18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þær umræður, sem hér hafa farið fram, og gagnrýni hv. stjórnarandstæðinga á frv. því, sem hér liggur fyrir, hafa að svo litlu leyti beinzt gegn því, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að hvað það snertir hefði ég ekki ástæðu til þess að standa hér upp. En þó vil ég leyfa mér að gera örfáar aths. við sumt af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. stjórnarandstæðinga.

Ræður þeirra margra hverra virðast hafa gengið fyrst og fremst út á það að setja saman eins konar gervimann, vil ég segja, sem hlyti að fara ákaflega illa út úr þessum ráðstöfunum. Þessi gervimaður ætti að hafa eftirfarandi ástæður: Hann á engin börn, hann er ekki heldur kominn á þann aldur, að hann njóti ellistyrks, og hann er ekki öryrki. Hann greiðir ekki tekjuskatt, og hann notar miklu meira af þeim vörum, sem einna verst verða úti vegna þeirra breytinga, sem gerðar eru með frv., heldur en almennt gerist. Enn fremur hefur hann mikil lán með lausum vöxtum. Það er vitanlega auðvelt að reikna það út, að menn, sem þannig væri ástatt fyrir, mundu verða fyrir mikilli kjaraskerðingu vegna þessa frv. Slík dæmi er mjög auðvelt að setja upp. Annað mál er það, hvað mikið raunhæft gildi þau hafa. Ég skal ekki fortaka það, að til kunni að vera einstaklingar, þar sem öllum þessum skilyrðum er fullnægt. Hitt leyfi ég mér aftur á móti að fullyrða, að þeir séu ákaflega fáir. Það, sem máli skiptir, þegar meta á þá kjaraskerðingu, sem þjóðin verður fyrir vegna þeirra úrræða, sem hér er gripið til, er að líta á þetta að meðaltall. Kjaraskerðingin kemur þannig fram, að ráðstöfunarfé þjóðarinnar minnkar vegna minni innflutnings, sem talið er nauðsynlegt, eins og grein hefur verið gerð fyrir, vegna greiðsluhallans. Þetta nemur um 3–4% af þjóðartekjunum. Það er sú raunverulega kjaraskerðing, sem hér er um að ræða.

Um það má svo auðvitað deila, hvernig þessum byrðum skuli skipta. Því skal ekki neitað, að auðvitað er hægt að finna einstaklinga, sem koma til með að bera þyngri byrðar en þjóðin ber að meðaltali. Hins vegar eru auðvitað líka margir einstaklingar, sem bera minni byrðar.

Já, það hefur verið talað um það og jafnvel gert að því gys, að það geti aldrei verið leið til bættra lífskjara að gera ráðstafanir, sem hafa í för með sér kjaraskerðingu í bili. En er nú ekki svipað ástatt með þjóðarheildina í þessu efni og maður getur hugsað sér að sé um einstaklinga? Við gætum einmitt hugsað okkur einstakling, sem kannske í sjálfu sér er vel stæður, en á við mikil greiðsluvandræði að etja. Honum er nauðsynlegt að ráða á einn eða annan hátt bót á greiðsluvandræðum sinum, því að verði hann gjaldþrota, þá veit hann, að það hefur mikla kjaraskerðingu í för með sér. Það koma auðvitað fleiri leiðir til greina. Hann gæti selt eitthvað af þeim eignum, sem hann á, og breytt þeim í handbært fé. Sú leið er einnig fræðilegur möguleiki fyrir þjóðina. Þá mundi það vera í því fólgið, að við færum að selja úr landi t.d. skip okkar eða vélar eða önnur verðmæti, sem aðrar þjóðir vildu kaupa. Ég hugsa, að það séu fáir, ef það finnst nokkur, sem vildi mæla með því, að þessi leið væri farin. Önnur leið væri sú fyrir einstaklinginn til þess að koma fjárhag sínum á eðlilegan grundvöll að minnka í bili neyzlu sína og fjárfestingu. Gæti það ekki einmitt, ef hann með því móti gæti ráðið bót á greiðsluvandræðum sínum og komið fjárhag sínum á traustan kjöl, verið skynsamlegasta og eðlilegasta leiðin til bættra lífskjara frá sjónarmiði hans?

Við, sem stöndum að þessu frv., álítum, að því sé svipað farið með þjóðarheildina eins og þennan einstakling, að skynsamlegasta ]eiðin til bættra lífskjara sé einmitt sú að sætta sig við nokkra kjaraskerðingu í bili til þess að ráða bót á þeim miklu og alvarlegu greiðsluvandræðum, sem þjóðin á nú við að stríða.

Í nál. hv. 2. minni hl. eru tölur, sem sýna hækkun á verði nokkurra vara vegna þessara ráðstafana. Ég fæ nú ekki annað séð en það sé eins með þessar tölur og þær, sem hv. 4. þm.. Vestf. (SE) nefndi hér við 1. umr. málsins, að þær sýni aðeins þá hækkun á innkaupsverði, sem verður vegna þessara ráðstafana. Það stendur einmitt heima varðandi tvo fyrstu vöruflokkana, sem þarna eru nefndir, að það eru vörur, sem áður báru 30% yfirfærslugjald, en koma nú til með að bera sem svarar 133% vegna gengislækkunarinnar. Það er hækkun, sem nemur um það bil 80%, þetta hækka vörurnar í innkaupsverði. En auðvitað getur hækkunin í útsöluverði ekki orðið nálægt því eins mikil. Hvað hina vöruflokkana snertir, sem þarna eru nefndir, þá eru það vöruflokkar, sem bera 55% yfirfærslugjaldið. Það kemur einmitt heim, að slíkar vörur hækka í innkaupsverði sem næst 50%, en hækkunin á útsöluverði ætti auðvitað aldrei að vera eins mikil, þannig að ég tel víst, af því að ég veit það, að þessi hv. þm.. hallar ekki vísvitandi réttu máli og hefur ekki gert það nú, að það hafi átt sér stað einhver misskilningur milli hans og þess kaupsýslumanns, sem hann hafði tölurnar frá.

Þá ætla ég að fara örfáum orðum um vextina, sem mikið hefur verið rætt um hér. Það er í rauninni algerlega villandi miðað við þær kringumstæður, sem verið hafa fyrir hendi að undanförnu, að reikna þetta dæmi þannig, að byrðin vegna vaxtahækkunarinnar, sem lendir á þeim, sem standa í húsbyggingum, komi fram sem mismunur þeirra hærri vaxta, sem nú er gert ráð fyrir að greiddir verði, og almennra lánsfjárvaxta nú, því að forsendan fyrir því, að það væri rétt að reikna dæmið þannig, væri, að allt þetta fólk gæti fengið lán eins og það vildi með þeim lágu vaxtakjörum, sem nú eiga að gilda, en víst er, að því fer mjög fjarri. Allir vita, hvaða vandkvæði eru á því að afla fjár til íbúðarhúsabygginga, og margt af þessu fólki verður að taka lán með mjög óhagstæðum kjörum. Það er að vísu ekki farið upp fyrir 8% vexti eða hvað það nú er, en þá er sú leið farin, að þetta fólk verður að gefa út skuldabréf, sem það selur með miklum afföllum, svo að raunverulegir vextir af slíkum lánum eru e.t.v. til muna hærri en nokkrum dettur í hug að vextirnir verði nú. Og ég tel einmitt miklu meiri líkur á því, að þess verði ekki langt að bíða, að meira fjármagn verði einmitt vegna þessarar aðgerðar á boðstólum fyrir þá, sem vantar byggingarlán. Ástæðurnar fyrir því eru bæði þær, að vænta má, að hærri inniánsvextir verði til þess að örva sparnað. Hitt skiptir öllu meira máll, að takist að stöðva verðbólguna, þá hlýtur eftirspurnin eftir lánum að minnka verulega, af því að það er vitað mál, að mikið af þeim lánum, sem nú eru tekin, er beinlínis tekið vegna þess, að menn vita, að það er alltaf gróði að taka lán. Vegna verðbólgunnar reikna menn með því að þurfa að skila miklu minni verðmætum en þeir hafa tekið á móti, þannig að það er spákaupmennskan í verðbólgunni, sem veldur talsverðu um þá lánsfjárþenslu, sem nú er.

Ég býst við, að ýmsir hv. stjórnarandstæðingar muni nú vilja svara þessu með spurningunni: Eru nokkrar líkur á því, að það takist að stöðva verðbólguna með þessum ráðstöfunum? Það viljum við álíta, hvað sem skeður á vinnumarkaðinum, ef stendur við þær yfirlýsingar, sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið í þeirri grg., sem fylgir frv., nefnilega yfirlýsingar um það, að kauphækkanir, sem kunni að verða, verði ekki teknar til greina í vöruverði og útflutningsuppbætur verði ekki hækkaðar vegna þeirra. Þetta er í fullu samræmi við þær kröfur, sem hingað til hafa verið bornar fram af verkalýðsfélögunum, að kauphækkanirnar yrðu ekki teknar aftur, eins og það er orðað, í hærra vöruverði. Aftur á móti leiðir af þessu hitt, sem ég benti á í framsöguræðu minni, að ef heimtað er af ríkisstj., að hún ábyrgist það, að verðhækkanirnar komi ekki fram í hærra vöruverði, þá verða launþegarnir auðvitað að gæta varúðar við því að krefjast ekki meira af framleiðslunni en hún getur borið að óbreyttu verðlagi, því ef það er ekki gert, þá leiðir það til minni vinnueftirspurnar og jafnvel til stöðvunar í einstökum atvinnugreinum. Þetta veit ég, að launþegarnir muni gera sér ljóst, því að þrátt fyrir allt er það nú þannig, sem betur fer, með meginþorra launþega, að það eru fyrst og fremst þeirra eigin raunverulegu hagsmunir, sem þeir bera fyrir brjósti.

Já, einhver hv. stjórnarandstæðinga spurði sem svo: Verður það nú ekki þannig, að þessari vaxtahækkun verði velt yfir á almenning í hærra vöruverði? Ég tel ekki miklar líkur á því, og byggi ég það ekki fyrst og fremst á því, að gefin var yfirlýsing um, að það muni ekki verða leyft að taka tillit til hærri vaxtakostnaðar, þegar vöruverðið verður ákveðið, heldur á hinu, að ég skil ekki í því, að skynsamir kaupsýslumenn mundu sjá sér hag í slíku. Eina leiðin fyrir þá til þess að komast undan aukinni vaxtabyrði er sú að umsetja vörur sínar á skemmri tíma en áður. Með því einu móti leggst á þær minni vaxtabyrði. En ef þeir ætla að umsetja þær á skemmri tíma, þá er leiðin til þess víssulega ekki sú að hækka verðið, heldur miklu fremur hið gagnstæða.

Það er nú margbúið að hrekja þá firru áður í umræðum um þetta frv., m.a. í Nd., að hér sé um að ræða þúsund milljónir í nýjum álögum á almenning. Það er vitanlega fullkomin fjarstæða að líta svo á, að sú hækkun í krónutali á þjóðartekjunum sé raunveruleg byrði fyrir almenning, og fjölyrði ég ekki meira um það atriði.

Hv. 3. þm.. Norðurl. v. ræddi nokkuð um þau lán, sem tekin hefðu verið að undanförnu, til hvers þau hefðu farið o.s.frv. Ég tel, að það sé tiltölulega ófrjótt að ræða mikið um þetta, því að að mínu áliti er það ekki kjarni málsins, heldur hitt, að greiðsluvandræðin eru staðreynd, vandamál, sem þarf að leysa alveg óháð því, hvort þeim lánum, sem tekin hafa verið, hefur verið varið á einn eða annan veg. En vilji maður á annað borð deila um þetta, þá vil ég líta svo á, eins og ég minntist á í framsöguræðu minni, að eðlilegra sé að líta svo á, að þegar erlend lán eru tekin, þá sé þeim varið til þeirra hluta, sem eru minnst nauðsynlegir. Þó að ég bæri aldrei traust til vinstri stjórnarinnar, þá ætla ég ekki, að henni hefðu nokkru sinni orðið svo mislagðar hendur, hefði hún ekki fengið sum af þeim lánum, sem hún tók, að hún hefði hætt við allra nauðsynlegustu framkvæmdirnar. Auðvitað hefði hún eins og aðrar ríkisstjórnir reynt að láta sitja á hakanum ónauðsynlegasta neyzluvöruinnflutninginn og ónauðsynlegustu fjárfestinguna.

Annars var málflutningur hv. 3. þm.. Norðurl, v. að ýmsu leyti frábrugðinn málflutningi ýmissa annarra, eins og von var til af manni með hans menntun og í hans stöðu, þannig að hann lokaði ekki í sama mæli augunum fyrir augljósum vandamálum og staðreyndum. Honum var fyllilega ljóst greiðsluvandamálið og að það væri ekki heilbrigt, að Ísland hefði einhverja mestu greiðslubyrði, sem þekktist í heiminum, að undanteknum einum tveimur löndum, sem munu vera Bólivía og hitt var eitt af Balkanríkjunum. Hann sagði, að orsökin til gjaldeyrisskortsins væri sú, að það væri svo mikill þrýstingur á bankana til þess að flytja inn hátollavöru. Þetta er út af fyrir sig í meginatriðum alveg rétt athugað hjá honum. En hvers vegna er þrýstingurinn á bankana til þess að flytja inn hátollavöru svona mikill? Er það ekki af því, að það kerfi, sem við höfum hingað til byggt á, grundvallast í rauninni á innflutningi hátollavara og því, að til sé gjaldeyrir til þess að flytja hátollavörurnar inn. Niðurstaðan af þessu hlýtur því einmitt að vera sú, að kerfinu þurfi að breyta. Við komumst ekki hjá því á einn eða annan hátt að minnka gjaldeyrisnotkun okkar. Það er þetta, sem er aðalatriðið. Hitt er vitanlega rétt, að það koma fleiri en ein leið til greina til þess að minnka gjaldeyrísnotkunina. Önnur leiðin er sú, sem hér hefur verið farin, að gera gjaldeyrinn dýrari en áður, þannig að þjóðin í heild verður að spara við sig gjaldeyrisnotkunina. Hin leiðin, sem ella væri einna nærtækust, væri sú, að það væri hægt að minnka gjaldeyrisnotkunina á þann hátt að beita miklu strangari innflutningshöftum en hingað til hefur verið gert, taka upp skömmtun á nauðsynjavörum o.s.frv. En er það nú nokkur, sem vill gera sig að talsmanni fyrir þessari leið? Þá yrði það þannig, að það yrði svarti markaðurinn, biðraðirnar og það ástand, sem við þekkjum svo vel frá árunum fyrir 1950, sem kæmi til þess að dreifa byrðunum. Ég tel líkurnar ákaflega litlar fyrir því og í rauninni engar, ef það væri þessi leið, sem væri farin til þess að dreifa hinum nauðsynlegu byrðum, að þá yrði það efnaminna fólkið í þjóðfélaginu, sem bæri minnstu byrðarnar. Verkamenn og þeir efnaminni hafa ekki efni á því að verzla á svörtum markaði, og það voru ekki þeir, sem á sínum tíma verzluðu fyrst og fremst við bakdyrnar. Auk þess er annar ágalli á þessari leið, haftaleiðinni, og hann er sá, að jafnvægi getur haftaleiðin aldrei skapað, nema í bili. Ef á að fara þessa leið til að útrýma greiðsluhallanum, þarf skömmtunin að verða stöðugt strangari og ná til fleiri vara, þannig að það verða fleiri og fleiri vörutegundir, sem bannaður verður innflutningur á, þangað til skapast hlýtur algerlega óþolandi ástand.

Hv. 3. þm.. Norðurl. v. taldi, að lítið samræmi væri í því að ætla sér að afnema greiðsluhallann, en fara þó fram á heimild til verulegra yfirdráttarlána. Svo spurði hann að því, hvaða munur væri á því tvennu að taka venjuleg lán og þessi yfirdráttarlán. Það er sá munur á því, að yfirdráttarlánin eru aðeins tekin til þess að jafna þær sveiflur, sem verða í innflutningnum frá mánuði til mánaðar. Þau skapa ekki grundvöll fyrir því, að haldið sé uppi greiðsluhalla, og eiga ekki að auka skuldabyrði þjóðarinnar. Það er í rauninni eitt af aðalatriðum þessa frv., að gert er ráð fyrir því þrátt fyrir þessa yfirdráttarheimild, að innflutningurinn minnki. En hver er þá ástæðan til þess, að það er verið að taka þessi yfirdráttarlán? Hún er í stuttu máll sú, að samkvæmt skoðun ríkisstjórnarinnar mundi frjálsari innflutningur en nú skapa möguleika á því að lækka vöruverðið nokkuð og vega þannig að einhverju leyti upp á móti þeirri kjaraskerðingu, sem ráðstafanirnar að öðru leyti hafa í för með sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem fyrir vakir með þessum ráðstöfunum, ekki það, eins og komið hefur nú sums staðar fram, að þetta eigi að vera sérstök dúsa til handa kaupsýslumönnum, því að eins og ég minntist raunar á í framsöguræðu minni, þá er síður en svo líklegt, að afkoma þeirra verði betri, eftir að raunhæf samkeppni hefur verið innleidd, heldur en meðan þeir nutu skjóls haftanna og þar með fullkomins öryggis fyrir því, að þeir gætu selt allt, sem tókst að flytja inn, óháð því, á hvaða innkaupsverði það var. Við ætlum einmitt, að samkeppnin skapi kaupsýslumönnunum meira aðhald en áður um að kaupa vörurnar inn á sem lægstu verði miðað við vörugæði og þessi ráðstöfun geti þannig orðið neytendunum til hagsbóta.