félagalöggjöfinni, það þurfi að breyta skattalöggjöfinni, til þess að voldugir, útlendir aðilar séu til í að leggja fjármuni sína í svona land eins og Ísland með von um, að þeir skili hagnaði. Það þarf kannske að breyta vinnulöggjöfinni, það þarf kannske að svipta verkamenn lýðræðislegum réttindum, sem þeir hafa, það þarf kannske að gera skattalöggjöfina þannig úr garði, að hlutafélög geti safnað nógu miklum auði. Við Íslendingar höfum hingað til ekki rekið atvinnulíf okkar fyrst og fremst með það fyrir augum, að það gæfi hagnað. Við höfum rekið atvinnulíf okkar með það fyrir augum, að þessi þjóð gæti lifað, að hér væru menn, sem hefðu næga vinnu, að hér væru menn, sem þyrftu ekki að svelta, hér væru menn, sem gætu klæðzt sæmilegum fötum og gætu lifað vel. En við höfum ekki rekið atvinnulíf okkar fyrst og fremst til þess, að menn geti safnað dígrum sjóðum, hvort heldur það væru útlendir eða innlendir menn.

En hvað á að gerast með þessu frv.? Íslenzkt vinnuafl hefur verið eitt það dýrasta í heimi frá sjónarmiði útlends auðvalds. Þetta útlenda auðvald mundi hins vegar, ef þetta frv. væri samþ., ef íslenzkur verkalýður beygði sig fyrir því, — sem hann ekki gerir, — þá mundi þetta útlenda auðvald hafa hér á Íslandi eitt ódýrasta vinnuafl í heimi. Ég hef bent á það áður og þarf ekki að ítreka það, hálfur dollar fyrir klukkustund hins ólærða verkamanns er helmingi lægra kaup en verst launuðu verkamenn í suðurríkjum Bandaríkjanna hafa, þeir sem ríkið verður að vernda með lögum gegn arðráni atvinnurekendanna. M.ö.o., með þessu frv. og þessari stefnu, ef hún er framkvæmd, er verið að segja við það útlenda auðvald, sem stendur á bak við þessa árás á efnahagslegt sjálfstæði og velferð íslenzku þjóðarinnar: Nú getið þið fengið nógu ódýrt vinnuafl. Það kostar ekki nema hálfan dollar klukkutíminn hjá duglegum íslenzkum verkamanni. Fossarnir bíða hérna eftir ykkur, og það eru jafnvel útlend félög búin að gera ráðstafanir til þess að mæla orkuna í þeim og hvað hún muni kosta, og hún er ódýr, þegar virkjað er í stórum stíl. — Og hvað þýðir þetta? Ef útlent auðvald, við skulum segja ameríski alúminíumhringurinn eða einhverjir aðrir þess háttar, kemur hér upp voldugum verksmiðjum, þar sem þúsundir og kannske tugþúsundir manna vinna, það þarf ekki stórar verksmiðjur til á nútímamælikvarða, þá er búið að gera Ísland aftur að nýlendu. Þá er búið að gera íslenzka þjóð aftur að arðrændri þjóð, sem útlent auðvald hefur tökin á.

Við, sem höfum lifað það að brjótast úr því að vera nýlenda og vera meðhöndlaðir eins og nýlenda og vera fátækir eins og nýlenda, — við, sem höfum horft á þá baráttu og reynt jafnvel að hjálpa til við að byggja upp land okkar, viljum ekki horfa upp á það, að þegar Ísland er búið að brjótast eins langt og núna um lífskjör, með sameinuðum átökum oft og tíðum allra stétta þjóðarinnar, sé því hrundið aftur niður í það að verða eins og arðrænd nýlenda útlends auðvalds. Sé útlendu auðvaldi hleypt hér inn, gleypir slíkt útlent auðvald þjóð okkar. Það nær tökunum á henni. Miklu meiri tökum en nokkurt hernám getur náð.

Þeir menn, sem nú boða þetta sem eitthvert fagnaðarerindi, þessa stefnu, eins og hv. 6. landsk. var að lýsa, eru að boða nýlendustefnu hér á Íslandi, ekki neina hálfnýlendustefnu eða eitthvað slíkt. Þeir eru að stíga sporið aftur á bak niður í niðurlæginguna, og fyrstu mennirnir, sem þeir ætlast til að stígi þau spor aftur á bak, eru verkamennirnir í Reykjavik. Verkamenn, sem hafa verið með bezt launuðu verkamönnum í heimi, eiga að stíga sporið niður í það að vera lélegar launaðir en nokkrir verkamenn í nágrannalöndunum, allt til þess að útlendir auðmenn vilji hætta fjármunum sínum til að stofnsetja ný stórfyrirtæki á Íslandi, svo að ég noti orð hv. 6. landsk.

M.ö.o.: fyrir þeim mönnum, sem þarna hugsa skýrast og þegja þess vegna oft og tíðum núna um þennan hlut, virðist það vaka að gera Ísland og íslenzkt vinnuafl eftirsóknarvert fyrir útlenda auðmenn, gera Ísland aftur að nýlendu, gera vinnuaflið nógu ódýrt, geta veifað framan í auðvaldið: Hér fáið þið nógan gróða. — Þannig á að halda stig af stigi. Fyrst að draga lokur frá hurðum til þess að opna fyrir þess vörum, síðan að ánetjast þeim í gegnum 800 millj. kr. lánin, því næst að bjóða því útlenda auðvaldi að setjast hérna að til að bjarga okkur, þegar við stæðum hér í atvinnuleysi og skuldum, og telja þjóðinni trú um, að með því að setja hér upp stór, voldug, útlend auðfyrirtæki, sem kannske fengju hér einkaleyfi til 20–30 ára, væri verið að bjarga þjóðinni út úr atvinnuleysi og kreppu, rétt eins og verið er að segja í dag, að það sé verið að bjarga þjóðinni út úr einhverjum hörmungum með þeirri óheillastefnu, sem á að reyna að blekkja þjóðina inn á.

Það var einhvern tíma sagt um slíkar hugmyndir og slíka menn, sem að slíku unnu, af Þorsteini Erlingssyni í Við fossinn:

Þeir halda ekki oss vinnist þá veglegri jörð

með vitrari mönnum og sælum.

Nei, voldugir húsbændur, hundar á vörð

og hópur af mörkuðum þrælum.

Það er það, sem yrði okkar hlutskipti, ef við færum inn á þessa leið, ef við færum að reyna að gera Ísland girnilegt fyrir útlent auðvald.

En það eru ekki nema þeir yngstu og óreyndustu, sem virðast vera farnir að tigna kapítalismann eins og einhverja hugsjónastefnu, sem ég ætla þetta. Þeir menn, sem hafa reynslu af kapítalisma á Íslandi, eins og meiri hluti ríkisstj. hefur, vita miklu betur.

Þessi afleiðing er fyrir mér það allra, allra alvarlegasta í þessu frv., það allra, allra hættulegasta í því, því að sé þetta gert, sem hér er lagt til viðvíkjandi verzlunarfrelsinu, svo að ég noti það fallega orð, viðvíkjandi lánunum og slíku, er verið að gera hluti, sem ekki er svo gott að taka til baka. Þegar búið er að eyða fast að þessum 800 millj. og ánetja okkur, þá er viss vandi á höndum, og þá er máske hægt fyrir þá aðila, sem eru nógu kaldrifjaðir, að draga útlent auðvald inn í landið á eftir, og þá er Íslandi hætt, og þess vegna vara ég við þessu, og þess vegna nefni ég þetta númer eitt.

En í öðru lagi er þetta frv. hatrammasta árás á íslenzkan verkalýð og íslenzka launþega og lífskjör þeirra. Þann hlut er ég ekki eins hræddur við, vegna þess að það eru til kraftar hér á Íslandi, sem munu sjá um það, að þau illu áhrif, sem í því felast, munu ekki ná fram að ganga. Í þessu frv. er ráðizt á íslenzkan verkalýð hatramlegar en gert hefur verið með nokkrum lögum, sem lögð hafa verið fram á Alþ. áður. Í fyrsta lagi: Það er ráðizt á hans samningsrétt og helgi þeirra samninga, sem hann hefur gert, með því í 25. gr. að afnema vísitöluna og banna að semja um vísitölu. Vísitalan hefur verið, eins og hv. 6. landsk. vitnaði alveg réttilega í mig, vernd þess fátæka manns á móti þeirri dýrtíð, sem slæmir valdhafar hafa leitt yfir hann. Það er alveg makalaust, hvað skynsamir menn og yfirleitt rökrétt hugsandi geta ruglað hrottalega saman, þegar þeir eru að tala um vísitölu. Það er alveg eins og hún hafi festst einhvers staðar í heilanum á þeim og hringli þar laus, þegar þeir eru að tala um vísitölur og verðbólgu, og jafnvel tala þeir stundum um þetta eins og þetta sé bara eitt og hið sama. Hver er sannleikurinn í þessu? Jú, sannleikurinn er sá, að á ákveðnu stigi í þróun verkalýðshreyfingarinnar knýr verkalýðurinn það fram, að hann fær greidda vísitölu á kaup. Það þýðir m.ö.o.: ef verðlagið hækkar í landinu, þarf ekki verkamaðurinn að fara aftur í verkfall og langa vinnudeilu til þess að knýja fram, að hans kaup hækki í samræmi við dýrtíðina, heldur kemur það af sjálfu sér. M.ö.o.: þegar einhverjir slæmir valdhafar finna það út, að það sé hægt bara að hækka verðlagið í landinu og lækka þannig kjör verkalýðsins, fann verkamaðurinn það út þarna á móti, að hann skyldi fá sjálfkrafa hækkun á kaupi sínu, ef verðlag hækkaði, m.ö.o., að hann skyldi halda sama kaupi, það væri ekki hægt að stela af honum með opinberum ráðstöfunum. Það er vernd gegn þjófnaði, og það eru til menn, sem hafa verið að básúna það út allan tímann, að það væri voðalegt, að verkalýðssamtökin í þjóðfélaginu dirfðust að vernda sig gegn því, að það væri stolið af þeim, ætti ekki að standa það, sem þau hefðu samið um.

Vísitalan var sjálfsögð aðgerð, sem ekki aðeins hefur verið sett í samninga hér á Íslandi og í lög gagnvart opinberum starfsmönnum, hún er aðgerðir líka, sem öll verkalýðsfélög og flestallir launþegar á Norðurlöndum hafa búið við áratugum saman og þykir alveg sjálfsagður hlutur. Það mundi þykja alveg dæmalaust að koma fram með frv. eins og þetta hérna er, um að banna eigi vísitöluna, t.d. á Norðurlöndum. Það mundi þykja alveg furðuleg ósvífni. En hvernig stendur á, að nokkrir valdhafar láta sér detta í hug að ætla að koma með svona? Jú, af hverju? Af því, að þessir valdhafar á Íslandi hafa hvað eftir annað misnotað vald sitt í þjóðfélaginu til þess vitandi vits og af ásettu ráði að leiða verðbólgu yfir þjóðina. Það hefur verið svarað kauphækkunum, sem verkamenn hafa knúið fram, ekki með því að segja við atvinnurekendur, sem hafa fallizt á kauphækkanir: Reynið þið nú að „rationalisera“, svo að ég noti það ljóta, útlenda orð, — reynið þið nú að reka rekstur ykkar dálitið skynsamlegar, reynið þið nú að sameina ykkur í stærri rekstur, svo að þið getið staðið sjálfir undir þessum kauphækkunum, sem þið hafið fallizt á. Reynið þið nú að finna upp allt mögulegt til þess að spara í atvinnurekstri ykkar, m.ö.o. að láta kauphækkunina verða til þess, að atvinnurekstur atvinnurekendanna verði skynsamlegar rekinn. — Nei, borgarastéttin á Íslandi hefur haft þá aðferð gagnvart þessu, að hún hefur sagt: Nei, ég nenni ekki að vera að því. Hvað ætli ég sé að reyna að reka fyrirtæki mitt skynsamlega? Ég bara velti þessu yfir á almenning með því að hækka verðið á vörunni. — Og það hefur verið gert. Því fer þess vegna svo fjarri að tala um, að það, að verkamaðurinn hafi vísitölu á sitt kaup, orsaki nokkra verðbólgu. Bókstaflega enga. Ekki 0.0%. Það eina, sem orsakar hana, er, að það er beitt þeirri aðferð af hálfu valdhafanna að láta hækka vöruverðið, þegar kaupgjald hækkar, og jafnvel kominn sá ósiður á að gera það sjálfkrafa. Og það er rétt, að það er ósiður, og þar af hefur komið aftur hitt, að verkalýðssamtökin hafa verið farin að reikna með því í öllum vinnudeilum á undanförnum áratug, að það yrði alltaf tekið af þeim á þennan máta á eftir, og þess vegna oft og tíðum farið fram á miklu meiri grunnkaupshækkanir en þau mundu hafa farið fram á, svo framarlega sem þau hefðu haft vissu fyrir því, að einhver ofur lítil samvizkusemi hefði verið af hálfu atvinnurekendanna um að reyna að hafa reksturinn skynsamlegri og bera sjálfir eitthvað af þessari kauphækkun, en velta henni ekki allri yfir á fólkið.

Það er þess vegna mjög óréttlátt og frekt gagnvart verkalýðssamtökunum og öllum launþegum að svipta þau nú vísitölunni og banna að reikna hana, og það gefur öllum valdhöfum undir fótinn um að beita því valdi, sem verðlagningin er, á mjög ósvífinn hátt í framtíðinni. En eftirtektarvert er, og þar kemur það nýja mat, það óíslenzka mat í öllu þessu fram, hvílíkur munur er gerður á meðhöndlun vísitölu eftir því, hvort það er vinnuafl hins fátæka manns, sem á í hlut, eða það er verðbréf banka eða þeirra, sem keypt hafa verðbréf. Það eru til verðbréf hér með vísitölu. Fátækur verkamaður, sem þrælar dag og nótt við að byggja sér hús, fær lán, B-lán gegn vísitölu og önnur lán með vísitölu, og bankinn kaupir bréfið og kannske selur einhverjum, og það á að reiknast vísitala á það lán. Og það var upplýst hjá okkur í fjhn., eins og ég raunar líka bjóst við og á vissan hátt er eðlilegt, að það á að reikna vísitölu af vísitölubréfunum samkv. gömlu vísitölunni, sem afnumin var í fyrra, 1. febr., og verkamaðurinn, sem er sviptur sínum samningsbundna rétti til kauphækkunar samkvæmt kaupgreiðsluvísitölu, á að borga af húsinu sinu, af skuldinni, sem hann er í, samkvæmt vísitölu. M.ö.o.: þegar það er fjármagnið, sem á í hlut, skal vísitalan gilda. Þegar það er sá skapandi maður, sá maður, sem framleiðir og skapar vinnu, sem á í hlut, skal vísitalan bönnuð. Þetta er það nýja mat, annars vegar á auðmagni og hins vegar á vinnuafli, sem á að innleiða á Íslandi með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hingað til höfum við Íslendingar verið stoltir af því og jafnvel aðrar þjóðir hafa tekið eftir því hér heima, að hér á Íslandi væri manngildið sett hærra en peningagildið, og það hefur verið aðal okkar Íslendinga. Manngildi, það er raunverulega fyrst og fremst gildi þess vinnandi manns, þess manns, sem vinnur, og við Íslendingar höfum fyrst og fremst verið allt okkar líf menn, sem höfum unnið. Það hefur venjulega ekki verið svo mikið af peningum hér á Íslandi, að það séu þeir, sem hafi gegnsýrt þjóðfélagið, en með þessari löggjöf á að byrja á því. Réttur peningsins á að vera hátt settur, réttur mannsins, réttur þess vinnandi manns, hann skal niður — og það langt niður. Þess vegna er 23. gr. um að afnema vísitöluna eitt af því svívirðilegasta, sem í þessu frv. er.

Þá er þetta frv. í öðru lagi árás á verkalýðinn og verkalýðssamtökin hvað launakjörin snertir. Útlendar vörur munu hækka frá 20 og upp í 60% fyrir beinar aðgerðir samkv. þessu frv. Almennu hækkanirnar á þeim vörum, sem koma inn í vísitöluna og algengastar eru, munu verða yfirleitt 20–30%. Það mun vafalaust ekki vera óeðlilegt að gizka á, að almennt séð muni það verða 23%, sem dýrtíðaraukningin kemur til með að verða, miðað við vísitöluheimilið. Ég veit, að hagfræðingarnir reikna eitthvað öðruvísi. Þeir eru með eitthvað 14%, ef ég man rétt, reikna náttúrlega með húsaleigunni, eins og húsaleiguvísitala nú er, og öðru slíku, og ég þekki reikningana þeirra frá fyrri gengislækkunum, svo að ég tek því öllu með varúð. Mér sýnist eftir þeim athugunum, sem ég hef gert, að hækkunin á því, sem vísitölufjölskyldan þarf, þýði, að lífsnauðsynjar hennar hækki um a.m.k. 23%. Það, sem hún fær í uppbætur, sú fjölskylda, sem á 2 börn innan 16 ára, og í tekjuskattsminnkun, það gerir aldrei meira en láta þá aukningu á útgjöldum fjölskyldunnar, sem ekki yrði bætt, verða sem næmi um 11%, þannig að kjararýrnunin, sem þarna er um að ræða eftir því, hvort fjölskylda á í hlut, sem hefur 2 börn innan 16 ára, eða ef það eru einhleypingar eða fjölskyldur, sem eiga börn yfir 16 ára, þá er kauplækkunin 11–23%. Launalækkunin, sem í þessu felst, er þess vegna alveg gífurleg. Það hefur aldrei svona mikil launalækkun verið fyrirskipuð með lögum á Íslandi áður.

Samtímis þessu er vitað mál, að þetta er ekki sú eina lífskjararýrnun, sem í þessu felst. Það, að íslenzk verkamannafjölskylda hefur haft lífsafkomu, sem hefur veríð mjög góð, miðað við lífsafkomu verkamanna almennt í veröldinni kringum okkur, hefur ekki fyrst og fremst byggzt á háum launum hér heima. Þó að okkur hafi tekizt um langt skeið að halda 40–50% hærra kaupmætti tímakaups en var fyrir stríð, þá hafa þó þau góðu lífskjör fyrst og fremst stafað af mjög löngum vinnutíma, vissulega óhóflega löngum vinnutíma þess íslenzka verkamanns: En hann hefur fengið aðstöðu til þess að vinna svona lengi og fengið aðstöðu til þess að vinna með 50 og 100% hærra kaupi sína eftirvinnu og næturvinnu og helgidagavinnu, og það er það, sem hefur gert, ef ég má segja, gæfumuninn um, að hann hefur getað veitt sér fleiri hluti og sinni fjölskyldu a.m.k., þó að maðurinn hafi kannske sjálfur þrælað nótt með nýtum degi.

Með þessu frv. er lagt til að koma aftur á á Íslandi prívatkapítalistískum atvinnuháttum, eins og þeir venjulega gerast með öðrum þjóðum og gerðust hér fyrrum, fyrir næstum heilli kynslóð, hjá okkur. Þegar auðvaldsskipulagið er óheft og lögmál gróðans og gróðavonarinnar er það eina, sem í því ræður, þá kaupir atvinnurekandi ekki vinnuafl á 50% hærra verði en hann getur fengið það á. Þegar nægilegt framboð er á vinnumarkaði, lætur atvinnurekandinn ekki vinna eftirvinnu, það er þá bara í undantekningartilfelli í sambandi við að bjarga fiski undan skemmdum og öðru slíku. Almenna reglan verður: Engin eftirvinna, engin næturvinna, og annað slíkt. Það má færa fram mörg rök fyrir því, að það væri gott að losna við hana, en þegar íslenzkur verkalýður losar sig við hana, mun hann gera það á þann hátt að knýja fram fyrir 8 tíma dagvinnu sama kaup og hann nú hefði með 10 tíma vinnu, 8 tímum í dagvinnu og 2 tímum í eftirvinnu. Hann mun ekki sætta sig við hitt, að hann verði látinn vinna ódýru tímana og kaupið ekki hækkað og lífskjör hans versni sem þessu svarar.

Það er engum efa bundið, að afleiðingin af þessu frv. og framkvæmdinni á stefnu þess þýðir atvinnuleysi. Við minntumst á það í fjhn., Jónas Haralz bar á móti því, að svo mundi verða. Hann talaði um öll þau skip, alla þá báta, sem keypt voru til landsins í tíð vinstri stjórnarinnar og mundu sigla inn og þyrftu fólk, og við hefðum marga útlendinga hér og annað slíkt, Vissi ég það, Sveinki. Það var líka svo eftir nýsköpunartímann, að það var ekkert þægilegt fyrir þá stjórn, sem þá tók við, að koma á atvinnuleysi undireins, meðan togararnir voru að sigla inn. Það tók hana 3 ár. Það kemur til með að vefjast ofur litið fyrir þessari ríkisstjórn líka að koma á atvinnuleysi vegna þeirra ráðstafana, sem voru gerðar í tíð vinstri ríkisstjórnarinnar með að afla framleiðslutækja, þannig að það verður heldur erfiðara. En ég efast ekki um, að þeir menn, sem koma til með að stjórna aðgerðunum á Íslandi frá París og Washington í gegnum erindreka sína á Íslandi, hafa nægar aðferðir til þess að finna út, hvernig eigi samt sem áður að skapa atvinnuleysi og það tiltölulega fljótt.

Ef öll byggingavinnan minnkar um helming, eins og virðist vera gert ráð fyrir í þeim innflutningsáætlunum, sem við fengum, þá líður ekki á mjög löngu, það þarf kannske ekki einu sinni heilt ár, þangað til þar sé farið að vera allt gerbreytt. Við höfum verið vanir því undanfarið á Íslandi að líta á það, að jafnvel múrarar og trésmiðir væru svo að segja einkaréttindastéttir, og þeir, sem oft hafa talað óvarlega í þeim efnum, muna ekki eftir því, að meira að segja 1951 fóru múrarar á togara og 1940 tók Múrarafélagið sig saman um að fara að taka upp svörð uppi í Mosfellssveit, vegna þess að það voru svo að segja engin hús til að byggja.

Það er engum efa bundið, að það er atvinnuleysi, sem stefnt er að og hjá vissum mönnum verður afleiðingin af þessu, og það þyrftu þeir allir að sjá, sem að þessu standa og taka á þessu ábyrgð. Atvinnuleysi varð hér 1951, og það var engin tilviljun, og atvinnuleysi er í kapitalistísku skipulagi óhjákvæmilegt fyrir auðmannastéttina. Án atvinnuleysisins hefur hún ekki þau tök á vinnumarkaðinum, sem hún þarf að hafa. Þess vegna mun það útlenda auðvald, sem nú fer að halda hér í spottann hjá okkur, ef þetta verður samþ., sjá til þess, að mátulegt atvinnuleysi skapist á Íslandi. Og ég held, að ef það væri gengið skarpt að til að yfirheyra Jónas Haralz ráðuneytisstjóra um það mál, mundi hann jafnvel viðurkenna það. Og hvað verður þá um lífskjör íslenzks verkalýðs, þegar búið er að svipta hann réttinum til vísitölukaupgreiðslunnar, þegar búið er að lækka launakjör hans með því að hækka dýrtíðina um 20–30%, þegar búið er að svipta hann eftirvinnunni og jafnvel sjálf vinnan fer að verða stopul? Þá hafa lífskjörin hrapað þannig niður, að ég vil segja það út frá minni þekkingu í 40 ár á íslenzkri verkalýðshreyfingu, að við það mun íslenzk verkalýðshreyfing ekki una. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar fyrir hennar hönd, ég hef ekki umboð til þess, ég er því síður að hóta nokkru. Ég vil minna á það, að við stjórn, sem ég studdi, sagði ég hér, þegar efnahagsmál voru til umræðu vorið 1958, að ég varaði þá stjórn við og alveg sérstaklega Framsfl. Ég ráðlagði honum að taka tillit til verkalýðshreyfingarinnar, að reikna með henni og reyna ekki að þvinga það fram, sem hann vildi, án þess að taka réttmætt tillit til hennar, til hennar allrar. Ég aðvaraði þá ríkisstj., sem ég studdi. Það var daufheyrzt við þeim ráðleggingum, og ég held, að það hafi verið mjög skakkt af þeirri ríkisstj. að daufheyrast við þeim. Ég þarf raunverulega ekki annað en skírskota til þm. Sjálfstfl. og ráðherra hans, af því að þeir hafa líka nokkra reynslu frá haustinu 1958 um, hvernig verkalýður bregzt við kúgunarráðstöfunum, vitlausum efnahagsráðstöfunum, þannig að þeir vita fyllilega, hvernig sérstaklega reykvískur verkalýður, alveg sama hvaða flokki hann fylgir, breytir, þegar honum finnst sér misboðið. Og þó skulum við muna, að í þeim efnahagsráðstöfunum, sem ég var þá að vara við, var ákveðin 5% kauphækkun fyrstu mánuðina, 5% kauphækkun til þess að bæta verkamönnum upp 9 stiga vísitölumissi, og allir hv. þm. vita, hvernig fór þá um haustið.

Þess vegna vil ég vara hæstv. ríkisstj. við. Ég vil aðvara hana, ekki sem neinn pólitískur foringi eða neinn fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar, heldur bara sem Íslendingur, sem vill gjarnan komast hjá erfiðleikum, baráttu og ófriði. Ég vil aðvara hæstv. ríkisstj., ekki sem pólitískur andstæðingur hennar, heldur bara vegna þess, að ég þekki þjóð mína. Hagfræðingarnir kunna að reikna, þ.e. þeir reikna rétt, eins rétt og reikningsvélar, ef þeir hafa réttar tölur og ef þeir vita, hvort þeir eiga að leggja saman eða draga frá. En þeir vita ekki, að þegar þeir eru að reikna um efnahagsmál, eru þeir að reikna með lifandi mönnum, mönnum með tilfinningu, mönnum, sem eru að verja fjölskyldu sína, mönnum, sem eru að verja sína afkomu, mönnum, sem eru að verja sína eign, mönnum, sem eru að berjast fyrir því að halda íbúð, sem þeir hafa þrælað fyrir árum saman. Hagfræðingarnir reikna ekki með fólki. Þeir reikna eins og vélar. Þeir reikna ekki með mönnum með holdi og blóði, með tilfinningu. Það er það hins vegar, sem stjórnmálamenn eiga að kunna. Í því er þeirra lífspólitík, þeir eru að stjórna mönnum. Þess vegna er það, að það er hægt að nota hagfræðinga eins og góðar reiknivélar. Ef maður leggur dæmið rétt upp fyrir þá, skila þeir áreiðanlega réttri útkomu. En það hættulegasta, sem hægt er að gera, er að ætla að fara að láta þessa hagfræðinga stjórna þjóðfélaginu, stjórna lífandi mönnum, ráða örlögum lifandi fólks, skammta t.d. verkamönnum í Reykjavík, hvað þeir eigi að borða mikið, hvað þeir eigi að klæðast í og hvort þeir eigi að fá að búa í íbúðinni sinni áfram eða ekki. Þá er komið að öðrum hlutum, sem eru utan við svið hagfræðinganna og þeir bera ekkert skynbragð á og bezt er að láta þá engu ráða um. Hagfræðingar geta reiknað, hvað framleiðsla er á Íslandi, hvað mikið af fiski kemur á land og annað slíkt. En það kemur enginn fiskur á land og verður að engum fiski unnið nema af því, að það eru menn, sem draga hann á land, og menn og konur, sem vinna að honum í landi. Hagfræðingarnir ættu að læra að reikna með því. Meira að segja þó að menn hafi 800 millj. kr. lán frá París, kemur enginn þorskur á land á Íslandi fyrir það lán, ef sjómennirnir eru ekki til að draga hann, og fólkið á Íslandi mun fá að vita, að það er bæði verið að blekkja það og verið að undirbúa að kúga það, og þess vegna mun það rísa upp. Það getur engin hvít bók gert þau svörtu áform, sem hér eru fyrirhuguð, hvít í augum fólksins. Og fyrir okkur, sem höfum lifað baráttu reykvísks verkalýðs í 30 ár, lifað mörg svört áform, sem jafnvel hefur þurft bardaga til að hrinda, við höfum lifað það hér í Reykjavík, að það hafa ekki verið til neinir peningar að morgni eins dags, til þess að atvinnulaus verkamaður gæti fengið atvinnubótavinnu eina viku í mánuði, og við höfum lifað það, að það hafa verið nógir peningar til að kvöldi, bara af því að verkamenn risu upp.

Þess vegna vona ég, að þeir, sem reyndastir eru og gætnastir, beri gæfu til þess að skilja, að það á ekki að leggja út í svona hluti eins og hér er lagt til viðvíkjandi verkalýðnum og verkalýðshreyfingunni. Það á ekki að reyna að framkvæma svona árásir. Þeir menn, sem hafa reynsluna af baráttunni undanfarna áratugi, vita, að þetta tekst ekki.

Satt að segja hefur það oft hvarflað að mér, þegar ég hef verið að reyna af veikum mætti að setja mig inn í, hvernig þessir blessaðir hagfræðingar undirbúa þessar svokölluðu áætlanir sínar og annað slíkt, — það hefur stundum hvarflað að mér, að það sé bókstaflega eins og — ég vil ekki segja, að það sé afgreitt eftir pöntun, en ég veit eiginlega ekki, hvernig mennirnir hugsa. En það er næstum því stundum eins og þeir setji dæmið þannig upp, að útkoman sé í hellanum hjá þeim, örugg fyrir fram, og svo sé dæmið lagað eftir því, að útkoman passi við það, sem þeir vilja fá út.

Ég skal taka eitt smádæmi af því, sem mest er notað af hálfu ungu hagfræðinganna sem rök fyrir því, að það sé allt í voða hér á Íslandi. Ég sé nú satt að segja aldrei þennan voða. Ég sé ekki voða hér, á meðan fólk lifir hér sæmilega og kemst sæmilega af, hvað sem allri reikningslist hagfræðinga líður. Ég sé meiri voða í því, þegar fer að sverfa að mönnum, heldur en þó að eitthvað sé vitlaust í bókhaldinu. — Já, ég ætlaði að taka eitt dæmi um, hvernig vinnubrögð slíkra hagfræðinga eru. Það er notað sem rök, að hlutfallið á milli vaxta og afborgana af erlendum lánum og gjaldeyristekna þjóðarinnar sé svo ægilegt; að voðinn sé alveg yfir okkur, svo framarlega sem við ekki stingum við fæti og steypum okkur ekki fram af hengifluginu. Og það, sem lagt er til grundvallar í sambandi við þessa útreikninga, er sem sé alltaf gjaldeyrisframleiðslan á árinu 1959, árinu, sem núna var að líða, og út frá því er í öllum þessum útreikningum reiknað með sem útgangspunkti, um hvað allt saman þetta sé hættulegt. Þessir lærðu hagfræðingar, þessir miklu hagfræðingar, sem fara til Parísar, voru líka við að útbúa þá fræðilegu, þá vísindalegu undirstöðu að efnahagsráðstöfunum, sem ég var að tala um áðan, vorið 1958, og þá er líka búin til áætlun. Hún var búin til í marz 1958, og þar var líka talað um gjaldeyristekjurnar og hvað afborganir væru nú að verða miklar, og í þeirri áætlun þessara sömu hagfræðinga, búinni út í marz 1958, var reiknað eins og ég nú skal lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

Gjaldeyristekjurnar 1957 voru þar settar 1355 millj. kr. Þá hefur ofur litið vantað upp á, að það væri komin svo nákvæm áætlun sem nú er í skýrslu hagfræðinganna, sem sýnir 1957 1375. Þá gizka þeir á 1958 1372 millj. kr. , svo gizka þeir á 1959 1370 millj., svo gizka þeir á 1960 1370 millj., svo gizka þeir á 1961 1370 millj., svo gizka þeir á 1962 1340 millj. M.ö.o.: þessir vísu hagfræðingar í þessari hagfræðinganefnd, — ég býst við, að Jónas Haralz sé einn aðalmaðurinn, þeir voru líka sumir að tala um gengislækkun þá, — þeir segja: Jú, fram til 1962 verða gjaldeyristekjurnar alltaf þessar sömu, 1372 millj. Þetta eru þær vísindalegu forsendur. Það er ósköp þægilegt að sýna fram á, að landið sé að fara á hausinn út af hlutfallinu á milli vaxta og afborgana af erlendum lánum og gjaldeyristeknanna.

Þetta var nú svona, þegar þessi góði maður var að byrja í þessu, ungur og alveg óreyndur og auðsjáanlega var ekki sérstaklega mikill stórhugurinn né skilningurinn á því, að Íslendingar væru þjóð, sem væri að auka framleiðslu sina. En þetta eru vísindalegu undirstöðurnar undir efnahagsráðstöfunum og till. hjá þessum lærðu hagfræðingum. Og nú koma þeir og prenta og prenta náttúrlega í hvítu bókinni og alls staðar þetta, sem er á bls. 31 í grg. Nú hafa þeir ofur lítið lært. Jú, þeir hafa lært, — það eykst, þessir Íslendingar taka upp á þessum fjanda að láta gjaldeyristekjurnar vaxa og á einu ári eru hagfræðingarnir sem sé búnir að læra þetta, að þær vaxa. Benjamín Eiríksson lærði heilmikið á 10 árum, og Jónas Haralz hefur lært heilmikið á einu ári. Og hvað eru þeir nú búnir að læra mikið? Jú, hann segir: 1958 eru gjaldeyristekjurnar 1521 millj. Svo gizkar hann á 1959. Og hvað gizkar hann á 1959? 1466. Þær minnka. 1466. Aflinn 10% meiri. Jónas Haralz vinnur ekki úr aflanum, hann setur hann víst í sjóinn aftur í sínum huga. 1960 er það 1547, 1961 er það 1600, og svo eykst það. 1962 er það komið upp í 1690, 1963 er áætlunin 1770.

Hvað eru raunverulega gjaldeyristekjurnar, ef við reiknum með birgðavextinum í ár, gjaldeyririnn, sem við sköpum, gjaldeyririnn, sem við hefðum getað verið búnir að flytja út og fá inn, ef það hefði ekki af sérstökum pólitískum ástæðum verið beðið með það? Það er raunverulega 1776 millj. kr. , gjaldeyristekjurnar 1959.

Þetta er útgangspunkturinn í allri áætluninni um þetta hlutfall, þessar 1466 millj., sem Jónas Haralz er með, lækkun frá 1958, og þannig fær hann prósenturnar þannig út, að á árinu 1961 er það komið upp í 11.4% miðað við gjaldeyristekjurnar.

Þessi áætlun er röng. Þessari áætlun er hagrætt með það fyrir augum að fá ákveðna útkomu, sem líti illa út. Ég bað um í fjhn. að fá áætlun þeirra fram til 1970. Ég fékk áætlun fram til 1966. Ég spurði þannig um, hvað vextir og afborganir væru. Ég bað um að fá hlutfallið, hvað bátarnir væru af gjaldeyrisútgjöldunum. Það hef ég ekki fengið. En eitt vitum við, að flestir þeir bátar, sem við fáum til Íslands, skapa eins mikinn gjaldeyri brúttó á einu ári og þeir kosta sjálfir í gjaldeyri, þannig að gjaldeyrislega séð er það gott fyrirtæki fyrir okkur að fá bátana.

Þegar farið er að búa til áætlanir eins og þessir hagfræðingar gera, get ég líka alveg eins búið til áætlanir, þó að ég sé enginn hagfræðingur. Og ég kastaði upp áætlun að gamni mínu, þar sem ég nota þeirra tölur í vöxtum og afborgunum og þar sem ég set fyrir árið 1959 1748 millj. kr. í gjaldeyristekjum, og síðan reikna ég heldur minni vexti en þeir eru með. Þeir eru mestmegnis með 90 millj. kr. vexti frá ári til árs. Ég reikna með 75 millj. kr. fast frá ári til árs, og ég reikna með því hlutfalli, sem vextir og afborganir þá verða af slíkum tekjum. Það gildir fyrir árið 1960 1923 millj., 1961 1998 millj. o.s.frv., og þá eru prósenttölurnar, sem ég fæ út fyrir 1958 8%, sem hlutfallið er milli vaxta og afborgana af erlendum lánum og gjaldeyristekna. 1960 er það 8.5%a, 1961 er það 9.1%, 1962 er það 8%, 1963 er það 6.5%, 1964 er það 5.4%, 1965 er það 4.5%, 1966 er það 4.2%. M.ö.o.: þessir vextir og afborganir af erlendum lánum verða aldrei allan þennan tíma svo miklir, að það verði íslenzkum þjóðarbúskap raunverulega hættulegt, — aldrei nokkurn tíma. Það er eins og hver annar barnaskapur, svo að ekki sé talað um neitt verra, að halda slíku fram. Það er náttúrlega hægt að gera það með einu mótí. Það er hægt að gera það með því móti að reikna með stöðvun í íslenzku atvinnulífi, reikna með samdrætti í íslenzkri útgerð. Það er hægt, og því virðist mér að sumu leyti þessir hagfræðingar reikna með. Þeir reikna með því, að það sé kannske svo og svo mikið af skipum, sem liggja og séu ekki gerð út, eða að togararnir sigli svo og svo mikið og þess vegna fái menn ekki nægan fisk í hraðfrystihúsin, og annað þess háttar. Það eru allir mögulegir slíkir hlutir, sem kunna að koma fyrir. Þess vegna geta þeir fengið allan fjandann út eftir því, hvaða tölur það eru, sem þeir reikna með, og ég get það líka, ef á að fara að reikna svoleiðis. En ég þykist hafa þarna meiri rök fyrir mínum tölum en þeir hafa fyrir sínum. Og eitt a.m.k. er alveg víst, það er ekki leyfilegt að byggja á þeirra staðhæfingum og þeirra hagræddu tölum aðrar eins ráðstafanir og þær, sem hér á að gera.

Íslenzk þjóð verður aldrei sannfærð um það, að þetta sé óbrigðull grundvöllur til þess, að hver einasti verkamaður og verkamannafjölskylda í landinu eigi að fórna milli 10 og 20 þús. kr. af kaupgjaldi sínu á ári fyrir stefnu þessara hagfræðinga. Þess vegna er það greinilegt, að allir útreikningar, allar skýrslur, allt, sem byggt er á viðvíkjandi þessari grg. og þessu frv., á að takast til endurskoðunar, þetta stenzt enga gagnrýni, byggir ekki á neinum staðreyndum. Það er ill óskhyggja, sem þarna er að verki, staðreyndum svo að segja hagrætt með það fyrir augum að fá út útkomuna, sem einhverjir herrar suður í París og einhverjir erindrekar þeirra á Íslandi vilja fá til þess að þvinga upp á Ísland slæmri efnahagspólitík.

Þá komum við að þeim kafla þessa frv., sem snertir vextina. Það er nú kannske rétt, að hæstv. viðskmrh. komi inn, áður en ég hverf alveg frá þeim kafla, sem snertir verkalýðshreyfinguna. Ég rétt minnist gamals og góðs samstarfs okkar í fjhn., þegar við vorum að berjast á móti síðustu gengislækkun og hröktum sameiginlega mjög dyggilega allar þær firrur, sem þá voru uppi hjá hagfræðingunum, og allt reyndist rétt, sem við sögðum, og allt vitlaust, sem þeir sögðu. Þá var hæstv. viðskmrh. ekki neitt sérstaklega hrifinn af því að stofna atvinnuöryggi Íslendinga í voða fyrir einhvers konar frjálsa verzlun.

Og svo að ég að síðustu ljúki ádeilu minni út af því, hvað verkalýðnum sé bezt, og ádeilu minni á skoðanir hv. 6. landsk., form. fjhn., í þessu efni, ætla ég rétt að vitna í nál. 3. minni hl. fjhn. frá 1950, núv. hæstv. viðskmrh., þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti er það um þetta að segja, að ég tel það ekki eiga að vera höfuðmarkmið þeirrar stefnu, sem fylgt er í efnahagsmálum, að hægt sé að halda uppi svonefndri frjálsri verzlun. Ég tel höfuðmarkmiðið eiga að vera það, að haldið sé uppi fullri atvinnu og full hagnýting allra framleiðslutækja sé tryggð.“

Þessu var ég og er fyllilega sammála.

Í þessu frv. er svo einn af þýðingarmestu köflunum viðvíkjandi vöxtunum, og það undirstrikaði hv. form. fjhn. mjög greinilega í sinni framsöguræðu, að það er ein af höfuðstoðum þeirrar nýju efnahagsmálastefnu, sem hér kvað eiga að taka upp. Og sú stefna er í stuttu máli sú, að nú skuli innleiða okurvexti á Íslandi og afnema allt, sem heitir að lasta það ljóta orð lengur, heldur gera það að góðri og heilbrigðri fjármálapólitík, enda hefur Sigurður Berndsen lýst því yfir, að hann sé mjög sammála þeirri stefnu, sem þar sé upp tekin.

Vextirnir og lánapólitíkin eru ein höfuðstoð þeirrar stefnu, sem nú á að hefja, og forsvarsmaður hæstv. ríkisstj. undirstrikaði það mjög greinilega, að án þeirra framkvæmda, sem ætlazt er til á því sviði, fellur þessi stefna um sjálfa sig. Hvernig hefur nú aðstaða okkar Íslendinga yfirleitt verið gagnvart vöxtum og gagnvart lánum? Sannleikurinn er, að við höfum alltaf verið á móti háum vöxtum. Við höfum alltaf verið þjóð, sem hefur þurft að fá að láni, við höfum þekkt vel það gamla orðatiltæki Englendinganna, þegar þeir segja: Englendingurinn þolir allt nema 2%. — Enski kapítalisminn treystir sér til þess að halda allt út nema það, að vextirnir af kapítali fari niður í 2%, þá er honum öllum lokið. Við höfum um áraraðir verið undir hans ok seldir og orðið að borga stóran hluta af okkar þjóðartekjum í vexti til hans, og við höfum alltaf viljað losna undan öllu vaxtaoki. Það hefur þess vegna frá upphafi, þegar við fórum að ráða okkar málum sjálfir, verið eitt af höfuðatriðunum í öllu íslenzku efnahagslífi að reyna að knýja fram lága vexti. Og þetta er ekkert einkennandi fyrir okkur. Þetta er einkennandi fyrir hverja einustu þjóð, sem er á framfaraskeiði. Fyrir þjóð, sem er á framfaraskeiði, eru lágir vextir ódýrir peningar, eins og bændurnir og atvinnurekendurnir í Bandaríkjunum orðuðu það fyrir 100 árum, 1850—1860 og 1870, þegar gróskan var þá að koma mest í athafnalíf þeirra.

Til þess að byggja upp land okkar, sem enn er að heita má ónumið nema sjávarsíðan, þurfum við ódýrt fé, lága vexti, og ef okkur á að vegna vel í landinu, þarf skattur okkar til auðsins, til fjármagnsins að vera sem minnstur, því að því hærri verða okkar vinnulaun og sá afrakstur, sem þjóð okkar fær. Þess vegna verður það alltaf eitt höfuðatriði um öll efnahagsleg kjör íslenzku þjóðarinnar, að vextir séu lágir. Þetta hefur líka verið höfuðatriði í allri baráttu þeirra stétta, sem mest hafa þurft á lánum að halda. Það hefur verið eitt höfuðatriði í baráttu bændastéttarinnar, að vextir séu lágir á þeim lánum, sem hún fær, og var eitt af því fyrsta, sem knúið var hér fram á áratugnum 1920–30. Það var eitt aðalatriðið, þegar löggjöfin um verkamannabústaði var sett 1929, að fá fram vexti, sem væru 21/2 %, og Alþ. setti lög um það, og var þjóðin þó fátæk þá. Það var eitt aðalatriði á tímum nýsköpunarstjórnarinnar að knýja það fram, þegar togaraflotinn var keyptur handa landsmönnum og ráðizt í að reisa stórar og miklar verksmiðjur, og þurfti að beita okkar bankavald mjög hörðu til þess, að atvinnurekendur fengju lán, sem voru 21/2 %. Það hefur verið höfuðatriði fyrir þjóð okkar að knýja fram lága vexti. Og ef við ætlum að byggja land okkar sjálfir, njóta okkar auðlinda sjálfir, virkja okkar fossa sjálfir, þá er frumskilyrðið það, fyrir utan að við eigum þetta og þetta sé í okkar eigu og við gerum þetta sjálfir, að þegar við tökum lán til þess, tökum við þau lán með lágum vöxtum. T.d. af Sogsvirkjuninni er helmingurinn af kostnaðinum núna við framleiðslu alls rafmagns og meira en helmingurinn vextir af lánum.

Það er engum efa bundið, að einmitt háir vextir af lánum hafa orsakað þriðjunginn af allri verðbólgunni á Íslandi, þ.e., í verðlagsmynduninni á Íslandi er sök hárra vaxta a.m.k. þriðjungur af því. Þess vegna hlýtur það alltaf að vera keppikefli fyrir þjóð okkar og allar þær stéttir hennar, sem leggja í framkvæmdir eða eru að reyna að koma yfir sig húsum, að búa við ódýrt fjármagn, búa við lága vexti. Nú er sagt: Við eigum að koma á háum vöxtum til þess að stjórna með því atvinnulífinu. — Ég veit ósköp vel og viðurkenni, að þetta er ráð, sem getur dugað og er jafnvel eðlilegt að dugi í gömlum og grónum kapítalískum þjóðfélögum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum. Það er ósköp eðlilegt. Það er hægt að stjórna svona þar. Þar er líka hægt að stjórna illa þar með því, og jafnvel í Bandaríkjunum hafa menn rekið sig á það. En á Íslandi er ekki hægt að stjórna með þessu. Það er ekki hægt að framkvæma á Íslandi þá pólitík, sem mundi þykja sjálfsagt áð framkvæma í hverju elnasta öðru kapítalísku landi, og það bara af þeirri ástæðu, að við erum svo lítil þjóð, þar sem hver þekkir annan svo vel, að menu hafa ekki brjóst í sér, ekki einu sinni bankastjórar, til þess að beita þeim aðferðum, sem hægt er að beita í stórum þjóðfélögum. Það er oft verið að álasa Íslandi sem landi kunningsskaparins og landi, þar sem ættarböndin séu rík, og allt mögulegt annað slíkt. Það er stundum slæm staðreynd, en það er staðreynd. Það skal öðruvísi bankastjóra til en nú eru á Íslandi til þess að segja við mann, sem á íbúð, sem er 300–400 þús. kr. virði og vantar 10 þús. kr. víxil til þess að bjarga henni undan hamrinum: Þú færð ekki víxilinn, góði minn, þó að þú borgir hann upp á einu ári, íbúðin þín verður boðin upp. — Við höfum ekki svona menn enn þá á Íslandi. Þó að kapítalisminn sé búinn að vera til hjá okkur núna um tveggja kynslóða skeið, er hann ekki búinn að skapa þá manngerð á Íslandi, hann er ekki búinn að rýra íslenzkt manngildi svo mikið, hann er ekki búinn að gera samböndin manna á milli að svo ísköldum peningasamböndum, að menn steypi hver öðrum í ógæfu með svona hlutum. Það, sem menn koma til með að standa frammi fyrir, þegar á að fara að framkvæma þetta, eru svona hlutir. Og ef einhverjum bankastjóra kynni að detta í hug að reyna eitthvað í þessa áttina, mundu bankarnir reyna það, að spariféð færi út úr greipunum á þeim og sparifjáreigendurnir færu sjálfir að lána fram hjá bönkunum. Það hefur komið fyrir áður á Íslandi og getur komið fyrir enn; og það er ekkert vald til samkvæmt frv., sem heldur sparifé föstu í bönkum.

Það er ekki hægt að framkvæma svona pólitík á Íslandi. Það er ekki hægt að koma á prívatkapítalismanum með allri hans svívirðingu hér á Íslandi. Þjóðin rís upp á móti því. Meira að segja held ég, að bankastjórar muni rísa upp á móti því. Það hefur verið reynt áður, og það hefur mistekizt. Menn tala, eins og stundum hefur verið gert, um misrétti, spillingu og annað slíkt í sambandi við leyfin og allt saman það. Hvað haldið þið að yrði þá sagt; ef bankastjórar ætluðu að fara að beita hörðu við suma og sýna linkind við aðra? Nei, það er ekki hægt að gera svona hluti, það er vitlaust að gera svona hluti á Íslandi, það er skaðlegt fyrir okkar þjóðarbúskap, og það á ekki að reyna það.

Við erum fátæk þjóð þrátt fyrir ýmislegt, sem okkur hefur áskotnazt, og erum að byggja upp stórt land. Við þurfum til þess ódýrt fjármagn, og við höfum þá aðstöðu í veröldinni, sem við eigum að hagnýta okkur miskunnarlaust. Ef við getum fengið fjármagn fyrir austan járntjald, þá eru það jafngóðir peningar til þess að byggja upp orkuver á Íslandi eða hvað sem er eins og dollarar frá Ameríku. Eins og við getum verzlað austur fyrir járntjald og verzlað til Ameríku, Afríku og Vestur-Evrópu, eins getum við tekið lán fyrir austan járntjald og höfum gert það, eins og við tökum lán í Ameríku, Englandi eða jafnvel annars staðar. Við eigum að vera óhræddir að hagnýta þá aðstöðu, sem Ísland er í, til þess að skapa eins gott líf fyrir þessa þjóð og hægt er. Við gerum það ekki með því að ætla að gera okkur undirorpna venjulegum, prívatkapítalistískum atvinnuháttum. Við gerum það aðeins með því að hugsa fyrir þjóð okkar sem eina heild, bera umhyggju fyrir henni eins og fjölskyldufaðir fyrir sínu heimili, og fjölskyldufaðir innleiðir ekki þessa hætti á sínu heimili og gagnvart sínum börnum. Við eigum að hugsa um okkar þjóð eins og litla þjóð, sem hefur lifað af allar þær hörmungar, sem yfir Ísland hafa gengið, og lifum nú í fyrsta skipti þannig, að börnin okkar taka út fullan vöxt, sem í kynslóðum okkar hefur búíð, í fyrsta skipti kynslóð, sem fær að borða sig sadda. Og nú á ekki að byrja á því að segja: Þetta fólk á að lúta ísköldum lögmálum peningavaldsins í veröldinni. — Við eigum að frelsa þjóð okkar frá því að verða því undirorpin. Við reyndum það einu sinni. Ég hef áður minnzt á það. Ég ætla ekki að gera þetta að umtalsefni núna, ekki að minnsta kosti strax.

Allur kaflinn um vextina og lánapólitíkina er jafnskaðlegur og hann er ómannúðlegur og eins og hann er óraunsær, og þó kastar tólfunum í 32. gr., þegar ríkisstj. fer fram á heimild til að geta raunverulega breytt lögum, einum 6–8 lögum. Ég spurði satt að segja á fundi okkar í fjhn., hvort það væri ekki miklu þægilegra fyrir ríkisstj. að fara bara fram á að fá einar litlar tvær línur, þar sem stæði: Ríkisstjórninni er heimilað að breyta öllum þeim lögum, sem fyrir eru á Íslandi, eftir því sem henni þóknast. — Þá er þetta miklu, miklu fyrirhafnarminna, og það er stefnt í þá áttina með þessari 32. gr., að mega svo að segja stjórna með tilskipunum.

Þá ætla ég rétt að minnast nokkrum orðum á það, sem á að vera undirstaða þessa frv. eða tilefnið til þess, að lagt er út í það, og það er að bjarga sjávarútveginum. Það er með þennan veslings sjávarútveg, sem alltaf er verið að bjarga hér. Þessi atvinnuvegur, sem alltaf bjargar þjóð okkar og við lifum á, það er einhvern veginn búíð að koma mönnum upp á það og það er nú hið slæma uppbótakerfi, sem þar hefur víssulega hjálpað til, að það er farið að tala um eins og við séum alltaf að bjarga honum, þegar við erum að bjarga okkur sjálfum. Í þeim ráðstöfunum, sem hér er lagt til, hef ég ekki getað sannfærzt um að væru neinar ráðstafanir, sem tryggðu afkomu sjávarútvegsins, engar, og ég get ekki séð, að neitt í þessu frv. sé sérstaklega fyrir sjávarútveginn gert, ekki neitt. Það er nefnilega eitt af því undarlega með hagfræðingana, þessa ungu hagfræðinga, þessa óreyndu hagfræðinga, að þeir halda alltaf, að þeir geti með því að reikna niður gengið reiknað sjávarútveginn niður í það að bera sig. Þetta er dæmi, sem aldrei gengur upp af þeirri einföldu ástæðu, að um leið og gengið er reiknað niður, þá hækkar um leið verðið á öllum vörunum, sem sjávarútvegurinn þarf. Og dæmið kemur aldrei til með að ganga upp. Þið megið halda áfram áratug eftir áratug að lækka gengið á Íslandi hvað það snertir, þið bjargið ekki sjávarútveginum með því.

Ég spurði, af því að í frv. og grg. þess er gert ráð fyrir, að það sé byggt fyrst og fremst á bátaútveginum og afkomu hans, — ég spurði þess vegna: Hvað reiknið þið með, að smábátaútvegurinn eigi að fá hjá hraðfrystihúsunum fyrir fiskkílóið, eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt? Davíð Ólafsson fiskimálastjóri varð fyrir svörum af hálfu hagfræðinganna. Það stendur nefnilega hérna í 17. gr., með leyfi hæstv, forseta: Lagt er til, að hið nýja gengi verði 38 kr. á Bandaríkjadollar. Þetta gengi er við það miðað, að stærsta grein útflutningsframleiðslunnar, þorskveiðar bátanna, beri það sama úr býtum og þær gera með þeim útflutningsbótum, sem nú gilda, að öllum sérbótum meðtöldum. Ég spurði því Davíð, hvað hann áliti að bátarnir ættu að fá meira. Hann sagði, að þeir ættu að fá 28% til viðbótar, það ættu hraðfrystihúsin að geta greitt, og vildi þá ganga út frá kr. 2.12 fyrir fiskkílóið, sem ég nú hins vegar ekki vildi ganga inn á að væri rétt að leggja til grundvallar. Bátarnir fá meira núna. Með þessu móti, með 28% af 2.12, eins og hann reiknaði, mundi koma út 2.71. Nú er ég hins vegar hræddur um, að hraðfrystihúsin mundu vilja velta 5% útflutningsgjaldinu yfir á smábátaútveginn og mundu þá kannske vilja lækka verðið allt niður í 2.50. Að mínu áliti hins vegar fær fiskibáturinn núna kr. 2.35 fyrir sitt fiskkíló með þeim uppbótum, sem hann fær í gegnum vátrygginguna, sem greidd er, þannig að ég er ákaflega hræddur um, að báturinn verði ekkert betur út úr því með þessari gengislækkun en hann er með núverandi uppbótum.

Ég hef leitað til Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég hef því miður ekki getað fengið þar neitt, sem ég gæti hér haft eftir. En svo mikið held ég að mér sé óhætt að segja, að ekki held ég, að þeir menn séu neitt sérstaklega öruggir um afkomu bátaútvegsins vegna þessa frv. Ég hef því miður ekki haft aðstöðu til þess að geta talað við félagsskap íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. Það hefur satt að segja verið allt of lítill tími til þess, að maður gæti grennslazt nóg eftir hlutunum hjá þeim, sem ættu að vita gerla um þetta. Þegar við vorum í fjhn., við hæstv. viðskmrh., 1950, kölluðum við alla þessa menn fyrir okkur, fengum upplýsingar frá þeim og gátum sett það allt saman niður á pappír, en nú er ég hræddur um, að allir þessir menn séu dauðhvekktir á því að láta hafa nokkuð eftir sér, vegna þess að þeir verða alltaf fyrir svo miklum vonbrigðum á eftir af öllu saman, sem hlýzt af þessum efnahagsráðstöfunum. Og það má mikið vera, ef þessi gengislækkun tryggir rekstur bátaútvegsins eða jafnvel togaraútvegsins á nokkurn sérstakan máta.

Ég hef þess vegna ekki getað fengið neina sönnun fyrir því og ekki getað heyrt hjá neinum þeim mönnum, sem hafa með þetta að gera, nein rök fyrir því, að þeir áliti, að með samþykkt þessa frv. væri tryggt, að bátaútvegurinn yfirleitt gengi af fullum kraftí. Það, sem við eigum á hættu m.a., er bara, að della á milli hraðfrystihúsanna og bátanna geti valdið stöðvunum. Maður þarf ekki mikið að tala við mennina, sem hafa með bátana að gera og togarana, til þess að heyra þó það á þeim, að þeir eru hræddir út af lánatakmörkununum og vaxtahækkununum, enda tekið fram í fjhn. af Jónasi Haralz mjög greinilega, að það fái þeir alls ekki reiknað.

Við spurðum Vilhjálm Þór, aðalbankastjóra Seðlabankans, þegar hann kom á okkar fund, hvað bankinn mundi lána út á fiskinn, og fengum það fram hjá honum, að það mundi verða lánuð sama krónutala út á sama magn, sem sagt út á kassann eða smálestina, eins og áður, og ég sagði við hann: Það verður þá hlutfallslega minna af fiskverðinu lánað af hálfu bankanna til útvegsmannanna eða hraðfrystihúsanna en áður var. Já, viðurkenndi hann. M.ö.o.: lánskjörin, sem útvegsmennirnir fá, versna hlutfallslega, þau versna og vextirnir hækka. Við, sem höfum verið í bankaráði Landsbankans, höfum oft verið að ámálga það, að það væru allt of háir vextir, sem Seðlabankinn tæki einmitt af endurkaupavíxlunum. Viðskiptabankarnir hafa fengið 1/2 %, þegar Seðlabankinn hefur fengið 41/2. Við höfum verið að tala um þetta og ámálgað þetta hvað eftir annað í bankaráði Landsbankans og jafnvel oft fengið undirtektir hjá öðrum hv. bankaráðsmönnum og jafnvel bankastjórum. Fyrir okkur er það undarlegt að lifa það nú, að það eigi að rýra afkomu útvegsmanna, einmitt hvað þetta snertir, að vextirnir eigi að hækka; vaxtakjörin verða verri ag tiltölulega minna lánað út á fiskinn. Og mér er spurn: Er nokkurt öryggi fyrir því, að sjávarútvegur okkar yfirleitt komi til með að ganga með þessari gengislækkun? Ég skil það nú, að ríkisstj. hefur ekki mikil samráð við verkalýðssamtökin, hún virðist nú líta þau nokkru hornauga. Ég hélt kannske, að hún hefði haft veruleg samráð þó a.m.k. við atvinnurekendasamtökin, en ég fer nú satt að segja að verða hræddur um, að hún hafi það ekki heldur, — það séu engin samráð nema suður í París. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur, af því að þeir í París skilja svo lítið sjávarútveginn hérna á Íslandi, og ég held, að þeim sé ekki vel við hann, þeir hafa alltaf tilhneigingu til þess að drepa hann niður, af því að hann framleiðir fisk, sem fer til Rússlands, — ég held það sé nauðsynlegt, að ríkisstj. endurskoði mjög vel þá aðstöðu, sem sjávarútvegurinn verður í, ef þetta frv. verður samþ., og að hæstv. ráðh. lýsi fyrir okkur í þessum umræðum, svo að við a.m.k. göngum ekki í villu og svíma um það, að þeir hafi einhverjar yfirlýsingar eða séu sjálfir sannfærðir um, að togaraeigendur og smábátaeigendur, útvegsmenn, sætti sig betur við þetta fyrirkomulag en það, sem nú er.

Hins vegar ætla ég ekki að biðja ríkisstj. um neinar yfirlýsingar um, hvort sjómenn komi til með að sætta sig við það. Ég veit, að þeir munu vart sætta sig við það. Það er verið að binda þeirra hlutaskipti við ákveðna krónutölu, meðan ekki er samið að nýju, það er verið að svipta þá aldagömlum rétti, sem þeir hafa til þess að fá sinn hlut á því verði, sem fiskhlutur þeirra selst á. Það er réttur, sem sjómennirnir eiga enn þá kröfu á samkv. allri hefð, að fá fisk útmældan og geta þá sjálfir ráðstafað honum og selt hann, og mér er sem ég sjái, að það takist að beygja íslenzka sjómenn undir nokkuð í þessum efnum, sem þeir vilja ekki sætta sig við.

Þá er rétt, viðvíkjandi þeim kafla þessa frv., sem að verzluninni sérstaklega snýr, að láta í ljós annars vegar ugg minn, þegar hér er talað um, að hvað verðlag snerti, þá skuli vera sama krónutala, sem kaupmennirnir fáí fyrir að afhenda vöruna. Það hefur verið reynt svona fyrr. Ég er hræddur um, að það gangi ekki vel. Þegar heildsalarnir kippa að sér hendinni um lánin til smákaupmannanna t.d. hér í Reykjavík, eins og er viðbúíð að þeir geri, þegar bankarnir kippa að sér hendinni með lánin til þeirra, og ef þeir gera það, verður ekkert þægilegt fyrir þessa aðila að komast af með það, sem þeim á þennan hátt yrði skammtað. Þegar kaupgetan um leið minnkar, þegar vörustykkin verða færri, sem afgreidd verða, er um tvennt að ræða hjá kaupmönnunum og kaupfélögunum: að verzlunin ber sig lakar eða tapar beinlínis eða verður að segja svo og svo miklu af fólkinu upp, og það er máske það, sem er sérstaklega stefnt að með þessu. Ég vil vara við óraunsæinu í þessum ráðstöfunum. Og hvað snertir þann kafla, sem um verzlunarmálin er, vildi ég enn fremur segja það, að mig uggir, að þegar á að ganga frá frílistunum, verði þeir þannig úr garði gerðir, að það verði þjóðarbúskap okkar til stórtjóns. Og það er ekki svo auðvelt að kippa því í lag. Þegar þær vörur eru settar á frílista og hleypt inn í landið með lánsfé, sem við ella hefðum getað sótt til landa, þar sem við gátum fengið markaði fyrir fisk okkar, þá er búið að eyðileggja þann markað. Og mér lízt ekki á, hvernig grafið mundi verða undan þeim dýrmætu viðskiptasamböndum með slíkum frílistum.

Þá vildi ég enn fremur sérstaklega gera að umtalsefni í þessu frv. 33. gr., þar sem ákveðið er að láta vald Seðlabankans ná til innlánsdeilda kaupfélaganna. Þetta er óréttmætt. Það á ekki að taka það sparifé, sem alþýða manna leggur inn hjá félagssamtökum sínum, og leggja það undir ríkisvaldið. Það er kvartað yfir afskiptum ríkisvalds á Íslandi og það að mörgu leyti réttilega. Við Íslendingar erum yfirleitt engir vinir ríkisvalds. Það þýðir ekki, að við viljum ekki nota það til þess að hjálpa þjóð okkar og lyfta henni, þegar það er hægt. En að láta ríkisvald seilast inn á svið þeirra frjálsu samtaka almennings, það er það, sem við eigum að varast. Þess vegna eigum við ekki að láta ríkisvaldið og í þessu tilfelli Seðlabankann fá neitt vald yfir innlánsdeildum kaupfélaganna. Þetta er árás á samvinnufélögin í landinu, árás á félagsskap, sem alþýða manna í landinu hefur skapað sér. Og hvað sem menn kunna að deila um ýmis fyrirbrigði í sambandi við samvinnuhreyfinguna, verðum við að muna það, að sjálf samvinnuhreyfingin er, næst verkalýðssamtökunum, sterkustu alþýðusamtök þjóðar okkar. Og það er jafnóviturlegt eins og það er óréttlátt að ráðast á þá viðleitni, sem almenningur sýnir með því að reyna að safna sparifé sínu í innlánsdeildir slíkra samtaka.

Ég sé ekki, að þetta frv. sé neinum til góðs nema útlendu auðvaldi og örfáum Íslendingum. Ég sé ekki, að það sé nein nauðsyn á samþykkt þessa frv., heldur þvert á móti geti aðeins hlotizt af því skaði. Ég mundi skilja mjög vel þá afstöðu íslenzks verkalýðs hagsmuna sinna vegna að rísa upp á móti þeirri lífskjaraskerðingu, sem í frv. þessu felst. Og ég mundi enn þá betur skilja þá afstöðu íslenzks verkalýðs heiðurs síns vegna að rísa sem fyrst upp á móti þessu frv., ef að lögum yrði, þegar á að skipa íslenzkum verkalýð, hvað lífsafkomu snertir, á bekk með þeim verkalýðsstéttum, sem lægst eru launaðar í öllum okkar nágrannalöndum. Ég óttast, að afleiðingar samþykktar svona frv. yrðu eitt harðvítugasta stéttastríð, sem háð hefði verið á Íslandi, og ég hef alltaf, ef ég hef getað, beitt áhrifum mínum hér á Alþ. til þess að forða frá því, að út í slíkt stéttastríð sé lagt, — ekki vegna þess, að ég vantreysti íslenzkum verkalýð til þess að sigra í slíku stríði, heldur vegna hins, að ég vil ekki, að þjóð okkar beri kostnaðinn af, að atvinnurekendastétt okkar og verkalýðsstétt okkar sé að óþörfu att saman í ægilegt stéttastríð. Það, sem tapast með slíku, vinnst aldrei aftur.

Því vildi ég þess vegna beina til hæstv. ríkisstj., ef hún vildi nokkurs meta orð mín, að endurskoða afstöðu sína og fyrirætlanir í sambandi við þetta frv. Mín till. er, að það sé fellt.

Út af ræðu hv. 6. landsk., form. fjhn., hér áðan vildi ég aðeins bæta við nokkrum orðum, þó að ég hafi stundum á hann minnzt. Hann talaði um það, flytjandi sinn fagnaðarboðskap, að nú væri verið að snúa við blaðinu. Ég skil ósköp vel, að ekki sízt þeir menn, sem við kaupsýslu fást, séu ósköp leiðir á allri skriffinnskunni og öllu því dóti. Það má æra óstöðugan oft að standa í öllu því fargani. En við skulum gá að því að verða ekki svo leiðir á skriffinnskunni, þótt slæm sé, að við önum út í það forað, sem það frjálsa efnahagskerfi mundi vera fyrir okkur. Hann talaði um, að við værum núna að snúa við blaðinu. Ef þetta frv. er samþ., erum við að snúa við blaðinu á þann hátt, að við erum að hætta að vera sjálfstætt land, við erum að hætta að vera með sjálfstæðan þjóðarbúskap, og við erum að stefna að því að gerast nýlenda. Við erum að snúa við í efnahagsmálum hvað það snertir, að við erum að hætta að hugsa um velferð þjóðarinnar, en láta peningana og peningavaldið ráða, hvað gerist hér á Íslandi.

Hv. form. fjhn. sagði, að þetta frv. miðaði að því að lækna varanlegar meinsemdir, alls konar spillingu, misrétti, skriffinnsku og annað slíkt, sem verið hefði í fari okkar undanfarið. Þessar meinsemdir, sem hann talaði um, sköpuðust sem fálmandi viðleitni til þess að reyna að lækna miklu verri meinsemdir. Af hverju tókum við upp ríkisafskipti af útflutningi okkar? Af því að sjávarútvegur okkar var að fara á hausinn. Af hverju tókum við upp höft á innflutningi okkar? Af því að sjávarútvegurinn stóð ekki undir þörfum þjóðarinnar fyrir innflutning. Af hverju fór ríkið að skipta sér af atvinnulífinu í svona ríkum mæli? Af því að meðan einkaauðvaldið var látíð eitt um það, var stöðugt atvinnuleysi á Íslandi, sárt, sviðandi atvinnuleysi, atvinnuleysi, sem olli sulti á verkamannaheimilunum. Þær varanlegu meinsemdir skriffinnskunnar eru slæmar og leiðinlegar, en þær drepa engan mann. En atvinnuleysið og fátæktin og kreppurnar, ef það er leitt yfir okkur aftur, það þýðir ógæfu, og það þurfti ekki meira en gengislækkunina 1950 til þess, að það var farið að sjá á börnum fátækustu fjölskyldnanna í Reykjavík 1951, 1952, af því að þau höfðu ekki nóg að borða. Þess vegna verða menn að gæta þess, að þegar menn tala um varanlegar meinsemdir, eiga menn ekki að tala sem kaupsýslumenn. Menn verða að hugsa um alla þjóðfélagsþegnana og hvaða afleiðingar ráðstafanirnar hafa fyrir þá.

Hv. 6. landsk. talaði um 20 ára tímabil jafnvægisleysis, sem nú væri bundinn endir á.

Hann var fagnandi og brýndi röddina og mælti mjög hraustlega: 20 ára tímabil jafnvægisleysisins. Loksins er maður að losna út úr þessu voðalega tímabili 20 ára jafnvægisleysis. Og hvað er þetta tímabil 20 ára jafnvægisleysis? Það er glæsilegasta framfaratímabil íslenzkrar sögu frá upphafi vega, í þúsund ár, glæsilegasta efnahagslegt framfaratímabil íslenzkrar sögu. Það má skamma okkur, sem köllumst stjórnmálamenn, það getur hver gert, en undir þeirra forustu, hverjir sem þeir hafa verið, hefur þetta verið byggt upp, með allri skriffinnskunni, með öllum mistökunum. En við höfum haft þjóð á bak við okkur, sem hefur verið reiðubúin til að vinna meira en nokkur önnur þjóð í heiminum vinnur, þjóð, sem ekki lætur sér nægja sinn 8 tíma vinnudag, heldur þrælar nætur og daga, helgar og hátíðir, orlof og annað, til þess að byggja þetta land, til þess að umskapa húsnæðið á þessu landi, til þess að reisa verksmiðjur í þessu landi, til að skapa nýjan flota í þessu landi. Er nokkuð undarlegt, þó að bókhaldið sé ekki í nákvæmu lagi hjá þjóðinni og hagfræðingarnir sjái ekki almennilega um reikningana allan þennan tíma, sem þjóðin sækir svona fram? Þetta er tímabilið, sem íslenzka þjóðin er stolt af, þegar hún talar um efnahag, vegna framfaranna. Þetta er tímabilið, sem útlendingarnir dást að, þegar þeir koma hingað: Hvernig hafið þið eiginlega farið að þessu? Jú, af því að við höfum ekki hirt um neinar hagfræðikenningar, ekki farið eftir neinum trúarsetningum, heldur bara unnið og starfað, eftir því sem við bezt gátum, eftir okkar eigin hyggjuviti.

Og nú segir hv. 6. landsk.: Þessu tímabili, mesta framfaratímabili þjóðarinnar, er að ljúka. Og mikið lifandi skelfing virðist verzlunarauðvaldið í Reykjavík vera ánægt yfir því. Hvað er það, sem þá tekur við? Það tekur við stirðnun, stöðnun. Það er það, sem tekur við, þegar peningarnir fá sjálfir að ráða.

Svo talaði hv. 6. landsk. um kross hins fátæka manns. Það var vísitalan, kross hins fátæka manns. Það var ekki verðbólgan, það var ekki dýrtíðin. Það er varla nokkurt orð, sem íslenzk alþýða hatar eins og óttast af aldareynslu og orðið dýrtíð, og þessi vísitala, sem alltaf er verið að skammast út í, var ráð, sem alþýðan fann upp á móti því, að það væri sjálfkrafa hægt að auka þessa dýrtíð. Hvað er verðbólgan? Verðbólgan er svikamylla auðvaldsins í landinu, svikamyllan til þess að eyðileggja kauphækkanirnar hjá verkalýðnum. Hv. 6. landsk., formaður fjhn., talaði um vísitöluna sem svikamyllu. Ef ég vildi fara inn á hans líkingu, mundi ég næstum því segja, að vísitalan væri svikamylla verkamannsins til þess að svara þessari svikamyllu auðmannsins, sem verðbólgan er. Hún er vörn gegn henni, en það fæ ég aldrei neinn til að ræða hér um við mig, af því að það er líklega of satt til þess, að menn kunni við að ræða um það. En það, að verðbólga skuli hafa átt sér stað á Íslandi, að auðmannastétt, sem hefur ráðið, skuli hafa látíð verðbólguna gerast, en að verðbólgan skuli ekki gerast í Bretlandi eða Danmörku, það stafar af því, sem ég hef oft bent á, að peningarnir, sem íslenzk auðmannastétt hefur í veltunni, eru ekki hennar eigin peningar, heldur peningar íslenzka ríkisins úr bönkunum og peningar almennings, svo að auðmannastéttinni er sama, þótt þessir peningar verði smám saman verðlausir. Hún vill jafnvel helzt á tíu ára fresti, 1939, 1950, 1960 — og líklega 1970, ef hún ræður nokkru þá — fella gengið, því að henni er alveg sama, þótt gengið falli, alveg sama, þótt peningarnir falli, vegna þess að það eru ekki hennar eigin peningar. Hún fær peningana að láni annars staðar, hún setur þá í fyrirtæki, sem gefa gott af sér og hækka í verði, þegar verðbólgan vex. Íslenzk auðmannastétt hefur hag af verðbólgunni. Auðmannastétt Bretlands hefur hins vegar alltaf verið á móti verðbólgu. Fjármálaráðherrar Bretlands bregðast ekki reiðari við en ef þeir eru sakaðir um, að það eigi að fara að fella sterlingspundið. Þess vegna hefur íslenzk auðmannastétt þarna haft alveg sérstaka aðstöðu í veröldinni. Hún hefur ekkert hirt um það, þó að peningarnir féllu í verði. Þess vegna hefur hún alveg purkunarlaust hækkað verðlag á vörum, þegar verkamenn hækkuðu sitt kaup. Það er þetta, sem þarf að laga. Látum íslenzka auðmannastétt vera með sína eigin peninga í þessu, þá passar hún dálítið betur upp á peningaeignina.

Þá minntist hv. 6. landsk. á afköstin, og hann kvartaði yfir afköstunum hjá íslenzkum verkamönnum. Afköstin hjá íslenzkum sjómönnum voru 1948, eftir Marshall-skýrslunum, þannig, að þeir framleiddu á sjómann 70 tonn á árí. Það var hæsta tala á sjómann í veröldinni. Norðmenn komu svo næstir okkur með 10 tonn á sjómann á ári. Hvað er þessi tala talin núna? Þetta er náttúrlega misjafnt eftir því, hvernig veiðist, en ég held, að núna nýlega hafi það verið um 100 tonn á árí. Aflinn er að vísu háður öðrum öflum en iðnaðarframleiðslan, en það þarf ekki að kvarta yfir því, að afköst íslenzkra verkamanna — og þó sérstaklega íslenzkra sjómanna — séu ekki mikil.

Það sýnir bezt, hvert stefnt er með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að mönnum skuli detta það í hug, að á sama tíma sem íslenzkur sjómaður framleiðir milli 70 og 100 tonn á ári af fiski, en norskur sjómaður, sá sem kemur næstur í veröldinni, framleiðir 10 tonn á ári að meðaltali af fiski, þá eigi kaup íslenzks sjómanns að verða lægra en kaup sjómannanna í Noregi, Færeyjum eða Englandi. Það sýnir, að það er ákveðinn aðili, sem ætlar að taka nokkuð drjúgt til sín af þeim auði, sem á Íslandi er skapaður, að það er auðmannastétt utanlands og innan, sem ætlar að hirða afraksturinn af þeim miklu afköstum íslenzkra sjómanna og íslenzks verkalýðs.

Hitt, sem snertir, að það hafi ekki batnað kaupgetan og kjörin hjá íslenzkum verkalýð 1947–59, sem ég hef oft bent á og hv. 6. landsk., form. fjhn., benti réttilega á líka, það stafar af allt öðru. Það er ekki vísitölunni að kenna eða sannar það að neinu leyti, að kauphækkanir séu ekki góðar, heldur er það hitt, að það hefur með aðgerðum ríkisvaldsins jafnóðum tekizt með vaxandi verðbólgu að svipta verkamennina ávöxtunum af kauphækkunarbaráttu þeirra, og ríkið hefur látið undir höfuð leggjast að knýja fram „rationaliseringu“, knýja fram skynsamlegri vinnubrögð í sjálfum atvinnurekstrinum, því að þegar ríkið tekur að sér að stjórna þjóðfélaginu í slíkum mæli og það gerir hérna, er það náttúrlega nauðsynlegt, að ríkið sjái um framkvæmd þeirra ökónómísku lögmála, sem mundu hafa sinn framgang á sinn harkalega máta með „rationaliseringu“ í venjulegu kapítalistísku skipulagi.

Þá vitnaði hv. 6. landsk. í Jónas Haralz, að Jónas Haralz hefði sagt, að í 20 ár hefði þjóðin sífellt verið að eyða meira en hún hefði aflað. Ég þakka hv. 6. landsk. alveg sérstaklega fyrir þessa tilvitnun, hún er alveg táknræn fyrir ungu hagfræðingana: Í 20 ár hefði þjóðin sífellt verið að eyða meira en hún hefði aflað. Það hafa fáar þjóðir í veröldinni sparað eins mikið og lagt eins mikið til hliðar á 20 árum og íslenzk þjóð hefur gert á þessum 20 árum. Hús hér í Reykjavík hafa verið byggð á þessum 20 árum, og það er meiri hlutinn af Reykjavik. Það er sparnaður, meiri sparnaður en nokkur auður í nokkrum sparibauk, sparnaður frá sjónarmiði þeirra, sem kunna að meta verðmæti. Ég sé, að hugsunarhátturinn, sem býr á bak við svona, er sá sami og hjá einum góðum bankastjóra, sem ég þekkti, sem sagði við okkur af föðurlegri umhyggju 1944: Miklar voðalegar eyðsluklær getið þið verið að fara að nota góða dollara og góð pund í það að kaupa togara, í staðinn fyrir að kaupa ensk ríkisskuldabréf með 1% vöxtum. Það hefði víst þótt sparnaður, líka Jónasi Haralz, hefði hann keypt fyrir allar inneignirnar ensk ríkisskuldabréf, sem gáfu 1%. En að setja það í togara! Hvílík eyðsla! Ég tala nú ekki um að byggja fyrir það verksmiðjur eða láta Eimskipafélag Íslands, sem ég held þó að hv. 6. landsk. sé í stjórninni í, fá á einum degi 7 millj. dollara, gjaldeyrisleyfi upp á 42 millj. ísl. kr. , til þess að láta byggja skip fyrir, eins og gert var þá. Skriffinnska er ekki alltaf svo bölvuð, öll þau ráð eru ekki alltaf svo slæm, það var sparnaður. Það sýnir, hve gersamlega skilningslausir þeir menn eru á íslenzkt þjóðlíf, sem geta látið svona setningu út úr sér, að í 20 ár hefði þjóðin sífellt verið að eyða meira en hún hefði aflað, — þjóð, sem hefur tekið 33% af öllu, sem hún hefur aflað, og sett það í fjárfestingu. Hitt aftur á móti býst ég við að við gætum verið sammála um, að á fjárfestingunni hefði þurft að hafa öðruvísi stjórn. Um tíma var stjórnað vel, og stundum var stjórnað illa. En það er allt annað mál. Ég held, að þetta sé áreiðanlega mesti sparnaður veraldarsögunnar, og það er mesti sparnaður Íslandssögunnar, það hefur aldrei verið sparað svona mikið á Íslandi, og það hefur máske heldur aldrei verið svona mikið til að spara. Og ég held, að með þessum sparnaði, sem Jónas Haralz kallar eyðslu, hafi verið framkvæmd ein glæsilegasta uppbygging Íslandssögunnar. Þetta er sem sé þeirra eyðsla, þetta er eyðsla hagfræðinganna. Ég heyrði það líka, þegar við vorum í fjhn., þá sagði ég það, einhvern veginn glopraðist það út úr mér við Jóhannes Nordal, að ég hefði verið með till. um það 1945, þegar stríðið var búið og skömmtunarkerfið var hér á Íslandi og við áttum nóga peninga, eins og oft var, að við héldum skömmtuninni áfram, héldum áfram skömmtun á kaffi og sykri og öðru slíku, og hann sagði við mig: Hvernig í ósköpunum dettur þér slíkt í hug, að ætla að vera að skammta, þegar þið hafið nóga peninga? Það var einmitt það, sem því miður var gert, að þessi hugsun hjá þessum hagfræðingi og bankastjóra var það sterk þá, að þjóðinni fannst sem sé: fyrst við eigum nóga peninga, skulum við bara kaupa okkur hitt og þetta. Og maður gat varla ráðið við það. Með naumindum tókst okkur að bjarga þessum 300 millj. kr. , sem nýsköpunarstjórnin gat notað til þess að byggja upp landið, en allmikið fór í það, að menn fóru að lifa betur. Það er ákaflega mannleg tilhneiging, ég neita því ekki, en það, sem hefði verið bezt og er alltaf bezt fyrir okkur, er, að við höfum stjórn á fjárreiðum okkar eins og gott heimill, byggjum upp með forsjá. Og það, að menn segja slíkt, er vegna þess, eins og Jóhannes Nordal sagði þarna, að það er skilningsskortur á, hvað Ísland þarf.

Þá talaði hv. form. fjhn. um, hvað ástandið hefði verið gott 1956. Það var nú víst ekki amalegt að taka við þá. Af því að hann er svo nýr hér á þinginu, skal ég segja honum frá því, hvað núv. hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, sagði í kosningunum 1956. Hann sagði í þeim kosningum, að það væri nú bara orðið svona ástandið á Íslandi, að það vildi ekki nokkur þjóð í viðri veröld lána okkur nokkurn skapaðan hlut. Hann sagði þetta áreiðanlega svona. Er það ekki alveg eins og núna? Það er svo undarlegt með það. Ef Sjálfstfl. er kominn hér í stjórn, þá er rétt eins og Ameríkaninn sé undireins orðinn svo vondur, að hann vill aldrei lána honum neitt, nema með einhverjum afarkjörum. Það er aldeilis makalaust. Og meira að segja þótt hann hafi Framsfl. með sér, er hann ekki nokkurn skapaðan hlut betur settur. En það þurfti ekki annað en að vinstri stjórnin væri mynduð með ótætis kommúnistunum í, þá var rétt eins og Ameríkaninn yrði dauðhræddur um Ísland og vildi gjarnan fara að lána því.

Ég held nú, að þó að ég hafi gagnrýnt margt af því, sem gert hefur verið að því að taka lán frá 1956, hafi þó megininu af því, ekki öllu því miður, verið varið sæmilega skynsamlega, mjög mikið farið í að auka gjaldeyrissparandi atvinnurekstur og allmikið farið í að auka okkar sjávarútveg og þar að auki Sogsvirkjunin, sem var náttúrlega orðin óhjákvæmileg.

En var hv. 6. landsk. búinn að gleyma, hvernig ástandið hafði verið á árunum á undan, þegar við vorum að æfa okkur á frjálsa efnahagskerfinu, hversu okkur gæti nú kunnað að ganga aftur í frjálsa hagkerfinu, sem átti að fara inn á 1950? Af hverju var ástandið svona slæmt, að enginn vildi lána okkur 1956? Af því að við höfðum stjórnað svoleiðis á sjö árum áður, að við höfðum t.d. ekki keypt okkur einn einasta nýjan togara til að bæta við flotann, en við höfðum keypt okkur 5000 bila, þ.e. við vorum bara eins og óráðsíuunglingar, sem fá allt í einu peninga, eins og ríkur heildsalasonur, sem fer og fær sér finan amerískan lúxusbíl, en hugsar ekkert um, að það þarf að undirbyggja upp á framtíðina atvinnurekstur, og það var ósköp skiljanlegt, að menn vildu ekki lána okkur. Þegar við hins vegar förum að festa okkar peninga í skynsamlegum hlutum, er enginn vandi að fá lánsfé.

Á þessum sjö árum þarna á undan hjakkaði alltaf allt í sama farinu, það var engu bætt við. Það var lifað á því, sem nýsköpunarstjórnin hafði gert. Ég held, að hv. form. fjhn. hafi líka vitnað í annan hagfræðing en Jóhannes Nordal um geysilega skuldasöfnun. Það er því eins og þessir blessaðir hagfræðingar, þegar þeir ganga um landið, sjái ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Þeir sjá ekki, að það hafa risið upp tugir og hundruð nýrra húsa í Reykjavík. Þeir sjá ekki, að það hefur risið upp sementsverksmiðja á Akranesi. Þeir sjá ekki, að það eru til togarar og flutningaskip allt í kringum þá. Þeir sjá bara skuldasöfnun, ekkert annað en skuldasöfnun. Og það undarlega er, að þegar þessir sömu hagfræðingar eiga svo að fara að ráðleggja íslenzku þjóðinni, hvað hún eigi að gera, þá segja þeir: Jú, safnaðu bara meiri skuldum, passaðu bara að setja það ekki í framleiðslutæki, taktu bara 800 millj. ísl. kr. lán í París. — Þetta heitir nú að setja kíki fyrir blinda augað.

Nei, það er ekki geysileg skuldasöfnun, sem er að drepa okkur. Við höfum unnið kraftaverk hér á Íslandi, kraftaverk, sem ein kynslóð hefur unnið, að byggja upp þetta land. Við þurfum hins vegar að hafa betri stjórn á okkar þjóðarbúi. Það liggur fyrir frv. frá mér og er búið að liggja lengi fyrir í okkar ágætu n., sem við ættum eiginlega að afgreiða jákvætt sem allra fyrst. Það væri miklu skynsamlegra en að halda áfram að þrefa um þetta.

Þetta er erfiðleikinn, en þetta er líka táknrænt fyrir, hvað það er, sem er að gerast í íslenzku þjóðfélagi, þ.e., að mennirnir, sem nú ráðleggja okkur, mennirnir, sem eru sérfræðingarnir, mennirnir, sem segjast vera vísindamennirnir, þeir sjá ekkert nema peninga, peninga, peninga, — peninga sem skuldasöfnun, peninga í umferð. Þeir sjá ekki verðmætin, sem skapa peningana. Þeir minna mig því á landsbankastjórann, sem sagði við útgerðarmanninn, sem var að reyna að koma bátnum sínum af stað: Hver fjandinn biður ykkur um að vera að leggja í þessa útgerð? — Þessi sami banki lifir á því að fá gjaldeyrinn af útgerðinni, það var bankastjóranum víst ekki ljóst. Nei, við þurfum að varast ráð þeirra manna, sem bara sjá peningana og bara sjá skuldasöfnun, en sjá ekki það gróandi þjóðlíf á Íslandi. Þessir menn eru blindir á öll raunveruleg efnahagsleg verðmæti, þessir menn eru ekki færir um að ráðleggja Alþingi Íslendinga, hvernig það eigi að stjórna þessari þjóð.

Og hvað er það svo, sem þessir hagfræðingar segjast vera að frelsa okkur frá? Þeir segjast vera að frelsa okkur frá, að við förum fram af hengiflugi, við séum að fara inn í óðaverðbólgu. Og hvað er ráðið hjá þeim? Ráðið er óðaverðbólga. Þessir óðu hagfræðingar leggja ekkert annað til en það að feila bara íslenzku krónuna nógu mikið. Aldrei hefur önnur eins verðhækkun verið framkvæmd á Íslandi og sú, sem nú er skipulögð og skipulögð að óþörfu.

Hv. 6. landsk., form. fjhn., minntist á grein, sem ég hafði skrifað í Rétt 1957, og þakka ég honum fyrir það. Ég var að reyna þar af veikum mætti að vara þá góðu vinstri stjórn, sem ég fylgdi, við því, sem ég álít vera hættulegt, og um leið undirstrika, hvað slæmt ég áliti að hefði getað orðið, og hann las réttilega upp, að ég lýsti því, hve ægilegt það hefði verið, ef dollarinn hefði farið upp í 25 ísl. kr. , og ég var, eins og hann veit, á móti öllum ráðstöfunum, sem miðuðu eitthvað í slíka átt, áleit þær óþarfar. Og einhverjar skammir voru um Morgunblaðsliðið í þessu, sem hann las, — það væri líklega réttara að segja Vísisliðið núna. Mig óraði aldrei fyrir því, þegar ég skrifaði þetta, að það mundu ekki líða nema 2–3 ár, þangað til slík ríkisstj. yrði að völdum á Íslandi, að hún færi að leggja til að setja dollarann upp í 38 kr. Svo langt gátu meira að segja mínar skýjaborgir og verstu hrakspár aldrei nokkurn tíma komizt.

Nei, það, sem við erum að reyna nú, er harmleikur, að mönnum skuli detta í hug, að svona sé hægt að leika með efnahagslíf einnar þjóðar. Öll kauphækkunarbönn í slíku sambandi hjálpa ekkert. Það lifandi líf verður ekki stöðvað, það gengur sinn gang. Í þeim efnahagsráðstöfunum, sem ég talaði um, var meira að segja gengið út frá vissri kauphækkun til að byrja með, og þá kauphækkun, sem verkalýðnum fannst ekki nóg, hana tók hann.

Þá held ég, að hv. 6. landsk. hafi verið að tala um uppdráttarstefnuna. Er það ekki rétt? Ég er hræddur um, að hann hafi átt við þann gamla tíma. Það, sem núna er að koma yfir okkur, er samdráttarstefna. Það virðist eiga að draga allt saman, það eru sömu fyrirbrigðin sem líka var verið að koma okkur á eftir 1950.

Svo sagði hv. 6. landsk., að uppbótastefnan hafi verið að þrengja kjör almennings. Það var ekki uppbótastefnan, sem gerði það. Þrátt fyrir að reynt væri að hagræða byrðunum þannig, að þær yrðu alþýðu manna léttari, var vald auðmannastéttarinnar í þjóðfélaginu yfir rekstri atvinnuveganna nógu mikið til þess, að það tókst ekki að knýja fram raunverulegar kjarabætur með verkföllunum og vinnudeilunum, heldur aðeins og varla að halda í horfinu. Það að þrengja kjör, það er fyrst fyrir alvöru núna, sem byrjað er á því. Þetta er ægilegasta till., sem komið hefur fram fyrir Alþ. í þeim efnum, raunverulega um ca. 20% lækkun, 20% skerðingu á lífskjörunum, og um þetta frv., þá aðgerð ríkisstj. gagnvart verkalýðshreyfingunni mun alþýðan segja: Ill var þín fyrsta ganga, — ef þetta á að verða sporið, sem ríkisstj. ætlar að stíga gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Hv. 6. landsk. spurði um okkar stefnu í þessum efnum. Hún hefur verið skýrt mörkuð, m.a. af mér hvað eftir annað hérna, og ég er búinn að þylja það svo oft, að ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á því að endurtaka það einu sinni enn þá. Stefna okkar sósíalista og okkar í Alþb. er að taka upp áætlunarbúskap á Íslandi, þ.e. heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, þar sem fjárfestingunni er alveg sérstaklega stjórnað með hagsmuni heildarinnar fyrir augum. Fjárfesting á Íslandi má að mínu áliti mjög gjarnan lækka niður úr þeim 33%, sem hún hefur verið í. En það, sem er höfuðatriði í sambandi við það, er, að af fjárfestingunni, ég tala nú ekkí um, ef fjárfesting er þriðjungur af þjóðartekjum, þá sé a.m.k. þriðjungnum af þeirri fjárfestingu, eða um 10% af þjóðartekjunum, varið til þess að koma upp ýmist gjaldeyrissparandi fyrirtækjum eða fyrirtækjum og atvinnutækjum, framleiðslutækjum, sem efla gjaldeyrisframleiðsluna. Ef við tökum þjóðartekjur okkar 1957–58, 4800 millj. kr. þjóðartekjur, þar sem 1600 millj. kr. fara í fjárfestingu, — ef við hefðum á hverju ári sett 500 millj. kr. af þessu viturlega í fyrirtæki, sem gáfu okkur gjaldeyri eða spöruðu gjaldeyri, hefðum við verið mjög vel stæðir og hefðum getað áreiðanlega á undanförnum áratugum hækkað kaupið raunverulega á ári hverju a.m.k. um 5%, í staðinn fyrir að það stendur í stað eða jafnvel hefur versnað allan þennan tíma. 500 millj. kr. fjárfesting á einu ári er drjúgur hlutur.

Svo er hitt, að viðvíkjandi t.d. húsbyggingunum eða slíku hefðum við þurft að haga okkur miklu skynsamar í þeim hlutum. Við hefðum þurft að byggja húsin miklu ódýrar en við höfum gert, byggja í stærri stíl og samfellt og ekki með eins mikilli eyðslu og við gerum. Við hefðum áreiðanlega getað byggt eins mörg hús og við höfum byggt, aðeins ef við hefðum hugsað um það að hafa skipulag á byggingu þeirra. Við hefðum getað gert þetta og gætum gert þetta á næsta áratug, ef við bara tökum upp skipulagða stjórn á þjóðarbúskap okkar. Við sköpum nógu mikið til þess. Þarna þarf hins vegar Alþ. að hafa vit fyrir þjóðinni. Við vitum alveg, ef við sleppum þessari fjárfestingu lausri, í hvað þjóðin festir sína fjármuni. Það er þetta gamla: kaupa bíla, en ekki báta. Þeir stjórnmálamenn, sem hafa forustu þjóðarinnar, verða að segja við hana: Það er gott, að þig langi til þess að fá bíl, góði, en til þess að þú getir fengið bíl og til þess að þú getir fengið benzín á hann, þurfa 500 millj. kr. af þjóðartekjunum að fara í þau stóru fyrirtæki, sem þjóðin þarf að reisa.

Okkar stefna er þjóðnýting utanríkisverzlunarinnar. Það er óhjákvæmilegt fyrir Ísland að þjóðnýta utanríkisverzlunina, innflutninginn eða útflutninginn. Þar á ég ekki við endilega heildsölu eða smásölu innanlands, en allan innflutninginn og allan útflutninginn. Ísland hefur ekki efni á því, meðan það vili víðhalda kapítalistískum atvinnuháttum, viðhalda þeim á öllum sviðum síns atvinnulífs, rétt eins og okkur hefur þótt skynsamlegt að hafa t.d. raforkuverin á Íslandi rekin af ríkinu, en ekki einstaklingum, að hafa síma og póst rekinn af ríkinu, en ekki einstaklingum, og ýmislegt annað þannig í eign ríkisins, t.d. bankana. Finnst þér skynsamlegt af okkur að hafa utanríkisverzlunina algerlega í höndum ríkisins, þjóðnýta hana? Af hverju? Af því að Ísland þarf á því að halda, að það einkafjármagn, sem myndast á Íslandi, leiti til sjávarútvegsins og til iðnaðarins, að þeir margir dugmiklu og framtakssömu menn, sem í borgarastéttinni eru, meðan hún á annað borð er hér að verki, beiti fyrst og fremst áhuga sínum, peningum sínum og dugnaði við það að koma upp fyrirtækjum í sjávarútvegi og iðnaði. Af hverju segi ég þetta? Af því að reynslan, frá því fyrst við fórum að rannsaka íslenzkt þjóðfélag, er þessi: 1934 er það auðmagn, sem er í verzluninni á Íslandi, 100 millj. kr., og það var gífurlegt fjármagn þá, 100 millj. kr. Á sama tíma er allt það fjármagn, sem er í sjávarútveginum á Íslandi, 22 millj. kr. M.ö.o.: fjármagnið leitar í verzlunina, af því að þar er gróðinn, en leitar ekki til sjávarútvegsins, sem þjóðinni er þörf á. Þetta þýðir, að verzlunarauðvaldið sé raunverulega að drepa þjóðina, leggist á það auðvald, sem hefði átt að vera í sjávarútveginum, og kyrki það, og það hefur verið svona allan tímann hjá okkur, að fjármagn hefur sótt í verzlunina og flúið sjávarútveginn. Þess vegna er nauðsyn fyrir Ísland, eins og við rekum t.d. einkafjármagnið út úr raforkuverunum og leyfum því ekki að vera til þar, að reka það út úr utanríkisverzluninni.

Ég skal ekki fara allt of langt út í þetta, það yrði allt of langt mál, og það hef ég gert svo oft áður. Meðan okkar stefna fæst hins vegar ekki framkvæmd, munum við alltaf og ætíð gera allt, sem við getum, til þess að varðveita þjóð okkar og sérstaklega alþýðuna í þessu landi fyrir þeim illu afleiðingum kapitalismans, fyrir þeim verðsveiflum, sölutregðum, markaðskreppum, atvinnuleysi og öðru slíku, sem honum fylgir. Og við munum, þótt við höfum ekki valdið á Íslandi, en ef við hefðum einhver áhrif, stuðla að því, að þeim ráðum sé beitt í hvert skipti, við hvert tækifæri, sem hægt er að fá fram, sem eitthvað geta miðað í þá áttina að vernda íslenzka alþýðu og íslenzka þjóð gegn þessum illu afleiðingum kapítalismans. Okkur er alveg ljóst, að öll slík viðleitni verður ófullkomin. Alveg eins og sú sósíalíska hugmynd, sem liggur á bak við nýsköpunarstefnuna, fimm ára áætlunina og slíkt, að sínu leyti gerir sitt gagn hér í kapítalistísku Íslandi, þegar atvinnurekendur í sjávarútveginum og verkamenn taka höndum saman, þá hins vegar náum við ekki svo langt, að við getum af þeim 580 millj., sem Ísland átti þá erlendis, notað nema 300 til uppbyggingar í landinu, vegna þess að svo og svo margir hugsuðu eins og Jóhannes Nordal, sem vitnað var í áðan: Það er ómögulegt að fara að spara við sig kaffi og sykur, þegar maður á nóga peninga. Við höfum þess vegna á sínum tíma tekið þátt í nýsköpunarstefnu og á sínum tíma tekið þátt í uppbótastefnu og öllu mögulegu öðru slíku. En við höfum ekki ráðið öllu við framkvæmd þessara hluta. Við höfum reynt að orka á, eins og við höfum getað, að það væri farið viturlega að um að byggja upp þjóðarbúið og íslenzk alþýða gæti í skjóli slíkra afskipta bætt sín kjör og a.m.k. stórversnuðu þau ekki. Við höfum fram að þessu getað hindrað, að þau versnuðu mikið frá því, sem okkur tókst að koma þeim hæst 1947. Nú hins vegar á að hrinda íslenzkri alþýðu fram af hengifluginu, nú á að hrinda lífsstiginu, lífsstandardinum niður.

Hv. 6. landsk. sagði, að lánslífskjörunum hafi ekki lengur verið haldið uppi. Hvílík vitleysa! Það voru engin lánslífskjör hér á Íslandi. Það var þvert á móti. Það hafa verið tekin lán á Íslandi til þess að byggja upp, og aðeins lítill hluti af því, sem byggt hefur verið á Íslandi, er fenginn að láni, meiri hlutann af því, sem við höfum byggt þennan tíma, höfum við lagt fram sjálf af því, sem við höfum unnið. Það voru engin lánslífskjör, heldur þvert á móti. Það var gengið á lífskjörin hérna til þess að hafa fjárfestinguna mikla, til þess að byggja mikið af húsum, og þar höguðum við okkur ákaflega óskynsamlega, af því að við höfðum ekki reynt að stjórna þjóðarbúskap okkar, við byggðum of flott, og ef hv. þm. t.d. kæmi með mér hér út á Gullströndina eða Ægissíðu eða hvað það nú heitir, þá mundi hann sjá, að við erum stundum óráðsíumenn, Íslendingar. Það eru ekki fyrst og fremst verkamenn t.d., sem hafa byggt þar upp. En við gætum gert þetta skynsamlegar allt saman. Við þurfum ekki endilega að hafa þessi óskaplegu flottheit, sem yfirstétt okkar hættir við að gera kröfur til, þannig að útlendir burgeisar, sem hingað koma, undrast, hve flott yfirstétt okkar lifir. Meira að segja, hún hefur ekki lifað svona flott á lánunum, hún hefur lifað á vinnu íslenzks verkalýðs.

Þá er spurningin um gengið. Þar býst ég við, að við séum alveg á öndverðum meiði. Hv. 6. landsk., form. fjhn., álítur, að það sé nauðsyn að skrá gengið rétt. Ég álít, að það sé engin nauðsyn, ekki nokkur, engin ástæða til þess. Með tilliti til hvers þurfum við að skrá okkar gengi? Ef okkar íslenzka króna ætti að vera seljanleg á erlendum kauphöllum á sama hátt og pund eða dollar, væri óhjákvæmilegt að skrá hana rétt, sem kallað er. Þá væri óhjákvæmilegt, að hún væri skráð þannig, að hún væri jafngóð dollarnum eða pundinu. En ég hef enga trú á því og hef ekki haft og mun ekki hafa, býst ég við, á næstunni, að það sé möguleiki fyrir Ísland að skrá krónu sína þannig, að hún sé seljanleg í venjulegum erlendum kauphöllum og við getum selt íslenzka krónu frjálst í hvaða banka erlendis sem væri. Það er óhugsandi fyrir okkur. Það hefur verið svo nú um áratugi, að gengið á íslenzkri krónu er innlent vandamál. Það er innlent vandamál, sem snýr aðeins að okkur sjálfum. Menn fá ekki íslenzka krónu yfirfærða nema með sérstökum leyfum, og þannig álít ég að eigi að vera áfram. Ég álít, að það eigi að skrá íslenzka krónu þannig innanlands, að við reynum eins mikið og fært er að halda gengi hennar föstu. Það er ljóst, að ef við högum okkur mjög óskynsamlega, neyðumst við til þess að breyta slíku. En við eigum að vera eins íhaldssamir um slíkar breytingar og við mögulega getum, — og af hverju? Af því að meðan við breytum ekkí gengi íslenzkrar krónu, viðhöldum við vissu trausti fólksins á sinn eigin gjaldmiðil. Það er sagt, að þegar við setjum uppbætur og yfirfærslugjald á ákveðnar vörur, þá séum við að fella krónuna í gildi, og þannig gætum við náttúrlega reiknað endalaust með alla tolla og kallað það þúsund gildi á krónunni. En við skulum athuga, hvað þetta þýðir gagnvart þeim íslenzka manni, sem leggur aura í sparisjóðinn. Við skulum segja, að við setjum yfirfærslugjald, 30% á þessa vöru, 50% eða 55% á aðra, 135% á þriðju. Það þýðir, að peningarnir, sem maðurinn á í sparisjóðnum, halda sínu gildi gagnvart ákveðnum vörutegundum. Ef einn fátækur maður, sem á fé í sparisjóði, sem hann hugsar sér að geyma til ellinnar, gæti verið viss um, að hann gæti alltaf keypt jafnmarga mjólkurlítra eða jafnmikið af brauði fyrir þá peninga, þá hafa þeir peningar visst, fast gildi fyrir hann. Þó að ísskápur kynni að hafa hækkað og peningurinn hans fallið í verði miðað við ísskápinn, þá er það ekki eins slæmt fyrir þann fátæka mann. Þess vegna getur það verið skynsamlegt og réttlátt í þjóðfélaginu að reyna að viðhalda gildi krónunnar, gildi peningsins, gildi sparifjárins gagnvart almennustu nauðsynjavörum almennings, jafnvel þó að maður verði að hækka útvarpstæki, ísskápa eða annað slíkt, sem eru góð og gild vara, mjög mikið og jafnvel gera bíla afar dýra. Þetta mundi þýða, að íslenzk króna héldi engu að síður sínu vissa gildi gagnvart því að kaupa þessa hluti. Þess vegna hef ég alltaf verið á móti gengislækkun. Ég hef aldrei viljað skrá íslenzka krónu miðað við útlent gengi. Ég hef viljað reyna að halda henni sem innlendri mynt, af því að ég hef viljað halda okkar utanríkisverzlun þjóðnýttri, þannig að við ráðum sjálfir, hvernig við högum gengisskráningu okkar, gildi okkar krónu, verðlagi vara okkar hér innanlands. Og hvað þýðir þetta? Þetta er ekki bara af slíkri umhyggju hjá mér, það er af öðru líka. Ef við þannig lokum landinu með þjóðnýtingu utanríkisverzlunar, skráum okkar gengi aðeins miðað við það, að við reynum að viðhalda sem mest föstu gengi gagnvart flestum þeim vörutegundum eins lengi og við getum, þá þýðir það um leið annað. Það þýðir, að okkur er óhætt hér innanlands, innan okkar lokaða hrings, að setja í umferð lánsfé, sem tryggir, að það er hægt að nota það íslenzkt vinnuafl, sem til er, og það íslenzkt efni, sem til er, til þess m.a. að byggja hús og annað slíkt. Til að byggja hús þurfum við ekki nema 20% af andvirðinu útlendan gjaldeyri og varla það. Ef við höfum þjóðarbúskap okkar aðskilinn frá öðrum þjóðarbúskap og sjálfstæðan, þá getum við með því að hagnýta sjálfstætt lánsfjárkerfi innanlands, — það verður að hafa stjórn á því, góða stjórn, — þá getum við hagnýtt til fulls allt íslenzkt vinnuafl og allt íslenzkt efni að því er snertir ýmist að framleiða það, sem kemur í staðinn fyrir útlendan gjaldeyrí, eða framleiða íslenzk hús, íslenzkar afurðir, sem við notum hér innanlands. M.ö.o.: slík stjórn á lánsfjárveltu okkar innanlands gerir okkur mögulegt að tryggja atvinnu allra Íslendinga. Ég hugsa mér þannig, að við stjórnum íslenzkum þjóðarbúskap, sköpum honum sín eigin lögmál, sköpum honum sín sjálfstæðu lögmál, sem gilda innan hans vébanda, ráðum hans verðlagningu á vörunum, ráðum þar lánsfjárveltunni. Þetta útheimtir viturlega stjórn með yfirsýn og valdi yfir þjóðarbúskapnum, en með þessu móti getum við tryggt fulla atvinnu handa öllum Íslendingum og eins góða afkomu handa þeim og með fullri atvinnu í landinu og sæmilegri afstöðu út á við og tekst að skapa á hverjum tíma. Um leið og við fellum niður allt eftirlit í utanríkisverzluninni og skráum gengið þannig, að það eigi að samsvara útlendum dollara eða pundi, erum við búnir að missa alla stjórn á íslenzkum þjóðarbúskap. Þá skolast líf okkar og gæfa til eftir því, hvernig sveiflurnar eru á þeim stóra markaði auðvaldsins úti í heimi. Þess vegna er það prinsip, sem farið er að undirbúa með gengisskráningu í þessu frv., rangt.

Þá talaði hv. 6. landsk, mikið um frjálsa verzlun, og ég skal ekki fara að ítreka það við hann aftur. Við höfðum einu sinni reynslu af þeirri frjálsu verzlun, það var á árunum 1920–30. Og hver var hún? Hún var, að landið var að fara á hausinn, og þá varð að afnema þá frjálsu verzlun til þess að bjarga þjóðinni, og síðan hefur hún aldrei komizt á.

Svo kom hv. 6. landsk. inn á það, að nú yrðu atvinnurekendur gerðir ábyrgir fyrir gerðum sínum, nú ættu þeir að standa á eigin fótum. Hann tók það greinilega fram, að auðvitað ætti ríkissjóður að útvega þeim lánsfé, það væri líka í öðrum löndum. En hverra lánsfé er það í öðrum löndum, sem þeir fá? Það er lánsfé sjálfra prívatkapítalistanna. Þeir lána hver öðrum. Þeir voldugu bankar eru eign þessara einkaauðmanna, og þeir lána hver öðrum. En hér á íslenzka ríkið að lána. Hverjum á það þá að lána? Af hverju á það að lána honum Jóni Jónssyni, en ekki honum Pétri Péturssyni? Og þá komum við að misréttinu. Það svívirðilega jafnrétti peninganna á ekki einu sinni að gilda, heldur á þarna misrétti og misbeiting valds, jafnvel hjá voldugum bankastjórum, að hafa úrslitavaldið, og allt á þetta að gerast til þess, að atvinnurekendur geti safnað sjóðum. Það á að lækka kaupið hjá verkamönnum, það á að taka það, sem verkamaðurinn þarf til sinnar lífsframfærslu, til þess að atvinnurekandinn geti safnað sjóðum. Hve óskaplega framandi öllum þeim hugsunarhætti, sem ríkt hefur í þúsund ár hér hjá íslenzkri alþýðu, er ekki þessi hugsunarháttur. Man máske ekki hv. 6. landsk. eftir þeirri vísu, sem við sungum einu sinni á atvinnuleysisárunum fyrir utan hjá Magnúsi Guðmundssyni, þegar hann var dómsmrh. 1932:

Það er dauði og djöfuls nauð er dyggðasnauðir fantar safna auð með augun rauð, en aðra brauðið vantar?

Það hefur aldrei verið tilgangurinn hér á Íslandi fyrst og fremst að safna í sjóði. Það hefur verið tilgangurinn að framkvæma og reyna að sjá um, að mönnunum liði vel.

Hv. 6. landsk. talaði um, að stjórnmálamennirnir hefðu með núverandi kerfi eitthvað ógnarvald. Já, vissulega, stjórnmálamennirnir hafa haft ýmislegt vald með að skipta sér af þjóðarbúskapnum. En þeir hafa verið knúðir til að skipta sér af þessum þjóðarbúskap, af því að einkaatvinnurekendurnir gáfust upp og voru búnir að setja allt á hausinn. Þá var hlaupið til stjórnmálamannanna og sagt: Viljið þið nú ekki bjarga mér. — En ef hv. 6. landsk. finnst, að stjórnmálamennirnir hafi haft eitthvert ógnarvald, hefur það vald þó a.m.k. frekar verið notað til þess að reyna að byggja upp í landinu, a.m.k. af hálfu margra stjórnmálamanna. Hvernig hafa þá einkaatvinnurekendurnir notað það vald, sem þeir hafa haft? Hv. 6. landsk. þm. var eitthvað að tala um, að stundum hefðu stjórnmálamenn kippt að sér hendinni og það hefði verið voðalegt fyrir ýmis bæjarfélög. Hvernig heldur hann, að bæjarútgerð á Íslandi hafi byrjað, þegar alþýðan var að brjótast áfram á Ísafirði og í Hafnarfirði? Hún byrjaði með því, að einkaatvinnurekendurnir kipptu að sér hendinni og fóru á hausinn eða fluttu burt af landinu, af því að það var fínna að búa í Kaupmannahöfn en á Ísafirði eða í Hafnarfirði. Og alþýðan varð sjálf að byrja að basla, sjálf að reyna að gera út til þess að geta lifað, og það er það, sem íslenzk þjóð hefur verið að gera allan þennan tíma. Hún hefur verið að reyna að sjá um, að atvinnufyrirtækin í landinu væru rekin til þess að þjóðin gæti lifað, ekki til þess að einhverjir gætu grætt. Það hefur aldrei verið hugsjón Íslendinga og verður vonandi aldrei.

Hv. 6. landsk. var að fullvissa okkur um, að fjármagnið mundi leita í framleiðsluna. Hvílík vitleysa! Allar staðreyndir 20. aldarinnar á Íslandi mótmæla því. Ég nefndi honum áðan dæmin um, hvernig fjármagnið var 1934, 100 millj, kr. fjármagn í verzluninni, 22 millj. kr. fjármagnið í framleiðslunni, öllum sjávarútveginum. Hvernig var 1950 og þar á eftir? Fjármagnið leitar í bílana, flýr sjávarútveginn. Nei, það er ekki til neins að segja, að fjármagnið muni leita í framleiðsluna. Við þekkjum, hvert fjármagn reykvísku auðmannanna leitar.

Þá talaði hv. 6. landsk. þm. mikið um, að útiánatakmörkunin væri meginvarnargarður þessa kerfis: Kaupkúgunin á að fullkomnast með lánsfjárkúguninni. Það er mjög eðlilegt, þegar peningavaldið á að fara að ráða. Hann vildi gera lítið úr því, hvernig verkamenn yrðu fyrir barðinu á þessu. Við skulum taka iðnverkakonu með 3000 kr. laun. Hún borgar engan tekjuskatt að heita má. Af því að hún er einhleyp, fær hún engar fjölskyldubætur. Hún fær launin lækkuð um 20%, en heildsali með 160 þús. kr. tekjur fær kannske 15 þús. kr. lækkun á sínum tekjuskatti, og eigi hann 2 börn innan 16 ára, fær hann líka fjölskyldubætur. Þessir hlutir geta komið þannig út, að viðkomandi verkamaður fær ekkert nema launalækkunina og viðkomandi heildsali fær ekkert annað en uppbæturnar, sem ríkisstj. reiknar með að eigi að draga úr högginu, sem hún greiðir verkalýðnum.

Ég skal nú fara að stytta þetta og hlaupa yfir margt af því, sem hefði þurft að taka fyrir, ef maður hefði ætlað að taka fyrir þá löngu ræðu hv. 6. landsk. En að lokum kom hann nokkuð inn á hagfræðina, af því að ég væri stundum að tala eins og mér væri eitthvað illa við hagfræði. Það er óttaleg vitleysa, mér er ekki illa við hagfræði, alveg þvert á móti. Ég hef bara vissa slæma reynslu af borgaralegum hagfræðingum og kæri mig ekkert um að láta þjóð mína reyna skipbrot þeirrar borgaralegu hagfræði á sjálfri sér oftar en einu sinni. Honum fannst undarlegt, að mér væri illa við hagfræði, þar sem marxisminn væri að einhverju leyti við hagfræði kenndur, og hefur hann þar rétt að mæla. Marxisminn er einmitt tilkominn sem gagnrýni Karls Marx og Friedrichs Engels á þeirri borgaralegu hagfræði og sem vísindaleg skilgreining á því auðvaldsskipulagi, sem þá var að myndast. Mér er ekki illa við hagfræðikenningar. Mér er bara illa við vitlausar hagfræðikenningar og vil sízt af öllu vera að láta gera tilraunir með líf og gæfu íslenzkrar alþýðu með slíkum vitlausum kenningum, ekki sízt þegar þær eru nógu vel í öðrum löndum og jafnvel einu sinni á okkur sjálfum búnar að sýna, hve vitlausar þær voru. Sú borgaralega hagfræði beið raunverulega sitt endanlega skipbrot, þannig að meira að segja sjálfir skynsamari borgaralegir hagfræðingar lærðu dálítið af því, í heimskreppunni miklu. Eftir það hafa þeir verið að endurskoða sína borgaralegu hagfræði allan tímann, þótt þeir hafi ekki enn þá komizt að neinni niðurstöðu. En það, sem er höfuðatriðið, ef menn þekkja lögmál þjóðfélagsins og kunna skil á réttri hagfræði, marxistískri hagfræði, það er að þekkja sitt eigið land, þekkja sína eigin atvinnuháttu, þekkja þróun og þróunarstig síns eigin þjóðfélags og kunna að beita réttum hagfræðikenningum á það þjóðfélag og reyna að hagnýta, eftir því sem hægt er við þær aðstæður sem eru, það sem hægt er að hagnýta úr t.d. marxismanum og marxistískri hagfræði við það kapítalistíska Ísland.

Við prófuðum þetta að vissu leyti í nýsköpunarstjórninni. Við reyndum vissa hluti af þessu í sambandi við vinstri stjórnina. Það er eitt, sem var einkennandi fyrir báðar þessar stjórnir og er um leið einkennandi fyrir allar teoríur marxismans, og það er, að grundvöllur þjóðfélagsins, sem allt annað byggist á, sé efnahagurinn og grundvöllurinn að efnahaginum séu framleiðslutækin og það séu framleiðslutækin á hverjum tíma, sem mynda og móta alla yfirbyggingu þjóðfélagsins. Það er skilningurinn á þessu, sem gerir það að verkum, að í nýsköpunarstjórninni og í vinstri stjórninni, þar sem áhrifa marxista nýtur við, er lögð höfuðáherzla á það fyrir Ísland að afla framleiðslutækja, vegna þess að það er lífsskilyrði, það er grundvöllurinn, það er undirstaðan undir öllu hinu í lífinu, öllu því, sem við byggjum ofan á þetta.

Hvort togararnir, sem við keyptum á nýsköpunartímanum, eða bátarnir, sem við keyptum á vinstristjórnartímanum, væru í eign einstaklinga, ríkis, bæja eða einhverra annarra, það var vissulega frá okkar sjónarmiði stórt atriði, en það var aldrei höfuðatriði fyrir okkur, og það urðu sumir hissa, þegar Hannibal Valdimarsson var að hjálpa íhaldsmönnum á Vestfjörðum til þess að fá báta og jafnvel reyna að láta þá fá atvinnubótastyrk til þess. Spurningin var ekki um slíkt, spurningin var um hitt, að skapa framleiðslutæki handa þjóð okkar. Þegar þau væru einu sinni komin inn í landið, þá vissum við, að þau yrðu notuð með einhverju rekstrarskipulagi, sköpuðu auð, sköpuðu velferð handa þjóðinni. Þess vegna lögðum við áherzluna á útvegun framleiðslutækja, það var vegna skilning á marxismanum.

Út af því, sem hv. 6. landsk. sagði, þar sem hann hélt, að marxisminn væri að einhverju leyti úreltur, þykir mér rétt að upplýsa hann um það, að marxísminn er sem stendur sú kenning, sem byggt er á efnahagslíf þriðjungsins af mannkyninu, og á grundvelli hans eru byggðar upp skjótari og meiri framfarir í þjóðfélögum í heiminum en nokkru sinni fyrr hafa tíðkazt. Þess vegna væri nú mjög heppilegt, þó að marxisminn hafi að nokkru leyti fengið að leiða blessun sína yfir Ísland, t.d. á nýsköpunartímanum, svo að ég taki nú sérstaklega tímabil, þegar hluti af Sjálfstfl. var við völd, þá væri það mjög æskilegt, að hagfræðingarnir legðu sig meira í líma til að læra marxismann en þeir hafa gert fram að þessu. Þá kæmu ekki aðrar eins endalausar dellur frá þeim og við erum alltaf að stríða við núna, og þá lærið þið kannske, að það eru ekki peningar, heldur framleiðslutæki, sem ein þjóð byggir á.

Þegar þeir voru mest að kvarta í Landsbankanum á nýsköpunartímanum yfir þessari ótætis vitleysu að kaupa nýsköpunartogara, sagði ég stundum við þá: Viljið þið ekki selja alla nýsköpunartogarana úr landinu undireins, það eru nógir, sem vilja kaupa þá og fá ykkur gull í staðinn, og setja gullið í kjallarann í Landsbankanum? Þá eruð þið víst ánægðir. Þessir menn, sem aldrei sjá neitt nema peningana og gullið og halda, að það sé eitthvað, sem skapar!

Ég er orðinn langorðari en ég ætlaði mér að vera. Það var svo margt, sem þurfti að athuga í ræðu hv. 6. landsk., og satt að segja svo margt, sem maður vildi segja, ef maður á nokkurn hátt gæti afstýrt þeim voða, sem hér er stefnt að. Ég hef nú sagt mitt orð um þetta, og það eina, sem ég vildi mega vona, er, að hæstv. ríkisstj. vildi taka það mikið tillit til þeirrar gagnrýni og þeirra aðvarana, sem fram hafa komið, að hún leggi ekki út í og stofni ekki til þess stéttastríðs, sem hver stjórnmálamaður, sem þekkir íslenzka þjóð, hlýtur að sjá að verður afleiðingin af samþykkt þessa frv. og framkvæmd á stefnu þess. Við Íslendingar þurfum frið, við þurfum stéttafrið, við þurfum sameiginlegt átak hjá þjóð okkar til þess að skapa betri lífskjör í okkar landi, en ekki árás útlends peningavalds til þess að rýra stórkostlega lífskjör íslenzks verkalýðs og leggja Ísland efnahagslega undir sig.