12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

48. mál, efnahagsmál

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Sitt hvað mundi hv. núverandi stjórnarflokkum hafa þótt athugavert við efnahagsmálafrv. það, er hér liggur fyrir til umræðu, ef Framsfl. eða vinstri stjórnin hefði flutt það fyrir 2 árum. Mér finnst ekki úr vegi að leiða hér örfá vitni úr hópi hv. stuðningsmanna núverandi ríkisstj. og formælenda frv. til þess að bregða ljósi yfir, hverjar afleiðingar muni verða í fjármálum og þjóðlífi okkar, ef svo ógæfusamlega fer, að frv. verður samþ. Ætla ég, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar dragi ekki í efa dómgreind og þjóðhollustu þessara vitna, þannig að á þeim sé fullt mark takandi.

Fyrsta vitnið, sem fær sér sæti í vitnastúkunni, er hæstv. núverandi viðskmrh., en 14. maí 1958 mælti hann svo hér í þessari hv: d., með leyfi hæstv. forseta:

„Í nútímaþjóðfélagi, eins og það er hér á Íslandi, er vald launþegasamtakanna svo mikið, að skynsamlegri stefnu í efnahagsmálum verður varla fylgt, nema hún hafi beinan eða óbeinan stuðning launþegasamtakanna. Launþegasamtökin þurfa annaðhvort að styðja þessa stefnu eða að minnsta kosti eira henni, ef hún á að hafa von til þess að geta borið góðan árangur. Það er varla hægt að stjórna til lengdar í fullkominni andstöðu við launþegasamtök landsins, nema þá að gera það með ofbeldi.“

Hvort mundi nú fremur vera, að hæstv. ríkisstjórn telji frv. sitt um efnahagsmálin núna ekki skynsamlega stefnu í efnahagsmálum eða hún hugsi sér að stjórna með ofbeldi, svo að notuð séu eigin orð hæstv. viðskmrh., því að það þarf varla um það að efast, að launþegasamtökin í landinu eru á móti þessari stefnu í efnahagsmálunum, sem nú á að innleiða.

Annað vitnið, sem ég vil nefna, er hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ). Hann mælti hér í þessari hv. deild sama dag; með leyfi hæstv. forseta:

„Það er talað um, að fjárfestingin í landinu sé of mikil, og það má vel vera, að svo sé. Hins vegar hlýtur alltaf fjárfesting að vera mikil í landi, sem á svo margt ógert eins og við eigum hér á Íslandi. En það er a.m.k. eitt, sem ekki má koma fyrir, og það er, að óhæfilega verði dregið úr fjárfestingu til þeirra þarfa, sem skila okkur gjaldeyrísverðmætum í þjóðarbúið, þ.e.a.s. til framleiðsluatvinnuveganna.“ Og enn fremur: „Það, sem mér hrýs hugur við í þessu sambandi er það, að þetta frv. hefur í för með sér svo stórkastlegar nýjar álögur.“

Ég held nú, að álögurnar, sem þá voru lagðar á, séu smávægilegar móts við það; sem nú skal koma.

Síðasta vitnið, sem ég ætla að nefna, er hv. 11. þm. Reykv. Hann sagði einnig sama dag hér á hinu hv. Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er það þannig, að um það er í sjálfu sér ekki nema gott eitt að segja, að mikil fjárfesting eigi sér stað í þjóðfélaginu, því að slíkt er einmitt undirstaða áframhaldandi framfara.“

Það skyldi þó aldrei vera, að hæstv. núv. ríkisstj. líti svo á, að undanfarið hafi verið svo miklar framfarir, að nú sé nóg komið af þeim, að vinstri stjórnin hafi stuðlað að svo mikilli uppbyggingu og framförum, að við höfum ekki með meira að gera að sinni. Ég býst raunar varla við, að núv. hæstv. ríkisstj. vilji a.m.k. við það kannast, að vinstri stjórnin hafi áorkað svo miklu til heilla fyrir land og lýð. Hitt veit ég, að fjöldi óbreyttra kjósenda núv. stjórnarflokka kunni að meta verk hennar og harmaði, að dagar hennar urðu ekki fleiri. Það munu fáar ríkisstjórnir, sem setið hafa að völdum hér á landi, hafa verið jafnvinsælar meðal almennings af verkum sinum, og það var einmitt þess vegna, sem Sjálfstfl. greip til jafnvafasamra ráðstafana, hvað heiðarleik snertir, til þess að koma henni frá völdum. Sjálfstfl. þorði ekki að eiga það á hættu, að vinsældir vinstri stjórnarinnar héldu áfram að vaxa. Hann sá þá, hvað mundi bíða hans. Því hrópaði hann á kosningadaginn í haust: „Aldrei framar vinstri stjórn.“ Bara flokkstjórn Sjálfstfl. Burt með allt lýðræði. — Og frv. það, sem nú er hér til umræðu, er markvisst spor á þeirri leið, en fyrsta sporið var afnám kjördæmanna á s.l. ári. Það var undirstaðan, sem Sjálfstfl. ætlaði að byggja sitt einræði á. Í krafti þess valds, sem afnám kjördæmanna veitti honum, á nú að færa efnahagsmál þjóðfélagsins í það form, sem honum hentar. Um það ber þetta efnahagsmálafrv. glöggt vitni.

Það er yfirvarp eitt, að íslenzka þjóðin sé orðin svo illa stödd efnalega, að það þurfi að leggja jafnþungar byrðar á sem þetta frv. boðar. M.a. er það ljóst af hinum misræma málflutningi hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvmrh. við 1. umr. þessa máls fyrir viku. Hæstv. forsrh. átti varla til nógu svartan lit til þess að mála fjandann á vegginn nógu ferlegan í framsöguræðu sinni, enda kannske varla von, rúmum mánuði eftir að það höfðu verið reyttar af honum flugfjaðrirnar. En hæstv. sjútvmrh. var hins vegar að túlka fyrir þingheimi, að það væri nú ekki mikið, sem vantaði, til þess að endarnir næðu saman hjá ríkissjóði og útflutningssjóði. Alþfl. hefði ekki skrökvað miklu s.l. haust, þegar hann sagði, að útflutningssjóður hefði aldrei staðið betur og að ekki liti út fyrir halla hjá ríkissjóði:

Það er einn og aðeins einn meginþráður í þessu frv. Það er að þrengja að þeim, sem minna mega sín, en skapa hinum, sem sterkari eru fjárhagslega, mikla möguleika til þess að koma ár sinni enn betur fyrir borð. Peningavaldið á að færast á færri manna hendur, þeirra, sem eru hinn ráðandi kjarni Sjálfstfl. Þar er segullinn, sem til sín á að draga. Það á að draga úr framkvæmdum, stöðva uppbyggingu úti um landið, bæði með því að minnka útlán og hækka vexti og með því að valda mjög mikilli verðhækkun uppbyggingar- og rekstrarvara, en það leiðir óhjákvæmilega af svo gífurlegri gengisfellingu, sem ætluð er, og auknum sköttum. Það mun sannast, að verðhækkanir verða verulega meiri en formælendur frv. vilja vera láta. Og á hverjum mun það bitna fyrst og fremst? Það bitnar fyrst og fremst á þeim, sem skemmst eru komnir á veg með að koma fyrir sig sæmilegri afstöðu til afkomu. Það bitnar á þeim, sem eru að eða eiga eftir að eignast þak yfir höfuðið, þeim, sem eru að byggja sér hús eða eiga það eftir. Það bitnar á þeim mörgu verkamönnum þessa lands, sem erfiðasta aðstöðu hafa til að vinna fyrir sínu daglega brauði. Og það bitnar á þeim enn þá allt of mörgu smáu bændum þessa lands, sem enn hafa of lítinn bústofn, lítinn húsa- og vélakost. Það á að taka umbótaþrá þessara manna allra kverkataki.

Hvernig heldur hæstv. ríkisstj., að þeir mörgu bændur, sem enn hafa verulega miklu minni bústofn en vísitölubú, geti byggt yfir sig og búfé sitt eða keypt sér nauðsynlegar vélar, þegar t.d. dráttarvélar munu hækka um allt að 50% frá því, sem nú er? Er Sjálfstfl. nú búinn að gleyma því, hvað hann úthrópaði vinstri stjórnina fyrir að leggja 55% yfirfærslugjaldið á rekstrarvörur landbúnaðarins og sjávarútvegsins 1958? Hann var ekki þá að túlka málið á þann hátt, sem eðlilegra var, að vinstri stjórnin hlífði þessum atvinnuvegum við þessum verðhækkunum, svo lengi sem unnt var. Nú ætlar Sjálfstfl. að valda þessum atvinnuvegum allmiklu meiri verðhækkunum.

Það er sama, hvaðan maður fréttir af landinu, afkoma landbúnaðarins var lakari s.l. ár en næstu árin þar áður. Bændur áttu erfiðara með að slétta reikninga sína um s.l. áramót en verið hefur síðustu árin. Það munu fáir skilja, á hvaða forsendum sú vísitala byggðist, er var óbreytt s.l. ár. Ég ætla, að hún hafi aldrei sýnt rangari mynd en á s.l. ári. Nú spyr ég hæstv. ríkisstjórn: Er hún máske búin að tileinka sér þá kenningu, þann boðskap, sem útvarpað var um gervallt landið 1. maí s.l., að það megi fækka bændum landsins um helming? Efnahagsmálafrv. vekur grun um, að henni sé ósárt um, þótt þeim fækki a.m.k. nokkuð.

Ég sagði áðan, að það væri einn meginþráður í þessu frv., sá að valda enn meiri misskiptingu þjóðarteknanna en nú er og þar með eignaskiptingu þjóðfélagsþegnanna, og skal ég koma svolítið nánar að því. Síðasta atriði kosningastefnuskrár Sjálfstfl. í haust sagði að vísu nokkuð annað. Það hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: Efnahagslegt sjálfstæði þjóðfélagsborgaranna verði tryggt með eignamyndun öllum til handa.“ Það er nú að vísu engin undantekning með þetta atriði kosningastefnuskrár Sjálfstfl., þó að það sé brotið. Þau eru flest þverbrotin með þessu efnahagsmálafrv.

Það er vissulega engin tilviljun, það er staðreynd, þegar litið er yfir landið, að þar sem framfarirnar eru mestar, þar sem lengst er komið uppbyggingunni og efnahagslegu jafnvægi, það er þar, sem samvinnufélögin, kaupfélögin eru öflugust og hafa starfað lengi. Samvinnufélögin hafa verið meginaflgjafi framfaranna og uppbyggingarinnar um hinar dreifðu byggðir þessa lands. Þessi samtök fólksins í landinu hafa verið og eru ein þýðingarmesta undirstaða uppbyggingarinnar. Það er því vafalaust ekki nein tilviljun, heldur liður í hinni markvissu stefnu Sjálfstfl., sem ég áðan nefndi, að samkv. þessu frv. á nú að fara að draga hluta af innlánsdeildum kaupfélaganna hingað til Reykjavíkur. Það mun áreiðanlega ekki verða árangurslaust í þjónustu þess tilgangs að þrengja að fólkinu úti um landið og draga úr uppbyggingunni þar.

Þá mun það ekki heldur missa marks, það ákvæði frv. að leggja í vald núv. hæstv. ríkisstjórnar að ákveða vaxtakjör og lengd lána úr stofnlánasjóðum atvinnuveganna, byggingarsjóðum og raforkusjóði. Hitt undrar mig, að hæstv. núv. ríkisstj. skuli vera svo handviss um, að ráðherrastólarnir verði til langrar framtíðar setnir af sömu flokkum og nú, að rétt sé með einni lítilli lagagrein að breyta grundvallaratriði 6 lánasjóða á þann veg, að hv. Alþingi afsali til ríkisstj. beinu löggjafaratriði. Það er að vísu í samræmi og fullu samræmi við þá stefnu hæstv. ríkisstj., sem ég hef verið að lýsa hér, en þó að mínum dómi eitt djarfasta sporið, sem hún stígur í þessu frv. Ég held, að það ætti að vera öllum ljóst, að þótt ástæða kunni að vera til að breyta almennum vöxtum við og við til hækkunar eða lækkunar, eftir því sem aðstæður breytast, þá sé það óhæfa, að föst lán til uppbyggingar við sjó og í sveit séu sömu breytingum háð.

Ég hef hér aðeins drepið á örfá atriði, af því að ég hef ekki áhuga fyrir að lengja þessar umræður mikið, enda útlit fyrir, að það sé tilgangslítið. Hæstv. ríkisstjórn hefur gefið sig furðulítið að því að hlusta á stjórnarandstöðuna. Það er líka eini sparnaðurinn, sem sjáanlegur er, að slíta ekki ráðherrastólunum. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að vera allt of viss um sinn málstað. Ég tel, að hún ætti að láta svo litið, ekki aðeins að hlusta á okkur, heldur líka ætti hún að taka tillit til þess, sem við viljum gera í þessu máli. Það er vissulega alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. sagði 1958, það er varla hægt að stjórna í fullkominni andstöðu við launþegasamtökin í landinu, hvað þá ef margir aðrir snúast gegn þessari fyrirhuguðu stefnu til viðbótar.

Það mál, sem hér liggur fyrir, er svo stórt í sniðum og afdrifaríkt, að ég vil alvarlega vara ríkisstjórnina við að treysta um of á, að „vér einir vitum“, hvað rétt er að gera. Um þetta mál veitir vissulega ekki af að reyna að skapa samstöðu, leitast við að finna þann grundvöll, sem hægt væri að sameina þjóðina um. Verði þessi leið, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að farin verði, reynd, er of djarft teflt. Stökkið, sem hún ætlar að stökkva með þjóðina í fanginu, er svo hátt, að það er vonlítið, að hún komi slysalaust niður.

Ég vænti, að hæstv. ríkisstjórn noti komandi helgi til þess að endurskoða ákvarðanir sinar í efnahagsmálunum og að þegar hún kemur undan feldinum á mánudagsmorguninn, þá verði hún komin að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að fara að ráðum okkar framsóknarmanna og reyna að ná sem víðtækustu samstarfi til lausnar á þeim vanda, sem við er að fást í efnahagsmálunum. Sú leið ein mun leiða til farsællar lausnar efnahagsmálanna.