16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

48. mál, efnahagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm.. Reykv. hefur vikið hér að einu eða tveimur atriðum úr ræðu minni og hefur lagt mikla áherzlu á það, að ég og reyndar fleiri segðu ekki nema hálfan sannleikann. En hann byrjaði ræðuna á því að segja einhverja sögu, mér skilst bara venjulega slúðursögu, af stjórnmálanámskeiði hjá framsóknarmönnum. Mig grunar, að hún sé ekki einu sinni hálfur sannleikur, því að ég held, að þessi hv. þm.. þekki eitthvað meira til námskeiða hjá Sjálfstfl. en framsóknarmönnum og hann kunni að ruglast hér á flokkum.

Það, sem hann taldi ámælisvert hjá mér, er það, að ég hafi ekki sagt nema hálfan sannleika um væntanlegar verðhækkanir, þ.e.a.s. 25% verðhækkun á innfluttri vöru, þar sem verðið mundi hækka í innflutningi um 45–50%, og fór hann að kenna mér sem góður hagfræðingur, að það komi ýmislegt fleira til um verð á vöru heldur en innkaupsverðið. Það var ósköp vel hugsað af honum að kenna mér þetta, því að ég er ekki búinn að starfa nema í 23 ár við að reikna út innfluttar vörur, og var þetta því fallega hugsað. Það er því ólíklegt, að ég hafi ekki hugmynd um tolla, innflutningsgjöld, flutningsgjöld, vátryggingu og þessa hluti. En ég sagði aldrei annað en þetta, orðrétt úr ræðu minni: Ég á einna lakast með að skilja, að innfluttar vörur hækki ekki nema sennilega um 25%, þar sem flestar nauðsynjavörur hækka um 45–50%. — Ég á lakast með að skilja, og þetta segir hv. þm.., að sé hálfur sannleikur. Getur það ekki verið alveg fullur sannleikur, að ég eigi lakast með að skilja þetta?

Nú er hv. 11. þm.. Reykv. kunnur að því að tala málefnalega, og ég vil síður þurfa að vera að ámæla honum fyrir málflutninginn, því að hann tekur mörgum fram í góðum málflutningi. En ég endurtek þetta, að ég á erfitt með að skilja þetta um verðhækkanirnar, af því að þetta eru nauðsynjavörurnar, sem bera minnstu innflutningsgjöldin og lægstu tollana. Það er af því, sem ég á erfitt með að skilja, að hækkunin verði ekki meiri.

Þá fann hann að því, að ég hefði gert gys að orðalagi í grg. þessa frv. Ég hélt, að það væri ekki eftir hann, orðalagið, þar sem er síendurtekið — ( ÓB: Það er ekki eftir mig.) Nei, ég er ekki heldur að segja það; áætlað er og sennilega verður þetta og líklega verði þetta o.s.frv. Það er kannske ekki rétt að segja, að ég geri gys að því, heldur bendi ég á, að það er ekkert fullyrt um þetta í grg. frv. En það var fullyrt um einn hlut og hv. þm.. sleppti því, það er fullyrt, að það skuli vera tryggt, að kjaraskerðing verði ekki hjá fjölskyldumönnum með þrjú börn eða fleiri. Þetta er fullyrt. Má ég spyrja hv. þm..: Er þetta nema hálfur sannleikur í grg.?

Loks drap hv. þm.. á það, að ég hefði ekki heldur farið með nema hálfan sannleika um fjölskyldubæturnar, og villan hjá mér var sú, eftir því sem hann segir, að þeir, sem eiga mörg börn, fái líka bæturnar á fyrstu börnin, sem eru hækkaðar. Ég veit ekki til, að ég hafi dregið þetta neitt undan. Ég nefndi tölurnar, sem á að greiða á 3 fyrstu börnin, að hækkunin á fjölskyldubótunum á 3 fyrstu börnin á að verða 6634 kr., en á hvert barn, sem er umfram 3, á hækkunin að vera 269 kr., og hv. þm.. staðfestir, að þetta sé rétt, enda veit ég, að það er rétt. Það er þetta, sem ég var að vita, að það er í blekkingaskyni verið að hækka fjölskyldubæturnar á fyrstu þremur börnunum, en því nær ekkert á öllum börnunum, sem þar á eftir koma. Sem dæmi um þetta skal ég nefna, eins og ég sagði áður, að hækkunin á þremur börnunum fyrstu á að vera 6634 kr., en á næstu 24 börnunum á hún að vera 6456, eða lægri upphæð. Þykir nú hv. 11. þm.. Reykv. ekki blekking í þessu eftir allt skrumið og auglýsingarnar í flokksblöðum hans og Alþfl. út af þessu máli, þegar þriggja barna hækkun á að vera 6634 kr., en næstu 24 börnin eiga að fá 6456 kr.? Svona snilldarlega er þetta sett upp, svona prýðilega er auglýsingin útbúin. Og hvað mega verðhækkanirnar verða, hver má kjaraskerðingin verða fyrir fjölskyldumann með átta börn, svo að hann verði ekki fyrir halla á börnunum fimm, sem eru umfram þrjú? Vill nú ekki hagfræðingurinn fara að reikna?