12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

48. mál, efnahagsmál

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að nefna hér atriði úr ræðu hæstv. viðskmrh., þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, þegar hann var að tala um álögurnar, sem hefðu falizt í bjargráðunum. Ég verð nú að segja það eins og er, að ég hef aldrei skilið það, að efnahagsmálaaðgerðir eða aðgerðir í efnahagsmálum væru gerðar án þess að ná einhverju af tekjum, sem ættu að festast, og mér er það fullkomlega ljóst, að það er ekki hægt að leggja álögur á þjóðina, nema þær byrðar lendi á henni misjafnlega miklar, og þær verða ekki bættar upp nema með aukinni framleiðslu. Það er það eina, sem getur gert það að verkum að létta byrðunum aftur af þjóðinni. En út af því dæmi, sem hann nefndi hér, þá er það svo, að þegar þeir sjálfstæðismenn hafa verið að reikna út álögurnar, sem fælust í „bjargráðunum“, þá var meginmunur á útreikningi þeirra og hv. 1. þm. Austf., vegna þess að hann tók það skýrt fram í sinni ræðu hér við 1. umr. málsins, að hann tæki út úr dæminu það, sem gengi inn og út á útreikningnum í sambandi við atvinnuvegina. Það hefur hins vegar aldrei verið gert í útreikningum þeirra sjálfstæðismanna, þar hefur dæmið verið gert upp í heild. Og það má hver trúa því, sem trúa vill, að það séu meiri álögur, sem eru fólgnar í því að hækka yfirfærslugjaldið á erlendum gjaldeyri frá 16% í 55%, eins og almenna gjaldið var, heldur en nú frá 55% upp í 132%. Þar við bætist, að nú eru lagðir á nýir skattar, sem var ekki gert 1958. Ef þetta er réttur útreikningur hjá hæstv. ráðh., þá held ég, að það hafi komið einhver skekkja inn í dæmið, sem hann þurfi að endurskoða.

Nei, hér er ekki um neitt sambærilegar álögur á þjóðina að ræða. Þessu til viðbótar má svo geta þess, að 1958 var álögunum mætt með kauphækkun að nokkru, sem ekki á að gera nú. Ég ætla svo tímans vegna ekki að fara lengra út í þessa ræðu hæstv. ráðherra.

Hv. 12. þm. Reykv. talaði hér í fyrsta sinn í kvöld. Eitt af því, sem hv. þm. byrjaði hér á, var skáldskapur. Ég held, að hv. 12. þm. Reykv. ætti að fara til flokksbróður síns, hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm), og læra eitthvað af honum í þeirri fræðigrein, því að auðheyrt var á öllu, að þm. átti þar nokkuð ólært, og hygg ég, að hv. þm., Jón Pálmason, gæti miðlað honum nokkru af þekkingu sinni á skáldskap.

Þá talaði þessi hv. þm. um hroka og sjálfbirgingshátt. Ég held, að hv. þm. hefði átt að láta þetta orð niður falla. Enn fremur talaði hann um það, að hann hefði kynnzt mönnum, sem umgengust sannleikann með frjálslyndi. Það var auðheyrt á ræðu þessa hv. þm., að þetta hafði hann tileinkað sér. Það var mjög mikið frjálslyndi í því, hvernig hann umgekkst sannleikann. Það var ekki verið að hugsa um að fara þar neina troðna eða beina braut.

Sem sýnishorn um ræðu þessa hv. þm., vil ég benda á það, að hann sagði, að stjórnarandstaðan væri þekkt að því að rjúfa orð sín og eiða. Ekki taldi þm. ómaksins vert að finna þessum orðum sínum stað. Nei, það var látíð liggja á milli hluta um það, heldur var því bara slegið fram, og það var látið nægja.

Það var nokkuð gott hjá hv. 12. þm. Reykv. að fara að tala um kauphækkunina hjá Iðjufólkinu 1958. Það dæmi var gott sýnishorn af stjórnarandstöðu þeirra sjálfstæðismanna og mjög gott einmitt, að það skyldi vera rifjað upp nú. En hvað hefur skeð siðan þessi kjarabót fór fram, sem hann taldi að hefði verið nauðsynlegt, að þetta fólk fengi? Það hefur gerzt hér á hv. Alþingi, að laun þessa fólks voru lækkuð í fyrravetur um 5.4%. Sjálfstæðismenn stóðu að því, og ég hef ekki orðið var við, að þessi hv. þm. eða þeir sjálfstæðismenn aðrir hafi reynt að rétta hlut Iðjufólksins eftir það. Og nú ætlar þessi hv. þm. að standa að því, að kjör þessa fólks verði miklu meira rýrð með þeim aðgerðum, sem nú á að gera. Nú er ekki ástæða til að bjóða upp á neinar kjarabætur handa þessu fólki. Nú eru lágu launin þess nógu há til þess að mæta dýrtíðinni, sem hv. þm. nú stendur að. En það, sem hefur gerzt, er þetta, að Sjálfstfl. er nú í stjórnaraðstöðu, en ekki stjórnarandstöðu.

Þá talaði þessi hv. þm. um, að það, sem við værum að gera, og það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefði lagt hér til, væri að fella niður innflutningsgjald af jeppabifreiðum. Ekki taldi hv. þm. þetta gott. Nú ætla ég að segja þessum hv. þm., því að hann vissi nefnilega ekki, hvað hann var að fara, að þetta gjald er ekki á jeppabifreiðunum. Þetta 135% gjald, sem er í þessu frv., er ekki á þeim. Og ég er alveg viss um það, að hæstv. landbrh. mun halda því fram, að það eigi ekki að leggja þetta gjald á þær, og ég verð að segja það, að ég hef búizt við því, að hæstv. ráðh. mundi hugsa þannig, að þetta gjald yrði ekki á jeppabifreiðar lagt. En við töldum það tryggara, framsóknarmenn, að flytja um það till. hér á hv. Alþ., af því að við reiknuðum með, að sá hugsunarháttur væri til hjá þeim sjálfstæðismönnum, að það gjald skyldi einnig lagt á jeppabifreiðar, þó að við byggjumst ekki við því þá, að frá því yrði sagt hér á hv. Alþingi nú, að sá vilji væri til staðar, eins og þessi hv. þm. gerði. En það var mjög gott, að það skyldi koma fram, þó að það kæmi fram í þeirri mynd, að hann vissi alls ekki, hvað hann var að fara, þessi hv. þm., þegar þetta skauzt upp úr honum.

Það voru fleiri upplýsingar, sem þessi hv. þm. gaf, og það var m.a. það, að nú væri verið að undirbúa kjarasamninga við farmenn og togarasjómenn. Það er gott, að það skuli vera upplýst hér á hv. Alþingi, að þeir skuli þegar vera að hefjast, kjarasamningar til handa fólkinu í landinu, vegna þeirra aðgerða, sem nú á að fara að samþykkja, og gætu þá fleiri á eftir farið.

Þá kom þessi hv. þm. að því að skýra frá því, sem gerðist á síðasta Alþýðusambandsþingi. Þar var hann fulltrúi, og hann skýrði frá því, að honum hafi verið ljóst eftir ræðu ráðuneytisstjórans núv. í efnahagsmrn., Jónasar Haralz, að afkoma þjóðarinnar væri með þeim hætti, að það stefndi í voða, sem sagt um sjálfstæði og fjárhagslega afkomu hennar, hún væri á brúninni og ekkert nema fara fram af, ef ekki væri að gert. En samt var það nú svo, að þegar þessum hv. þm. varð það ljóst, að þjóð hans átti svo mikið í veði, var í svo mikilli hættu, þá vildi hann ekki leggja það á sig að bíða í einn mánaðartíma eftir því að taka verðlagsuppbótina á kaupið sitt. Það var ekki meiri þjóðhollusta af hans hendi þá, þó að hún eigi að vera til staðar nú. Þetta er kannske gott sýnishorn um hugsunarhátt hv. 12. þm. Reykv.

Þá talaði þessi hv. þm. um vextina. Þeir áttu ekki að koma illa við fólkið í landinu. Veit ekki þessi hv. þm., hverjir það verða, sem fyrst verða fyrir barðinu á vaxtahækkuninni? Það verða ekki þeir, sem hafa breiðu bökin. Það verður almenningur í landinu. Það er fólkið, sem er á sama aldursskeiði og þessi hv. þm., sem hefur verið að brjótast í því að koma þaki yfir höfuð sér. Það er þetta fólk, sem vaxtahækkunin í landinu kemur fyrst og fremst við. Og það var þetta fólk, sem hv. þm. átti víst við, þegar hann talaði um afætulýð. Þannig er talað um það fólk, sem hefur lagt nótt við dag til þess að byggja yfir sig og sína. Þannig er komið fram við það fólk, sem hefur ekki verið gert neitt í til þess að koma málum þess áfram í sambandi við húsnæðismálin nú s.l. ár, að bæta fyrir það um lánsútveganir. Við höfum gert tilraun til þess, framsóknarmenn, aftur og aftur, að það yrði komið til móts við þetta fólk og það yrði gert eitthvert átak í þessum málum. Sjálfstæðismenn höfðu ekki áhuga í málinu, nema meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Og svo kemur þessi hv. þm. og talar um afætulýð, þegar verið er að tala um húsbyggjendur. Ég held, að þessi hv. þm. ætti að fara sér hægar, þegar hann fer næst af stað.

Í sambandi við það, sem fram kom hér í ræðum þm. og ráðh., eftir að ég talaði hér á laugardaginn, þarf ég að taka nokkur atriði fram. Hæstv. sjútvmrh. er nú fjarverandi. Það er nú svo með okkar ágætu hæstv. ríkisstjórn, þó að hún talaði um það í haust, að hún hefði ekki vinnufrið, meðan þing sæti, vegna þess að hún yrði að vera hér á þingfundum, þá eru hæstv. ráðh. ekki alltaf að tefja sig á því, t.d. voru ráðherrastólarnir allir auðir í gær, þegar frsm. 1. minni hl. flutti sína framsöguræðu. Þessi hæstv. ráðh. gerði nokkra aths. í sambandi við ræðu mína hér á laugardaginn. Það, sem ég tók fram í þeirri ræðu, og því hefur ekki verið mótmælt, var, að það er ekki aðgerða þörf í efnahagsmálum nú vegna vinstri stjórnarinnar. Ég hélt því líka fram þá, að þeir Alþýðuflokksmenn hefðu haldið því fram, að þeir hefðu stöðvað dýrtíðina, og ég leiddi þá fram vitni, sem var ekki ómerkara en hæstv. viðskmrh. Ég hélt því fram í þessum umræðum, að fólkið í landinu hefði litið svo á, að þeim hefði tekizt þetta verk, að stöðva dýrtíðina í landinu, og þess vegna væri ekki annað að gera en halda áfram á þeirri braut. Ég vil til viðbótar því, sem ég þá nefndi, minna á það, að Alþýðubl. átti samtal við hv. 10. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson, um ástandið í þessum málum, 16. okt. s.l., og þá sagði hv. þm.: „Við krefjumst óbreytts ástands.“ Það var þeirra lóð á vogarskálarnar. Og ég held því fram hiklaust, að þeir hafa túlkað svo sín mál, Alþýðuflokksmenn, að þeim hafi tekizt að stöðva dýrtíðina, og fólkið hafi trúað því.

Þessu til viðbótar vil ég taka hér eitt vitni enn þá og það er tekið upp úr Alþýðublaðinu 8. okt. s.l., og þetta vitni er Jóhanna Egilsdóttir. Blaðið átti samtal við frú Jóhönnu Egilsdóttur, og fórust henni þá m.a. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hróflað verður við vöruverðinu til hækkunar, hvort sem það er gert með beinum verðhækkunum eða svokölluðum niðurgreiðslum, þá förum við af stað. Það er líka augljóst mál, að þá fara allar stéttir af stað, þá verða vinnudeilur, þá verða verkföll, þá verða kauphækkanir. Það getur enginn efazt um það, hver yrði afleiðingin. Engin önnur en sú, að víxlhækkanirnar hæfust á ný. Þessari fjögurra ráðherra stjórn Alþýðuflokksins hefur tekizt að stöðva dýrtíðina. Ef Alþingi hækkar allt, þá er bezt, að aðrir flokkar beri ábyrgð á því en Alþýðuflokkurinn.“

Ég tek það enn fram, að þetta var skoðun fólksins, sem kaus Alþfl. í haust, og það er þýðingarlaust fyrir þá Alþýðuflokksmenn nú að halda því fram, að þetta hafi ekki verið þeirra málflutningur þá.

Þá vil ég drepa ofur lítið á það, sem þessi hæstv. ráðh. talaði um stöðu ríkissjóðs og stöðu útflutningssjóðs. Í sambandi við stöðu ríkissjóðs vil ég minna á það, að hér á hv. Alþingi í fyrravetur fluttum við framsóknarmenn tillögu um það, að 25 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs yrði ráðstafað til uppbyggingar í landinu, til húsnæðismálastofnunar, veðdeildar Búnaðarbankans og byggingarsjóðs Búnaðarbankans.

Þegar fjárlög voru afgreidd hér í apríl s.l., kom till. frá fjmrh, um það að taka inn á þau 25 millj. kr. nákvæmlega, sem væri greiðsluafgangur ríkissjóðs 1958 umfram greiðsluhallann 1957. Það var nákvæmlega sú upphæð, sem við gerðum till. um að ráðstafað yrði. Meira væri ekki til skipta. Ef þetta væri samþykkt, væri till. þýðingarlaus.

En hvað gerist nú? Það var sagt frá því núna, að þessi greiðsluafgangur hafi orðið 48 millj. umfram greiðsluhallann 1957. Ég verð því að segja það, að yfirlit, sem var gefið hér um afkomu ríkissjóðs s.l. ár, tek ég með nokkrum fyrirvara, eftir að standa frammi fyrir því, að fjvn. Alþingis voru gefnar þessar upplýsingar og hv. Alþingi, eftir að nærri 4 mánuðir voru liðnir af árinu 1959, enda hefur það nú vakið athygli mína, að sá kafli úr ræðu hæstv. fjmrh., sem fjallaði um greiðsluafkomuna 1959, hefur ekki sézt á prenti enn þá, það kemur síðar. En ég bíð, þangað til ég fæ frekari grg. um niðurstöðu ársins. Það hefði sýnt sig, að greiðsluhalli hefði orðið, ef þetta hefði ekki farið fram úr áætlun.

Þá er það um útflutningssjóð, sem ýmsar upplýsingar koma fram. Hæstv. ráðh. upplýsti það hér á fundi fyrra laugardag, að hallinn væri 30 millj., þegar sjóðsyfirlitið hefði verið gert upp. Svo hefði verið tekið tillit til þess, sem væri ekki komið til greiðslna, en vitað væri um, inn og út. Og þá kom það út, sem sagt er frá í grg. þessa frv. En svo bætti hæstv. ráðh. þessu við, að greiðslur, sem inntar voru af hendi árið 1959, voru tilheyrandi árunum 1958 og 1957 upp á 347 millj. kr. Og þá get ég ekki betur séð, þegar á þetta er litið, en að þá sé 270 millj. kr. hallinn orðinn öfugu megin, það hefði orðið greiðsluafgangur hjá útflutningssjóði á þessu ári, ef hann hefði tekið við hreinu borði árið áður. Þess vegna verður það nú afskaplega skrýtin rökfræði, að það þurfi að gera allar þær ráðstafanir, sem nú á að gera, vegna erfiðleika útflutningssjóðs. Ofan á þetta bætist svo, og ráðh. tók það fram, að birgðirnar í landinu hafa stórkostlega aukizt og ameríska lánið var óyfirfært að mestu á s.l. áramótum.

Þessar upplýsingar gaf hæstv, ráðh. hér s.l. laugardag, og nú er ég ekkert að rengja það, að ráðherrann fer með rétt mál. En þá segi ég bara: Hvers vegna er þá verið að þessu öllu saman, ef staða útflutningssjóðs var svo góð, að það hefði orðið greiðsluafgangur hjá útflutningssjóði, ef ekki hefðu komið til eldri skuldbindingar? En í framhaldi af þessu vil ég vitna hér í eina skýrslu, sem líka er samin af hagfræðingum og a.m.k. á ábyrgð hæstv. fyrrv. ríkisstj., og það er grg., sem hæstv. ríkisstj. lét fylgja frv. um útflutningssjóð á þinginu 1959. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. bráðabirgðaniðurstöðum hefur hagur sjóðsins breytzt úr 34 millj. kr. skuld í árslok 1957 í 5 millj. kr. sjóðseign í árslok 1958.“

Svona var þingheimi tilkynnt að staða útflutningssjóðs hefði breytzt á árinu 1958. Og svo kemur hæstv. ráðh. nú og segir: Við eigum að taka við hala upp á 347 millj, kr. — Og það er meira sagt í þessari grg. Þar er því haldið fram, að sjóðurinn mundi verða hallalaus með því kerfi, sem hann átti að búa við, ef ekki hefðu orðið hækkanir umfram það, sem þeir gerðu ráð fyrir.

Ég verð því að segja það, þegar maður hefur þessar og aðrar upplýsingar, að meira að segja í sömu grg. eru tölur, sem munar 90 millj. á, þá er ekki gott að henda reiður á því, og það er eitthvað óhreint á hreinu borðunum. Ég held því enn fram, að ef þeirra aðgerða er þörf, sem nú er stefnt að, er það af því, að það hefur farið úr böndunum, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. ætlaði sér að gera. Það eru engin rök fyrir því önnur en þau, nema þá sé verið að leggja álögur á þjóðina að óþörfu.

Í sambandi við það, sem fram kom hér í ræðu hv. þm. á laugardaginn, vakti það athygli mína, að hér kom fram hv. þm. og mælti því bót, að það ætti með einni lítilli lagagrein að afnema vald lánastofnana, eins og ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs og slíkra stofnana. Og hver haldið þið, að þessi hv. þm. hafi verið? Það var hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm), maður, sem tilkynnti það, að hann sæti í bankaráði Búnaðarbankans. Hann sagði hv. þingheimi frá því, að hann væri í bankaráði Búnaðarbankans, og hann vildi leggja það til, að ríkisstj. væri gefið það vald að ákveða vaxtakjör og lánstíma þessara sjóða.

Hv. þm. gat haft sína skoðun á því, hvort það ætti að hækka vexti sjóðanna eða ekki. En það átti að gera eftir eðlilegum leiðum, það átti að breyta lögunum um stofnanirnar, en ekki með þessum hætti, sem hér er stefnt. Hv. Alþingi hefur ákveðið um lánakjör þessara stofnana með lagasetningu, en það hefur ekki verið falið neinni ríkisstjórn. Það er furðulegt, að hv. þm. skyldi leyfa sér að halda því fram, að þetta væri hugsanleg leið, sem þarna er farið fram á.

Þá er það nokkuð skemmtilegt atriði, þegar þeir sjálfstæðismenn nú eru að tala um yfirfærslugjaldið, og þá er mikið talað um, að við framsóknarmenn höfum staðið að því og það sé gengislækkun. En þeir gleyma alveg að segja frá því, að þeir sjálfir voru á móti málinu, og það, sem þeir hafa deilt á þessa löggjöf, var fyrst og fremst yfirfærslugjaldið. Það er því ekki undarlegt, þó að þeir tali digurbarkalega um það nú.

Það er talað um það, að nú eigi að verða meira frjálsræði í landinu en áður hefur verið. Já, það verður vafalaust afar mikið frjálsræði, t.d. fyrir peningastofnanir eins og sparisjóði, þegar nú á að fara að fyrirskipa þeim héðan úr Reykjavík, hvað þeir megi lána. Það á að fara að fyrirskipa þeim, hvað lánsfjáraukningin megi vera mikil, það á að fara að segja þeim fyrir um vaxtakjör og annað því um líkt, og það á að fara að kalla til Reykjavíkur hluta af sparifjármynduninni, sem á sér stað þar.

Ég tók það fram í minni fyrri ræðu, að þessi ráðstöfun gæti orðið þess valdandi ásamt öðru, sem hæstv. ríkisstj. er að beita sér fyrir, að heil byggðarlög væru í hættu, og ég hef fengið upplýsingar um það úr mínu héraði, að vaxtamismunurinn, sem myndast við þá vaxtabreytingu, sem er nú fyrirhuguð, þó að það liggi ekki fyrir nú, hvað vextir skuli vera háir, en miðað við líkur missir sparisjóður Mýrasýslu þar allar sínar tekjur umfram rekstrarkostnaðinn og meira en það.

Yfirleitt er það svo hjá sparisjóðunum, að þar er um föst lán að ræða, en lítil víxilviðskipti. Og eftir því sem þessi viðskipti eru meiri hluti af viðskiptum sparisjóðanna, er hættan meiri. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa horft á þessa hlið málsins.

Þá þætti mér gaman að fá upplýsingar um það, hvort vísitöluútreikningurinn, sem nú á að vera, er til þess gerður að geta innheimt vaxtahækkun hjá því fólki, sem hefur fengið lán úr húsnæðismálasjóði, vegna þess að þar er það ákvæði til staðar, að vísitala skuli reiknuð á lán, ef hæstv. ríkisstj. vildi gera svo vel að upplýsa mig um þetta.

Þá vildi ég enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hér í fyrravor var samþ. það ákvæði í sambandi við afgreiðslu útflutningssjóðslaganna, að það skyldi verða úthlutað 100 leyfum til atvinnubilstjóra hér á landi. Eftir því sem ég bezt veit, voru þessar leyfisveitingar ekki nema 50 talsins. Þær fóru fram seint á þessu sumri, og mér er kunnugt um það, að nokkur eða verulegur hluti af þessum bilum er ókominn til landsins enn. Stafar það m.a. af því, að stálverkfallið í Ameríku tafði afgreiðsluna. Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Eiga nú þessir innflytjendur að fá sína bíla á því verði, sem fyrir lá, þegar pöntunin og afgreiðslan var gerð, eða á verðbreytingin að koma á? Ég óska eftir því, að þessu verði svarað.

Þá vil ég vekja athygli á því, að það er alveg furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skyldi láta sér detta í hug að leggja stórkostlegan nýjan skatt á benzínið ofan á þann skatt, sem það tók úr útflutningssjóði, án þess að ætla að láta hann ganga til samgöngubóta í landinu. Það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki, og meira að segja ætlar hún svo þar á ofan að láta standa óbreytt fjárframlög á fjárlögum til samgöngumála. Ég vona nú, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér og stjórnarliðar og samþykki þess vegna till. okkar framsóknarmanna um þetta efni.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstjórn: Það er boðað hér, að það eigi að taka upp niðurgreiðslu á sykri, kaffi og kornvöru. Hvernig hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér framkvæmdina í þessu máli? Á að taka upp skömmtun á sykri og kaffi? Ef ekki verður tekin hér upp skömmtun á þessum vörum, á þá að greiða niður sykrið til sælgætisgerðanna? Mér er sagt, að kaffi geti verið mjög góð gjaldeyrisvara, og væri þess vegna hægt að flytja það úr landi, ef þessi síður væri upp tekinn, og mig langar til að fá upplýsingar um það: Hvernig hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að framkvæma þetta atriði og sömuleiðis með kornvöruna?

Þá spurði ég um það hér í umræðunum fyrir viku, hvort það ætti að halda áfram niðurgreiðslu á áburði, eins og gert var s.l. sumar. Mig vantar upplýsingar um þetta og vildi gjarnan fá þær.

Það var mjög táknrænt og eðlilegt, sem hv. frsm. meiri hl., hv. 6. landsk. (BK), sagði hér í gær. Hann sagði: Þegar gerður er samanburður á lífskjörunum fyrir og eftir þessar breytingar, þá á ekki að bera það saman við það, sem er, vegna þess að ástandið, þau lífskjör, sem við búum við í dag, eru fengin að láni. Það á að bera saman það, sem hefði orðið, ef þetta hefði ekki skeð. Og það, sem hefði orðið, sagði þessi hv. þm., var óðaverðbólga, greiðsluhalli, atvinnuleysi og alger gjaldeyrisskortur. — Þetta var það, sem þessi hv. þm. taldi að þyrfti að bera saman, til þess að aðgerðirnar, sem nú ætti að fara að gera, væru sambærilegar. En það skyldi nú ekki vera þetta, sem stefnt væri að með aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar.

Hæstv. ráðh. úr ríkisstj. og hennar lið hafa sett fram mikla útreikninga um, hvað kjaraskerðingin í landinu mundi verða mikil í sambandi við þessar efnahagsráðstafanir, og það hefur ekki verið há tala, sem þeir hafa fundið út, þegar þeir voru búnir að gera dæmið upp. Í sambandi við þá útreikninga dettur mér í hug, að einn af stuðningsmönnum stjórnarliðsins var staddur á flokksfundi fyrir nokkru og var að skýra þessi mál þar. Á fundinum kvaddi sér hljóðs einn af forustumönnum flokksins á staðnum, og hans lokaorð voru þetta: Við þurfum ekki útreikning frá hagfræðingum ykkar um kjaraskerðinguna. Buddan okkar segir til um hana, og hún mun verða ólygnust. — Og það mun verða reynsla þjóðarinnar, að buddan segir til um þá kjaraskerðingu, og hún mun reynast allt önnur en hæstv. stjórnarliðar vilja vera láta.