19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Í gær við 2. umr. málsins rakti ég nokkuð þá réttindasviptingu, sem fremja á á launamönnum og verkalýðshreyfingunni með 23. gr. frv., þar sem lögbannað er að greiða verðlagsuppbætur á laun, og enn fremur rakti ég, hver hætta kann að fylgja þeirri eðlisbreytingu, sem nú er fyrirhuguð á niðurgreiðslunum á vöruverði og þjónustu. Ég get að mestu látið nægja að vísa til þess, sem ég sagði um þessi atriði, til stuðnings þeirri brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 5. þm.. Reykn. og hv. 9. þm.. Reykv. á þskj. 118.

Ein af mörgum og hættulegum afleiðingum vísitölubannsins er það öryggisleysi, sem það skapar í öllum samskiptum og samningum milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Óhugsandi er t.d., að samtök launamanna geti gert nokkra samninga um launakjörin nema til mjög skamms tíma í senn, þar sem engin trygging er fyrir því, að raunverulegur kaupmáttur skerðist ekki stórlega, jafnvel á fáum vikum eða mánuðum, og engan varnagla má slá við slíku í samningum nema þann, að samningar falli úr gildi og verði endurskoðaðir með stuttum fresti. Hingað til hafa ýmsir þeir, sem nú standa að þessu frv., haldið því fram, að með því, hve samningar um launakjör eru yfirleitt gerðir hér til skamms tíma, væri skapað óþolandi öryggisleysi fyrir atvinnuvegina. Nú er hins vegar að því stefnt að útiloka með öllu, að samningar séu gerðir nema til örskamms tíma í senn, með afnámi kaupgjaldsvísitölunnar. En þar við er ekki látið sitja. Ákveðið er að heimila ríkisstjórninni að greiða niður verð á vöru og þjónustu án takmörkunar. Gengið verður traustlega frá því, að innheimta verði af almenningi á fjórða hundrað millj. kr. í þessu skyni, en hins vegar engin trygging sett fyrir því, að þetta fé verði notað í þeim tilgangi, sem sagt er að það sé innheimt í. Þessi skipan hefur að vísu viðgengizt áður, en þá voru ástæður að því leyti ólíkar, að launamenn fengu jafnharðan kaup hækkað, ef verðlagshækkanir höfðu orðið af völdum minnkaðra niðurgreiðslna. Niðurgreiðslurnar voru því beint í hag vinnukaupenda, en ekki launamanna, og tilhneiging stjórnarvalda til að halda kaupgjaldi niðri, var nokkurn veginn full trygging fyrir því, að greiðslurnar héldust. Nú er hins vegar svo komið, að atvinnurekendur eiga ekkert undir því, hvort vöruverð er greitt niður eða ekki, þar sem laun hækka ekki í kjölfar verðhækkana. Aðhald vísitölunnar fyrir ríkisvaldið um að standa gegn verðhækkunum af ótta við sjálfkrafa launahækkanir er því úr sögunni. Launamenn eiga það algerlega undir náð ríkisstj., hvort vöruverð hækkar sem niðurgreiðslunum svarar eða ekki, ofan á allt annað.

Ég fæ ekki séð, að hugsanlegt sé, að nokkrir samningar séu gerðir um launakjör eða nokkur hugsanleg vinnudeila, sem upp kann að rísa, verði leyst í landinu við slík skilyrði. Segjum t.d., að verkalýðsfélögin geri samning í dag til eins árs. Gerum ráð fyrir, að umsamin launahækkun nemi t.d. 10–15 vísitölustigum. Eins og nú er í pottinn búið, gæti ríkisstj. með einfaldri samþykkt ákveðið að hætta öllum niðurgreiðslum og þar með kippt til baka allri hinni umsömdu launahækkun samstundis og um hana væri samið. Nú er að vísu látið í veðri vaka, að niðurgreiðslurnar verði framkvæmdar, en hitt er staðreynd engu að síður, að það er algerlega á valdi ríkisstjórnarinnar.

Nú er það ekki umdeilt, að margir menn og mörg samtök treysta ríkisstj. misjafnlega, að ekki sé meira sagt, en enginn þó verr en verkalýðshreyfingin í landinu, eftir allt, sem á undan hefur gengið. Hún mun því áreiðanlega ekki una því að eiga neitt undir náð hennar í þessum efnum og að hún geti með þessum hætti ráðið kaupgjaldi með tilskipun.

Brtt. okkar á þskj. 118 miðar að því að lögfesta þær niðurgreiðslur, sem lofað hefur verið að framkvæma, og að taka af allan vafa um, að þær verði inntar af hendi með því fé, sem til þess er lagt af almenningi. Ef allt er með felldu um yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, ætti stuðningsmönnum hennar að vera ljúft að samþ. þessa till. Ef hún verður felld, vita stéttasamtökin hins vegar, að svík kunna að búa undir, og munu taka það með í reikninginn á sínum tíma.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að síðara atriðinu í brtt. okkar þm.. Alþb., en það er gjaldeyri til námsmanna og þeirra, sem leita þurfa sér lækninga í fjarlæg lönd, þannig að raunverulegt verð á dollar verði 21.22, eða hið sama og nú er með því 30% yfirfærslugjaldi, sem er á hið skráða gengi, m.ö.o. að námskostnaður erlendis og sjúkrakostnaður verði ekki hækkaður umfram það, sem leiðir af hækkuðum fargjöldum, sem eru stór kostnaðarliður og munu að sjálfsögðu hækka mikið.

Ég hygg, að ekki sé unnt að deila um það, að námsmenn, sem stunda framhaldsnám erlendis, verði fyrir meira áfalli vegna gengisfellingarinnar en nokkrir aðrir. Námskostnaður þeirra, sem um leið er þeirra framfærsla að langmestu leyti, hækkar hvorki meira né minna en um 15800–31700 kr. á ári, eða um 80%, samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Þannig hækkar námskostnaður, miðað við þær yfirfærslur, sem verið hafa að undanförnu, í Austurríki, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Hollandi úr 20000 í 35800 kr., eða um 15800 kr. Miðað við nám á Spáni hækkar kostnaður um 17200 kr., í Þýzkalandi og Sovétríkjunum 18900, Bretlandi og Svíþjóð 19600, Ítalíu og Belgíu 21600, Frakklandi 22100 og í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Kanada um 31700 kr., eða úr 42200 í 71900 kr. á ári. Auk þessa verða svo námsmenn bæði heima og erlendis að bera hlutfallslega til jafns við aðra þá hreinu launalækkun, sem í frv. og öllum hinum svokölluðu efnahagsaðgerðum felst, en njóta hins vegar einskis af þeim aðgerðum, sem ætlað er að draga eitthvað úr áhrifum þeirra til lækkunar á lífskjörin almennt. Afnám tekjuskattsins kemur þannig þeim að engu haldi, þar sem fæstir þeirra greiða nokkurn teljandi skatt nú, og fjölskyldubætur ekki heldur nema í sárafáum tilfellum.

Auk hinnar almennu og að því er þá snertir algerlega óbættu kjaraskerðingar, verða námsmenn erlendis svo að bera fyrirsjáanlega og mikla hækkun fargjalda, eins og ég áður gat um, sem numið getur þúsundum króna árlega.

Það er einróma álit allra, er til þekkja, að þessi gífurlega hækkun námskostnaðar erlendis hljóti að leiða til þess, að fjöldi námsmanna, sem eiga ekki efnaða foreldra, verði nauðugir að hætta námi, ef ekki koma til sérstakar ráðstafanir, og einnig til þess að brjóta niður í framtíðinni alla möguleika efnaminni námsmanna til þess að ráðast í framhaldsnám. Látið er í veðri vaka að vísu, að sú harkalega útreið, sem námsmenn verða fyrir, verði milduð með hækkun námsstyrkja. En augljóst þykir mér, að slíkt komi að mjög takmörkuðu haldi. Styrkirnir eru ekki og verða ekki nema brot af námskostnaðinum, og í fæstum eða engum tilfellum standa þeir allan námstímann. Auk þess mun, a.m.k. ef dæma skal eftir fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir, ekki vera um að ræða, að fyrirhugað sé að hækka þetta nema á móti gengisfellingunni í þrjá mánuði af hverju skólaári. En jafnvel þó að lengra verði gengið, er um algerlega ófullnægjandi ráðstafanir að ræða. Að sjálfsögðu er það harmleikur fyrir þá, sem í hlut eiga, að vera neyddir til að hverfa frá námi, sem menn hafa gert sér vonir um að geri þá hæfa til að gegna störfum í þjóðfélaginu, sem hæfileikum þeirra samrýmist bezt. Það er kannske hægt að sleppa slíkri tilfinningasemi með öllu. En enginn getur fram hjá hinu komizt, að með því að fækka þeim, sem fullkominnar sérmenntunar njóta, og takmarka við peningaráð manna möguleika til þess að verða hæfir til að gegna þeim hlutverkum í þjóðfélaginu, sem þeir eru bezt fallnir til, er verið að skaða þjóðfélagið í heild sinni, ekki aðeins verið að fremja félagslegt ranglæti og ekki aðeins verið að draga þjóðina niður menningarlega og félagslega, heldur einnig verið að gera þjóðina í heild fátækari í bókstaflegustu merkingu þess orðs.

Sú tíð er liðin, að nokkur viti borinn maður taki sér í munn hið gamla orðtak frá mestu niðurlægingartímum þjóðarinnar, að bókvitíð verði ekki látíð í askana. Allar þjóðir heims gera sér nú ljóst, hvert sem þjóðskipulag þeirra er, að sérmenntun fleiri og fleiri einstaklinga á sviðum hvers konar vísinda og tækni er grundvallarskilyrði til efnahagslegra framfara, lykillinn að auðæfum sjávar og jarðar. Það væri því grátleg og fáránleg heimska, ef Alþingi Íslendinga lögfesti nú, að stigið yrði stórt spor aftur á bak í þessum efnum, eins og nú virðist vera stofnað til. Svo almennur skilningur virðist þó vera á því, í hvert óefni hér er stefnt, að ólíklegt verður að telja, að hv. alþm.. samþ. ekki þá sjálfsögðu till., sem ég mæli hér fyrir.

Háskólastúdentar heima og erlendis hafa einum rómi mótmælt þeirri skerðingu á kjörum og námsmöguleikum, sem leiðir af samþykkt þessa frv. óbreytts, og sjálft menntamálaráð, skipað fulltrúum allra þingflokkanna og þar á meðal hv. aðaltalsmanni stjórnarflokkanna í þessum málum í Nd., hefur einróma samþ. að beita sér fyrir því við hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn., að hlutur námsmanna verði réttur. Þessi till. okkar fulltrúa Alþýðubandalagsins hér í hv. d. mundi að verulegu leyti leysa vanda þeirra, sem stunda nám erlendis, en siðan þyrfti Alþingi að henni samþykktri að leysa með öðrum hætti og í sambandi við afgreiðslu fjárlaga mál þeirra, sem nám stunda heima og geta stundað nám hér heima.

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að hún mundi létta byrðar þeirra, sem minnst mættu sín, í sambandi við þær efnahagsaðgerðir, sem hér er rætt um. Hvernig þetta verður í reyndinni, ræði ég ekki frekar en orðið er. En ég vil spyrja: Hverjir mega sín öllu minna en þeir, sem eru svo sjúkir, að þeir geta ekki fengið bót meina sinna með þeim tækjum læknavísindanna, sem til eru í landinu, og með hjálp okkar vísindamanna og þurfa af þeim sökum að fara utan til að bjarga lífi sínu og heilsu? Því getur hver svarað fyrir sig. En hitt er staðreynd, að ekkert — bókstaflega ekkert — er í þessu frv., sem ætlað er að létta hlutskipti þessa fólks, en kostnaður þess í þeim neyðartilfellum, sem hér er rætt um, er hækkaður um 80%. Hér er svo sannarlega lagzt á garðinn, þar sem hann er lægstur, að engin þörf er að eyða mörgum orðum að, og liggur að mínu viti sæmd hv. þm.., hvers fyrir sig og allra sameiginlega, við, að forðað verði því níðingsverki, sem hér virðist eiga að vinna á þeim, sem þyngst sjúkdómsböl eiga við að stríða.