16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

48. mál, efnahagsmál

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að langur tími fari í að ræða efni þessa frv. Í fyrsta lagi er máliðstórt og snertir mjög hagsmuni ekki aðeins þjóðarheildarinnar, heldur og ekki síður hagsmuni stéttanna og raunar hvers einasta manns í landinu. Í öðru lagi er hér um að ræða tillögur, sem fela í sér óvenju gagngera stefnubreytingu, kúvendingu í efnahagsmálum okkar, ef svo mætti að orði komast. Loks bætist svo það við, að málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar mun hafa reynzt ófullkominn og eitthvað gallaður, skýrslur m.a. ófullnægjandi og jafnvel villandi, en á þeim eru niðurstöður reistar. Hefur það mjög tafið og torveldað athugun og mat á innihaldi tillagnanna. Ég mun nú víkja að nokkrum atriðum þessa mjög viðtæka og fjölþætta máls.

Á áratugnum 1930–1940 lifðum við Íslendingar ásamt öðrum vestrænum þjóðum alvarlega krepputíma. Þá ríkti hér mikið atvinnuleysi og mikil deyfð í öllum framkvæmdum. Þá varð kaupgetan lítil og flestir lifðu við þröngan kost. Þótti kreppan illt ástand, og munu fæstir, sem hana reyndu, æskja tilkomu hennar á ný. Á stríðsárunum gengu krepputímarnir yfir. Þá hvarf atvinnuleysið og mikil þensla færðist í hvers konar framkvæmdir og viðskipti. Lífskjör almennings bötnuðu vegna nægrar atvinnu, og kaupgetan óx. Það var runnið upp blómaskeið í þjóðlífinu, skeið hagsældar og framfara, tímabil, sem var alger andstæða krepputímanna gömlu.

Þetta vaxtar- og þensluskeið atvinnu- og efnahagslífsins hefur haldizt nokkurn veginn fram á þennan dag. Að vísu varð nokkur afturkippur fyrir tæpum áratug, og fór þá að brydda á atvinnuleysi og öðrum kreppueinkennum. Þó tókst þá að rétta við aftur, og síðustu árin hafa auðkennzt af nægilegri atvinnu, vaxandi framleiðslu, nægum mörkuðum erlendis fyrir afurðir okkar og hækkandi þjóðartekjum.

Það efnahagskerfi, sem þróazt hefur í vestrænum löndum, virðist undirorpið því leiða lögmáll, að almenn velmegun megi ekki standa til lengdar eða geti ekki staðið til lengdar. Samkv. því lögmáli hljóta að skiptast á kreppa og velmegun, þensla og samdráttur. Þenslunni fylgir vaxandi atvinna og batnandi kjör almennings, en samdrættinum minnkandi vinna og versnandi lífskjör. Á þetta lögmál efnahagslífsins virðast hagfræðingar trúa sem væri það óhjákvæmileg forlög. Enginn má sköpum renna. Eftir efnahagslegan blómatíma hlýtur að koma kreppa. Það er óumflýjanlegt, segja hagfræðingarnir. Og í dag standa þeir agndofa yfir því, að ekki skuli þegar skollin á kreppa á Íslandi. Líklega finnst þeim það nánast stríða á móti náttúrunnar lögmálum. Í 20 ár höfum víð ekki haft af kreppu að segja hér á landi. Við höfum hamazt við að vinna, framleitt útflutningsvörur í vaxandi mæli og selt þær í austri og vestri, eftir því sem bezt hefur hentað. Máske er það einmitt vegna viðskiptanna við þjóðir mismunandi hagkerfa, að við höfum umflúið kreppuna til þessa. Hvað sem um það er, höfum við ekki haft kreppu í 20 ár, og þeim, sem trúa á óumflýjanlega hringrás kreppu og hagsældar, er ekki orðið um sel.

Æðstu prestar hagspekinnar í New York og París hafa lengi litið Ísland óhýru auga, líkt og þeir vildu spyrja: Dirfist þessi litla þjóð að brjóta í bága við lögmál vestrænnar hagfræði um hagsveiflur? Og þessir erlendu hagspekingar senda íslenzkum starfsbræðrum sínum tóninn og gera þá með því svo óstyrka, að þeir mega vart lengur vatni halda. Forstjóri Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, Rene Sergent, heimtar tafarlausan samdrátt í íslenzku efnahagslífi sem nauðsynlegan undanfara nýrrar kreppu. Hann segir, að við Íslendingar séum orðnir á eftir öðrum vestrænum þjóðum í þessum efnum, og mun það satt vera. Í Bretlandi og í Bandaríkjunum hefur atvinnuleysið þegar fyrir alllöngu haldið innreið sína, svo að dæmi sé nefnt. Þessi voldugi forstjóri amast mjög við viðskiptum okkar við vöruskiptalöndin, en tekur þó skýrt fram, að stofnun hans geti ekki ábyrgzt okkur nein viðskiptasvæði í þeirra stað. Yfirleitt hefur þessi mæti forstjóri allt íslenzkt á hornum sér, og þó virðist honum yfirgengilegust af öllu sú vitleysa Íslendinga að ríghalda í það að rækta hluti eins og kartöflur með gífurlegum tilkostnaði, eins og hann kemst að orði. Ég hef séð álitsgerð annars erlends hagspekings um íslenzkt efnahagslíf. Sá heitir Robert Allen og er hagfræðiprófessor í Bandaríkjunum. Beri að líta á þetta plagg hans sem niðurstöðu fræðilegrar athugunar og séu aðrir sérfræðilegir ráðunautar hæstv. ríkisstj. af sama sauðahúsi og þessi, þá hætti ég að furða mig á framkomnum og boðuðum efnahagsmálatillögum stjórnarinnar. Þessi fræðimaður byrjar nefnilega á að slá því föstu, sem hann á að sanna, sem sé því, að íslenzka þjóðin lifi um efni fram. Ótíndir leikmenn geta haft í frammi slíkar órökstuddar fullyrðingar, að ég nú ekki tali um vissa stjórnmálamenn, en í munni fræðimanna fara þær illa. En hann slær þessu sem sagt föstu strax í upphafi eins og óbifanlegu trúaratriði og dregur síðan út frá því sínar fræðilegu ályktanir.

Ýmsar fleiri staðhæfingar þessa sérfræðings koma mér spánskt fyrir sjónir, eins og t.d. sú, að landhelgisdeilan við Breta hafi stofnað mikilvægustu mörkuðum okkar í hættu. En það er nú aðeins smáatriði hjá honum. Með mörgum orðum lýsir þessi höfundur þungum áhyggjum sínum og persónulegu ógeði á víðskiptum Íslendinga við þjóðir Austur-Evrópu og viðurkennir raunar opinskátt um leið, að það ógeð sé sprottið af pólitískum, en ekki fræðilegum ástæðum. Að þessum heilabrotum loknum ber prófessor Allen fram kröfur sínar til Íslendinga. Samkv. þeim eiga þeir að lækka gengið þannig, að 50 kr. jafngildi einum dollara, hætta viðskiptum við öll vöruskiptalönd, hætta erlendum lántökum, minnka bæði fjárfestingu og eyðslu, hækka skatta, gefa verðlagið frjálst og halda kaupi niðri með því að afnema vísitölukerfið. Sérstaklega leggur hann áherzlu á, að lánastarfsemi til húsbygginga verði torvelduð, byggingarsjóður ríkisins lagður niður og lánaupphæðir lækkaðar.

Ég skal taka það fram strax, að þótt ég sé í veigamiklum atriðum ósammála þeim tveimhagspekingum, er ég hef nafngreint, þá er þó sitt hvað innan um, sem ég tel athyglisvert, og mun ég e.t.v. nefna eitthvað af því síðar. Það er ekki heldur óeðlilegt, að ég sé þeim ósammála í meginatriðum. Þeir heimta samdrátt í atvinnu- og efnahagslífi Íslendinga, svo verulegan, að til kreppu hlýtur að leiða, en það ástand óttast almenningur á Íslandi eins og pestina. Þorri þjóðarinnar vill ekki efnahagslega kreppu og viðurkennir ekki heldur nauðsyn hennar.

Síðustu árin hafa vissir íslenzkir hagfræðingar hins bandaríska hagkerfis tiplað á tánum kringum stjórnarvöldin hér, sífellt sífrandi um þær kröfur, sem erlendir meistarar þeirra blása þeim í brjóst. Sérstaklega hefur þetta endalausa nudd verið iðkað af kostgæfni í tímariti hagfræðideildar Landsbankans, Fjármálatíðindum. Á þessum árum vaxandi framleiðslu og aukinna þjóðartekna hafa þessir hagfræðingar stöðugt klifað á sama viðlaginu: Það er hrun framundan, svo framarlega sem álögur á almenning verða ekki stórlega þyngdar. Við heimtum fleiri byrðar og þyngri byrðar á herðar almennings, ella er voðinn vís. Við heimtum samdrátt og hann nægilega mikinn í efnahags- og atvinnulífi, annars föllum við í ónáð þeirra stóru og ríku í París og New York. — Þannig hafa hagfræðingarnir kyrjað sönginn í allmörg ár linnulaust og í ótal tóntegundum, og 1. des. s.l. var hann meira að segja fluttur af Jónasi Haralz sem hátíðakantata í ríkisútvarpinu. Og nú hafa þessir hagfræðingar, sprenglærðir á ameríska vísu, loks fengið viðhlítandi undirtektir. Það er engin tilviljun, að sú íslenzka ríkisstjórn, sem nú tekur undir sönginn fullum hálsi, er afturhaldssamasta ríkisstjórn, sem hér hefur setíð um áraraðir.

Þessi hæstv. ríkisstj. varð til í nóvember í vetur, daginn sem hið háa Alþingi var sett. Strax tók hún sér fyrir hendur athugun á hinu voðalega ástandi efnahagsmálanna. Hún safnaði skýrslum og álitsgerðum, reiknaði og ræddi, og að því loknu settist hún niður og samdi bjargráðatillögur sínar.

Hæstv. ríkisstjórn virðist mjög hreykin af vinnubrögðum sínum. Þar hafi nú ekki verið kastað til höndum. Hún lét ráðunauta sína pæla í plöggunum og lítur síðan svo upp til þeirra, að nú mæla ráðh. vart eina setningu svo, að ekki sé í henni tilvitnun sótt til „sérfræðinganna“, en svo nefna þeir ráðunauta sina og aldrei annað.

En hverjir voru nú ráðunautar hæstv. ríkisstj. í undirbúningi bjargráðanna? Á Alþingi eiga sæti 60 menn ýmissa stétta, úr öllum flokkum og frá öllum landshlutum. Ráðfærði ríkisstj. sig við þá um lausn hins ofboðslega efnahagsvanda? Nei, ekki aldeilis. Þeir flæktust bara fyrir, létu hæstv. ríkisstj. engan vinnufrið hafa og voru því hreinlega sendir heim í sína sveit. Þannig var ekki haft samráð við hv. þm. í heild og þaðan af síður við hv. stjórnarandstöðu. Slíkt hefði þó máske ekki verið óheppilegt, þegar um annan eins vanda var að ræða. Mér er ekki kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hafi leitað ráða hjá innlendum félagasamtökum. Má þó vera, að hún hafi ráðgazt eitthvað við samtök eins og Vinnuveitendasamband Íslands og Félag ísl. stórkaupmanna, en til Alþýðusambands Íslands var ekki leitað og ekki heldur til heildarsamtaka annarra launþega né til bændasamtakanna. Þannig er það víst, að ríkisstj. taldi sig ekki eiga neitt erindi við samtök fjölmennustu stéttanna í landinu um þessi mál.

Það er víst og áreiðanlegt, að íslenzka þjóðin hefur ekki verið höfð með í ráðum að þessu sinni. Ráðgjafarnir hafa verið valdir af allt öðru sauðahúsi, og má sennilega skipta þeim í þrjá hópa.

Næst hæstv. ríkisstj. standa hægrisinnaðir öfgamenn, en hreiður sitt hafa þeir í Sjálfstfl. Þessir menn krefjast stjórnmálalegs afturhvarfs til fyrri tíma, afnáms sem flestra þeirra réttinda, sem alþýðan hefur aflað sér á síðustu 40 árum, og endurreisnar hins óhefta framtaks fjáraflamanna. Þessir öfgamenn hafa lengi róið undir og hvatt til stórræða í afturhaldsátt.

Þá koma forustumenn tveggja erlendra stofnana hér mjög við sögu, en þær stofnanir eru Efnahagssamvinnustofnun Evrópu í París og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í Washington. Þessir ráðunautar hæstv. ríkisstj. hafa ekki verið myrkir í máli. Þeir hafa heimtað stórfelldan samdrátt efnahagslífsins á Íslandi, frjálst verðlag og lækkandi laun. En hvers vegna er þessum erlendu ráðunautum hæstv. ríkisstj. svo umhugað um þessa stefnu í íslenzkum efnahagsmálum, sem raun ber vitni um? Þeir lýsa sig fúsa til að aðstoða Íslendinga, en setja það skilyrði, að fyrst verði komið á kreppuástandi. Hvers vegna leggja þeir áherzlu á, að kjör íslenzkra launþega verði gerð verri en þau eru lökust í nágrannalöndunum, og hvers vegna mega Íslendingar ekki verzla bæði í austri og vestrí? Líklega eru svör við þessum spurningum margþætt. Forustuþjóðir Atlantshafsbandalagsins telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta á Íslandi vegna legu þess og mikilvægis í hernaði. Hér þurfa þær að tryggja sin áhrif sem bezt. Fátæk þjóð og soltin, bandalagsþjóðunum háð viðskiptalega og fjárhagslega, er stórum þægilegri í meðförum og viðráðanlegri en þjóð í efnahagslegum blóma. Það er þægilegt, jafnt fyrir harðstjórn Atlantshafsbandalagsins sem auðjöfra í Ameríku, að vita af því, að í þessu landi búi alþýða manna við lakari launakjör en þeir aumustu allra í Bandaríkjunum, svertingjar Suðurríkjanna.

Efnahagssamvinnustofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sagt sín orð, og þessum ráðunautum — eða kannske öllu heldur húsbændum — hefur hæstv, ríkisstj. hlýðnazt og fengið fyrir sem fyrstu afborgun loforð um 700–800 millj. kr. lán, sem þó má ekki ganga til arðbærra framkvæmda — engan veginn, heldur til daglegrar eyðslu.

Þá er loks þriðji hópur ráðunauta, en það eru nokkrir íslenzkir hagfræðingar, sem reynzt hafa sverð og skjöldur hæstv. ríkisstjórnar hér heima fyrir. Þá nefnir hún aldrei annað en „sérfræðingana“ og vitnar til þeirra seint og snemma. Það er álit sérfræðinganna, segja hæstv. ráðherrar. Þar með eru málin afgreidd og engra röksemda framar þörf. Þessir ráðunautar hæstv. ríkisstj. eru vafalaust vel heima í sinni fræðigrein og auk þess greindir menn og gegnir, þótt þeir í þetta sinn hafi látið ginna sig eins og þursa. Fræðimenn leggja aðeins fram staðreyndir, en „sérfræðingar“ ríkisstj. hafa gert miklu meira. Þeir hafa m.a. hagrætt tölum gáleysislega, máske í því skyni að fá útkomu, er blekkti þreytt augu hæstv. ráðherra. Nokkur dæmi þessu til sönnunar nefndi hv. 4. þm. Austf. í ræðu sinni nýlega í hv. Nd., og skal ég ekki fara nánar út í það. Auðvitað er sá útreikningur fræðilega forkastanlegur, sem hefst á útkomunni og setur síðan upp tölur í samræmi við hana, og tæpast er það gild afsökun, að slíkt sé gert til þess að þóknast góðum og notalegum húsbændum. Sérfræðingunum ber að halda sér við réttar tölur í útreikningunum. Það var lágmarkskrafa, sem þeir þó naumast hafa uppfyllt, eins og fram kom m.a. í merkilegri ræðu hjá hv. 4, þm. Austf.

Þá hefur sérfræðingunum orðið á önnur skyssa og hún ekki betri. Þeir hafa boðað eina leið og aðeins eina leið til lausnar efnahagsvandanum. Þetta tiltæki þeirra kom m.a. berlega fram í útvarpsræðu Jónasar Haralz 1, des. í vetur. Slík vinnubrögð eru ekki fræðimannsleg. Þegar hagfræðingur tekur að boða eina ákveðna stefnu í efnahagsmálum og berjast fyrir framkvæmd hennar, hættir hann að tala sem sérfræðingur og gerist þess í stað réttur og sléttur stjórnmálamaður. Þá er sérfræðingsheiti hans orðið að fölskum fána, þótt hann hins vegar hafi auðvitað fullan rétt á að tala sem stjórnmálamaður. Hann má aðeins ekki gera það í nafni fræðigreinar sinnar.

Bandaríski prófessorinn, sem ég minntist á áðan og ekki allt of lofsamlega, tekur það skýrt fram í sinni grg. um efnahagsmálin á Íslandi, að hann sjái þrjár leiðir í efnahagsmálum Íslendinga. Fyrst nefnir hann þann möguleika að koma á kerfisbundnum áætlunarbúskap, en hann kveðst andvígur þeirri leið, ekki af hagfræðilegum ástæðum, heldur pólitískum ástæðum. Þá talar hann um annan möguleika, sem sé þann, að haldið verði áfram á svipaðri braut og gert hefur verið. Um það segir prófessor Allen m.a. orðrétt: Það er að sjálfsögðu unnt að halda áfram þá braut, sem hingað til hefur verið farin. — En hann bætir því raunar við, að sú leið muni tæpast fær án verulegrar lagfæringar. Sem þriðju leiðina talar hann loks um þær ráðstafanir, er hæstv. ríkisstj. nú hyggst gera. Ég minnist á þessi ummæli prófessorsins einungis til þess að sýna fram á, hve óafsakanlega þröngir og einhæfir okkar hagfræðingar hafa verið í ábendingum sínum og hversu fljótt þeir hafa yfirgefið fræðigrein sína í þessu máli og hoppað út í stjórnmálin.

Sérfræðingarnir hafa óneitanlega látið hæstv. ríkisstj. og hennar málpípur misnota sig herfilega í öllu þessu máli. Þeim er fengin ákveðin lausn og sett fyrir að reikna dæmið þannig, að lausnin standist. Í þeirra nafni er það básúnað út um allar jarðir, að ekki sé til nema ein einasta leið út úr núverandi efnahagsvanda, sú leið, sem hæstv. ríkisstj. fellir sig við vegna ákveðinna hagsmuna hér og erlendis. Slíkt getur aðeins orðið til þess að lækka gengi hagfræðinganna í augum þjóðarinnar, og er það í sjálfu sér illa farið, því að öll gengislækkun er í mesta máta óæskileg.

Í vetur heimtaði hæstv. ríkisstj. vinnufrið. Hún fékk hann, lagðist undir feld og hefur líklega sofnað þar vært. Á meðan voru hagfræðingarnir látnir kanna ástand og horfur í efnahagsmálum og semja till. um nýjar ráðstafanir. Í sjálfu sér voru þetta rétt vinnubrögð, svo langt sem það náði, fyrst könnun, svo tillögur til úrbóta. En þriðji þáttur undirbúningsins gleymdist alveg eða var af öðrum ástæðum vanræktur með öllu. Það var sem sé ekki hirt um það nauðsynlega grundvallaratriði að ganga úr skugga um, hvort væntanlegar ráðstafanir væru framkvæmanlegar, hvort þær í reynd leiddu til þess árangurs, sem þeim var ætlað. Hæstv. ríkisstj. ber fram efnahagsmálatillögur sínar og hefur aðstöðu til að fá þær samþykktar. Hún veit, að hún ein ásamt handjárnuðu þingliði sínu ber ábyrgð á þeim samþykktum, sem gerðar verða. Samt hirðir hún ekki um að leita svars við þeirri spurningu, hvort ráðstafanir hennar muni reynast framkvæmanlegar og hvort hún með þeim geti náð settu marki. Framkvæmdin er þó ekkert aukaatriði, skyldi maður ætla, enda hefur hæstv. ríkisstj. hér orðið á skyssa, sem nægja mætti henni til falls.

Sænskur hagfræðingur, Erik Lundberg prófessor, segir um þetta efni m.a. í einni bók sinni: Viðfangsefni stjórnarvalda takmarkast ekki við það að ákveða hentugustu lausn efnahagsmálanna, byggða á réttu mati ríkjandi ástands og framtíðarhorfum. Það er mikilvægt athugunarefni ríkisstjórnum og þeim stofnunum, sem eiga að framkvæma stefnuna, að meta, hvað sé stjórnmálalega mögulegt. Flokkar á þingi, verkamannafélög og ýmiss konar samtök á sviði viðskipta og landbúnaðar hafa áhrif í þessum efnum, bæði bein og óbein. — Þannig farast orð þessum Svía, sem er heimskunnur hagfræðingur.

Jafnvel margnefndur prófessor Allen, sem í meginatriðum styður það, sem í till. hæstv. ríkisstjórnar felst, varar eindregið í sínu plaggi við því að rasa um ráð fram. Hann ráðleggur, að samráð og samvinna sé höfð við sem allra flesta innlenda aðila um gerð nauðsynlegra efnahagslegra breytinga, og nefnir þar m.a. alla stjórnmálaflokkana, verkalýðssamtökin, samvinnuhreyfinguna, kaupmannafélög og bændasamtök. Telur hann það bersýnilega goðgá að ætla sér að hrinda þessum ráðstöfunum í framkvæmd án vitundar og vilja stærstu félagssamtaka landsmanna. En hæstv. ríkisstjórn virðir þetta ráð prófessorsins að vettugi. Hún lætur sér nægja að þekkja óskir hins bandaríska peningavalds og vilja einstakra manna í Sjálfstfl. Þessi visvitandi vanræksla, þetta vitaverða ábyrgðarleysi hæstv. ríkisstj. á sennilega eftir að koma henni í koll. Þar bítur þá sök sekan. Hitt er sorglegra, að þessi kórvilla getur leitt til alvarlegra áfalla, sem þá hitta sárast allan almenning í landinu, þjóðina alla og geta enda orðið henni örlagarík.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um efnahagsmálafrv., sem fyrir liggur. Því hafa þegar verið gerð allrækileg skil hér á hinu háa Alþingi og þó tæpast næg. Margt er óljóst í þessu frv. og þeirri grg., sem fylgir því, og því erfitt að átta sig til fulls á afleiðingum þess, sem koma skal. Gengi íslenzku krónunnar skal lækka meira en dæmi eru til áður. Á einn bandarískur dollar að jafngilda 38 kr. Þessi gengislækkun leiðir til stórhækkaðs vöruverðs og þar með til aukinnar dýrtíðar, og er sá glaðningur sérstaklega ætlaður neytendum í landinu. Þá færir gengislækkunin Bandaríkjaher á Íslandi álitlegan gróða, og mun hann nema ekki svo fáum milljónum dollara á ári. Þetta er kannske hrein tilviljun. En vart mun það hryggja Samúel frænda að fá þannig lækkuð sín útgjöld til vinnulauna á Íslandi. Hagfræðiprófessorinn Ólafur Björnsson kennir nemendum sínum, að gengislækkun sé að ýmsu leyti varhugaverð og að hún m.a. auki verðbólguhættu. Ætti það að vera íslenzkum verðbólgubröskurum nokkur huggun, að þeirra tími sé væntanlega enn ekki hjá liðinn, og virðist þannig sæmilega séð fyrir Bandaríkjaher og verðbólgubröskurum.

Bótakerfinu hefur verið fundið ýmislegt til foráttu, enda lofuðu stjórnarflokkarnir að afnema það. Ekki er það þó gert með tillögum hæstv. ríkisstj., heldur er því breytt. Er ætlunin sú að hætta greiðslum útflutningsbóta, hvernig sem efndirnar verða, en niðurgreiðslum vöruverðs á að halda áfram, og verður sá þáttur bótakerfisins meira að segja aukinn með því að greiða einnig erlendar vörur niður, og hafa kaffi, sykur og kornvörur verið nefndar í því sambandi.

Hæstv. ríkisstjórn er hugulsöm og á sitt af hverju í pokahorninu handa almenningi. Gömlu álögunum er haldið flestum hverjum, og ekki nóg með það, heldur eru þær þyngdar stórlega og nokkrum nýjum bætt við. Með þessu móti stórhækka óbeinu skattarnir, sem alþýða manna ber uppi. Verðtollur hækkar um 60 millj. kr., gjald af innlendum tollvörum um 24 millj., innflutningsgjald af benzíni um 40 millj., og þannig mætti áfram telja. Söluskatturinn, sem allir hafa fordæmt, verður aldeilis ekki afnuminn. Hann verður þvert á móti aukinn og margfaldaður, og er áætlað, að hann færi ríkissjóði á þessu ári 434 millj. kr., sem er nærri þreföld upphæðin frá í fyrra. Þótt útflutningssjóð eigi að leggja niður, verða tekjur hans frá almenningi ekki felldar burt, heldur skulu þær framvegis renna í hít ríkissjóðsins. Alls munu tolla- og gjaldaálögur hækka um meira en 400 millj. kr., og er það drjúg dýrtíðaraukning til viðbótar þeirri, sem gengislækkunin veldur.

Vísitölukerfið ætlar hæstv. ríkisstj. að gera óvirkt og þó ekki alveg. Það verður afnumið að því leyti, sem það snertir kaupgjald, en heldur gildi sínu óbreyttu gagnvart verðbréfum og peningalánum. Má því segja, að fjármagninu sé gert hærra undir höfði en mannfólkinu. Vísitölukerfið var annars á sínum tíma sett launþegum til verndar, þannig að þegar verðlag hækkaði, þá skyldi kaupgjald hækka einnig eftir vissum reglum.

Launahækkun hefur ævinlega komið á eftir verðlagshækkun og því verið afleiðing, en ekki orsök dýrtíðar. Það er ein af mörgum reginblekkingum Sjálfstfl.-manna, að launahækkun hafi valdið verðbólgu og dýrtíð, og er sú blekking einn þátturinn í viðureign þeirra við launastéttirnar. Nú er lokatakmarkinu náð, kerfi kaupgjaldsvísitölu numið úr gildi, og er tilgangurinn auðvitað sá, að kaup hækki ekki þrátt fyrir vaxandi dýrtíð.

Margar aðrar eftirtektarverðar ráðstafanir eru boðaðar í till. hæstv. ríkisstj., og flestar ber þær að sama brunni. Gildandi lagaákvæði um bann við okri verða afnumin og vextir peningastofnana síðan stórhækkaðir, einkum útlánsvextir. Þetta er gert í þeim tvöfalda tilgangi að minnka lántökur og auka dýrtíð. Einnig heimtar hæstv. ríkisstj. alræðisvald til að breyta vaxtakjörum og lánstíma á lánum hjá öllum helztu fjárfestingarlánastofnunum landsins, svo sem fiskveiðasjóði, ræktunarsjóði og byggingarsjóði húsnæðismálastofnunar, og mun það gert í sama skyni. Það á að draga úr eftirspurn lána og torvelda þannig framkvæmdir almennt.

Hæstv. ríkisstjórn ber tvær skrautfjaðrir í hatti sínum, og eiga þær sýnilega að afla henni vinsælda. Aðra kallar hún niðurfellingu tekjuskatts, en hina eflingu almannatrygginga, og báðum veifar hún í gríð og erg framan í tortrygginn og kvíðinn almúgann.

Niðurfelling tekjuskatts er með þeim hætti, að hjá barnlausum hjónum verða 70 þús. kr. tekjur undanþegnar tekjuskatti til ríkissjóðs og siðan heimilaður 10 þús. kr. frádráttur fyrir hvert barn. Þannig kemur þessi beini skattur til með að falla niður hjá nokkrum hluta láglaunamanna, það er rétt. En peningarnir eru samt ekki gefnir, heldur verða þeir líka teknir af þessu fólki og vel það í formi annarra skatta, óbeinu skattanna. Neyzluskattar á allar vörur hækka miklu meira en sem svarar eftirgjöfinni, og kemur það alþyngst niður á barnmörgu fjölskyldunum. Hjón, sem eiga börn 16 ára og eldri í skólum, fá engan frádrátt þeirra vegna, og framvegís sem hingað til mun ríkja það misrétti, sem í því felst, að sumir hafa aðstöðu til þess að falsa skattframtöl sín og gera það, en aðrir ekki. Auk þess er það mikið álitamál, hvort afnám beinna skatta er hagkvæmt fólki með lágar tekjur og miðlungstekjur. Það ber minna á óbeinu sköttunum, sem lagðir eru á vöruverðið, en þeir síga í. Þessi skrautfjöður reynist því ekki sérlega álitleg, þegar að er gætt.

Efling almannatrygginga yfirleitt er sannarlega góðra gjalda verð. Ellilífeyrir, örorkulífeyrir, barnalífeyrir og aðrar bætur hafa til þessa verið allt of lágar, svo að þjóðfélaginu hefur verið vansæmd að. Nú hyggst hæstv. ríkisstj. gera hér bragarbót og hækka tryggingabæturnar verulega. En hækkunin á að vera misjafnlega mikil eftir tegund bóta, frá 25% til liðlega 60%. Eftir er svo að vita, hver hin raunverulega kjarabót verður, þegar dýrtíðarflóð þessarar hæstv. ríkisstjórnar er að fullu skollið á. Sjálf telur hæstv. ríkisstj. líklegt, að hækkun vísitölu framfærslukostnaðar muni nema um 13% vegna efnahagsaðgerða hennar, og þá tölu leitast hún við að lækka með niðurgreiðslu á nokkrum erlendum vörutegundum. Áreiðanlega verður dýrtíðaraukningin í reynd eitthvað meiri og sennilega miklu meiri. Telja fróðir menn og raunsæir, að 30% hækkun sé nær sanni, og hafa þá m.a. fyrir sér reynsluna frá gengislækkuninni 1950.

Hæstv. ríkisstjórn þykist reikna það út, að vegna ráðstafana hennar eigi kjör ellilífeyrisþega og öryrkja ekki að skerðast. En tíminn einn mun leiða í ljós, hvort sá spádómur reynist réttur. Hitt er víst, að kjör þessa fólks koma ekki til með að batna.

Hæstv. ríkisstj. heitir því, að fjölskyldubætur skulu auknar frá því, sem nú er. Boðar hún, að 2600 kr. verði greiddar á ári með hverju barni, og er það, eins og fram var tekið í ræðu áðan, 269 kr. meira en nú er greitt með hverju barni umfram 3 í fjölskyldu. Aðalbreytingin er fólgin í því, að framvegis eiga einnig hjón með eitt barn og hjón. með tvö börn að fá fjölskyldubætur, og gefur það nokkra vísbendingu um, hve gífurleg dýrtíðin muni verða að álíti hæstv. ríkisstjórnar. Býst hún sýnilega við, að láglaunamaður í fullri atvinnu geti ekki séð fyrir sér, konu sinni og einu barni, svo mikil reynist skerðing lífskjaranna. Kaupmáttur allra launa minnkar svo mikið, að lægstu launin hætta að hrökkva til fyrir brýnustu nauðsynjum litillar fjölskyldu. Það má ekki miklu muna nú þegar, að lág laun hrökkvi til, hvað þá ef dýrtíð eykst og möguleikar til eftirvinnu hverfa.

Báðar skrautfjaðrir hæstv. ríkisstj. munu því miður reynast endingarlitlar og slitna fljótt í róti dýrtíðarinnar. Niðurfelling tekjuskatts og efling almannatrygginga er engin hagsbót, þegar allt er tekið aftur, sem veitt er, og meira til.

Hv. stjórnarflokkar höfðu boðað stefnubreytingu í efnahagsmálum, jafnvel efnahagslega byltingu. Að vísu var sá boðskapur óljós og loðinn fyrir kosningar. Öðrum þræði lofuðu þeir þá aukinni framleiðslu ag bættum lífskjörum almennings, sem sé því. sama og vinstri stjórnin stefndi að. En eftir kosningar varð boðskapur þessara flokka lýðum ljós. Stefnubreytingin var gagnger, um það var ekki að villast. Og nú, þegar till. hæstv. ríkisstj. liggja fyrir, er séð, hvert halda skal. Þungamiðja þessara till. er efnahagslegur samdráttur, og það er alger andstæða framleiðslustefnunnar. Vísvitandi og af ráðnum hug ætla hv. stjórnarflokkar að koma af stað samdrætti í viðskiptum og í atvinnu. Almenn lífskjaraskerðing er óumflýjanleg til þess að ná þessu marki. Þeirri skerðingu á að ná með stórfelldri gengislækkun krónunnar, hækkuðum álögum í formi tolla og skatta, afnámi vísitölukerfisins og minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli. Kaupgeta almennings þarf að minnka, til þess að úr dragi eftirspurninni eftir erlendri vöru. Einnig verður að minnka fjárfestingu í landinu. Með því sparast innkaup erlendis frá, auk þess sem minnkuð fjárfesting dregur úr eftirspurn eftir vinnuafli. Yfir allt og um allt breiðist síðan vaxandi dýrtíð með öllum sinum þunga og lamandi krafti. Þá er þeim kyrkingi efnahagslífsins náð, sem stjórnarflokkarnir stefna að, en kreppan blasir við skammt undan niðri í öldudalnum.

Sá grátsöngur og sultarsöngur, sem stjórnarsinnar hafa uppi frammi fyrir þjóðinni, er öllum kunnur. Þjóðin lifir um efni fram, segja þeir, þjóðarbúskapurinn er rekinn með halla, erlendar skuldir eru að keyra allt í kaf, þjóðin stendur efnahagslega á hyldýpisbarmi, og nú verður hún að taka á sig nýjar byrðar, færa nýjar fórnir. Þennan söng kannast menn við. Með honum á að sætta þjóðina við örlög sín, sætta hana við þær drápsklyfjar, sem hinir vísu feður ætla að leggja á hana. Og margir trúa á það, sem í söngnum segir. Samt er hann ósannur, falskur og fjarri veruleikanum. Þjóðin er ekki illa á vegi stödd efnalega. Þjóðin er framtakssöm og ötul, og með vinnu sinni skapar hún mikil verðmæti. Hún leggur hart að sér við að koma upp góðum og heilsusamlegum húsakynnum, hún reisir orkuver og verksmiðjur af miklum stórhug og hún framleiðir í vaxandi mæli verðmæta útflutningsvöru. Hún hagnýtir sér þekkingu og tækni og verður smám saman minna og minna háð duttlungum náttúrunnar við framleiðslustörf sín. Þjóðartekjurnar vaxa nú ár frá árí, en góður tekjur eru undirstaða góðra lífskjara. Eina skynsamlega leiðin til bættra lífskjara er sú að framleiða meira og selja meira úr landi, m.ö.o. afla meiri gjaldeyris, og á þeirri leið hefur þjóðin verið síðustu árin.

Stefnubreyting sú, sem hæstv. ríkisstjórn nú beitir sér fyrir, er þjóðarheildinni engin nauðsyn, síður en svo, því að hún er henni hættuleg. Fjasið um yfirvofandi efnahagslegt hrun er óþarfa barlómur, og þetta vita þeir bezt, sem mest fjasa. Stefnubreyting stjórnarflokkanna afsakast ekki af neinni knýjandi nauðsyn. Váboðann þykjast stjórnarliðar sjá í vaxandi erlendri skuldasöfnun. Á hana benda þeir sem eitthvert órækt vitni þess, að þjóðin lifi um efni fram. Þeir benda á ógreiddu lánin, sem fóru til virkjunar fallvatna, byggingar sementsverksmiðju og allra skipakaupanna, og segja: Þarna sjáíð þið, hvort þjóðin hefur ekki lifað um efni fram. — Eyðslueyri nefna þeir það lánsfé, sem lagt er í gjaldeyrismyndandi framleiðslutæki, og getur vart nokkuð verið meira öfugmæli.

Till. hæstv. ríkisstj. grundvallast á þjóðsögunni um hættulega erlenda skuldasöfnun. Á skuldasúpan samkv. kenningu stjórnarsinna að hafa orðið ægilegust á tímabilinu 1955–58, eftir verkfallið mikla, og í tíð vinstri stjórnarinnar. Það lá að, að þá keyrði um þverbak, þegar íhaldið stóð utan stjórnar. Þetta er kenningin, og sjálfsagt ber verkfallið og vinstri stjórnin alla sökina. Sérfræðingarnir studdu þessa kenningu og leituðust við að sanna hana með tölum. En svo kom babb í bátinn. Einn sérfræðinganna, Benjamín Eiríksson, hljóp út undan sér, hefur sennilega ofboðið vitleysan og rangfærslurnar. Ritaði hann grein í Tímann og Morgunbl. nýlega, þar sem hann hrakti lið fyrir lið niðurstöðu hæstv. ríkisstj. varðandi skuldahættuna. Um greiðslugetu þjóðarinnar segir hann m. a. orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Menn gera sér miklar áhyggjur út af því, hvort þjóðin muni geta staðið í skilum með þessar miklu greiðslur. Ég lít svo á, að hún sé betur undir það búin nú að standa undir byrði þeirri, sem greiðslur af erlendum skuldum eru, heldur en hún var, áður en þetta tímabil hófst.“

Og bankastjórinn undirstrikar þessa bjartsýni sína með þessum orðum síðar í greininni: „Ég held, að það geti ekki verið vafamál, að þjóðin er í alla staði miklu betur fær um að standa undir greiðslu 51/2 millj. dollara árið 1958 en 2 millj. dollara árið 1951, einmitt vegna þess, hve miklar framkvæmdir hafa verið unnar fyrir hið erlenda fé.“

Með þessum ummælum gerir dr. Benjamín hvorki meira né minna en að kippa meginstoðunum undan efnahagsmálatillögum hæstv. ríkisstj. Og hann gerir meira. Hann efast um einlægni sjálfs stjórnarliðsins í þessu málí, er það útmálar skuldahættuna. „Margir hljóta að spyrja,“ segir bankastjórinn, „hvort talið um skuldabyrðina sé alvarlega meint.“ Og í greininni leiðir hann rök að þeirri efasemd.

Nei, það er óhætt um það, að allt skrafið um yfirvofandi hrun á Íslandi er fyrirsláttur einn. Með því er verið að slá ryki í augu þjóðarinnar, villa henni sýn, dylja hinn sanna tilgang efnahagsbyltingarinnar.

Það er raunar fleira, sem styður það, að hæstv. ríkisstj. óttast ekki í raun og sannleika skuldabyrðina, m.a. það, að nú áformar hún að taka nýtt 700–800 millj. kr. erlent lán. Það lán skal ekki fara til gjaldeyrismyndandi eða gjaldeyrissparandi fyrirtækja, heldur vera vasapeningur og hreinn eyðslueyrir. Eins og sagt er um prestana, eins má segja um hæstv. ríkisstj., hún bendir á leiðina, en fer hana ekki sjálf.

En hver er þá hinn sanni tilgangur þessarar efnahagsbyltingar? Ég vil strax taka fram, að hér er að vísu ekki um byltingu að ræða, heldur gagnbyltingu. Hæstv. ríkisstj. er að innleiða afturhvarf, stökkva með þjóðina 30–40 ár aftur í tímann og skapa það ástand á ný, sem þá ríkti. Þetta er hennar mikla og veglega köllun, þessarar hæstv. ríkisstj. Hún er undir áhrifum afturhaldssamra öfgamanna í Sjálfstfl. og rammáttavilltra leiðtoga Alþfl., og hún nýtur kitlandi uppörvunar og stuðnings frá peningavaldi og hervaldi Bandaríkjanna og Bretlands. Hún veit, hvert hún er að fara, en hún stenzt ekki mátíð. Nú á að stokka upp spilin í þjóðarbúinu, flytja munina til og raða þeim upp eins og bezt þótti fara á hinum góðu og gömlu dögum. Það á að fara fram endurskipting þjóðarteknanna, gagnger endurskipting þeirra í anda þeirra, sem nú ráða ríkjum. Að þessu áformi vék hæstv. viðskmrh. nokkrum orðum í þingræðu nýlega. Hann sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í eðli sínu er gengisbreyting alls engin byrði fyrir þjóðina í heild, ekki frekar en innheimta yfirfærslu- og innflutningsgjalda til greiðslu útflutningsbóta er nokkur byrði fyrir þjóðina í heild. Í báðum tilfellum er um að ræða endurskiptingu á þjóðartekjunum, flutning á tekjum frá einni atvinnugrein til annarrar eða einni þjóðfélagsstétt til annarrar.“

Flutningur á tekjum frá einum til annars, segir hæstv. ráðh., þetta er mikið rétt. Og nú skal stokkað upp. Tekjur verða fluttar frá launastéttum, bændum, smærri kaupmönnum og smærri atvinnurekendum til hinna stóru og sterku í gróðastéttunum. Þá myndast ný stétt, þeirri lík, sem hér ríkti og drottnaði á fyrstu áratugum aldarinnar.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, og öðrum till. hæstv. ríkisstj. er í annað sinn af sömu aðilum lagt til atlögu við alþýðustéttirnar í landinu. Fyrrverandi ríkisstjórn, undir forsæti hæstv. sjútvmrh., greiddi fyrsta höggið í ársbyrjun 1959. Sú árás var einnig gerð undir fölskum fána. Loforðið var stöðvun dýrtíðar og verðbólgu. Það var haft að yfirvarpi, enda vanefnt, en það framkvæmt svikalaust, sem var aðalatriðið, að skerða kjör launþega um minnst 10% og traðka frjálsan samningsrétt þeirra.

Allt er þá þrennt er, og hvernig verður þriðja atlaga þessarar kyndugu sambræðslu Sjálfstfl. og Alþfl.? Þótt þessi árás heppnist, sem nú er hafin á lífskjör almennings, verður sitthvað eftir, er gerir þriðju atlöguna nauðsynlega.

Eitt er það að gefa verðlagið að fullu frjálst og afnema verðlagseftirlit. Þá ráðstöfun hefur hið ameríska hagkerfi þegar heimtað, og verður sú krafa varla sniðgengin til lengdar.

Þá er það að afnema leifarnar af bótakerfinu, hætta niðurgreiðslu á matvöru og láta siðan framleiðendur og neytendur um að jafna reikningana sin á milli. Það geta þeir gert án ríkisafskipta, bara að laun hækki ekki í landinu.

Loks er eitt nauðsynlegt, og það er að þrengja ofur litíð erlenda markaði, hætta viðskiptunum við Austur-Evrópu, enda hafa vestrænir vinir okkar lengi haft af þeim þungar áhyggjur.

Slíkar lagfæringar ættu ekki að kosta stjórnarflokkana mikla baráttu, eftir að allt hitt væri fengið.

Þriðju atlöguna á hendur alþýðu Íslands ætti þannig að mega gera eftir 1–2 ár.

Það hæfir ekki mér, aumum manni, að gefa hæstv. ríkisstj. ráð, en í hennar sporum mundi ég sópa efnahagsmálatill. saman og labba með þær beint inn í sorpeyðingarstöð. Þau áform, sem í till. birtast, eru hættuleg, hvernig sem á er litið. Beri hæstv. ríkisstj, hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þá skjátlast henni, ef hún heldur, að fyrirhugaðar ráðstafanir geti haft annað en illar afleiðingar. Þær geta aldrei orðið meinlausar. Ef vinnustéttirnar rísa upp gegn framkvæmd þeirra, er verr farið en heima setið. Þá skapast glundroði og nýir efnahagslegir hnútar. Vinni hæstv. ríkisstj. hins vegar fullan sigur og komi áformum sínum fram, þá verður afleiðingin augljóslega kreppa og efnahagslegt ósjálfstæði, sem vara mun langan aldur.

Ef svo skyldi vera, sem ég enn vona að ekki sé, að eitthvað annað stýri aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar en umhyggja fyrir velferð alls almennings í landinu, þá vandast málið. Þá gæti sigur hennar komið að stundargagni þeim, sem aðgerðirnar heimtuðu, en íslenzku þjóðinni aldrei. Þá verður að treysta á giftu þjóðarinnar og vona, að kjarni hennar, alþýðustéttirnar til sjávar og sveita, fái í tæka tíð afstýrt voðanum, brotið samdráttar- og kreppustefnuna á bak aftur og innleitt á ný framleiðslu- og uppbyggingaröld hér á landi.