12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

48. mál, efnahagsmál

Helgi Bergs:

Herra forseti. Við Íslendingar stöndum þessa dagana á alvarlegum tímamótum. Við stöndum andspænis nokkrum vanda í efnahagsmálum okkar, en í því eru í sjálfu sér ekki fólgin nein tímamót. Við höfum gert það árlega í áratug og jafnvel lengur. Tímamótin eru fólgin í því, að nú grípur hæstv. ríkisstj. þetta tækifæri til þess að boða algera stefnubreytingu á öllum sviðum okkar efnahagslífs. Nú á að kasta fyrir borð þeim meginstefnum, sem ríkt hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar í meira en mannsaldur og gert hafa mögulega þá stórfelldu atvinnuuppbyggingu, sem hér hefur átt sér stað á þeim tíma og skapað skilyrði fyrir þeim góða efnahag og lífskjörum, sem almenningur hérlendis býr nú við. Og í stað þess á að taka upp þá siðu að láta gróðasjónarmiðin ein ráða ríkjum, og löggjafarvaldið og ríkisvaldið skal leggja niður forustuhlutverk sitt í framfaramálum þjóðarinnar.

Áður en ég kem að því að ræða einstök atriði frv., vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um það í heild, þar sem þetta mál allt er þannig vaxið, að einstök atriði þess verða ekki skoðuð utan síns rétta samhengis.

Af þeim gögnum, sem fyrir liggja, verður ekki með víssu séð nákvæmlega, hversu mikil sú skekkja er, sem leiðrétta þyrfti í núv. efnahagskerfi. Yfirlýsingar hæstv. ráðh. og annarra ráðamanna um það efni hafa verið mjög mótsagnakenndar, og hvað hefur rekið sig á annars horn.

Fyrir nokkrum mánuðum, fyrir haustkosningarnar, var því haldið mjög að mönnum, að verðbólgan hefði ekki vaxið á árinu 1959, að útflutningssjóður hefði aldrei staðið sig betur en þá og afkoma ríkissjóðs væri góð. Þetta var raunar allt saman áréttað af hæstv. atvmrh. við 1. umr. fjárlaganna hér á hv. Alþingi á mánudagskvöldið var.

Nú gerðu menn sér það að vísu ljóst, að stuðningsmenn fyrrv. hæstv. ríkisstj. mundu hafa nokkra tilhneigingu til þess að færa afkomu ársins 1959 til betri vegar í málflutningi sinum. En samt fór ekki hjá því, að menn drægju almennt þá ályktun, að skekkjan í efnahagskerfinu væri varla svo stórfelld, að hún út af fyrir sig gæti réttlætt þau risastökk, sem nú er lagt til að verði tekin.

Stuðningsmenn þessa frv. segja, að það eigi að yfirgefa uppbóta- og styrkjastefnuna, það á að skapa eitt gengi, frjálsa verzlun og gjaldeyrisviðskipti og fullkomið athafnafrelsi, sem svo er kallað. Og fyrir því að þetta sé ekki aðeins nauðsynlegt, heldur einnig æskilegt, eru aðallega færð fern rök, sem hamrað er á með linnulausum áróðri ár og síð og alla tíð, og þar á meðal er notað fé ríkissjóðs til þess að breiða hann út.

Þessi fjögur atriði eru í fyrsta lagi, að kerfið, sem við nú búum við, leiði til greiðsluhalla að sjálfvirkum leiðum, sem verði ekki við ráðið. Útflutningsuppbæturnar á hverja gjaldeyriseiningu séu hærri en yfirfærslugjaldið á sömu gjaldeyriseiningu og því hljóti að verða að taka gjaldeyrislán, svo að hægt sé að leggja yfirfærslugjald á fleiri einingar en útflutningsuppbætur eru greiddar á.

Þessi fullyrðing er auðvitað röng, vegna þess að útflutningssjóði voru og eru ætlaðir aðrir tekjustofnar en yfirfærslugjaldið eitt til þess að mæta þessum mismun. Hins vegar er þetta í samræmi við það, að hæstv, ríkisstj. hefur nú alveg gleymt, til hvers þessir tekjustofnar voru á sínum tíma ætlaðir, og nú ætlar hún að innlima þá í ríkissjóðinn til þess að standa undir þeim aukna kostnaði í ríkisrekstrinum, sem leiðir af þeirri verðbólgu, sem nú á að steypa yfir þjóðina.

Í öðru lagi er talið, að þjóðin hafi ekki möguleika á því að standa undir greiðslubyrðinni af afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Þessi greiðslubyrði var á því ári, sem seinast eru til skýrslur um, árinu 1958, 5.7%, en hæstv. ríkisstjórn hefur látið áætla, að á árinu 1961 verði hún 11.4% af gjaldeyristekjunum. Og þeirri tölu er mjög haldið á lofti, eins og um staðreynd væri að ræða. En sannleikurinn er sá, að þessi áætlun vekur næsta lítið traust, m.a. vegna þess, að í henni er ekki gert ráð fyrir, að gjaldeyristekjurnar vaxi neitt að ráði á næstu árum, þó að ýmis stórvirk atvinnutæki, sem aflað hefur verið á seinustu árum, séu nú að komast í gagnið. Um þetta atriði birti einn af þekktustu hagfræðingum þjóðarinnar, dr. Benjamín Eiríksson, grein í Morgunblaðinu og Tímanum í fyrradag, þar sem hann gagnrýnir með mjög sterkum rökum málflutning hv. stjórnarflokka um þetta efni. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. alþm. hafi kynnt sér grein dr. Benjamíns, en ég vil þó — með leyfi hæstv. forseta — benda sérstaklega á eftirfarandi atriði:

Dr. Benjamín segir:

„Á árinu 1951 voru greiðslur vaxta og afborgana af erlendum lánum innan við 2 millj. dollara. Árið 1958 var upphæðin orðin nærri 51/2 millj. dollara. Aukningin nemur 31/2 millj. dollara. En á þessu tímabili komu í framleiðslu áburðarverksmiðja og sementsverksmiðja. Kostnaðurinn við að kaupa erlendis það, sem þær framleiða handa okkur, mun vera um 21/2 millj. dollara, og er þá ekki reiknað með farmgjöldum. Þessar verksmiðjur eru báðar byggðar svo til eingöngu fyrir erlent fé. Greiðslur af því fjármagni til útlanda eru þegar reiknaðar í áðurnefndum tölum. Verksmiðjurnar spara því innflutning fyrir upphæð, sem slagar hátt upp í alla aukningu skuldabyrðarinnar. Er þá að sjálfsögðu margt ótalið, sem gert hefur verið fyrir erlent fé á tímabilinu, svo sem almenn rafvæðing, landbúnaðarframkvæmdir, skipakaup, frystihúsabyggingar og margt fleira.

Hér hef ég aðeins rætt um sparnað á innflutningi, en hvernig lítur svo þróun útflutningsins út. Ef við lítum á útflutninginn, sjáum við, að árið 1951 nam hann 45 millj. dollara, en árið 1958 66 millj. dollara. Aukningin er 21 millj. dollara. Ég held það geti ekki verið vafamál, að þjóðin er í alla staði betur fær til þess að standa undir greiðslu 51/2 millj. dollara árið 1958 en 2 millj. dollara 1951, einmitt vegna þess, hve miklar framkvæmdir hafa verið unnar fyrir hið erlenda lánsfé.“

Þetta segir dr. Benjamín.

Af þessu má það ljóst vera, að raunar ætti að liggja hverjum manni í augum uppi, að prósentureikningur ríkisstjórnarinnar í sambandi við þetta mál er út í hött. Vissulega mundi prósentan vera lægri, ef við hefðum ekki byggt sementsverksmiðjuna. En er eitthvað lakara að nota gjaldeyri til þess að greiða vexti og afborganir af sementsverksmiðjunni heldur en að kaupa fyrir hann erlent sement? Það er alveg ný kenning, ef því er haldið fram.

Í þriðja lagi er talið, að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar sé óbærileg og við það verði ekki lengur unað.

Gjaldeyrisstaða okkar Íslendinga hefur verið mjög erfið í 30 ár, að undanskildum stríðsárunum, þegar við gátum ekki fengið neitt fyrir þann gjaldeyri, sem við öfluðum. Og gjaldeyrisstaðan verður alltaf erfið, á meðan haldið er áfram uppbyggingarsókninni og atvinnutæki keypt fyrir allt það fé, sem við getum við okkur losað og fest hendur á. Þetta er ekkert undarlegt. Okkur hefur hvenær sem er verið í lófa lagið að bæta gjaldeyrisstöðuna í svipinn, en þó auðvitað aðeins í svipinn, með því að stöðva atvinnuuppbygginguna, eins og nú á að gera. Það hefnir sín fyrr en varir. En í sambandi við áróðurinn um þetta atriði er ástæða til þess að benda á, hvernig sá tímabundni og sérstaki gjaldeyrisskortur, sem gert hefur vart við sig á undanförnum mánuðum, er notaður til þess að villa um fyrir mönnum. Þessi gjaldeyriskreppa á augljóslega rætur sínar að rekja til þess m.a., að hv. stjórnarflokkar hafa ekki dregið neina fjöður yfir það að undanförnu, að þeir hygðu á gengislækkun. En það þarf engan speking til að sjá, að slíkar fyrirætlanir hljóta að draga úr útflutningi og þar með gjaldeyrisöflun, á meðan slíkt er í undirbúningi. Þessi gjaldeyriskreppa er þess vegna afleiðing hinnar fyrirhuguðu gengislækkunar, sem hún er svo notuð af fullri óskammfeilni til þess að rökstyðja.

Í fjórða lagi halda talsmenn frv. því á lofti, að misháar útflutningsbætur leiði til þess að draga fólk og fjármagn frá hinum hagkvæmari atvinnugreinum og yfir í þær, sem óhagkvæmarí eru. Því verður vissulega ekki á móti mælt, að út í þær öfgar geta misháar útflutningsuppbætur farið, að þetta eigi sér stað. En þeirri fullyrðingu hefur ekki verið fundinn neinn staður, að svo langt hafi verið gengið í þessu efni hér á landi. Það hefur á hinn bóginn verið leitazt við að gera okkur mögulegt að nýta sem flestar auðlindir okkar, og ég er hræddur um, að mönnum kunni að bregða við, þegar hið svokallaða frjálsa gróðasjónarmið fær eitt að ráða því, hvar og hvenær útgerðarmenn gera út.

Um þetta atriði hafa ýmsir hv. þm. rætt mjög ýtarlega og gert því góð skil við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d., og ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta. En ég þykist hafa leitt að því nokkur rök, að þær 4 höfuðröksemdir, sem færðar eru fyrir nauðsyn þeirrar byltingar, sem áformuð er í efnahagsmálum okkar, séu að nokkru leyti byggðar á blekkingum og að nokkru leyti á fræðilegum hugleiðingum, sem eiga sér ekki stoð í íslenzkum veruleika.

Ég geri mér vel ljóst, að uppbóta- og niðurgreiðslukerfið, sem við búum við, er gallað. En það er hvorki óbærilegt né óbætanlegt, eins og talsmenn frv. vilja vera láta.

En hvað er þá að segja um þau markmið, sem stuðningsmenn frv. segjast hafa? Nást þau? Komumst við út úr uppbóta- og niðurgreiðslukerfinu? Gjaldeyrisuppbæturnar sjálfar eru að vísu afnumdar og þykir engum mikið, þegar hið skráða gengi er lækkað um 135%, en niðurgreiðslunum er öllum haldið, og eru þær þó ekkert annað en sérstakt form fyrir styrk til útflutningsframleiðslunnar til þess að lækka þann tilkostnað, sem hún ætti ella við að búa. Og meira að segja eru niðurgreiðslurnar auknar, og nú eru þær settar á erlendar vörur, — og raunar eru niðurgreiðslurnar enn meiri.

Það eru boðaðar auknar fjölskyldubætur, og þær eru kynntar þannig, að þær séu bætur fyrir þá verðhækkun, sem af þessum ráðstöfunum leiðir. Þar með er búið að gera þessa félagslegu ráðstöfun, sem í sjálfu sér er æskileg, að efnahagslegri ráðstöfun, liði gengislækkunarkerfi hæstv. ríkisstjórnar. Og hvað er það þá í rauninni orðíð annað en nýtt form fyrir niðurgreiðslur? Það verður ekki annað sagt en hæstv. ríkisstj. sé næsta hugvitssöm í þessu efni.

En næst þá eitt gengi? Stjórnarliðar hafa skemmt sér við það að undanförnu að telja gengin jafnmörg og flokka innflutningsgjalda, og það verður ekki séð, að þeim eigi að fækka og þá ekki heldur þeim gengjum, sem af því leiðir. En auk þess er ljóst, að niðurgreiðsla á erlendum vörum er ekkert annað en gengisívilnun fyrir þær vörur, það er hagstæðara gengi fyrir þær vörur en aðrar vörur.

Næst frjáls verzlun og gjaldeyrisviðskipti? Áfram eiga 40% af innflutningsverzluninni að vera bundin leyfisveitingum. Mér er ekki fyllilega kunnugt um, hvað þetta er mikil aukning á frelsinu í þessu efni, en mér er nær að halda, að hún sé lítil, svo mikið af ýmsum vörum sem hefur verið óháð leyfisveitingum á undanförnum árum. Og hvað með hið fullkomna athafnafrelsi, sem er boðað? Ætli ýmsir kunni ekki að verða þess varir, að lánsfjársamdrátturinn og hin nýja vaxtapólitík kunni að leiða til rétt eins mikils ófrelsis og sitt hvað annað?

Það er því ljóst, að þó að þetta frv. nái fram að ganga, næst alls ekki sá tilgangur, sem hæstv. ríkisstj. segist hafa. En sá tilgangur, sem hún hefur, næst: samdráttur atvinnu og framfara samhliða stórfelldri lækkun á raunverulegri kaupgetu launþega, — og þetta tvennt á illa saman og gerir þær byrðar, sem á fólk eru lagðar, þeim mun þungbærari.

Ég kem nú að því að ræða nánar einstök atriði frv. Mér virðast höfuðatriði þess vera þrjú:

1) Í 1. gr. er gert ráð fyrir að lækka gengið í 38 kr. pr. dollar, og það er gert án þess að afnema þau gjöld, sem áður komu að verulegu leyti í stað gengisbreytingar.

2) Í 23. gr. er lögbannað að hafa vísitöluákvæði í kjarasamningum.

3) Í 5. kafla, sem fjallar um vexti, er ákvörðun þeirra lögð í vald ríkisstjórninni og stórfelld hækkun þeirra boðuð.

Ég skal nú ræða þessi atriði hvert um sig nokkuð, um leið og ég mun aðeins ræða um fáeinar greinar frv. sérstaklega.

Gengisskráningin sjálf ein út af fyrir sig er ekki aðalatriði þessa máls, heldur það verðlag, sem hún ásamt útflutningsuppbótum og útflutningssköttum skapar útflutningsatvinnuvegum landsmanna, og það verðlag, sem gengisskráningin ásamt innflutningsgjöldum og niðurgreiðslum skapar neytendum í landinu. 1. og 2. kafli frv. verða því að skoðast í fullu samhengi, en þeir fjalla um þau atriði, sem áhrif hafa á þetta allt saman.

Hæstv. forsrh. lét hafa það eftir sér fyrir nokkru, að á árinu 1960 vanti 250 millj. kr. í útflutningssjóð til viðbótar núverandi tekjustofnum, til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sinar á því ári. Nú er að vísu ástæða til að ætla af ummælum hæstv. atvmrh, hér á mánudagskvöldið, sem ég gat um í upphafi, að þá sé þessi áætlun hæstv. forsrh. æði rúm. En hvað um það, þetta hlaut að þýða, að í hvaða formi sem ráðstafanir ríkisstj. yrðu, þá mundu þær á einn hátt eða annan taka þessa upphæð af neytendum eða almenningi og færa útflutningsatvinnuvegunum. Hæstv. viðskmrh. kallaði slíka ráðstöfun einu sinni að færa úr einum vasanum í annan, þó að hann vildi nefna það öðrum nöfnum í ræðu sinni í dag, en slíkar aðgerðir eru menn farnir að skilja til fulls. Það hlaut því að vekja almenna undrun, að sú upphæð, sem nú á að taka úr vösum neytendanna, nemur á annað þúsund millj., eins og sýnt hefur verið fram á við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. á alveg óvefengjanlegan hátt, enda hafa hæstv. ráðh. enga tilraun gert til þess að vefengja þetta. Hæstv. viðskmrh. reyndi það ekki heldur hér í ræðu sinni áðan, heldur vildi hann nefna þetta öðrum nöfnum en áður hafa verið notuð. Með þessum orðaleik sannaði hæstv. viðskmrh., að álögur yrðu aldrei lagðar á þjóðina, vegna þess að féð væri alltaf borgað út aftur, en hann rengdi ekki upphæðina, sem tekin er, enda vitum við vel, hver hún er og hvaðan hún er tekin. En það hefði verið gott, ef hæstv. viðskmrh. hefði viljað upplýsa í staðinn nákvæmar en gert hefur verið, hvert þessi upphæð á að fara.

En hvaða áhrif hefur þetta á lífskjör þjóðarinnar? Í sjálfri grg. frv. segir, að verðhækkanir á vísitöluvörum nemi 13%, en að af því jafnist að meðaltali 10% með fjölskyldubótunum og tekjuskattslækkuninni. Hér er verið að gripa tækifærið til þess að gera stórfellda breytingu á tekjuskiptingu ýmissa fjölskyldna. Sumum er bætt verðhækkunin að nokkru eða jafnvel öllu leyti, öðrum ekki. Það er sagt: Ef þú hefur haft miklar tekjur og borgar háan skatt og átt mörg börn, þá skaltu fá bætur, en ef þú átt engin börn eða þau eru orðin 16 ára gömul og þú ert svo tekjulítill, að þú hefur ekki komizt nema í óverulegan tekjuskatt, þá færð þú ekki neitt. — Þessi mismunun hefur í för með sér hið herfllegasta misrétti, og mætti nefna þess ótal dæmi, sem ég hirði þó ekki um að gera að þessu sinni.

Hins vegar er rétt að minna á það í þessu sambandi, að þegar hv. stjórnarflokkar boðuðu afnám tekjuskattsins af mestum fjálgleik á s.l. sumri, þá voru einkum taldar til þess tvær orsakir, að það væri réttlætanlegt og æskilegt. Í fyrsta lagi voru talin vera svo mikil brögð að skattsvikum, að ekki yrði lengur við það unað, og í öðru lagi, að eftirlitið væri allt of kostnaðarsamt. Nú geta þeir ekki svikið undan skatti, sem hafa innan við 70 þús. kr. tekjur, því að þeir eiga engan að greiða. En mér er spurn: Var mesta hættan á því, að það væru þeir, sem svikju undan skatti? Voru hinir heilagir, sem græddu meira, eða dettur mönnum í hug, að þeir verði það frekar hér eftir? Og ekki verður séð, hvernig verulegur sparnaður verður við þetta á skattaeftirlitinu, þegar fjöldi manna og fyrirtækja á enn að greiða skatt, og svo þarf væntanlega að leggja á útsvörin, og allir verða þess vegna væntanlega að telja fram. En þetta var nú innskot. Ég var að ræða um verðhækkanirnar, sem augljóslega verða miklu meiri en þau 13%, sem boðuð eru.

Í grg. er talíð, að innfluttar nauðsynjavörur hækki um 25%, en ég hef það eftir kunnum heildsala hér í bænum, að hann telji þetta algert lágmark, sem aðeins gildi um fáeinar vörutegundir. Sjálfur telur hann, að flestar innfluttar vörutegundir muni hækka um frá 25 til 40%. Það er enn fremur talið í grg., að landbúnaðarvöruverðið hækki um 12%, — og nú er mér spurn: Hvað er það þá, sem á að draga meðalhækkunina niður í 13%? Það er auðvitað ekki neitt, sem vegur svo mikið í vísitölunni, að það geti gert það. Verðhækkanirnar verða þess vegna augljóslega miklu meiri en látið er í veðri vaka.

En án þess að fara frekar út í það að ræða verðhækkanirnar á einstökum vörutegundum, vil ég benda á þá meginreglu, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum þetta allt, en það er það, að ekkert tillit virðist vera tekið til þess að þessu sinni við ákvörðun gjalda og þar með vöruverðlags, hvað þjóðinni sé nauðsynlegast. Nýi söluskatturinn er í fullu samræmi við þessa meginreglu. Hann leggst jafnt á allt, og þess vegna hefur söluskattur raunar af flestum lengst af verið talinn óréttlátastur allra skatta. En ég skal ekki lengja mái mitt með því að ræða um söluskattinn. Hann mun koma til umræðu á sínum tíma. En verðhækkunin, sem af þessum ráðstöfunum leiðir, er stærsta skref, sem tekið hefur verið í verðbólguátt hér á landi.

Áður en ég skil við 1. og 2. kafla frv., vil ég fara nokkrum orðum um eina greinina sérstaklega, en það er 17. gr. Íslenzki löggjafinn hefur, eins og löggjafar margra annarra landa, komið auga á, að eðlilegt sé, að sérstök gjöld á ýmsum rekstrarvörum bifreiða séu sérstaklega á lögð til þess að standa undir viðhaldi og endurbótum og aukningu vegakerfisins. Mér finnst sérstök ástæða til þess að vekja athygli á þessu nú, af því að við stöndum frammi fyrir mjög stórbrotnum verkefnum í vegamálum. Það eru nú í landinu um eða yfir 20 þús. bilar, flestir hér á Suður- og Suðvesturlandi. Umferðin um helztu þjóðvegi frá Reykjavík er nú orðin svo mikil, að ekki verður með neinu móti við annað unað en gert verði varanlegt slitlag á helztu þjóðvegi, þar sem umferð nemur jafnvel um 1000 bílum á dag, eins og á sumum tímum hér austur yfir Heillsheiði. Það er hér alls ekki um það að ræða fyrst og fremst að auka þægindi þeirra, sem um vegina fara. Þetta er fyrst og fremst fjárhagslegt mál. Viðhald vega er nú á fjárlögum áætlað 50 millj. kr. , og mikill hluti þess fer til þess að skafa sömu mölina ofan í sömu holurnar dag eftir dag. Þetta eru fáránleg vinnubrögð, sem eru gott dæmi þess, að það er dýrt að vera fátækur. En svo fátækir erum við Íslendingar ekki lengur, að við getum leyft okkur slíkt og þvílíkt. Hér kemur líka til, að við eyðileggjum öll okkar farartæki með þessu móti fyrr en ástæða væri til og viðgerða- og varahlutakostnaður verður algerlega óhóflegur. Innflutningur varahluta til bifreiða mun nema þessi árin um 20 millj. kr. að fob-verði, og þegar á það koma þau gjöld, sem notandinn má greiða, og þar að auki vinnukostnaður, þá sjá menn, um hve stórfelldar upphæðir er hér að ræða, og mikill hluti af þessu er einmitt vegna þess, í hvaða ástandi vegakerfið er. Það verður því ekki komizt hjá því að gera myndarlegt átak í þessu efni án tafar, og það er þess vegna illt að sjá á eftir þessum stórauknu gjöldum á benzíni, þeim eðlilega tekjustofni í þessu sambandi, beint ofan í pottinn, sem á að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs vegna þeirrar verðbólgu, sem ráðgerð er. Ég get ekki trúað því, að hv. þdm. geti á þetta fallizt, án þess að fé sé ætlað til þeirra stóru verkefna, sem hér liggja fyrir.

Ég kem þá að því að fara nokkrum orðum um 23. gr. Ég hef talið og tel enn baráttuna gegn verðbólgunni eitt mesta hagsmunamál alls almennings í landinu. Nauðsyn þess að beita öllum skynsamlegum ráðum í baráttunni við hana er augljós. Ég hef einnig talið, að vísitöluskrúfan eigi sinn þátt í verðbólguþróuninni. Hins vegar verður því ekki á móti mælt, að vísitöluákvæði í kjarasamningum gefa launþegum nokkra tryggingu, nokkra neyðarvörn gegn stóráföllum. Hins vegar er einnig hægt að misnota vísitöluákvæðin þannig, að þau nái ekki nema að nokkru leyti tilgangi sínum, eins og dæmin sanna, því að vísitalan hefur einmitt verið notuð til þess að snuða launþega í sumum tilfellum, eins og þegar almennum verðhækkunum er svarað með því að greiða niður einhverja vöru, sem vegur þungt í vísítölunni. En með því að ég hef álitið, að vísitöluskrúfan eigi sinn þátt í verðbólguþróuninni, þá hef ég álitið og raunar Framsfl. jafnan talið nauðsynlegt að kippa vísitöluskrúfunni úr sambandi, þannig að stöðvast megi víxlhækkun launa og vöruverðs, en á það hefur Framsfl. alltaf lagt áherzlu, að það megi aðeins gera með samkomulagi milli launþega og framleiðenda, og Sjálfstfl. hefur sett það sama inn í kosningastefnuskrá sína frá því í haust, þó að nú eigi að svíkja það kosningaloforð, eins og raunar fleiri. Nú á að lögbanna vísitöluákvæðið í kjarasamningum. Það er skoðun mín, að þetta sé mjög hættulegt ákvæði í frv. og kannske það ákvæði, sem beri í sér örlög þeirra ráðstafana, sem hér eru til umræðu. Það hefur engan tilgang að setja svona ákvæði í lög, vegna þess að vilji launþegar ekki fallast á það með frjálsum samningum, þá leiðir lagaákvæði um það ekki til neins nema vandræða. Árangurinn verður aðeins sá, að kjarasamningar verða gerðir til styttri tíma, vinnudeilur og verkföll tíðari og eilífur ófriður á vinnumarkaðinum, sem leiðir til tjóns fyrir launþega, fyrir atvinnurekendur og fyrir þjóðfélagið allt. Hér er því um að ræða algerlega tilgangslausa ögrun við launþegasamtökin, sem ekkert getur leitt af nema vandræði. Stjórnarflokkarnir hafa enga von um það, að launþegar sætti sig við þá gífurlegu kjaraskerðingu, sem af ráðstöfunum þessum leiðir, m.a. vegna þess, að launþegar sjá það, að hún er ekki nauðsynleg til þess að halda áfram blómlegu athafnalífi og miklum framkvæmdum. Það er raunar skoðun mín, að þjóðin sé þess albúin að taka á sig nokkrar fórnir, ef þær væru nauðsynlegar, til þess að geta haldið áfram atvinnuuppbyggingunni í landinu, en ekki til þessa, sem hér er stefnt að.

Ég kem þá að þriðja meginatriði þessa frv., sem er vaxtahækkunin. Vextir eru þegar hærri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Samt er sagt, að þeir séu of lágir og það sé framboð og eftirspurn peninganna, sem eigi að ráða um það, hvað vextir skuli vera háir í landinu, þó að til þess að svo megi verða, þurfi að afnema, okurlögin.

Það hafa á undanförnum áratugum orðið hér á landi miklar og stórstígar framfarir. Á þessu tímabili hafa verið byggð upp öll þau atvinnutæki, sem þjóðin er hreykin af og það með réttu. Ég hika ekki við að fullyrða, að meginhluti þessarar uppbyggingar hefði farizt fyrir, ef hin fræðilegu kapítalistísku lögmál um framboð og eftirspurn peninga hefðu ráðið vöxtum af því fé, sem til þessa hefur gengið.

Framsfl. beitti sér fyrir 30 árum fyrir þeirri stefnu, sem síðan hefur verið fylgt í fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Það hafa verið byggðir upp myndarlegir sjóðir, að vísu ekki nægilega stórir, m.a. vegna þess, að verðbólgan hefur nagað þá sí og æ, en þeir eru myndarlegir samt. Þessir sjóðir hafa verið byggðir upp til þess að annast fjárframlög til uppbyggingarinnar í landinu. Vextir af þessum sjóðum eru ákveðnir með lögum, og það er greinilegt, að löggjafinn hefur aldrei ætlazt til þess, að framboð og eftirspurn peninganna réði vöxtum af þessu fé, heldur voru vextirnir ákveðnir lágir til stuðnings við uppbygginguna í landinu. En með áratugastarfi löggjafans hafa verið festir í lög miklir lagabálkar um þessa sjóði; um fiskveiðasjóð, um stofnlánadeild sjávarútvegsins, um byggingarsjóð sveitanna, ræktunarsjóð, um húsnæðismálasjóðina, þ.e. byggingarsjóð ríkisins, byggingarsjóð verkamanna, raforkusjóð. Eitt meginatriði þessara lagabálka er sú vaxtapólitík, sem þar er ákveðin. Nú á að brjóta þetta allt niður með einni grein, 32. gr. í frv., sem segir, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða vaxtakjör og lánstíma í þessum sjóðum, og með annarri grein, 31. gr., eru svo okurlögin í rauninni numin úr gildi, til þess að ríkisstj. geti farið sínu fram í þessu máli. Jafnframt þessu er svo gert ráð fyrir því í grg., að útlán bankanna skuli ekki fara fram úr því, sem þau eru nú. Þessi ákvæði hljóta, ásamt þeim miklu verðhækkunum, sem leiðir af þessum ráðstöfunum, að leiða til hins alvarlegasta samdráttar í atvinnulífi okkar, í viðskiptalífi og sérstaklega í fjárfestingu og þá fyrst og fremst í fjárfestingunni úti um land.

Það er þessi samdráttarstefna, sem einkennir þetta frv. öðru meira, þetta algera frávik frá þeirri uppbyggingarstefnu, sem fylgt hefur verið á undanförnum áratugum. Og það á fyrst og fremst að stöðva fjárfestinguna, uppbyggingu atvinnuveganna. Eyðslan má gjarnan halda áfram hjá þeim, sem enn kunna að eiga einhverja peninga, eftir að ráðstafanir þessar eru í gildi gengnar, og til þess að svo megi verða, á að taka 800 millj. kr. lán hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum.

Talsmenn frv. halda því fram, að vaxtahækkunin sé nauðsynleg til þess að auka sparifjármyndunina í landinu. En það eru áreiðanlega aðrar leiðir betri til þess að vernda hagsmuni sparifjáreigenda en sú stórfellda gengislækkun og eftirfylgjandi verðhækkanir, sem hér eru ráðgerðar. Víst er það rétt, að það ber að verðlauna sparifjáreigendur og skattleggja þá, sem miklu eyða. En það á ekki að gera það með því að leggja í rúst þá vaxtapólitík, sem allar framfarir þjóðarinnar hafa byggzt á um áratugi. Framsfl. hefur bent á leiðina í þessu efni, sem er eyðsluskattar og verðtrygging sparifjár, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) hefur borið fram till. um hér á hv. Alþingi. Það hefur komið svo greinilega í ljós, að það verður á engan hátt vefengt, að verðtrygging er sparifjáreigendunum miklu meira virði en háir vextir. En í stað þess er valið að hækka vextina gífurlega og draga með því úr fjárfestingunni og uppbyggingunni, enda er ekki dregin nein dul á það í frv., því að í grg. segir á bls. 24, að ráðstafanirnar geri Seðlabankanum kleift að flytja nokkurn hluta þess fjármagns, sem undanfarið hefur farið til fjárfestingarlána, yfir í rekstrarlán atvinnuveganna. Það er ljóst, að vexti af rekstrarlánum atvinnuveganna hlýtur almenningur í landinu eðli málsins samkvæmt að borga. Og þeir geta borgað háa vexti, sem geta þannig velt þeim yfir á aðra. Þessi ákvæði koma ekki verst við þá, sem verzla eða annast viðskipti. Þeir velta vöxtunum yfir á vöruverðið og þar með almenning. Það er fyrst og fremst unga fólkið, sem er að byggja sér íbúðir, ef til vill að koma fótunum undir atvinnurekstur af einhverju tagi til sjávar og sveita, sem verður fyrir barðinu á vaxtahækkuninni og lánsfjársamdrættinum. Og svo er það landsbyggðin, fólkið úti um allt land, sem hefur notíð góðs af þeirri atvinnuuppbyggingu og framförum, sem fram hafa farið þar.

Það vita allir, hvert einkafjármagnið hefur flutzt og flyzt. Útgerðarmenn og aðrir, sem efnazt hafa í dreifbýlinu, flytjast suður, þegar þeir eru komnir í efni.

Það fé, sem er tiltækilegt til fjárfestingar í dreifbýlinu, er, auk opinberra framlaga, peningar úr þeim sjóðum, sem nú á að eyðileggja eða a.m.k. gera þannig, að fólkið geti ekki notað sér þá, og svo er það fé, sem útvegað er með lántökum með ríkisábyrgð. Nú hafa hæstv. ráðh. mjög undirstrikað það í þessum umræðum, hvað hættulegar þessar ríkisábyrgðir séu og að þeim þurfi að hætta. Það á sem sagt einnig að taka fyrir þetta. Þriðja leiðin, sem fólkið hefur haft til þess að halda fjármagninu í byggðarlögunum, eru fjármyndanir samvinnufélaganna. Sjóðir samvinnufélaganna eru eina fjármagnið, sem verður ekki flutt burt úr byggðarlögunum, en það skal ekki heldur fá að vera í friði. Samkv. 33. gr. frv. skal réttur Seðlabankans til þess að binda fé banka og sparisjóða einnig ná til innlánsdeilda kaupfélaganna. Einnig þetta fé skal flytja suður. En sé þetta talið réttlæti gagnvart samvinnumönnum, sem vilja leggja sínum eigin félögum til rekstrarfé, þá sakna ég ákvæða í þessu frv., sem teygja lúku Seðlabankans inn í þá sjóði, sem eignamennirnir eiga inni hjá fyrirtækjum sínum.

Í upphafi máls míns sýndi ég fram á það, að málflutningur hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli byggðist að verulegu leyti á blekkingum og ýkjum. Efnahagsástand þjóðarinnar er málað dekkri litum en nokkur heil brú er í, en tilgangurinn er sá að hræða þjóðina til þess að sætta sig við ráðstafanir, sem virðast vera ákveðnar í írafári og án nægilegrar umhugsunar. En það er verið að hræða fleiri. Hvað halda þær þjóðir um okkur, sem við viljum helzt eiga viðskipti við, þjóðir, sem eiga að baki langa þroskasögu og hafa byggt sig þannig upp, að ég sé ekki ástæðu til þess að efa, að þeim geti hentað það hagkerfi, sem sniðið er beint eftír hinum fræðilega kapítalisma? Það hefði verið nær að eyða tíma og orku í það að skýra fyrir þessum þjóðum sérstöðu ökkar Íslendinga, efla skilning þeirra á hinum sérstöku vandamálum, sem hafa skapazt í sambandi við okkar hröðu atvinnuuppbyggingu, héldur en ætla sér að gleypa í einum bíta þeirra hagkerfi í sínu versta formi.

Það er enginn vafi á því, að afleiðingar þessara ráðstafana, ef framkvæmdar verða, verða mjög alvarlegar. Hjá launþegum leiða þær til stórhækkunar á neyzluvörum þeirra og jafnframt fljótlega til minnkandi atvinnu og jafnvei atvinnuleysis, sem er versta form kjaraskerðingar, sem hugsanlegt er. Hjá bændum leiðir þetta ekki aðeins til hækkunar á rekstrarvörum þeirra, sem gera verður að óreyndu ráð fyrir að fáist bættar í afurðaverði, og til hækkunar á neyzluvörum eins og hjá öðrum landsmönnum, sem er ekki gert ráð fyrir að verði bætt þeim frekar en öðrum, heldur leiðir þessi nýja stefna í efnahagsmálum einnig til sölutregðu vegna minnkandi kaupgetu neytenda.

Víst er um það, að uppbóta- og styrkjakerfið er meingallað og hvimleitt. En það er mikið hægt að laga það enn þá, og það gefur okkur möguleika á nú enn um sinn að nýta allar auðlindir okkar eða a.m.k. fleiri en þær, sem nýttar verða, ef gróðasjónarmiðið ræður eitt. Við getum tryggt næga atvinnu í landinu og mikla framleiðslu- og atvinnuuppbyggingu. Og gamla kerfið hefur nokkurn kost, sem það, sem nú er boðað, skortir algerlega: Það er hægt að laga það nokkuð í hendi sér. En ef gengið er stórlega lækkað og verðbólguskrúfan sett af stað og launþegar sætta sig ekki við það, sem auðvitað er ekki heldur hægt að ætlast til, hvað þá? Á þá að snúa við? Nei, þá snýr nefnilega enginn við. Þá erum við algerlega bjargarlausir í hringiðu hinnar sönnu óðaverðbólgu. Þá hafa eyðslulánin aukizt um 800 millj. kr., verðbólgan um yfir 1000 millj. kr. og tekur á sig meiri ofsahraða en nokkru sinni fyrr. Þeirri þjóðarógæfu verður að afstýra, og því verður að fella þetta frv. eða vísa því frá. Það er í rauninni furðulegt, að ríkisstj., sem styðst við jafnveikan meiri hl. utan þings og innan eins og núv. hæstv. ríkisstj., skuli leyfa sér að ráðast í jafnróttæka gerbyltingu á öllum sviðum okkar þjóðlífs.

En sé róttækra aðgerða þörf, þá ber í fyrsta lagi að gera fyrir því gleggri tölulega grein en hv. Alþingi hefur verið gerð í sambandi við þetta frv., í öðru lagi verður að finna aðrar leiðir en þær, sem boðaðar eru í þessu frv., og í þriðja lagi verður að ná um þær viðtækari samvinnu en nú hefur verið gert. Að þessu miðar dagskrártill. hv. 1. þm. Norðurl.v. (SkG), sem ég leyfi mér að mæla með að verði samþykkt.