19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

48. mál, efnahagsmál

Forsrh. ( Ólafur Thors ):

Herra forseti. Hv. 5. þm.. Norðurl. e. vítti mig nokkuð alvarlega. Ekki þó fyrir það að níðast á sjúkum eða stúdentum. Hann vítti mig mjög alvarlega fyrir, að mér skyldi hafa láðst að staðfesta nú það, sem hann sagði að ég hefði áður margstaðhæft, að það ætti að nota ákveðið fé til niðurgreiðslna. En ég verð að segja, að mér finnast nú dálítið skrýtin vinnubrögð að segja fyrst, að ég hafi margstaðfest þetta og aðrir fylgjendur þessa frv., en þó sé það einhver sérstakur glæpur, þegar hér hefur verið látlaust deilt á okkur og fyrir hin ólíkustu efni, að ég, sem flestu læt ósvarað til þess að lengja ekki umræðurnar, skuli ekki endurtaka enn einu sinni fyrri ummæli mín um þetta málsatriði. Undarlegast er þó, að til þess er ætlazt og það er mælzt til, að ég samþykki till. um það. En til hvers eru þá ummæli mín ætluð? Ég veit ekki, hvort hv. þm.. ber mikið traust til mín. Ég hygg, að hann geri það meira en hann lætur. En ég veit, að honum finnst það dálítið spaugilegt, að ég sé vítaverður fyrir að endurtaka ekki einu sinni enn þá þessa yfirlýsingu. Og þegar ég er búinn að endurtaka hana, þá vill hann, að ég samþykki till., að nú skuli bókstafurinn blífa. Svo lýk ég mínum umræðum.