12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

48. mál, efnahagsmál

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að taka ekki mikið af svefntíma hv. þm., þó að ég hafi ekki áður tekið til máls. Það mikla mál, sem er hér til umræðu nú, hefur verið rakið svo lið fyrir lið, að ég sé ekki ástæðu til að gera það, en vil aðeins halda mér við þá þætti þess, sem snerta beint verkafólkið og aðra launþega í þessu landi.

Áður en ég vík að þessu, vildi ég aðeins svara með örfáum orðum ræðu, sem hv. 12. þm. Reykv. hélt hér í kvöld. Ég ætla ekki að fara langt inn á þá ósmekklegu og hrokafullu ræðu. Hann vildi telja, að ræða Jónasar Haralz á síðasta þingi Alþýðusambandsins hefði verið eins konar stefnuræða fyrir okkur Alþýðubandalagsmenn.

Þetta er auðvitað víðsfjarri. Ræða Jónasar Haralz átti þvert á móti að vera rök fyrir því, að verkafólkið féllist á kauplækkun. Á móti þessu börðumst við Alþýðubandalagsmenn á Alþýðusambandsþinginu og ekkert síður forseti sambandsins en aðrir.

Þessi hv. þm., sem þá var fulltrúi á þessu sambandsþingi, tók einnig þessa afstöðu og hafði þá eins og aðrir sjálfstæðismenn að undanförnu verið harðvítugur kaupkröfumaður og var það einnig á þessu sambandsþingi. Það vissu allir, að Sjálfstfl. var þá mikill kaupkröfuflokkur og sjálfstæðismennirnir í verkalýðsfélögunum ekki síður. Þetta hefur nú snúizt við hjá þessum hv. þm. í það, að hann er nú orðinn boðberi kauplækkunar og kjaraskerðingar, líka fyrir þá, sem hann helzt telur sig bera fyrir brjósti, sjómannastétt þessa lands.

Sú kjaraskerðing, sem felst í þessu frv., er tvíþætt. Það er í fyrsta lagi hin beina launalækkun, og í öðru lagi skerðing, sem leiðir af þeirri samdráttarstefnu, sem allt frv. mótast af og hlýtur að hafa í för með sér, ef framkvæmt verður, minnkandi atvinnu og atvinnuleysi.

Fyrir ári voru nýgerðir samningar verkalýðsfélaga ógiltir með lagaboði hér frá hinu háa Alþingi. Með því var skertur löghelgaður réttur verkalýðsfélaganna til frjálsra samninga við atvinnurekendur. Þetta var þá gert með því að fella niður þau ákvæði úr samningum verkalýðsfélaganna, að greiða skyldi fulla vísitölu á kaup, og 10 vísitölustig voru felld niður bótalaust.

Nú er höggvið aftur í sama knérunn, en í enn stórfelldari mæli. Og okkur er sagt, að þetta frv. eigi að miða að því að auka frelsi, — ekki frelsi þeirra mörgu, sem réttur er á brotinn með þessu sama frv., — það er ef til vill frelsi fyrir hina fáu stóru á kostnað hinna mörgu og smáu.

Með gengislækkuninni er leitt nýtt dýrtíðarflóð yfir landið. Allar vörur hljóta að stórhækka í verði, en samkv, ákvæðum 23. gr. frv. á jafnframt að afnema allar vísitölugreiðslur á kaup. Það þýðir, að verkafólkið á að hafa sömu laun í krónutölu og allur þungi verðhækkananna að koma óbættur á herðar þess.

Það hefur margt verið rætt um vísitöluna, og margt mætti um hana segja. Og það er síður en svo, að ég hafi ekki þar ýmislegt að að finna. Engu að síður er það rétt, sem sagt hefur verið hér í þessum þingsal, að vísitalan hefur verið eini réttur hins fátæka manns á undanförnum árum.

Þegar menn tala um vísitöluna, er mönnum ákaflega gjarnt að snúa við orsökum og afleiðingum, að kauphækkanirnar vegna vísitölunnar hafi verið orsökin. Þetta er rangt. Það eru verðhækkanirnar á vörunum, sem eru orsökin. Við höfum ávallt orðið að bíða, mismunandi langan tíma, hin síðari ár þrjá mánuði, eftir að verðbreytingarnar hafa orðið, og þá hefur kaupið verið látið hækka í samræmi við þær verðhækkanir, sem þegar eru komnar.

En þó að vísitalan sé numin úr gildi á kaupið, þá er hún í raun og veru ekki numin úr gildi að öllu leyti. Þetta frv. gerir t.d. ráð fyrir því, að öll atvinnufyrirtæki eigi að fá greiddan hækkaðan rekstrarkostnað og ekki aðeins núna, heldur að sjálfsögðu framvegis. Áfram eiga að vera vísitöluverðbréfin, sem menn hafa orðið að taka til sinna húsbygginga, þó að menn fái ekki vísitöluna á kaupið, áfram á að taka vísitölu á þau verðbréf. En þau fyrirtæki í landinu, sem eiga ekki að fá upp borinn aukinn rekstrarkostnað, skulum við segja, það eru alþýðuheimilin. Á þau eiga verðhækkanirnar að koma óbættar með öllum sínum þunga.

Hafa hv. alþm. gert sér ljóst, að það er verið að fremja illvirki með því að skerða kjör fólks, sem hefur frá 3 til 5 þús. kr. á mánuði? Í þessum bæ og í þessu landi er margt fólk, bæði einstaklingar og fjölskyldur, sem verða að láta sér nægja þetta kaup til framfæris. Það eru engin rök til fyrir því að skerða kjör eða laun þessa fólks, og það trúir því enginn í raun og veru, að verkafólkið hafi tekið til sín of stóra sneið, eins og hv. 6. landsk. sagði hér í gær. Staðreyndirnar eru þvert á móti þær, að þjóðarframleiðslan hefur vaxið á undanförnum árum, en kaupmáttur launanna hefur lækkað, og það er staðreynd, að hlutur launþeganna í þjóðartekjunum hefur minnkað. Og þetta frv. miðar að því að gera eigna- og tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu mun ranglátari en verið hefur. Hinir ríku eiga að verða ríkari, hinir fátæku fátækari. Að vísu fylgja sárabætur með. Ég skal ekki orðlengja um þær. Það er ekki hár tekjuskatturinn á láglaunafólki, sem betur fer, og alþýðutryggingarnar hefðu fyrir löngu þurft að lagfærast, og loksins þegar lagfæringin kemur, þá verður hún að mestu leyti tekin aftur um leið.

Hæstv. forsrh. sagði hér í framsöguræðu sinni, að með fjölskyldubótunum hefði ríkisstj. gengið eins langt og hægt væri til að jafna tekjuskiptinguna almenningi í hag. Þetta er sagt, þó að yfirlýst sé um leið, að nú eigi að leggja á mun hærri nýja tolla en nemur þessum 152 millj. kr., sem fara eiga í almannatryggingar, og þetta er gert ofan á allt annað, sem almenningur nú er látinn taka á sig.

En kaupið er ekki bundið, segja menn. Ja, það heitir svo.

Forsrh. sagði hér einnig í frumræðu sinni, að ríkisstjórnin mundi ekki hafa önnur afskipti af samningum atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna en þau að ráðleggja og leiðbeina. Hverjar mundu nú þessar ráðleggingar og leiðbeiningar verða? Í grg. frv. og í öllum ræðum hæstv. ráðherra hefur það berlega komið fram, að kauphækkun má ekki eiga sér stað, eins og sakir standa. Og hvenær halda menn, að kauphækkun mætti eiga sér stað, að áliti þessarar ríkisstjórnar ótilneyddrar? Ef einhverjum atvinnurekanda skyldi nú verða það á að viðurkenna, að hann gæti vel borgað hærra kaup til síns verkafólks, og vildi bæta því upp þær verðhækkanir, sem orðið hafa, þá er honum bannað það með lögum. Viðurlögin eru allt að 500 þús. kr. sekt. Og hve langt er á milli lögbanns við greiðslu dýrtíðaruppbótar á kaup og banns við hækkun grunnkaups? Þó að það yrði gert, mundi sjálfsagt verða sagt eftir sem áður: Samningsfrelsið er óskert. Mínir elskanlegu, þið megið semja, þið megið gera nýja samninga, en þið megið bara ekki semja um hærra kaup. — Og ætli það fari ekki einnig að styttast í, að ný þrælalög um athafnafrelsi verkalýðshreyfingarinnar verði sett? Við vitum ósköp vel í verkalýðshreyfingunni, hver er hugur atvinnurekendasamtakanna og forustumanna Sjálfstfl. til breytinga á vinnulöggjöfinni með það fyrir augum að þrengja samningsrétt og samningsfrelsi og athafnafrelsi verkalýðsfélaganna.

Hinn þáttur kjaraskerðingarinnar, sem leiðir af samdráttarstefnunni, kemur auðvitað fyrst og fremst fram í því, að atvinnan minnkar. Menn hafa, við skulum segja á s.l. ári og á undanförnum árum, vegna mikillar atvinnu getað bætt sér upp kauplækkun með lengri vinnu, með auknum þrældómi og með því að allir fjölskyldumeðlimir, sem vinnufærir hafa verið, hafa getað unnið. Ef stefna þessa frv. verður framkvæmd, þá þrengist um þessa möguleika, og það er óhjákvæmilegt, að atvinnan minnkar, enda einn líður, bókstaflega einn liður í allri þessari áætlun.

Kjaraskerðingin verður því margföld, í fyrsta lagi vegna kauplækkunarinnar, og síðan, og það sem er jafnvel miklu alvarlegra, vegna minnkandi atvinnu eða atvinnuleysis.

Formælendur þessa frv. keppast nú um það að neita því, að til atvinnuleysis geti komið. Þetta var okkur einnig sagt 1950. Gengislækkunin 1950 átti að verða til þess að tryggja atvinnuöryggið. En hver var reynslan? Hún sýndi allt annað. Veturinn 1951–52 voru um 2000 manns atvinnulausir í Reykjavík samkv. skráningu verkalýðsfélaganna. Hv. 12. þm. Reykv. sagði, að þetta hefði verið vegna aflabrests og óáranar. Já, óáran var. En það var af völdum stjórnarvaldanna, og það var ekki fyrst og fremst aflatregða, sem þarna hafði mest áhrif. Hvar kom atvinnuleysið fyrst og fremst fram? Sérstaklega í byggingariðnaðinum, alls konar verkstæðum í bænum og í iðnaðinum alveg sérstaklega. Og svo segir þessi hv. þm., að m.a. sé hann með frv. af umhyggju fyrir iðnverkafólkinu. Er honum ekki ljóst, að einmitt þessi hópur manna verður einna þyngst fyrir barðinu á afleiðingum þessa frv., fyrst og fremst vegna þess, að það eru tiltölulega langflestir í þeirri starfsgrein, sem verða að bera kauplækkunina algerlega óbætta, og að atvinnuleysið herjar þarna fyrst?

Það voru þá til menn, sem vildu ekki játa staðreyndir. Hæstv. þáv. viðskmrh., Björn Ólafsson, lýsti því yfir hér á Alþingi, að það væri ekkert atvinnuleysi í Reykjavík. Ég var í hópi þeirra hafnarverkamanna, sem þá um veturinn, gráan vetrarmorgun, gengu upp í Arnarhvol til þess að sanna þessum þáv. ráðherra, að atvinnuleysið væri til, og því var ekki eftir það neitað.

Við skulum vona, að það hendi ekki, að til atvinnuleysis komi. En ef hin mikla ógæfa, atvinnuleysið, á eftir að koma yfir verkafólk þessa lands, þá veit hvert mannsbarn, að það hefur vísvitandi verið leitt yfir þjóðina, og það verður þung ábyrgð á herðum þeirra manna, sem þar eiga sökina.

Það er mikið spurt nú hér í þingsölunum: Hvað gerir verkalýðshreyfingin? Ég ætla ekki hér á þessu stigi málsins að gefa neinar yfirlýsingar þar um. En við skulum líta á söguna. Og þeir menn, sem staðið hafa að samningu þessa frv. og mótun þeirrar stefnu, sem þar kemur fram, sem það hafa gert án þess að hafa í huga, hvernig verkalýðurinn, hvernig verkalýðshreyfing þessa lands hefur brugðizt við, þegar svipuð mál hafa verið á ferðinni, þeir hefðu sannarlega átt að byrja á því að lesa þann kafla sögunnar.

Verkalýðshreyfingunni hefur tekizt á liðnum árum að tryggja að mestu hlut félaga sinna þrátt fyrir ítrekaðar árásir á lífskjörin. Henni hefur tekizt að velta því af sér aftur. Er ástæða til að ætla, að henni takist þetta ekki nú?

Hækkun verðlags án uppbóta á laun, þ.e.a.s. nýtt dýrtíðarflóð, mun verkafólkið ekki þola.

Ég vil í þessu sambandi vitna í forustumenn í verkalýðshreyfingunni sem hv. þm. stjórnarflokkanna ættu ekki að hafa ástæðu til þess að rengja.

Í sumar sem leið, síðsumars, hélt verkalýðshreyfingin ráðstefnu til þess að hugleiða sín samningamál. Svo til öll verkalýðsfélög gátu sagt upp samningum sínum á haustmánuðum. Þessi ráðstefna, sem var mjög fjölsótt hvaðanæva af landinu, gerði einróma þá samþykkt, að samningum skyldi sagt upp, til þess að vera við öllu búnir, vegna þess að mönnum fannst og allir voru sammála um, að þegar ríkisstj. og Alþingi færu að fjalla um efnahagsmálin, þá væri betra, öruggara fyrir verkalýðshreyfinguna að vera ekki með bundna samninga. Allir voru sammála um þetta. Menn bjuggust við því, að þegar efnahagsmálin kæmu á dagskrá, þá mundi verða stefnt að ráðstöfunum, sem hefðu verðhækkanir í för með sér, verðhækkanir, sem hefðu áhrif á afkomu allra launþega í landinu. Nokkru fyrir kosningarnar síðustu hafði Alþýðublaðið af þessu tilefni viðtöl við nokkra forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, aðeins að vitna örstutt í þessi viðtöl.

Það er viðtal við varaforseta Alþýðusambandsins, hv. 10. þm. Reykv., sem því miður getur ekki komið því við að vera viðstaddur hér á Alþingi við umr. þessa máls sökum veikinda. En ég hef ekki ástæðu til að halda, að hugur hans til verðlags- og kaupgjaldsmála hafi breytzt frá því, sem hann sagði um þessi mál, bæði á ráðstefnum verkalýðsfélaganna og einnig í þessu víðtali, og er þar mjög greinilega tekið til orða. Það er verið að ræða um verðlagsmálin, um hættuna á því, að vöruverð hækki, og viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar, og hann svarar því til, að það sé engin lausn til önnur en sú, að stöðvunin haldi áfram, þ.e. að vöruverð haldist óbreytt, að svo miklu leyti sem við getum sjálf ráðið við, og að laun fari eftir verðlaginu. Í niðurlagi þessa viðtals segir blaðamaðurinn: „Nú hefur dýrtíðarflóðið verið stöðvað.“ — „Já, og við styðjum þá stefnu af alefli. Við viljum ekki láta söguna endurtaka sig. Framsókn heimtaði verðhækkanir, Sjálfstfl. þorði ekki annað en samþykkja það. Alþfl. heimtar óbreytt ástand. Við í launþegasamtökunum styðjum þá stefnu. Þjóðin veit, að hverju hún gengur.“ Þannig voru ummæli þessa hv. þm. þá.

Það var talað við fleiri áberandi forustumenn úr verkalýðshreyfingunni, úr röðum Alþfl. Svar þeirra allra var á einn veg. Allir sögðu: Verði verðhækkunum hleypt af stað, verður svar verkalýðshreyfingarinnar eitt, að hún muni gera gagnráðstafanir.

Hér í þessari hv. d. á sæti einmitt einn af þeim mönnum, sem viðtal var við og lét orð falla á sama veg. Þessi maður, hv. 1. landsk. þm., hefur nú skrifað undir nál. meiri hl. fjhn. og lagt blessun sína yfir allt, sem í þessu frv. felst. Ég efast um og veit raunar, að hann hefur ekki til þess neitt umboð þeirra fjölmennu launþegasamtaka, sem hann er forsvarsmaður fyrir, þ.e.a.s. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Móðir þessa hv. þm. var ein úr hópi þeirra, er spurðir voru á þessum tíma í Alþýðublaðinu, og ég held, að spurningunni: „Hvað gerir verkalýðshreyfingin?“ sé vel svarað með orðum frú Jóhönnu Egilsdóttur, formanns verkakvennafélagsins Framsóknar. Blaðamaðurinn spyr: „Þið viljið ekki una neinum hækkunum á vöruverði.“ „Nei, það er afskorið með öllu. Ef hróflað verður við vöruverðinu til hækkunar, hvort sem það er gert með beinum verðhækkunum eða svokölluðum niðurgreiðslum, þá förum við af stað. Það er líka augljóst mál, að þá fara allar stéttir af stað, þá verða vinnudeilur, þá verða verkföll og þá verða kauphækkanir. Það getur enginn efazt um þetta.“