15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

48. mál, efnahagsmál

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Vandi efnahagsmálanna verður ekki leystur, nema þing og þjóð geri sér ljósa galla uppbótakerfisins og nauðsyn réttrar gengisskráningar. S.l. ár var gjaldeyrir keyptur af útflytjendum með að meðaltali 86.7% uppbótum, en seldur innflytjendum með 68.5% álagi, miðað við skráð gengi. Það, sem hér er að gerast, er einfaldlega það, að í hvert skipti, sem þjóðin flytur út 169 fiska, flytur hún inn verðmæti, sem svarar til 187 fiska. Hún skiptir á milli sín 18 fiskum meira en á land kemur. Það er engum blöðum um það að fletta, að þetta er ekki hægt nema með sífellt versnandi gjaldeyrisstöðu í einhverju formi, hvernig sem stjórnarandstaðan reynir að túlka flóknar skýrslur og tölur strútsstefnu sinni til framdráttar.

Það veit hvert mannsbarn, að heimili getur ekki til lengdar eytt 187 kr. í hvert skipti sem það aflar 169 kr. Enginn kaupmaður né kaupfélag getur né dettur í hug að selja þær vörur að staðaldri á 169 kr., sem það kaupir á 187 kr. En stjórnarandstaðan stingur höfðinu í sandinn upp fyrir öll skilningarvit, og við það er stefna hennar kennd, strútsstefnan.

Minni stjórnarandstöðunnar ætti ekki að raskast við það, þó að hún stingi höfðinu í sandinn, og verður afstaða stjórnarandstæðinga og málflutningur þeim mun furðulegri, ef rifjuð er upp afstaða þeirra frá vinstristjórnarárunum, og þó að minni þeirra væri farið að dofna, ætti það ekki að koma að sök, því að hæstv. dómsmrh. las hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum ummæli hv. 1, þm. Austf., Eysteins Jónssonar, frá þeim árum, þar sem hann fullyrðir, að skráning krónunnar sé algerlega röng og að ekki sé hægt að framkvæma ótakmarkaða fjárfestingu fyrir erlent lánsfé, án þess að þjóðarbúið sporðreisist gersamlega og slíkt mundi leiða til gjaldeyriskreppu. Nú kveður við annan tón í hv. þm. Nú er gengið rétt skráð, efnahagsráðstafanirnar að mestu eða öllu óþarfar, hægt er að fá nóg erlend lán, engin gjaldeyriskreppa, óhófleg fjárfesting sporðreisir ekkert og hófleg fjárfesting kölluð samdráttarstefna.

Er furða, þó að menn spyrji: Hvenær var öllu þessu kippt í lag? Er ekki hv. þm. minnugur þess, að stefna vinstri stjórnarinnar beið algert skipbrot vegna neikvæðrar afstöðu kommúnista, sem kærðu sig ekkert um það að lappa upp á vestrænt lýðræðisskipulag, kærðu sig ekki um að taka á sínar herðar ábyrgðina á þjóðnauðsynlegum aðgerðum, sem óþægilegar væru fyrir lýðskrumsmöguleika þeirra? Á þeim árum sagði hv. 1. þm. Austf., sá mæti og lengst af ábyrgi stjórnmálamaður, setningu, sem lengi mun í minnum höfð: Er hægt að æra fólk svo með neikvæðum rógi, að enginn þori að gera neitt af ótta við róginn? — Þessi orð hv. þm. áttu við bumbuslátt þáv. stjórnarandstöðu, sem auglýsti daglega í rammagreinum stórkostlegar verðhækkanir, sem leiddi af aðgerðum vinstri stjórnarinnar og jafngiltu a.m.k. 30% gengisfellingu, þó að sú gengisfelling væri ekki kölluð réttu nafni. Það, sem nú er verið að gera, er kannske fyrst og fremst það, að verið er að skrásetja gengisfellingu vinstri stjórnarinnar, kalla hana réttu nafni. Manni getur runnið til rifja að heyra þennan hv. þm. berja nú áróðursbumbur kommúnista. Uppbótakerfið er gallað, ekki aðeins vegna þess, að það byggist á stöðugum greiðsluhalla við útlönd, heldur einnig vegna þess, að það kerfi beinir framleiðslunni inn á það svið, þar sem hæstar eru uppbætur, í stað þess að nauðsynlegt er að beina fjármagni og vinnuafli inn á þau svið, sem mest gefa í aðra hönd, miðað við tilkostnað á vinnustund, svo að sem mest verði til skiptanna, ekki úr ríkissjóði, heldur af raunverulegum verðmætum, sem aflað er með sölu á erlendum markaði. Kerfið er því kjararýrnunarkerfi og orsakar sjálfa gengisfellinguna, hvort sem hún er skráð á hverjum tíma eða ekki.

Dauðadómur þessa kerfis var kveðinn upp með verðbólgusprengingunni 1. des. 1958. Vinstri stjórnin hafði legið undir feldi frá því í nóv. 1957 og þar til í maí 1958, í sjö mánuði, en ráðstafanirnar með öllum verðhækkununum entust til 1. des., eða í 6 mánuði, og enduðu með skelfingu, eins og frægt er orðið af uppgjafaryfirlýsingu 2. þm. Vestf., Hermanns Jónassonar, þegar hann rauf stjórnarsamstarfið.

Meðan vinstristjórnarflokkarnir lágu undir feldi, lögðu þeir hver um sig fram skriflegar till., sem áttu að miða að endanlegri lausn vandans, að svo miklu leyti sem um endanlega lausn getur verið að ræða á sviði þessara mála.

Þegar þessar till, eru athugaðar, hvað kemur þá í ljós? Jú, það kemur í ljós, að Framsfl. lýsti þá göllum uppbótakerfisins nákvæmlega eins og núverandi ríkisstjórn og sérfræðingar hennar gera nú. Þeir vildu skipta um kerfi. Þeir vildu gengisfellingu. En þeir vildu ekki fallast á nauðsynlegar hliðarráðstafanir, svo sem auknar almannatryggingar og lækkun tekjuskatts, eða á annan hátt rétta hlut launþega og annarra þeirra, sem versta aðstöðu höfðu í lífsbaráttunni. Kommúnistar lögðu fram málamyndatillögur, sem leystu engan vanda, en samdráttartill. voru það eigi að síður. Þeir vildu takmarka stórlega lánveitingar, stórauka innflutning á hátollavörum, en minnka innflutning á nauðsynjavörum og ná gjaldeyrisjafnvægi á þann hátt, minnka fjárfestingu og framkvæmdir í landinu og taka 100 millj. kr. lán í Rússlandi. En nú heimta þeir meiri útlán, minni hátollavöru, meiri framkvæmdir.

Hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, er kunnugt um hin fornu ummæli, að engin borg er óvinnandi, ef asni klyfjaður gulli kemst inn um borgarhliðið. Gegn þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur boðað með aðstoð færustu íslenzkra hagfræðinga og annarra sérfræðinga, hefur hv. þm. teflt fram hinu austræna hagkerfi í tveggja og þriggja klst. ræðum að undanförnu, — hagkerfi, sem mér er ekki kunnugt um að nokkurt einasta þjóðríki í allri veröldinni hafi kosið yfir sig í frjálsum kosningum. En þó verður að segja því hagkerfi það til hróss, að þar sem það nær einu sinni fótfestu, þar fær það 99% greiddra atkvæða í kosningum, og þar þurfa ekki launþegar að standa í löngum verkföllum á grundvelli frjáls samningsréttar. Þar er allur vafi tekinn af í því efni með hersýningum 1. maí, á hátíðisdegi launþega.

Ríkisstjórn Emils Jónssonar stöðvaði það, að lengra yrði haldið á braut uppbótakerfisins, stöðvaði vöxt verðbólgunnar og þar með frekarí gengisfellingu en orðin var. Það er staðreynd, að ef ekkert hefði verið gert, hefði vísítalan nú um áramótin verið orðin 270 stig og fella hefði þurft gengið í 60 kr. fyrir bandarískan dollar, ef viðurkenna hefði átt það ástand nú.

Í ljósi þessara staðreynda verða skiljanleg ummæli hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, er hann sagði við 2. umr. hér í d.: Það er minni vandi að ráða bót á efnahagsmálunum nú en oft áður. — Það er rétt hjá hv. þm. Það er auðveldara nú, vegna þess að stjórnarstefna Alþfl. og stuðningur Sjálfstfl. sparaði þjóðinni 22 kr. gengisfellingu á hvern dollar á einu ári, og Alþfl. má vel una við það, ef það er auðveldara nú en í des. 1958, þegar hv. þm. gafst sjálfur upp við að ráða bót á vandanum. Ríkisstjórn Emils Jónssonar tókst þetta vegna þess, að þess var gætt að dreifa byrðunum réttlátlega á allar stéttir og komið var í veg fyrir, að nokkur stétt hagnaðist sérstaklega á ráðstöfununum. En hvernig er þessu varið nú? Er að því stefnt, að enginn græði sérstaklega á þeim, sem er frumskilyrði þess, að þjóðin sætti sig við nauðsynlegar aðgerðir?

Bátaútvegurinn er óánægður, af því að hann veit, að nú verður hann að standa á eigin fótum. Togaraeigendur hafa borið fram sárar umkvartanir við ríkisstjórnina, og hraðfrystihúsin sjá eftir uppbótakerfinu. Fyrir helgina las ég eftirfarandi í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta:

Í fyrsta lagi: „Flestallir kaupfélagsstjórar og forráðamenn SÍS sátu fund í Reykjavík um helgina. Uggur var í mönnum um væntanlegar efnahagsaðgerðir.“

Á öðrum stað í fyrirsögn: „Þjarmað að íslenzkum iðnaði.“

Á þriðja stað: „Kaupsýslumenn af öllum stærðarhlutföllum, heildsalar, stórsalar, smásalar og umboðssalar, fjölmenntu í salarkynni á Hótel Borg í gærkvöld, því að Kaupmannasamtök Íslands höfðu boðað þar til fundar um efnahagsmálin. Framkvæmdastjóri samtakanna sagði m.a., að hann teldi hlut kaupsýslumanna fyrir borð borinn í gengislækkunartill. ríkisstjórnarinnar, ríkisstj. gerði sér litla grein fyrir því, sem heitir verzlunarkostnaður, og lítill skilningur ríkti á hlutverki verzlunar.“

Slík ummæli og undirstrikun Þjóðviljans virðist vissulega benda til þess, að byrðunum verði dreift á alla, og er það höfuðnauðsyn.

En nú munu e.t.v. margir spyrja: Hvernig stendur á því, að stjórnmálamenn eru að leggja byrðar á alla þjóðina, hækka vöruverðið við sjálfa sig og alla kjósendur sína? Svarið getur ekki verið nema eitt. Það hlýtur að vera þjóðarnauðsyn, sem er ekki hægt að láta dragast lengur. Sjúklingurinn, sem gengur undir uppskurð, gerir sér ljóst, að enda þótt holskurðurinn sé óþægilegur, er hann ekki meinið sjálft, heldur aðgerð til þess að nema meinið brott. Á sama hátt er gengisfelling ekki meinið sjálft, heldur aðgerð til þess að nema burt mein úr efnahagslífi þjóðarinnar. En í báðum tilfellum getur sjúklingurinn miklu um batann ráðið eða a.m.k. komið í veg fyrir bata, en það væri óviturlegt.

Það er rétt, að menn geri sér það ljóst, að allar ríkisstjórnir s.l. 15 ár hafa glímt við verðbólguna og efnahagsvandamálið. Allar hafa þær orðið að gera það með einhverjum kjaraskerðingum. Framsfl. og Sjálfstfl. framkvæmdu stórfellda gengisfellingu 1950. Vinstri stjórnin jók uppbótakerfið ár frá ári, og hafði það í för með sér miklar verðhækkanir, skerti vísitöluna tvisvar, og hv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambandsins, stakk upp á vísitöluskerðingu í þriðja sinn í nóvemberhefti Vinnunnar 1958. Núverandi ríkisstj. framkvæmir gengisfellingu. En ráðstafanir núverandi ríkisstj. eru þó um það sérstæðar, að þeim fylgja mjög þýðingarmiklar hliðarráðstafanir til aðstoðar þeim, sem verst eru settir í lífsbaráttunni. Þannig hagnast elli- og örorkulífeyrisþegar á ráðstöfununum, því að þeir fá 44% hækkun. Stærri barnafjölskyldur hagnast einnig á aðgerðunum, því að þær fá 2600 kr. fjölskyldubætur með hverju barni. Talið er, að kjaraskerðingin nemi 3% hjá vísitölufjölskyldunni, og er þá ekki tekið tillit til niðurfellingar á tekjuskatti og lagfæringar á útsvari. Afnám tekjuskatts á almennar launatekjur og mjög lágir skattar á fyrstu 20–30 þús., sem umfram eru, eru mjög mikil kjarabót fyrir alla launþega og mun í mörgum tilfellum vega upp á móti þeirri kjaraskerðingu, sem minni fjölskyldur og einstaklingar verða fyrir.

Þær efnahagsráðstafanir, sem framkvæmdar hafa verið undanfarin 10 ár og ég hef nú rakið, hafa að sjálfsögðu verið misjafnar og allar umdeilanlegar, og engin ríkisstj. hefur ráðizt í þær að nauðsynjalausu. Allar hafa þær miðað að því að tryggja rekstur atvinnuveganna og þar með atvinnuöryggi og velferð þjóðarinnar. En allar hafa þær orðið óábyrgum áróðri stjórnarandstöðunnar að bráð. Og nú er gerð hörð hríð að viðreisnartill. ríkisstjórnarinnar.

Núverandi ríkisstjórn lætur ekki hræða sig frá því að gera skyldu sína, og hún treystir því, að þjóðin hafi lært nægilega mikið af reynslu undanfarinna ára til þess að gjalda varhuga við óábyrgum áróðri stjórnarandstöðunnar. Það er brýnasta nauðsyn í íslenzkum stjórnmálum að kenna íslenzkri stjórnarandstöðu velsæmi og þjóðhollustu. Ríkisstjórnir eru að sjálfsögðu misjafnar. En stjórnarandstaðan hér á landi bregzt ávallt hlutverki sinu. Í því efni verður þjóðin að taka í taumana. Efnahagsaðgerðir eru að jafnaði erfiðar fyrir almenning. En það er háskalegt og vítavert, að stjórnarandstaðan skuli vitandi vits og af ráðnum hug neyta allrar orku sinnar og beita öllum sínum áróðurstækjum til þess að auka á erfiðleika þjóðarinnar með því að koma í veg fyrir það, að aðgerðirnar beri árangur. Hefur stjórnarandstaðan engar skyldur við kjósendur sína? Þetta er þeim mun vítaverðara, að hún hefur ekki bent á neinar leiðir út úr vandanum, aðeins reynt að flækjast fyrir. — Verið þið sæl.