12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

48. mál, efnahagsmál

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 95 og vil vekja athygli hv. d. á því, að þskj. hefur verið prentað upp aftur.

1. brtt., sem er breyt. við 4. gr., er ekki hugsuð sem nein efnisbreyting, heldur þótti eftir nánari athugun skera betur úr að tiltaka ákveðinn mánaðardag, 28. janúar, og sýnt, að með öðrum hætti mundi í ýmsum tilvikum geta orðið ágreiningur um túlkun þessarar greinar.

2. brtt. miðar að því að undanþiggja nýja og þurrkaða ávexti 30% innflutningsgjaldi og mun hafa í för með sér 10% verðlækkun á þessum vörum frá því, sem nú er.

3. brtt. n., við 31. gr. frv., er ekki heldur efnisbreyting. Það liggur í hlutarins eðli, að aðilum, þ.e.a.s. lánveitendum og lántakendum, hefur verið heimilt að semja um breytilega vexti innan þess hámarks, sem heimilt er á þeim tíma, sem til skuldar er stofnað, enda kemur þessi skilningur skýrt fram í skýringum við þessa grein frv., en þar segir m.a.: „Ákvæði þessarar greinar eru ekki því til fyrirstöðu, að samið sé um vexti af skuld með vöxtum, er séu breytilegir í samræmi við almennar vaxtabreytingar. Hins vegar gera þau ekki kleift að breyta eldri lánssamningum, þar sem vextir eru fastákveðnir.“ Meiri hl. n. þótti hins vegar rétt að taka efni þessarar skýringar við frvgr. upp í frvgr. sjálfa, ekki aðeins til að taka af allan vafa um túlkun þessarar greinar, heldur miklu fremur til ábendingar fyrir almenning um þá samningsmöguleika, sem í þessu eru fólgnir.

Augljóst er, að fyrirhugaðar eru vaxtahækkanir jafnt á innlánsvöxtum sem útlánsvöxtum til þess að stuðla að jafnvægi í peningamálum, en gert er ráð fyrir því, að þessi vaxtahækkun sé nauðsynleg aðeins um skamma hríð. Það er því ástæða til þess að láta möguleikana um breytilega vexti koma vel fram, til þess að menn bindi sig ekki á löng lán, einkum byggingalán eða fasteignalán, með óbreytilegum vöxtum á þeim tíma, sem vextir eru hæstir, sem kannske verður aðeins um skamma hríð.

Þá er það brtt. sama meiri hl. á þskj. 102. Þessi till. er fram komin vegna þess, að æskilegt er talið að kveða nánar á um meðferð gjaldeyris til greiðslu á umboðslaunum og fleira, sem borizt hefur bönkunum undanfarið. Hafa sumir móttakendur slíkra greiðslna ekki veitt þeim viðtöku í von um, að þeir geti selt gjaldeyrinn á nýju gengi, þegar frv. er orðið að lögum. Rétt þykir að miða hér við þann dag, sem tilkynning berst hérlendum banka um greiðsluna, og nýja gengið gildi við kaup á gjaldeyri, sem tilkynning berst um eftir 16, febr. 1960. Með þessu ákvæði er því tekinn af allur vafi um það, frá hvaða tíma skuli greiða nýja gengið á slíkar greiðslur.