18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

48. mál, efnahagsmál

Frsm:

2. minni hl. (Karl Kristjánsson): Herra forseti. Það hefur verið skýrt frá því hér, að fjhn. klofnaði í þessu máli. Meiri hl., 3 stjórnarstuðningsmennirnir, mælír með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir. Stjórnarandstaðan, sem skiptist í tvennt, mælir aftur gegn frv. Ég hef samið nál., þó að það sé ekki komið fram. Fundi fjhn. lauk ekki fyrr en um hádegi í gær og tími var naumur. Ég skilaði nál. mínu í morgun kl. 10 og tel þess vegna ekki, að ég þurfi að biðja neinnar afsökunar á því, eftir atvikum, þótt það liggi ekki hér fyrir. Skjalavörðurinn sagði mér, að líklegt væri, að það mundi koma úr prentsmiðjunni hingað inn í þingið um kl. hálfsex.

Um störf fjhn. er það að segja, að í raun og veru voru þau ekki mikil. Fjhn. höfðu sameiginlega fundi, þegar málíð fór frá 1. umr. í fyrri deild, og á þeim fundum mættu ráðunautar ríkisstjórnarinnar til að gefa ýmsar upplýsingar. Þessa fundi sátum við nm. fjhn. í þessari hv. deild, en mikið skorti á, að við fengjum þær upplýsingar, sem við teldum fullnægjandi, og enn var það svo á þeim fundi, sem fjhn. hélt í gær, þegar hún tók málið fyrir eftir 1. umr. hér, að ekki fengust þær upplýsingar, sem við minnihlutamennirnir báðum um.

Með þessum orðum er ég alls ekki að ásaka hv. formann fjhn. hér, því að það væri alveg ómaklegt. Hann mundi vafalaust vilja upplýsa sína nefnd eins og hægt er. En hitt er að í málinu að mínum dómi, að ríkisstj. og hennar nánustu ráðunautar liggja á upplýsingum í málinu og einkum að því er snertir þær hliðarráðstafanir, sem stjórnin hyggst gera og boðar með hálfkveðnum vísum.

Vera má, a.m.k. geta góðviljaðir menn litið svo á, að ríkisstj. kunni að eiga eftir að ákveða sig í þessum efnum. En nærri liggur að halda, að hún geri það af ásettu ráði að leggja efnahagsmálin inn í skömmtum til þess að hlífa mönnum við hinum beiska drykk í stórum sopum. Við spurðum t.d. um það og langaði til að vita, hvað á að hækka útlánsvextina mikið. Um það var ekkert svar hægt að fá. Hvernig verður tekjuskattsstigi hinna nýju skattalaga? spurðum við. Ekkert svar. Hvernig lítur reikningur vísitölubátsins út, sem miðað er við í efnahagsmálafrv.? Hann var ekki sýndur. Hann hlýtur þó að vera til. Kannske er eitthvað dularfullt við hann, sem ekki er hollt að menn viti á þessum stigum málanna almennt. Hvað verða erlendar neyzluvörur greiddar mikið niður í prósentum? Ekkert svar. Hvað hækka tryggingagjöld almannatrygginganna mikið? Ekkert svar.

Það er þess vegna ekki þægilegt að gera sér fyllstu grein fyrir því, hvað hér er á ferðinni, en ljóst liggur fyrir, að það er allstórt í stykkjum og á að valda hvörfum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Þegar ég hlustaði á ræðu hv. frsm. meiri hl., sem talaði málefnalega eins og venjulega, þá fannst mér hún bera blæ af því, að hann væri heldur vonlítill um, að þessar efnahagsráðstafanir mundu gefast vel. Að vísu væri það rangt af mér að segja, að hann hefði ekki mælt með þeim. Það hefði verið undarlegt, ef hann hefði ekki gert það. Auðvitað er hann nógu mikið karlmenni til þess að fara á sjó með hinum, úr því að hann hefur skinnsokkað sig á annað borð. En blærinn var hins vegar kvíði. Og ég satt að segja legg nokkuð mikið upp úr þessum blæ frá honum, af því að ég tel líklegt eftir kynnum mínum af honum og menntun hans, að hann beri betra skyn á þessa hluti en flokksbræður hans yfirleitt.

Hann notaði líkingu í sambandi við það, sem hann sagði um bjargráðin svonefndu, þ.e.a.s. efnahagsmálafrv. vinstri stjórnarinnar, og sagði, að hann hefði ekki talið, að hann gæti átt þátt í þeim, þó að hann hefði nú talið þau betri en aðgerðirnar frá 1950, því að það væri svo, að ef ætti að byggja fjósvegg, þá þyrfti til þess þekkingu og kunnáttu, ef hann ætti að standa. Út frá þessu finnst mér vera réttmætt að segja, að hv. frsm. meiri hl. hafi nú byggt sinn vegg, en satt að segja fannst mér ræða hans bera þann blæ, eins og ég sagði áðan, að í raun og veru varaði hann menn við því að fara inn í kofann eða vera þar a.m.k. andvaralitlir, því að ef vatn kæmist í vegginn og frostbólga, sem maður getur líkt við verðbólguna á þeim stað, þá mundi veggurinn hrynja.

Þetta stjórnarfrv., svo að maður víki beint að því, felur í sér fyrirmæli, eins og ég sagði áðan, um stórkostlega röskun á efnahagslífi Íslendinga, og svo mikla röskun, að útlit er fyrir, að það sé gert án þess, að fullkomin aðgát sé viðhöfð. Það líkist, ýmislegt í því, í mínum augum, örþrifaráðum. Það minnir mig á söguna af manninum, sem hélt að væri kviknað í húsi sínu og rauk til og greip dýrasta leirtau konu sinnar og henti því út um gluggann, með þeim orðum, að „hér dygði ekkert bölvað kák“.

Mér finnst vera farið þannig með dýra hluti í þessu frv., að líkist því, að þeim sé hent út um gluggann, af því að gert sé ráð fyrir, að eldsvoði sé á ferðum, en þess ekki gætt, að þeim er ekki bjargað með því, heldur eru þeir brotnir.

Annað einkenni er á þessu efnahagsmálafrv. og aðgerðum þeim, sem boðaðar eru jafnframt því, — einkenni, sem mér geðjast ekki að og ég hugsa að Íslendingum yfirleitt muni ekki geðjast að. Það er það, að farið er fram á í því heimildir til einræðislegra aðgerða. Sérstaklega á ég þar við það, að ætlazt er til, að ríkisstjórninni sé gefin heimild til þess að ákveða vexti í stofnlánadeildum atvinnuveganna, vexti, sem Alþingi hefur jafnan ákveðið, einnig að ákveða lánstíma, sem Alþingi hefur jafnan ákveðið líka.

Þetta er langt gengið, að ætlast til þess, að Alþingi afsali sér löggjafarrétti til ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi. Og hvað boðar það? Hvað kemur næst? Hafa hv. stuðningsmenn ríkisstj. gert sér grein fyrir því, hvort þeir hafa fengið umboð í kosningunum síðustu til þess að gefa út slíkt afsal á þingræði?

Hyggst ríkisstj. kannske með því að fara fram á þetta smátt og smátt að halda áfram t.d. í þá átt, sem de Gaulle hefur farið, og gerir hún ráð fyrir því að búa yfir hæfileikum de Gaulles? Eða hyggja stuðningsmenn hennar, að svo sé, og vill yfirleitt íslenzka þjóðin ganga inn á þær brautir?

Þegar rætt er um þetta frv., verður ekki hjá því komizt að hafa jafnframt í huga allt það, sem maður veit um að gera á, þó að hula sé yfir því í ýmsum öðrum efnum, og einnig þá að hafa í huga fjárlagafrv. nýja, sem hæstv. fjmrh, hefur lagt fram og gert grein fyrir, því að þar kemur ýmislegt fram, sem er í efnislegu samræmi við efnahagsmálatillögurnar.

Nú hafa þessi mál verið mikið rædd hér á Alþingi að undanförnu, og það stappar nærri, að manni finnist, að búið sé að slá túnið að því leyti. En þó er það svo, að það eru furðumargir toddar eftir í túninu, þegar að er gáð, því að skæklarnir á efnahagsmálatillögunum eða túni ríkisstj. eru svo margir og ná svo langt út fyrir þau takmörk, sem maður gæti hugsað sér að slík löggjöf næði — og mætti ná.

Flokksbræður mínir hafa gagnrýnt þessar efnahagsmálatillögur mjög rækilega, og ég get skírskotað og tel rétt að skírskota til þeirrar gagnrýni.

Í Nd. lagði fulltrúi flokksins í fjhn. fram mjög ýtarlegt nál. og sýndi í því glögglega fram á háskalega galla á frv. í mörgum greinum og óheillavænlega stefnu þess. En það, sem er höfuðatriðið og mestum umræðum hefur valdið, er vitanlega sú tillaga að fella íslenzka krónu að skráningu móts við erlenda mynt um 132.5%, en það er lagt til samkv. 1. gr. frv.

Nú er það svo, að gengisfelling hefur ekki verið neitt bannorð hjá Framsfl., og fylgjendur frv. hafa mjög undirstrikað það í umræðunum, að framsóknarmenn hafi tekið þátt í gengisfellingu og hafi jafnvel lagt til í vinstri stjórninni, að gengið væri fellt. En þetta er engin sönnun fyrir því, að eðlilegt sé að ætlast til þess, að framsóknarmenn séu með þessari miklu gengisfellingu.

Gömul sannindi, sem fest eru í okkar bókmenntum, eru þau, að ekki sé viturlegt að vega oft í sama knérunn, og það á við að minnast þess. Þó að gengisfelling hafi verið gerð, eru takmörk fyrir því, hvað rétt er að gera hana oft eða mikið eða stórfellda, því að þar er verið að vega í sama knérunn. Það er bæði, að sama aðferð er höfð, og svo eru það sömu aðilar, sem verða sérstaklega fyrir því að hljóta skerðingu í sambandi við gengisfellingu. Við framsóknarmenn teljum, að hér sé of geyst í sakir farið.

Það var sagt og lögð á það mikil áherzla í blöðum flokka þeirra, sem standa að ríkisstj., og sérstaklega þó í blaði Alþfl., að með þeirri gengisfellingu, sem fyrirhuguð væri, ætti að afnema bóta- og styrkjakerfið.

Nú viðurkenna allir, að bóta- og styrkjakerfið hjá okkur er komið í miklar öfgar, og það mætti náttúrlega mikið á sig leggja til þess að komast út úr bótakerfinu. En er það nú svo, að með þeirri gengisfellingu, sem hér er um rætt, sé verið að afnema bótakerfið? Hafa ekki þeir lesendur blaðanna, sem lásu þetta, t.d. í sambandi við fyrstu tilkynningar um aðgerðirnar, verið blekktir?

Ég hygg, að það hafi víða vakið samúð í hugum fólks, þegar það heyrði, að afnema ætti styrkja- og bótakerfið, og auðvitað ekki sízt þegar það fylgdi með, að það ætti að gera það án þess að auka nokkuð álögur. Hver mundi ekki vera með slíku? En þegar tillögurnar liggja nú fyrir, kemur greinilega í ljós, að það er langt frá því, að bóta- og styrkjakerfið sé afnumið. Að vísu verður útflutningssjóðurinn lagður niður, þó ekki að fullu strax. Ef menn yfirleitt hafa litið á bóta- og styrkjakerfið sem mein og hann sem sýnilegt tákn þess, þá er — því miður — tryggt, að hann heldur áfram fyrst um sinn, tekur á móti tekjum, 5% af verði útflutningsvaranna. Hann hefur því skilyrði enn til þess að vaxa. Meinið er ekki upprætt. En aðallega eru verkefni hans flutt að öðru leyti en þessu yfir til ríkissjóðsins. Ég veit ekki, hvers vegna það er gert. Kannske er í því einhver feluleikur. Maður má þó ekki vera of illgjarn eða tortrygginn í þessu sambandi, en grunsamlegt er það vitanlega, því að til ríkissjóðsins hafa verið fluttar frá útflutningssjóði allar niðurgreiðslur og meira en það. Það hefur verið bætt við fyrirheiti um nýjar niðurgreiðslur og þar með vöxt þess þáttar bótakerfisins. Og nú er það svo, að þó að útflutningsuppbæturnar hefðu ýmsa galla, þá hygg ég, að niðurgreiðslurnar séu í sjálfu sér verri, og það er fyrir það, að komið er svo langt í niðurgreiðslunum hjá okkur, að farið er að greiða vörur niður fyrir verð þeirra í verðlagsgrundvelli framleiðslunnar. Þegar svo er komið, skekkja þær allan grundvöllinn og stofna til þess ranglætis meðal þjóðfélagsþegnanna, að sumir fá meiri niðurgreiðslu en aðrir. Framleiðendur sjálfir geta að litlu leyti notað sér þessar niðurgreiðslur, þó að þeir hins vegar sem þjóðfélagsþegnar eigi fullkominn rétt til þeirra. Af þessu leiðir það líka, að hugmyndir manna um verðmæti þeirrar vöru og gildi þeirrar framleiðslu í þjóðarbúskapnum, miðað við verðlagið, skekkjast og það út af fyrir sig er slæmur galli.

Já, gengisfellingin er langt frá því að afnema bóta- og styrkjakerfið. Áð því leyti er þessi stóra aðgerð kák.

Gengisfellingin er í raun og veru stórfellt ofanálag á gjaldabyrðar almennings, af því að tekjuöflunin til bóta- og styrkjakerfisins heldur áfram í svo stórum stíl.

Nú er það vitað, að gengisfelling hækkar jafnan verðlag erlendrar vöru, og það gerir þessi gengisfelling í stórum stíl. Að sjálfsögðu á í því sambandi að taka tillit til yfirfærslugjalda, sem voru og má líkja við gengisfellingu, og draga þá liði frá, þegar reiknuð er út hin beina hækkun af þessari gengisfellingu. Hæstv. ríkisstj. og ráðunautar hennar segja, að hækkunin af völdum gengisfellingarinnar verði, miðað við vísitöluvörur, „sennilega 25% til jafnaðar“. En þarna er tvennt í sambandi við 25 prósentin, sem gerir það að verkum, að ekki má setja traust sitt á þessa tölu. Fyrst og fremst er það, að inn í vísitöluna koma alls ekki allar þarfir almennings, því að vísitalan hefur verið gallagripur, eins og hv. 9. landsk. sagði hér í ræðu við 1. umr., hún hefur verið löguð til með tilliti til þess, hvernig hún gæti orðið viðráðanlegust, og þess vegna er hún, í sambandi við það, þegar á að fara að reikna út áhrif gengisfellingar á verðlag fyrir almenning í landinu, alls ekki fullkominn mælikvarði.

Og í öðru lagi er það, að þegar um jafnaðarverð er að ræða, þá er það ekki heldur fullkominn mælikvarði, því að það er svo misjafnt, sem er notað af vísitöluvörunum, og þess vegna er það, að þunginn fellur misjafnt á fólkið.

Ég hef fengið útreikninga um hækkun á ýmsum vörum, sem þjóðin þarf að nota og fá erlendis frá. Að sjálfsögðu hækka mest þær vörur, sem voru í 30% yfirfærsluflokknum. Og það út af fyrir sig hlýtur að vera umhugsunarefni, hvort þjóðin getur talið það heppilega aðgerð að hætta að flokka vörur þær, sem inn eru fluttar, undir misjafnt verðlag. Ég veit, að til þess að flokkun geti átt sér stað, þarf misjafnt gengi, og það hefur sína galla. En hins vegar hefur það þá stóru kosti, að með því er hægt að hlífa þeim vörum, sem almenningur, þ.e. allir í landinu, þarf ófrávíkjanlega að nota, en skattleggja í gegnum yfirfærslugjöld eyðslu, — þetta, sem raunverulega er eyðsla í landinu, og það, sem þeir menn, sem hafa peningaráð, telja sig geta veitt sér.

Eins og ég sagði áðan, hefur það ekki verið upplýst, hverju niðurgreiðslurnar á aðfluttum vörum eiga að nema í prósentum. Mér skilst, að það séu aðallega munnvörur, sem menn nota, ef svo mætti að orði komast, sem á að greiða niður. En það hefur ekki verið upplýst, hvað mörg prósent það yrðu. Ég ætla þess vegna ekkert að fara út í að skýra frá því, hvaða prósentuhækkun yrði á slíkum vörum. En það er illt við umræður þessa máls, þegar menn eru að taka afstöðu til þess, að vita ekki fyrirætlanirnar í því efni.

Ef maður tekur t.d. bómullarefni, mislitt, sem almenningur notar ákaflega mikið, þá hækkar það um 77.4%, gúmmískófatnaður um 78.4% og gúmmístígvél um 87%, timbur um 47%, þakjárn um 47%, steypustyrktarjárn um 44%, rúðugler um 43%, hreinlætistæki um rúm 38% og kol um 49%. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið reiknað út fyrir mig af kaupsýslumanni, sem telur sig kunna slíkan reikning. Sjálfur skal ég játa það, að ég er ekki vanur vöruálagningu og hef þess vegna ekki lagt í það að reikna. Hins vegar hefur hv. 4. þm.. Vestf. lýst því yfir hér í d., að hann hafi sjálfur reiknað út hækkun á sumum af þessum vörum, sem ég hef nefnt, og ber þeim útreikningi saman við það, sem ég hef sagt.

Þá vil ég minnast sérstaklega t.d. á dráttarvélar. Þær hækka að fróðra manna sögn og „kunnáttumanna í að hlaða þann vegg“, sem sé að reikna út verðlag, um 49.8%. Og þá skilst mér, að Ferguson-dráttarvél með sláttuvél muni hækka úr um 60 þús. kr. í 90 þús. kr. Gera má þá ráð fyrir, að ýmsum kotbóndanum, sem á eftir að fá sér þetta nauðsynlega heimilistæki, muni þykja þrengjast fyrir dyrum sínum, þegar þangað koma hv. valdamenn stjórnarflokkanna með þessar álögur. (Gripið fram í: Hvort er þetta hækkun á innkaupsverði eða útsöluverði?) Þetta er hækkun á útsöluverðinu, verðlagt á sama hátt og verið hefur og á þá leið, sem gert er ráð fyrir að verði. Máske er eitthvað á huldu um það, hvernig ríkisstj. ætlar að fyrirskipa verðlagninguna, en ég get ekki tekið tillit til þess né aðrir, meðan það er ekki upplýst.

Nú vita það allir, að þó að verðlagseftirlit sé og ríkisstj. geri ráð fyrir því að hafa verðlagseftirlit, þá hrekkur ekkert verðlagseftirlit til að ráða við þá spennu, sem skapast, þegar dýrtíðaralda er sett á stað. Allt verðlag vill laga sig eftir henni. Allir þeir, sem verðleggja, vilja í raun og veru hækka það, sem þeir selja, og á mótí þessu getur ekkert eftirlit fullkomlega spornað. Verðhækkunin fylgir lögmálum skriðunnar. Fyrst fer lítil skriða af stað í fjallsbrúninni, en vex, eftir því sem neðar kemur, og tekur meira og meira með sér. Og ég hygg, að ef nú svo fer, að þessar efnahagsráðstafanir takast ekki á þann hátt, sem ríkisstj. hefur hugsað sér, og fara út um þúfur, eins og kallað er, — og maður gæti hugsað sér af framsöguræðu hv. formanns fjhn., að hann væri hræddur um það, — þá er skriða fallin. Erfitt verður að græða upp og slétta úr og bæta fyrir það, sem hún brýtur niður.

Það hefur verið boðuð margs konar hækkun, beinlínis og óbeint, í athugasemdum þeim, sem fylgja frv. efnahagsmálanna og einnig í sambandi við fjárlögin, fjárlagafrv. nýja. Það hefur verið boðað, að símgjöld hækki, póstgjöld hækki, daggjöld öll á sjúkrahúsum, farmgjöld o.s.frv. Það hefur verið boðað, að tryggingargjöld hækki. Það hefur verið sagt, að húsaleigan muni hækka, þó að það verði kannske ekki strax. Allt leitar til hækkunar. Og maðurinn, sem hefur ekki nema það, sem hann þarf, hefur ekki haft nema það, sem hann þarf til sín, hlýtur að vera uggandi um framtíð sína, þegar þessi boðskapur er á ferðinni. Og þeir, sem flytja um þetta tillögur, þurfa að vera vissir um, að mikill ávinningur í einhverjum efnum verði af þeim, þegar út í þetta er lagt.

Menn á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi, sem sækja sjóinn á heimamið sín, eru uggandi, þegar þeir heyra þann boðskap, að niður eigi að falla þær sérbætur, sem þeir hafa fengið á þær fisktegundir, sem þeir veiða öðrum sjómönnum landsins fremur og eru meira á þeirra fiskimiðum en annarra landshluta. Vestfirðingarnir segja, að helmingur af afla sínum sé steinbítur, sem notið hefur sérverðbóta. Og með öllu Norðurlandi og Austurlandi hafa menn svipaða sögu að segja í sambandi við ýsuna og smáfiskinn. Þessi fiskur er góð vara, góð matvæli, þegar hann hefur verið framleiddur, en af því að hann er smár fiskur, leggur hann sig verr, skilar minna innleggi miðað við beinastærð, og hann er fyrirhafnarsamari í flökun og vinnslu. Nú er það spurningin, hvort ríkisstj. telur, að það megi svipta þessa landshluta þeim bótum, sem þeir hafa haft á þessa framleiðsluvöru sína og hafa ekki gert betur en komast af í nokkru samræmi við aðra menn í landinu. Ef hún lítur svo á, að það megi svipta þá þessum bótum, hlýtur hún að líta svo á, að þessir landshlutar megi fara í meiri og minni auðn, því að það er enginn vafi á því, að lífsskilyrðin þar við sjóinn skerðast svo, þegar þessar uppbætur eru felldar niður, að fólkið telur sig ekki geta komizt af og flytur sig þangað, sem betri skilyrði eru eða betur gert við fólkið af þjóðfélagsins hálfu.

Samflokksmenn mínir í Nd. fluttu brtt. við frv. í þá átt að halda áfram þessum bótum. Sú till. var felld í Nd. af stjórnarliðinu. Ég spurðist fyrir um það í fjhn. þessarar d., hvort nokkur breyting hugarfars væri á ferðinni í þessum efnum, en fékk ekki upplýsingar um það, og ekki var léð máls á því að taka upp í n. till, í þessa átt. Þótt það hafi ekki verið gert, mun ég nú leggja fram till. og hún er í prentun, — till. um að halda áfram þessum bótum, og mér fyndist ekki nema manndómslegt, ef hv. þm.. í Ed., fleiri eða færri, sem í stjórnarflokkunum eru, tækju til greina þau rök, sem eru með því að halda áfram þessum bótum. Hér sitja menn úr stjórnarflokkunum, sem eru umboðsmenn fyrir fólkið, sem þessara bóta hefur notið. Ég vænti þess, að þeir hugsi sig vel um, áður en þeir greiða atkv. á móti till. minni.

Ég sagði áðan, að gengisfelling æ ofan í æ hefði þann galla m.a., að með henni væri vegið í sama knérunn. Sparifjáreigendur verða öðrum þræði hart úti, ef gengið er fellt. Þegar gengið var fellt 1950, var þó tilraun gerð til þess að bæta þeim tjón og litur sýndur á því. Ég man nú ekki, hve mörg prósent það voru, sem bætt voru eða innstæðueigendur fengu, en það voru þó talsverðar upphæðir, sem komu til sparifjáreigendanna. Ég var því nokkuð kunnugur, vegna þess að ég veiti forstöðu litlum sparísjóði norður á Húsavík og innstæðueigendur þar fengu inn býsna drjúgan skilding. Þetta var gert með því að leggja skatt, stóreignaskatt, á þá, sem efnaðastir eru í þjóðfélaginu og verða jafnan fyrir happi, þegar gengið er fellt. Gengisfellingin sem sé hefur sem aðallögmál gagnvart ríkum og fátækum, að sá ríki hagnast, en sá fátæki tapar. Stjórnarstuðningsmenn hafa sagt, að sparifjáreigendurnir fái hækkaða vexti og það verði þeirra bætur. En ég fullyrði, að sú uppbót, hverjir sem vextirnir verða, er ekki nema smámunir í sambandi við þann skaða, sem þeir bíða nú fyrir gengisfellinguna. Það er líka sagt þeim til huggunar, sem eiga að verða fyrir því áfallí, að skuldavextir hækka, að það eigi ekki að standa nema stutta stund, rétt eitt eða tvö ár, meðan jafnvægi sé að komast á í peningamálunum. En um leið er þá hægt fyrir sparifjáreigendurna að sjá, hve mikil fyrirheit eru gefin í þeirra garð með hækkuðum vöxtum.

Útlánsvextina á að stórhækka, og hefur því verið fleygt í þessum umræðum, án þess að staðfest hafi verið, að sú hækkun yrði 12%. Og þó að ég segi 12%, þá hef ég þá afsökun, að aðrir hafa sagt það, en mér hefur verið neitað um hreinar upplýsingar. Segjum, að vextirnir hækki þá í 12%. Sú hækkun verður áreiðanlega rothögg á framtak margra manna. Enginn vafi er á því, að þeir, sem hafa hugsað sér af veikum mætti að leggja út í það að byggja hús yfir sig, eins og margir hafa gert á síðustu árum af mjög veikum mætti, en myndarskap, og lagt á sig mikið persónulegt erfiði í vinnu til þess, sem er eiginlega mjög gaman að hafa uppgötvað, að t.d. unga fólkið í landinu hefur djörfung og dug til að gera, — margir þeir, sem hafa hugsað sér að leggja í þessar framkvæmdir, hljóta að hætta við það.

Það var sýnt fram á það hér í þessari hv. d. við 1. umr., hvernig tölur tala í þessu sambandi. Ég ætla þess vegna ekkert að fara út í það, en það getur hver fyrir sig reiknað þetta dæmi og fundið, að hér er skotið eiturör að athafnalífi í landinu og sjálfsbjargarviðleitni til meiri hluta. En svo eru það fleiri en þeir, sem leggja í fjárfestingu, sem fyrir þessu verða. Allur almenningur hlýtur að verða fyrir þessu, því að stærri atvinnurekstur og verzlanir í landinu munu velta vöxtunum af sér yfir á fjöldann.

Ég þekki margt ungt fólk og eldra fólk, sem hefur á síðustu árum ráðizt í það að reisa sér íbúðarhús og gert það fyrir lánsfé, sem er að allt of stórum hlut víxlar, og fyrir lán, sem eru með hreyfanlegum vöxtum. Það er vandséð, hvernig fram úr rætist fyrir þessu fólki eftir það, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa greitt þeim þetta högg.

Þá er það einnig um vaxtahækkunina að segja, að hún verður sparisjóðum, sem eru margir í landinu víðs vegar, stórkostlegt áfall, og mér þykir ekki ólíklegt, að hún verði sumum þeirra ofraun. Þeir hafa margir hverjir, — það er ég viss um, — lánað mikið af umráðafé sínu með óhreyfanlegum vöxtum til margra ára. Þegar vaxtahækkunin kemur skyndilega yfir þá, verða þeir strax að hækka innlánsvexti, af því að annars mundu þeir missa innstæðurnar til annarra stofnana, og þá blasir þar við tap og halli í rekstrinum. Mér finnst satt að segja hart, að hæstv. ríkisstj. og ráðunautar hennar skuli ekki hafa athugað mál sparísjóðanna sérstaklega. Það er áreiðanlegt, að sparisjóðirnir, sem eru mjög margir víðs vegar um landið, hafa verið mjög þarfar stofnanir í heimabyggðum. Þeir hafa verið aflstöðvar fyrir umhverfi sitt í efnahagslegu atvinnulífi fólksins, og ég vil leyfa mér að vera svo stórorður að segja, að ef starfsemi þeirra verður lömuð með hinni fyrirhuguðu skyndilegu vaxtahækkun, er með því unnið skemmdarverk í þjóðfélaginu.

Þá er það boðað, að tekinn verði hluti af fé innlánsdeilda samvinnufélaga og fluttur til Reykjavikur og lagður í þjóðbankann þar. Þetta tel ég vera gerræði gagnvart landsbyggðinni. Og það er áreiðanlegt, að það er efnahagsleg blóðtaka fyrir landsbyggðina, ef þetta verður gert. Samvinnufélögin eru efnahagsmálasamtök fólksins, sem leggur í innlánsdeildirnar, bæði til þess að þessi fyrirtæki þess hafi rekstrarfé og líka til þess að þau geti tekið þátt, eins og þau gera, í uppbyggingarstarfinu á verzlunarsvæði sínu og veitt stuðning til framtaks í félagsmálum. Það hefur verið sagt, — ég þarf ekki að taka það fram, það vita allir hér, — að samvinnufélögin eru opin til þátttöku fyrir alla, svo að þarna er ekki um það að ræða, að fé sé einangrað handa sérstökum fámennum hóp. Því hefur verið haldið fram, að af því að sparifé í innlánsdeildunum sé ekki skattskylt, þá sé eðlilegt, að það sé flutt í banka. En þetta eru rök, sem ekki standast. Þetta fé er einmitt notað til þjóðþrifa og almenningsþarfa á þann hátt, sem ég hef lýst, og þess vegna er það líka blóðtaka fyrir almenning úti um landið, ef það verður tekið af almenningi og flutt til Reykjavíkur.

Ég skil ekki í því, að hér í þessari hv. d. finnist ekki menn, sem skilja þetta, og furðulegt er það, ef þeir gefa sig ekki fram til þess að rétta upp hönd á móti þessu. Stórfurðulegt, ef þeir gera það ekki. Þá er merkileg hópsefjunin, sem yfir mennina er komin í stuðningsliði stjórnarinnar. (Gripið fram í: Greiddi hv. þm.. atkv. á móti því, þegar vinstri stjórnin lét lögheimila þetta gagnvart sparisjóðum?) Ég mælti á móti því, að það væri gert. Ég hygg, að út af fyrir sig hafi ég ekki greitt atkv. með því. ( Gripið fram í: Er rétt, að vinstri stjórnin hafi látið gera það?) Með sparisjóðina? Jú, jú, það er alveg rétt. En það eru kannske hér flokksbræður mínir, sem muna það, að ég mælti á móti því og ég lagði því atriði út af fyrir sig aldrei lið. Ég tel þó hitt enn þá fráleitara, að taka innlánsfé af samvinnufélögunum, eiginlega úr hendi fólksins sjálfs, með valdi til að flytja það til höfuðborgarinnar og láta það vera fé, sem einmitt höfuðborgarbúar og aðrir hinir stærri menn hér um slóðir hafa bezt skilyrði til að fá að láni, því að það er fullkomlega víst, að umhverfi bankanna hér stendur betur að vígi til að fá lán hjá bönkunum heldur en fólkið úti um hinar fjarlægu byggðir, sem hefur lagt fé inn í innlánsdeild síns kaupfélags.

Samkv. 32. gr. efnahagsmálafrv. er það, að ríkisstj. á að fá heimild þá, sem ég minntist á áðan, til að ákveða lánstíma og vaxtakjör í stofnlánasjóðum atvinnuveganna og byggingarsjóðum sveitabæja og verkamannabústaða og raforkusjóði. Ég vil aftur taka það fram, að ég tel, að þarna sé gengið út á mjög hálan ís og gersamlega að óþörfu, ef ríkisstj. vill vinna með þinginu. En máske er það framtíðarstefnan að hafa þingið sem minnst við löggjafarstarfið. Það vottaði fyrir þeirri stefnu, og má telja þann vott í samræmi við þetta ákvæði, þegar Alþingi var sent heim í vetur, og svo langt var þá gengið, að ríkisstj. sendi sína eigin stuðningsmenn heim. Það virðist að vísu ekki koma að sök núna, vegna þess að þeir virðast fylgja till. þeim, sem hún smíðaði í þinghléinu, þrátt fyrir það, og það er máske þetta, sem gerir það að verkum, að hér er verið að fara sig upp á skaftið. Og hvað er það þá næst? Ég tel, að hvað sem öðru líði í þessu frv., þá ættu stuðningsmenn ríkisstj. að fella þessa gr., því þó að ríkisstj. sé í þeirra augum sjálfsagt afbragðsstjórn, eiga þó að vera takmörk fyrir í þingræðislandi, hvað má veita henni mikið vald og rétt er að veita henni mikið vald, enda á hún ekki að hafa þörf fyrir þess háttar heimildir, ef hún er trygg með sinn meiri hl. í Alþingi.

Benzínskattur er hækkaður um 34 aura á lítra og 50 aurar á lítra, sem runnu í útflutningssjóð, teknir í ríkissjóðinn, aðeins 6 aurar af þessum álögum eiga að renna í brúasjóð og millibyggðavegasjóð. Flokksbræður mínir í Nd. fluttu við þetta brtt., sem ég hef tekið upp, því að ég tel ákaflega mikilsvert, að brýr, millibyggðavegir og gamlir vegir fái aukið framlag, bæði af því, að nauðsyn krefur beinlínis vegna árlegu framkvæmdaþarfarinnar, og líka af því, að það þarf að bæta þessum framkvæmdum upp þá dýrtíð, sem skerðir það fé, ef ekki er meira lagt til þeirra framkvæmda en að undanförnu hefur gengið. Sömu upphæðir verða minna virði, gera minna en áður.

Þá er það endurbygging vega, sem kallar mikið að. Þeir fyrstu vegir, sem lagðir voru hér á landi með ófullkomnum tækjum og eru í sjálfu sér ófullkomnir miðað við vegagerð nú, eru óðum að verða að engum vegum, Þeir eru slitnir niður úr sjálfum sér, ef svo mætti að orði komast, og þær sveitir, sem hafa þessa vegi, eru lítt betur settar en sveitir, sem ekki hafa verið vegaðar enn þá. Á undanförnum árum hafa verið veittar til gamalla vega 800 þús. kr., en það framlag verður með ári hverju meira og meira ófullnægjandi, eftir því sem vegirnir segja til sín.

Þá eru gamlar brýr að detta úr sögunni, og veitir ekki af því að byggja þær upp, ef ekki á að slysum að verða og ríkið skaðabótaskylt, eins og dómar hafa sýnt að það getur orðið, ef þær bila undir eðlilegri umferð.

Þá hefur það verið mikill áhugi ýmissa að koma hér upp steinsteyptum þjóðvegum, og ég minnist þess, að hæstv. forsrh.. og hæstv. landbrh. líka hafa mjög eindregið vakið máls á þessu hér á Alþingi með tillögugerð. Ég vænti þess vegna, að till. um það atriði verði líka vel tekið af flokki þeirra. En að öðru leyti fer ég ekki út í að ræða þessa till., því að hún á að liggja fyrir, hvort sem hún er komin úr prentun eða ekki.

Þá hefur söluskatturinn á umsetningu innanlands verið hækkaður um 245 millj. kr., sá hinn almenni söluskattur lagður á á ný, og af söluskattinum í heild er nú gert ráð fyrir því að renni til sveitarsjóðanna 20%, sem verða af öllum söluskatti 56 millj. Ég get lýst því yfir, að ég er þessu mjög samþykkur, tel þessa till. góða, að sveitarsjóðirnir fái hlutdeild í söluskatti. Ég tel það vel við eiga og þörf sveitarsjóðanna mikla fyrir það. En hins vegar hefur ekkert veríð upplýst um það, eftir hvaða reglum féð eigi að skiptast milli sveitarfélaganna, aðeins að það eigi að ganga til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, og meðan það er ekki upplýst, geta leynzt í þessu einhverjir gallar frá mínu sjónarmiði, því að ég tel t.d., að ef lögunum um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga verður ekki breytt, þá sé ekki rétt farið með þessa fjármuni. En að öðru leyti get ég lýst því yfir, að ég tel þessa till. mjög til bóta.

Um söluskattinn er það að segja, að hann leggst á allan almenning og hefur alls ekki verið talinn réttlætisskattur. Og hann hefur þann galla, þann mikla galla, að hann innheimtist illa. Það er mjög örðugt að koma við eftirliti, sem getur komið í veg fyrir það, að þeir, sem söluskattinn innheimta hjá fólkinu, leggja hann á, þeir skili honum ekki, Það, sem er víst í sambandi við söluskattinn, er það, að allir, sem kaupa, verða að greiða hann, en hitt verður vanhaldasamt, að þeir, sem selja, skili honum, og þá ber þetta að þeim brunni, að sá, sem meira má sín, græðir óeðlilega á svona skattlagningu ríkisins, en lítilmagninn verður út með hann.

Það hefur verið sagt frá því og mjög vel auglýst, að tekjuskattur af miðlungslaunatekjum verði felldur niður. Alþfl. flutti till. um, að það yrði athugað, hvort ekki væri fært að fella niður tekjuskatt algerlega, og við flutning þeirrar till. kom í ljós, að flokkurinn var því ákaflega fylgjandi, að þetta væri gert. Hann, sem áður var á móti óbeinum sköttum, var nú orðinn með þeim, en á móti beinum sköttum, sem eiga að leggjast á eftir því, hvað bökin eru breið í tekjuöfluninni. En þau rök færði hann sem höfuðrök fyrir þessu, að svo væri nú komið, að tekjuskatturinn innheimtist ekki réttilega, það tækist ekki að leggja hann réttilega á, vegna þess að skattsvik væru svo mikil og almenn í landinu, og því færi það svo, að þeir, sem gætu ekki skotið undan tekjum, eins og launamennirnir yfirleitt, og þeir, sem vildu ekki leggja sig í það að svíkja, yrðu harðar úti en bragðarefirnir í skattamálum.

Ég minnist þess, að Sjálfstfl. tók vel undir þetta, meira að segja ágætlega, og þess vegna þykir mér ekkert undarlegt, þó að þetta komi fram, að tekjuskatti sé af létt. En hitt er skrýtilegra, a.m.k. skoðað í ljósi þeirra umræðna, sem hafa átt sér stað hér á Alþingi, að niðurstaðan hefur orðið sú að létta skattinum af þeim, sem sviku hann ekki eða urðu hart úti að dómi Alþfl., en halda áfram að taka skatt af hinum og leggja svo söluskatt á almenning, sem hann kemst ekki undan, en hinir yfirleitt, sem selja, geta frekar gert sér hag að.

Nú hefur ekkert verið upplýst um það, hvernig skattstiginn muni verða, en ég get tekið undir það, sem hv. 5. þm.. Norðurl. e. sagði hér áðan, að allar líkur eru fyrir því, að með þeirri skattalöggjöf, sem er í uppsiglingu, verði miklu meira létt af hátekjumönnum heldur en svarar því, sem meðallaunamaður fær í eftirgjöf. Ég hef spurt um, hvernig skattstiginn muni verða, og ekki fengið svar, og þess vegna tel ég mér leyfilegt að taka undir þær hugmyndir um þennan skatt, sem hv. 5. þm.. Norðurl. e. varpaði hér fram áðan.

Þá hefur það verið mikið auglýst, að bótagreiðslur frá tryggingunum verði mikið hækkaðar. Gamla fólkið á að fá 44% til viðbótar við þær bætur, sem það hefur fengið áður, og einnig þeir, sem örkumla eru, öryrkjarnir. Um þetta er náttúrlega ekkert nema gott að segja. Það er bara verst, að þessar bætur eru teknar af þessu fólki til baka að mjög miklu leyti með hinni hendinni. En enn þá meiri athygli hafa vakið auglýsingarnar um það, hvernig fjölskyldufólkinu, barnmarga fólkinu verði bætt sú dýrtíð, sem efnahagsmálatill. skapa. Og jafnvel er til fólk, sem hefur skilið það svo, að hér sé um margfalt meiri bætur að ræða en í reyndinni verða. Hv. 4. þm.. Vestf. lýsti hér útreikningum í þessu sambandi, sem enginn hreyfði andmælum gegn og voru á þá leið, að bæturnar eru gefnar nú með fyrsta og öðru barni 2600 kr., en eftir að þriðja barn hefur fengið meðlagið með sér, þá lækka viðbæturnar, svo að þær verða aðeins eftir það 269 kr. með hverju barni á fyrsta verðlagssvæði. Allir geta þó verið vissir um það, og ég býst við, að það sé enginn ágreiningur um það, að því stærri sem fjölskyldan er, því meiri verður dýrtíðaraukningin á heimili. En eftir bótunum verða þær því minni, sem fjölskyldan er stærri. Ég hygg, að þetta komi yfir fólk, sem hefur lesið blöðin, dálítið óvænt, þegar á reynir, en svona er það, að dýrtíðin kemur úr ýmsum áttum og er laumað að þeim, sem sízt skyldi, í stærri mæli en hinum.

Það hefur verið mikið rætt um gjaldeyrishallann, og stjórnarflokkarnir hafa haft gjaldeyrishallann sem höfuðástæðu fyrir hinni stórfelldu gengisbreytingu. Það skal viðurkennt, að þjóðin getur ekki lengi búið við gjaldeyrishalla, sem sprottinn er af því, að hún eyði raunverulega meiru í viðskiptunum við útlönd en hún aflar til að greiða þá eyðslu með. En sú villandi aðferð hefur verið höfð af hálfu stjórnarstuðningsmanna að telja með í hallanum þau lán, sem þjóðfélagið hefur tekið til gjaldeyrisaukandi og gjaldeyrissparandi framkvæmda. Það hefur verið laumað inn í þessar hallatölur að meiri hluta slíkum lántökum, enda hefur svo farið, að einn af hagfræðingum landsins, sem þó telur sig að sögn með gengisfellingu, hefur gert aths. við þessi rök, og þarf ekki að fara um það fleiri orðum.

Ég minnist þess, að ég las það í Morgunblaðinu, — ég held, að það hafi verið í nóvember í haust, enda hefur oft verið til þess vitnað, — las það í Morgunblaðinu, sem var að segja frá ræðu, sem hæstv. forsrh. hefði haldið, Ólafur Thors, að hann hefði upplýst almenning rækilega, en almenningur var þá mjög hljóðnæmur fyrir öllum upplýsingum frá stofu hæstv. ríkisstj., því að hurðum hafði þar áður verið lokað að öðru leyti en því, að fyrir kosningarnar var sagt, að allt væri í bezta lagi, svo að þjóðin áleit þá, að ekki þyrfti mikils með, en annað var farið að kvisast. Ég er viss um, að fyrir það hlutu hæstv. stjórnarstuðningsflokkar mikinn fjölda atkvæða, að þeir sögðu ekki satt um þessi mál, sögðu allt annað en þeir segja nú. Þess vegna held ég, að þeir ættu að fara varlega í það að halda, að þeir hafi raunverulegt umboð allra þeirra, sem kusu þá, til þess að gera þær efnahagsaðgerðir, sem nú eru á ferðinni.

Já, manni þótti fróðlegt að heyra, hvað Morgunblaðið hafði að segja 21. nóv. um þessi efni úr ræðu hæstv. forsrh., en það sagði, að hann hefði sagt, að hann hygði, að engin þau úrræði, er til greina gætu komið, yrðu almenningi þungbærarí en 250 millj. kr. nýjar álögur. Nú er lítið talað í þessum stíl, því að nú er aftur orðið það ástand, að hentugt þykir að gera minna úr því, sem eigi að leggja á með álögunum, heldur en er. Og það hefur verið sannað, að álögubyrðin nýja er þung, hefur verið sannað, án þess að því hafi verið mótmælt með öðrum rökum en þeim, sem eru mjög léttvæg, frá hæstv. menntmrh., að hér sé eingöngu um tilflutning innan þjóðfélagsins að ræða, — þá hefur það verið sannað og sýnt fram á það, að gjaldabyrðin, sem leggst á almenning, er aukin um a.m.k. 1000 millj. eða einn milljarð, og þá sé búið að draga frá þann létti, sem veittur er með tryggingabótunum og tekjuskattsafnáminu á lægri tekjur. Hér er því ekki um neina smámuni að ræða.

Og hvers vegna er þá í þetta lagt? Það er í þetta lagt af því, að sagt er nú, að voði sé á ferðum. Það er gripið til þess, sem maðurinn gerði, að kasta dýrustu munum brothættum út um gluggann, af því að eldsvoði sé á ferð. En er þetta nú svo? Væru ekki möguleikar með góðum samtökum að bjarga húsinu án örþrifaráða?

Á síðustu áratugum hafa orðið svo miklar breytingar til bóta á lífskjörum þjóðarinnar, að hún hlýtur að eiga bágt með að trúa því, að ástandið sé svona. Og hvers vegna hafa þessar bætur á lífskjörunum komið fram? Hafa þær komið fram vegna einstaklingsframtaks? Hafa þær orðið til vegna einstaklingsframtaks fárra? Nei, þær hafa komið fram vegna samtaka fjöldans, og það er samtakamátturinn, sem hefur gert það að verkum, að þær miklu umbætur hafa orðið, bæði í landinu og á lífskjörum þjóðarinnar, svo að hún sýnist standa miklu og margfalt betur að vígi en áður var til að þola áraunir. En hún vill vitanlega ekki taka á sig áraunir að óþörfu eða óskynsamlegar. Allar aðalframfarir til almenningsheilla hafa risið á grundvelli félagshyggjunnar. Það er félagshyggjan, samstöðukrafturinn, sem hefur byggt upp framfarasóknina og bætt almenningshaginn. Félagshyggjan kom á fót samvinnufélögunum til hagsbóta og jafnréttis fyrir almenning í verzlun og viðskiptum, — samvinnufélögunum, sem nú á að taka blóð, svo að þau verði máttarminni. Hún lét verkamennina stofna verkalýðsfélög og Alþýðusambandið og hún lét aðrar stéttir, svo sem bændur, sjómenn og iðnaðarmenn, samhæfa sig um sín velfarnaðarmál með félagssamtökum sínum. Því hefur verið lýst hér, hvernig þær till., sem hér eru frammi, koma við verkamennina, og heyrt hefur maður utan úr sveitunum, hvernig það leggst í bændurna að taka á móti þeim aðgerðum, sem hér eru boðaðar, og verðhækkun dráttarvélarinnar segir sína sögu um framtíðina fyrir bændur. Það er þessi félagshyggja, sem hefur borið hag allra fyrir brjósti og vill koma öllum til þroska og gera alla að bjargálnamönnum, sem hefur átt drýgstan þáttinn í að bæta lífskjörin á Íslandi og skilyrði í landinu. Og það er í raun og veru stefna þessarar félagshyggju, sem hefur verið kölluð „vinstri stefna“, — og í þeirri merkingu orðsins „vínstri“ má segja, að þjóðfélagið hafi verið byggt upp á undanförnum árum í vinstri stíl.

Og nú er það önnur stefna, sem ætlar að ryðja sér til rúms. Það er hægri stefnan. Það er sú stefna, sem viðurkennir ekki félagshyggjuna sem höfuðgrundvöll, sem eigi að byggja þjóðfélögin á. Og mér virðist liggja ljóst fyrir, satt að segja, að það sé ekkert vit í því að halda, að hægri stefna geti tekið við málefnum vinstri stefnunnar og þjóðfélaginu, sem byggt hefur verið upp í vinstri stíl, til þess að sjá þjóðfélaginu vel farborða. Ég fullyrði, að Íslendingar hafa þroskazt svo og mótazt af félagshyggjunni, að þeir þola ekki, eins og komið er, þau hörðu tök, sem hægri stefnan vill hafa. Félagshyggjan vill hjálpa öllum til þess að verða sjálfbjarga. Hægri stefnan aftur á móti vill hafa fáa sterka, sem þeir, sem eru minni máttar, lúti. Það á ekki við Íslendinga. Till., sem við erum nú að ræða, eru byggðar upp af þessari hægri stefnu og lögmálum þeim, sem hún vill láta ríkja.

Ég spurði að því, þegar ég var á sameiginlegum fundi fjárhagsnefnda Alþingis og talað var um það frelsi, sem ætti að koma í öllum viðskiptum og afnám nefnda og allrar skömmtunar, — spurði að því, hvort það yrði þá þannig, að maðurinn, sem hefði íslenzka peninga, gæti farið í banka og ætti þá kröfu á því að fá erlendan gjaldeyri til þess að kaupa fyrir, hvað sem honum sýndist. Jú, sagði sérfræðingur einn frá stjórninni, það er ætlunin. Þá spurði ég: En verður það þá ekki svo, að það verður farið með möguleikana á stuttum tíma, einstaklingar, sem hafa mikil peningaráð, taka upp greiðslugetu þjóðarinnar í erlendum gjaldeyri? Nei, sagði maðurinn, því að peningarnir verða svo takmarkaðir.

Hugmyndin er að láta þessi lögmál fara að ríkja í landi félagshyggjunnar, að fátæktin komi aftur og taki að sér hlutverk skömmtunarskrifstofu, innflutningsskrifstofu o.s.frv.

Ég hygg, að um land eins og okkar land, sem er svo fámennt, að það má segja, að Íslendingar gagnvart öðrum þjóðum stórum séu eins og ein fjölskylda, þá eigi þessi lögmál illa við, þessi kaldrænu lögmál úrvalsins, sem gera ríkan ríkari og fátækan fátækari, skapa mikla aðstöðu fyrir suma, en umkomuleysi fyrir aðra. Ég hygg, að þau eigi ekki við, svo langt sem við erum komnir í félagsmála- og samhjálparog samábyrgðarþróuninni.

Ég sá í blaði, að frsm. meiri hl. í fjhn. Nd. hafði sagt, að þessar tillögur yrðu eins og ný blóðgjöf fyrir efnahagslíf okkar, — ný blóðgjöf. Við skulum athuga líkinguna, hún getur verið góð. Stundum vantar líkama blóð. En læknarnir eru þess fullvissir, að blóðgjöfin þarf að vera af sama blóðflokki og eigið blóð sjúklingsins.

Fyrirmyndin að tillögunum er sótt til stærri þjóðar og gerð, að menn segja, eftir ráðleggingum þaðan, og blóðið, sem á að nota við innsprautinguna, er af öðrum blóðflokki en okkar blóð. Allir vita það, hafa heyrt það, hvernig fer, þegar slík blóðgjöf er veitt. Þá er ekki glæsileg framtíð okkar þjóðar, ef þessi líking er rétt hjá hv. frsm. stjórnarflokkanna í Nd., það er öðru nær. Mér finnst þá nokkur von, að það megi kenna þess hjá glöggskyggnum manni, eins og hv. frsm. meiri hl. hér í Ed. í kvöld, að geigur sé í hug.

Ég skal nú, þó að ég noti þessa gefnu líkingu, lýsa yfir því, að langt er frá því, að ég sé svo svartsýnn, að ég haldi, að líf íslenzku þjóðarinnar fari forgörðum, þótt þetta frv. nái fram að ganga. Það er sterkara en svo, líf þjóðar okkar, og það mun bjarga sér og rétta sig við, þó að illa kunni að fara um stund. Hitt er víst, að þetta frv. er gegn straumi aldarinnar hjá okkur, og t.d. Grímur Thomsen hefur lýst mjög greinilega, hvernig fer fyrir þeim, sem stríða gegn straumi aldarinnar, í kvæði, sem hann orti út af dauða Hákonar jarls, sem lét líf sitt fyrir hendi félaga síns og þræls, Karks. Grímur Thomsen er eitt af okkar allra vitrustu skáldum, og mér finnst, að það væri hollt fyrir hæstv. stjórn, sem ég veit að er, a.m.k. að sumu leyti, bókmenntasinnuð, að athuga orð hans. En einnig veit ég um ýmsa menn hér í þessari hv. d. í stjórnarstuðningsliðinu, sem kunna að meta vísdómsorð skáldanna, og þess vegna ætla ég að leyfa mér að lesa þetta erindi Gríms Thomsens og þykist ekki sýna hv. Alþingi óvirðingu með því:

„Ef stríða menn gegn straumi aldar,

sterklega þótt vaði seggir,

yfir skella unnir kaldar,

engir brekann standa leggir.

Aldarboðar áfram halda,

allir fornir hrynja veggir.

Hákoni varð það helzt að falli,

að hlýddi hann ekki tímans kalli.“

Ég hygg, að hæstv. núverandi ríkisstj. ætti að athuga þessi spekiorð. Hún ætlar með frv. sínu ekki að hlýða tímans kalli, og af því leiðir fall, en í því liggur það, að þjóðin getur verið bjartsýn, jafnvei þó að þetta frv. gangi fram.

Víst er þörf á aðgát og umbótum í efnahagsmálum, og ég viðurkenni það, að þjóðin þarf að geta staðið í skilum við útlönd, vegna þess að henni er svo mikil þörf á því að geta fengið erlent lánsfé til stórframkvæmda í sinu gjöfula landi, sem býr yfir svo margs konar möguleikum, sem þarf að nota, en fé þarf til. En þá erfiðleika, sem nú eru fyrir höndum, telur Framsfl. að hægt sé að leysa án þess að grípa til grófra aðgerða, sem tefla miklu í tvísýnu, án þess að henda því, sem brothætt er, út um gluggann.

Framsfl. telur, að þetta megi vel takast með því að draga úr fjárfestingu, sem er ekki mjög aðkallandi, og með því að skattleggja eyðslu, sem er ekki nauðsynleg, og þá auðvitað jafnhliða með því og fyrst og fremst að leggja ýtrustu áherzlu á uppbyggingu, aukna framleiðslu og betri hagnýtingu framleiðslunnar. Með þessu móti telur Framsfl. að hægt sé að losna við uppbótakerfið smátt og smátt, sem öllum hlýtur að koma saman um að stefna þurfi að, — losna út úr flækjum þess smátt og smátt í áföngum. En það er víst, að þetta tekst ekki farsællega, nema unnið sé að því með víðtæku samstarfi, — samstarfi, sem allir flokkar leggja sitt bezta til og taka á sig þungann af. Og hvers vegna ætti það samstarf ekki að geta tekizt hjá okkar litlu þjóð, sem félagshyggjan hefur lyft til betri hags og tengt margvíslegum bræðra- og samábyrgðarböndum?

Ég er fullviss um það, að um þetta á við að segja: „Vilji er allt, sem þarf.“

Mér sýnist svo mikið liggja við, að þjóðin fari rétt að í efnahagsaðgerðum sinum nú, að skylt sé að hefja þetta mál yfir flokkadrátt, t.d. eins og lýðveldisstofnunina og landhelgismálið.

Þetta er líka álit Framsfl., það er ekki mitt álit eingöngu, og þess vegna er till. okkar sú, að hafið sé nú þegar þjóðhollt samstarf í þessum efnum á þann hátt að skipa strax nefnd frá öllum flokkum hér á Alþingi og ætla henni að gera tillögur hér eftir stuttan tíma um það, sem kallar mest að, en starfa síðan milli þinga og skila heildartillögum um efnahagsmálin fyrir næsta Alþingi.

Framsóknarmennirnir í Nd. fluttu þessa till., en hún var felld. Ég legg þessa till. hér fram í þessari hv. deild, því að mér þykir furðulegt, eftir að sú gagnrýni hefur komið fram, sem komið hefur á efnahagsmálafrv., bæði á Alþingi og einnig úti um allt land, að því er virðist hjá öllum stéttum, ef stjórnarflokkarnir eða a.m.k. nógu margir úr stjórnarflokkunum vilja með ofbeldi keyra þetta mál fram.

Ríkisstj. hefur á bak við sig stuðning frá meiri hluta. En sá meiri hl. er ekki til orðinn í síðustu kosningum fyrir meiri fjölda meðal þjóðarinnar en þann, að rétt rúmur meiri hl. kjósendanna við síðustu kosningar veitti þessum flokkum atkvæði sín, og þá var það undir þeim kringumstæðum, að falin var sú stjórnarstefna, sem nú er uppi, — hún var falin, og ef ríkisstj. með svona veikan meiri hl. á bak við sig ræðst í það að lögfesta þessar till. og hafnar samvinnu við stjórnarandstöðuna um að vinna að lausn efnahagsmálanna, — stjórnarandstöðuna, sem hefur svo mikinn fjölda á bak við sig sem vitað er, þá fara þessir menn sannarlega gálauslega með umboð sitt:

Tillagan, sem ég legg hér fram, er till. til rökstuddrar dagskrár:

„Þar sem deildin lítur svo á, að þjóðarnauðsyn sé, að unnið verði að skipan efnahagsmálanna með sem víðtækustu samstarfi, ályktar hún að beina því til ríkisstjórnarinnar að skipa nú þegar átta manna nefnd — tvo frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu þeirra og verði verkefni nefndarinnar:

1) að gera tillögur og leggja þær fram á þessu þingi, innan þriggja vikna, um ráðstafanir, er miðist við að halda verðbólgunni í skefjum og atvinnulífinu í fullum gangi.

2) Að starfa milli þinga á þessu ári og hafa tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi heildartill. um skipan efnahagsmálanna.

Og með skírskotun til þess, er að framan segir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er mín skoðun, að þessi sé eðlilegust og þjóðhollust afgreiðsla efnahagsmálafrv., sem fyrir liggur, og farsællegast verði leystur sá vandi, sem er á höndum í efnahagsmálunum og lengst af mun verða, að allir reyni að standa saman, og ég er viss um það, ég er handvíss um það, að mikill meiri hl. þjóðarinnar vill það og ætlast til þess, eins og nú er komið.

En þó að þessi dagskrártillaga mín sé aðaltillaga mín, flyt ég hér líka brtt., sem eru samhljóða brtt., sem fluttar voru í Nd., en felldar þar. En ég hef svo mikinn metnað f.h. efri deildar, að ég vil freista þess að fá hana til þess að samþykkja þessar tillögur, — þær koma að vísu ekki til greina, ef aðaltillagan, dagskráin, verður samþykkt, og þá er vel. Verði hún felld, þá eru höggnir sárir agnúar af frv. En tillögurnar eru fjórar.

1. till. er um það, að aftan við 3. mgr. 8. gr. bætist:

„Einnig getur ríkisstj. ákveðið, að útflutningssjóður greiði vinnslustöðvum sérstakar bætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og á fisk veiddan á vissum tímum árs. Bætur þessar skal miða við ákveðna upphæð á hvert kg af fiski, sem vinnslustöð tekur á móti.“

Ég hef áður gert grein fyrir skoðun minni á afnámi þeirra sérbóta, sem þessi till. miðast við. Það hefur verið sagt um þær uppbætur, að það hafi verið örðugt að framkvæma þær, svo að ekki gæti átt sér stað misnotkun. En ég er þess fullviss, að það er hægt að finna betri aðferð en notúð var, og tillagan miðar líka við það, ég get lýst því yfir. Ég vænti þess, að a.m.k. austan-, norðan- og vestanmenn fylgi þessari tillögu, enda munu þeir hafa heyrt lúðra þeytta í sambandi við afnám þessara bóta — að heiman.

Þá er 2. till., hún er við 16. gr., að á eftir 1. málslið 1. mgr. komi:

„Gjaldið má þó ekki vera hærra en 60% af leigubifreiðum og læknabifreiðum. Landbúnaðarbifreiðar eða jeppar og vörubifreiðar skulu alveg undanþegnar þessu gjaldi.“

Þarna er um það að ræða að draga úr aukaskattinum á leigubifreiðum og læknabifreiðum og tryggja það, að landbúnaðarbifreiðar og vörubifreiðar séu undanþegnar honum. Áður hefur verið tekið tillit til þessara aðila í skattlagningu, og ég hygg, að það hafi óumdeilanlega verið réttmætt, og legg það til.

Við 17. gr., í stað 2. málsl. 1. mgr. komi, segir í 3. till.:

„Skal gjald þetta“ — þ.e. benzínskatturinn nýi — „nema kr. 1.16 af hverjum lítra. Þar af skulu 17 aurar renna í brúasjóð, 22 aurar í sjóð, er varið sé til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga, 7 aurar til endurbyggingar gamalla þjóðvega, 3 aurar til endurbyggingar gamalla brúa og 10 aurar til að gera þjóðvegi úr steinsteypu.“

Ég minntist dálítið á þessar till. áðan og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég sagði þá. En hér er um að ræða það að auka dálítið athafnir í þessum framkvæmdaflokkum, sem kalla mjög eftir, og viðbót sú, sem hér er um að tala, frá því, sem fyrir liggur eftir tillögum þeim, sem stjórnin hefur gert, er þá, að 3 aurar bætist við sem nýtt tillag af benzíni, sem brúasjóður fái, og þá verður tillagið í hann 22 aurar, þegar allt er tínt saman, gamalt og nýtt, og þetta á að gefa sjóðnum 11 millj. kr. Millibyggðavegirnir eiga aftur eftir þessari till. að fá 11 aura til viðbótar við það, sem lagt hefur verið til af stjórnarinnar hálfu, og 22 aura í heildinni líka eða 11 millj. kr., því að 1 eyrir gefur hálfa milljón. Þá er það endurbygging gamalla þjóðvega, það er alveg nýtt. Til þeirra teljum við nauðsynlegt að tillag komi frá benzínsjóði. Er það mjög sanngjarnt, og það eiga að vera 7 aurar eftir tillögunni. Og svo er endurbygging gamalla brúa. Það er tillaga okkar, að til þeirra verði veittar 11/2 millj. — eða 3 aurar. Svo koma steyptir þjóðvegir. Við leggjum til, að þeir fái 10 aura, sem gera 5 millj.

Það er mjög eðlilegt, að sú tekjuöflun, sem byggist á skattlagningu benzíns, gangi til þess að gera þeim tækjum, sem ganga fyrir benzíni, sem greiðastan veg, og ég vona, að allir geti fallizt á þessar brtt.

Þá er það 4. liður, að á 23. gr. verði breyting á þá leið, að greinin orðist svo:

Ríkisstj. vinni að því að koma á samkomulagi milli launþega og framleiðenda og stöðvun víxlhækkana á milli kaupgjalds og verðlags.“

Ég skal játa það, að ég hef aldrei verið hrifinn af vísitölunni. Mér hefur fundizt hún skapa óróa mikinn í efnahagslífi Íslendinga, og mér hefur ekki fundizt hún sá rétti mælikvarði, sem hún var hugsuð til að vera. En samt sem áður skil ég það vel, að þeir, sem hafa tryggt rétt sinn til launabóta eftir þeim bendingum, sem þessi vísitala, sem á að vera mælikvarði á dýrtíð, gefur, séu ófúsir að láta þann rétt af hendi, sem þeir hafa haft. Mér finnst það mjög eðlilegt, og ég vil ekki vera í hópi þeirra manna, sem beita ofbeldi í löggjöf til að afnema vísitöluna. Hitt er ég viss um, — ég þykist alveg viss um það, — að verkalýðurinn mundi í samningum ganga inn á að draga a.m.k. úr þeim göllum, sem hafa verið á vísitölunni, eins og verkalýður nágrannalanda okkar hefur gert, ef til samstarfs um efnahagsmál væri stofnað, eins og ég hef lagt til í minni dagskrártillögu, og ég flyt þessa tillögu sem varatillögu, og hún er byggð upp þannig, að það ætti að vera a.m.k. mjög þægilegt fyrir sjálfstæðismenn að greiða henni atkvæði, þar sem hún þræðir nákvæmlega orðalag stefnuskrár Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar. Hér gefst tækifæri til að standa við einn lið stefnuskrárinnar.

Ég sé, að klukkan er að verða sjö og kominn matartími, og þess vegna mun rétt að ljúka máli mínu, þó að hins vegar sé þetta mál svo stórt, að það sé hægt að tala um það svo að segja endalaust, enda mun verða talað um það hjá þjóðinni næstu vikur og mánuði.