15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

48. mál, efnahagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. seinasti ræðumaður var að rifja upp ýmis ummæli, sem Eysteinn Jónsson hefði sagt, slitin algerlega úr sambandi. Það mun sýna sig, að ef ummæli Eysteins Jónssonar eru lesin í heild, er ekki um neitt ósamræmi að ræða hjá honum fyrr og nú. En ég held, að þessum hv. þm. væri nær að rifja það upp, sem hann sagði sjálfur fyrir seinustu kosningar, og bera það saman við það, sem hann er nú að gera. Það mundi vissulega koma þá í ljós, að þessum hv. þm. er annað betur gefið en efna loforð sín.

Það munu vafalaust margir ætla af öllum bölsöng hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. um erlendu framkvæmdalánin, sem hafa verið tekin undanfarin ár, að það sé eitthvert aðaltakmark ríkisstjórnarinnar að stöðva skuldasöfnunina við útlönd. Hvað segir svo frv. það, sem hér liggur fyrir, um þennan tilgang hæstv. ríkisstjórnar? Þar segir í stuttu máli það, að ríkisstj. fer fram á heimild til stærri lántöku erlendis en nokkru sinni hefur áður verið stofnað til. Stjórnin vill hvorki meira né minna en fá heimild til að mega auka erlendu skuldirnar um 760 millj. kr. Þetta fé ætlar hún ekki að nota til framkvæmda, heldur eingöngu til vörukaupa. Hér er m.ö.o. stefnt að því að auka erlendu skuldirnar meira en nokkru sinni fyrr og það eingöngu vegna eyðslu. Og svo á þjóðin að leggja trúnað á það, að stjórnin ætli að vinna gegn erlendri skuldasöfnun. Er hægt að komast öllu lengra í ósönnum og blygðunarlausum áróðri?

Hæstv. menntmrh. sagði, að hér ætti nú að framkvæma sömu efnahagsstefnu og í nágrannalöndunum. Lítið sýnishorn þess sannleika er það, að stjórnin ráðgerir að hafa útlánsvexti meira en helmingi hærri en viðgengzt í þessum löndum. Hins vegar verður kaupmáttur verkamannalauna minni hér en þar eftir gengisbreytinguna.

Af hálfu sjálfstæðismanna hefur verið reynt að halda því fram, að þeir erfiðleikar efnahagsmálanna, er nú væri glímt víð, stöfuðu frá tíð vinstri stjórnarinnar. Til að afsanna þetta nægir að benda á eftirfarandi:

Þegar vinstri stjórnin lét af völdum haustíð 1958, lét Sjálfstfl. hagfræðinga sína gera sérstaka úttekt á ástandi efnahagsmálanna. Útkoma þeirra var sú, að hægt væri að tryggja áfram rekstur atvinnuveganna án nýrra tolla og álaga, ef kaupið væri lækkað um 6%, eða m.ö.o. sú kauphækkun tekin aftur, er Sjálfstfl. og fylgifiskar hans höfðu knúið fram fyrr á árinu. Þessi kauplækkun var svo lögleidd á seinasta þingi, og þar með átti að vera tryggt, að atvinnuvegirnir gætu starfað án frekari álaga á almenning. Það gerðist svo síðar, að stjórn Emils Jónssonar jók niðurgreiðslur og uppbætur milli 250 og 300 millj. kr. umfram það, sem átti sér stað í tíð vinstri stjórnarinnar. Með því var stofnað til hallans, sem nú er glímt við, og er hann sannarlega orðinn til í stjórnartíð Alþfl. og Sjálfstfl., en rekur ekki að neinu leyti rætur til vinstri stjórnarinnar.

Talsmenn stjórnarinnar hafa verið að hampa því, að Framsfl. hafi tvívegis staðið að gengislækkunum áður og því sé óeðlilegt, að hann sé ekki með gengislækkun nú. Þessu er því að svara, að það nýstárlega í þessu máli er ekki sjálf gengislækkunin, enda þótt hún gangi úr hófi fram. Það stórfelldasta í þessu máli er sú algera stefnubreyting í efnahagsmálum, sem ætlunin er að framkvæma. Aldrei áður hefur það verið gert allt í senn: að lækka gengið, hækka stórkostlega söluskatt og aðrar álögur, hækka vextina stórkostlega, draga úr útlánum bankanna, skerða stórlega opinber framlög til verklegra framkvæmda o.s.frv. Gegn slíkri samdráttarstefnu hefur Framsfl. jafnan barizt og telur hana háska fyrir land og lýð. Það er því fullkomlega í samræmi við afstöðu hans fyrr og síðar, að hann beitir sér hart gegn þessu frv.

Talsmenn Sjálfstfl. hafa raunar haldið því fram, að með þessu frv. verði stefnt að því að draga úr höftum og auka frjálsræði manna. Öllu meira öfugmæli hafa ekki verið sögð. Undantekningarlítið allar ráðstafanir, sem felast í þessu frv., torvelda og takmarka framtak allra þeirra einstaklinga, sem eru ekki því betur stæðir fjárhagslega eða njóta ekki sérstakra hlunninda í bönkunum. Vaxtahækkunin, skerðingin á útlánum bankanna, nýju álögurnar, þetta allt eru ný höft á framtak og frjálsræði manna. Þetta frv. er tvímælalaust mesta haftafrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fyrir Alþingi. Höft fátæktarinnar og höft peningavaldsins eru hér leidd til öndvegis. Framtak allra verður skert, nema nokkurra fárra útvalinna, er fá enn meira svigrúm en ella. Aldrei hefur Sjálfstfl, sýnt það betur en nú, að hann vill ekki stuðla að einkaframtaki hinna mörgu, heldur aðeins gefa fáum útvöldum sem mest olnbogarúm. Þrátt fyrir allt sitt glamur um, að hann sé flokkur allra stétta, er hann mesti stéttaflokkur landsins, flokkur braskara og yfirgangsmanna, er þola ekki framtak og sjálfsbjargarviðleitni hins óbreytta manns.

Hér í umræðunum hefur verið greinilega sýnt fram á það, að þær ástæður, sem ríkisstj. færir fram fyrir frv., eru falsrök ein. Það þarf engar sérstakar neyðarráðstafanir vegna erlendu lánanna, sem hafa verið tekin undanfarin ár, því að þau hafa öll farið til framkvæmda, er skila beint eða óbeint miklu meiri gjaldeyristekjum en nemur vöxtum og afborgunum af þeim. Það þarf heldur engar slíkar ráðstafanir, er hér eru ráðgerðar, til að mæta hallanum af útflutningskerfinu, enda er hér gert ráð fyrir fjórum sinnum meiri álögum eða millifærslum en hæstv. forsrh, taldi nauðsynlegt fyrir 21/2 mánuði. Þá taldi hann þörf 250 millj. kr. álaga eða millifærslu í þessu skyni, en hér er um a.m.k. fjórfalda þá upphæð að ræða.

Það er því mjög vel ljóst, að hér er mörgum sinnum lengra gengið í samdrætti og kjaraskerðingu en nokkur þörf er fyrir. Þegar þannig er sýnt, að ekki er þörf þessara ráðstafana vegna erlendu skuldanna né afkomu útflutningsatvinnuveganna, hljóta menn að spyrja: Hver er þá hinn raunverulegi tilgangur ríkisstjórnarinnar? Ekki getur hæstv. ríkisstj. verið að ráðast í þessar aðgerðir út í bláinn og efna til stórfelldra stéttaátaka og baráttu í hreinu hugsunarleysi. Þetta er vissulega rétt. Hæstv. ríkisstj. og þeir, sem ráðum hennar ráða, hafa alveg ákveðinn tilgang með þessu máli. Tilgangurinn er sá að nota hinar tiltölulega viðráðanlegu aðgerðir, sem þarf að gera vegna útflutningsatvinnuveganna, til að koma fram alveg nýrri þjóðfélagsstefnu og nýjum þjóðfélagsháttum á Íslandi. Stundarerfiðleikar atvinnuveganna eru notaðir sem skálkaskjól til að koma þessari stefnu fram.

Hver er sú þjóðfélagsstefna og þeir þjóðfélagshættir, sem er takmark hæstv. ríkisstj. með þessu frv.? Því hefur hæstv. forsrh. svarað skýrt við 1. umr. Hæstv. forsrh. orðaði þetta efnislega á þessa leið: Ég vil fá aftur þá góðu tíma, þegar ég var ungur. — Í þessum anda og í þessum tilgangi er líka frv. hæstv. ríkisstjórnar samið. Takmarkið er að færa okkur 30–40 ár aftur í tímann til þeirra þjóðfélagshátta, sem þá ríktu.

Það var í kosningunum 1927, sem ein mestu þáttaskipti urðu í íslenzkri sögu. Þá voru íhaldsöflin brotin svo á bak aftur, að þau hafa aldrei þorað að sýna sitt rétta andlit aftur fyrr en nú. Á þeim 33 árum, sem síðan eru liðin, hefur orðið alger breyting á þjóðfélagsháttum á Íslandi. Það hefur í raun réttri risið upp hér nýtt þjóðfélag, stórum betra og réttlátara en það, sem fyrir var. Í stuttu máli sagt er það aðalsmerki þessa þjóðfélags, að hér eru nú tiltölulega langtum fleiri efnalega sjálfstæðir einstaklingar en í öðrum löndum, almenn fátækt minni og mikil auðsöfnun líka minni. Eignaskiptingin og tekjuskiptingin er jafnari á Íslandi en víðast þekkist. Það, sem hefur hjálpað til að skapa þetta þjóðfélag, er einkum tvennt. Önnur meginástæðan hefur verið samhjálp fólksins, samvinnufélög, verkalýðsfélög, iðnaðarmannafélög, ásamt mikilli opinberri aðstoð til styrktar einkaframtaki og félagsframtaki, t.d. fiskveiðasjóður, ræktunarsjóður, ýmsir byggingarsjóðir o.s.frv. Hin meginástæðan hefur verið sú, að einkaframtak og atorka hinna mörgu einstaklinga hefur verið leyst úr læðingi og þeir kappkostað að komast úr fátækt til bjargálna. Þetta tvennt í sameiningu hefur gert það að verkum, að á Íslandi hafa sennilega orðið meiri verklegar framkvæmdir og meiri umbætur á lífskjörum almennings en í nokkru öðru landi á sama tíma.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt markvisst að því að brjóta þessa þjóðfélagshætti niður. Í staðinn á að endurreisa þá þjóðfélagshætti, sem voru hér fyrir 30–40 árum og hæstv. forsrh. saknar svo mjög og þráir að komi hér að nýju, eins og þeir þm. munu minnast, er hlýddu á hina grátklökku ræðu hans í hv. deild fyrra laugardag. Þetta á að gerast með því að þrengja kjör alls almennings í landinu, en bæta aðstöðuna fyrir fáa útvalda. Þetta á að gerast með því að færa til, svo að notuð séu orð hæstv. menntmrh., hvorki meira né minna á þessu ári en 1000 millj. kr. frá almenningi og í vasa tiltölulega fárra einstaklinga og fyrirtækja. Þetta á að gerast með því að innleiða að nýju ein ægilegustu höft allra hafta, höft fátæktarinnar og höft peningavaldsins. Þetta á að gerast með því að láta bankana hlúa að nokkrum útvöldum, líkt og Kveldúlfi í gamla daga, meðan þeir verða svo lokaðir öllum almenningi. Þetta á að gerast með því að þrengja á margvíslegan hátt að framtaki hinna mörgu máttarminni einstaklinga, eins og þeirra, sem nú standa í íbúðarbyggingum, svo að hinir fáu útvöldu fái enn meira svigrúm en ella. Og þetta á alveg sérstaklega að gera með því að þrengja kost og kjör unga fólksins í landinu, svo að það standi ekki í vegi hinna fáu útvöldu.

Það, sem hér er um að ræða, eru því raunverulega ekki ráðstafanir, sem gerðar eru vegna erfiðleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það, sem hér er um að ræða, er að taka upp alveg nýja þjóðfélagshætti, hverfa frá þjóðfélagi hinna mörgu efnalega sjálfstæðu einstaklinga til hins gamla þjóðfélags, þar sem flestir voru fátækir, en örfáir stórríkir.

Þessar staðreyndir verða menn að gera sér ljósar. Hver sá einstaklingur, sem vill ekki láta troðast niður í svað fátæktarinnar, verður að rísa gegn þeirri stefnu, sem þetta frv. boðar. Hver sá einstaklingur, sem vill hafa frelsi og möguleika til að verða bjargálna og efnalega sjálfstæður, verður að snúast hér til varnar. Hver sá, sem vill ekki una höftum fátæktar og peningavalds, verður að snúast hér til mótspyrnu. Og alveg sérstaklega verður unga fólkið í landinu að rísa upp til andspyrnu, ef það vill ekki endurreisa hér þjóðfélag þeirra hafta, fátæktar og peningavalds, sem þjakaði forfeður þess og dró þrek og dáð úr þjóðinni. Þau átök, sem hér eru fram undan, kalla á sameinaða baráttu allra þeirra, sem vilja ekki hverfa aftur til hins gamla tíma. Í þeirri samstilltu baráttu eiga ekki aðeins stjórnarandstæðingar heima, heldur allur þorri þess fólks, er veitti stjórnarflokkunum brautargengi í seinustu kosningum. Þetta fólk gaf stjórnarflokkunum ekkert umboð til að framkvæma þá afturhaldsstefnu og auðvaldsstefnu, sem í frv. þessu felst. Stjórnarflokkarnir lofuðu einmitt því gagnstæða fyrir kosningarnar. Þeir lofuðu að stöðva verðbólguna, en efna í stað þess til meira dýrtíðarfióðs en nokkru sinni hefur átt sér stað. Þeir lofuðu að efla uppbygginguna, en hyggja nú á margs konar ráðstafanir til að torvelda hana og takmarka. Kjósendur, sem hér hafa verið sviknir af stjórnarflokkunum, geta því ekki átt samleið með þeim lengur. Þeir eiga því nú að skipa sér í fylkingu þeirra, sem vilja ekki una þeirri afturhaldsstefnu, sem í þessu frv. felst. Þeir eiga því fulla samleið með stjórnarandstöðunni, a.m.k. meðan hæstv. ríkisstjórn heldur afturhaldsstefnu sinni til streitu.

Það er óhjákvæmilegt, að það hlýtur að valda hinni hörðustu baráttu, ef reynt verður að framkvæma þá afturhalds- og auðvaldsstefnu, er feist í þessu frv. Framsóknarmenn hafa því gert tilraun til þess hér í hv. d., að reynt yrði að ná samkomulagi um efnahagsmálin á breiðum grundvelli eða með samstarfi allra þingflokkanna. Stjórnarherrarnir hafa hafnað þessari sáttatilraun með háðs- og storkunar orðum. Vera má þó, að sigurbrosið fari af þeim, áður en lýkur. En með því að vilja ekki neitt samkomulag, bera þeir einir ábyrgð á því, sem á eftir kemur. Þau átök, sem kunna að vera fram undan, verða þá knúin fram af stjórnarherrunum vitandi vits og verða algerlega háð á ábyrgð þeirra. Og er það kannske það, sem þessi fámenna þjóð þarfnast helzt, að verða klofin í harðvítugustu baráttu, eingöngu vegna þess, að stjórnarherrarnir vilja knýja fram þjóðfélagsstefnu, sem meiri hluti þjóðarinnar er áreiðanlega andvígur og er alger andstæða þeirra loforða, er þeir gáfu fyrir seinustu kosningar?