12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

48. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í ræðum hv. stjórnarandstæðinga og þá fyrst og fremst hv. 1. þm. Austf. (EystJ), hv. 4. þm. Austf. (LJós) og hv. 3. þm. Reykv. (EOl), hafa verið fjögur atriði, sem mér þykir ástæða til að gera að umtalsefni.

Þeir hafa talið heimildir þær, sem gert er ráð fyrir í frv. til þess að hagnýta yfirdrátt hjá Evrópusjóðnum og alþjóðagjaldeyrissjóðnum, mjög varhugaverðar.

Þeir hafa talið, að með ráðstöfunum þessum séu mjög miklar byrðar lagðar á þjóðina, og hafa talið þær 1200–1300 millj. kr.

Þá hefur því verið haldið fram, að með framkvæmd þessara till, væru lífskjör almennings skert svo mjög, að kaup íslenzks verkamanns yrði aðeins helmingur þess, sem hinum umkomulausustu er tryggt sem lágmarkstekjur í Bandaríkjunum.

Og að síðustu hefur því verið haldið fram, að þessar ráðstafanir muni leiða til vaxandi þátttöku okkar í viðskiptum hins frjálsa heims, en það muni á hinn bóginn draga verulega úr eða stofna í hættu viðskiptum okkar við ríkin í Austur-Evrópu.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um hvert þessara atriða um sig.

Ég kemst ekki hjá að láta í ljós miklu furðu yfir þeim ummælum, sem reyndir þm. og fyrrv. ráðherrar, nákunnugir fjárhagsmálum þjóðarinnar, hafa viðhaft um væntanlegar yfirdráttarheimildir hjá Evrópusjóðnum og alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En í tilefni af þeim finnst mér ástæða til að fara nokkrum almennum orðum um lántökur þjóðarinnar á undanförnum árum, skuldir hennar nú og þann eðlismun, sem er á þeim og hinum væntanlegu yfirdráttarheimildum.

Í landi eins og Íslandi, þar sem mörg óunnin verkefni blasa við, en þar sem lítið innlent fjármagn er fyrir hendi og fjármagnsmyndun hæg, er eðlilegt, að tekin séu erlend lán til framkvæmda. Til þess að slík lántaka geti talizt skynsamleg, verður þó þremur skilyrðum að vera fullnægt:

Í fyrsta lagi verður framkvæmdin að skila a.m.k. jafnmiklum arði á lánstímanum og svarar til greiðslu vaxta og afborgana af láninu.

Í öðru lagi verður framkvæmdin að afla gjaldeyris eða spara gjaldeyri, sem svarar til þess gjaldeyris, sem notkun hins erlenda lánsfjár kostar.

Og í þriðja lagi má greiðslubyrðin í erlendum gjaldeyri vegna erlendra lána yfirleitt ekki verða þyngri en svo, að hægt sé að standa undir henni ásamt þeirri fjárfestingu, sem kostuð er af innlendu fé, með heilbrigðum sparnaði þjóðarinnar.

Þetta eru einu efnahagslegu takmörkin fyrir því, hversu mikið erlent lánsfé er hyggilegt fyrir þjóð að nota. Slíkar lántökur valda halla í greiðsluviðskiptum þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum. Slíkur halli er ekki varhugaverður, enda má elns nefna hann fjármagnsinnflutning.

En lántökur þjóðar í öðrum löndum geta einnig verið með öðrum hætti. Það getur verið, að vegna jafnvægisskorts í peningamálum sé eftirspurn í þjóðfélaginu eftir vörum og þjónustu meiri en nemur þjóðarframleiðslunni og notkun erlendra framkvæmdalána, og þá um leið, að eftirspurn eftir erlendum vörum sé meiri en hægt er að fullnægja með tekjum af útflutningi þjóðarinnar, öðrum gjaldeyristekjum og erlendum framkvæmdalánum. Sé ekki beinlínis með innflutnings- og gjaldeyrishöftum látinn verða skortur á erlendri vöru, sem hlýtur að sjálfsögðu að valda verðhækkun innanlands auk margháttaðra truflana á atvinnulífinu, þá hlýtur að verða halli á viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd og skuld að myndast þar, sem hallanum svarar. Þessi halli er allt annars eðlis en hallinn, sem ég gat um áðan, og skuldin, sem við þetta myndast erlendis, er allt annars eðlis en skuldin, sem ég ræddi um áðan. Þessi halli og þessi skuld er afleiðing jafnvægisskorts í peningamálum innanlands. Hún er afleiðing þess, að þjóðin reynir að nota meira til neyzlu og fjárfestingar en þjóðarframleiðslunni nemur að viðbættum þeim framkvæmdalánum, sem aflað er erlendis.

Það leiðir af eðli málsins, að greiðsluhalli af því tagi, sem ég nefndi síðast, getur ekki staðið nema skamma hríð. Hann getur aðeins staðið, á meðan þjóðin eyðir gjaldeyrisforða sínum og á meðan hún getur myndað gjaldeyrisskuldir eða fengið lán erlendis til þess að greiða greiðsluhallann. En ekkert af þessu getur hún gert nema skamma hríð. Gjaldeyrisforðinn er takmarkaður. Erlendir bankar leyfa ekki myndun gjaldeyrisskulda nema að mjög takmarkaðri upphæð, og enginn erlendur aðill fæst til að lána upp í greiðsluhalla af því tagi, sem hér um ræðir, nema þá rétt í bili og þá yfirleitt með því ákveðna skilyrði, að ráðstafanir séu gerðar til þess að binda endi á greiðsluhallann. Þar við bætist, að undir þessum kringumstæðum hlýtur einnig að taka fyrir notkun erlendra framkvæmdalána. Greiðsluviðskipti þjóðarinnar eru þá orðin svo erfið, að hætta er á, að ekki verði hægt að standa í skilum með greiðslu af lánum, jafnvel til arðbærustu framkvæmda, og erlendir lánveitendur hljóta að kippa að sér hendinni.

Í þessum umræðum hefur því verið haldið fram af bæði hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, að lántökur undanfarinna ára séu að engu leyti varhugaverðar, þar að þær hafi allar gengið til nytsamlegra framkvæmda, og á þetta hefur verið lögð sérstök áherzla í blöðum Framsfl. og Alþb. Mér hefur jafnvel fundizt mega skilja ýmis ummælí, einkum þessara tveggja þm. og raunar blaða þeirra einnig, þannig, að það hafi í raun og veru alls ekki verið um neinn greiðsluhalla að ræða undanfarin ár, allt tal um það sé, þegar öllu er á botninn hvolft, blekkingar, þar eð eignaaukningin í landinu, fjárfestingin, hafi verið miklu meiri en skuldaaukningunni nemur. Lánsféð hafi verið svo vel notað, að þjóðin standi miklu betur að vígi nú til að standa straum af hinni auknu greiðslubyrði en hún gerði áður. Þess vegna sé nú ekki þörf neinna sérstakra ráðstafana af þessum sökum.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að ef sú merking er lögð í hugtakið „greiðsluhalli gagnvart útlöndum“, að ekki sé um greiðsluhalla að ræða, fyrr en aukning erlendra skulda sé orðin meiri en heildarfjárfestingin eða eignaaukningin í landinu, þá hefur engin þjóð, sem ég þekki til, nokkurn tíma haft greiðsluhalla gagnvart umheiminum. Ef tekin eru erlend lán, sem svara allri fjárfestingunni innanlands, þá jafngildir það því, að þjóðin noti allar tekjur sínar til neyzlu. Eignaaukningin innanlands er að vísu jafnmikil og skuldaaukningin út á við, svo að segja má, að hagur þjóðarinnar sé óbreyttur. En sparnaður þjóðarinnar er enginn. Ég á bágt með að trúa því, að nokkur mæli í alvöru með slíkum aðgerðum. Slíkt væri fullkomið fyrirhyggjuleysi í fjármálum, og það er fráleitt að skilgreina hugtakið „greiðsluhalli gagnvart útlöndum“ þannig, að um hann sé þá fyrst að ræða, þegar erlendar lántökur séu meiri en nemur allri fjárfestingunni.

Sú merking, sem hagfræðingar og fjármálamenn leggja í þetta hugtak, er sú, að þá sé um að ræða greiðsluhalla gagnvart útlöndum, þegar greiðslur til annarra landa vegna innflutnings og þjónustu, að meðtöldum afborgunum og vöxtum af lánum, séu meiri en tekjur frá öðrum löndum vegna útflutnings og þjónustu. Þessi halli hlýtur að sjálfsögðu ávallt að jafnast, því að ein þjóð getur ekki fengið meira frá öllum öðrum til samans nema með því að stofna til skuldar hjá þeim.

Eins og ég gat um áðan, þarf slíkur halli engan veginn ávallt að vera varhugaverður eða óheilbrigður. Að svo miklu leyti sem hann á rót sína að rekja til þess, að lán hafi verið tekin til arðbærra framkvæmda, er ekkert við hann að athuga. Hallinn er þá afleiðing framkvæmdalánanna og táknar innflutning erlends fjármagns. En ef hann á rót sína að rekja til jafnvægisleysís innanlands, ef hann á rót sína að rekja til viðleitni til þess að halda uppi meiri fjárfestingu en svarar til sparnaðar innanlands að viðbættum erlendum framkvæmdalánum eða til þess að halda uppi meiri neyzlu en afgangur þjóðarframleiðslunnar heimilar, þá er sú skuldasöfnun, sem jafnar hallann, ekki orsök hans, heldur er hallinn orsök skuldasöfnunarinnar.

Það, sem í raun og veru er deilt um varðandi lántökur síðari ára, er, af hvorum toganum þær séu spunnar, hvort þær hafi verið framkvæmdalántökur, sem þá er eðlilegt að valdi halla og ekkert væri þá við að athuga, eða hvort þær séu afleiðing jafnvægisskorts innanlands og hafi verið óhjákvæmilegar til þess að jafna hallann, ef ekki hafi átt að koma til vöruskorts og framleiðslutrafala. Rökin, sem hv. þm., Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, hafa bent á til rökstuðnings fyrri stafhæfingunni, þ.e.a.s. að lánin séu öll heilbrigð framkvæmdalán, eru, að samtímis lántökunum eða á eftir þeim hafi verið stofnað til framkvæmda í landinu, sem hefðu kostað jafnmikið eða meira en lánunum nemur, og þess vegna hljóti þau að teljast framkvæmdalán. En þessi röksemd er alveg haldlaus. Eins og ég gat um áðan, mætti með sama rétti kalla alla erlenda skuldasöfnun framkvæmdalán, meðan hún fer ekki fram úr heildarfjárfestingunni innanlands. Sannleikurinn um lántökur undanfarinna ára er sá, að það hafa sumpart verið heilbrigð framkvæmdalán og sumpart skuldasöfnun til þess að jafna halla út við vegna jafnvægisskorts innanlands, og mætti e.t.v. kalla hið síðara hallalán. Það er jafnfráleitt að telja allar lántökurnar framkvæmdalán og að telja þær allar hallalán, en það er mjög erfitt að draga alveg skýra markalinu þarna á milli. Þó má staðhæfa, að lántökurnar til Sogsvirkjunarinnar, sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju og flökunarvélakaupa séu tvímælalaust framkvæmdalán. Það á einnig við um lán vegna kaupa á fiskiskipum, en þar er þó sá hængur á, að flest þeirra lána hafa verið til miklu skemmri tíma en fiskiskipin gátu skilað andvirði sínu í gjaldeyri. Þessi lán, fiskiskipalánin, hafa því aukið greiðslubyrðina á næstu árum langt umfram það, sem aukin framleiðsla fiskiskipanna gat aukið við þjóðarframleiðsluna á sama tíma. Hitt er jafnvíst, að mikill hluti þeirra lána, sem þjóðin hefur tekið erlendis á s.l. áratug og þarf nú og í framtíðinni að greiða vexti og afborganir af, hafa verið afleiðing þess, að á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd hefur verið halli, sem hefur átt rót sína að rekja til þess, að þjóðin var að reyna að eyða meira en hún aflaði. Fjárfestingin hefur verið meiri en nam sparnaði innanlands að viðbættum erlendum lántökum til þess að greiða erlendan fjárfestingarkostnað, og neyzlan hefur verið meiri en nam því, sem afgangs var af þjóðarframleiðslunni, þegar fjárfestingin hafði verið greidd.

Hægt er að sýna fram á, og það hefur verið gert, að um alvarlegt jafnvægisleysi innanlands hefur verið að ræða. Það kemur m.a. greinilega fram við athugun á útlánum bankanna. Og slíkt jafnvægisleysi hlýtur að hafa í för með sér skuldasöfnun erlendis. Um það er því alls engum blöðum að fletta, að verulegur hluti þess 200 millj. kr. árlega halla, sem verið hefur á greiðslujöfnuðinum undanfarin ár, á rót sína að rekja til jafnvægisskortsins og er því bæði óheilbrigður og varhugaverður, þótt benda megi á jafnmiklar fjárfestingarframkvæmdir innanlands.

Það er alls ekki hægt að dæma um, hversu mikinn halla gagnvart útlöndum er heilbrigt að hafa, út frá því sjónarmiði, hversu mikil fjárfestingin er. Engum dettur í hug að kosta alla fjárfestinguna með erlendum lánum. Þau geta að skaðlausu verið nokkru meiri en nemur erlendum kostnaði við fjárfestinguna. Hvað á þessu bili er heilbrigt að hafa lántökurnar, er komið undir því, hversu mikil fjárfestingin er og hvort þjóðin er reiðubúin til þess að greiða hana með heilbrigðum sparnaði innanlands. Ég segi það aftur: undir því, hvort þjóðin er reiðubúin til þess að greiða hana með heilbrigðum sparnaði innanlands.

Þjóðin verður ekki aðeins að standa undir innlenda kostnaðinum við fjárfestinguna með heilbrigðum sparnaði, heldur einnig undir vöxtum og afborgunum af erlendu lánunum. Þau mega ekki verða meiri en svo, að þjóðin sé reiðubúin til að standa undir greiðslubyrðinni af þeim ásamt innlenda hlutanum af fjárfestingunni með heilbrigðum sparnaði. Þegar greiðslubyrðin er orðin um og yfir 10% af öllum gjaldeyristekjunum, má það vera augljóst hverjum manni, að miklum erfiðleikum hlýtur að vera bundið að standa undir slíkri greiðslubyrði út á við ásamt innlenda hluta fjárfestingarinnar. Það er þess vegna, sem slík skuldasöfnun hlýtur að teljast of mikil. Það er þess vegna, sem svo miklar skuldir eyðileggja lánstraustið og koma í veg fyrir, að hægt sé að fá heilbrigð framkvæmdalán. En með því að stöðva jafnvægisleysið og þann greiðsluhalla, sem af því stafar, og draga þannig úr greiðslubyrðinni, skapast einmitt nýir möguleikar á öflun heilbrigðra framkvæmdalána, og það er m.a. tilgangur þessara ráðstafana.

Það má með engu móti blanda erlendum lántökum af því tagi, sem ég hef nú rætt um, við þá skuldaaukningu, sem verður í bráð vegna þess, að hagnýttar eru yfirdráttarheimildir erlendís. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hjá engri þjóð dreifist útflutningur eða innflutningur jafnt á mánuði ársins. Þetta á jafnvel einkum og sér í lagi við um þjóð eins og Íslendinga, þar sem útflutningsframleiðsla er mjög árstíðabundin. Það leiðir því beinlínis af eðli framleiðslunnar, að gjaldeyristekjurnar dreifast misjafnt á árið. Innflutningsþörfin getur og orðið misjöfn eftir árstíðum. Hún er auðvitað sérstaklega mikil, þegar búa þarf útflutningsatvinnuvegina undir aðalstarfstíma þeirra, en auk þessa geta viðskiptaaðstæður og viðskiptakjör valdið því, að hagkvæmt gæti verið að draga útflutning eða hraða innflutningi. Hvort tveggja þetta getur gert nauðsynlegt að nota um skeið gjaldeyri umfram það, sem svarar til venjulegra gjaldeyristekna. Þetta eru augljósar og viðurkenndar staðreyndir. Þær valda því, að þjóðir telja sér yfirleitt nauðsynlegt að hafa til umráða gjaldeyrisvarasjóð eða gjaldeyrisforða, sem nemi allt að einum þriðja af árlegri gjaldeyrisnotkun þjóðarinnar. Hann er þá notaður til þess að jafna þær sveiflur, sem leiðir af árstíðabundinni útflutningsframleiðslu og árstíðasveiflum í innflutningi. Auk þess er hann notaður til þess að geta hagnýtt sér sem hagkvæmust kjör í bæði útflutningi og innflutningi og enn fremur til þess, að óvænt skakkaföll þurfi ekki að valda sérstökum vandræðum.

Þótt nokkur dráttur verði á því, að hægt sé að selja eða heppilegt sé talið að selja nokkurn hluta útflutningsvöru þjóðar, gerir gjaldeyrisvarasjóður kleift að halda áfram eðlilegum innflutningi, svo að afleiðingin þarf ekki að verða sú, að innflutningur takmarkist eða jafnvel stöðvist með þeim afleiðingum, sem slíkt hlýtur að hafa á framleiðslu innanlands og framleiðsluafköstin, eða valda vöruskorti á neyzluvörumarkaðnum og tilsvarandi verðhækkun. Ef sölutregðan eða verðfallið reynist aðeins til bráðabirgða, kemur það aftur í sjóðinn, sem eyddist af honum. Ef það reynist hins vegar til frambúðar eða varanlegt, verður að sjálfsögðu þegar í stað að gera þær ráðstafanir innanlands, sem slíkt kallar á, og þegar þær hafa verið gerðar, fyllist sjóðurinn aftur. Ef jafnvægi er haldið milli framleiðslu þjóðarinnar og framkvæmdalána annars vegar og neyzlu hennar og fjárfestingar hins vegar, helzt gjaldeyrisvarasjóðurinn eða gjaldeyrisforðinn óeyddur, þegar yfir nokkurn tíma er lítið, þó að sveiflur verði á stærð hans, þegar yfir stuttan tíma er litið.

Um það getur enginn ágreiningur verið, að mjög æskilegt og hagstætt sé að eiga gjaldeyrisforða, af þeim sökum, sem ég hef lýst: Um það getur heldur enginn ágreiningur verið, að hægt sé að halda gjaldeyrisforða eða gjaldeyrisvarasjóði óskertum, þegar yfir lengra tímabil er lítið, séu ráðstafanir gerðar nægilega snemma í efnahagsmálum innanlands, ef í ljós kemur, að rýrnun gjaldeyrisforða hefur verið varanlegri en venjulegt eða eðlilegt er. Þetta veit hver einasti framkvæmdastjóri í fyrirtæki. Hluti af því rekstrarfé, sem hann þarf að hafa yfir að ráða, er nauðsynlegur til að jafna það bil, sem verið getur og venjulega er milli tekna af sölu annars vegar og gjalda vegna framleiðslukostnaðar hins vegar. Þessi sjóður má ekki fara niður fyrir visst lágmark, ef þeirri hagkvæmni, sem fólgin er í sem stöðugastri framleiðslu, á ekki að verða stefnt í hættu. Þegar þær breytingar verða á markaðsaðstöðu, annaðhvort vegna minnkaðrar sölu eða verðfalls, að þessi hluti rekstrarfjárins er orðinn óeðlilega lítill, verður að sjálfsögðu að gera þær breytingar á framleiðslunni, sem tryggja, að jafnvægi komist aftur á. Með því móti skilar sér aftur það rekstrarfé, sem eyddist til bráðabirgða.

Ef fyrirtækið á ekki nægilegt rekstrarfé til að standa undir sveiflum í greiðslum sínum, getur það jafnað þær með því að eiga aðgang að yfirdráttarheimildum í lánsstofnunum, og munu raunar langflest fyrirtæki reyna að tryggja sér slíkar heimildir. Þær eru auðvitað ekki lán í sama skilningi og þau lán, sem tekin hafa verið til fasteignakaupa, vélakaupa eða bundin eru í föstum vörubirgðum. Þær standa í sambandi við sveiflur í greiðslum. Þær á alltaf að vera hægt að endurgreiða, annaðhvort af venjulegum tekjum, ef engar breytingar hafa orðið á raunverulegri aðstöðu fyrirtækisins, eða þá með breytingum á gjöldum, ef varanleg breyting virðist vera orðin á tekjum. Það leynir sér aldrei, ef hætta virðist á, að slík yfirdráttarlán festist, eins og það er kallað. Þá verður auðvitað þegar í stað að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að draga úr gjöldum eða auka tekjur, svo að greiðsla yfirdráttarskuldarinnar verði möguleg. Að fresta slíkum ráðstöfunum er að sjálfsögðu misnotkun á yfirdráttarheimildinni.

Hið sama á sér stað um þjóð, sem á sér engan gjaldeyrisvarasjóð, en jafna þarf sveiflur í greiðslum við önnur lönd. Heimild til yfirdráttar erlendis kemur þá að hliðstæðu gagni og eign gjaldeyrisforða eða gjaldeyrisvarasjóðs. Notkun slíkra yfirdráttarheimilda á í rauninni ekkert skylt við erlenda lántöku til framkvæmda eða lántöku til þess að jafna greiðsluhalla. Þótt skuld myndist á slíkum yfirdráttarreikningi, hlýtur hún að jafnast aftur af venjulegum gjaldeyristekjum, ef þjóðarbúskapurinn er í jafnvægi. Ef hins. vegar varanleg breyting er að verða á viðskiptakjörum þjóðarinnar, þannig að yfirdráttarskuldin stendur lengur en venjulegt og eðlilegt hefur verið talið, ber það auðvitað vott um, að gera þurfi ráðstafanir innanlands til þess að vega upp á móti hinum versnandi viðskiptakjörum.

Sama máli gegnir, ef misvægi er að skapast innanlands á milli þjóðarframleiðslu og framkvæmdalána annars vegar og neyzlu og fjárfestingar hins vegar. Séu slíkar ráðstafanir gerðar nógu tímanlega, er auðvitað hægt að jafna yfirdráttarskuldina. Að halda því fram, að slik yfirdráttarlán hafi ávallt tilhneigingu til þess að festast og verða að föstum lánum, er í raun og veru hið sama og að halda því fram, að ógerningur sé að halda þjóðarbúskapnum í jafnvægi til lengdar, að það sé elns konar náttúrulögmál, að þjóðin hljóti að eyða meira en hún aflar. Með alveg sama rétti mætti segja, að engum banka og engri lánastofnun væri óhætt að veita fyrirtæki yfirdráttarlán, af því að öruggt sé, að það muni misnota yfirdráttarheimildina og festa féð í framleiðslutækjum.

Ríkisstj. hefur tekizt að tryggja þjóðinni allt að 20 millj. dollara yfirdráttarheimildir erlendis hjá Evrópusjóðnum og alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hv. stjórnarandstæðingar tala eins og hér sé um mesta glannaskap að ræða og jafnvel eins og hér standi fyrir dyrum að taka slíkt lán erlendis og kaupa fyrir það vörur. Þetta er auðvitað hinn herfilegasti misskilningur. Ef vel ætti að vera, þyrfti þjóðin að eiga allt að 20 millj. dollara gjaldeyrisforða eða gjaldeyrisvarasjóð. Það mundi vera mikil trygging fyrir því, að innflutningur til landsins gæti jafnan orðið snurðulaus, að ekki yrði hér tímabundinn hráefnisskortur eða neyzluvöruskortur með þeim óhagstæðu áhrifum á framleiðsluafköst og verðlag, sem slíkt hlýtur að hafa í för með sér. Slíkt gæti gert það kleift, að þjóðin keypti innflutningsvörur sínar á þeim tímum, sem hagkvæmast þætti, og seldi útflutningsvörur sínar, þegar verð er hagstæðast.

En fyrst þjóðin á engan slíkan gjaldeyrisvarasjóð, er það henni að sjálfsögðu ómetanlegt hagræði að eiga aðgang að samsvarandi yfirdrætti erlendis. Notkun hans mundi ávallt vera tímabundin, og kostnaður við hagnýtingu fjárins er svo lítill, að samningar þeir, sem hér er um að ræða, verða að teljast mjög hagkvæmir. Það er auðvitað hrein fjarstæða að halda því fram, að þessar yfirdráttarheimildir muni verða að föstum lánum, sem auka muni greiðslubyrðar þjóðarinnar. Með sama rétti mætti segja, að Íslendingum geti ekki reynzt mögulegt að halda jafnvægi í þjóðarbúskap sínum og takmarka eyðslu sína við það, sem þeir afla. Og ef slíkar yfirdráttarheimildir hlytu að verða að föstum lánum, mætti eins segja, að Íslendingum væri um aldur og ævi ókleift að eiga gjaldeyrisvarasjóð. Því skyldu Íslendingar einir allra þjóða vera því marki brenndir að geta ekki haldizt á gjaldeyrisvarasjóði? Og ef þeir treysta sér til þess að láta sér haldast á gjaldeyrisvarasjóði, þá er þeim nákvæmlega jafnkleift að koma í veg fyrir, að yfirdráttarheimildir verði að föstu láni.

Þá ætla ég að víkja að því, að hv. þm., Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, hafa nefnt tölur, sem eiga að sýna, hverjar séu álögurnar á þjóðina í heild í sambandi við hinar fyrirhuguðu efnahagsmálaráðstafanir. Hugsanagangurinn, sem liggur að baki þessum tölum, virðist vera svipaður, og útkoman úr dæminu er, þegar öllu er á botninn hvolft, svipuð hjá báðum, að álögurnar á þjóðina séu um 1200–1300 millj. kr.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hefur nefnt sem heimild áætlunina frá Hagstofu Íslands um það, hversu mikið veltan í þjóðarbúskapnum muni aukast vegna þessara ráðstafana. Þegar nauðsynlegar leiðréttingar hafa verið gerðar, er niðurstaðan sú, að heildarverðmæti veltunnar aukist um um það bil 1000 millj. kr. Viðbótin virðist vera vegna fyrirhugaðrar vaxtahækkunar. Að því er hana snertir er þess að geta, að ekki er gert ráð fyrir því, að hækkum útlánsvaxta hafi áhrif á verðlagið: Þess er og að geta, að innlánsvextir hækka í sama mælí, og er því um nokkurn veginn jafnmikla tekjuaukningu að ræða í þjóðarbúskapnum vegna hækkunar innlánsvaxta og útgjaldaaukningunni nemur vegna hækkunar útlánsvaxtanna.

En er það rétt, að sú aukning, sem verður á veltu í þjóðarbúskapnum vegna efnahagsráðstafananna, sé í raun og veru byrðar eða álögur á þjóðina? Hvílík fjarstæða slík staðhæfing er, sést þegar með því að bera þessa tölu hv. stjórnarandstæðinga um álögur saman við heildartekjur þjóðarinnar, en þeir telja álögurnar nema sem svarar 1/5 — hvorki meira né minna en 1/5 — af heildartekjum þjóðarinnar, þar eð áætla má þær um 5000 millj. kr. Dettur nokkrum manni í hug, að hér sé um það að ræða að takmarka heildarútgjöld þjóðarinnar um 1/5 ? Þegar af þessu hlýtur það að teljast augljóst, að eitthvað meira en lítið er bogið við þessa útreikninga hv. þingmanna.

Það; sem hér er á ferðinni, er alger hugtakaruglingur, sem ég er alveg viss um að báðir hv. þm. gera sér öldungis ljósan, þótt þeir láti sér sæma að viðhafa þennan málflutning í áróðursskyni.

Í eðli sínu er gengisbreyting alls engin byrði fyrir þjóðina í heild, ekki frekar en innheimta yfirfærslu- og innflutningsgjalda til greiðslu útflutningsbóta er nokkur byrði fyrir þjóðina í heild. Í báðum tilfellunum er um að ræða endurskiptingu á þjóðartekjunum, flutning á tekjum frá einni atvinnugrein til annarrar eða einni þjóðfélagsstétt til annarrar.

Þegar stjórn Hermanns Jónassonar hækkaði yfirfærslu- og innflutningsgjöld til þess að geta aukið útflutningsbætur, var báðum þessum þm. algerlega ljóst, að þar var ekki um neinar álögur á þjóðina í heild að ræða, heldur tilflutning á tekjum innan þjóðarbúskaparins. En gengisbreyting hefur í eðli sínu alveg nákvæmlega sams konar áhrif og hækkun yfirfærslu og innflutningsgjalda ásamt tilsvarandi hækkun bóta. Áhrif gengisbreytingarinnar eru aðeins almennari og sjálfvirkari. Gengisbreyting og aukning útflutningsbóta og innflutnings- og yfirfærslugjalda flytur tekjur til útflutningsframleiðslunnar og þeirra, sem við hana starfa, frá öðrum þáttum þjóðarbúskaparins. Hver einasta króna, sem þeir greiða, sem starfa ekki við útflutningsframleiðsluna, fer til þeirra, sem þar starfa. Ef menn vilja taka svo til órða, að álögur séu lagðar á þá, sem eru ekki í neinum tengslum við útflutningsframleiðsluna, má ekki gleyma að tala um tekjuauka hinna, sem tengdir eru útflutningsframleiðslunni á einn eða annan hátt, því að hann er nákvæmlega jafnmikill. Allt tal um álögur á þjóðina er því fjarstæða og blekking. Hitt er svo annað mál, að gengislækkun getur verið tæki til þess að eyða eða koma í veg fyrir greiðsluhalla við útlönd. Þá hefur gengislækkunin í för með sér byrði fyrir þjóðarheildina, er því svarar, sem nauðsynlegt er til þess að jafna greiðsluhallann. Í raun og veru er hér þó villandi að tala um gengislækkunina sjálfa sem undirrót byrðarinnar. Átakið, sem nauðsynlegt er til þess að jafna greiðsluhallann, kostar fórn. Það er það, sem er byrði.

Það er hægt að jafna greiðsluhallann með öðru móti en hreinni gengislækkun. T.d. er hægt að gera það með þeirri aðferð, sem ráðh. Framsfl. stungu upp á í ríkisstj. vorið 1958. Byrðin eða álögurnar, sem slíkt hefur í för með sér, eru í sjálfu sér ekki afleiðing yfirfærslugjaldanna eða útflutningsbótanna, heldur þess, að ráðstöfun er gerð til þess að jafna hallann. Meðan hallinn helzt, notar þjóðin meira en hún aflar. Það kostar auðvitað byrði eða álögur að hætta því. Það skiptir ekki meginmáli í þessu sambandi, hvort það er gert með gengislækkun eða aukningu útflutningsbóta og innflutningsgjalda. Þar er aðeins um leiðir að ræða til þess að jafna hallann. Byrðin eða álögurnar eru nákvæmlega jafnmiklar, hvor leiðin sem farin er. Upphæð álagnanna eða þyngd byrðarinnar ákveðst af því, hversu mikill greiðsluhallinn var, en ekki af hinu, hvaða leið er farin til þess að jafna hann.

Hallinn á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd hefur undanfarin ár numið um 200 millj. kr. á ári að meðaltali. Þjóðin hefur m.ö.o. notað um 200 millj. kr. meira en hún hefur staðið undir með eigin framleiðslu. Auk þess má gera ráð fyrir, að gjaldeyristekjur af Keflavíkurflugvelli lækki talsvert. Á hinn bóginn er búizt við, að eftir að þessar ráðstafanir eru komnar til framkvæmda, eigi Ísland aftur kost á heilbrigðum framkvæmdalánum, og er eflaust óhætt að áætla þau ekki minna en tekjurýrnunin verður af Keflavíkurflugvelli eða jafnvel heldur meiri.

Sá nettóhalli gagnvart útlöndum, sem fyrirhuguðum ráðstöfunum er ætlað að jafna, nemur því einhvers staðar á milli 150 og 200 millj. kr. , miðað við gamla gengið. Það er sú raunverulega byrði, sem þjóðin í heild tekur á sig í sambandi við þessar ráðstafanir, en hún nemur 3–4% af þjóðartekjunum, ef þær eru áætlaðar um 5000 millj. kr. Sú veltuaukning, sem verður í þjóðarbúskapnum umfram þetta, er allt saman —tekjutilfærsla milli einstakra aðila í þjóðfélaginu og breyting á gjöldum og tekjum sömu aðila.

Í sambandi við þessa tekjutilfærslu f þjóðfélaginu verður og að sjálfsögðu að hafa í huga þær miklu breytingar, sem verða á almannatryggingalöggjöfinni og skattalöggjöfinni. Engum dettur væntanlega í hug, að skattar þeir, sem lagðir eru á til þess að standa undir auknum útgjöldum almannatrygginga, séu byrði á þjóðina eða þeir skattar, sem innheimta verður til þess að geta létt af tekjuskatti. En álíka fjarstæða er það auðvitað að telja þá veltuaukningu eða tekjutilfærslu, sem siglir í kjölfar gengisbreytingar, byrði á þjóðina, að því frátöldu, sem nauðsynlegt er til þess að jafna greiðsluhallann við útlönd, en það er byrði, sem þjóðin hefði orðið að bera í öllum tilfellum.

Hallabúskapurinn verður að hætta. Við fáum ekki lán til þess að jafna slíkan halla áfram. Ef við viljum hvorki breyta genginu né framfylgja tillögum ráðh. Framsfl. frá því í maí 1958, verður hér gífurlegur gjaldeyrisskortur, vöruskortur, stöðvun á margs konar framleiðslu, bæði útflutningsframleiðslu og innlendum iðnaði, og byrðin leggst á þjóðina sem vöruskortur og hækkandi verðlag.

Það, sem um er því að ræða nú fyrir íslenzku þjóðina, er ekki annars vegar að halda áfram að reka þjóðarbúið með halla og jafna hallann með erlendum lántökum og hins vegar að gera þær ráðstafanir, sem ríkisstj. leggur nú til, að gerðar verði, eða aðrar, sem í raun og veru jafngilda þeim. Fyrri leiðin er algerlega lokuð. Það, sem þjóðin á nú um að velja, er annars vegar að gera þær ráðstafanir, sem hér eru til umræðu, og hins vegar að reyna að jafna hallann við útlönd með höftum, þ.e.a.s. að láta þá kjaraskerðingu, sem því er samfara að jafna hallann, gerast með því að beita hér harðvítugri höftum en áður hafa þekkzt í sögu íslenzku þjóðarinnar á öllum sviðum atvinnu og viðskiptalífsins og taka upp stranga skömmtun á þeim sviðum, þar sem talíð væri að skipulagslaus vöruskortur mundi hafa alveg óþolandi afleiðingar.

Ef við nú gerðum tilraun til þess að jafna hallann gagnvart útlöndum með stórkostlegri skömmtun og víðtæku haftakerfi og öllu, sem slíku fylgir, værum við eina þjóðin í VesturEvrópu og þótt víðar væri leitað, sem gripi til slíkra ráðstafana. Þá fylgdu menn allt annarri stefnu í efnahagsmálum en allar nágrannaþjóðir okkar, hvort sem þeim er stjórnað af vinstri sinnuðum eða hægri sinnuðum flokkum. Það er áreiðanlega engin tilviljun, að engin nágrannaþjóðanna fylgir nú slíkri stefnu. Hún getur verið nauðsynleg og er nauðsynleg á stríðstímum og krepputímum, en hún er ekki aðeins ónauðsynleg, heldur beinlínis skaðleg á venjulegum tímum.

Það, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa sagt um 1000 millj. kr. álögur á þjóðina í sambandi við þessar ráðstafanir, er því blekking. Það er að vísu um álögur eða byrði að ræða, en hún er ekki nema brot þessarar upphæðar og er ekki afleiðing gengislækkunarinnar í sjálfu sér, heldur hins, að átak er gert til þess að losna við greiðsluhallann gagnvart útlöndum og samræma heildareyðslu þjóðarinnar þeim tekjum, sem hún hefur af framleiðslu sinni, og þeim framkvæmdalánum, sem eðlilegt er og heilbrigt er að hún taki erlendis.

Þá langar mig til þess að víkja nokkuð að þeim ummælum hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að með þessum ráðstöfunum sé kaup íslenzkra verkamanna skert svo stórkostlega, að það verði ekki nema sem svarar helmingi þess, sem bandarísk löggjöf tryggir hinum umkomulausustu þar í landi sem lágmarkstekjur.

Lögmæltar lágmarkstekjur í Bandaríkjunum munu vera einn dollar á klukkustund, sem svarar til 38 kr. eftir nýja genginu. En þar eð kaup Dagsbrúnarmanna í lægsta flokki er nú kr. 20.67, telur hv. þm., að Dagsbrúnarmaður sé aðeins hálfdrættingur á við þann, sem hefur lágmarkskaup í Bandaríkjunum. Hvílík reginfjarstæða slíkir útreikningar eða slíkur samanburður er, sést þegar af því, að hv. þm. gerir ráð fyrir, að við gengisbreytinguna hækki kaup bandarískra verkamanna gífurlega í hlutfalli við íslenzka verkamanninn. Hann hefur fjölyrt um, að með þessum ráðstöfunum sé gengi erlends gjaldeyris hækkað um 133%. Það jafngildir því, að lágmarkskaupið í Bandaríkjunum, sem hann áður taldi svara til 16 króna, — og það mun vera nokkru lægra en lægsta Dagsbrúnarkaup, — hækkaði við gengisbreytinguna í 38 krónur og er þar með orðið næstum tvöfalt á við Dagsbrúnarkaupið.

Auðvitað þarf engum orðum að því að eyða, að gengisbreyting á Íslandi hefur engin áhrif á kaup eða kjör verkamanns í Bandaríkjunum, hvorki hækkar það né lækkar. Engum dettur væntanlega í hug, að hægt sé að mæla áhrifin á kaup Dagsbrúnarverkamannsins með hlutfallslegri hækkun á gengi dollarsins eða hlutfallslegri lækkun á gengi krónunnar. Allur þessi samanburður er því algerlega út í hött.

Það, sem máli skiptir, er samanburður á kaupmætti launa hins bandaríska verkamanns og hins íslenzka verkamanns. Í því sambandi er auðvitað alls ekki nóg að benda á það, að lágmarkskaup bandarísks verkamanns sé 38 kr. á klukkustund, en íslenzka verkamannsins kr. 20.67, eða rúmlega helmingur, en þegja alveg um það verðlag, sem hvor aðili um sig á við að búa.

Ég skal nefna nokkur dæmi um það verðlag, sem bandarískur verkamaður og íslenzkur verkamaður eiga við að búa. Kindakjöt, nýtt læri, kostar hér kr. 24.20, en í Bandaríkjunum kr. 58,50, miðað við nýja gengið, þ.e. meira en tvöfalt meira. Kíló af ýsuflökum kostar hér kr. 7.08, en í Bandaríkjunum 41 kr., eða meira en fimm sinnum meira. Nýmjólk í hyrnum kostar hér kr. 3.35 lítrinn, en í Bandaríkjunum kr. 8.70 lítrinn eða næstum þrisvar sinnum meira. Kaffi kostar hér kr. 34.50 kg, en í Bandaríkjunum 67 kr. kg, eða næstum helmingi meira, allt miðað við nýja gengið. Molasykur kostar hér kr. 6.24 kg, en í Bandaríkjunum kostar hann kr. 10.20 kg, og þannig mætti lengi telja.

Ég nefni þessi dæmi aðeins til að sýna fram á, hversu fjarstæðukenndur málflutningur hv. 3. þm. Reykv. um samanburð á kaupgjaldi einu er í raun og veru.

Hinu er svo alls ekki að leyna, að ef rétt er skoðað, er kaupmáttur tímakaups bandarísks verkamanns meiri en íslenzks verkamanns — og raunar ekki aðeins íslenzka verkamannsins, heldur allra verkamanna í Evrópu, að ég nú ekki tali um, hversu miklu meiri hann er en kaupmáttur verkamanns í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu yfirleitt.

Í framhaldi af þessu er ástæða til að gera nokkurn samanburð á kjörum verkamanna hér á Íslandi og í Danmörku og Noregi, en það er viðurkennt, að lífskjör í þessum löndum eru ekki aðeins með því bezta, sem gerist í heiminum, heldur eru lífskjör þar einnig með því jafnasta, sem þekkist.

Samkvæmt dönskum hagskýrslum var meðaltímakaup ófaglærðra karlmanna í Danmörku allri kr. 5.08 danskar á klukkustund á öðrum ársfjórðungi 1959. Miðað við nýja gengið jafngildir þetta kr. 27.94 íslenzkum. Á sama tíma var meðaltímakaup karla í Noregi við ýmsar framkvæmdir, aðrar en byggingar, kr. 4.74 norskar eða kr. 25.19 íslenzkar, miðað við nýja gengið, en í þessu meðaltali er reiknað með tímakaupi ýmissa iðnaðarmanna, svo sem trésmiða. Tímakaup Dagsbrúnarmanns í lægsta flokki er nú kr. 20.67. Þessi tala er að því leyti ekki sambærileg við ofannefndu tölurnar í Danmörku og Noregi, að þær tölur eru meðaltal, en fyrrnefnt Dagsbrúnarkaup er lægsta kaup, sem greitt er á Íslandi.

Meðalkaup Dagsbrúnarmanna er áreiðanlega talsvert hærra en kr. 20.67, jafnvel þó að ekki sé tekið tillit til neinnar eftirvinnu, sem skiptir ekki máli í þessu sambandi. Það er því óhætt að fullyrða, að þessar tölur benda ekki til þess, að um verulegan mun sé að ræða á tímakaupi verkamanna í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Við þetta má svo bæta því, að vinnutími er lengri á Íslandi en í Danmörku og Noregi, 48 stundir í stað 45 stunda, en eftirvinna tíðkast lítið í Danmörku og Noregi. Ef gerður er samanburður á tekjum og miðað við 45 stunda vinnuviku í Danmörku og Noregi, en 48 stunda vinnuviku hér, að viðbættum 6 eftirvinnutímum, sem hér mun vera algeng regla, verður niðurstaðan, miðað við fyrrnefnda tímakaupið, lágmarkskaupið á Íslandi, sú, að vikulaun á Íslandi verða 1191 kr., í Danmörku 1257 kr., en í Noregi 1134 kr., þannig að vikulaun íslenzka verkamannsins eru um það bil miðja vegu milli hins norska og danska.

Í þessum samanburði er þó hallað á íslenzka verkamanninn að því leyti, að miðað er við tímakaup í lægsta flokki, en í Danmörku við meðalkaup og í Noregi einnig við kaup ýmissa annarra en verkamanna, þ.e. iðnaðarmanna, en á hinn bóginn er hér reiknað með lengri vinnutíma en tíðkast í hinum löndunum.

Þar við bætist, að fjölskyldubætur verða verulega hærri á Íslandi en í Danmörku og Noregi eftir þær ráðstafanir, sem nú verða væntanlega gerðar.

Þessar upplýsingar sýna, að allt tal um, að þessar ráðstafanir leiði í ljós, að kjör íslenzkra verkamanna séu miklu lakari en kjör stéttarbræðra þeirra í nálægum löndum, er algerlega úr lausu lofti gripið. Hitt er annað mál, að nauðsynlegt er að losna sem fyrst við það ástand, að hér sé unnin yfirvinna. Lífskjör íslenzkra verkamanna eiga ekki að þurfa að versna, þótt vinnutíminn styttist, heldur eiga þvert á móti að geta haldið áfram að batna, ef betra skipulag kemst á þjóðarbúskapinn, aukinni verktækni og verkmenningu er beitt og fyllsta áherzla lögð á sem fullkomnast og bezt skipulag í atvinnurekstrinum.

Skipulag og verktækni í ýmsum greinum íslenzks sjávarútvegs er til mikillar fyrirmyndar og meira og betra en tíðkast með öðrum þjóðum. Á ýmsum öðrum sviðum þjóðarbúskaparins skortir hins vegar mjög á, að skipulag og verktækni sé nægilega fullkomin, og á það áreiðanlega ekki hvað sízt við fjárfestingarframkvæmdirnar, sem þjóðin ver nú næstum þriðjungi tekna sinna til. Með bættu skipulagi á því sviði mætti án efa tryggja jafnmikla raunverulega fjárfestingu með miklu minni tilkostnaði, þannig að tekjurnar, sem við það spöruðust, gætu gengið annaðhvort til aukinnar neyzlu eða til þess að stytta vinnutíma þjóðarinnar.

Þá langar mig að síðustu að fara nokkrum orðum um það atriði, sem einkum hefur komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að það virðist vera einn höfuðtilgangur þessara ráðstafana að innlima Ísland í efnahagskerfi Vestur-Evrópuríkjanna og torvelda þar með viðskipti Íslendinga við ríkin í Austur-Evrópu eða jafnvel koma þeim alveg fyrir kattarnef. Hefur hv. 3. þm. Reykv, haft um þetta ýmis sterk orð, talið þetta jafngilda tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslands og kveðið þessar ráðstafanir jafngilda því, að Íslendingar séu að lúta erlendri nýlendustefnu.

Það er grundvallarmisskilningur á eðli þessara ráðstafana, að með þeim sé efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga skert. Þær eru þvert á móti stórt spor í áttina til aukins efnahagslegs sjálfstæðis íslenzku þjóðarinnar.

Eitt hið hættulegasta við það ástand, sem nú er einmitt tilætlunin að breyta, er, að nú er atvinnulif Íslendinga og þar með afkoma þjóðarinnar háð árlegum erlendum lántökum og meiri lántökum en ganga til þjóðhagslega arðbærra framkvæmda. Meðan slíkt ástand varir, má með sanni segja, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í nokkurri hættu. Með því að þjóðin verði óháð öðrum erlendum lántökum en þeim, sem skila henni arði, bæði í íslenzkum krónum og erlendum gjaldeyri, er stigið stórt spor til þess að varðveita og efla íslenzkt fjárhagssjálfstæði.

Hvað það snertir, að með þessum ráðstöfunum sé verið að tengja efnahagslíf Íslands þeim viðskiptaheildum, sem ýmist hafa verið myndaðar eða er verið að mynda í Vestur-Evrópu, þá er það einnig misskilningur. Íslenzka þjóðin tekur ein og án afskipta annarra ákvarðanir um ráðstafanir í efnahagsmálum sinum. Hún mun líka ein og án afskipta annarra taka ákvörðun um það, hvort eða hvenær hún gerist aðili að einhvers konar viðskiptasamtökum í Vestur-Evrópu. En aðstaða hennar til þess að taka slíka ákvörðun eins og frjáls og sjálfstæð þjóð versnar ekki, heldur batnar við þessar ráðstafanir. Eins og efnahagsmálum þjóðarinnar hefur verið háttað undanfarin ár, má öllum vera augljóst, að aðild að viðskiptasamtökum, sem grundvallast á sem haftaminnstum viðskiptum og afnámi tolla smám saman, hefði verið miklum erfiðleikum bundin fyrir Íslendinga, ef ekki beinlínis óhugsandi. Ef þjóðinni tekst hins vegar að koma efnahagsmálum sínum í það horf, sem ráð er fyrir gert í till. ríkisstj., standa Íslendingar miklu betur að vígi til þess að gera það, sem þeim sýnist helzt, annaðhvort að gerast aðilar að slíku samstarfi eða standa utan við það. Eins og nú er, eiga Íslendingar í rauninni aðeins einn kost, að standa utan við. Að þessum ráðstöfunum framkvæmdum, eiga Íslendingar tvo kosti, að gerast aðilar eða standa utan við. Frelsi þeirra til að taka óháða ákvörðun hefur því ekki minnkað heldur aukizt.

Þá hefur hv. 3. þm. Reykv. staðhæft eða látið liggja að því, að þegar öllu sé á botninn hvolft, muni þessum ráðstöfunum líklega stefnt að því að torvelda viðskiptin við Austur-Evrópuríkin, af því að þau séu auðvaldsöflum í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum lítt þóknanleg. Þessi staðhæfing er alvarlegust, og þegar hún er sett fram af manni í stöðu Einars Olgeirssonar, þ.e. formanni eins þingflokksins, er sjálfsagt að gera henni skil og leiðrétta þann misskilning, sem hún grundvallast á.

Það er skoðun mín, að Íslendingar eigi að leggja áherzlu á að viðhalda viðskiptum sinum við ríkin í Austur-Evrópu. Í þessum löndum hafa Íslendingar öðlazt mikilvæga markaði fyrir útflutningsvörur sínar, sem þeir eiga að varðveita og kosta kapps um að auka, en láta ekki dragast saman. Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er að viðhalda höftum í innflutningsverzlun þjóðarinnar, til þess að hægt sé að kaupa frá þessum löndum þær vörur, sem hagkvæmast er að kaupa í skiptum fyrir útflutninginn þangað, á að gera það. Það er að vísu skoðun mín, að ýmislegt megi endurbæta í sjálfum viðskiptasamningunum við þessi lönd og í framkvæmd þeirra. Slíkt er samningsatriði milli okkar og þessara viðskiptaþjóða okkar, og skoðun mín er, að það mundi treysta grundvöll viðskiptanna og auka þau.

Í öllum þessum áætlunum, sem liggja til grundvallar till. ríkisstjórnarinnar, er gert ráð fyrir því, að viðskiptin við ríkin í Austur-Evrópu haldist í því horfi, sem nú er. Fyrirhugaðar ráðstafanir í innflutningsmálum eru einmitt við það miðaðar að greiða fyrir innflutningi frá Austur-Evrópulöndum að því marki, sem nauðsynlegt er, til þess að við höldum útflutningsmöguleikum okkar þangað óskertum.

Af þessu má það vera augljóst, að það er ekki að neinu leyti markmið þessara ráðstafana að torvelda viðskipti Íslendinga við þjóðirnar í Austur-Evrópu. Þær eru þvert á móti við það miðaðar að halda þeim í því horfi, sem nú er. Þjóðinni er nauðsynlegt að eiga útflutningsmarkaði sem allra víðast. Það veitir okkur öryggi í utanríkisviðskiptum okkar. Slíkt öryggi er mikils virði fyrir afkomu þjóðarinnar og viðgang atvinnuveganna í landinu. Þess vegna á það að vera sjálfsögð stefna sérhverrar ríkisstjórnar á Íslandi að leggja rækt við alla þá markaði, sem okkur hefur tekizt að afla okkur, að efla og bæta öll þau viðskiptasambönd, sem við höfum, og láta aldrei niður falla viðleitnina til þess að afla nýrra.