19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

48. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hér hafa nú farið fram ýtarlegar umræður um þetta mál, eins og allir í raun og veru hafa gert ráð fyrir og alveg er eðlilegt. Ég hef heyrt talsvert af þeim umræðum, því miður ekki getað verið við þær allar af öðrum önnum mínum, en ég held, að ég meiði engan, þó að ég leyfi mér að segja, að í aðalefnum hafa þau rök, sem hér hafa verið borin fram á móti frv., áður verið borin fram af stjórnarandstæðingunum í hv. Nd. og þar verið svarað bæði af mér og öðrum. Ég tel þess vegna ekki eðlilegt, að ég fari nú að endurtaka þau rök, sem þar hafa verið færð fram, og það situr líka sízt á mér að fara nú, þegar umræður eru að fjara út, að rísa upp til þess að reyna að vekja þær upp að nýju og þar með að tefja störf þingsins.

Ég vil aðeins víkja að þeim fáu orðum, sem 5. þm.. Norðurl. e. mælti hér áðan. Mér fannst hann taka nokkuð djúpt í árinni um ýmislegt, sem hann sagði, en það er náttúrlega ekki meira en aðrir hafa gert um þetta mál, og ég læt það liggja á milli hluta.

Varðandi þau rök, sem hann færði fyrir þörfum sjúkra manna til þess að komast á fund erlendra sérfræðinga, þá geri ég minna úr því en hann, en það kann þó líka að eiga nokkurn rétt á sér, að sumir þurfi þess. Okkar íslenzka læknastétt hefur nú öðlazt mikla þekkingu og leysir daglega af hendi ákaflega vandasöm verk, sem ég hygg að ekki hefði verið talið á færi Íslendinga fyrir einum eða tveimur áratugum, svo að ekki sé meira sagt, og ég tel það ekki svo almenns eðlis, sem hann þar mælti, að það sé ástæða til þess vegna að gera alveg sérstakar ráðstafanir.

Hitt er svo mál fyrir sig, sem hann mælti um þá ungu menn, sem eru að afla sér menntunar erlendis, að þeirra hlutur er auðvitað mjög skertur við þessa viðurkenningu á verðmæti ísl. krónu og full ástæða til að athuga, hvað er hægt að gera til að ráða fram úr eða létta undir með þeim í þeim örðugleikum, sem nú eru fram undan á þeirra vegi. Það mál hefur stjórnin haft til athugunar og er enn í athugun. Mér barst víst síðdegis í gær skýrsla frá stúdentafélagsfundi, sem um þetta var haldinn. Það voru kröfur eða óskir, sem stúdentar kurteislega og með rökum báru fram, að mig minnir í 6 liðum frekar en 7, og varðandi þetta sérstaka atriði, sem hér er borið fram í síðari hl. till. frá hv. þm.. Alþb., þá gengu þeir ekki nærri svo langt sem þessi till. gengur. Ef ég man rétt, mæltust þeir til, að stúdentarnir, sem ytra nema, fengju bætur eða aukna aðstoð hins opinbera, sem næmi um hálfum skaða, sem þeir hljóta af gengislækkuninni. Ég held, að ég hafi lesið það rétt. Ég mundi ekki fyrir mitt leyti vilja aðhyllast þessa till, eins og hún liggur fyrir, og mæli þess vegna gegn henni. En ég lýsi því yfir, að ríkisstj. hefur málið allt til athugunar og hefur skilning á því, að ef eitthvað væri hægt að gera og þá fyrst og fremst í sambandi við fjárlögin til þess að létta þessa örðugleika, þá vill hún ljá því lið, innan ramma getu og sanngirni. Það má vel vera, að sumir þessara stúdenta, sem þarna eiga hlut að máli, — enda man ég ekki betur en einmitt till. Stúdentafélagsins miðist við þá hugsun, — ég segi, að sumir þeirra gætu eins stundað nám hér innanlands. Það mun víst segja svo í óskinni eða till., sem fram er borin af stúdentum: enda geti þeir ekki eða eigi þeir ekki kost á námi við Háskóla Íslands.

En sem sagt, málið verður athugað með skilningi af ríkisstj., þó að mér þyki ekki rétt að gefa um það aðrar eða meiri yfirlýsingar en þá, sem ég hef nú gefið, um leið og ég get ekki fallizt á till., eins og hún er orðuð, og mæli þess vegna gegn henni.