19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm.. Norðurl. e. (MJ) virðist ekki hafa hlustað nema með öðru eyranu á ræðu mína, því að þau tilfærðu ummæli, sem hann taldi að ég hefði mjög ofmælt hér, áttu alls ekki við námsmennina, heldur um þá, sem þyrftu að fara utan til lækninga, og hafa allir, sem hlustuðu með gaumgæfni, vafalaust skilið það.

Bæði þessi hv, þm.. og hæstv. forsrh. hafa talið óeðlilegt, að þessi till. sé afgreidd eins og hún liggur hér fyrir. Ég þykist sjá af þessum ummælum og fleirum, sem hafa verið viðhöfð hér, að það séu farin að opnast augu hæstv. forsrh. og fleiri stjórnarliða fyrir því, að of langt hafi verið gengið í þeim fyrirætlunum, sem uppi eru, varðandi kjaraskerðingu námsmanna og aðstöðu sjúkra manna til þess að leita sér læknishjálpar. Þau velviljuðu orð, sem þeir hafa látið falla í tilefni af minni ræðu, eru að sjálfsögðu nokkurs virði. En ég tel þó, að það væri meira virði, að sá góði hugur, sem þeir segjast hafa í þessum efnum, sýndi sig í verki.

Annars tel ég athyglisverðast við það, sem fram hefur komið, að hæstv. forsrh. skyldi ekki nota tækifærið til þess að ítreka yfirlýsingar sínar um, að þetta fé, sem hér um ræðir, yrði notað til niðurgreiðslna. Eftir þeirri þögn hans mun áreiðanlega verða tekið, þegar nú þvert ofan í marggefnar yfirlýsingar í hverri umr. á fætur annarri hér á Alþingi um, að það yrði varið a.m.k. 302.9 millj. kr. til niðurgreiðslna, koma nú yfirlýsingar eins og frá hv. 6. þm.. Norðurl. e. um, að þetta verði athugað í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Ég verð að segja, að það er sérstök tegund af siðferði, sem upp er tekin, ef það á að viðgangast, að gefnar yfirlýsingar séu teknar aftur, vegna þess að það þurfi að athuga þær í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Ég hélt, að það væri ekkert sérstakt fjárlagamál, hvort staðið væri við gefin loforð.

Annars vil ég bæta því við í sambandi við námsmannagjaldeyrinn, að þar er um mál að ræða, sem enga bið þolir að sé einhver lausn fundin á. Ég hugsa, að það séu hundruð námsmanna, sem bíða nú eftir því að fá yfirfærslu sína í gegn í bönkunum, og mér þætti ekki ólíklegt, að mörgum yrðu þær greiðslur nú svo þungbærar, að þeir yrðu að koma heim með fyrstu ferð og jafnvei leita aðstoðar sendiráða Íslendinga í öðrum löndum til þess að geta komizt heim. Hér er vissulega ekki um mál að ræða, sem þolir, að það sé sett í margra mánaða bið hér í þinginu. Það krefst tafarlausra aðgerða.

Viðvíkjandi því, að verið sé með tillögu okkar að setja eitthvert nýtt og sérstakt gengi fyrir þennan gjaldeyriskostnað, þá er það auðvitað alrangt. Það er ekki frekar verið að setja annað gengi á þetta eða skrá annað gengi á þetta heldur en verið er að gera það með niðurgreiðslunum á 30% innflutningsbálknum yfirleitt, sem hefur verið lofað að gera. Ef þetta er breyting á genginu, er líka verið að setja á sérstakt gengi fyrir kaffi, sykur og kornvörur, sem yfirlýst er að eigi að greiða niður með 37 millj. kr.

Ég vil svo loks bæta því við í sambandi við þær dylgjur, sem hér hafa verið bornar fram um það, að misnotaður væri sjúkragjaldeyrir og gjaldeyrir til námskostnaðar, að ríkisstjórninni er auðvitað fyllilega heimilt í samræmi við síðustu greinina í þessu lagafrv. að setja um þetta nánari reglur, og ég hygg, að það muni vera sjaldgæft, að sjúkir menn geri það beinlínis að gamni sinu að fara utan til hættulegra skurðaðgerða eða annars slíks, enda bendir sú upphæð, sem í þetta hefur farið á undanförnum árum, ekki til þess, að um neina misnotkun sé að ræða. Sjúkragjaldeyririnn hefur numið á síðustu árum 2–3 millj. kr., og ef það er athugað í ljósi þeirrar staðreyndar, sem ég hygg að upplýsingar hv. 6. þm.. Norðurl. e. voru um, að þarna væri um 100 menn að ræða, þá geti ekki verið um stórfellda misnotkun þar að ræða.

Ég vil í sambandi við það, sem fram hefur komið, að stúdentar hafi ekki óskað eftir svona mikilli fyrirgreiðslu, benda á, að þessi samþykkt, sem hér hefur verið vitnað til, og hún er gerð af stúdentum við Háskóla Íslands, er ekki gerð af þeim stúdentum, sem við þessi kjör eiga að búa, og í þessari sömu ályktun er farið fram á margs konar aðrar fyrirgreiðslur, sem fyllilega mundu jafngilda því, að orðið yrði við þessu að öllu leyti fyrir þá stúdenta, sem stunda nám erlendis.

Þegar á það er litíð, hve geysilegar verðhækkanir og hve geysilega umturnun á öllu efnahagslífinu er hér um að ræða, þá tel ég, að þetta, hvort gjaldeyrir sjúkra, sem hefur numið, eins og ég sagði, 2–3 millj. kr. á ári, og námskostnaður, sem hefur numið 14–15 millj. kr. á árl. er greiddur niður, sem því svarar, sem í þessari tillögu er gert ráð fyrir, séu hreinir smámunir, sem þurfi hvorki vikna né mánaða athugun um, hvort á að gera. Ég vil svo að lokum taka það fram í sambandi við afgreiðslu till., að ég tel eðlilegt og sjálfsagt og mun óska eftir því, að hún verði borin upp í tvennu lagi, hvor málsgrein hennar fyrir sig.