12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

48. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að víkja ofur lítið að því, sem sumir hæstv. ráðh. hafa sagt um þá ræðu, sem ég flutti hér við 1. umr. Ég hef ekki talað síðan í þessu máli og taldi ekki ástæðu til þess að tala oftar en einu sinni við 1. umr., þó að ég hefði ástæðu til að svara mörgu, vegna þess að ég sá, að það mundi vera hægt að koma því við að svara því, sem sérstök ástæða væri til að svara, við 2. umr. málsins. Hef ég þess vegna dregið að taka til máls á nýjan leik og mun draga saman í örfá orð það, sem ég sé ástæðu til þess að víkja að í ræðum annarra.

Ég hélt því hér fram í þessari ræðu, sem ég flutti við 1. umr., að í þessu frv. og stefnu stjórnarinnar fælist gífurlegur samdráttur í þjóðarbúskapnum, sem hlyti að hafa í för með sér stórfellda kjaraskerðingu ot; samdrátt á atvinnu og væntanlega atvinnuleysi, ef þetta áform hæstv. ríkisstj., sem nú hefur verið lýst fyrir þingheimi, heppnaðist. Ég benti á, að ástæður þær, sem hæstv. ríkisstj. færir fyrir þessum ósköpum, eru hreinar tylliástæður. Það er minni vandi nú í efnahagsmálum en oft hefur áður verið. En á hinn bóginn er ætlunin að nota tækifærið núna til þess að koma fram alveg nýrri stefnu í þjóðmálum, sem miðar við að draga úr öllum þjóðfélagslegum stuðningi við almenning í landinu, en efla peningavaldið í landinu að sama skapi. Það er látið í veðri vaka m.a., að það þurfi að leggja út á þessa braut til þess að rétta gífurlegan greiðsluhalla við útlönd, og alveg sérstaklega hefur því verið lýst yfir í umræðunum, að það væri nauðugur einn kostur að draga stórkostlega saman og þjóðin yrði að þrengja að sér á allar lundir, vegna þess að það væri ekki lengur hægt að fá framkvæmdalán erlendis. Ég hélt því fram, að þetta væri hreinn tilbúningur, og ég held því fram enn, að þetta sé hreinn tilbúningur. Ég spurði þá að því, hver hefði lýst því yfir, að ekki væri hægt að lána Íslandi meira, nema tekin væri upp sú íhaldsstefna, sem gert er ráð fyrir í þessum tillögum. Hver hefur sagt það? Hæstv. ráðh. hafa ekki svarað þessari spurningu, enda er ég viss um, að það hefur enginn sagt. Þetta er tylliástæða, búin til af hæstv. ríkisstj. til að hafa að skálkaskjóll fyrir þeim aðförum, sem nú er verið að hefja í landinu. Eða hver trúir því, að það séu allar dyr lokaðar fyrir Íslandi nú allt í einu til þess að fá framkvæmdalán, en allar dyr upp á gátt til þess að fá eins mikið og stórt eyðslulán og ríkisstj. bara sýnist? Eða það kalla ég, þegar bollalagt er að taka eyðslulán, ef svo vill verkast, allt að 20 millj. dollara eða 780 millj. króna.

Í sambandi við þessa ræðu, sem ég flutti hér við 1. umr., kvaddi hæstv. dómsmrh. sér hljóðs, og hann sagði, að það, sem ég hefði haldið fram um þessi efni, væri furðulegt og alveg í mótsögn við það, sem ég hefði sagt fyrir nokkrum árum um þessi efni, og síðan hóf hæstv. ráðh. að lesa hér upp langa ræðukafla eftir mig um efnahagsmál og erlendar lántökur. Og um hvað voru þessir kaflar, sem hæstv. ráðh. var svona hrifinn af og þótti svona mikill fengur í að fá inn í þessar umræður? Um hvað voru þeir?

Á annan bóginn var því þar haldið fram, að menn skyldu vara sig á því, að land eins og Ísland gæti ekki fengið ótakmarkað lán, bara eins og mönnum sýndist á hverjum tíma, alveg ótakmarkað lán til framkvæmda. Þetta fannst hæstv. dómsmrh. stórfelldur fengur, að ég skyldi nokkurn tíma hafa sagt, að það gætu verið takmörk fyrir því, hvað land eins og Ísland gæti tekið mikið lánsfé í einu til framkvæmda og gæti ekki fengið ótakmarkað lán. Enn fremur var í þessum ummælum minnt á, að fjárfestingin gæti orðið of mikil, og þessi ummæli munu hafa verið frá 1947, sum af þeim, og þá sagði ég, að fjárfestingin væri of mikil og þyrfti að draga úr henni. Þetta fannst hæstv. dómsmrh. líka stórfellt innlegg í þetta mál, sem hér liggur fyrir, að ég skyldi nokkurn tíma hafa sagt, að fjárfestingin gæti orðið of mikil. Sennilega er hugsanagangur hæstv. dómsmrh, þannig, að af því að ég tók það fram, að það gætu verið takmörk fyrir því, hvað land eins og Ísland gæti fengið mikið framkvæmdalán, þá hlyti það að vera þannig nú, að Ísland gæti engin framkvæmdalán fengíð, og af því að ég hafði einhvern tíma varað við því, að fjárfestingin væri of mikil, þá ætti að slá fjárfestinguna niður eða draga úr henni um mörg hundruð millj. á ári, eins og hæstv. ríkisstjórn gerir ráð fyrir í þeim till., sem hér liggja fyrir.

En það er fróðlegt að athuga í þessu sambandi, hvers vegna ég var á þessum árum að benda þjóðinni á, að það væru takmörk fyrir því, hvað land eins og Ísland gæti fengið mikil framkvæmdalán í einu. Hvers vegna var ég að benda á það þá? Það var vegna þess, að það voru þá til menn hér, sem héldu því fram, að lántökur vinstri stjórnarinnar til framkvæmda væru hreinn hégómi, og fundu vinstri stjórninni helzt það til foráttu, hversu lélegan og lítinn aðgang hún ætti að erlendum lánum samanborið við það, sem þjóðin þyrfti, og samanborið við þann aðgang að erlendum lánum, sem aðrir hefðu. Hverjir voru það, sem héldu þessu fram? Sjálfsagt ekki þeir, sem nú segja, að þjóðin verði að herða sultarólina vegna þeirra framkvæmdalána, sem vinstri stjórnin tók. Það geta ómögulega verið þeir, sem héldu þessu fram. Það er alveg óhugsandi.

Jú, það getur margt skeð. Það voru einmitt þeir, sem héldu þessu fram. Það voru m.a. hæstv, dómsmrh. og hæstv. núverandi forsrh., sem héldu þessu fram og sögðu: Þjóðin hefur hleypt til valda mönnum, sem geta ekki útvegað það erlenda lánsfé, sem þjóðin þarf, en það hefðu aðrir getað. Og svo bjuggu þeir til sögu um, að núverandi hæstv. forsrh. hefði getað fengið hjá dr. Adenauer, forsrh. Þýzkalands, 450 millj. kr. lán á einu bretti og hefði ekki hikað við að taka það og þar að auki á annað hundrað millj. kr. að láni í Bandaríkjunum til virkjunar Sogsins. Og út frá þessum skáldsögum var svo sunginn sá söngur, að það væri bara hreinn hégómi, sem tekið væri að láni. Menn hefðu kosið til þess að standa fyrir málefnum landsins fólk, sem ætti ekki neinn aðgang að lánastofnunum eða lánum yfirleitt utan landssteinanna. Mönnum hefði verið nær að kjósa þá. Þeir mundu hafa verið búnir að taka 600 millj. kr. að láni minnst, á sama tíma sem vinstri stjórnin tók kannske ekki nema eins og helminginn af þeirri fjárhæð. En nú koma þessir loddarar, sem þennan leik léku hér á árunum, fyrir örfáum árum, og segja, að framkvæmdalántökurnar séu í þann veginn að steypa Íslandi á höfuðið. Haldið þið, að nokkrum manni detti í hug að taka þessa menn alvarlega eða það, sem þeir segja um efnahagsmál landsins, — menn, sem eru orðnir uppvísir að svona loddaraleik í þessum efnum bæði fyrr og síðar?

Þá voru skáldaðar sögur um, að þeir ættu aðgang að mörg hundruð millj. kr. lánum hér og þar, sem þeir mundu hiklaust taka. En núna eru búnar til sögur um, að Ísland geti hvergi fengið lán, — búnar til sögur um það. Það er sams konar tilbúningur og hitt, sem handa þjóðinni var matreitt á sínum tíma, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. En nú á það við að búa til þessa sögu til að reyna að hræða þjóðina inn á þá stefnu, sem þeir hafa nú tekið upp og á að vera í því fólgin að hætta framkvæmdalántökum, taka eyðslulán í staðinn og þrengja að mönnum hér innanlands og gerbreyta um efnahagsmálastefnu í þá átt, sem ég og fleiri höfum verið að lýsa.

Þetta eru þokkalegar aðfarir — eða hitt þó heldur. En þannig er þetta. Það er ekki vitund meira að marka þessar sögur, sem nú eru sagðar um lokaða möguleika til, að Ísland geti fengið framkvæmdalán, en lygasögurnar, sem þeir bjuggu til hér á árunum um, að alls staðar væru þeim opnar dyr til þess að fá mörg hundruð millj. ísl. kr. fyrirhafnarlaust. Vitanlega hafa alltaf verið takmörk fyrir því, hvað hægt er að fá af framkvæmdalánum fyrir land eins og Ísland. Samt sem áður hefur alltaf verið hægt að fá þessi lán og er auðvitað enn hægt að fá framkvæmdalán, ef stjórnin vildi snúa sér að því, enda er skemmst að minnast þess, að rétt áður en vinstri stjórnin fór frá, hafði hún undirbúið 6 millj. dollara framkvæmdalántöku í Bandaríkjunum, sem núverandi ríkisstj. hefur ekki þorað að hætta við að taka. Það má segja, að það sé að leggjast nokkuð lágt að halda því fram, eins og nú er gert, að jafnskjótt og þessir menn settust í ráðherrastólana, hafi horfið gersamlega allt lánstraust Íslands. Það hefur þá gerzt um leið, því að það lá fyrir um það leyti, sem vinstri stjórnin fór frá, að það var hægt að fá framkvæmdalán.

Þá vil ég ofur lítið fara hér inn á greiðsluhallann við útlönd, eins og hann er túlkaður í því áróðursriti, sem fylgir sjálfu frv. og kallað er grg. og nú hefur verið sérprentað á kostnað landsmanna og sent inn á hvert heimili á landinu. En það er algerlega óheimil fjártaka af ríkisstjórnarinnar hendi af almannafé. Þar er því haldið fram alveg hiklaust, að það hafi verið stórkostlegur halli á þjóðarbúskapnum, og nokkuð mikið í því sambandi talað um eyðslulán. En dálítið er nú farið að draga niður í hæstv. ríkisstj. varðandi þessar fjarstæður, því að hæstv. viðskmrh. játaði hér í dag, að það væri kannske réttara að kalla framkvæmdalántökurnar fjármagnsinnflutning heldur en halla á þjóðarbúskapnum. Þetta er veruleg framför, og eiginlega ætti nú hæstv. ríkisstjórn að gefa út eins konar viðauka við bókina Viðreisn með þessari nýju túlkun og nýja viðhorfi ríkisstjórnarinnar, — eins konar viðbót, sem hún gæti sent í eftirsendingu, um, að það væri villa í bókinni, að það væri ekki svona mikill halli á þjóðarbúskapnum eins og þar væri gert ráð fyrir, hann væri nokkrum hundruðum milljóna kr. minni. Það væri nefnilega misskilningur, það hefði mest af þessu verið framkvæmdalán og ætti að heita fjármagnsinnflutningur, en ekki halli á þjóðarbúskapnum.

Við skulum athuga ofur lítið þennan málflutning nánar í framhaldi af því einmitt, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Ekki hafði hann sig nú í að gera grein fyrir því, hvað mikið af hallanum, sem þeir telja á þjóðarbúskapnum, væri raunverulega vegna framkvæmdalánanna. En það er máske hægt að taka af honum ómakið í því að nokkru leyti. En áður en ég kem að því, vil ég benda á eitt, sem hæstv. viðskmrh. sagði í sínum málflutningi og er alveg einstakt. Hann sagði, að ég hefði mótmælt því, að það væri svo stórfelldur halli á þjóðarbúskapnum, og ég hefði byggt á því, að erlendu lántökurnar hefðu verið lægri en heildarfjárfestingin, þess vegna væri alveg sjálfsagt að kalla þær framkvæmdalántökur. Þetta er algerlega rangt hjá hæstv. ráðh., að ég hafi nokkru sinni viðhaft slíkan málflutning. Ég hélt því fram, að hér væri um framkvæmdalán að ræða að mestu leyti, vegna þess að lánin sjálf, lánsféð sjálft eða mótvirði þess í ísl. peningum hefði gengið beint í framkvæmdir á Íslandi. Og þau lán ein, sem þannig eru notuð, kalla ég framkvæmdalán.

En það væri kannske fróðlegt í þessu sambandi að upplýsa það, áður en lengra er farið út í þetta mál, hvernig hlutfallið hefur verið á undanförnum árum á milli heildarfjárfestingar í landinu og erlendra lántaka, og er þá talinn með allur innflutningur á erlendu lánsfé, hvort sem hann er í formi langra lána eða stuttra lána. Ég vil því upplýsa það, að á árunum 1956–58 var fjárfestingin að meðaltali 1479 millj., en þá námu erlendar lántökur árlega frá 7–12% af heildarfjárfestingunni, þannig að frá 88–93% af fjárfestingunni var greitt af fjármunum landsmanna sjálfra á þessum árum, sem framkvæmdalántökurnar hafa verið mestar. Þetta er ákaflega athyglisverður hlutur og því ákaflega stórfellt átak, sem hér hefur átt sér stað í fjárfestingarmálum. Er fróðlegt t.d. að bera þetta saman við tímabilið 1950–53, þegar þjóðin naut mikils gjafafjár erlendis frá, en þá nam gjafaféð — lán voru þá sama sem engin — frá 15–25% af fjárfestingunni. Á síðari árum hefur því, þrátt fyrir stórkostlega aukna fjárfestingu, minni hluti af henni verið fjármagnaður eða borgaður með erlendu fé en áður. Þjóðin hefur því ekki aðeins aukið fjárfestingu sína á þessu tímabili, heldur hefur hún einnig í vaxandi mæli kostað aukna fjárfestingu af sínu eigin fé. Þetta eru náttúrlega út af fyrir sig mjög athyglisverðar tölur fyrir þá, sem halda því fram, að á undanförnum árum hafi verið stórkostlegur halli á þjóðarbúskapnum.

En víkjum þá nánar að hallanum og lántökunum sjálfum og reynum að skoða, hvað hæft er í þeirri fullyrðingu, sem t.d. hæstv, fjmrh. lét sér um munn fara í fjárlaf;aumræðunum nú fyrir skemmstu, þar sem hann leyfði sér að segja, að minnstur hluti af lántökum undanfarinna ára hefðu verið framkvæmdalán. Ég verð að segja, að mér blöskraði alveg, annaðhvort sú óskammfeilni eða sú vanþekking, því að annaðhvort hlýtur það að vera, sem kom fram í þessum ummælum hæstv. fjmrh.

Við skulum líta á árin 1956–58, því að á þeim árum hefur lánsfjárnotkunin verið mest og þeim hefur verið tíðræddast um þetta tímabil og sagt, að á því tímabili hafi svona stórfelldur halli verið á þjóðarbúskapnum, og það sé ekki sízt vegna hans, sem menn þurfi nú að leggja að sér. Á þessum árum er hallinn á þjóðarbúskapnum talinn í grg. þeirra rúmar 600 millj. kr., og mikið hefur verið fjargviðrazt út af því, að þá hafi myndazt rætur að miklu meini. En ef við nú skoðum lántökur erlendis á þessu árabili og lítum yfir þær, eins og gert er í nál. 1. minni hl. fjhn. á þskj. 97, þá lítur dæmið þannig út, með leyfi hæstv. forseta, — ég les upp lista yfir þær lántökur, sem fóru fram á þessum árum:

Það er lán vegna ræktunarsjóðs, raforkusjóðs, fiskveiðasjóðs og sementsverksmiðju 65.3 millj. Lán til flökunarvélakaupa 17.6 millj. Lán vegna hafnargerðar á Akranesi 6.7 millj. Lán vegna Sogsvirkjunar og raforkusjóðs 81.6 millj. Lán vegna Sogsvirkjunar 36.4 millj. Lán vegna raforkusjóðs, sementsverksmiðju, ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs 81.6 millj. Lán vegna raforkusjóðs, sementsverksmiðju, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs 32.9 millj. Lán vegna Sogsvirkjunar og rafmagnsveitna ríkisins 27.7 millj. Lán vegna frystihúsa og fleiri framkvæmda 1.9 millj. Lán vegna Flugfélags Íslands til flugvélakaupa 33 millj. Lán vegna kaupa á 12 skipum 50 millj. Lán vegna framkvæmda landssímans 9 millj. Lán vegna rafmagnsveitna ríkisins, vélakaup í virkjanir, 4.8 millj. Lán vegna Akraneshafnar 1.4 millj. Lán vegna Strætisvagna Reykjavíkur 600 þús. Og lán vegna bæjarútgerðar Hafnarfjarðar 2.9 millj. Eða samtals 453.4 millj. Og þetta eru allt framkvæmdalán. Ekkert af þessu eru eyðslulán. Eða hver þorir að halda því fram, að þær framkvæmdir, sem ég hef minnzt á, hafi verið eyðsla? Þar að auki eru án ríkisábyrgðar á þessu sama tímabili: Eimskipafélag Íslands, Eimskipafélag Reykjavíkur og Samband ísl. samvinnufélaga, skipakaupalán, samtals 108 millj. Þarna eru framkvæmdalán og skipakaupalán á þessu tímabili rúmar 560 millj., og afborganir af eldri lánum eru á þessu tímabili 136 millj. En þær eru líka taldar með í „hallanum“ á þjóðarbúskapnum hjá stjórninni.

Svo kemur hæstv. fjmrh. fram á Alþingi og leyfir sér að segja annað eins og það, að erlendar lántökur á síðari árum hafi að minnstu leyti verið framkvæmdalán, og öll hersingin leyfir sér að gefa út bók á kostnað ríkissjóðs til þess að halda því fram, að á þessum árum hafi verið stórkostlegur gjaldeyrishalli og halli á þjóðarbúskapnum.

Þá skulum við athuga ofur lítið árið 1959, því að ég skoðaði áðan árin 1956-58. Um þau lesum við þann fróðleik, — ég vil biðja menn að taka eftir því, — lesum við þann fróðleik í nál. og bókinni, sem kostuð hefur verið af almannafé til þess að dreifa út um landið, sem hér greinir, með leyfi hæstv. forseta:

„Upplýsingar liggja enn ekki fyrir um það, hver hallinn hafi verið á árinu 1959, en gera má ráð fyrir, að hann hafi ekki verið lægri en 350 millj. kr. Af þeirri upphæð voru 92 millj. jafnaðar með eyðingu gjaldeyriseigna og myndun gjaldeyrisskulda og hinn hlutinn eða um 260 millj.“ — takið eftir því, af þeirri upphæð voru 260 millj. jafnaðar „með erlendum lánum opinberra aðila og einkaaðila.“

Síðan er getið um birgðaaukninguna á móti. En ég hef spurt hæstv. viðskmrh. eða réttara sagt: ég hef krafizt þess að fá þann lista um erlendar lántökur, sem hlyti að standa að baki þessarar tölu, því að það er sagt hér í grg. og hinu fræga riti, að erlendar lántökur hafi orðið á árinu 260 millj. kr. Ég hefði viljað fá þennan lista til þess að geta skoðað, hvort hér hafi verið um framkvæmdalán eða eyðslulán að ræða, alveg eins og ég hef nú gert varðandi árin 1956–58. En með því, sem ég hef sagt um þau, er gersamlega hrakið allt það, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram um þessi ár. Og hæstv. ráðh. tók vel í að gefa mér þessar upplýsingar, en síðar skeði það, að hann rétti mér blað í dag, þar sem eftirfarandi upplýsingar eru um árið 1959, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er snertir greiðslujöfnuðinn fyrir 1959 telur hagfræðideild Landsbankans“, — ég vil taka það fram, að það er sú deild, sem á að fylgjast með greiðslujöfnuðinum og á að bera ábyrgð á þeim tölum, sem gefnar eru til upplýsingar um þau efni, — „að því er snertir greiðslujöfnuðinn fyrir 1959 telur hagfræðideild Landsbankans ekki mögulegt að gefa neinar upplýsingar um hann að svo stöddu.“ En haldið þið, að hæstv. ríkisstj. sé í nokkrum vandræðum, þó að þessi deild geti ekki að svo stöddu gefið nokkrar upplýsingar um þessi efni? Því segir hér í framhaldi af þessu: „Talan 350 millj. er áætlunartala, sem byggð er á því, sem nú er vitað um helztu liðina í greiðslujöfnuðinum, þ.e. útflutning, innflutning og varnarliðstekjur. Þessi tala getur að sjáifsögðu breytzt verulega, þegar nákvæmar upplýsingar liggja fyrir.“

Ég hef marggengið á hæstv. viðskmrh. og sagt við hann: Það hlýtur þó að vera til einhver listi á bak við þessa tölu um lántökur ársins 1959. — En hann hefur nú upplýst, að það er enginn slíkur listi til. Það hefur einhver tekið sér fyrir hendur að áætla þessar tölur á hné sér og gefa síðan þær upplýsingar, sem eru í nál. og bókinni, sem send hefur verið öllum landsmönnum. Þannig eru heimildirnar, sem notaðar eru fyrir því að sigla út með aðrar eins ráðstafanir varðandi þjóðarbúskap landsmanna og þessar till. hæstv. ríkisstj. eru. Svona eru grundvallaðar fullyrðingar þessara manna um hinn gífurlega halla á þjóðarbúskapnum, sem þurfi að setja allt á annan endann í landinu til þess að jafna. Sú stofnun í landinu, sem hefur þessi efni með höndum, segir berum orðum, eða það er haft eftir henni berum orðum í skýrslu frá ríkisstj. sjálfri, „að því er snertir greiðslujöfnuðinn fyrir 1959 telur hagfræðideild Landsbankans ekki mögulegt að gefa neinar upplýsingar um hann að svo stöddu.“

Ef við svo athugum þessa hluti ofur lítið nánar, get ég ekki stillt mig um það að minnast í því sambandi, — nú, ég sé, að það hefur einhver tekið Alþýðublaðið, sem ég skildi hér eftir áðan í því skyni, — þá get ég ekki komizt hjá því að minnast ofur lítið nánar á þessi vinnubrögð öll og hvernig þeim er háttað. Við munum nú öll eftir því, hvernig málflutningurinn hefur verið í sambandi við útflutningssjóðinn. Það var sagt allt s.l. ár, að útflutningssjóðurinn væri fullur af peningum, en nú er okkur sagt, að það vanti stórfé í útflutningssjóðinn, og allt annað hefur verið eftir þessu. Við þekkjum blekkingarnar um greiðslujöfnuðinn, sem hafa nú verið afhjúpaðar stig af stigi hér síðustu daga, og satt að segja eru engu líkar af því, sem ég hef séð flutt fram til stuðnings stjórnarathöfnum þau ár, sem ég hef komið nálægt þjóðmálum. En það, sem ég nú upplýsi, sýnir mönnum, að það er svo sem fullt samræmi í þessum vinnubrögðum. Því var nefnilega þannig háttað, að í októbermánuði s.l. benti eitt af blöðum landsins á, að það virtist vera að verða nokkuð mikill gjaldeyrishalli á árinu 1959. Þá rauk ríkisstj. upp til handa og fóta, enda átti þá að fara að kjósa, og árangurinn varð sá, að það komu langar skýringar frá hagfræðideild Landsbankans. Í þessum skýringum er keppzt við að draga frá þeim halla, sem virtist vera eftir tölunum, m.a. framkvæmdalánin. Það er keppzt við það þá að draga framkvæmdalánin frá hallanum. Það er ekki verið að því núna, þegar verið er að gera upp hallann á þjóðarbúskapnum eða hallann við útlönd. Það vissu allir, að það var ríkisstjórnin, sem átti hlut að því, að það kæmi fram þessi svokallaða leiðrétting, til þess að þjóðin skyldi ekki hafa þá hugmynd, að það væri gjaldeyrishalli. Þjóðin mátti ekki þá hafa þá hugmynd, að það væri nokkur verulegur halli á viðskiptunum við útlönd. Menn máttu ekki hafa þá hugmynd fyrir kosningar. Menn urðu þá að líta svo á, að það væri alveg nógur gjaldeyrir, alveg eins og menn urðu þá að halda, að það væru nógir peningar í útflutningssjóðnum. Niðurstaðan af því, sem þarna er í skýrslunni, er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar búið er að leiðrétta gjaldeyrisstöðuna með því að taka þessa liði út úr,“ — m.a. framkvæmdalánin, sem máttu ekki blandast saman við þá, — „verður útkoman sú, að gjaldeyrisstaðan verður ÷77.4 millj. í sept., en ekki ÷ 221.7. En í sept. 1958 var gjaldeyrisstaðan 81.9 óleiðrétt og ÷ 61.2 leiðrétt.“

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum : „Samkvæmt þessu hefur gjaldeyrisstaðan aðeins versnað um 16.2 millj. frá sept. 1958 til sept. 1959.“

Ja, mikið hefur hallað undan síðan. Það eru meiri ósköpin, sem hafa dunið yfir síðan, bara síðan í okt. í haust. Síðan hefur allt farið á annan endann, þannig að það þarf hvorki meira né minna en að snúa öllum þjóðarbúskapnum við út af þessum ósköpum, sem hafa dunið yfir eftir kosningarnar.

Síðan segir: „Eftir er þá að taka tillit til þess, að birgðir af útflutningsafurðum eru nú 93 millj. kr. meiri en í fyrra.“ Það er önnur rúsínan, þannig að ef birgðaaukningin hefði ekki verið, þá hefði gjaldeyrisstaðan að dómi þessarar hagfræðideildar líklega verið um 60 millj. kr. betri en árið áður.

En nú er komið og okkur sagt, þó að hagfræðideild Landsbankans segist ekkert geta sagt, að greiðsluhallinn við útlönd hafi orðið 350 millj. á árinu 1959. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Og svona loddaraleikur? Var þetta allt ósatt, sem hagfræðideild Landsbankans sagði í októbermánuði í haust? Var það bara allt saman ósatt? Eða er eitthvað bogið við það, sem hæstv. ríkisstj. leyfir sér að halda fram í grg. fyrir efnahagsmálafrv. — eða í bókinni Viðreisn, sem hún fyrir fé landsmanna sendir inn á hvert heimill? Það er eitthvað meira en lítið bogið við það, sem í bókinni stendur.

Það þýðir ekkert að vera með neinar vífilengjur í sambandi við þessi mál. Það er öllum augljóst fyrir löngu, að það er ekki heil brú í þeim upplýsingum, sem hæstv. ríkisstj. leyfir sér að bera á borð fyrir þjóðina sem rök fyrir einhverjum alvarlegustu ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem nokkurn tíma hafa verið áformaðar á Íslandi.

Það er líka meira en furðulegt, að það skuli geta komið fyrir, þegar sagt er í grg. fyrir svona frv., að erlend lán hafi aukizt um 260 millj., — og ég veit ekki, hversu :nærri lagi sú tala kann að vera, — að þá skuli ekki vera hægt að fá lista yfir lánin, en það er ekki hægt, og þó skuli menn leyfa sér að setja í opinbert plagg slíka niðurstöðu, sem byggist ekki á neinu öðru en hreinni ágizkun. Hvernig á að sundurliða það, hve mikið af þessu voru framkvæmdalán og hve mikið af þessu voru önnur lán, þegar ómögulegt er að fá lista yfir lánin? Hvers vegna er ekki hægt að fá lista yfir þessi lán? Er það til þess, að hæstv. ríkisstjórn geti fullyrt það, sem henni sýnist, um það, hvers konar lán þetta hafi verið? En hvernig er hægt að koma því heim og saman, að gjaldeyrishallinn hafi verið þangað til í sept. 16 millj., eins og hagfræði deild Landsbankans greinir, en sé nú kominn upp í 350 milljónir?

Ég skal taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þessar tölur um lántökur, sem ég las hér áðan úr nál. 1. minni hl., eru miðaðar við tekin lán á þessum árum. En þannig er með lánin, að þau koma ekki ævinlega inn á sama árinu. Þau eru ekki ævinlega öll borguð inn á sama árinu og þau eru tekin, þannig að það gengur dálítið á misvíxl. En ég hef líka athugað um innkomin lán á þessum sömu árum, árunum 1956–58, og útkoman verður nær alveg hin sama, og ég gæti, ef ég vildi þreyta þolinmæði þm., lesið hliðstæðan lista fyrir þessi ár yfir það, sem er hreinlega inn komið í bankana af lánsfé, og niðurstaðan mundi verða mjög svipuð þeirri, sem ég las áðan. Þá mundi koma í ljós, að þau lán, sem þá komu inn á vegum þess opinbera, voru öll saman framkvæmdalán, ekki í þeim skilningi, að þau kæmu inn í þjóðarbúskapinn og einhverjar og einhverjar fjárfestingarframkvæmdir stæðu þar á móti, óskyldar lánunum, heldur fjárfestingarlán í beinni merkingu, bókstaflegri merkingu, þannig, að annaðhvort gekk gjaldeyririnn til þess að kaupa efni til tiltekinna framkvæmda eða þá gjaldeyririnn var seldur fyrir vörukaup og andvirði hans innanlands gekk til þess að greiða kostnaðinn við Sogsvirkjunina og aðrar framkvæmdir innanlands.

Það er ekki mjög leiðinlegt hlutverk, sem hæstv. núverandi fjmrh. leikur í þessu. Hann stóð alveg ráðalaus höndum uppi sem formaður í Sogsvirkjunarstjórninni og gat ekkert fé útvegað. Ríkisstjórnin fyrrverandi gekk í að útvega lán til Sogsvirkjunarinnar. Sogsvirkjunin átti ekki grænan eyri til þess að leggja í framkvæmdirnar, og allt var komið í eindaga. Þá var gengið í það að útvega lán, ekki aðeins fyrir erlenda kostnaðinum, heldur líka fyrir nær öllum innlenda kostnaðinum í Sogsvirkjunina. Það stóð ekkert á því, að þegar búið var að útvega peningana, þá kom þessi hæstv. ráðh. með skóflu og fór að pjakka í jörðina og láta taka myndir af sér, þar sem hann væri að byrja á þessu stórkostlega mannvirki. Það stóð ekkert á því, að hann kæmi með skófluna, en aðrir höfðu útvegað fjármagnið. Nú kemur þessi hæstv. ráðh. og deilir með hörðustu orðum tungunnar á þá, sem stóðu fyrir því að útvega þessa fjármuni til Sogsvirkjunarinnar, og kallar þetta alveg ófeiminn eyðslulán og halla á þjóðarbúskapnum. Vitaskuld er nákvæmlega eins ástatt með þann hluta af Sogsvirkjunarláninu, sem fór fyrir innlendum kostnaði, eins og aðrar fjárhæðir, sem gengu í aðrar framkvæmdir. Þetta kallast víst ekki óheilindi — eða hitt þó heldur.

Hæstv. dómsmrh. tók undir þetta líka, og var kannske ekki tiltökumál. Ég veit ekki, hvort hann hefur nokkuð kynnt sér þetta. Hann sagði líka, að meginhluti af lánunum mundi hafa verið eyðslulán. En meðal lánanna er t.d. lán, sem Eimskipafélag Íslands hefur tekið til skipakaupa. Mér skilst, að hæstv. ráðh. sé að nafninu til a.m.k. í stjórn Eimskipafélagsins. Þetta er því eitthvað ámóta smekklegt og hjá hæstv. fjmrh., þegar hann talar um eyðslulántökurnar. En skipakaupalán eru stórfelldur liður í þessum lántökum á undanförnum árum, hundruð millj. samtals á öllu tímabilinu.

Þá hafa þessir ráðh. verið að ræða um það, hversu ótilhlýðilegt væri að gera ráð fyrir því, að gjaldeyríslán kynni að festast, verða að föstu láni, sem erfitt yrði að standa skil á. Eru þessir menn alveg búnir að gleyma EPUskuldinni og hvernig hún er til komin? Hún er til komin alveg á sama hátt eða hliðstæðan og það gjaldeyrislán, sem þeir eru nú spenntastir fyrir að taka. Hún er þannig til komin að mestu leyti, að það var stofnuð yfirdráttarskuld, einmitt yfirdráttarskuld, eins og þeir hafa svo sérstaka ánægju af að tala um, — það eigi að vera yfirdrættir, yfirdrættir séu svo meinlausir, þeir greiðist eftir stutta stund, það geti ekki verið neitt hættulegt að taka yfirdrætti. Það var eins konar yfirdráttur, sem tekinn var hjá EPU til þess að greiða fyrir almennum viðskiptum, m.a. að byggja upp vörubirgðir í landinu, og það var gert í sambandi við ráðstafanir, sem áttu að vera til jafnvægis í þjóðarbúskapnum og urðu til jafnvægis um nokkra stund. En hvernig fór svo með þennan yfirdrátt? Það fór þannig með þennan yfirdrátt, að jafnvægíð hélzt ekki og yfirdrátturinn festist og er ógreiddur enn í dag, 120 millj. kr., og ef hægt er að tala um eyðslulán frá undanförnum árum, þá er það einmitt þessi yfirdráttur, sem festist á þennan hátt, nákvæmlega sams konar og sá, sem þeir hugsa sér að taka nú, en bara svo pínulítill, samanborið við þetta risalán, sem þeir hafa hugsað sér að taka, ef þeim býður svo við að horfa. Finnst mönnum þetta ekkert varhugavert? Ekki sízt þegar þess er nú gætt, að þessi yfirdráttarskuld, sem þeir ætla að stofna til, á að greiðast til baka eftir stuttan tíma, og það er treyst á, að hún greiðist til baka af sjálfu sér, vegna þess að sá samdráttur verði, sem hæstv. ríkisstj. efnir til með þessum tillögum. En þegar þess er gætt, að samdrátturinn, sem hæstv. ríkisstj. efnir til með þessum till., nemur um það bil 1000 millj. á einu ári eða um 20% af þjóðartekjunum, dettur þá einhverjum í hug, að þessi áætlun heppnist í framkvæmdinni? Hún hlýtur að fara út um þúfur. Hún er algerlega dauðadæmd.

Þetta er hrein fásinna, að hægt sé að draga svo saman, og þess vegna verður niðurstaðan sú, ef þeir kasta sér út í þetta skuldaævintýri, að þeir hljóta að missa þessi mál úr böndunum, — það er svo gálauslega og óviturlega til þeirra stofnað, — þeir hljóta að missa þau úr böndunum, og því miður verður niðurstaðan sú, að mikið af skuldinni stendur þá eftir. En hvað hafa þeir þá gert? Hvað hafa þeir þá aðhafzt, þessir menn? Hvernig verður aðstaða Íslands til þess að fá framkvæmdalán framvegis, ef fest verða nokkur hundruð millj. í gjaldeyrisskuld ofan á þá skuld, sem fest hefur verið hjá EPU? Það er ekki svo, að þessir menn ætli sér að flytja inn á móti þessu skip eða koma upp arðbærum framkvæmdum. Nei, það verður þvert á móti, á sama tíma og skuldin stofnast, dregið stórkostlega úr fjárfestingunni, — ekki dregið nokkuð úr fjárfestingunni og haldið áfram fjörmiklum framkvæmdum, eins og ég orðaði þetta, þegar ég ræddi um að draga dálítið úr fjárfestingunni hér á árunum og hæstv. dómsmrh. vísaði til, — nei, ekkert slíkt, heldur dregið stórkostlega úr fjárfestingunni, um leið og skuldirnar verða stórauknar.

Ég benti á það í minni ræðu á dögunum, að í þessum ráðstöfunum öllum saman gætu ekki falizt minna en 12–13 hundruð millj. kr. álögur brúttó. Ég byggði þá á innflutningsáætlun ríkisstjórnarinnar, sem sýnilega er allt of lág, því að það er óhugsandi, að hún geti haldið þjóðinni í þeim kút á þessu ári, að innflutningurinn verði eins litill og hún gerir ráð fyrir. Það er ekki hægt. Þess vegna voru minar áætlanir um álögurnar mjög lágar og þær lægstu tölur, sem hægt er að nefna í þessu sambandi. Og ég hafði dregið frá lækkunina á tekjuskattinum og fjölskyldubæturnar og aðrar bætur, sem ríkisstj. hugsaði sér. Þá varð útkoman sú, að ætlun stjórnarinnar væri, eins og ég orðaði það, að draga úr neyzlu og fjárfestingu um meira en 1000 millj. kr. á einu ári.

Hæstv. viðskmrh. gerði þetta nokkuð að umtalsefni hér í dag, og hann reyndi ekki að vefengja þessa uppsetningu að öðru leyti en því, að hann sagði, að ég hefði gert allt of mikið úr þeim verðhækkunum, sem stöfuðu af vaxtahækkuninni, vegna þess að það væri ekki ætlunin, sagði hæstv. ráðh., að vaxtahækkunin kæmi inn í verðlagið. Það er furðulegt, að nokkur hagfræðingur skuli viðhafa svona orðalag. Hvað ætli stjórnin ráði við það? Dettur nokkrum manni í hug, að það sé hægt að hækka vexti t.d. upp í 12%, sem sumir segja að eigi að koma til greina, án þess að það komi inn í allan framleiðslukostnað og allt verðlag í landinu? Ég býst ekki við, að hæstv. viðskmrh. kenni nemendum sínum í hagfræðideild háskólans svona speki, þó að okkur sé ætlað þetta. Þetta þykir nógu góð hagfræði handa okkur hér á hv. Alþingi. Vitanlega er slíkt með öllu óhugsandi. Það gæti skeð, að slíkt væri hægt einhverja litla stund, og þó alls ekki hægt stundinni lengur. Það þarf ekki að gera því skóna.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það yrði líka að draga það frá, að innlánsvextir ættu að hækka mikið og það kæmi ýmsum til góða sem tekjur. Og satt er það, það þarf að taka það til greina. En hæstv. viðskmrh. veit vel, að sparifjáreigendur í landinu eiga ekki nándar nærri allt það fjármagn, sem hér er í útlánum. Það er margt fleira, sem kemur til greina. Auk þess verður vitanlega stórfelldur munur á út og innlánsvöxtum, þannig að hér verður um miklar fjárhæðir að ræða, sem koma inn sem verðhækkun. Það er því algerlega ómögulegt að sýna fram á, að mínar áætlanir um verðhækkunaráhrif frv. og þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. gerir, séu á nokkurn hátt ýktar. Hugsunin er því sú að draga saman neyzlu og fjárfestingu um rúmar 1000 milljónir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri algerlega rangt að kalla þessa fjárhæð eða það, sem hér væri um að ræða, álögur á þjóðina, það væri meinleg villa, og breiddi sig mikið yfir það. Það væri meinleg villa, vegna þess að hér væri aðeins um tilfærslu að ræða innan þjóðfélagsins, sagði hæstv. ráðh.

Við skulum athuga þennan hugsanagang ráðh. pínulitíð. Það er hans hugsanagangur, að ef lagðir eru á skattar og aðrar álögur í einhverju formi, þá megi alls ekki kalla það álögur, ef féð er borgað út aftur, — takið eftir því: ef féð er borgað út aftur innan þjóðfélagsins, þá eru það ekki álögur. Eftir þessum skilningi hæstv. ráðh. hafa aldrei verið lagðar hér á neinar álögur. Hvar búast menn við, að svona málflutningur endi? Það eru ekki álögur, ef féð rennur aftur til einhvers annars. En hvað ætli þeim muni finnast, sem eiga að verða fyrir þessum álögum og mæta þessum verðhækkunum með óbreyttum tekjum? Og í þessu sambandi vil ég leyfa mér að rifja upp, að um leið og þessi verðhækkunaráhrif eru látin koma fram, á kaupgjald að vera óbreytt í krónutölu og vinnutekjur bænda, sjómanna og fiskimanna eiga að vera óbreyttar í krónutölu. Og því er lýst yfir, að útlán í landinu eigi ekki að hækka nema að því leyti, sem beinn sparnaður í bönkunum vex. Þeir, sem taka laun, og svo bændur og fiskimenn, þetta er meginþorri þjóðarinnar, og þessi meginþorri þjóðarinnar á að hafa óbreyttar tekjur í krónutölu, þó að álögurnar, þ.e. verðhækkunin, hljóti að nema rúmum 1000 millj. Svo kemur hér einn af ráðh. og segir, að það sé alger blekking að tala um álögur í þessu sambandi, vegna þess að þetta eigi að ganga út og inn í þjóðarbúinu.

Það má kannske gera ráðh. það til geðs að hætta að kalla þetta álögur á þjóðina og kalla það í staðinn álögur á almenning. Skilur hann það þá? Skilur hann það þá, ef það eru kallaðar álögur á almenning? Auðvitað eru þetta ekkert annað en álögur á þá, sem eiga að hafa óbreyttar tekjur. Þessi verðhækkunaráhrif hljóta að koma fram. Það má því gjarnan gera hæstv. ráðh. það til geðs, ef þetta hefur verið orðað á einhvern hátt villandi með því að tala um álögur á þjóðina, og því má gjarnan, til þess að sýna fyllstu nákvæmni í málinu, kalla þetta álögur á almenning.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væru tvær hliðar á öllu þessu og einhver hlyti að fá þessa fjármuni. Vill ekki hæstv. ríkisstjórn gefa okkur skýrslu um það, hverjir eigi að fá þessar 1000 millj., sem á að færa til, eins og ég fór fram á hér við 1. umr.? Ég fór þá fram á, að hæstv. ríkisstj. gæfi skýrslu um það hér á hv. Alþingi, að hve miklu leyti þessar 1000 millj. ættu að verða minnkun á fjárfestingu og að hve miklu leyti lækkun á neyzlu. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess að svara þeirri spurningu. En það getur verið full ástæða til þess út frá því, sem hæstv. ráðh. sagði, að spyrja hann að því, hvort stjórnin hafi þá ekki gert yfirlit um, hverjir fá þessar 1000 millj., fyrst það er svo nauðsynlegt að dómi ráðh. að hafa það svo fast í huga eins og hæstv. ráðh. lagði áherzlu á, að það sé alltaf einhver, sem tekur við því, sem á annan er lagt eða frá öðrum er tekið. Hverjir eru það, sem eiga að fá þessa fjármuni ?

Ég benti á það í ræðu minni um daginn, að það vottar ekki fyrir því, að þeir ríku í þjóðfélaginu eigi að leggja nokkuð sérstaklega fram í sambandi við þann uppskurð á öllu þjóðlífinu, sem á að efna til í þessu sambandi. Það vottar ekki fyrir því. En það skyldi þó aldrei vera, að þeir ættu að fá eitthvað af þessum 1000 millj, í sinn hlut? Einhverjir hljóta það að vera samkv. kenningu hæstv. ráðh., sem eiga að taka við þessu, fyrst það er óhugsandi að hans dómi að taka nokkuð frá einum öðruvísi en annar fái það.

Að vísu má kannske búast við, að þeir hugsi sér dæmið þannig, að það eigi að safnast strax á þessu ári gjaldeyrisinnstæða. Það getur vel verið, að þeir hugsi sér það, þetta eigi að koma þannig fram að einhverju leyti. En að hve miklu leyti hafa þeir hugsað sér, að þetta kæmi fram sem ný gjaldeyrisinnstæða? Ráðh. var að tala um, að það ætti að rétta hallann við útlönd, sem hefði verið 200 millj., sem er auðvitað allt saman hreinar blekkingar, eins og hér hefur verið sýnt fram á. En hvað á þá að verða um 800 millj. eða svo?

Hæstv. ráðh. sagði, að það sýndi, að það væri eitthvað bogið við þennan málflutning minn og annarra varðandi þessar 1000 millj., að 1 milljarður væri 20% af áætluðum þjóðartekjum. Mikið var, að hann fann það. En það er nokkuð seint séð. Er þetta ekki einmitt það, sem ég var að benda á um daginn alveg sérstaklega, að ekkert sýndi betur, hvílík fásinna það væri, sem hæstv. ríkisstj. væri að leggja út í, en einmitt þetta, að álögurnar og verðhækkunin, sem menn ættu að bera bótalaust, næmi 20% af þjóðartekjunum? Halda menn, að þetta sé hægt? Hvernig á svona lagað að vera framkvæmanlegt? En þetta sýnir einmitt, hvílík fásinna það er, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið hafa sig út í. Ég veit raunar ekki, hvernig á að orða þetta eða hvað það er, sem hefur skeð. Og einmitt vegna þess, hve þessi áætlun er öll mikil fjarstæða, þá er gjaldeyrislántakan sérstaklega hættuleg, vegna þess að þetta getur ekki staðizt. Ef menn flana út í að taka mörg hundruð millj. kr. að láni erlendis í því trausti, að svona löguð áætlun hljóti að skila því til baka alveg sjálfkrafa eins og vél, hvar endar slíkt? Það hlýtur að enda í stórkostlegri skuldaaukningu við útlönd, án þess að nokkrar framkvæmdir komi þar í móti.

Lét hæstv. ríkisstjórn aldrei reikna fyrir sig þetta dæmi? Á hvaða punkt í þessu máli horfði stjórnin þannig, að hún dáleiddist svo gersamlega, að hún missti allt samhengi? Lét hún aldrei skoða það, hvaða afleiðingar það hefði í þjóðarbúskapnum, ef reynt væri að leggja á 370 millj. í nýjum álögum, hækka verðlag um 700–800 millj. með gengisbreytingu og vextina upp í 12%, og ætlazt til, að tekjur meginþorra þjóðarinnar væru óbreyttar í krónutölu, nema að því leyti sem þær minnkuðu vegna minnkaðrar atvinnu? Á hvaða punkt í þessu máli hefur stjórnin horft, að hún skuli ímynda sér, að þetta sé hægt? Og heldur hún, að þetta geti verið viðreisn? Það er eitthvað hrapallegt við þetta mál, það er eitthvað undarlegt, sem erfitt er að átta sig á. Hvernig getur það skeð, að jafnskynsamir menn og óneitanlega eiga hér hlut að máli skuli hafa dáleiðzt svo gersamlega og tapað öllum áttum? Auðvitað lokuðu þeir sig inni. En ég hélt, að þeir hefðu þó a.m.k. séð út um gluggana, þannig að þeir hefðu átt að geta áttað sig á því, hvar þeir voru staddir.

Hæstv. fjmrh. var ákaflega státinn yfir því í fjárlagaumr., að þessar ráðstafanir, sem hér er stungið upp á, ættu að innleiða stórbreytingar á þjóðfélagi Íslendinga, orðaði hæstv. ráðherra þetta. Og sannast að segja er það því miður þannig, að hæstv. ráðh. hefur rétt fyrir sér. Ef þessar ráðstafanir ná fram að ganga, hafa þær í för með sér stórbreytingar á þjóðfélagi Íslendinga, m.a. þær, að verðbólguhjólið veltur vafalaust áfram með meiri hraða en nokkru sinni fyrr vegna þess, hversu þessi áætlun er gersamlega út í hött og óframkvæmanleg.

Í annan stað munu ýmsar þær breytingar, sem gerðar eru um leið, sérstaklega það að draga svo stórkostlega úr alls konar stuðningi við uppbygginguna víðs vegar um landið, hafa stórbreytingar í för með sér, a.m.k. í bili. En sá þáttur í þessu máli mun ekki standa lengi, vegna þess að þótt hæstv. ríkisstj. haldi núna, að hún geti komizt upp með að afnema svo að segja í einu vetfangi marga þýðingarmestu þættina í þeim stuðningi, sem þjóðfélagið hefur veitt þegnunum, eins og t.d. vaxtahlunnindin við að koma upp sjálfstæðum heimllum bæði í sveit og við sjó og önnur slik hlunnindi, þó að hún haldi, að hún geti komizt upp með þetta og annað fleira af sama tagi, sem í þessu máli er, þá stenzt það ekki til lengdar. Það verður ekki þannig brotið niður fyrirhafnarlítið á örfáum vikum, sem byggt hefur verið upp á mörgum áratugum. Þeir geta komið þessu fram núna, af því að þeir komu aftan að fólki. Þeir sögðu ekki fyrir kosningarnar núna, að það ætti að kjósa þá til þess að draga stórkostlega saman allar verklegar framkvæmdir í landinu. Þeir sögðu það ekki. Og þeir sögðu ekki heldur fyrir þessar kosningar, að það ætti að kjósa þá til þess að hækka t.d. vextina af stofnlánunum til landbúnaðar, sjávarútvegs og íbúðabygginga og annað slíkt. Nei, nei, þeir héldu þessu öllu vandlega leyndu.

En þessi stefna, sem núna er komin fram, mun verða til þess, að línurnar í íslenzkri pólítík skýrast. Og það er hægt að gera svona einu sinni, en ekki aftur. Það munu þeir eiga eftir að reyna, sem að þessu standa.

Hv. frsm. fjhn., 6. landsk. þm. (BK), flutti hér allmikla og langa ræðu, sér í lagi langa ræðu, í dag og rakti þar sögulega þessi mál mjög frá sinu sjónarmiði. Og hann sagði eitthvað á þá lund, að aðdragandinn að þessu öllu saman hefði verið myndun Alþýðuflokksstjórnarinnar haustið 1958. Það er auðvitað alveg rétt. Og hann útlistaði það, að þá hefði ekki verið hægt að framkvæma aðalstefnubreytinguna í þessu efni, heldur hefði verið um undirbúningsráðstafanir að ræða, þá strax. Þetta vitum við að er alveg rétt. Þeir þorðu nefnilega ekki að sýna, hvað fyrir þeim vakti raunverulega, fyrr en búið var að kjósa í síðari kosningunum. Það var ekki fyrr en þá, sem áætlanirnar voru dregnar upp og byrjað að framkvæma þær. Í kosningunum var öllu snúið öfugt, Sjálfstfl. sagði, að menn skyldu kjósa hann til þess að bæta lífskjörin, og það var ekkert talað um það þá, að þjóðin lifði um efni fram. Það var ekki minnzt á það, ekki einu orði. Og Alþfl. sagði, að það ætti að kjósa hann til þess að stöðva dýrtíðina. Og þá var t.d. ekkert minnzt á það heldur af hendi Sjálfstfl. að lögbanna vísitöluna. Þvert á mótí. Það var einn aðalliðurinn í kosningaáætluninni, að það skyldi leitað samkomulags við stéttasamtökin um það að hætta að nota vísitöluna á sama hátt og verið hafði. Og allt var á þessa lund.

Það var ekki fyrr en eftir kosningarnar, sem hægt var að fara að sýna, hvað fyrir þessum flokkum raunverulega vakti, og ekki heldur fyrr en búið var að breyta kjördæmaskipuninni.

Að þessu leyti dró hv. þm., að mínu viti, upp algerlega rétta mynd af þróuninni, þó að hann gerði það á nokkuð annan hátt en ég hef gert hér. Hann hafði að þessu leyti algerlega rétt fyrir sér. En nú er ekkert um að villast, hvað fyrir þeim hefur vakað frá öndverðu, og það hefur komið fram, að allt það, sem framsóknarmenn sögðu um þeirra fyrirætlanir, hefur reynzt hárrétt. Og það hefur vakið mikla athygli, — athygli, sem er alls ekkert þægileg fyrir þá, sem standa fyrir þessum málum, en samt er ómögulegt að komast fram hjá.

Það hefur verið látið liggja að því hér í þessum umræðum, samhliða þessum málflutningi um greiðsluhallann við útlönd og greiðsluhallann á þjóðarbúskapnum, að það verði núna að leggja út í þessar gífurlegu ráðstafanir vegna þess, hvernig viðskilnaður vinstri stjórnarinnar hafi verið í efnahagsmálum inn á við. En allt eru þetta rangfærslur, eins og bezt sést á því, að þegar Sjálfstfl. gerði eins konar úttekt á þeim málum, um það leyti sem valdasamsteypan nýja tók við, þ.e.a.s. þegar Sjálfstfl. myndaði Alþýðuflokksstjórnina á Þorláksmessu sællar minningar, þá var gerð úttekt um þessi mál, og þá var það niðurstaða hagfræðinga Sjálfstfl., og ég býst við, að hv. 6. landsk. þm. hafi verið þar einna fremstur í flokki, því að hann er hagfræðimenntaður maður, — þá varð það niðurstaðan af þeim athugunum öllum saman, að það, sem þyrfti að gera í efnahagsmálunum, væri að taka til baka grunnkaupshækkunina, sem Sjálfstfl. hafði barið fram þá um sumarið.

Þetta var þegar Sjálfstfl. sendi mönnum reikning og á honum stóð: An: Ofborgað kaup. Nokkur hundruð milljónir. En þá átti líka eftir útreikningi hagfræðinga Sjálfstfl. að verða nokkurn veginn jöfnuður.

Og þegar svo Alþýðuflokksstjórnin tók við, voru ráðh. hennar óþreytandi allt s.l. ár, alveg fram í október, að lýsa yfir því, að allt væri í jafnvægi, menn skyldu engar áhyggjur hafa, það væri allt í jafnvægi. Heldur skýtur þetta ónotalega skökku við allar þessar fullyrðingar nú allt í einu um það, að þjóðin sé á gjaldþrotabarmi og hafi verið það líka, þegar þeir voru að gefa þessar lýsingar á ástandinu. Halda þessir menn, að nokkrum detti í hug að leggja nokkuð upp úr því, sem þeir segja um þessi efni? Nei, því fer alls fjarri. Því fer alls fjarri, að nokkrum manni detti í hug að taka mark á þeim. Það eru alveg jafnmiklar ýkjur og öfgar nú á annan bóginn eins og þá voru að hinu leytinu: Staðreyndunum er bara algerlega snúið við eftir því, hvernig það passar fyrir ímyndaða hagsmuni þessara valdastreitumanna. Ef þeir halda, að það passi fyrir sitt valdastreitusjónarmið að halda því fram t.d., að það séu allt of lítil lán tekin erlendis, það eigi að vera miklu meira, þá halda þeir því fram. Ef þeim virðist það passa að búa til þær sögur, að landið geti ekki fengið nein lán, þá er bara að gera það. En upp úr því, sem þeir segja um þessi efni, er vitaskuld ekkert leggjandi, enda áreiðanlega vandfundinn sá maður nú, sem nokkuð leggur upp úr þeim upplýsingum, sem þeir gefa um þessi efni. Og þar mega þeir sannarlega sjálfum sér um kenna og sjálfum sér einum.

Ég hjó eftir því hér á dögunum, þegar hv. viðskmrh. var að svara mér, en hann hefur nú tekið hér tvær lotur undanfarna daga til þess að svara mér og fleirum, þá hélt hann því fram, að afstaða vinstri stjórnarinnar hefði þýtt 5–6% kjaraskerðingu. Og mér skilst helzt, að þetta hafi átt að þýða, að það. sem núna stæði til að gera, væru bara smámunir og snerti menn aðeins smávægilega hjá því, sem þá hefði verið gert. Mér fannst þetta undarleg fullyrðing hjá hæstv. viðskmrh., og ég held, að hann hljóti að hafa að einhverju leyti gleymt samhenginu í þessum málum, því að sannleikurinn er sá, að hér var ekki um neitt slíkt að ræða. Það voru felld niður með lögum 9 vísitölustig, en 5% grunnkaupshækkun kom í staðinn og vísitöluákvæði í samningum ekkert skert að öðru leyti. Þetta ætla ég, að hæstv. ráðh. hljóti að muna við nánari íhugun. Öllu var slegið á frest um það, hvað ætti að gera í vísitölumálinu. Þetta var það, sem vinstri stj. gerði. Síðan greindi menn um haustið á um það, hvað gera skyldi, því miður. Og þá voru það uppástungur sumra, að rétt væri fyrir launastéttirnar að slaka til um nokkur vísitölustig, jafnvel allt upp í 15, og var talið af hagfræðingunum, að hægt væri að koma því þannig fyrir, að því þyrfti ekki að fylgja rýrnun á kaupmætti tímakaupsins frá því, sem það var í október 1958. Þannig var t.d. afstaða Framsóknarflokksins.

Ég vil alveg mótmæla því, að af hendi vinstri stjórnarinnar hafi nokkru sinni verið gerðar till. eða framkvæmdar ráðstafanir, sem hafi falið í sér nokkuð, sem nálgaðist 5–6% kjaraskerðingu. Ég vil líka staðhæfa, að framsóknarmenn hafa aldrei lagt fram neina till., sem komst nokkuð nálægt því. Mér finnst það sannast að segja vera nokkuð langt seilzt að reyna að mæla því, sem nú stendur til, bót með því að halda slíku fram.

Ég vil að lokum aðeins minnast örfáum orðum á eirístakar greinar frv.:

Fyrst vil ég minnast á, að í grg. er sagt frá því, að ríkisstjórnin hafi tekið upp samtöl við Bandaríkjastjórn um það að borga, mér skilst helzt einhvers konar bætur til Íslands vegna gengisbreytingarinnar. Það er ákaflega óljóst sagt frá þessu í grg., og það mun hafa verið spurt um hér í umr., hvernig þetta væri hugsað og hvað það væri, sem hæstv. ríkisstjórn hefði farið fram á í þessum samningum. En hæstv. ráðh, hafa áreiðanlega ekkert að þessu vikið og engar upplýsingar um þetta gefið. Mig langar til þess að spyrja þá um, hvernig þetta mál er vaxið, hvað þeir hafa farið fram á í þessu sambandi og hvernig þetta mál stendur.

Þá vil ég vekja athygli á því enn þá einu sinni, þó að aðrir hafi gert það á undan mér, vegna þess, hvað það er nýstárlegt og þýðingarmikið, að í þessu frv. er gert ráð fyrir 5% skatti á allan útflutning í landinu.

Og það er sagt, að þessi skattur eigi að leggjast í sjóð, sem eigi að ganga til þess að greiða hallann á útflutningssjóðnum, þennan halla, sem enginn veit enn þá hver er, því að það er sagt frá því á þann hátt í grg. og annars staðar, þar sem þetta hefur borið á góma af hendi hæstv. ríkisstj., að það er ómögulegt að botna í neinu. Og sennilegast þykir mér, að það þurfi að hafa þetta svona villandi um útflutningssjóðinn vegna þess, hve hæstv. fyrrverandi forsrh. og hans menn töluðu stórkostlega af sér á s.l, ári um útflutningssjóðinn. Það er ekki einleikið, hvað allt er haft villandi og flókið, sem um afkomu þess sjóðs kemur nú fram. Og þetta mun nú vera skýringin.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að þessi skattur, — það eru hvorki meira né minna en 120 millj. á ári, — eigi að renna í þennan halla. Þetta ákvæði um skattinn er ekki tímabundið í lögunum. Ég vil benda mönnum á það. Þessi skattur heldur áfram, nema því aðeins að hann sé með sérstökum lögum numinn úr gildi. Og það er ekki annað að sjá en hæstv. ríkisstjórn ætli sér, þegar fram líða stundir, að láta myndast þarna sjóð, láta myndast þarna sjóð af útflutningsgjaldinu, sem hún geti ráðstafað eins og henni sýnist. Eða hvað ætlar hún að gera við þessa peninga, ef hún situr svo lengi, að hallinn á útflutningssjóðnum verði greiddur upp? Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. lýsi því yfir, skýrt og skorinort, að hún telji sig ekki hafa heimild til þess að ráðstafa þessum sjóði að neinu leyti, eftir að búíð er að greiða hallann á útflutningssjóðnum. Og ef hæstv. ríkisstj. vill ekki gefa slíka skýlausa yfirlýsingu, þá er eitthvað óhreint við þetta mál. Þá er það hugsunin að smeygja hér inn skatti á útveginn, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér síðan, kannske með stuðningi þingmeirihluta síns, að fara með eftir sinni vild. Ég held, að það sé algert einsdæmi að lögleiða þannig gífurlegar álögur á útflutninginn, 120 millj. á ári, án þess að það sé skýrt tekið fram, til hvers verja megi fénu. En það er alls ekkert sagt um það, utan það, sem stendur um að greiða hallann á útflutningssjóði.

Ég vil fara fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún gefi þessa yfirlýsingu, og ég mun taka það til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki sé rétt, að það komi fram brtt. um það að tímabinda eitthvað þessar álögur, þannig að það geti ekki komið til mála, að slíkir fjármunir séu innheimtir og stjórnin geti ráðskað með þá eftir vild.

Þá vil ég minnast á það sem þýðingarmikið atriði í þessu máli, að gert er ráð fyrir að hætta alveg að greiða uppbætur á fiskafurðir. Þetta er þungt högg, kannske rothögg á smábátaútveginn víða. Það hafa verið greiddar séruppbætur á steinbít og ýsu og smáfisk og sumarveiddan fisk. Þessi veiðiskapur er ákaflega þýðingarmikill fyrir mörg byggðarlög, stórfelldur liður í þeirra atvinnulífi, — byggðarlög, sem sannarlega þurfa að haldast í byggð og þjóna sínu hlutverki í þjóðarbúskapnum. Ég þori ekki að fullyrða, að verðlag á þessum fiski, sem hér er um að ræða, lækki beinlínis til útgerðarinnar, ef ofan á verður að fara eftir till. stjórnarinnar og fella þennan sérstaka stuðning alveg niður. En það eitt er alveg víst, að verðlag á þessum fiski lækkar stórkostlega í hlutfalli við framleiðslukostnað. Þetta er gífurlegt áfall fyrir þennan atvinnurekstur. Og ég held því alveg hiklaust fram, að þessi atvinnurekstur eigi fullan rétt á sér, þó að hann þurfi sérstakan stuðning umfram ýmsar aðrar atvinnugreinar.

Er það raunverulega meining ríkisstj. að sinna þessu máli ekki neitt, látast ekki þekkja þetta eða vita um þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi? Ég vona ekki, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að athuga þetta mál gaumgæfilega, áður en málið fer hér úr hv. deild.

Þá vil ég þessu næst minnast á greinina um breytingarnar á okurlögunum. Það er meira en lítið táknrænt fyrir fyrirætlanir stjórnarinnar, að hún þarf að breyta okurlögunum til þess að setja þá vexti, sem hún vill. Það er dálitil lýsing á ráðagerðum hennar.

Ég vil taka fram, að þegar það á undanförnum árum stundum hefur komið til greina að hækka vexti og nota það sem aðferð í peningapólitíkinni, hefur Framsfl. ævinlega beitt sér á móti því. Og menn úr öðrum flokkum hafa einnig verið á móti því oft og jafnvel kannske alltaf upp á síðkastið. Framsfl. hefur ekkert breytt um skoðun í þessu og álítur, að það eigi alls ekki að hækka vextina, alls ekki, það sé stórhættuleg ráðstöfun, bæði fyrir framleiðsluna og uppbygginguna í landinu, að gera slíkt.

Í þessu sambandi vil ég alveg sérstaklega leggja áherzlu á, að Framsfl. telur það óhæfu og hneyksli, blátt áfram hneyksli, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, að setja inn í þetta frv. eina lagagr., sem á að breyta fjöldamörgum lagabálkum um stofnlán til atvinnuveganna og til íbúðalána. Og í þessari lagagr. er ráðgert, að þessum lagabálkum öllum sé kollvarpað og ríkisstj. veitt heimild til þess að setja vexti og lánstíma hjá þessum stofnlánasjóðum eins og henni sýnist. Þetta tel ég hneyksli. Þessi löggjöf hefur verið byggð upp með áratugastarfi hér á Alþingi, ein grein eftir aðra, og er mjög þýðingarmikill liður í þjóðarbúskapnum, einmitt þannig, að þessir lágu vextir og tiltölulega langi lánstími gera þúsundum manna í landinu mögulegt að verða sjálfstæðir framleiðendur og eignast eigin heimili, sem annars mundu þess engan kost eiga. En það er einmitt þetta, sem þeir geta ekki þolað, sem nú standa fyrir málum á þjóðarbúinu. Þeir vilja efla peningavaldið í landinu þannig, að framvegis verði þetta fólk að leita á náðir þess, en geti ekki fengið þjóðfélagslegan stuðning til þess að verða sjálfstæðir framleiðendur eða eignast eigin heimili. En einmitt af því, að þessi vaxtapólitík hefur verið rekin hér á undanförnum áratugum, hefur íslenzkt þjóðfélag byggzt upp allt öðruvísi en mörg önnur þjóðfélög hér í grennd. Það er einmitt af þessum ástæðum m.a., sem hér er svo tiltölulega margt af sjálfstæðum atvinnurekendum á Íslandi, en tiltölulega lítið af auðkóngum, sem fólkið á allt sitt undir. Og það er einmitt vegna þessarar starfsemi, sem tiltölulega fleiri eiga sitt eigið húsnæði á Íslandi en í nokkru öðru landi.

En þessa starfsemi á að slá niður. Það er einn liðurinn í þessu frv. Og svo er verið að færa það fram, — það var einhver að bögglast við að færa það fram sem ástæðu fyrir þessari algeru stefnubreytingu, að það væri halli á einhverjum af þessum stofnlánasjóðum. Eins og það sé nokkuð nýtt. Auðvitað hlýtur að verða hallí á þessum stofnlánasjóðum. Það þarf að leggja þeim fé. Það þarf að leggja þeim af almannafé, til þess að þeir geti lánað með lágum vöxtum, jafnvel þó að þeir þurfi að taka lán með hærri vöxtum. Það er engin uppgötvun, engin ný bóla. Það eru ekki nema örfá ár síðan t.d. ríkissjóður tók við 33 millj. af skuldum íbúðalánasjóðsins yfir á sig til þess að gera sjóðnum fært að halda áfram að lána með lágum vöxtum. En þessi klíka, sem nú hefur sölsað undir sig völdin, mundi ekki hafa leyst þetta á þessa lund. Nei, hún ætlar að leysa þetta og önnur slík mál með því að hækka vextina. Það er vitaskuld hægt að leysa vandamál ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs sveitanna og fleiri þessara sjóða á alveg nákvæmlega sama hátt og þetta vandamál íbúðalánasjóðsins var leyst, og þannig á að leysa þau. Ríkið getur mjög vel tekið á sig nokkuð af skuldum þessara stofnana, án þess að það verði tilfinnanlegt fyrir ríkisbúskapinn, og ekki nema eins og pínulítið brot af þeirri gífurlegu hækkun, sem nú verður á fjárlögunum.

Vaxtabyrði ríkissjóðs hefur farið lækkandi. Þau lán, sem ríkissjóður stendur sjálfur undir, hafa lækkað, og það er alveg vandalaust að leysa þessi mál á þessa lund, enda skal enginn halda, að það, sem hér liggur á bak við, sé einhver sérstakur kvíði um, að það sé ekki hægt að útvega, eins og verið hefur, þetta fé, sem þarf til þess að halda lágu vöxtunum. Menn skulu ekki halda það. Það er ekki það, sem liggur á bak við þessa pólitík. Það dettur heldur engum manni slíkt í hug, sem athugar, að þeir menn, sem hér standa að þessu, hækka útgjöld fjárlaganna án þess að depla augunum um 300–400 millj. á einu árí. Það er ekki það, sem hér er um að ræða. Nei, það er allt annað. Það þarf að þeirra dómi að kveða þessa pólitík niður, vegna þess að hún samrýmist ekki þeirri hugsun, að þessi þjóðfélagsstuðningur verði að hætta, fjármagnið eigi að ráða, gróðasjónarmiðið eigi að ráða, svona lagaður þjóðfélagsstuðningur eigi engan rétt á sér. Og það er grátlegt að horfa upp á, að Alþfl:, sem fram að þessu hefur talið verkamannabústaðalöggjöfina t.d. eitt af sínum aðalafrekum, skuli nú koma og leggja það til á hv. Alþingi að nema þá löggjöf í raun og veru úr gildi, og fela ríkisstj., hver sem hún svo er, að valta og skalta með vextina og lánstímann á verkamannabústaðalánunum.

Hvað eru þessir menn eiginlega að fara? Hafa þeir ekki gert sér grein fyrir því, hvað er að ske með þessu?

Ég vil fara fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún taki þessa grein út úr frv., fallist á að taka hana út úr frv., og ef hún að athuguðu máli raunverulega vill halda. þessu til streitu, að hún flytji þá frv. um breytingar á þeim lagabálkum, sem hafa verið settir um þessi mál, til þess að Alþingi geti á þinglegan hátt og eðlilegan fjallað um það, hvort eigi að breyta þessum lagabálkum eins og hæstv. ríkisstj. hefur í huga. En hitt er algerlega ósæmilegt, að hv. Alþingi standi frammi fyrir því að eiga að taka afstöðu til þessara þýðingarmiklu mála í einni grein í lagabálki, sem fjallar um öll möguleg önnur efni. Ég veit, af hverju hæstv. ríkisstj. gerir þetta. Hún vill setja sem allra flest í þetta frv. til þess að þvinga Alþingi, ekki bara stjórnarandstæðinga, heldur líka og ekki síður sína eigim þm. Hún vill með því þvinga sina eigin þm. til þess að ganga inn á ýmislegt, sem þeir ella mundu alls ekki ljá máls á, — með því að setja það inn í þetta mál og halda því fram við þá, að þeir verði að samþ. það sem einn lið í þessari áætlun. Hæstv. ríkisstjórn er alveg ljóst, að sumir af þessum þm. mundu aldrei hafa fallizt á sum þessi atriði, ef þau hefðu verið flutt sem sérmál.

En ég segi: Þessi málsmeðferð er ósæmileg og óþingleg og óviðeigandi með öllu. Þetta er beinlínis gert til þess að koma í veg fyrir, að frjáls skoðanamyndun á Alþingi geti orðið um þessi atriði. Það er engin tilviljun, að hæstv. ríkisstj. hnýtir þessu inn í þetta mál. Það er gert í þessu skyni.

Það er áreiðanlega full ástæða til þess að vara hæstv. ríkisstj. víð því að berja þetta mál fram með þeim litla meiri hl., sem hún hefur hér á hv. Alþingi. Það væri miklu hyggilegra fyrir hæstv. ríkisstj. að fallast á þá starfstilhögun, sem stungið er upp á í þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér hefur verið lögð fram af hv. 1. minni hl. fjhn., þar sem stungið er upp á því, að kosnir séu úr þingflokkunum menn til þess að íhuga þessi mál og þær upplýsingar, sem fyrir liggja, og skila bráðabirgðaáliti innan þriggja vikna.

Það er ekkert annað en fjarstæða, sem hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) hélt hér fram í dag, að óhugsandi sé að fallast á þessa starfsaðferð, vegna þess að það liggi svo mikið á. Það er alveg misskilningur og fjarstæða. Það er vel hægt að gefa sér þetta tóm til þess að reyna að komast að heppilegri niðurstöðu en þeirri, sem hæstv. ríkisstj. hefur komizt að. Öll framleiðsla í landinu er í fullum gangi og þess vegna nægilegur tími til stefnu, og þetta væru að öllu leyti miklu gæfulegri vinnubrögð en þau, sem hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér.

En ég vil að lokum aðeins segja, að ef hæstv. ríkisstj. á hinn bóginn vill ekki taka í þessum efnum neinum sönsum og ber þetta mál fram með þessum litla meiri hluta, sem hún hér hefur, og jafnvel með því að þvinga sitt elgið stuðningslið á þann hátt, sem ég hef lýst, — því að auðvitað er það hrein þvingun að safna saman í eitt mál svo mörgum óskyldum greinum sem hér er gert og heimta síðan af mönnum, að þeir segi já eða nei við því öllu saman, — ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera þetta, berja þetta fram, þá verður það vitaskuld upphaf að stórfelldri pólitískri baráttu í landinu um meginstefnur í íslenzkri pólítík. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þær ráðstafanir, sem því fylgja, eru ekki aðeins frv. til laga um að gera ráðstafanir til stutts tíma og til að leysa dægurvanda, heldur er hér kastað hanzkanum og byrjað á stórfelldri sókn af hendi þess meiri hluta, sem hér er núna, stórfelldri sókn til þess að breyta alveg undirstöðuatriðunum í íslenzkum þjóðarbúskap. Verði horfið að því ráði að berja þetta fram, þá hlýtur það að verða upphaf stórfelldrar baráttu á næstu missirum og næstu árum. En ég vara líka við því að gera þetta vegna þess, að þessar till. eru óframkvæmanlegar, eins og sýnt hefur verið fram á í þessum umræðum.