18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. það, er hér liggur fyrir, og urðu úrslit málsins í n. þau, að við 3 nm., er stöndum að áliti meiri hl., mælum með samþykkt þess, en 2 nm., þeir hv. 1. og 5. þm.. Norðurl. e. (KK, BjörnJ) tjá sig frv. andvíga og munu skila séráliti.

Þær hugleiðingar, sem ég sé ástæðu til að fylgja nál. úr hlaði með, munu öðru fremur snúast um það að svara tveimur spurningum, er mjög oft hefur verið varpað fram af hv. stjórnarandstæðingum í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi þeirri, er þeir spyrja, hvernig það samrýmist gefnu loforði stjórnarflokkanna og raunar allra flokka um stöðvun verðbólgunnar að leggja til gengislækkun, sem óhjákvæmilega hafi í för með sér talsverðar verðhækkanir. Hin spurningin er sú, hvernig það samrýmist loforðinu um að vísa. veginn til bættra lífskjara að gera ráðstafanir., sem óhjákvæmilega hafa í för með sér kjaraskerðingu fyrir meiri hl. þjóðarinnar, a.m.k. í bili.

Um þetta mál hafa nú í hálfan mánuð staðið harðar deilur hér á hv. Alþingi og raunar utan þess einnig. En þrátt fyrir það, sem greinir á um, má ekki missa sjónar á því, að sumt er það þó í sambandi við þessi mál, sem er ekki ágreiningur um, hvar í flokki sem menn eru. Við erum t.d. allir sammála um það, að Íslendingum beri að skipa efnahagsmálum sínum þannig, að þeir beri. sem mest úr býtum fyrir vinnu sína og framleiðslustörf, þótt ágreiningur kunni að vera um skiptingu arðsins milli stétta og einstaklinga. Það er tæpast heldur ágreiningur um það, að árangurinn af efnahagsstarfsemi okkar hefur undanfarin ár ekki verið svo mikil sem vera ætti, ef allt væri með felldu. Jónas Haralz ráðuneytisstjóri upplýsti t.d. á sameiginlegum fundum fjhn., að hlutfallið milli fjárfestingar og aukningar þjóðartekna hefði undanfarið veríð óhagstæðara hjá okkur en nokkurri Vestur-Evrópuþjóð annarri. Það þýðir m.ö.o., að við fáum minni arð af því, sem við leggjum í fjárfestingu, heldur en þær. Þetta má telja mjög óeðlilegt með tilliti til þess, að þar er yfirleitt um fullbyggð lönd að ræða, þar sem okkar land er enn að verulegu leyti ónumið, þannig að hér ættu einmitt að vera meiri möguleikar á nýjum arðbærum framkvæmdum. Það ber ótvíræðan vott um sjúkt efnahagslíf okkar, að enda þótt við höfum s.l. 12 ár ráðstafað meira af þjóðartekjum okkar til fjárfestingar en nokkur Evrópuþjóð önnur að jafnaði, að því er ég bezt veit, þá hefur neyzlan aukizt sáralítið, sem aftur þýðir það, að lífskjörin eða kaupmáttur vinnulauna hefur nær því staðið í stað.

Hv. 4. þm. Austf. (LJós) gerði það að umtalsefni í ræðu, er ég hlustaði á hann flytja við 1. umr. málsins í Nd., að kaupmáttur tímakaups járnsmiða sé nú töluvert meiri í Danmörku en hér á landi. Að vísu ber mikillar varúðar að gæta við slíkan launasamanburð í mismunandi löndum, og þá staðhæfingu, sem raunar hefur komið fram í ríkari mælí hjá öðrum hv. Alþb.-mönnum en þeim hv. þm.., sem ég nú nefndi, sem yfirleitt var málefnalegri í sínum málflutningi en gerist þessa dagana á því heimili, — þá staðhæfingu, að þessi löggjöf raski hlutfallinu milli lífskjara íslenzkra og erlendra verkamanna íslenzkum verkamönnum í óhag, tel ég mig áður hafa hrakið við 1. umr. málsins hér í hv. d. og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En í tilefni af þessu er að mínu áliti athyglisvert að gera samanburð á þróun kaupmáttar launa á Íslandi og í Danmörku frá því í stríðslok og þar til nú.

Eftir dvöl herskara Hitlers í Danmörku var efnahagslíf landsins í rústum. Bústofn landsmanna hafði minnkað um helming, skortur var á mörgum brýnum nauðsynjum og þær stranglega skammtaðar. Ef þá hefði verið gerður samanburður á kaupmætti vinnulauna þar og hér, er víst, að hann hefði leitt í ljós til muna betri lífskjör hér á landi. Árið 1954, eða fyrir 6 árum, gerðu hagstofur Norðurlandanna 5 samanburð á kaupmætti verkamannslauna í öllum höfuðborgum landanna. Niðurstaðan varð sú, að kaupmáttur launa var í Reykjavík svipaður og í Kaupmannahöfn, en nokkru minni en í Stokkhólmi og nokkru meiri en í Osló og Helsingfors. Það er enginn vafi á því, að á þeim 6 árum, sem síðan eru liðin, hafa bæði þjóðartekjur og; neyzla vaxið meira á hinum Norðurlöndunum en hér. Þess var t.d. getið í útvarpsfrétt nýlega, að þjóðartekjur og neyzla í Danmörku hefði hvort tveggja aukizt um 10% á síðastliðnu ári.

En hvernig stendur þá á því, að við höfum þannig í efnahagslegu tilliti dregizt svo mjög aftur úr Dönum og öðrum Vestur-Evrópuþjóðum? Ekki verður því um kennt, að kaupgjald hafi hækkað hér minna en þar. Það hefur þvert á móti hækkað langtum meira hér en í nokkru öðru Vestur-Evrópulanda. Ekki er heldur ástæða til að ætla, að Íslendingar standi þessum þjóðum að baki um menntun, dugnað eða hæfileika. Nei, er ekki nærtækasta skýringin sú, að við höfum búið við sjúkt efnahagskerfi, sem reynzt hefur slíkur þrándur í götu efnahagslegra framfara, að enda þótt við höfum lagt í meiri fjárfestingu en aðrar Evrópuþjóðir, þá hafa lífskjörin batnað langtum minna hér en þar?

Andstæðingar þessa frv., sérstaklega hv. Alþb.-menn, hafa fullyrt, að hér væri verið að innleiða úrelt efnahagskerfi, eins og þeir orða það. En hvernig má það nú vera, að þær þjóðir, sem einmitt hafa á undanförnum árum búið við þetta úrelta efnahagskerfi, sem þeir kalla, hafa notið miklu meiri framfara en við höfum gert, sem búum við efnahagskerfi, nefnilega haftakerfið, sem þeir mundu þá víst kalla nýtízku hagkerfi?

Þá vaknar sú spurning, einmitt á grundveili þessarar staðreyndar, hvort það mundi þá ekki vera þannig, þegar öllu er á botninn hvolft, að það væri betra að búa við þetta úrelta kerfi heldur en nýtízku kerfið.

En hverjar eru sjúkdómsorsakir hins íslenzka efnahagskerfis, og hvað er hægt að gera til úrbóta í því efni? Það er einmitt þetta, sem er kjarni þess vandamáls, sem hér liggur fyrir. Þau vandamál á sviði efnahagslífsins, sem allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa átt við að etja s.l. 30 ár, eru verðbólgan og gjaldeyrisskortur, sem í rauninni á rætur sínar að rekja til verðbólgunnar. En hverjar eru orsakir verðbólgunnar? Sumir nefna í því sambandi of mikla fjárfestingu og bankalán, aðrir vísitölufyrirkomulagið og enn aðrir óbilgjarnar kröfur hagsmunasamtaka og fyrst og fremst annarra hagsmunasamtaka en þeirra, sem þeir eru sjálfir meðlimir í. Allar þær orsakir, sem nú hafa verið nefndar, hafa óefað verið hér að verki og raunar magnað hver aðra.

Ef ég ætti að gera grein fyrir persónulegri skoðun minni á því, sem ég teldi öðru fremur grundvallarorsök verðbólgunnar, þá mundi ég nefna óheilbrigða fjáröflun til fjárfestingar. Auðvitað er það síður en svo að lasta, þó að mikil fjárfesting hafi átt sér stað hér á landi. Það dettur engum í hug að halda því fram, að það sé óskynsamlegt af þjóðinni að byggja vegi, verksmiðjur, smiða skip o.s.frv. En þjóðin verður að gæta þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl í því efni, þannig að fjárfestingin verði svo mikil, að ekki verði öðruvísi aflað fjár til hennar en þannig, að leiða hljóti til verðbólgu.

Það er með fernu móti, sem hægt er að afla fjár til fjárfestingar: Í fyrsta lagi með því að nota innlent sparifé í þágu hennar. Í öðru lagi með erlendum lántökum. Í þriðja lagi með sköttum. Og í fjórða lagi með bankaútlánum, sem eru umfram sparifjármyndun.

Ef fjárfesting er ekki meiri en svo, að afla megi fjár til hennar með innlendri sparifjármyndun, erlendum lánum og skattaálögum, leiðir hún ekki til verðbólgu. En kröfurnar um fjárfestingu hafa um langt skeið verið meiri en svo hér á landi, að fjáröflun eftir þessum leiðum hafi nægt til þess að mæta þeim. Þá hefur verið gripið til þess ráðs að sækja í Seðlabankann þá peninga, sem vantar í fjárfestinguna. Í fljótu bragði kann þetta að virðast meinlaus ráðstöfun og jafnvel gagnleg, því að hún leysir í bili a.m.k. fjáröflunarvandamál ýmissa framkvæmda, sem út af fyrir sig geta verið mjög gagnlegar. En í rauninni er hér um ráðstöfun að ræða, sem hefur eiturverkanir í hagkerfinu. Hinn merki stjórnmálaleiðtogi, Jón Þorláksson, kallaði þetta, að „fölsk kaupgeta væri sett í umferð“, eins og hann orðaði það. Og í rauninni eru áhrifin á hagkerfið nákvæmlega þau sömu og verða mundu, ef peningafalsarar settu þannig í umferð stórkostlegar fjárhæðir. Afleiðingin verður aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu, án þess að aukið framboð komi á móti, og þannig verðþensla. Þetta kemur svo af stað víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, sem verða sjálfvirkar og óstöðvandi, eftir að tekið hefur verið upp vísitölufyrirkomulagið í launagreiðslum. Af verðþenslunni leiðir svo aukinn innflutning, hallarekstur í útflutningsatvinnuvegunum, og slíkt leiðir auðvitað til greiðsluhalla gagnvart útlöndum og gjaldeyrisskorts.

Viðbrögð stjórnarvalda við þeim vanda, sem með þessu skapast, eru venjulega fyrst í stað þau að ráða bót á gjaldeyrisskortinum með innflutningshöftum, en reyna að hemja verðþensluna með niðurgreiðslum og verðlagseftirliti. Úr hinni erfiðu aðstöðu útflutningsatvinnuveganna er reynt að bæta með uppbótum á útfluttar afurðir, mismunandi miklum eftir þörfum hinna einstöku greina útflutningsins, en fjár til uppbótanna er aflað með sköttum og tollum, einkum álögum á innfluttar vörur, sem eru ekki taldar til brýnna nauðsynja. Gengi erlends gjaldeyris er hins vegar haldið óbreyttu, og er það liður í ráðstöfununum til þess að halda hækkun verðlags í skefjum.

Þessi stefna, að reyna að halda verðlaginu í skefjum með áðurgreindum ráðstöfunum án þess að leiðrétta þá skekkju í verðlaginu, sem leiða hlýtur af verðþenslu innanlands, þó að gengið sé óbreytt, hefur hlotið nafnið stöðvunarstefna. Reynsla okkar Íslendinga í þessum efnum styður fullkomlega þá skoðun hagfræðinga, að stöðvunarstefnan er óframkvæmanleg til lengdar. Áður en langt um líður, verður slíkt öngþveiti í gjaldeyrisviðskiptum, að gengislækkun eða hliðstæðar ráðstafanir til leiðréttingar verðlagsskekkjunni verða ekki umflúnar.

Saga efnahagsþróunar s.l. 30 ára hér á landi hefur verið sífelld endurtekning þeirrar hringrásar, er hér hefur verið lýst: lánsfjárþenslu bankanna, verðbólgu og gjaldeyrisskorts, er mætt hefur verið með höftum, niðurgreiðslum og uppbótum, unz gengislækkun eða jafngildar ráðstafanir hafa orðið óhjákvæmilegar, og þessi hringrás virðist hafa gengið fyrir sig nokkurn veginn óháð því, hvaða flokkar hafa setíð við stjórnvölinn hverju sinni.

Hér á landi hafa á umræddu tímabili verið framkvæmdar þrjár gengislækkanir, 1939, 1950 og 1958, þannig að allir stjórnmálaflokkar eru búnir að bera ábyrgð slíkrar ráðstöfunar. Ég álít, að það geti verið nytsamt, vilji maður gera sér grein fyrir þeim ráðstöfunum, er nú á að gera, að rifja upp aðdragandann að þessum fyrri gengislækkunum og áhrif þeirra á þjóðarhag.

Heimskreppan mikla olli tilfinnanlegu verðfalli á íslenzkum útflutningsafurðum og óhagstæðari verzlunarkjörum, þannig að verulegur greiðsluhalli varð gagnvart útlöndum. Þessu var reynt að mæta með ströngum innflutningshöftum. Jafnframt var reynt að koma í veg fyrir samdrátt og verðfall innanlands með því að halda lágum vöxtum og gera sérstakar ráðstafanir í afurðasölumálum. Kjörorð þessarar stefnu var innilokun kaupgetunnar, eins og það var orðað. Í heild var þessi stefna dauðadæmd, því að það var ekki hægt að loka kaupgetuna inni. Afleiðingin varð sívaxandi skuldasöfnun erlendis vegna halla á greiðsluvíðskiptum við útlönd. Í apríl 1939 gafst stjórn Framsfl., er þá fór með völd, upp við framkvæmd stefnunnar, enda var greiðslubyrðin gagnvart útlöndum þá jafnvel orðin þyngri en hún er nú og greiðsluþrot í gjaldeyrisviðskiptum yfirvofandi. Þá var mynduð þjóðstjórnin og gengi krónunnar lækkað, svo sem kunnugt er.

Ekki verður um það sagt, hvort sú ráðstöfun hefði nægt til efnahagslegrar viðreisnar að óbreyttum aðstæðum. Á það reyndi ekki, því að skömmu síðar hófst styrjöldin, er gerbreytti viðhorfum í þessum efnum. Gjaldeyrisvandræðin hurfu nú á skömmunn tíma sem mjöll fyrir sólu, og tóku í þess stað að safnast miklar gjaldeyrisinnistæður. Mikil verðbólga var öll styrjaldarárin, en fram til ársins 1942 voru verðhækkanir þó ekki öllu meiri en í nágrannalöndunum. Seinni part ársins 1942 hækkaði verðlagið á fáum mánuðum um 50% og komst þar með úr öllu samhengi við verðlag nágrannalandanna, og hefur í rauninni aldrei síðan tekizt að kippa að fullu í þann lið. Utanþingsstjórnin, er mynduð var í árslok 1942, og síðan nýsköpunarstjórnin reyndu með nokkrum árangri að halda verðlagshækkununum í skefjum með niðurgreiðslum og ströngu verðlagseftirliti. Mikið misræmi var þó milli innlends og erlends verðlags í stríðslok, þannig að krónan var verulega ofmetin, og olli það auðvitað því, að erlendu innistæðurnar gengu til þurrðar fyrr en ella. En verulegum óþægindum fór þetta þó ekki að valda fyrr en á árinu 1947, þegar gjaldeyrisinnistæðurnar þraut.

Efnahagsmálastefna ríkisstjórnar þeirrar, er mynduð var í ársbyrjun 1947 og Sjálfstfl.. Alþfl. og Framsfl. áttu aðild að, var í því fólgin eins og undanfarandi ríkisstjórna að reyna að stöðva verðbólguna án þess að leiðrétta þá skekkju í verðlaginu, sem stafaði af rangrí gengisskráningu. Ríkisstj. nefndi einmitt stefnu sina stöðvunarstefnuna, og kannast menn við það nafn frá fyrri hluta valdatímabils vinstri stjórnarinnar, og er það ekki að ófyrirsynju, því að hér var í rauninni um nákvæmlega sömu stefnu í efnahagsmálum að ræða. Útflutningnum var haldið uppi með uppbótum, er miðaðar voru við mismunandi þörf einstakra greina hans, sbr. gotugjaldeyrinn, vextir voru lágir og mikil fjárfesting þrátt fyrir starfsemi fjárhagsráðs, em gjaldeyrisskortinum var mætt með stöðugt strangari innflutningshöftum. Afleiðingin varð sú, að taka varð upp stranga skömmtum nauðsynja, á sama tíma og aðrar Evrópuþjóðir voru að afnema skömmtun hjá sér, og dugðu slíkar ráðstafanir þó ekki til að koma í veg fyrir tilfinnanlegan vöruskort með fylgifiskum hans, útbreiddum svörtum markaði, biðröðum og bakdyraverzlun.

Í árslok 1949 voru allir í rauninni orðnir sammála um gjaldþrot þessarar stefnu, enda var þá farið að gæta atvinnuleysis hér í Reykjavik vegna samdráttar hjá iðnfyrirtækjum af völdum hráefnaskorts og það enda þótt sá innflutningur væri látinn sitja fyrir öðru, þannig að látinn var heldur vera skortur á neyzluvörum, þótt til nauðsynja teldust. Þá var það, sem minnihlutastjórn Sjálfstfl. lét undirbúa gengislækkunartill., er framkvæmdar voru svo á næstu mánuðum í samstarfi við Framsfl. Var það stærsta átakið, sem til þessa hafði verið gert til þess að leiðrétta verðlagsskekkjuna og koma efnahagsmálunum í jafnvægi. Það hefur nú að vísu verið fullyrt af andstæðingum þeirrar löggjafar, að hún hafi ekki náð tilgangi sínum, og ef því hefði verið haldið fram af einhverjum, sem að þeirri löggjöf stóðu, að hún mundi leysa efnahagsvandamálin í eitt skipti fyrir öll, mætti það til sanns vegar færa. En hafi þeir verið til, þá vorum við dr. Benjamín Eiríksson„ sem undirbjuggum þessar till., ekki í þeirra hópi. Því til staðfestingar vil ég leyfa mér að lesa upp örfá orð úr álitsgerð okkar, með leyfi hæstv. forseta. Svo segir í álitsgerðinni, sem fylgdi sem grg. með frv.:

„Þar sem ekkert er til, sem kalla mætti endanlega lausn afkomumála þjóðarinnar, þá virðist, að skynsamlegt sé fyrir þá, sem með ríkisstj. fara á hverjum tíma, að taka þá stefnu að búa sem bezt í haginn fyrir sem jafnasta og heilbrigðasta þróun atvinnulífsins. Og jafnvægi í atvinnu- og fjármálalífinu er ekki eitthvað, sem fæst í eitt skipti fyrir öll, heldur þarf að viðhalda jafnvæginu með réttri stefnu og réttum starfsvenjum á hverjum tíma.“

Það er rétt, að þess var skemmra að bíða en við höfðum gert okkur vonir um, að gera þyrfti viðbótarráðstafanir útveginum til styrktar. Bátagjaldeyririnn var tekinn upp 1951. En orsakir þess voru ekki reikningsskekkjur okkar, eins og sumir hafa viljað láta í veðri vaka, heldur hitt, að þær efnahagslegu forsendur, sem lágu til grundvallar till., breyttust í óhag vegna atvika, er enginn gat séð fyrir þá. Kom þar einkum tvennt til. Meðalafli á bát lækkaði úr rúmum 7 tonnum í róðri, er hann nam árin 1948–49, niður í rúm 5 tonn árin 1950–52, eða um nær 30%. Hér við bættist svo óhagstæð verðlagsþróun af völdum Kóreustríðsins. Þannig hækkaði verðlag innflutnings um 115% árin 1949–51, eða um rúmlega 50% umfram það, er leiddi af gengislækkuninni, þar sem verðlag útfluttra afurða hækkaði aðeins um 82% á sama tíma eða litlu meira en leiddi af gengislækkuninni, en hún leiddi til 74% verðhækkunar á erlendum gjaldeyri. Af þessu er ljóst, hve mjög víðskiptakjörin gagnvart útlöndum breyttust okkur í óhag. 30% bátagjaldeyrisálagið var þannig í rauninni ekki annað en nauðsynlegt var til að bæta bátunum aflabrestinn. En þrátt fyrir þessi óhöpp tókst að stöðva verðhækkanirnar að mestu haustíð 1951, og hélzt verðlag nær óbreytt frá þeim tíma til vorsins 1955. Fóru þjóðartekjur og kaupmáttur launa vaxandi á því tímabili, og atvinna var stöðug og nóg.

En vorið 1955 hófst svo að nýju kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags eftir verkfallið mikla, svo sem kunnugt er. Pólitískar afleiðingar þessa urðu fall samstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. og valdataka vinstri stjórnar. Nú var verðlagsskekkjan aftur orðin meiri en svo, að efnahagskerfið fengi staðizt. Eftir því sem hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, var ráðh. Framsfl. og Alþfl. þetta ljóst þegar haustíð 1956. Ekki náðist þó samkomulag um raunhæfar ráðstafanir í vinstri stjórninni, heldur var nú stöðvunarstefnan svokallaða frá árunum 1947–49 leidd til hásætis með jólagjöfinni frægu í árslok 1956. Ég komst svo að orði um jólagjöfina í umræðum um bjargráðafrv. vorið 1958, að frá sjónarmiði hagfræðinga mætti líkja henni við fjósvegg, sem hlaðinn væri af mér eða einhverjum öðrum, sem þekkir ekki hin réttu lögmál um undirstöðu og burðarþol slíkra veggja. Ég viðurkenndi um leið, að þeim skilyrðum væri miklu betur fullnægt hvað bjargráðafrv. snerti.

Þess gat af áðurgreindum ástæðum ekki orðið langt að bíða, að fjósveggurinn hryndi, og vorið 1958 var svo komið, að óhjákvæmilegt var að gera efnahagsráðstafanir, er hefðu í för með sér leiðréttingu verðlagsskekkjunnar, ef ekki átti að skapast algert öngþveiti í gjaldeyrismálum. Þessu var glögglega lýst í málgögnum vinstri stjórnarinnar og ræðum stuðningsmanna hennar á Alþingi.

Það kann nú að vera, að einhver þeirra, sem hlusta á mig, segi sem svo: Ja, þessi verðlagsskekkja, það er ekki annað en grillur hagspekinga. — Þeim, sem þannig hugsa eða segja, vil ég benda á það að lesa ræður sumra hv. núv. stjórnarandstæðinga í sambandi við umræður um bjargráðafrv. og annað, sem stóð í málgögnum þeirra þá. Þar er það einmitt sérstaklega skýrt, hvað verðlagsskekkjan þýðir. Það var á það minnzt, að fóðurbætirinn útlendi væri orðinn svo ódýr, að í rauninni borgaði sig ekki lengur fyrir bændurna að halda áfram að heyja, þó að þeir að vísu gerðu það af gömlum vana, enn fremur að það væri hætt að borga sig fyrir útvegsmenn að láta gera við netin sín, af því að það væri ódýrara að kaupa ný net. Og Tíminn kvað upp þann dóm um stöðvunarstefnuna, að hún hlyti að stöðva framleiðsluna fyrst og fremst, en ekki verðlagið.

Bjargráðalögin, sem voru hrein gengislækkunarlög, þó að ekki þætti hlýða að kalla þau sínu rétta nafni, voru, svo langt sem þau náðu, veruleg leiðrétting verðlagsskekkjunnar, sem var undirrót þess vanda, sem þá var við að etja. Þetta er engin ný skoðun mín á þessu máll. Hún kom fram í öllu, er ég sagði um það frv. í ræðu og ríti, er það var til meðferðar í þinginu. Nú kann einhver að spyrja:

En hvernig stóð þá á því, að hv. þingmaður studdi ekki þessa till. með atkvæði sínu? — Svarið við því er það, að á bjargráðunum var sá hængur, að engar hömlur voru þar settar gegn því, að sú gengislækkun, sem í þeim fólst, leiddi til óðaverðbólgu. Þar var farið úr ösku haftakerfisins í eld óðaverðbólgunnar. Þetta frv. yrði sambærilegt við bjargráðin, ef það hefði aðeins að geyma ákvæðin um gengisfellingu og afnám uppbóta, en ekkert annað. Ég mundi ekki frekar en vorið 1958 treysta mér til þess að styðja slíka till., þannig að afstaða mín og skoðun í þessu efni eru óbreyttar frá því, sem þá var.

Það kom svo í hlut núverandi stjórnarflokka að slá botninn í bjargráðin með efnahagsaðgerðunum í janúar 1959. Reynsla okkar Íslendinga hefur ótvírætt sannað, að það væri ekki hægt að vænta neins árangurs af ráðstöfunum til stöðvunar verðbólgunni, nema verðlagsskekkjan sé leiðrétt fyrst, og nauðsyn gengisbreytingar nú er einmitt í því fólgin, að verðlagsskekkjan er enn svo mikil, að raunhæfar ráðstafanir til stöðvunar verðbólgunni verða ekki framkvæmdar án leiðréttingar á henni.

Ég tel mig þá hafa svarað þeirri spurningu hv. stjórnarandstæðinga, hvernig gengislækkunin geti samrýmzt kosningaloforði stjórnarflokkanna um stöðvun verðbólgunnar. Hún er að mínu áliti bein forsenda þess, að hægt sé að efna það loforð.

Þá er það hin spurningin, hvers vegna nauðsynleg sé nokkur kjaraskerðing í bili fyrir allstóran hluta þjóðarinnar. Í grg. frv. er gert ráð fyrir því, að miðað við vísitölu framfærslukostnaðar sé kjaraskerðingin um 3%. Hér er þó auðvitað um meðaltal að ræða, þar eð sumum er ekki ætlað að bera neina kjaraskerðingu, en aðrir, einkum þeir, er njóta ekki góðs af auknum tryggingum, bera auðvitað meira. Það er auðvitað ódýru verði keypt, þegar sumir stjórnarandstæðingar eru að leika sér að því að margfalda þessa tölu af algeru handahófi með allt að því 10 og fullyrða svo, að slík hljóti kjaraskerðingin að verða. Við slíkan málflutning þýðir auðvitað ekki að elta ólar. Og ég get nefnt annað dæmi í þessu sambandi, sem bregður skýru ljósi, sérstaklega yfir málflutning hv. Alþb.-manna í þessu efni.

Ég sá það í Þjóðviljanum fyrir nokkru, að þar var sagt, að tæpu ári eftir að gengisfellingin var framkvæmd árið 1950 hefðu atvinnuleysingjar í Reykjavík hvorki verið fleiri né færri en 2000. Ég aflaði mér nú upplýsinga um það, hvað skráðir atvinnuleysingjar hefðu flestir verið á þessum vetri. Þeir voru rúmir 400, og er þar allt með talið, bæði faglærðir og ófaglærðir, konur o.s.frv. Hin sanna tala er þarna margfölduð með 5: áttu að vera 2000 atvinnuleysingjar, en voru 400. En svo kemur líka hér annað til en gengisbreytingin, sem mundi vera eðlileg skýring á þessu. Tilfellið var, að þennan vetur voru hér óvenjulega langvarandi frosthörkur, og fékk ég staðfestingu á því á veðurstofunni, að það mundi vera rétt. Þetta leiddi svo aftur til þess, að útivinna við byggingar stöðvaðist að mestu þennan vetur, og ætli það megi ekki kenna því um alveg eins og gengislækkuninni, að atvinnuleysi var að vísu á tímabili nokkru meira en venjulega hafði verið um það leyti árs? Þetta gefur aðeins hugmynd um, hvernig málflutningnum er hagað.

En þótt kjaraskerðingin vegna þessara ráðstafana ætti þannig ekki að nema meira að meðaltali en umræddum 3%, þá hvílir auðvitað sú skylda eftir sem áður á stuðningsmönnum þessa frv. að gera þjóðinni skýra grein fyrir nauðsyn hennar. Grundvallarorsök kjaraskerðingarinnar er sú minnkun innflutningsins, sem gert er ráð fyrir. Vegna hans minnkar ráðstöfunarfé þjóðarinnar um 150–200 millj. eða um 3–4% af þjóðartekjunum. Verður niðurstaðan því svipuð og samkv. vísitöluútreikningnum, þó að hún sé fundin á annan hátt. Nauðsyn kjaraskerðingarinnar er að skoðun okkar, er styðjum þetta frv., af því sprottin, að við teljum ekki færi með tilliti til þess, hve greiðslubyrðin er orðin þung, að halda lengur áfram á þeirri braut að taka erlend lán til þess eins að slá á frest nauðsynlegri lagfæringu efnahagskerfisins.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa að vísu haldið því fram, að lán þau, er tekin hafa verið undanfarin ár, hafi eingöngu verið í þágu nauðsynlegra verklegra framkvæmda. Mér kemur í hug í þessu sambandi, þegar því er haldið fram, að lánin hafi eingöngu verið notuð til þess nauðsynlegasta, atburður, í sjálfu sér ómerkilegur, sem gerðist eitt sinn á stúdentsárum mínum í Kaupmannahöfn, þegar ég sat þar að snæðingi á matstofu stúdentanna. Það kom inn tötralegur maður og sagði: Góðir stúdentar, viljið þið nú ekki skjóta saman handa mér sínum 25 aurunum hver, ég hef nefnilega keypt útvarp með afborgunarskilmálum, og það verður tekið af mér, ef ég get ekki greitt afborgunina. — Það fóru allir að hlæja, og veslings betlaranum var kastað á dyr. Ef hann hefði haft til að bera hyggindi hins leikna stjórnmálamanns, hefði hann ekki nefnt það, að hann þyrfti að greiða afborgun af útvarpinu sínu, heldur sagzt vera svangur, og þá voru áreiðanlega meiri líkur á því, að máli hans yrði vel tekið. Og ætli það sé nú ekki eins í okkar þjóðarbúskap, að það, sem hætt hefði verið við, ef lánin hefðu ekki fengizt, væri ekki það nauðsynlegasta, heldur það ónauðsynlegasta. Ef við hefðum þurft að vera án þessara lána, hefði það auðvitað verið ónauðsynlegasta neyzlan og fjárfestingin, sem við hefðum skorið niður, en ekki það nauðsynlegasta. Þess vegna finnst mér sú skoðun miklu réttari, að þeim lánum, sem tekin hafa verið, hafi verið varið til þess, sem við helzt gátum verið án, en auðvitað ekki þess, sem við sízt gátum verið án.

Leiðin til þess að vinna þessa kjaraskerðingu upp á sem skemmstum tíma er að okkar áliti sú að gera nauðsynlegar ráðstafanir til lagfæringar á efnahagskerfinu, til þess að unnt verði að stöðva verðbólguna og auka framleiðsluna til að vega á móti því, að við höfum minna milli handa vegna minni lánsfjárnotkunar. Til þess að fyrirbyggja sjálfvirka verðbólguþróun sem afleiðingu þessara ráðstafana er að áliti fylgismanna frv. óhjákvæmilegt um skeið a.m.k. að afnema vísitölufyrirkomulagið í launagreiðslum. Grunnkaup verður hins vegar eins og áður samningsatriði milli launþega og atvinnurekenda.

Í málflutningi sumra hv. Alþb.-manna hefur beint og óbeint verið látið liggja að hótunum um það, að verkalýðurinn mundi grípa til sinna ráða, eins og það er orðað, og kollvarpa hinu nýja efnahagskerfi. Þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvert hér er verið að fara. Það er verið að hvetja verkalýðsfélögin til þess að knýja fram nægilega miklar grunnkaupshækkanir, til þess að hið nýja kerfi skapi atvinnuvegunum ekki lengur rekstrargrundvöll. En hvað er það nú eiginlega, sem í þessu liggur? Ef grundvöllur er fyrir grunnkaupshækkun, sem atvinnurekendur geta borið sjálfir án hækkaðs verðlags eða nýrra efnahagsaðgerða, þá er sýnt, að slíkt kollvarpar ekki kerfinu. Ef hins vegar þörf verður á nýjum álögum í einhverri mynd eða ef atvinnuleysi verður, þá má auðvitað segja, að kerfið í sinni núverandi mynd hafi ekki náð tilgangi sínum. En er það nú þetta, sem etja á verkamönnum út í dýra verkfallsbaráttu fyrir?

Sjaldan hafa hin pólitísku úlfshár gægzt öllu greinilegar fram úr sauðargæru þeirra, er þykjast fyrst og fremst bera fyrir brjósti hagsmuni verkamanna. Verkamenn eiga að heyja dýra verkfallsbaráttu til þess að knýja fram annaðhvort nýjar efnahagsmálaaðgerðir eða atvinnuleysi. Slíkt mundi vissulega ekki þjóna stéttarhagsmunum þeirra, heldur allt öðrum hagsmunum, sem allir vita, hverjir eru.

Það er ekki tilgangur þessarar löggjafar að takmarka frjálsan samningsrétt um kaup og kjör að öðru leyti en því, að óhjákvæmilegt verður um stundarsakir að afnema vísitölufyrirkomulagið. Hins vegar er hér boðuð mikilvæg stefnubreyting í afstöðu ríkisvaldsins til vinnudeilna, og það er mjög mikilvægt, að allir launþegar geri sér hana ljósa.

Ég ætla nú ekki frá eigin brjósti — með eigin orðalagi — að fara að lýsa stefnu hæstv. ríkisstj. í launamálunum, en ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lofa grg. hæstv. ríkisstj. með frv. að tala. Í henni segir svo á bls. 23:

Ríkisstj. telur, að með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem þetta frv. felur í sér, muni nýtt viðhorf skapast. Útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum. Þá er það einnig ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana. Með þessu móti getur því aðeins skapazt grundvöllur fyrir launahækkunum, að um sé að ræða aukningu framleiðslutekna, sem launþeginn njóti góðs af fyrir sitt leyti í hækkuðu kaupi. Það er líka aðeins með þessu móti, sem launahækkanir geta orðið launþegum til raunverulegra hagsbóta.“

Svo mörg eru þau orð, og er mjög mikilvægt, að launþegarnir geri sér einmitt þetta atriði sem ljósast.

Því hefur verið haldið fram af málsmetandi hagfræðingum, að erfitt væri að sameina það þrennt, að verðlag væri stöðugt, næg atvinna og frjáls samningsréttur um kaup og kjör. Einhverju af þessu þrennu yrði ávallt að fórna. Ég tel nú að vísu ekki rétt, að þessum þrem skilyrðum megi ekki fullnægja samtímis. En óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því er, að ábyrg stefna í launamálum sé rekin af samtökum atvinnurekenda og launþega, þannig að þau skipti ekki meira á milli sín en þeim tekjum, sem framleiðslan gefur af sér. Sé þessu skilyrði ekki fullnægt, þannig að áðurgreind hagsmunasamtök ætli sér að skipta meira en verðmæti framleiðslunnar, verður öðru hvoru að fórna: hinu stöðuga verðlagi eða atvinnuörygginu.

Vegna áhrífa pólitískra spákaupmanna innan íslenzkra launþegasamtaka er því miður ekki hægt að segja, að kaupgjaldsbarátta þeirra hafi alltaf verið ábyrg. Knúðir hafa verið fram kaupgjaldssamningar, sem framleiðslan hefur ekki getað staðið undir að óbreyttu verðlagi. Þá hefur öðru hvoru orðið að fórna: stöðugu verðlagi eða atvinnuörygginu. Og á undanförnum árum er það fyrri leiðin, sem ávallt hefur verið valin. Fyrirtækjum, sem framleiða fyrir innlendan markað, hefur verið leyft að hækka vöruverð til samræmis við kauphækkanirnar, og útflutningsframleiðslan hefur fengið hækkaðar uppbætur svo og styrki. Ekki hafa stjórnarvöldin þó hlotið fyrir þetta neinar þakkir hjá pólitískum leiðtogum verkalýðssamtakanna. Allar hækkanir á vöruverði vegna kauphækkana hafa verið nefndar hefndarráðstafanir ríkisvalds og atvinnurekenda gegn verkalýðnum. Það varhugaverða við þessa stefnu er líka það, að í rauninni býður hún heim pólitískri spákaupmennsku innan verkalýðssamtakanna. Þeir, sem æsa til kröfugerðar, sem ekki er grundvöllur fyrir, fá þannig í rauninni tvo svippi úr borðinu, annan þann að styðja kröfurnar, hinn svo að beita sér af alefli gegn þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru síðar, til þess að ekki þurfi að koma til stöðvunar vegna kauphækkananna.

Í grg., eins og ég las upp áðan, er hins vegar boðuð ný stefna í þessum efnum, — stefna, sem er í fullu samræmi við þær kröfur, sem launþegasamtökin hingað til hafa gert, að kauphækkanir, sem um væri samið, kæmu ekki fram í nýjum verðhækkunum eða hækkuðum útflutningsuppbótum. Má því ætla, hvað sem öðru líður, að launþegasamtökin, ef þau eru sjálfum sér samkvæm, muni veita ríkisstj. fullan stuðning hvað þessa afstöðu snertir. Hins vegar leiðir af þessari breyttu stefnu, að auðvitað verða launþegarnir að gæta þess, að ekki verði með kaupkröfum gengið svo nærri framleiðslunni, að hún dragist saman eða stöðvist. Ef ekki á að hækka uppbætur og ekki fæst hækkað verðlagið, þá er það gefið mál, að það getur leitt til meiri eða minni samdráttar, ef kaupkröfurnar verða meiri en hægt er að bera að óbreyttu verðlagi, þannig að launþegunum ber að varast það, að of langt sé gengið í þessu efni. Þá mun það mjög torvelda, svo að ekki sé meira sagt, þá yfirlýstu stefnu ríkisstj., sem auðvitað kemur til með að verða óbreytt, að freista þess með öllum ráðum að halda uppi nægri atvinnu í landinu. Það hlýtur að torvelda mjög þá stefnu, og ábyrgðina á afleiðingum þess hljóta þeir að bera, sem til slikra aðgerða hvetja.

Ef þjóðfélagið á að vera starfhæft, — því megum við ekki loka augunum fyrir, — þá verða ábyrgð og völd að fylgjast að. Sá, sem hefur vald og beitir því valdi, getur ekki mælt sig undan ábyrgð á framvindunni. Þetta á jafnt við um stéttasamtökin og hin pólitísku stjórnarvöld. Ef sú krafa er gerð á hendur stjórnarvöldunum, að þau tryggi, að ekki komi til verðhækkana af innlendum orsökum fram yfir það, sem leiðir af nauðsynlegri lagfæringu gengisskráningarinnar, þá verða samtök atvinnurekenda og verkamanna að bera ábyrgð á því, að samningar, er þau gera, skapi framleiðslunni rekstrargrundvöll.

Eitt af þýðingarmestu atriðunum í þessu frv. er það, að hér er gert ráð fyrir því, að hægt verði að gefa innflutninginn miklu frjálsari en áður hefur verið. Þetta hefur stundum verið túlkað þannig, að þarna sé um að ræða sérstaka dúsu handa kaupsýslumönnum, sem eigi að bæta þeim upp það hnjask, sem þeir kunni að verða fyrir vegna annars, sem af þessu frv. leiðir.

Það er alger misskilningur, að það að aflétta innflutningshöftunum sé einhver sérstök hagsbót fyrir kaupsýslumenn. Það, sem fyrir vakir í þessu efni, er áreiðanlega allt annað, nefnilega vonin um það, að aukin samkeppni á vörumarkaðinum muni verða til þess að lækka vöruverðið og vega þannig nokkuð á móti þeirri kjaraskerðingu, sem ráðstafanirnar að öðru leyti hafa í för með sér. Hitt er ákaflega einkennileg kenning, og ég er viss um það, að kaupsýslumenn gera sér þess a.m.k. fullkomna grein, að hún stenzt ekki, að gróði þeirra verði meiri, ef þeir selja í frjálsri samkeppni, heldur en ef þeir njóta skjóls haftanna. Það er alveg gagnstætt.

Það hafa fallið mörg þung orð í garð hagfræðinga í sambandi við þessar umræður. Við það elti ég ekki ólar. En ég held, að það sé æði fjarri lagi að ásaka íslenzka stjórnmálamenn um það, að þeir séu yfirleitt, eins og það hefur verið orðað, dáleiddir af hagfræðingunum. Sannleikurinn er sá, eins og ég hef rökstutt í yfirliti mínu um efnahagsþróunina hér á landi, að óháð því, hvaða flokkar hafa verið í stjórn, hefur stöðvunarstefnunni svokölluðu, — en það tel ég megi nota sem samnefnara þeirra bráðabirgðaráðstafana í efnahagsmálum, sem grafa ekki fyrir rætur meinsemdanna, — verið fylgt, þar til algert öngþveiti var annaðhvort skollið á eða alveg yfirvofandi. Fyrst þegar svo hefur verið komið, hafa hagfræðingarnir verið beðnir um að gera tillögur um jafnvægisráðstafanir.

Það, að bráðabirgðaráðstafanirnar hafa alltaf verið gerðar, svo lengi sem ekki var komið út í fullkomið öngþveiti, það stafar auðvitað ekki af vanþekkingu í þessum efnum, heldur mannlegri og skiljanlegri tilhneigingu til þess að komast hjá því að gera ráðstafanir, sem valda röskun og óþægindum. Þessar bráðabirgðaaðgerðir, þó að þær hljóti smám saman að leiða lengra og lengra út í fenið, eru þær þrautaminnstu um stundarsakir. Svo er það líka mannlegt, að þeir, sem við stjórnvölinn standa, hugsi gjarnan sem svo, ef farið verður að gera raunhæfar ráðstafanir, að þá lendir óánægjan af því á mér og mínum flokki, en hin hagstæðu áhrif þessara ráðstafana koma ekki fram fyrr en síðar, þannig að það verða jafnan eftirmenn mínir, sem koma til með að njóta góðs af því. Það er mjög mannlegt og skiljanlegt, að þannig sé hugsað, svo lengi sem það er hægt.

En í hverju hefur þá þetta öngþveiti verið fólgið? Maður heyrir oft, að það hafi verið sagt áður, að hrun og öngþveiti sé yfirvofandi, og vissulega eru hrun og öngþveiti slagorð, sem rétt er að skýra nánar. En svarið er í stuttu máli þetta:

Hrunið og öngþveitið koma fram í greiðsluþrotum gagnvart útlöndum og almennum skorti erlendra nauðsynja innanlands. Þegar gengislækkanirnar voru framkvæmdar 1939 og 1950, hafði bikar bráðabirgðaaðgerðanna í rauninni verið drukkinn í botn. Gjaldeyrisskortur var orðinn svo mikill, að ekki var hægt að sjá þjóðinni fyrir nauðsynlegustu neyzluvörum. Ég man t.d. sem dæmi um greiðsluvandræðin, að það kom einu sinni fyrir á stúdentsárum mínum í Kaupmannahöfn, að kröfuhafar tóbakseinkasölunnar í Kaupmannahöfn fóru fram á það við dönsku lögregluna að fá að taka lögtak í húsgögnum íslenzku sendiherraskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Þannig var þá komið í gjaldeyrismálunum. Og allir muna eftir löngu biðröðunum veturinn 1949–50, svartamarkaðnum og bakdyraverzluninni. Almenningur var beinlínis farinn að finna til líkamlegra óþæginda vegna efnahagsástandsins. Það tókst ekki heldur að skapa almenna andúðaröldu gegn ráðstöfununum, og við kosningarnar 1953 vottaði þjóðin þeim flokkum traust sitt, sem að gengisbreytingunni höfðu staðið. Þingmannatölu þeirra samanlagt fjölgaði a.m.k. um einn. Að vísu varð sigur stjórnarflokkanna minni vegna þess, að hér í Reykjavík höfðu þá komizt á fót tveir smáflokkar, sem drógu sinn frá hvorum stjórnarflokkanna, en það átti sér allt aðrar rætur en þær, að sérstök óánægja væri meðal þeirra, er að stofnun smáflokka þessara stóðu, með efnahagsmálastefnu ríkisstjórnarinnar. Um það er öllum kunnugt.

Það, sem mestu mun hafa ráðið um þetta, — því að nú er vitað, að margt gekk í óhag, eftir að gengislækkunin var framkvæmd, verðhækkanir urðu meiri en gert var ráð fyrir o.s.frv., — að almenningur bæði tók þessum ráðstöfunum vel og stjórnarflokkarnir hlutu traust þjóðarinnar við næstu kosningar, það mun einmitt hafa verið það, að í sambandi við þessar ráðstafanir var loforð gefið um, að vöruskortinum skyldi útrýmt, og það loforð var efnt. Húsmæðurnar urðu því fegnar að þurfa ekki lengur að verja hálfum vinnudegi sínum í eltingaleik við að ná í einstakar vörutegundir og fannst þá betra að þurfa að borga vörurnar eitthvað hærra verði en var áður, enda verður því ekki neitað, að þó að það sé að vísu slæmt, að vörurnar hækki í verði, þá er þó enn verra, að þær séu ófáanlegar með öllu. Það, að sokkar verða t.d. dýrari en góðu hófi gegnir, þýðir, að ég þarf oftar að láta stoppa í sokkana, ég endi þá lengur, en betra er það óneitanlega en það ástand, er ríkti mánuðum saman á vöruskortsárunum fyrir 1950, að sokkarnir fengust alls ekki. Og það, sem sokkarnir hafa verið hér nefndir sem dæmi um, á auðvitað við um allar aðrar vörur. Já, það var einmitt vegna þess, að öngþveitið var orðið fullkomið 1939 og aftur 1950, þegar gengislækkunin var framkvæmd, að það var ekki möglað verulega gegn henni.

Það ber að mínu áliti að virða, hvað sem öðru líður, að þegar gengið var fellt vorið 1958 með bjargráðaráðstöfunum, þá hafði bikarinn ekki á sama hátt og við fyrri gengisfellingar verið drukkinn í botn. Það var ekki farið að bera á vöruskorti og bankarnir voru a.m.k. ekki enn þá komnir í algert greiðsluþrot. En vinstri stjórnin var sjálfri sér sundurþykk, og allt hlaut að verða að engu í höndum hennar, jafnvel það, sem í sjálfu sér gat horft til bóta. því runnu þær aðgerðir hennar eins og aðrar út í sandinn.

En hvernig er ástandið í efnahagsmálum okkar nú, og hvað mundi gerast, ef fylgt væri þeim ráðum hv. stjórnarandstæðinga að fresta raunhæfum aðgerðum og reynt yrði að fleyta öllu um skeið með kákráðstöfunum til bráðabirgða?

Eitt er víst, og það er það, að sjúkdómur efnahagskerfisins er kominn á það hátt stig, að þess yrði skammt að bíða, að þjóðin færi að finna til verkjanna. Bankarnir munu, svo að ekki sé meira sagt, hafa siglt æði krappan sjó í gjaldeyrismálunum um síðustu áramót, þótt hjá því yrði komizt, að þeir þyrftu að lýsa yfir beinu greiðsluþroti. Verkirnir hefðu farið að koma í ljós á næstu mánuðum og komið fram í því sama og fyrir gengislækkunina 1950, vandræðum með útvegun nauðsynja, biðröðum og svartamarkaði og síðar atvinnuleysi í greinum, er byggja á innflutningi hráefna.

Ef stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar litu á málin eingöngu frá sjónarmiði hins kaldrifjaða stjórnmálamanns, sem aðeins hugsaði um það eitt að komast hjá pólitísku hnjaski en ekkert um velferð og vellíðan fólksins, má vel vera, að rétt hefði verið að fara að ráðum hv. stjórnarandstæðinga og lofa öllu að ganga sinn gang, þannig að stórfelldur nauðsynjaskortur yrði eftir fáa mánuði. Það hefur nefnilega komið í ljós, að svo virðist sem fólk telji, að gífurleg kjaraskerðing í mynd vöruskorts og skömmtunar sé af óviðráðanlegum orsökum, og uni henni, þar sem lítilfjörleg kjaraskerðing vegna verðhækkana sé ríkisstj. að kenna og því óþolandi. Auðvitað byggist þetta einvörðungu á vanþekkingu á efnahagsmálum, en þetta er samt hlutur, sem ekki er hægt að loka augunum algerlega fyrir. En þegar búið væri þannig að svíða jörðina í efnahagsmálum, mundu allir fagna hverjum þeim aðgerðum á komandi hausti, er fælu í sér, að aflétt yrði vöruskorti, á sama hátt og ég man að því var fagnað veturinn 1949–50, að þá komu í búðir ítalskar ljósaperur, sem kostuðu 12 kr. stk., eða nær ferfalt það verð, sem þá tíðkaðist. En skorturinn á þeirri vöru var þá orðinn svo mikill, að ég man, að háttsettur embættismaður sagði mér frá því, að hann hefði um skeið átt aðeins eina ljósaperu, sem flytja varð á milli herbergja í húsi hans, þar sem fjölskyldan hélt sig hverju sinni. Það var ekki hægt að hafa ljós nema í þessu eina herbergi. Stafaði sú verðhækkun, sem hér var um að ræða, að ljósaperurnar fóru úr 3 kr. upp í 12 kr., ekki af gengislækkuninni, því að þetta var fyrir gengislækkunina.

En það er mat okkar stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar á dómgreind þjóðarinnar, að ekki sé nauðsynlegt að taka efnahagsvandamálin þeim tökum, þannig að hún láti ekki moldviðri það, er stjórnarandstæðingar hafa þyrlað upp, villa sér sýn, svo að torveldaðar verði hinar nauðsynlegu viðreisnarráðstafanir.

Það er líklega ein mesta firra kommúnista af mörgum stórum, sem þeir hafa borið á borð fyrir fólkið í sambandi við þetta frv., þegar þeir halda því fram, að með þessu sé verið að innleiða fátækt og nú skuli hún skammta, eins og þeir orða það. Það er eins og raunveruleg fátækt sé fyrst og fremst fólgin í skorti á peningaseðlum, en ekki vörum. Eftir þessu ætti þá þýzka þjóðin aldrei að hafa verið ríkari en fyrst eftir hrunið mikla að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni, þegar gjaldmiðillinn hrundi þannig, að tímakaup verkamanns varð milljónir eða milljarðar marka, en fólkið dó úr hungri sökum matvælaskorts. Samkvæmt þessu ætti þýzka þjóðin í rauninni aldrei að hafa verið ríkari en hún var þá.

Já, við fengum smjörþef, en aðeins smjörþef af þessu ástandi, hinni sönnu fátækt, vöruskortinum, á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina og árunum 1947–50. Það eru einmitt mestu fjármálamistök okkar Íslendinga, að við höfum haldið, að hægt sé að útrýma fátæktinni með því að auka peningaveltuna.

Það er því síður en svo, að hér sé verið að innleiða fátækt og láta hana skammta. Hér er einmitt verið að koma í veg fyrir það, að hin sanna fátækt, skortur og allsleysi, verði ráðandi á okkar þjóðarheimili vegna óskynsamlegrar fjármálastefnu.

Við treystum því, að skynsemi þjóðarinnar sé næg til þess, að forðað verði efnahagslegu hruni, sem ella væri á næstu grösum, í mynd gjaldeyrisskorts, vöruskorts og síðar neyðar og allsleysis. Fyrir því er örugg vissa, að ef engar lagfæringar væru gerðar á efnahagskerfinu, mundi innan fárra mánaða skapast hér neyðarástand sökum gjaldeyris- og vöruskorts.

Ef þjóðin hins vegar tekur með skynsemi þeim ráðstöfunum, sem nú á að gera, er þess góð von, svo fremi sem ytri óhöpp ekki steðja að, að þjóðin muni á skömmum tíma vinna upp þá kjaraskerðingu, er af ráðstöfununum leiðir, og geta, eins og nágrannaþjóðir okkar, notið vaxandi þjóðartekna og batnandi lífskjara á næstu missirum.