15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

48. mál, efnahagsmál

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hér eru efnahagsmál á dagskrá. Þau eru ævarandi viðfangsefni þings og stjórnar og algengt umtalsefni manna sem eðlilegt er. Í lýsingum á efnahagsástandinu er oft gripið til stórra orða og sterkra lita. Svo er einnig um þessar mundir. Í grg. með frv., sem hér liggur fyrir, málar ríkisstj. ástandið með dökkum litum — mjög dökkum — sýnilega í þeim tilgangi að reyna að hræða fólk til fylgis við þá samdráttarstefnu, sem hún vill taka hér upp. Í grg. með frv. úir og grúir af blekkingum. Og stjórnin hefur gripið til þess ósæmilega ráðs að gefa þessa grg. sína út í sérstakri bók og taka peninga úr ríkissjóði í heimildarleysi til að borga útgáfukostnaðinn og útsendingu ritsins um land allt. Bókin er prýdd skjaldarmerki ríkisins, sjálfsagt til að reyna að fá fólk til að trúa því, að hér sé um hlutlaust fræðirit að ræða. En því fer víðs fjarri. Enginn fræðimaður mundi vilja láta kenna þetta rit við sig eða bera ábyrgð á því. Þetta er pólitískur áróður stjórnarflokkanna. Það er ástæða til að benda fólki á, hvers eðlis þessi bæklingur er. Það er mikið slys, sem hefur hent hæstv. ríkisstjórn að taka ríkisfé til slíkrar útgáfustarfsemi.

Í þessu frv. er lagt til, að gengi íslenzkrar krónu verði þannig skráð, að 38 kr. jafngildi einum Bandaríkjadollar. Að meðtöldu 55% yfirfærslugjaldinu, sem leggst á flestar greiðslur til útlanda, kostar dollarinn nú 25.30. Hækkunin á erlenda gjaldeyrinum samkv. frv. er því um það bil 50%. Innkaupsverð á útlendum vörum hækkar sem þessu nemur í íslenzkum peningum, og má af því sjá, að breytingin verður geysimikil til hækkunar á vöruverði. Í grg. frv. er birt tafla, sem á að sýna útgjaldaaukningu hjá fjölskyldufólki vegna verðlagshækkunarinnar. Sýnt hefur verið fram á áður í umr. hér í d., að þeir útreikningar eru rangir.

Í grg. frv. er því haldið fram, að því aðeins sé hægt að notast við uppbótakerfið, að mikill halli sé á greiðslujöfnuðinum eða flutt sé inn svo og svo mikið af óþarfavarningi. Hæstv. forsrh. endurtók þetta áðan. En þetta er alrangt. Það er hægt að ákveða gjaldeyrísálag og aðrar tekjur útflutningssjóðs þannig, að þær vegi á móti gjöldum sjóðsins.

Hæstv. ríkisstj. heldur því m.a. fram, að vegna halla á þjóðarbúskapnum gagnvart útlöndum þurfi að grípa til þessara stórfelldu ráðstafana. Hún birtir skýrslur um hallann, sem hún nefnir svo, en hún reiknar dæmið þannig, að allar lántökur til framkvæmda á undanförnum árum eru taldar til halla á þjóðarbúskapnum og þar með allar mestu framkvæmdir síðustu ára, svo sem sementsverksmiðjan, Sogsvirkjunin, ræktun og byggingar í sveitum, fjölda skipa o.s.frv. Langmestur hluti skuldaaukningarinnar við útlönd undanfarin ár stafar af slíkum framkvæmdalántökum. Taka má sem dæmi árin 1956–58. Í skýrslu stjórnarinnar segir, að á þeim árum hafi hallinn gagnvart útlöndum orðið samtals 627 millj. En á tímabilinu 1. júlí 1956 til ársloka 1958 voru tekin framkvæmdalán erlendis, sem námu alls yfir 560 millj., þar af án ríkisábyrgðar 108 millj. Lánunum var varið til sementsverksmiðjunnar, Sogsvirkjunar og margra annarra raforkuframkvæmda, ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs, flökunarvélakaupa, flugvélakaupa, skipakaupa og hafnargerða og lítið eitt til símaframkvæmda. Sé þetta talinn halli á þjóðarbúskapnum, þá ætti að telja það halla á útgerð, ef útvegsmaður kaupir bát og tekur eitthvert lán í því sambandi, og hallabúskap, ef bóndi byggir fjós eða fjárhús og tekur einhvern hluta kostnaðarins að láni.

Og það er vitanlega röng kenning, að vegna þessara framkvæmdalána sé erfiðara en áður fyrir þjóðina að standa í skilum með afborganir og vexti af erlendum lánum. Framkvæmdirnar hafa orðið til að auka útflutning og sparað innflutning og þannig bætt aðstöðuna í viðskiptum við aðrar þjóðir.

Það væri fróðlegt að heyra, hvað af þessum erlendu lánum, sem ég nefndi, hæstv, viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, telur óheilbrigð hallalán.

Þó að hæstv. ríkisstj. haldi því fram, að núverandi greiðslur af útlendum lánum séu þung byrði, vill hún samt fá heimild til að taka stórt lán erlendis, allt að 20 millj. dollara. En það á ekki að nota til framkvæmda hér, heldur venjulegra vörukaupa. Ef þetta skyldi nú verða að fastri skuld, verður aðstaðan ekki betri til að fá framkvæmdalán erlendis.

Í sambandi við þetta mál hljóta, menn að spyrja, hvort svo stórkostlegar aðgerðir séu nauðsynlegar til þess, að útflutningsvöruframleiðslan og rekstur þjóðarbúsins geti haldið áfram. Er þá rétt að reyna að gera sér grein fyrir, hvernig afkoman hefur orðið árið sem leið og hvernig viðhorfið er nú.

Ríkisstj. segir í grg. frv., að áætlanir sýni um það bil 180 millj. kr. halla hjá útflutningssjóðnum s.l. ár. Þó eru upplýsingar um þetta nokkuð á reiki, því að hæstv. sjútvmrh. hefur látið orð liggja að því, að þarna mundi oftalið um 30 millj. Við fjárlagaumr, nýlega sagði hæstv. fjmrh., að hjá ríkissjóði hefði orðið 8 millj. kr. greiðsluafgangur s.l. ár, en þá var notaður tekjuafgangur frá 1958 um 431/2 millj. Eftir þessu að dæma hefur hallinn hjá ríkissjóði 1959 orðið rúmar 35 millj. Sé miðað við þessar upplýsingar stjórnarinnar, má ætla, að samanlagður halli hjá útflutningssjóði og ríkissjóði árið 1959 hafi numið nálægt 200 millj. kr.

En þá er spurningin, hvort hækka þyrfti útflutningsuppbætur á þessu árí, ef það fyrirkomulag yrði í gildi áfram. Ríkisstj. segist miða till. sínar um gengisskráningu við það, að stærsta grein útflutningsframleiðslunnar, bátaútgerð til þorskveiða, beri jafnmikið úr býtum og nú. Þar með er sagt, að ekki þurfi að hækka uppbætur til þeirrar atvinnugreinar. Hins vegar er talið, að bæta þurfi aðstöðu togaraútgerðar og síldarútvegsins. Málin liggja því þannig fyrir, að með óbreyttu fyrirkomulagi er þörf fyrir viðbótartekjuöflun í útflutningssjóð og ríkissjóð. En þar er ekki um svo stórt og torleyst vandamál að ræða, að þess vegna þurfi að stofna til þeirrar miklu og háskalegu byltingar í þjóðfélagsmálum, sem ríkisstj. stefnir að. Sennilegt má telja, að ná mætti samkomulagi um nauðsynlega tekjuöflun til útflutningssjóðs og ríkissjóðs, ef stjórnarflokkarnir vildu reyna að fara þá leið.

Í þessu sambandi má nefna, að stjórnin ber sjálf fram till. um hækkanir á ýmsum gjöldum til ríkisins, svo sem aukatekjum ríkissjóðs, gjaldi af innlendum tollvörutegundum og fleiri álögum. En þar að auki vill stjórnin nú leggja á almennan söluskatt, sem hún áætlar að gefi ríkissjóði 110 millj. umfram það, sem núgildandi söluskattur gefur. Slíkur skattur er á margan hátt óheppilegur, og ætti því fremur að reyna aðrar tekjuöflunarleiðir, sérstaklega ætti að skattleggja ýmiss konar óþarfaeyðslu meira en nú er gert.

Þó að nauðsynleg tekjuöflun hefði í för með sér einhverjar almennar álögur, yrðu þær ekki tilfinnanlegar í samanburði við þau ósköp, sem yfir dynja, ef stjórnarfrv. verður samþykkt.

Það er engin þörf fyrir svona stórfelldar ráðstafanir til þess að sjá fyrir þörfum útflutningssjóðs og ríkissjóðs. Það er líka ljóst, að höfuðmarkmiðið með þessu stjórnarfrumvarpi er allt annað. Með því er verið að ryðja braut nýrri þjóðmálastefnu, sem hæstv. ríkisstj. vill taka upp. Sú stefna er algerlega andstæð þeirri framfarastefnu, sem þjóðin hefur fylgt á undanförnum áratugum.

Hvað hefur verið að gerast hér á síðustu tímum? Framkvæmdir og framfarir miklar svo að segja á öllum sviðum. Framfarirnar hafa byggzt jöfnum höndum á áhuga og atorku landsmanna, sem hafa lagt sig fram við umbótastörfin, og á mikilsverðum stuðningi ríkisvaldsins. Þær hafa byggzt að meira eða minna leyti á löggjöf frá Alþingi og fjárhagslegum stuðningi ríkisins, ýmist beinum fjárframlögum eða ríkisábyrgðum, lánsfjárútvegunum og margs konar fyrirgreiðslu af opinberri hálfu. Það er áreiðanlegt, að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill halda áfram þessari framfaragöngu. Og það er þjóðfélaginu lífsnauðsyn. Landsmönnum fjölgar mjög ört. Þeir eru nú tæplega 174 þús. Með hlutfallslega sömu fjölgun og verið hefur síðustu árin verða landsmenn orðnir 200 þús. eftir aðeins 7 ár og 220 þús. 5 árum siðar. M.a. vegna fólksfjölgunarinnar þarf að byggja landið allt og nytja gæði þess eftir föngum, hvar sem þau eru, svo og fiskimíðin umhverfis landið. Verkefnin og möguleikarnir eru ótæmandi. Framleiðslu landbúnaðarvara þarf að stórauka til að fullnægja neyzluþörf þjóðarinnar, stöðugt vaxandi vegna fólksfjölgunar, og einnig til útflutnings og gjaldeyrisöflunar. Útgerðarskilyrðin batna, þegar sigur er unninn í landhelgismálinu. Og iðnaðarstöðvar þurfa að rísa í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. En til þess að unnt sé að halda við byggðinni um land allt, þurfa lífsskilyrðin og lífsþægindin að verða sem jöfnust, hvar sem menn búa á landinu. Þess vegna þarf m.a. að halda áfram að dreifa rafmagninu um byggðir landsins og skapa að öðru leyti sem jafnasta aðstöðu manna í lífsbaráttunni.

En hæstv. núv. ríkisstj. og stuðningslið hennar virðist ætla að stefna í þveröfuga átt. Um það vitnar þetta frv., boðskapur stjórnarinnar í grg. þess og fleiri till. hennar. Till. stjórnarinnar miða að því að torvelda mjög áframhaldandi uppbyggingu og hljóta að valda miklum samdrætti á mörgum sviðum athafnalífsins. Með gengisbreytingunni hækka erlendar efnivörur til bygginga ákaflega í verði og einnig vélar og tæki til atvinnurekstrar. Þá lítur út fyrir, að stjórnin ætli að beita sér fyrir því, að lánveitingar bankanna minnki, miðað við verðlag og allan tilkostnað við atvinnurekstur og framkvæmdir. Hún ætlar að hækka vexti, sennilega allmikið. Sparifjáreigendur eiga þó líka að fá vaxtahækkun. En stórum betra væri fyrir þá að búa við óbreytta vexti, en sleppa í staðinn við þá rýrnun á verðgildi sparifjárins, sem stjórnin stefnir að. Ríkisstj. vill fá vald til að ákveða vexti og lánstíma hjá stofnlánasjóðum, að því er virðist til að gera lánakjörin óhagstæðari en nú. Og þessu til viðbótar hefur stjórnin í hyggju að beita sér fyrir því, að hluti af innlánsfé í sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga um land allt, enginn veit hve stór hluti, verði tekinn inn í Seðlabankann í Reykjavík. Menn eiga ekki lengur að fá að ráðstafa þessu eigin fé sínu heima í héruðunum til hinna margvíslegu þarfa þar. Þá er gert ráð fyrir, að ríkisframlag til verklegra framkvæmda lækki, miðað við tilkostnað við þær.

Allt er þetta á eina leið. Vel geta þessar aðfarir leitt til þess m.a., að byggð eyðist í sumum héruðum meira en orðið er. Víða stendur tæpt, að byggð haldist, og sé stöðvun á nýjum framkvæmdum, er skammt til afturfarar. Enn gildir, að það er „bágt að standa í stað, og mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið“. Og nú virðist eiga að þrýsta meginþorra þjóðarinnar aftur á bak.

Með stjórnarstefnunni er verið að leggja stór björg í veg fyrir fjöldann, fólkið við sjó og í sveitum, í veg fyrir sjálfsbjargarviðleitni þess og framkvæmdamöguleika. Og svo segist hæstv. ríkisstj. vera að auka frelsið í þjóðfélaginu. Meira öfugmæli getur varla.

Stjórnarstefnan leggur mikil höft á almenning með ýmsu móti. Verðhækkanirnar torvelda allar framkvæmdir, og samtímis eru lántökumöguleikar skertir og vextir hækkaðir. Þetta bitnar t.d. á unga fólkinu, sem hefur í hyggju að stofna til heimilismyndunar, einnig á öllum mönnum í kaupstöðum og kauptúnum, sem þurfa nauðsynlega að koma sér upp íbúðarhúsum eða afla sér nauðsynlegra tækja til ýmiss konar atvinnurekstrar. Það kemur líka illa við bændurna, sem vilja halda áfram að rækta landið, reisa nauðsynlegar byggingar og afla fullkomnari tækja til að auðvelda bústörfin og auka framleiðsluna.

Vitanlega er hægt að benda á ýmsar veilur í okkar efnahagslífi. En þrátt fyrir allt mun óhætt að fullyrða, að þjóðin sé nú betur efnum búin en nokkru sinni fyrr. Auðvitað er ekki hægt að framkvæma allt í einu, sem hugurinn þráir. En það er hægt að halda áfram á þeirri braut, sem gengin hefur verið undanfarin ár. Og um það verður stjórnmálabaráttan fyrst og fremst, hvort halda skuli áfram á framfarabrautinni. Stefna núverandi valdhafa miðar að því að leiða þjóðina inn á aðrar götur.

Það hefur verið reiknað út, að verðhækkanir vegna gengisbreytingarinnar, að frádreginni hækkun á rekstrarvörum atvinnuveganna, en að viðbættum auknum álögum til ríkisins, sem ákveðnar eru samkv. fjárlagafrv., muni nema samtals um 1000 millj. kr. Vafalaust verða hækkanirnar þó meiri en þetta, því að tölur þessar eru byggðar á áætlun um vöruinnflutning, sem er óeðlilega lág. Þessir reikningar hafa ekki verið vefengdir. En ég get vel gert hæstv. viðskmrh. það til geðs að kalla þetta ekki álögur. Upp í þessa miklu fúlgu er ætlunin að láta aðeins 189 millj., sem er hækkun á bótum frá tryggingunum og niðurgreiðsla á verði nokkurra útlendra vörutegunda.

En hvaða möguleikar eru til þess að koma fram svona gífurlegri fjármunatilfærslu í þjóðfélaginu í einni svipan? Frv. er við það miðað, að verkamenn og allir aðrir launamenn, svo og bændur og sjómenn, fái enga hækkun á vinnutekjum sínum. Sennilegt er aftur á mótí, að þær lækki vegna mínni atvinnu við framkvæmdir. Flestir landsmanna eru í þessum stéttum, tiltölulega fáir utan þeirra. Á þetta fólk leggst meginhluti þessara gífurlegu hækkana. Hverjum kemur til hugar í alvöru, að það sé hægt að leggja svona miklar verðhækkanir á allan þorra landsmanna, án þess að þeir fái hækkun á vinnutekjum sínum? Ef þessar aðgerðir væru óhjákvæmilegar, þ.e.a.s. ill nauðsyn, þá horfði málið öðruvísi við. En það er alls ekki hægt að fallast á, að svo sé. Þær leiðréttingar, sem nauðsynlegar eru til að tryggja atvinnureksturinn, er hægt að gera með langtum minni fórnum en hér er verið að krefjast.

Reynslan hefur sýnt, að því aðeins er góðs árangurs að vænta, að víðtækt samstarf náist um úrræði í efnahagsmálunum. Við framsóknarmenn fluttum því till, við 2. umr. frv. hér í deildinni um, að nú þegar yrði skipuð 8 manna nefnd, sem í væru 2 menn frá hverjum þingflokkanna, til þess að gera till. á þessu þingi innan þriggja vikna um ráðstafanir til að halda verðbólgunni í skefjum og atvinnulífinu í fullum gangi. Samkvæmt okkar till. átti n. síðan að starfa milli þinga og leggja fyrir næsta þing heildartill. um skipan efnahagsmálanna. Þm. stjórnarflokkanna felldu þessa till. og greiddu allir atkvæði með stjórnarfrv. til 3. umr. Stjórnarflokkarnir virðast ekki kæra sig um að leita samkomulags um þessi mál, a.m.k. ekki enn sem komið er. Þeir vilja afgreiða þau með öðrum hætti.

Stjórnarflokkarnir geta vitanlega gert þetta frv. að lögum, því að þeir hafa meiri hl. á þingi, þótt lítill sé, 33 af 60 þm. Og sennilega ætla stjórnarflokkarnir að halda áfram með frv. sitt beint af augum. Önnur þingdeildin á þó eftir að fjalla um málíð. Enn er því hægt að reyna samkomulagsleiðina.