19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

48. mál, efnahagsmál

Forsrh. ( Ólafur Thors ):

Herra forseti. Ég get í aðalefnum tekið undir þær skoðanir, sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 2. þm.. Vestf. (HermJ). Það er alveg rétt, sem hann segir, að hver þjóð verður að hafa það hugfast, að hennar ungu hæfileikamenn fái aðstöðu til að njóta sinna hæfileika, ekki bara fyrir sjálfa sig, heldur líka fyrir þjóð sína. Og mér finnst það skynsamlega hugsað, þegar ákveðið var, að athugun færi fram á því, hvaða nám menn gætu með sama árangri stundað hér og annars staðar, og þá auðvitað með hliðsjón af því að reyna að greiða götu þeirra, sem stunda vilja annað nám annars staðar, en eiga erfitt með að rísa undir kostnaði, sem af því leiðir.

Ég hygg, að stúdentar, sem nú hafa gert þá till., að þeim yrðu bættir þeir auknu örðugleikar, sem nú verða á vegi þeirra, að hálfu leyti, hafi haft í huga elnmitt þá aðferð, sem stjórn hv. 2. þm.. Vestf, á sínum tíma tók upp, þegar hún ákvað, að stúdentarnir skyldu ekki þurfa að greiða nema 30% yfirfærslugjald af sínum þörfum, þegar almenna yfirfærslugjaldið var 55%. Ég treysti mér ekki, eins og ég segi, hef ekki umboð til þess að gefa hér bindandi yfirlýsingar f. h. ríkisstjórnarinnar, en mér finnst, að það væri í meira samræmi við fyrri gerðir í málinu að afgreiða það með líkum hætti efnislega og á fjárlögum. Við erum allir, að mér finnst, með opin augu fyrir meginefni málsins, og ætti þess vegna að mega vona, að við næðum einhverju skynsamlegu samkomulagi um það á sínum tíma í sambandi við fjárlagafrumvarpið.