16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

48. mál, efnahagsmál

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál mikið, og ég geri ráð fyrir því, að auðvelt sé að verða við þeirri ósk, að það taki ekki ýkja langan tíma að ljúka afgreiðslu málsins hér í þessari hv, deild. Það hefur verið sagt margt og mikið um þetta mál. En þegar ég hlustaði á útvarpsumr. í gærkvöld, kom mér sannast að segja í hug, þegar ég hlustaði á mótsagnirnar, hvernig það mundi vera fyrir almenna kjósendur að átta sig á málinu eftir þær útvarpsumræður og þær staðhæfingar, sem þar voru settar fram, og átti hæstv. forsrh. þar óskipt mál. M.a. var fullyrt í gærkvöld, að kjaraskerðingin væri 3%. Svo kemur hér sjálfboðaliði, sem þekkir sjálfsagt vel inn á þessi mál, og segir, að kjaraskerðingin sé 5–8%, þ.e. hv. 9. landsk., sem talaði núna áðan, svo að það er ekki alveg ónýtt að halda áfram að ræða málin, ef þessu ætlar að halda áfram. En um ráðstafanirnar ætlaði ég samt sem áður að fara nokkrum orðum út frá sjónarmiði mínu og míns flokks.

Ég held satt að segja, að eitt af því allra skaðlegasta við þessar ráðstafanir sé það, að þær komu eins og þrumuveður yfir þjóðina. Það er enginn okkar neinn sérfræðingur í því að stjórna, og okkur fer það allmisjafnlega úr hendi. En þeir, sem stjórna, hafa fundið það, þeir finna það, að ef maður siglir sínu skipi upp í strauminn móti skilningi þjóðarinnar, þá er erfitt að stjórna. Það mun reynast þannig. Þess vegna þarf alltaf að búa þjóð undir það, sem verið er að gera, og fá hana til að skilja það með tiltölulega löngum fyrirvara, hvað á að gera og hvað er nauðsynlegt að gera. Þetta fullyrði ég, að er eitt af því allra nauðsynlegasta við það að stjórna þjóð, svo að vel fari. Og það er engin von til þess, að íslenzka þjóðin sé á nokkurn hátt undir það búin að taka á mótí þessum ósköpum, alveg þvert á móti.

Það var farið fram á ýmislegt á undanförnum árum, eins og ég kem siðar að. Það var tiltölulega ekki mikið, sem var talið að þyrfti að fara fram á við Alþýðusamband Íslands veturinn 1958 — og það að áliti hagfræðinga, ég kem aðeins að því síðar. En þó tekur út yfir, að allt seinasta ár — það verður varla of oft sagt — er þjóðinni sagt, að allt sé í bezta lagi. Hér sitja menn á Alþingi, eins og varaforseti Alþýðusambands Íslands, Eggert Þorsteinsson, og Sigurður Ingimundarson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og svo eru Jón Sigurðsson, Jóhanna Egilsdóttir, — allt þetta fólk fullyrðir með þeim ofboðslegustu tilburðum, sem til eru, í blöðum, að ef nokkur breyting verði á stöðvunarpólitík Alþfl. frá því, sem verið hafi, þá sé verkalýðshreyfingunni allri að mæta, annað komi ekki til mála. Þetta er birt á nokkurra daga fresti og hvað eftir annað sagt. Hvernig í ósköpunum getur nokkrum manni komið til hugar að gera þá kröfu, að verkalýðshreyfing, sem þannig er búin undir þessar breytingar, geti tekið þeim með þögn og þolinmæði og geti blátt áfram trúað því, að þær séu nauðsynlegar? Það er verið að krassa yfir þetta, eins og var gert í ræðu hv. 9. landsk., með því að segja, að þessi stöðvun hafi gert svo mikið gagn, það hafi verið svo miklu auðveldara að ráða við þetta eftir á, eftir að Alþýðuflokksstjórnin hafi setið við völd. Þetta er vitanlega skröksaga og hún greinileg. Það er alveg vandalaust að stjórna þannig að eyða af þeim birgðum, sem ríkið á í tekjuafgöngum, og safna skuldum og borga niður dýrtíð, það breytir engu til eða frá, það getur hvaða stjórn sem er, og það var það, sem Alþfl.-stjórnin gerði. Og staðreyndirnar liggja nú fyrir, bæði um tekjuafgang ríkisins frá 1958, sem hún eyddi, og svo hallann, sem hún skilur eftir sig, sem að vísu er ekki upplýst frekar en sumt annað, hvað er mikill.

Það er þess vegna alveg augljóst mál, að eftir þær yfirlýsingar, sem birtar voru fyrir kosningarnar og menn trúðu almennt, þá er naumast hægt að hugsa sér, að það sé hægt að skapa meiri glundroða í þjóðfélaginu en fleygja inn byltingarkenndum ráðstöfunum eins og þeim, sem hér á að gera. Það er varla hægt að gera neitt af hálfu ríkisstj., sem er líklegra til að skapa glundroða, segi ég. Þessum yfirlýsingum, — menn skulu athuga það vel, — þeim var trúað í kosningunum, yfirlýsingum Jóns Sigurðssonar, Jóhönnu Egilsdóttur, Sigurðar Ingimundarsonar og Eggerts Þorsteinssonar, og það var búizt við því, að við þær yrði staðið. Ég mætti einum ágætum Alþfl.-manni, sem var að fara til þess að kjósa í seinustu kosningum, og hann sagði: Nú er kosið í fyrsta sinn um stjórnarstefnu, stöðvunarstefnuna. Mér dytti ekki í hug, sagði hann, að fara á kjörstað, ef það væri ekki einmitt þetta núna, að nú er kosið um stöðvunarstefnuna, nú er kosið um stjórnarstefnu, sem er varanleg eftir kosningar, ef við styðjum hana nógu rækilega.

Þess vegna er það, að það er álitið, þó að ég sé ekki að vísu sérstaklega fær um að dæma um það frekar en aðrir, að hér hafi verið farið ákaflega óskynsamlega að og það eigi eftir að sýna sig, eins og ég færi nánari rök að, að hér sé mjög óskynsamlega stjórnað. Það er ekki þetta eitt, sem kemur fram. Það, sem almenningur sér gægjast í gegnum missagnirnar, er t.d. þetta: Hver getur upplýst, hver er hallinn á útflutningssjóði? Hver getur upplýst það? Ég er búinn að reyna að fá upplýsingar um það hvað eftir annað, og þeim ber aldrei saman. Skýrslum ber ekki saman um það, hvort upphæðin sé þetta eða hitt. Svo kemur fyrrv. forsrh. og ber það blákalt fram, að þessar tölur séu rangar, hallinn sé miklu minni. Fólk fær ekkert að vita um það, hver sé hallinn á útflutningssjóði. Þó má segja, að það sé eitt af grundvallaratriðunum fyrir því, að það þarf að gera stórfelldar ráðstafanir, hver sá halli er. Ég fullyrði, að það hefur ekki tekizt að fá að vita það, þannig að tölunum beri saman.

Og þetta, sem ég nefndi áðan, er staðhæft við fólk af hæstv. forsrh., og það er satt að segja eftir útreikningum hagfræðinganna, að kjaraskerðingin, almenna kjaraskerðingin, sé ekki meiri en 3%. Svo kemur hér maður, sem er gagnkunnugur þessum málum á marga lund, hv. 9. landsk., og segir, að hún sé 5–8%.

Okkur var sagt fyrir kosningarnar, að það væri allt í lagi, og eftir kosningarnar er okkur skýrt frá því, að það sé 250 millj. kr. halli, sem þurfi að jafna á árinu 1960, 250 millj., sem þurfi að afla í auknum tekjum til útflutningssjóðs og ríkissjóðs, til þess að hægt sé að standa undir þeim útgjöldum, sem nauðsynleg séu til þess að framfleyta framleiðslunni. Ég skal nú ekkert segja um það, hvort þessi tala er rétt eða ekki. Ég get ekki fært öruggar sannanir fyrir því, að hún sé of há, — öruggar sannanir, segi ég, — en mér hafa fundizt allar líkur benda til þess, að fullyrðingarnar um það, að allt væri í bezta lagi um útflutningssjóð og ríkissjóð, fyrir kosningarnar séu álíka ósannar og seinni talan, sannleikurinn liggi þarna á milli.

Fyrir kosningarnar þurfti sem sagt að gylla fyrir kjósendum, að allt væri í bezta lagi, allt væri komið í lag, og það væri óhætt að trúa stjórninni fyrir því að stjórna áfram. Þess vegna var sagt, að allt væri í lagi. Eftir kosningar þurfti að hræða þjóðina til að taka á móti ráðstöfunum, sem yfir dundu, og þá er þetta sagt, þá er blaðinu snúið við.

Hæstv. viðskmrh., — ég kem kannske síðar að því, — var að tala um það í gærkvöld í útvarpinu, að það væri ákaflega erfitt að trúa stjórnarandstöðu, hún væri ákaflega óáreiðanleg alltaf, stjórnarandstaðan. En ég verð nú að segja það, að eftir þá reynslu, sem maður hefur af ríkisstj. Alþfl. seinasta árið, eina árið, sem hún stjórnaði, þá komu svo margar yfirlýsingar frá henni og hennar mönnum, að óáreiðanlegri yfirlýsingar hafa ekki komið frá neinni stjórnarandstöðu en þeirri stjórn, svo að það fer nú að verða erfitt, ef ekki er hægt að trúa stjórnarandstöðunni, því að það liggja sannanir fyrir því, að þær upplýsingar, sem ég nefndi áðan, að þær yfirlýsingar voru alveg rangar miðað við staðreyndir.

Nú sagði hæstv. forsrh. í gærkvöld, að það hefði ekki verið hægt að jafna þennan halla nema með nýjum álögum, sem mundu hafa numið 5–6%, sem væri meira en þyrfti að taka með þeirri gengisbreytingu, sem lögð er til, en er ólíkt minna en það, sem hv. 9. landsk. lýsti yfir áðan, að kjaraskerðingin væri 5–8%. En ég geri ráð fyrir því, enda gerðum við framsóknarmenn ráð fyrir því, þegar Alþfl.-stjórnin tók við, að það mundi verða nokkur tekjuhalli á útflutningssjóði og ríkissjóði samanlagt, og það kemur okkur ekki á óvart, að svo sé. Þess vegna er það, að ef við erum spurðir að því, hvort við viljum engar ráðstafanir gera, hvort við viljum halda því fram, að það hafi engar ráðstafanir þurft að gera núna í haust, þá svara ég því á þann veg, að það þurfi vitanlega að gera ráðstafanir.

Samkv. þeim útreikningum, sem ég hef frá hagfræðingum yfir þessi mál, — þeir voru frá Jónasi Haralz, þeir reikningar voru gerðir seint á árinu 1958, — komst hann að þeirri niðurstöðu, eins og kunnugt er og ef ég man rétt, að verkalýðurinn þyrfti að falla frá 11 vísitölustigum, Alþýðusambandsþingið þyrfti að falla frá 11 vísitölustigum, til þess að hægt væri að halda sömu lífskjörum og voru í okt. 1957 og í febrúar 1958. Þessu neitaði Alþýðusambandið, eins og kunnugt er. Og hér þætti mér gaman að skjóta því inn í, þegar verið er að hafa eitt og annað eftir mönnum, að ég hef tekið eftir, að það er búið að tala um það 10–20 sinnum, að ég hafi sagt á Alþýðusambandsþingi, að ef þetta væri ekki gefið eftir, þá færi allt fram af brúninni. Ég held, að það sé rétt, að ég láti það standa hér í þingtíðindunum, að þetta eru alger ósannindi. Þetta sagði ég aldrei, enda datt mér ekki í hug, að slíkt ástand væri yfirvofandi, svo sem líka kom á daginn að ekki var. En hagfræðingurinn orðaði þetta á þessa lund, og ég tók fram, að ég teldi þetta nokkuð mikið sagt, m.ö.o. þveröfugt við það, sem skýrt er frá opinberlega. Það er alveg í samræmi við það, sem er sagt um verkföllin 1955, að ég hafi örvað til þeirra. Það eru hrein ósannindi. Ég hef aldrei örvað til verkfalla, hvorki þá né endranær, heldur talað alveg þveröfugt við það, sem er sagt, og er það til í ræðu, meðan á verkföllunum stóð, og er í þingtíðindum hér og er hægt að vitna til, hvenær sem ég kæri mig um. Þetta er nú aðeins innskot. — En þessu var hafnað, segi ég, og þetta eru þær seinustu skýrslur, sem við höfum frá hagfræðingum um þessi mál, því að hitt eru útdrættir, sem eru settir fram meira í áróðursskyni.

Við álítum þess vegna, að það hafi þurft að gera ráðstafanir, og spurningin er þá, hvernig ráðstafanir átti að gera.

Við drögum enga dul á það frekar nú en áður, að við höfum verið þeirrar skoðunar og erum þeirrar skoðunar, að það, sem þurfi að gera fyrst og fremst, sé að auka, byggja upp og bæta og gera verðmætari framleiðsluna alhliða. Þetta verður að vera fyrsta boðorð hverrar stjórnar í þessu landi, þar sem svo margt er ógert og möguleikarnir svo miklir. Það átti að draga úr framkvæmdum, sem mega bíða. Það er alrangt, að Framsfl. hafi nokkurn tíma haldið því fram, að framkvæmdir ættu að ganga með einhverjum ofsahraða, þó að þær væru fyrirsjáanlega of miklar og of hratt farið. Hinu höfum við haldið fram, að það ætti að draga úr framkvæmdum, sem megi bíða, án þess að skapa atvinnuleysi og án þess að peningavaldið í landinu ráði því, hvað framkvæmdirnar fari hægt eða hratt og hvaða framkvæmdir eru gerðar. Enn fremur álítum við, að það hefði mátt leggja enn nokkuð á óþarfari varning og með þessu hefði mátt ná endunum saman.

Við álítum, að um þetta og lausn, sem yrði meira til frambúðar, hefði átt að hafa sem víðtækast samstarf milli flokkanna, hvort sem sömu flokkar og nú eða einhverjir aðrir hefðu setið í ríkisstjórn. Það er nú siður hér í þessu landi, að menn eru skammaðir fyrir það að fara úr stjórnum og segja af sér. Þá rjúka þeir burt og gefast upp. Og ef þeir tala um samstarf, þá eru þeir skammaðir fyrir það, að þá muni langa til þess að komast í ríkisstjórn. En það er nú eitt af því broslega hjá þjóð, sem er þrátt fyrir sína miklu hæfileika stundum dálítið skrýtin — eða a.m.k. þeir, sem tala fyrir hennar hönd í þessum málum. En ég álít, að það sé staðreynd, sem ekkert þýðir að ganga fram hjá og er engin fullyrðing, heldur staðreynd, að þegar Sjálfstfl, var haldið utan við, þá gerði hann allt, sem hann gat, til þess að spilla stjórnarfari í landinu. Hann gerði það. Þetta er náttúrlega svo oft og mörgum sinnum skjallega staðfest, að það þýðir ekkert að mótmæla því. Hann framdi skemmdarverk í stjórnarandstöðunni til þess að koma stjórninni frá. Segjum svo, að hann hafi álitið þetta rétt, því að hann hugsi sem svo, að tilgangurinn helgi meðalið, stjórnin væri það léleg og skaðleg, eins og hann hefur haldið fram, vinstri stjórnin, að það væri leyfilegt að nota þessi meðul. En ég gæti trúað því, að það hvarflaði kannske að einhverjum sjálfstæðismanni núna, að það hefði verið vafasamt að nota þau og að það gæti verið, að með svona vinnuaðferðum gagnvart verkalýðnum og svona áróðri gagnvart verkalýðnum sé hægt að ala upp þannig verkalýðshreyfingu, að kanónurnar fari að skjóta sjálfar og það manns eigin kanónur í félögunum. Þess vegna er það alveg ljóst, ef á að leysa þetta mál með víðtæku samstarfi, þá er slík reynsla fyrir því frá þessum flokki séð.

Nú halda andstæðingarnir því fram, að við séum alveg eins. Ég er nú ekki farinn að sjá fram á það, að við höldum uppi slíkum prédikunum elns og Sjálfstfl. hefur haldið. Það hefur ekki verið okkar siður. En hvað sem því líður, þá er það alveg bersýnilegt, að þessir tímar, sem vinstri stjórnin sat, þar sem talsvert var fengizt við vandasöm mál, sköpuðu þá reynslu, að það verði að leysa þessi mál á sem viðtækustum grundvellí. Og a.m.k., hvað sem þessu líður með flokkana, þá þarf, eins og ég kem dálítið síðar að, að leysa þau á víðtækari grundvelli að því er snertir stéttirnar.

Það þýðir ekkert að staglast á því, að Framsfl., þegar allt hafi verið komið í öngþveiti, hafi verið að biðja Sjálfstfl, um aðstoð til að stjórna. Það, sem við óskuðum eftir, var víðtækara samstarf, til þess að skemmdarverkastarfið a.m.k. hyrfi og menn sæju sæmd sína í því að vinna saman að þessum málum. Ég álít, að það hefði þurft að gera.

En það er annað. Menn segja nú sem svo: Það hlýtur að koma í ljós, og það hlýtur hver maður að sjá og einnig framsóknarmenn, að þessi leið, sem ég benti þarna á, aukning framleiðslunnar, að draga úr óþörfum framkvæmdum, spara, eftir því sem unnt er, leggja á einhverjar álögur til viðbótar, án þess að þær íþyngi um of, — vitanlega hlýtur að koma að því, að þetta er ekki hægt, þess vegna er þetta ekkert nema bráðabirgðalausn. Og þá segja menn sem svo: Þegar þessa leið þraut, hvað þá? Það er ekki neitt launungamál, og það kannast þeir við, sem sátu í þeirri ríkisstj., sem ég veitti forstöðu, að það var gert ráð fyrir því, þegar 55% gjaldinu var komið á, yfirfærslugjaldinu, og svo jafnhliða 30% gjaldinu á þær vörur, sem var verið að koma í veg fyrir að hækkuðu í verði, þá var gert ráð fyrir því, að ef þyrfti að gera frekari ráðstafanir, yrði gengisbreyting farin í áföngum. Og meira að segja, þó að ég álíti ekki rétt að nefna nein nöfn hagfræðinga, voru til hagfræðingar, sem sögðu sem svo: Þessi leið er auðveld héðan af. Það þarf ekki að prenta nema einn staf í lögunum. Ef þjóðin eyðir meira en hún aflar og jafnvægið hverfur, þá þarf ekki annað en breyta 55% í 60 eða 65 og 30% í 35, þá er hægt að laga jafnvægið að nýju með þessum breyttu tölum. — Þetta er raunverulega á vissan hátt hreyfanlegt gengi, og með þessu er auðvelt að láta verkalýðinn skilja í samstarfi við hann, hvað það þýðir, þegar lifað er um efni fram, sýna það reikningslega í sambandi við þessa fyrirhuguðu gengisbreytingu í áföngum eða leiðréttingu eða hvað maður vill kalla það. Við höfum margsagt það, framsóknarmenn, menn mega gjarnan kalla það gengisbreytingu okkar vegna. Þeir erlendu sérfræðingar, sem hingað komu, sögðu vitanlega, að það mætti ekki koma á gengisbreytingu með því að leggja á jafnhátt innflutningsgjald og útflutningsgjald, það er aðeins fyrirkomulagsatriði. En um þetta var raunverulega rætt, og í sambandi við það var samið frv., sem ég lét semja sem forsrh. um hagdeild ríkisins, og jafnframt leitað til verkalýðsfélaganna, að þau kæmu á hjá sér hagráði launamanna, til þess að þetta hagráð launamanna gæti unnið með ríkisstj. og hagdeild ríkisins að því að rannsaka, hvað væri hagkvæmt í efnahagsmálunum fyrir launastéttirnar á hverjum tíma. Þetta var gert vegna þess, að það hafði sýnt sig, að 19 manna nefndin og aðrar nefndir, sem voru skipaðar í skyndi án þess að setja sig að staðaldri inn í efnahagskerfið, áttu eðlilega mjög erfitt með að setja sig inn í málin á stuttum tíma, og þess vegna var fyrirhuguð þessi hagdeild, sem ekki varð af, vegna þess að ríkisstj. fór frá völdum. Það er þess vegna alveg rétt hjá 9. landsk., sem sagði hér, að það væri eitt af því allra nauðsynlegasta, ef á að skapast hér sæmilegt ástand í verkalýðshreyfingunni, að hún kæmi sér upp slíkri hagdeild. Og er nú furðulegt, að slíkt skuli ekki hafa verið gert, því að eitt af okkar mestu skáldum, Þorsteinn Erlingsson, talaði fyrir 40 árum í Dagsbrún og benti þá á, hvað það væri nauðsynlegt fyrir þá að hafa hagfræðinga sér til aðstoðar og mennta verkalýðinn og launamennina hagfræðilega.

Með þessu móti, að hafa hreyfanlegt gengi og koma upp hagráði launamanna og hagdeild ríkisins, sem ynnu saman, þá er enginn efi á því, að þá hefði verið byrjað á leið, sem líklegt er að hefði getað leitt til þess, að með skilningi hefði verið hægt að leiðrétta gengið í áföngum, unz fullu jafnvægi var náð, og það álít ég að hefði verið miklu ráðlegra en að gera. það heljarstökk, sem hér hefur verið gert og — eins og ég kem síðar að — er því miður að öllum líkindum dæmt til þess að mistakast.

Ég álít, alveg án tillits til þess, hvort maður vill velja gengisbreytingarleiðina eða ekki, að valin hafi verið með þessari gengisbreytingu, eins og hún er gerð, einhver skaðlegasta leiðin, sem hugsanlegt var að velja, og ég skal reyna að færa rök að því. Gengisbreytingin er gerð með fjölda byltingarkenndra kjaraskerðingarákvarðana í ofanálag.

Við framsóknarmenn vildum, eins og ég sagði áðan, gengisleiðréttingu í áföngum og í sambandi við hana ráðstafanir, sem væru gerðar í samráði við verkalýðinn og launastéttirnar.

Það er vitanlega hárrétt, sem sagt var af einum þm. Alþb. hér í þessari hv. d., þegar rætt var um þessi efnahagsmál 1958, að það væri ekki gengisbreytingin sjálf, sem er aðalatriðið, — hún er ekkert annað en meðal til að jafna metin, — en það, hvernig hún er gerð, það er aðalatriðið. Hún í sjálfri sér er ekki aðalatriðið, heldur hvernig hún er gerð. Þó að við, eins og hæstv. viðskmrh. hefur minnzt á, töluðum um það í ríkisstj., hvort við ættum að gera gengisbreytingu eða ekki og þá ekki neitt svipaða gengisbreytingu, eins og ég kem að síðar, og hér er gerð, heldur án þeirra ægilegu skerðingarákvæða, sem eru í sambandi við þessa gengisbreytingu, þá liggur fyrir, þó að við hugsuðum okkur að gera það þannig, álit frá hagfræðingi, sem ég hygg að flestir taki nokkurt mark á í sambandi við þessi mál, þar sem hann segir: Ef þið tryggið ykkur ekki nokkurn veginn vinnufrið og samtök verkalýðsins nokkurn veginn um það, að ekki verði hækkað kaup á eftir, þá eruð þið hreint og beint að vinna skaðræðisverk með gengisbreytingunni. — Ég hygg, að þetta álit sé til. Og þó að ætti að gera gengisbreyt. jafnvel í áföngum og þó að ætti að gera gengisbreyt., sem meiri hefði verið, með einu átaki, en með öllum hugsanlegum ráðstöfunum, sem verkalýðurinn krafðist að gerðar væru í sambandi við hana, til þess að létta lífskjörin, og með engum skerðingarákvæðum, eins og ég kem síðar að, þá var þetta hans allt.

Annars ætla ég ekki að tala um og hef ekki gert það að umtalsefni, hvernig afstaða flokka þeirra, sem ég vann með í ríkisstjórn, var í einstökum málum. Ég held, að ég hafi aldrei, — og það er af eðlilegum ástæðum, — skýrt frá því, og ég ætla ekki að fara inn á það heldur hér. En ég get þó ekki stillt mig um að segja það, vegna þess áð það hefur verið fullyrt, og það er þess vegna að gefnu tilefni, að Alþfl. hafi verið með gengisbreytingu í þeirri ríkisstj., er hann sat í og ég veitti forstöðu, að sannleikurinn var sá, að hjá báðum flokkunum var orðið gengisbreyting eins og guðlast, og vildi hvorugur nefna það. En það rétta í málinu — og það verður aldrei of oft sagt — er ekki það, hvort gerð er gengisbreyting eða ekki gengisbreyting, heldur hvernig hún er gerð. Þegar athugað er, hvað mikið er talað um það, hvað andstæðingarnir, stjórnarandstaðan og við, sem flytjum hér mál, séum óheiðarlegir í málflutningi, þá hefur hæstv. viðskmrh. tekið af mér ómakið, að ég þurfi að staðfesta það með öðrum skýrslum en hans, hvað við framsóknarmenn lögðum til. Hann segir í ummælum, sem eiga að vera niðrandi um Framsfl., að Framsfl. hafi verið með gengisbreyt., — og nú bið ég menn að taka eftir: en hann skildi aldrei og vildi aldrei ganga inn á þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru jafnhliða gengisbreyt., og það var að draga nægilega mikið úr framkvæmdum og gera fleiri ráðstafanir í sambandi við það, — einmitt þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar og við lítum mjög alvarlegum augum. Sannleikurinn var sá, að þetta er að sumu leyti satt og að sumu leyti ósatt. Við vildum ráða því, úr hvaða framkvæmdum yrði dregið. Við vildum láta minnka framkvæmdir, eins og ég sagði áðan, án þess að það kæmi til atvinnuleysis, og velja úr þær framkvæmdir, sem helzt mættu bíða. Á þann hátt vildum við draga úr framkvæmdum. Hér er reginmunur á. Þegar dregið er úr framkvæmdum núna samkv. frv., sem hér liggur fyrir, þá ræður stjórnin engu um það, hverju verður frestað, hvaða framkvæmdum, ef hún ætlar að láta það vera frjálst, eins og gefið er í skyn, — hvort það verður byggð upp framleiðsla eða byggt upp hótel fyrir nokkra tugi milljóna hér suður í Aldamótagörðum, það ræður stjórnin ekkert við, eða hvort allar okkar framkvæmdir meira og minna stöðvast, þannig að komi til atvinnuleysis.

Það, sem við aldrei vildum í sambandi við gengisbreytingu og hefði aldrei dottið í hug að taka þátt í og skiljum ekki, hvernig mönnum dettur í hug að framkvæma, það er að bæta stórálögum ofan á gengisskerðinguna, eins og gert er. Okkur datt aldrei í hug, að ríkisstj. tæki sér einræði til þess fyrst að hálfloka stofnlánasjóðunum, eins og ræktunarsjóði, byggingarsjóði og mörgum fleiri sjóðum, sem eru taldir í frv. Fyrst á að loka þeim með því að láta þá ekki fá fjármagn og síðan taka sér vald til þess að hækka vexti á því litla, sem kannske verður lánað, til þess að stöðva svo að segja allar framkvæmdir við sjó og í sveit, sem hafa fengið fjármagn úr þessum stofnlánasjóðum. Okkur datt þetta aldrei í hug. Þetta er alveg rétt hjá viðskmrh., okkur datt aldrei í hug að fallast á þetta. Okkur datt aldrei í hug að fara að taka stofnlánasjóði kaupfélaganna utan af landi, sem hafa verið uppistaðan í framkvæmdum úti í dreifbýlinu og uppbyggingu úti um landið, að taka þá og leggja þá inn í banka í Reykjavík. Það er að vísu sagt, að það eigi að lána þeim það úti um landið ekki síður en öðrum. Okkur datt aldrei í hug — og það er alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh. — að setja okurvexti á minnkandi útlán. Hér og í mörgu öðru er þessi reginmunur. Þetta segir hann, að við framsóknarmenn höfum aldrei viljað fallast á og við höfum aldrei léð máls á, en ber það hins vegar á Alþb., að það hafi viljað makka um þetta, en það er þess að svara því.

Það eru notuð alls konar rök í þessum málflutningi, og sýnir rétt myndina af því, að þegar talað er um vextina, eru ýmist notuð rökin fyrir því þannig, að það eigi að draga saman, ellegar þá að þetta sé gert fyrir sparifjáreigendur. En þegar verið er að tala um, að það sé gert fyrir sparifjáreigendur til þess að bæta þeim upp það, sem þeir hafi tapað og tapi, þá eru þetta litlar sárabætur og hafa verið veittar með öðrum hætti áður. En þegar talað er um hækkaða vexti til útlána, þá er sagt, að þetta eigi bara að standa stutt, þá er búið að gleyma sparifjáreigendunum, og síðan er sagt hér, að kaupmenn og iðnrekendur og aðrir eigi að bera þetta. Þetta er nú bezt að segja einhverjum öðrum en okkur, sem erum svona dálítið reyndir í því, hvernig hefur tekizt að láta þá bera þetta. Sannleikurinn er sá, að þessir okurvextir hellast yfir þá, sem geta ekki velt þeim af sér aftur. Þeir hellast með þeim þunga yfir fólk, sem hefur nýlega keypt sér íbúðir og er með laus lán, hverju nafni sem þau nefnast, öðru en þá í seldum skuldabréfum. Þau hellast yfir fólk með þeim þunga, að það er vafasamt eða næstum víst, því miður, að fjöldi af fólkinu, sem núna berst í bökkum, getur ekki haldíð húsnæði sínu, eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar. Þar kemur það niður. Og það kemur niður líka á öllum almenningi gegnum vextina, sem þeir, sem geta velt þeim af sér, framkvæma, því að vitanlega koma þeir fram í hækkandi vöruverði og það fer einnig á bak almennings.

Svo koma þeir með þau broslegu rök, og það sýnir nú eitt m.a., hvað þetta er hlægilegt, að við framsóknarmennirnir séum verndarar okraranna, því að það séu einu mennirnir, sem fari illa út úr þessu. Ég hefði nú haldið, að einn af þeim gáfuðu mönnum, sem dálítið hefur fengizt við þessi mál, vissi betur. Ég sá samtal við hann í einu virðulegu blaði hér, og hann sagði: Nú er peningamarkaðurinn frjáls og salan á þessari vöru, sem heita peningar, gengur vitanlega miklu betur. — Og það er áreiðanlegt, að hann veit betur en hv. 9. landsk. Hann hefur bæði reynslu og þekkingu og þar á ofan mikla hæfileika til að skilja það, sem er að gerast, og auðvitað leiðir það af sjálfu sér, að þegar vextir hækka upp í 10 –12%, þá hækkar bara hitt enn þá meira og þar upp fyrir, það gefur að skilja, þegar þeim er gefinn laus taumurinn.

Ofan á þetta er gert það, sem víð álítum að sé vafasamt að gera með lögum og hefur verið minnzt hér á, og það er binding vísitölunnar, og það sýnir eitt m.a., hvernig flokkarnir, og þar á Sjálfstfl. hlut að máli, standa við sínar kosningastefnuskrár. Það stóð í kosningastefnuskránni, að það skyldi leita samkomulags milli launastéttanna og atvinnurekendanna um afnám vísitölunnar. Það er fyrsti liður í stefnuskránni. Og síðar flytja framsóknarmenn brtt. við þetta, sem er nákvæmlega eins orðuð og var í stefnuskrá Sjálfstfl. fyrir kosningar, — takið eftir: fyrir kosningar. Og hún er kolfelld. Nú er ég ekki að halda því fram, að vísitalan sé einhver blessun, þvert á móti. Ég held því ekki fram. En ég held því fram og álít, að það sé komin nokkur reynsla fyrir því bæði innanlands og utan, að það sé bezt að reyna að gera þetta með samkomulagi við launastéttirnar sjálfar. Við komumst ekki lengra en það að semja við launastéttirnar og fá þær til þess að skilja þann málstað, sem við erum að berjast fyrir, fá þær til að taka þátt í því með okkur og laga málstaðinn í hendi, þannig að hann sé skynsamlegur bæði fyrir þær stéttir og þjóðfélagið í heild.

Það er eftirtektarvert, þegar við byrjuðum á því nú í tíð vinstri stjórnarinnar að rannsaka verkalýðslöggjöf á Norðurlöndum, hvað haldið þið, að hafi komið í ljós? Haldið þið, að það hafi komið í ljós, þar sem búið er að gera svona geysilegar takmarkanir á verkföllum eins og þar er búið að gera, að löggjöfin sé sett af þingunum? Nei, hún er sett að mestöllu leyti í samræmi við reglur, sem verkalýðshreyfingin hefur sjálf sett sér um verkföll. Inn á þessar leiðir verður að leiða íslenzka verkalýðshreyfingu og treysta því, að það sé hægt, og það er enginn efi á því, að það er hægt, ef beitt er þolinmæði, svo og að það verði engin mistök til að byrja með, fleiri en eitt og fleiri en tvö, eins og ég sjálfur hef dæmin upp á.

En það má ekki gefast upp við þetta. Það verður að ná þessu með samtökum, og dæmið frá Norðurlöndum, þar sem er meiri takmörkun á verkföllum en víðast annars staðar, sýnir, að þau hafa sjálf búið sér til þessar reglur. Þau hafa m.a., eftir því sem ég veit bezt, a.m.k. á sumum Norðurlandanna, vísitölu, að vísu með öðru fyrirkomulagi en hér, þannig að þegar vísitalan hefur breytzt að vissu marki, falla þeirra 3 ára samningar eða bara 2 ára samningar, — eftir því sem ég veit bezt, eru það 3 ára samningar núna, voru að koma því á fyrir tveimur árum, — þá falla þeirra samningar úr gildi og ríkisstj. verður að setjast niður og semja við þá um málið að nýju.

Þess vegna er það, að ákaflega þýðingarlítið er að ætla sér að gera þetta á þennan hátt. Við álítum, framsóknarmennirnir, að það hefði verið skynsamlegra um þetta eins og fleira í þessu máli að reyna að leita samráðs og samþykkis, ef unnt væri, við verkalýðshreyfinguna til þess að nema þetta burt. Við sjáum, að voldug ríki, sem hafa voldugt ríkisvald, verða að beygja sig fyrir einu og öðru. Við skulum taka bara Bandaríkin. Við skulum hugsa um stálverkfallið nýlega. Þeir þora ekki einu sinni að beita því ákvæði, sem er í bandarískum lögum, að fresta verkfallinu um nokkra daga, þó að það sé heimilt samkvæmt landslögum, og þeir reyna sannarlega ekki síður en aðrir að fara með lempni, miklu meiri lempni en farið er hér í þessu frv. og miklu víðar en snertir þetta eina atriði um vísitöluna.

Það, sem er gert með þessu, er að leggja á stórar álögur, loka svo að segja stofnlánadeildunum, draga stofnlánasjóði samvinnufélaganna til Reykjavíkur, setja á okurvexti, samdrátt opinberra framkvæmda, — og allt þetta miðar í þá átt, að hér er um íhalds- og samdráttarstefnu að ræða. Það á að herpa þjóðfélagið saman. Þetta er stefnan. Og þess vegna er það, að þetta á ekkert skylt við gengisbreytingu, sem hægt er að gera með ýmsu móti. Hér er samhliða gengisbreytingunni farið inn á alveg nýja — eins og þeir hafa sagt sjálfir — þjóðfélagsstefnu, íhaldsstefnu, eins og við þekktum hana í sinni verstu mynd fyrir nokkrum áratugum, þá stefnu að láta allt leita jafnvægis sjálft, sem við þekkjum afleiðingarnar af, bæði hér á landi og um víða veröld í heimskreppunni eftir 1930.

Þetta er það, sem á að gera. Það á að hafa litlar framkvæmdir og hafa þær af handahófi. Og það er ekkert launungarmál, það vitum við, sem höfum heyrt þessa stefnu prédikaða mörgum sinnum, að það þarf hæfilegt atvinnuleysi. Það á að vera hæfilegt atvinnuleysi, það tilheyrir þessari stefnu. Þó að það sé sagt hér hvað eftir annað í útvarp og annars staðar, að það komi vitanlega ekki til mála að verði atvinnuleysi, þá tilheyrir það, það er einn þátturinn í kerfinu.

Ég játa, að það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að þessa stefnu skildi Framsfl. aldrei, hefur aldrei skilið og vildi ekki skilja, — eða þó heldur hitt, hann skilur hana of vel til þess að vilja nokkurn tíma fallast á hana.

Það er ekki hægt að neita því, að ef fólkið í landinu tæki möglunarlaust við þessari kjaraskerðingu og treysti sér til að þola hana og vildi þola hæfilegt atvinnuleysi, þá er hægt að stjórna eftir þessum leiðum. En við álítum satt að segja, að þetta kosti allt of mikinn sársauka fyrir fólkið í þessu landi, allt of mikla kjaraskerðingu, til þess að hægt sé að halda uppi slíkri stjórnarstefnu sem þessari.

Ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. sagði, að eina leiðin, sem til væri, væri þessi leið, — eina leiðin, sem til væri, væri sú, sem farin væri. Og það er náttúrlega eitt af mörgu, þar sem ekki ber vel saman, að rétt eftir að hæstv. forsrh. hafði sagt, að þetta væri eina leiðin, sem til væri út úr ógöngunum, þá sagði viðskmrh. í útvarpinu í gær, — og tel ég ekki neinn vafa um, að það er það rétta, — hann segir: Ég vil þó ekki halda því fram, að þetta sé eina leiðin, sem um er að velja. (Forsrh.: Hina kallaði hann ófæru. ) Hina kallaði hann lélegri en þá leið, sem farin væri, en það var hans dómur. En hann lokaði ekki fyrir það, að til væru fleiri leiðir en þessi. Hann sagði, að það væru til fleiri leiðir, og nefndi eina leið, sem hann fordæmdi. En það eru vitanlega til fleiri leiðir en sú, sem hann tók þar sem dæmi og dæmdi úr leik. Hann nefndi, að það væri til sú leið að hafa fjárfestingareftirlit og sjá um, að ekki yrðu of miklar framkvæmdir, og enn fremur að hafa innflutningseftirlit, þannig að gjaldeyrir eyddist ekki úr hófi fram, en taldi, að þjóðin mundi síður vilja það en þær leiðir, sem hann og aðrir í hæstv. ríkisstjórn hafa valið.

Sannleikurinn er sá, að gallarnir, sem eru á þessari leið, sem valin er, eru þeir, að það er reynt að leita jafnvægis að íhalds- og samdráttarleiðum með harkalegri kjaraskerðingu og eftir þeim kennisetningum, sem tilheyra þessari leið. Kjaraskerðing verður vitanlega af gengisbreytingunni sjálfri, ef til vill úr hófi fram. Það er talað um verðlagseftirlit. Við þekkjum nú verðlagseftirlitið, sem höfum tekið þátt í því að reyna að halda því uppi, hvað það er auðvelt, og við getum ímyndað okkur það, að verðlagseftirlit í stjórn, þar sem Sjálfstfl. ræður a.m.k. mestu, — við getum alveg gert því skóna, hvernig það verðlagseftirlit verður. T.d. er núna byrjað að selja ýmsa hluti 50% hærra en þeir kosta samkv. nýja genginu, þó að það sé ekki búið að flytja hlutina inn, svo að ballið er byrjað að selja vörurnar, sem eru í landinu, fyrir hækkað verð. Þrengingin verður enn fremur, eins og ég sagði áðan, vegna vaxtahækkana og gífurlegra álagna. Það er ekki auðvelt að reikna út, hvað öll þessi kjaraskerðing verður mikil. Því er haldið fram af hæstv. viðskmrh., að þetta sé ekki nema 200 millj., því að það sé það, sem þurfi að jafna í greiðsluhallanum við útlönd. En þetta eru vitanlega engin rök, eins og það eru engin rök hjá hæstv. ráðh., að gengisbreytingin sé bara tilflutningur. Hvers vegna ætti ekki að gera þá gengisbreytinguna enn þá meiri, sé hún bara tilflutningur? Það skiptir þá ekki neinu máli, hvort hún er mikil eða lítil, hún er bara tilflutningur. Og það er enginn, sem hefur sannað það og getur sannað það á þessu stigi, hvort gengisbreytingin er hæfileg kjaraskerðing til þess að jafna þessar 200 millj. Það er vitanlega ekkert annað en fjarstæða.

En ofan á allt þetta er leiðin nú alls ekki, eins og hæstv. forsrh. sagði hér, hrein leið. Það er alls ekki afnám á öllum þessum skaðræðisaðferðum, sem hafðar hafa verið áður. Og slíka fullyrðingu kom hv. 9. landsk. með hér líka áðan. Það er búið að gera samning um það að greiða niður útfluttar landbúnaðarafurðir og það svo mikið, að það má nema allt að 73 millj. kr. á ári. Þar er ein grein framleiðslunnar undir sömu reglum og hefur verið undanfarið. Það á að greiða niður innanlands. Það hefur verið margsýnt fram á það, að niðurgreiðsla innanlands er sama og uppbætur á útflutning, því að ef ekki er greitt niður innanlands, skapast dýrtíð, hækkaður framleiðslukostnaður og útilokað, að það sé hægt að selja vöruna út fyrir það, sem kostar að framleiða hana í landinu. Þetta, að greiða niður til þess að minnka framleiðslukostnaðinn innanlands, er því ekkert annað en uppbæturnar í öðru formi. Og enn fremur á að greiða niður nauðsynjavörur, sem fluttar eru frá útlöndum. Ég veit ekki, hvað víða það tíðkast, en ekki kæmi það mér neitt á óvart, þó að mér væri sagt, að það væri sjaldgæft og bæri ekki vott um neitt sérstaklega heilbrigt fjármálakerfi.

Það er því langt frá því, að með þessum ósköpum, sem yfir okkur dynja, með þessum byltingarkenndu ráðstöfunum sé afnumið í heild það kerfi, sem áður var. Línurnar hafa ekki skýrzt meira en það, að við erum með niðurgreiðslu, eins og ég hef sagt, á innfluttum vörum, niðurgreiðslur á innlendum vörum, sem samsvara því að borga uppbætur á útflutning, og beinlínis með uppbætur á útflutning samkv. samningum við bændur.

Það er vitanlega ekkert nema gott um það að segja, að mönnum verði ívilnað með skatti, þeim sem minna mega sín og lægri hafa tekjur. Ég er ekki búinn að sjá það frv., sem boðað er um stighækkandi skatt, en ekki kæmi mér það á óvart, þegar skattstiginn kemur, að þeir, sem hafa háar tekjur, kynnu að græða 5 þús. á nýja skattstiganum, meðan sá, sem er láglaunamaður, græðir 1 þús., því að vitanlega verður um nýjan skattstiga að ræða, þegar yfir í hátekjur kemur, og er heldur ekkert við því að segja, þó að honum verði breytt. En það þarf ekki alltaf að vera að tala um þennan geysilega ávinning fyrir lágtekjumenn. Hann verður vitanlega meiri fyrir hátekjumenn, þó að gott verði, að þessi ívilnun komi lágtekjumönnum að gagni um leið. En þetta er vitanlega allt annað en stóð í stefnuskránni fyrir kosningarnar. Í stefnuskránni fyrir kosningarnar var það hjá Alþfl. algert afnám á tekjuskattinum, og til sannindamerkis um, hvað þetta væri stórkostlegt, var birt skýrsla yfir, hvað það kostaði og hvað það væri margmennt lið, sem þyrfti til að leggja á og innheimta tekjuskattinn. Þetta voru önnur rökin. Nú eru lágtekjumennirnir teknir út úr, allt kerfið helzt, og kostnaðurinn við að innheimta leifarnar verður jafnmikill og að innheimta sem sagt allan skattinn. Og hin rökin voru þau, að þessi skattur væri hvort sem er svo mikið svikinn. Voru það lágtekjumennirnir, launamennirnir, sem sviku skattinn? Þurfti að afnema skattinn á þeim vegna þess? Aðalrökin voru þau, að þetta væri svo mikið svikið, að það þyrfti að afnema það vegna þess.

Nú vita það allir, og maður þarf ekki að spyrja um það, að þeir menn, sem svíkja ekki skatt, það eru launamennirnir, með þann skatt, sem á að afnema. Það liggur á borðinu um tekjur þeirra. (Gripið fram í.) Já, þá var að hafa hina eftir, sem svíkja skattinn, — þeir mega halda því áfram. Það eru lagleg rök þetta. M.ö.o.: það á að afnema hann vegna þess, að það séu svo mikil skattsvik. Svo sleppa þeir — réttilega segi ég — lágtekjumönnunum við skatt, þar sem það liggur á borðinu, hvað þeir eiga að greiða, og þeir svíkja ekki skatt, en þar sem skattsvikin eru líklegust, þegar kemur í efri stigann, það á að haldast, sem var þó talað um að væri aðalgallinn á kerfinu.

Ofan á afnámið á þessu er sett upp annað kerfi. Það er söluskatturinn, sem viðskmrh. hæstv. réðst mest á áður. Og það er eins og fleira hjá blessuðum Alþfl., að maður getur reiknað út nokkurn veginn örugglega, að því, sem hann hefur helzt verið á móti áður, því er hann mest með núna. Það er nokkurn veginn föst regla. Það er eins og stendur í þeirri frægu vísu, sem var kveðin hér einu sinni á Alþingi, að vísu ekki um Alþfl., heldur um aðra menn. Og svo kemur söluskatturinn í staðinn. Og hvað haldið þið, að kerfið verði nú stórt, sem þarf til þess að innheimta söluskattinn, í viðbót við hitt kerfið, sem á að standa? Hvað haldið þið, að það verði stórt? Ég sá hér í einu blaði, og það var lesið upp af einum hv. alþm. í útvarpsumræðunum í gær, að samvinnufélögin hefðu komið og kvartað hér í einum bæ á landinu undan söluskattinum, því að það hefði sýnt sig, að þegar söluskattur í smásölu gilti þar seinast, þá borgaði kaupfélagið á staðnum jafnháan söluskatt og allir kaupmennirnir, en hafði ekki nema örlítið brot af allri verzluninni. Þessu var sagt frá í einu blaði. Það er líka vitanlegt, að þetta er skattur á menn, sem borga — sem betur fer mikill meiri hluti — heiðarlega sinn söluskatt. En það er ekki auðveldara að koma neinum skatti undan en honum. Söluskatturinn verður skattur á þjóðina, án þess að komi nema hluti af honum inn í ríkissjóðinn. Það þarf meira en lítið eftirlitskerfi og meiri löghlýðni og meiri dugnað lagaeftirlitsins en er á Íslandi til þess að framfylgja slíkum skattalögum.

Það er ekkert nema gott um það að segja, að aukinn hefur verið barnalífeyrir, eins og oft hefur verið tekið fram. En náttúrlega er ekki hægt að segja beinlínis, að það sé heilbrigðiseinkenni á þjóðfélagi, að það þurfi að setja upp reglur um það að gefa öllum með fyrsta barni, þó að það séu menn, sem hafa hundruð þúsunda í tekjur og eiga milljónir í eignum. Það væri kannske erfitt að koma þessu öðruvísi fyrir. En sem betur fer, eru ýmsir svo vel efnum búnir í þessu þjóðfélagi, að þeir hafa nú efni á því án þess að fá meðgjöf, opinbera meðgjöf með fyrsta barninu, að sjá um það sjálfir. Þetta er vitanlega til mikilla bóta fyrir fátækar barnafjölskyldur og kannske erfitt að koma því fyrir á annan hátt. En eins og reglan er nú sett þarna, þá er ekki hægt að segja, að það sé beinlínis vottur um heilbrigt þjóðfélag, að þetta skuli þurfa að vera þannig. (Forseti: Á hv. þm. ekki töluvert mikið eftir af ræðu sinni enn þá?) Það verður alltaf tíu, tuttugu mínútur. (Forseti: Er þá ekki sama, þótt hv. þm. fresti henni núna til dæmis?) Þá geri ég það. En áður en ég fresta ræðunni, vildi ég segja það, að þessar sárabætur, sem veittar eru, þær eru áreiðanlega, eftir því sem ég og aðrir hafa reiknað þær og það allýtarlega, miklu minni hluti af kjaraskerðingunni en fullyrt er af hæstv. ríkisstjórn. Það hef ég séð af dæmum manna, sem eru glöggir reikningsmenn og hafa reiknað sitt eigið dæmi nákvæmlega, manna með lágar tekjur. — Þá get ég lokið máli mínu að sinni. [Frh.]